Hæstiréttur íslands

Mál nr. 826/2015

Vinnslustöðin hf. (Helgi Jóhannesson hrl.)
gegn
Stillu útgerð ehf. (Grímur Sigurðsson hrl.)
og gagnsök

Lykilorð

  • Hlutafélag
  • Samruni
  • Hlutafé

Reifun

Með samningi 10. maí 2011 seldi V hf. eigin hluti, sem jafngiltu 2,5% af heildarhlutafé í félaginu, til U ehf., EG og EJ gegn afhendingu hluta í U ehf. Í kaupsamningnum var meðal annars tiltekið að forsendur viðskiptanna væru þær að V hf. og U ehf. yrðu sameinuð eigi síðar en 31. desember 2011 og gengi sameiningin ekki eftir gætu samningsaðilar lýst sig óbundna af kaupunum. Kaupsamningurinn var samþykktur á hluthafafundi V hf. 20. maí 2011 og í framhaldi af því voru hlutabréfin afhent á báða vegu. Á hluthafafundi V hf. 21. september sama ár voru samþykktar tillögur um samruna félaganna og hækkun hlutafjár í V hf. í tengslum við samrunann, þar sem fallið var frá forgangsrétti hluthafa í V hf. til áskriftar að nýju hlutafé. SÚ ehf. og hluthafar sem honum tengdust greiddu atkvæði gegn tillögunum og höfðuðu síðan mál gegn V hf. til ógildingar framangreindra ákvarðana hluthafafundarins. Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 585/2012 var sú krafa tekin til greina á þeim grunni að greidd hefðu verið atkvæði í skjóli hlutafjárins sem selt var 10. maí 2011 í andstöðu við 3. mgr. 82. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög. Í kjölfar dóms Hæstaréttar var gerður viðauki við samninginn frá 10. maí 2011 þar sem allir fyrirvarar við samrunann voru felldir niður og viðskiptin frágengin án skilyrða. Á hluthafafundi V hf. 11. júlí 2013 var hafnað kauptilboði SÚ ehf. í þau 2,5% hlutabréfa í félaginu, sem kaupsamningurinn 10. maí 2011 og viðaukasamningurinn sneru að, og þess í stað samþykkt tillaga um að ganga frá sölu bréfanna til U ehf., EG og EJ. Með kaupsamningi 17. desember 2013 eignaðist S ehf., sem mun hafa verið stærsti einstaki hluthafinn í V hf. á þeim tíma, umrædd bréf. Á hluthafafundi V hf. 8. október 2014 voru samþykktar tillögur um samruna félagsins og U ehf. og hækkun hlutafjár í V hf. í tengslum við samrunann, auk þess sem fallið var frá forgangsrétti hluthafa í V hf. til áskriftar að nýju hlutafé. Í máli þessu krafðist SÚ ehf. þess að framangreindar ákvarðanir hluthafafundarins 8. október 2014 yrðu ógiltar. Reisti hann kröfu sína meðal annars á því að á hluthafafundinum hefði S ehf. ekki átt að njóta atkvæðisréttar á grundvelli 2,5% hlutar síns af heildarhlutafénu í V hf., sem hann eignaðist með kaupsamningnum 17. desember 2013, heldur hefði átt að fara með þau eins og um væri að ræða eigin hluti V hf., sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 585/2012. Í dómi Hæstaréttar kom fram að á hvorn veginn sem atkvæðisréttur hefði verið ákveðinn og atkvæði talin hefði náðst samþykki 2/3 hluta þeirra fyrir umræddum tillögum svo sem áskilið væri í 1. mgr. 93. gr. laga nr. 2/1995, sbr. einnig 124. gr. laganna. Gagnstætt því, sem hafði gerst á hluthafafundinum 21. september 2011, hefðu atkvæði á grundvelli umræddra hlutabréfa þannig ekki ráðið niðurstöðu atkvæðagreiðslu í þetta sinn. Var því talið að það gæti engu skipt fyrir lögmæti atkvæðagreiðslunnar að þessi atkvæði hefðu þar verið talin með og væri ekki þörf á að taka afstöðu til þess hvort þessum hlutabréfum fylgdi með réttu atkvæðisréttur. Þá var hvorki fallist á með SÚ ehf. að ákvörðun hluthafafundarins, um að farin yrði sú leið við samrunann að hluthafar í V hf. fengju eingöngu að endurgjaldi hlutabréf í U ehf., hefði brotið gegn jafnræði hluthafanna né að þeim hefði verið mismunað í skilningi 3. mgr. 34. gr., sbr. 93. gr. laga nr. 2/1995. Loks var ekki talið að það gæti eitt út af fyrir sig haft áhrif á gildi ákvarðananna að við undirbúning samrunans hefði í einu lagi verið gerð skýrsla samkvæmt 122. gr. laganna fyrir bæði félögin. Samkvæmt framansögðu var V hf. sýknað af kröfu SÚ ehf.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Benedikt Bogason, Eiríkur Tómasson, Greta Baldursdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 8. desember 2015. Hann krefst sýknu af kröfu gagnáfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 4. febrúar 2016. Hann krefst staðfestingar dómsins um annað en málskostnað, sem hann krefst í héraði og fyrir Hæstarétti.

I

Aðaláfrýjandi gerði samning 10. maí 2011 við Ufsaberg ehf., Eyjólf Guðjónsson og Elínborgu Jónsdóttur, þar sem sá fyrstnefndi seldi þeim síðarnefndu hlutabréf í aðaláfrýjanda að nafnverði 429.002 evrur, sem sagt var jafngilda 2,5% af heildarhlutafé í félaginu, en um væri að ræða eigin hluti þess. Fyrir hlutabréfin áttu kaupendurnir að greiða með afhendingu hluta í Ufsabergi-útgerð ehf. að nafnverði 15.800.000 krónur eða sem svaraði 28,88% hlutafjár í félaginu, en eftir gögnum málsins átti aðaláfrýjandi fyrir 35% hlut í því. Fyrirvarar voru gerðir í samningnum, meðal annars um að samþykkja þyrfti hann á hluthafafundi í aðaláfrýjanda sem haldinn yrði 20. maí 2011, en hvorki yrði hið selda né kaupverðið afhent fyrr en fyrirvörum yrði aflétt. Tiltekið var að kaupin væru gerð á þeirri forsendu að Ufsaberg-útgerð ehf. rynni saman við aðaláfrýjanda fyrir lok ársins 2011 og myndi stjórn hans bera upp tillögu um það á hluthafafundi. Við samrunann yrði byggt á sama hlutfalli og í samningnum milli verðmætis hluta í félögunum tveimur og myndu þá hluthafar í Ufsabergi-útgerð ehf. fá „til viðbótar“ hlutabréf í aðaláfrýjanda að nafnverði 536.668 evrur eða 3,074% af heildarhlutafénu eins og það yrði eftir samrunann. Gengju ráðagerðir um hann ekki eftir gætu kaupendur jafnt sem aðaláfrýjandi lýst sig óbundna af kaupunum og yrði gagnaðilinn að hlíta því, en skila yrði þá greiðslum og gera aðila samningsins eins setta og ef hann hefði aldrei verið gerður, þó þannig að réttur til bóta kæmi ekki til. Þá var tekið fram að arður af hlutabréfunum í aðaláfrýjanda, sem ákveðinn yrði á árinu 2011, myndi renna til kaupendanna, en yrði þó geymdur hjá aðaláfrýjanda þar til samruninn hefði farið fram. Yrði ekki af honum rynni arðurinn til aðaláfrýjanda.

Áður en kaupsamningur þessi var gerður höfðu eigendur 55,12% hlutafjár í aðaláfrýjanda gert hluthafasamning 31. mars 2011, en meðal þeirra voru Ufsaberg ehf. og Eyjólfur Guðjónsson, sem virðast hvor fyrir sitt leyti hafa þá átt óverulegan hlut í aðaláfrýjanda. Að auki átti Elínborg Jónsdóttir aðild að hluthafasamningnum þótt hún muni á þessum tíma ekki hafa átt hlutabréf í aðaláfrýjanda, en um hana og tvo aðra aðila samningsins, sem virðist eins hafa verið ástatt um, var tekið fram að hann yrði bindandi gagnvart þeim ef þau gerðust á síðari stigum hluthafar í félaginu. Í samningnum var meðal annars kveðið á um skyldu aðila hans til að beita atkvæðisrétti í aðaláfrýjanda með samræmdum hætti eftir niðurstöðu meiri hluta þeirra, þar á meðal við stjórnarkjör, svo og um forkaupsrétt milli þeirra innbyrðis að hlutum í félaginu. Samningur þessi mun hafa komið í stað hluthafasamnings frá 16. apríl 2007, en hann liggur ekki fyrir í málinu.

