Hæstiréttur íslands

Mál nr. 361/2011


Lykilorð

  • Þjófnaður
  • Hegningarauki
  • Dráttur á máli
  • Skilorð


                                     

Þriðjudaginn 19. júní 2012.

Nr. 361/2011.

Ákæruvaldið

(Hulda Elsa Björgvinsdóttir saksóknari)

gegn

Tómasi Davíð Lúðvíkssyni

(Kristján Stefánsson hrl.)

Þjófnaður. Hegningarauki. Dráttur á máli. Skilorð.

T var dæmdur í 60 daga fangelsi fyrir þjófnaðarbrot. Í dómi Hæstaréttar var fundið að því hversu málið hefði dregist í meðförum ákæruvaldsins og þótti rétt að binda refsinguna skilorði til tveggja ára sökum þessa.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Jón Steinar Gunnlaugsson og Benedikt Bogason settur hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 26. maí 2011 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun en héraðsdómurinn var birtur honum 5. sama mánaðar. Af hálfu ákæruvalds er krafist staðfestingar hins áfrýjaða dóms.

Ákærði krefst þess að refsing hans verði milduð og hún bundin skilorði.

Brot ákærða voru framin 23. október 2010. Hann heldur því fram að ákveða eigi honum refsingu fyrir þau sem hegningarauka við dóminn 16. júlí 2010, sem nefndur er í forsendum hins áfrýjaða dóms, og vísar í því efni til 78. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Telur hann þá að miða eigi við birtingu síðast nefnds dóms 8. nóvember 2010, en þá hafði hann framið brotin sem um er fjallað í málinu. Á þetta verður ekki fallist. Samkvæmt orðalagi 78. gr. almennra hegningarlaga ber að ákveða refsingu sem hegningarauka við fyrra brot ef yngra brotið er framið áður en dómur vegna eldra brots er kveðinn upp. Verður tímalengd refsingar ákærða sem ákveðin var í héraði staðfest.

Í greinargerð ákæruvalds til Hæstaréttar kemur fram að frumgögn málsins og endurrit þingbókar hafi verið komin til ríkissaksóknara 30. maí 2011. Mistök hafi síðan valdið töfum á málinu og liggur fyrir að Hæstarétti bárust ekki gögn þess fyrr en 9. febrúar 2012. Þessi dráttur er aðfinnsluverður og brýtur í bága við 1. mgr. 171. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 210. gr. sömu laga og 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar. Þykir þetta eiga að valda því að refsing ákærða skuli verða bundin almennu skilorði samkvæmt 57. gr. almennra hegningarlaga á þann hátt sem í dómsorði greinir.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest.

Samkvæmt yfirliti ákæruvaldsins nemur sakarkostnaður fyrir Hæstarétti 10.221 krónu. Ákærða verður gert að greiða þann kostnað auk málsvarnarlauna skipaðs verjanda síns eins og þau verða ákveðin í dómsorði að meðtöldum virðisaukaskatti.

Dómsorð:

Ákærði, Tómas Davíð Lúðvíksson, sæti fangelsi í 60 daga en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún niður falla að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 261.220 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 251.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Suðurlands þriðjudaginn 19. apríl 2011.

Mál þetta, sem þingfest var þann 7. apríl sl. og dómtekið samdægurs, er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Selfossi, dagsettri 7. mars sl., á hendur Tómasi Davíð Lúðvíkssyni, kt. [...], [...], [...]:

„fyrir þjófnað,

I.

með því að hafa, laugardaginn 23. október 2010 brotist inn í skiltagerðina [...] ehf við [...] á [...] með því að spenna upp glugga á framhlið hússins og stela þaðan dökkbláum vinnusamfestingi, IBM Think Pald fartölvu ásamt tösku og Apple tölvuskjá.

II.

með því að hafa síðar sama dag og frá greinir í fyrri ákærulið; í verslun [...] á [...] stolið tveimur Remington hársléttujárnum, hvoru um sig að verðmæti kr. 13.190,- 

Telst háttsemi ákærða  varða við  244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu  alls sakarkostnaðar.“

Ákærði mætti við þingfestingu málsins ásamt Stefáni Karli Kristjánssyni hdl., sem var skipaður verjandi ákærða að hans ósk. Ákærði játaði sök. Málið var því tekið til dóms samkvæmt ákvæðum 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála eftir að sækjanda og verjanda ákærða hafði verið gefinn kostur á að reifa sjónarmið um ákvörðun refsingar og lagasjónarmið.

Um málavexti vísast til ákæruskjals. Sannað er að ákærði framdi brot þau sem greinir í ákæru og eru þar réttilega færð til refsiákvæða. Ákærði hefur með háttsemi sinni unnið sér til refsingar.

Ákærði er fæddur í ágúst 1979. Samkvæmt sakavottorði gekkst hann árið 2006 undir sátt vegna brots á lögum um ávana- og fíkniefni. Með dómi 7. janúar 2010 var ákærði dæmdur í 30 daga fangelsi, skilorðsbundið í tvö ár, fyrir brot gegn 244. gr., sbr. 1. mgr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og umferðarlagabrot. Með dómi í mars það sama ár var ákærði dæmdur í 4 mánaða fangelsi fyrir brot á lögum um ávana- og fíkniefni. Þriðji dómurinn á árinu 2010 sem tilgreindur er á sakavottorði ákærða er frá 16. júlí og fram kemur að þá hefði skilorðsdómurinn frá 7. janúar 2010 verið dæmdur upp og ákærða dæmdur hegningarauki. Með áðurnefndum dómi frá 16. júlí 2010 var ákærði fundinn sekur um brot gegn 1. mgr. 157. og 244. gr. almennra hegningarlaga og fyrir fíkniefna- og umferðarlagabrot. 

Refsing ákærða er ákveðin fangelsi í 60 daga. Að virtum sakarferli ákærða þykja ekki vera fyrir hendi skilyrði til að skilorðsbinda refsingu hans.  

Með vísan til 1. mgr. 218. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála ber að dæma ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar, þar með talda þóknun skipaðs verjanda ákærða, Stefáns Karls Kristjánssonar hdl., 62.750  krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Ragnheiður Thorlacius kveður upp dóm þennan.

D ó m s o r ð :

Ákærði, Tómas Davíð Lúðvíksson, sæti fangelsi í 60 daga. 

Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talda þóknun skipaðs verjanda síns, Stefáns Karls Kristjánssonar hdl., 62.750  krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.