Hluthafafundur var haldinn í aðaláfrýjanda 20. maí 2011 og borin þar upp tillaga um að samþykkja kaupsamninginn frá 10. sama mánaðar. Samkvæmt fundargerð var fundurinn sóttur af hálfu eigenda 98,49% hlutafjár í aðaláfrýjanda, en þar af virðist sem 33,29% þess hafi tilheyrt gagnáfrýjanda og hluthöfum, sem honum tengdust. Þeir greiddu atkvæði gegn tillögunni, en aðrir hluthafar, sem mættu á fundinn, voru henni samþykkir. Í framhaldi af því munu hlutabréfin, sem samningurinn frá 10. maí 2011 tók til, hafa á báða vegu verið afhent til að efna hann. Fyrrnefndir kaupendur hlutabréfanna í aðaláfrýjanda virðast að þessu gerðu hafa nýtt sér réttindi á grundvelli þeirra með því að sækja aðalfund í félaginu 30. júní 2011, en samkvæmt fundargerð frá honum mættu þar „fulltrúar fyrir 1.540.953.915 hluti eða 99,85% hlutafjár.“ Á þeim fundi var meðal annars samþykkt með atkvæðum 1.040.195.005 hluta gegn 500.758.910 ályktun um að „stjórn nýti eigin hluti í félaginu sem gagngjald fyrir hlutabréf í Ufsabergi-útgerð ehf. í tengslum við mögulega sameiningu félaganna.“

Aftur var haldinn hluthafafundur í aðaláfrýjanda 21. september 2011 og var þar mætt af hálfu eigenda 99,69% hlutafjár. Fyrir fundinn voru lagðar tillögur stjórnar félagsins um svofelldar ákvarðanir: „Hluthafafundurinn samþykki samruna Ufsabergs-útgerðar ehf. við Vinnslustöðina hf. Greiðsla skal innt af hendi með afhendingu eigin bréfa Vinnslustöðvarinnar, sem eru í dag að nafnverði EUR 237.611 og afhendingu á ný útgefnu hlutafé ... að nafnverði EUR 299.057 ... Hluthafafundurinn samþykkir að hækka hlutafé félagsins um EUR 299.057 vegna samruna Ufsabergs-útgerðar ehf. og Vinnslustöðvarinnar hf. Forgangsréttur hluthafa til áskriftar gildir ekki um hið nýja hlutafé. Stjórn félagsins skal nýta hlutaféð sem greiðslu í tengslum við samruna Ufsabergs-útgerðar ehf. og Vinnslustöðvarinnar. Heildarhlutafé Vinnslustöðvarinnar hf. eftir hlutafjáraukninguna nemur EUR 17.459.145“. Gagnáfrýjandi og hluthafar, sem honum tengdust, andmæltu þessum tillögum. Þær voru síðan bornar upp og samþykktar með 67,37% atkvæða, en meðal þeirra munu hafa verið atkvæði í skjóli hlutabréfanna, sem aðaláfrýjandi seldi með fyrrgreindum samningi 10. maí 2011. Munu þau atkvæði hafa ráðið niðurstöðu um samþykki tillagnanna, sem háð var 2/3 hlutum atkvæða, sbr. 93. gr. og 1. mgr. og 3. mgr. 34. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög.

Gagnáfrýjandi og tveir aðrir hluthafar í aðaláfrýjanda höfðuðu mál á hendur honum 6. desember 2011 og kröfðust þess að framangreindar ákvarðanir hluthafafundarins 21. september sama ár yrðu ógiltar. Sú krafa var tekin til greina með dómi Hæstaréttar 26. mars 2013 í máli nr. 585/2012.

Fjallað var um afleiðingar framangreinds dóms á hluthafafundi í aðaláfrýjanda 7. júní 2013 og kom þar meðal annars fram að þá þegar hafi verið unnið að því að skipta aðaláfrýjanda og Ufsabergi-útgerð ehf. aftur í tvö félög, en það væri „mjög flókin aðgerð“, svo sem sagði í fundargerð, enda þyrfti að endurgera ársreikning vegna ársins 2011 og samþykkja að nýju, ljúka þyrfti ársreikningum fyrir bæði félögin vegna 2012 og breyta bókhaldsfærslum á yfirstandandi ári. Þá kom fram að litið væri svo á að dómurinn breytti engu um sölu á 2,5% hlutafjár í aðaláfrýjanda með kaupsamningnum 10. maí 2011, en gera þyrfti viðauka við hann „þar sem allir fyrirvarar í tengslum við samruna Vinnslustöðvarinnar og Ufsabergs-útgerðar verði felldir út.“ Yrði Eyjólfi Guðjónssyni og Elínborgu Jónsdóttur „gerð grein fyrir aðgerðaráætluninni sem stjórn Vinnslustöðvarinnar ákveður.“

Aðaláfrýjandi gerði samning 21. júní 2013 við Ufsaberg ehf., Eyjólf Guðjónsson og Elínborgu Jónsdóttur með fyrirsögninni: „Viðauki við kaupsamning“. Í upphafi hans var lýst meginefni kaupsamningsins frá 10. maí 2011 og tiltekið að kaupendur samkvæmt honum hafi efnt skyldur sínar. Því næst voru reifuð ákvæði 3. greinar eldri samningsins, þar sem fram komu áðurgreindar forsendur hans um samruna aðaláfrýjanda og Ufsabergs-útgerðar ehf. fyrir árslok 2011 og ákvæði um hlutabréf í aðaláfrýjanda, sem viðsemjendur hans áttu að fá í sinn hlut við samrunann, svo og um heimildir samningsaðilanna til að fella niður kaupin ef ráðagerð um hann næði ekki fram að ganga. Sagði síðan í viðaukasamningnum: „Aðilar eru sammála um að 3. gr. kaupsamningsins frá 10. maí 2011 skuli falla niður og teljast því viðskiptin með framangreind 2,5% eigin hlutabréf VSV frágengin án skilyrða.“ Þá var mælt fyrir um samkomulag um að fela tilteknu endurskoðunarfyrirtæki „að gera tillögu að uppgjöri á arðgreiðslum“ af hlutabréfum, sem kaupsamningurinn 10. maí 2011 tók til, en tekið svo fram að viðaukasamningurinn væri gerður með fyrirvara af hendi aðaláfrýjanda um að hluthafafundur staðfesti hann.

Á aðalfundi aðaláfrýjanda 28. júní 2013 var meðal annars samþykkt samhljóða tillaga um að stjórn hans væri á næstu átján mánuðum heimilt að kaupa allt að 1/10 hlutabréfa í félaginu, enda mætti kaupverð ekki vera hærra en 10% yfir verði í síðustu þekktum viðskiptum með þau. Hluthafafundur var síðan haldinn í aðaláfrýjanda 11. júlí sama ár. Fyrir fundinn hafði honum borist tilboð gagnáfrýjanda í þau 2,5% hlutabréfa í félaginu, sem kaupsamningurinn 10. maí 2011 og viðaukasamningurinn 21. júní 2013 sneru að, en gagnáfrýjandi bauðst til að kaupa hlutabréfin fyrir 587.000.000 krónur eða 15 krónur á hvern hlut. Á hluthafafundinum lögðust eigendur meiri hluta hlutafjár gegn því að stjórn aðaláfrýjanda „hlutaðist til um að gera nauðsynlegar ráðstafanir þannig að hægt væri að taka tilboðinu“ frá gagnáfrýjanda, en samþykktu á hinn bóginn tillögu um að staðfesta viðaukasamninginn frá 21. júní 2013. Í þeirri tillögu kom meðal annars fram að hún fæli í sér að „sala eigin hlutabréfa félagsins að nafnverði 429.002 evrur gegn greiðslu á hlutafé í Ufsabergi-útgerð ehf. ... að nafnverði kr. 15.800.000 haldi gildi sínu.“

Ufsaberg ehf. gerði samning 17. desember 2013 við Seil ehf., sem mun hafa verið stærsti einstaki hluthafinn í aðaláfrýjanda og jafnframt aðili að áðurgreindum hluthafasamningi 31. mars 2011, um kaup Seilar ehf. á hlutabréfum í aðaláfrýjanda að nafnverði 431.750 evrur, sem væru 2,52% alls hlutafjárins. Kaupverðið, 441.595.879 krónur, yrði greitt með skuldabréfi til fimm ára og tryggt með veði í hlutabréfum Seilar ehf. í aðaláfrýjanda, en við lok lánstímans yrði Ufsabergi ehf. heimilt að breyta kröfu samkvæmt skuldabréfinu í hlutafé í Seil ehf. í stað þess að fá hana greidda með peningum. Eins og málið liggur fyrir verður að leggja til grundvallar að hlutabréfin, sem þessi samningur sneri að, hafi að meginhluta verið þau sömu og kaupsamningurinn 10. maí 2011 og viðaukasamningurinn 21. júní 2013 voru gerðir um, en ekki er að sjá skýringar á því hvernig eða hvenær Ufsaberg ehf. hafi eitt orðið eigandi að þeim hlutabréfum.

Seil ehf. sendi aðaláfrýjanda bréf 17. febrúar 2014, þar sem lýst var yfir vilja þessa hluthafa, sem kvaðst eiga 39,55% hlutabréfa í aðaláfrýjanda, til að sá síðarnefndi gengi „til viðræðna við eigendur að tæplega 35% hluta Ufsabergs útgerðar ehf.“ um sameiningu félaganna. Á fundi stjórnar aðaláfrýjanda 18. sama mánaðar ákvað meiri hluti hennar að bera þessa tillögu upp á hluthafafundi. Sá fundur var haldinn 27. febrúar 2014 og sóttur af hálfu eigenda 98,54% hlutafjár í aðaláfrýjanda. Gagnáfrýjandi og hluthafar, sem honum tengdust, lýstu sig andvíga tillögunni, en hún var síðan samþykkt af „meirihluta hluthafa“. Á móti henni voru „hluthafar með 32% atkvæði að baki sér“, svo sem sagði í fundargerð. Meiri hluti stjórnar aðaláfrýjanda ákvað síðan á fundi hennar 27. mars 2014 að hefja viðræður um þetta. Í framhaldi af því var samþykkt á fundi stjórnarinnar 20. júní sama ár af meiri hluta hennar að undirrita áætlun um samruna aðaláfrýjanda og Ufsabergs-útgerðar ehf. og var það gert sama dag. Í þeirri áætlun kom meðal annars fram að hluthafar í Ufsabergi-útgerð ehf., aðrir en aðaláfrýjandi, fengju við samrunann hlutabréf í aðaláfrýjanda að nafnverði 707.665 evrur, en þar af væru hlutabréf að nafnverði 96.598 evrur í eigu hans og yrði hlutafé í honum jafnframt hækkað í þessu skyni um 611.067 evrur.

Hluthafafundur var haldinn í aðaláfrýjanda 8. október 2014 og lagði stjórn hans þar fram svohljóðandi tillögur: „Hluthafafundurinn samþykkir samruna Ufsabergs-útgerðar ehf. og Vinnslustöðvarinnar hf. þar sem Vinnslustöðin hf. verður yfirtökufélagið“ og „Hluthafafundurinn samþykkir að hækka hlutafé Vinnslustöðvarinnar hf. um 611.067 evrur. Forkaupsréttur hluthafa gildir ekki um viðbótarhlutaféð og veitir hluthafafundurinn stjórn félagsins heimild til að ráðstafa hinu nýja hlutafé ásamt eigin bréfum félagsins að nafnvirði 96.598 evrur til annarra hluthafa Ufsabergs-útgerðar ehf. (samtals 707.665 evrur) í samræmi við samrunaáætlun félaganna.“ Á fundinum voru atkvæði greidd um hvora tillögu fyrir sig, en samkvæmt talningu atkvæða þar féllu þau á sama veg um báðar tillögurnar með því að samþykkir þeim væru eigendur 67,68% hlutafjár, sem mætt væri fyrir á fundinum, og andvígir 32,32%. Fyrirtækjaskrá var tilkynnt sama dag að samruninn hafi verið staðfestur ásamt því að óskað var eftir að Ufsaberg-útgerð ehf. yrði afskráð.

Gagnáfrýjandi höfðaði mál þetta 23. desember 2014 og krafðist þess að ógiltar yrðu ákvarðanir hluthafafundarins 8. október sama ár, sem voru samhljóða framangreindum tillögum stjórnar aðaláfrýjanda. Með hinum áfrýjaða dómi var orðið við þessari dómkröfu gagnáfrýjanda, en málskostnaður milli aðilanna felldur niður.

II

Í bréfi endurskoðanda aðaláfrýjanda til lögmanns hans 10. september 2015 var meðal annars greint frá því í tilefni fyrirspurnar frá lögmanninum að aðaláfrýjandi hafi breytt „starfrækslugjaldmiðli sínum“ úr krónum í evrur 1. janúar 2008 og hafi við þá breytingu verið miðað við gengi evru 31. desember 2007, sem hafi verið 91,2. Hlutafé í aðaláfrýjanda hafi á þeim tíma verið að nafnverði 1.565.000.000 krónur og breyst þannig í 17.160.088 evrur. Hlutaskrá hafi upp frá þessu verið færð bæði í krónum og evrum og miðað í því sambandi við framangreint gengi án tillits til breytinga, sem hafi síðar orðið á því. Gagnáfrýjandi hefur ekki andmælt því að þetta efni bréfsins sé rétt. Þótt ekki hafi verið gert ráð fyrir þessari tilhögun hlutaskrár í samþykktum aðaláfrýjanda, þar sem heildarhlutafé var tilgreint í evrum, gildir einu við hvorn gjaldmiðil hafi verið stuðst við ákvörðun atkvæðisréttar á hluthafafundum í aðaláfrýjanda, enda hafi þeirri reglu verið fylgt þar að umreikna nafnverð allra hlutabréfa úr evrum í krónur eftir áðurgreindu gengi. Í málinu hafa ekki verið bornar brigður á að þessa hafi verið gætt við atkvæðagreiðslur á hluthafafundinum 8. október 2014, en atkvæði voru þar talin eftir nafnverði hlutabréfa í krónum.

Samkvæmt gögnum málsins taldist heildarhlutafé í aðaláfrýjanda fyrir þennan hluthafafund hafa verið að nafnverði 1.565.000.000 krónur, en þar af voru eigin hlutir hans að nafnverði 8.809.713 krónur, sem ekki átti að telja með við atkvæðagreiðslur, sbr. 3. mgr. 82. gr. laga nr. 2/1995. Aðilunum ber saman um að fundurinn hafi verið sóttur af hálfu eigenda hlutabréfa að nafnverði 1.549.509.599 krónur. Meðal þeirra hafi verið Seil ehf., sem hafi alls átt hlutabréf að nafnverði 636.725.169 krónur, þar af 2,5% af heildarhlutafénu, að nafnverði 39.125.000 krónur, sem kaupsamningurinn 10. maí 2011 og viðaukinn við hann 21. júní 2013 snerust um, en sem áður segir eignaðist Seil ehf. þau hlutabréf með kaupsamningi 17. desember 2013. Þá ganga aðilarnir báðir út frá því í málatilbúnaði sínum að Seil ehf. hafi greitt atkvæði á hlutahafafundinum á grundvelli allra hlutabréfa sinna í aðaláfrýjanda, að nafnverði 636.725.169 krónur, með tillögum stjórnar hans. Á fundinum hafi atkvæðin, sem hafi verið samtals 1.549.509.599, fallið þannig að 1.048.729.858 eða 67,68140% hafi verið greidd með tillögum stjórnar aðaláfrýjanda og 500.758.910 eða 32,31725% á móti, en þeir, sem hafi farið með 20.831 atkvæði eða 0,00135%, hafi setið hjá. Í málinu hefur gagnáfrýjandi einkum byggt á því að á hluthafafundinum hafi Seil ehf. ekki átt að njóta atkvæðisréttar á grundvelli 2,5% hlutar síns af heildarhlutafénu í aðaláfrýjanda, að nafnverði 39.125.000 krónur, fremur en atkvæðisréttur hafi með réttu átt að fylgja þeim hlutabréfum á hluthafafundinum 21. september 2011 samkvæmt dómi Hæstaréttar í fyrrnefndu máli nr. 585/2012, heldur hafi átt að fara með þau eins og um væri að ræða eigin hluti aðaláfrýjanda. Um þessa málsástæðu er til þess að líta að hefði þessi leið verið farin við ákvörðun atkvæðisréttar og talningu atkvæða á hluthafafundinum 8. október 2014 hefðu hlutabréfin að nafnverði 39.125.000 krónur ekki talist með við atkvæðagreiðslur og hefði heildartala atkvæða því orðið 1.510.384.599. Af þeim hefðu 1.009.604.858 atkvæði talist greidd með tillögum stjórnar aðaláfrýjanda eða 66,84422% og 500.758.910 atkvæði gegn þeim eða 33,15440%, en þeir, sem fóru með 20.831 atkvæði, hefðu talist hafa setið hjá eða 0,00138%. Á hvorn veginn sem atkvæðisréttur hefði verið ákveðinn og atkvæði talin náðist þannig samþykki 2/3 hluta þeirra fyrir tillögum stjórnar aðaláfrýjanda um breytingar á samþykktum hans og samruna við Ufsaberg-útgerð ehf., svo sem áskilið er í 1. mgr. 93. gr. laga nr. 2/1995, sbr. einnig 124. gr. laganna. Gagnstætt því, sem gerðist á hluthafafundinum 21. september 2011, réðu atkvæði á grundvelli hlutabréfanna að nafnverði 39.125.000 krónur þannig ekki niðurstöðu atkvæðagreiðslu í þetta sinn. Í því ljósi getur engu skipt fyrir lögmæti atkvæðagreiðslunnar að þessi atkvæði hafi þar verið talin með og gerist þess þá heldur ekki þörf að taka afstöðu til þess hvort atkvæðisréttur hafi með réttu átt að fylgja þessum hlutabréfum við atkvæðagreiðslur um framangreindar tillögur stjórnar aðaláfrýjanda.

Eins og áður greinir var samkvæmt ákvörðun hluthafafundarins 8. október 2014 farin sú leið við samruna Ufsabergs-útgerðar ehf. við aðaláfrýjanda að hluthafar í félaginu fengu eingöngu að endurgjaldi hlutabréf í honum, sem að hluta höfðu verið í eigu hans en urðu til að öðru leyti og mestu með hækkun hlutafjár. Í staðinn hefði aðaláfrýjandi vissulega getað annars vegar selt öðrum eigin hluti sína og hins vegar boðið nýja hlutaféð út, meðal annars að gættum áskriftarrétti þáverandi hluthafa samkvæmt 1. mgr. 34. gr. laga nr. 2/1995, aflað þannig reiðufjár og nýtt það síðan sem greiðslu til hluthafa í Ufsabergi-útgerð ehf. fyrir hluti þeirra í því félagi. Sú leið, sem hluthafafundurinn ákvað að fara, er á hinn bóginn samrýmanleg lögum og alvanaleg við samruna félaga. Af gögnum málsins verður ekkert ráðið til stuðnings því að hún hafi orðið fyrir valinu gagngert í þeim tilgangi að lækka hlutfall hlutabréfa gagnáfrýjanda af heildarhlutafé í aðaláfrýjanda og þar með vægi atkvæða gagnáfrýjanda við töku ákvarðana, svo sem hann hefur haldið fram. Þó svo að einhverjir eða hugsanlega allir hluthafarnir í Ufsabergi-útgerð ehf., sem eignuðust á þennan hátt hlutabréf í aðaláfrýjanda, hafi verið aðilar að áðurnefndum hluthafasamningi frá 31. mars 2011, getur það ekki valdið því að hluthafafundinum 8. október 2014 hafi verið óheimilt vegna 95. gr. laga nr. 2/1995 að haga ákvörðun sinni með þessum hætti. Gagnáfrýjandi hefur hvorki með matsgerð dómkvadds manns né öðrum viðhlítandi gögnum hnekkt því áliti sérfræðings 20. júní 2014 samkvæmt 122. gr. sömu laga að endurgjald aðaláfrýjanda fyrir hlutina í Ufsabergi-útgerð ehf. hafi verið sanngjarnt og efnislega rökstutt. Verður því ekki orðið við dómkröfu gagnáfrýjanda á grundvelli málsástæðna hans, sem lúta að því að ákvarðanir hluthafafundarins 8. október 2014 hafi brotið gegn jafnræði hluthafa í aðaláfrýjanda.

Samkvæmt 4. grein samþykkta aðaláfrýjanda, sbr. 1. mgr. 34. gr. laga nr. 2/1995, bar honum að gæta þeirrar reglu við hækkun hlutafjár að gefa hluthöfum kost á að skrá sig fyrir nýjum hlutum í réttu hlutfalli við hlutafjáreign sína. Eftir 3. mgr. sömu lagagreinar, sbr. 93. gr. laganna, gat þó hluthafafundur með 2/3 hlutum atkvæða ákveðið að víkja frá þeirri meginreglu og verður að líta svo á að sú undanþága hafi gilt um aðaláfrýjanda án tillits til þess að hún hafi ekki verið tekin upp í 4. grein samþykkta hans, enda sagði í 33. grein þeirra að ákvæði laga um hlutafélög skyldu gilda um atriði, sem ekki væri mælt fyrir um í samþykktunum. Svo sem áður greinir samþykktu hluthafar í aðaláfrýjanda, sem fóru með meira en 2/3 hluta atkvæða á hluthafafundinum 8. október 2014, að víkja frá meginreglu 1. mgr. 34. gr. laga nr. 2/1995 við hlutafjárhækkunina, sem þar var ákveðin, með því að nýju hlutirnir yrðu ekki boðnir þáverandi hluthöfum til áskriftar, heldur yrði hlutunum ráðstafað sem greiðslu við samruna Ufsabergs-útgerðar ehf. við aðaláfrýjanda. Heimild til þessa var samkvæmt 3. mgr. 34. gr. laganna háð því skilyrði að hluthöfum væri á engan hátt mismunað með þeirri ráðstöfun. Af gögnum málsins verður ekki að fullu ráðið hverjir hafi eignast nýju hlutabréfin í aðaláfrýjanda eða hvort þeir hafi á þeim tíma þegar verið í röðum hluthafa í honum, en ljóst er á hinn bóginn að hlutabréfin fengu þeir af þeirri ástæðu að þeir væru hluthafar í Ufsabergi-útgerð ehf. en ekki þeirri að þeir hafi áður átt hluti í aðaláfrýjanda. Hluthöfum í aðaláfrýjanda var því ekki á þennan hátt mismunað í skilningi 3. mgr. 34. gr. laga nr. 2/1995.

Við undirbúning samruna Ufsabergs-útgerðar ehf. við aðaláfrýjanda gegndi sami maður hlutverki óháðs og sérfróðs matsmanns samkvæmt 122. gr. laga nr. 2/1995 vegna beggja félaganna, svo sem heimilt var eftir síðari málslið 1. mgr. þeirrar lagagreinar, en hann var á þeim tíma endurskoðandi þeirra. Þótt gerð hafi verið í einu lagi skýrsla fyrir bæði félögin vegna samrunans getur það eitt út af fyrir sig ekki haft áhrif á gildi ákvarðana um hann. Ekki hafa komið fram viðhlítandi rök fyrir staðhæfingum gagnáfrýjanda um að endurskoðandinn hafi verið vanhæfur til að leysa verkið af hendi.

Að virtu því öllu, sem að framan greinir, verður aðaláfrýjandi sýknaður af kröfu gagnáfrýjanda. Verður gagnáfrýjanda gert að greiða málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðinn er í einu lagi eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Aðaláfrýjandi, Vinnslustöðin hf., er sýkn af kröfu gagnáfrýjanda, Stillu útgerðar ehf.

Gagnáfrýjandi greiði aðaláfrýjanda samtals 2.500.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Suðurlands 25. nóvember 2015.

            Mál þetta, sem dómtekið var 30. september sl., er höfðað með stefnu birtri 23. desember sl.

            Stefnandi er Stilla útgerð ehf., kt. 620103-2920, Bræðraborgarstíg 16, Reykjavík.

            Stefndi er Vinnslustöðin hf., kt. 700269-3299, Hafnargötu 2, Vestmannaeyjum.

            Dómkröfur stefnanda eru þær að eftirgreindar ákvarðanir hluthafafundar stefnda þann 8. október 2014 verði ógiltar með dómi:

„Hluthafafundurinn samþykkir samruna Ufsabergs-útgerðar ehf. og Vinnslustöðvarinnar hf. þar sem Vinnslustöðin hf. verður yfirtökufélagið.“

og

„Hluthafafundurinn samþykkir að hækka hlutafé Vinnslustöðvarinnar hf. um 611.067 evrur. Forkaupsréttur hluthafa gildir ekki um viðbótarhlutaféð og veitir hluthafafundurinn stjórn félagsins heimild til að ráðstafa hinu nýja hlutafé ásamt eigin bréfum félagsins að nafnvirði 96.598 evrur til annarra hluthafa Ufsabergs-útgerðar ehf. (samtals 707.665 evrur) í samræmi við samrunaáætlun félaganna.“

            Þá gerir stefnandi kröfu um málskostnað úr hendi stefnda samkvæmt reikningi.

            Dómkröfur stefnda voru þær aðallega að málinu yrði vísað frá dómi en fallið var frá þeirri kröfu undir rekstri málsins. Stefndi krefst nú sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi hans samkvæmt reikningi.

Málavextir.

            Stefnandi lýsir málsatvikum svo að hann sé hluthafi í stefnda og eigi hlutafé að nafnvirði 4.425.833 evrur. Heildarhlutafé í stefnda, fyrir þá hlutafjáraukningu sem krafist sé ógildingar á, hafi verið 17.160.088 evrur. Stefndu hafi um árabil gert tilraunir til samruna stefnda við félagið Ufsaberg-útgerð ehf. og megi rekja upphaf málsins til samnings sem gerður hafi verið 10. maí 2011 milli stjórnar stefnda og hins vegar Eyjólfs Guðjónssonar, Elínborgar Jónsdóttur og Ufsabergs ehf., hluthafa í Ufsabergi-útgerð ehf., um sölu á 2,5% af eigin hlutafé stefnda til eigenda Ufsabergs-útgerðar ehf. Hafi eigendurnir greitt fyrir með 28,88% hlut í Ufsabergi-útgerð ehf. Hafi samningurinn verið bundinn því skilyrði að stefndi og Ufsaberg-útgerð ehf. yrðu sameinuð eigi síðar en 31. desember 2011. Þá hafi verið sett skilyrði um fyrirliggjandi verðmat beggja félaga sem samruni myndi byggjast á, sem og fjölda hluta í stefnda sem eigendur Ufsabergs-útgerðar ehf. myndu fá afhentan við samrunann. Á hluthafafundi sem haldinn hafi verið í stefnda 21. september 2011 hafi legið fyrir tillögur um samruna félaganna sem samþykktar hafi verið á fundinum, m.a. með atkvæðum Ufsabergs ehf., Elínborgar Jónsdóttur og Eyjólfs Guðjónssonar á grundvelli 2,5% hlutafjárins sem þau hafi fengið framselt með kaupsamningnum frá 10. maí 2011. Í kjölfarið hafi nokkrir hluthafar í stefnda, m.a. stefnandi í þessu  máli, höfðað mál til ógildingar á þessari ákvörðun hluthafafundarins. Með dómi Hæstaréttar Íslands frá 26. mars 2013 hafi umrædd ákvörðun verið ógilt og segi svo í dóminum um kaupsamninginn frá 10. maí 2011: „Samkvæmt áðursögðu verður að líta svo á að samningur stefnda við Ufsaberg-útgerð ehf. 10. maí 2011 hafi engan annan tilgang haft en þann að virkja atkvæðisrétt eigin hluta í stefnda og sniðganga þannig það jafnræði og um leið atkvæðavægi sem 3. mgr. 82. gr. laga nr. 2/1995 sé ætlað að tryggja hluthöfum. Samkvæmt því verður lagt til grundvallar að á hluthafafundinum 21. september 2011 hafi borið að líta á þá hluti, sem kaupsamningurinn tók til, sem eigin hluti stefnda.“

            Eftir að dómur þessi hafi fallið hafi stjórnendur stefnda ekki nýtt sér rétt til að fella kaupsamninginn frá 10. maí 2011 úr gildi, en samningurinn hafi verið bundinn skilyrði um samruna Ufsabergs-útgerðar efh. og stefnda fyrir árslok 2011. Af hálfu ráðandi aðila innan hluthafahóps stefnda hafi áfram verið unnið að samruna félaganna. Stefnandi kveðst hins vegar ekki hafa vitað að fyrir undirritun kaupsamningsins frá 10. maí 2011  hafi hluthafar í stefnda, sem ráðið hafi yfir meirihluta hlutafjár í félaginu og hins vegar Ufsaberg ehf., Eyjólfur Guðjónsson og Elínborg Jónsdóttir, gert þann 31. mars sama ár leynilegt hluthafasamkomulag sem kveði m.a. á um meðferð atkvæðisréttar í stefnda. Sú síðastnefnda hafi ekki verið hluthafi í stefnda þegar hún hafi skuldbundið sig til að hlíta reglum hluthafasamkomulagsins, Eyjólfur hafi verið skráður fyrir 0,00001% hlutfjár í stefnda og Ufsaberg ehf. fyrir 0,0001% hlutafjár við undirritun samkomulagsins. Stefnandi hafi fengið afrit af þessu samkomulagi eftir uppkvaðningu Hæstaréttardómsins og veiti það aðilum þess forkaupsrétt ef aðrir aðilar þess vilja selja hlutabréf sín og sé atkvæðisréttur samræmdur með þeim hætti að áður en hluthafafundur sé haldinn í stefnda skuli aðilar samkomulagsins hittast og greiða atkvæði um þær tillögur sem liggi fyrir hluthafafundinum. Þegar vilji meirihluta þeirra sem aðild eigi að samkomulaginu liggi fyrir skuldbindi aðrir aðilar sig til að greiða atkvæði  með sama hætti á hluthafafundum stefnda. Sömu aðferð sé beitt við stjórnarkjör í stefnda. Í hluthafasamkomulaginu felist að Seil ehf., sem nú sé stærsti einstaki hluthafinn í stefnda og fari auk þess með meirihluta atkvæða innan hluthafasamkomulagsins, fari í reynd með rúmlega 2/3 hluta atkvæða á hluthafafundum í stefnda og ráði skipan meirihluta stjórnar félagsins. Framkvæmdastjóri stefnda sé einn eigenda Seilar ehf. og undirriti samkomulagið fyrir þess hönd og jafnframt undirriti hann hluthafasamkomulagið persónulega og fyrir hönd fjögurra annarra hluthafa. Við samanburð á hlutaskrá stefnda frá 11. júní 2013 og 17. febrúar 2014 megi hins vegar sjá að á tímabilinu verði sú breyting á hlutafjáreign í stefnda að Seil ehf. eignist öll hlutabréf þeirra Eyjólfs, Elínborgar og Ufsabergs ehf. í stefnda. Þar með séu talin þau 2,5% hlutafjár sem afhent hafi verið frá stefnda til framangreindra þriggja eigenda Ufsabergs ehf. með kaupsamningnum frá 10. maí 2011. Seil ehf. hafi þannig í síðasta lagi þann 17. febrúar 2014 orðið handhafi þess hlutar í stefnda sem afhentur hafi verið með kaupsamningnum frá 10. maí 2011.

            Fyrir aðalfund stefnda í júní 2013 hafi verið farið fram á lögbann við nýtingu atkvæðisréttar sem fylgt hafi eigin bréfum félagsins sem seld hefðu verið eigendum Ufsabergs-útgerðar ehf. með kaupsamningnum frá 10. maí 2011 og hafi sýslumaður fallist á það. Meirihluti stjórnar stefnda hafi brugðist við með þeim hætti að samþykkja viðauka við kaupsamninginn frá 10. maí 2011 og fella skilyrði hans úr gildi. Hafi stjórn stefnda talið sig geta bundið stefnda þannig við kaupsamninginn með óafturkræfum hætti og engar hömlur væru þar með á meðferð þeirra Eyjólfs, Elínborgar og Ufsabergs ehf. á atkvæðisrétti sem fylgt hafi hlutunum í stefnda samkvæmt kaupsamningnum frá 10. maí 2011. Hafi viðauki þessi verið samþykktur á hluthafafundi í stefnda þann 11. júlí 2013. Hvorki komi fram í fundargerð hverjir hafi mætt á fundinn né hverjir hafi greitt atkvæði með tillögunni og sé stefnanda því ómögulegt að vita hvort atkvæði 2,5% hlutarins, sem afhentur hafi verið eigendum Ufsbergs-útgerðar ehf. þann 10. maí 2011, hafi verið nýtt til að greiða tillögunni atkvæði.

            Á hluthafafundi í stefnda þann 27. febrúar 2014 hafi verið samþykkt tillaga Seilar ehf. um viðræður um sameiningu stefnda og Ufsabergs-útgerðar ehf., en Seil ehf. hefði áður sent stjórn stefnda erindi þar að lútandi. Af fundargerð megi ráða að atkvæði áðurgreinds 2,5% hlutar hafi hafi verið nýtt til að greiða tillögunni atkvæði. Á hluthafafundi í stefnda þann 8. október 2014 hafi verið lögð fram tillaga um samruna félagsins við Ufsaberg-útgerð ehf. og um hækkun hlutafjár um 611.067 evrur sem nota skyldi til að greiða fyrir yfirtekna félagið. Þá hafi verið lagt til að forkaupsréttur hluthafa stefnda skyldi ekki gilda um hlutafjáraukninguna auk þess sem eigin bréf stefnda að nafnvirði 96.598 evrur skyldu afhent hluthöfum Ufsabergs-útgerðar ehf. Þessar tillögur hafi verið samþykktar með 67,7% atkvæða gegn 32,3% en mætt hafi verið fyrir 99,57% hlutafjár. Meðal þeirra sem mætt hafi á fundinn og samþykkt samrunann hafi verið verið fulltrúar Seilar ehf. Hafi félagið nýtt að fullu atkvæðisrétt á grundvelli hlutafjáreignar þess, þar með talinn atkvæðisrétt sem fylgt hafi 2,5% hlutnum í stefnda sem seldur hafi verið Elínborgu, Eyjólfi og Ufsabergi ehf. með kaupsamningnum frá 10. maí 2011. Á hluthafafundinum hafi verið bókuð mótmæli stefnanda og tengdra aðila, eigenda tæplega þriðjungs hlutafjár í félaginu, við ákvörðun fundarins. Hafi stefnandi m.a. vísað til þess að jafnræði hluthafa væri virt að vettugi við ákvörðunina og að í henni fælist framsal verulegra verðmæta án fullrar greiðslu til valinna aðila innan hluthafahóps stefnda. Með því væri tilteknum hluthöfum aflað ótilhlýðilegra hagsmuna á kostnað annarra hluthafa og félagsins sjálfs. Stefnandi telur framangreindar ákvarðanir hluthafafundarins teknar með ólögmætum hætti, brjóta í bága við hlutafélagalög nr. 2/1995 og samþykktir stefnda og séu þær því ógildanlegar, sbr. 4. mgr. 96. gr. sömu laga.

Málsástæður og lagarök stefnanda.

            Stefnandi telur að við töku þeirra ákvarðana á hluthafafundinum 8. október 2014 sem krafist sé ógildingar á hafi verið brotið með alvarlegum hætti gegn efnis- og formreglum hlutafélagalaga og séu ákvarðanir hluthafafundarins ógildanlegar á grundvelli 1. og 4. mgr. 96. gr. laganna.

            Stefnandi byggir á því í fyrsta lagi að nýting atkvæðisréttar 2,5% hlutar í stefnda á grundvelli kaupsamnings dags. 10. maí 2011 sé óheimil samkvæmt dómi Hæstaréttar í máli nr. 585/2012. Hafi rétturinn í því máli komist að þeirri niðurstöðu að sambærileg ákvörðun og krafist sé ógildingar á í þessu máli væri ógild. Hafi verið talið óheimilt að nýta 2,5% hlut í stefnda við atkvæðagreiðslu um samruna stefnda og Ufsabergs-útgerðar ehf. á hluthafafundinum 21. september 2011, en hluturinn hafi verið seldur hluthöfum í Ufsabergi-útgerð ehf., þeim Elínborgu og Eyjólfi og félagi þeirra, Ufsabergi ehf., með kaupsamningi frá 10. maí 2011. Hafi Hæstiréttur talið að eini tilgangurinn með kaupunum hafi verið að sniðganga reglu 3. mgr. 82. gr. laga um hlutafélög. Á hluthafafundinum þann 8. október 2014 hafi þessi sömu atkvæði verið nýtt til að taka efnislega sömu ákvörðun. Þegar af þeirri ástæðu sé ákvörðunin ógildanleg, enda hafi Hæstiréttur kveðið upp dóm um að óheimilt sé að nýta hlutaféð við atkvæðagreiðslur á hluthafafundum stefnda. Réttaráhrif dómsins séu þau að óheimilt sé að nýta hlutaféð til atkvæðagreiðslu um samruna stefnda við Ufsaberg-útgerð ehf. og vísar stefnandi til 1., 3. og 4. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991. Engu máli skipti þótt framangreindir hluthafar hafi framselt hlutafjáreign sína til Seilar ehf. frá uppkvaðningu Hæstaréttardómsins. Engu skipti hver fari með atkvæðisrétt á grundvelli hlutafjáreignarinnar þar sem óheimilt sé að nýta hann. Geti síðari framsöl hlutafjárins með engu móti upphafið þann efnisannmarka sem hafi verið á upphaflega framsalinu frá stefnda. Þá hafi bæði fyrri handhafar hlutafjárins, þau Elínborg, Eyjólfur og Ufsaberg ehf., sem og síðari handhafinn, Seil ehf., verið grandsöm um þessa efnisannmarka og geti aldrei öðlast betri rétt gagnvart stefnda og öðrum hluthöfum þess en fyrri handhafar hlutafjárins.

            Stefnandi byggir á því að viðauki við kaupsamninginn frá 10. maí 2011 hafi engin réttaráhrif. Hann hafi einungis verið gerður í þeim tilgangi að virkja atkvæðisrétt eigin hluta í stefnda og sniðganga þannig það jafnræði og um leið atkvæðavægi sem 3. mgr. 82. gr. laga nr. 2/1995 sé ætlað að tryggja hluthöfum. Sé þannig leitast við að koma því til leiðar að einfaldur meirihluti hluthafa geti tekið ákvörðun sem aukinn meirihluta þurfi til. Í dómi Hæstaréttar segi að kaupsamningurinn frá 10. maí 2011 hafi í raun verið hluti af samkomulagi aðila hans um samruna stefnda við Ufsaberg-útgerð ehf. og ekki haft neinn sjálfstæðan tilgang sem ekki hefði í öllum atriðum verið náð með eðlilegum hætti við samruna félaganna. Hafi því í kaupsamningnum í raun verið fjallað um atriði sem eigi heima í ákvörðun hluthafafundar um samruna. Kaupsamningurinn sé þó ekki háður sama skilyrði og samruni um samþykki aukins meirihluta og hafi þar með aldrei verið staðfestur af hluthöfum með nægilegum fjölda atkvæða. Hið sama megi segja um viðaukann, einfaldur meirihluti hluthafa hafi samþykkt kaupsamninginn frá 10. maí 2011 og einfaldur meirihluti hafi samþykkt viðaukann á hluthafafundinum 11. júlí 2013, en á þeim fundi virðist sem 2,5% hluturinn hafi einnig verið nýttur til að samþykkja viðaukann. Með þessum tveimur löggerningum hafi í raun verið búinn til aukinn meirihluti innan stefnda sem ekki hafi verið fyrir hendi áður en löggerningarnir hafi komið til. Það standist því ekki dóm Hæstaréttar og meginreglu  hlutafélagalaga um jafnræði hluthafa að einfaldur meirihluti hluthafa geti samþykkt löggerning sem leiði með beinum hætti til þess að ráðstöfun, sem samþykki 2/3 hluta hluthafa þurfi til, verði samþykkt. Áhrif dómsins hljóti því að vera þau að áðurnefndum 2,5% atkvæðisréttar í stefnda verði ekki beitt til að samþykkja þá ákvörðun sem krafist er ógildingar á í máli þessu. Viðaukinn upphefji ekki ólögmæti þess að neyta atkvæðisréttar 2,5% hlutarins og sé aðstaðan nákvæmlega sú sama og á hluthafafundinum 21. september 2011. Kaupsamningurinn frá 10. maí 2011 sé enn bundinn sömu skilyrðum og áður og aðilum hans heimilt að fella hann niður ef ekki kæmi til samruna stefnda og Ufsabergs-útgerðar ehf. Ákvörðun hluthafafundarins frá 8. október 2014 sé þar af leiðandi ógildanleg með nákvæmlega sama hætti og sömu rökum og ákvörðunin frá 21. september 2011.

            Stefnandi byggir á því að nýting atkvæðisréttar 2,5% hlutarins í stefnda á grundvelli kaupsamningsins frá 10. maí 2011 brjóti í bága við 3. mgr. 82. gr. laga um hlutafélög með vísan til sömu sjónarmiða og legið hafi til grundvallar niðurstöðu Hæstaréttar í máli nr. 585/2012 og leiði það til þess að ákvörðunin þann 8. október 2014 sé ógild. Hafi forsendur Hæstaréttar fyrst og fremst verið þær að kaupsamningurinn frá 10. maí 2011 hafi engan annan tilgang haft en þann að virkja atkvæðisrétt eigin hluta í stefnda og sniðganga þannig það jafnræði  og um leið atkvæðavægi sem 3. mgr. 82. gr. laga nr. 2/1995 sé ætlað að tryggja hluthöfum. Stjórnendur stefnda hafi komið eigin hlutum í hendur valinna aðila sem skuldbundið hafi sig til að greiða atkvæði með sama hætti og gert hafi verið á fundinum 21. september 2011. Hafi stjórnendur stefnda náð þessu fram með því að binda atkvæðisrétt viðtakenda eigin hluta stefnda með leynilegu hluthafasamkomulagi sem undirritað hafi verið fyrir undirritun kaupsamningsins frá 10. maí 2011 og hins vegar með viðaukanum frá 21. júní 2013. Með samkomulaginu virðist hafa verið komið á fót lokuðum markaði með hlutabréf í stefnda og sé stærsta aðila samkomulagsins, Seil ehf., falið víðtækt vald til að koma á og viðhalda þessum lokaða markaði. Með þessu samkomulagi taki ráðandi aðilar innan hluthafahópsins sjálfum sér betri rétt, stöðu og möguleika á fjárhagslegum ávinningi en öðrum hluthöfum standi til boða á grundvelli almennra reglna. Í krafti valds síns hafi tilteknir hlutafar komið því til leiðar að eigin bréf félagsins hafi verið seld frá stefnda til eigenda Ufsabergs-útgerðar ehf. undir yfirskini hagstæðs samruna en til hagsbóta fyrir tiltekna hluthafa stefnda. Hafi raunverulegur tilgangur sölunnar verið að tryggja að atkvæðisréttur þeirra 2,5% eigin hluta, sem seldir hafi verið þann 10. maí 2011, nýttist við þá ákvarðanatöku sem framundan hafi verið og hafi eingöngu miðað að því að tryggja völd meirihlutans yfir minnihlutanum. Hafi því nýir handhafar 2,5% hlutarins verið búnir að skuldbinda sig fyrirfram til að greiða atkvæði með samruna stefnda og Ufsabergs-útgerðar ehf. þegar hafi komið að hluthafafundinum 8. október 2014. Í viðaukaákvæðinu felist að stjórn stefnda hafi haldið eftir arðgreiðslum af 2,5% hlutnum frá 10. maí 2011 þar til samruni Ufsabergs-útgerðar ehf. og stefnda hafi farið fram. Þá skuli arðgreiðslan taka mið af því að félögin tvö hafi verið rekin sem eitt frá því í september 2011. Sé því augljóst að brottfall skilyrðis um samruna félaganna hafi að öllu leyti verið til málamynda og gert í þeim eina tilgangi að láta líta þannig út að 2,5% hluturinn væri formlega og efnislega í eigu þeirra Ufsabergs ehf., Elínborgar og Eyjólfs og að þau hafi ráðstöfunarrétt yfir hlutafénu, ekkert sé hins vegar eins fjarri lagi. Stefnandi telur því að nákvæmlega sömu sjónarmið eigi við um ákvörðunina frá 8. október 2014 og átt hafi við um ákvörðunina frá 21. september 2011. Sé ákvörðun hluthafafundarins því ógildanleg, m.a. á grundvelli 75. gr. laga um hlutafélög, þar sem kveðið sé á um að félagsstjórn og framkvæmdastjóri megi ekki gera neinar þær ráðstafanir sem séu fallnar til þess að afla ákveðnum hluthöfum eða öðrum ótilhlýðilegra hagsmuna á kostnað annarra hluthafa félagsins. Þrátt fyrir niðurstöðu Hæstaréttar um fyrri tillögu til samruna hafi aðeins verið gerðar formbreytingar á undirbúningi ákvarðanatöku hluthafafundar stefnda sem eftir sem áður hafi það að markmiði að sniðganga þau grunnsjónarmið sem dómur réttarins sé byggður á.

            Stefnandi byggir einnig á því að hækkun hlutafjár án forgangsréttar hluthafa brjóti gegn 4. gr. samþykkta stefnda. Ákvörðun hluthafafundarins um hækkun á hlutafé stefnda um 611.067 evrur sé forsenda ákvörðunar um samruna stefnda við Ufsaberg-útgerð ehf. Ef ákvörðun um hækkun hlutafjár sé ólögmæt og ógildanleg gildi hið sama um ákvörðun fundarins um samrunann. Í 1. mgr. 34. gr. hlutafélagalaga sé kveðið á um að við hækkun hlutafjár eigi hluthafar rétt til að skrá sig fyrir nýjum  hlutum í réttu hlutfalli við hlutaeign sína. Reglunni sé ætlað að tryggja jafnræði hluthafa og komi í veg fyrir að meirihluti hluthafa geti þynnt út hlutafjáreign minnihlutans. Í 3. mgr. 34. gr. laganna sé að finna undantekningu frá meginreglu 1. mgr., en þar segi að hluthafafundur geti með því atkvæðamagni sem kveðið sé á um í 93. gr. laganna ákveðið að víkja frá þeirri reglu er greini í 1. mgr., enda sé hluthöfum á engan hátt mismunað. Í 4. gr. samþykkta stefnda komi fram að forgangsréttur hluthafa skuli undantekningalaust virtur við hlutafjárhækkun. Sé því óheimilt að víkja frá forgangsrétti hluthafa til viðbótarhlutafjárins. Í 30. gr. samþykktanna segi að þeim megi aðeins breyta á löglega boðuðum hluthafafundi enda sé fyrirhugaðra breytinga getið í fundarboði. Þá verði samþykktum því aðeins breytt að tillaga þess efnis hljóti a.m.k. samþykki 2/3 hluta greiddra atkvæða á fundinum, svo og samþykki hluthafa sem ráði yfir minnst 2/3 hlutum þess hlutafjár sem farið sé með atkvæði fyrir á hluthafafundinum. Samkvæmt 1. mgr. 80. gr., sbr. 1. mgr. 96 gr. laganna, geti ákvarðanir hluthafafundar ekki verið í andstöðu við samþykktir félags. Óheimilt hafi því verið að víkja frá forgangsrétti hluthafa til viðbótarhlutafjárins með þeim hætti sem gert hafi verið á hluthafafundinum. Sé ákvörðun um samrunann því einnig ógildanleg, enda byggi hún alfarið á ákvörðun fundarins um hlutafjárhækkunina.

            Verði ekki fallist á að ákvörðunin sé ógildanleg þar sem hún fari gegn samþykktum félagsins byggir stefnandi á því að í samþykkt  hluthafafundarins þann 8. október 2014 um hlutafjáraukningu og afhendingu eigin hluta stefnda til eigenda Ufsabergs-útgerðar ehf. felist brot á reglum um jafnræði hluthafa við hlutafjáraukningu, sbr. 3. mgr. 34. gr. hlutafélagalaganna. Hafi með ákvörðun hluthafafundarins frá 8. október 2014 verið leitast við að tryggja aðilum hluthafasamkomulagsins í raun öll þau áhrif sem fylgt hafi hlutafjáraukningunni á kostnað annarra hluthafa sem ekki hafi verið aðilar að samkomulaginu. Sé ótvírætt að með ákvörðun hluthafafundarins hafi vald meirihlutans yfir félaginu styrkst á kostnað minnihlutans. Í þessum ráðstöfunum hafi einnig falist að viðtakendur hlutafjárins hafi aflað sér verulegra fjárhagslegra verðmæta á kostnað minnihluta hluthafa og stefnda sjálfs. Með afhendingu hlutabréfa á genginu 11,42 sé um augljósa yfirfærslu verðmæta að ræða án sambærilegs endurgjalds, félaginu og öðrum hluthöfum til tjóns. Staða minnihluta hluthafa og félagsins sjálfs sé verri á eftir og hafi ákvörðun hluthafafundarins frá 8. október 2014 verið til þess fallin að afla ákveðnum hluthöfum ótilhlýðilegra hagsmuna á kostnað annarra hlutahafa og félagsins sjálfs. Fari ákvörðunin því gegn 95. gr. hlutafélagalaganna og sé jafnframt ógildanleg á grundvelli 1. og 4. mgr. 96. gr. laganna.

            Stefnandi byggir einnig á því að samrunagögn sem legið hafi ákvörðuninni 8. október 2014 til grundvallar hafi verið haldin alvarlegum form- og efnisgöllum. Skilyrðum 1. mgr. 122. gr. hlutafélagalaganna um óháðan matsmann hafi ekki verið fullnægt, enda teljist endurskoðandi beggja samrunafélaganna til fjölmargra ára ekki óháður aðili. Ein helsta vernd minnihlutans felist í sjálfstæðri skýrslu um áhrif og afleiðingar samrunans á viðkomandi hluthafa, sbr. 3. mgr. 122. gr. laganna. Geti því sameiginleg skýrsla um samrunaáætlunina fyrir bæði samrunafélögin ekki uppfyllt skilyrði laganna. Brot á þessum formreglum leiði því til ógildingar ákvörðunarinnar.

            Stefnandi reisir kröfu um málskostnað á 1. mgr. 129. gr. og 1. og 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.

Málsástæður og lagarök stefnda.

             Stefndi hafnar þeirri túlkun stefnanda að í dómi Hæstaréttar í máli nr. 585/2012 felist bann við notkun á atkvæðisrétti þeirra eigin hluta sem seldir hafi verið með kaupsamningnum frá 10. maí 2011. Í framangreindu máli hafi ekki verið gerð krafa um ógildingu samningsins heldur einungis um ómerkingu tiltekinna ákvarðana sem teknar hafi verið á hluthafafundi í stefnda 21. september 2011. Nái res judicta áhrif dómsins því einungis til ómerkingar þeirra tilteknu ákvarðana og standi því salan á 2.5% hlutnum. Hæstiréttur hafi hins vegar talið aðfinnsluvert að tengja þá sölu við samruna stefnda og Ufsabergs-útgerðar ehf. og hafi því ógilt samrunaákvörðun og ákvörðun um hækkun hlutafjár hluthafafundarins 21. september 2011. Megi telja fullvíst að rétturinn hefði aldrei komist að þeirri niðurstöðu ef umræddur 2,5% hlutur hefði ekki riðið baggamuninn í atkvæðagreiðslunni á þeim fundi. Stefnandi láti undir höfuð leggjast að fjalla um það grundvallaratriði að það hafi í raun ekki skipt máli varðandi samþykkt á tillögu um samruna stefnda og Ufsabergs-útgerðar ehf. á hluthafafundinum 8. október 2014 hvort atkvæði sem fylgt hafi 2,5% hlutnum sem seldur hafi verið með kaupsamningi 10. maí 2011 hafi verið nýtt til atkvæðagreiðslu á fundinum eða ekki. Tillagan hefði verið samþykkt með auknum meirihluta þó svo að 2,5% hluturinn hefði verið talinn til eigin atkvæða. Með vísan til þessa sé augljóst að samsömun þessara tveggja mála, sem sé rauði þráðurinn í málatilbúnaði stefnanda, gangi ekki upp. Beri þegar af þeirri ástæðu að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda.

            Stefndi bendir á eftirfarandi ákvæði í dómi Hæstaréttar: Í samningnum var á hinn bóginn ákvæði um að aðilar að honum hefðu hver fyrir sitt leyti rétt til að lýsa því yfir að hann væri fallinn niður ef ekki yrði af fyrirhuguðum samruna félaganna. Þannig var búið um hnútana að yrði þessi heimild nýtt féllu öll réttaráhrif samningsins niður og staðan yrði eins og hann hefði aldrei verið gerður. Að auki tryggði stefndi það að áfallinn arður af hlutunum yrði ekki greiddur kaupendunum með því að kveðið var svo á að þessi arður yrði geymdur hjá stefnda og kæmi ekki til greiðslu uns ljóst yrði hvort af samruna yrði. Í samningnum var um að ræða heimild aðilanna að honum til að lýsa hann niður fallinn ef ekki yrði af fyrirhuguðum samruna, en framangreind ummæli í bréfi stefnda til Samkeppniseftirlitsins 13. maí 2011 sýna að af hans hálfu var út frá því gengið að samningurinn félli niður ef ekki yrði af samrunanum. Í grein 3.1. í samningnum voru bein ákvæði er lutu að framkvæmdaratriðum við fyrirhugaðan samruna félaganna og hvert verða skyldi nafnverð heildarhlutar kaupenda í stefnda, þar með taldir hlutir sem fengnir yrðu með hlutafjáraukningu, svo og hlutfall kaupenda af heildarhlutafé félagsins eftir samrunann. Þetta sýnir að samningurinn var í raun hluti af samkomulagi aðila hans um samruna félaganna og verður ekki séð að hann hafi haft neinn sjálfstæðan tilgang, sem ekki hefði í öllum atriðum verið náð með eðlilegum hætti við samruna félaganna, annan en þann að virkja atkvæðisrétt eigin hluta stefnda.“ Stefndi telur því ljóst af þessum forsendum réttarins að ákvarðanir hluthafafundarins þann 21. september 2011 hafi verið ómerktar þar sem kaupsamningurinn um 2,5% hlutann hafi haft að geyma ákvæði sem heimilað hafi að kaupin gengju til baka ef ekki yrði af samrunanum. Það sé óumdeilt í málinu að stjórn stefnda hafi haft heimild til að selja 2,5% hlutann og það sé óumdeilt að ákvörðun um slíka sölu hafi ekki verið háð samþykki aukins meirihluta hluthafa félagsins. Það sé hins vegar ekki alls kostar nákvæmt sem fram komi í dómi Hæstaréttar að salan á 2,5% hlutanum hafi ekki í raun verið sjálfstæður gerningur. Stefndi hafi þegar verið orðinn stór hluthafi í Ufsabergi-útgerð ehf. og að mati stjórnenda stefnda hefðu kaupin á 35% hlut í félaginu verið mjög hagfelld og því hagstætt fyrir stefnda að eignast enn meira í félaginu. Aðalfundir stefnda 2009 og 2010 hefðu samþykkt að nýta eigin bréf félagsins með þessum hætti og hefði sala á 2,5% hlut í stefnda gegn sölu á 28,88% hlut í Ufsabergi-útgerð ehf. því verið rökrétt framhald af því sem áður hefði verið gert, algerlega óháð mögulegum samruna félaganna. Ávallt hafi verið ljóst að stefnt væri að samruna félaganna og hafi aldrei verið nein leynd yfir þeim áformum. Með viðskiptunum með 28,88% hlutinn í Ufsabergi-útgerð ehf. fyrir 2,5% hlut í stefnda hafi stefndi verið orðinn meirihlutaeigandi í Ufsabergi-útgerð ehf. og því ráðið félaginu í krafti atkvæðavægis.

            Stefndi telur það stríða gegn grundvallarreglum í eignarétti og félagarétti að líta svo á að eigendum hlutafjár, sem keypt hefði verið fullu verði, sé meinað að nýta sér atkvæðisrétt sem hlutafénu fylgi. Til að bregðast við dómi Hæstaréttar og taka af allan vafa um sjálfstæði og skuldbindingargildi sölunnar á 2,5% hlutnum hafi verið gerður viðauki við kaupsamninginn þann 21. júní 2013. Hafi þar verið tekin út öll ákvæði sem tengi söluna við mögulegan samruna stefnda og Ufsabergs-útgerðar ehf. Eyjólfur Guðjónsson og Elínborg Jónsdóttir hafi greitt fyrir hlutaféð fullu verði með eignarhlut í Ufsabergi-útgerð ehf. og hafi þau kaup ekki falið í sér kaup á hlutafé með takmörkuðum réttindum. Þessu til viðbótar hafi þau Eyjólfur og Elínborg selt Seil ehf. hlutaféð og í þeim viðskiptum hafi hlutaféð ekki verið selt með takmörkuðum réttindum. Stefndi telur engin rök hníga að því að 2,5% hluturinn verði ávallt að vera án atkvæða þegar borin sé undir hluthafafund tillaga um samruna við Ufsaberg-útgerð ehf. og væri slík niðurstaða fráleit.

            Stefndi byggir á því að með gerð viðaukans 21. júní 2013 hafi tengsl sölunnar á 2,5% hlutnum algerlega verið slitin úr samhengi við mögulegan samruna við Ufsaberg-útgerð ehf. síðar. Um hafi verið að ræða rökrétt framhald af fyrri kaupum stefnda á hlutum í Ufsabergi-útgerð ehf., en stefndi  hafi átt fyrir 35% hlut í félaginu. Með kaupum á 28,88% hlutum hafi stefndi orðið ráðandi hluthafi í Ufsabergi-útgerð ehf. Salan á 2,5% hlutnum hafi verið vönduð af hálfu stefnda, stjórn félagsins hefði getað tekið ákvörðunina en hluthafafundur hafi samþykkt bæði söluna og viðaukann. Ekki hafi þurft aukinn meirihluta á hluthafafundi til að samþykkja viðaukann og því hafi ekki skipt máli hvort atkvæði 2,5% hlutarins sem seldur hafi verið 10. maí 2011 hafi verið nýttur til að greiða atkvæði í þeirri atkvæðagreiðslu. Hafi 2,5% hluturinn verið seldur Seil ehf. þann 17. desember 2013 og hafi ekki verið um að ræða sölu á hlutafé með takmörkuðum réttindum. Það sé andstætt eigna- og félagarétti að ekki sé hægt að nýta atkvæðisréttinn í útgefnu hlutafé félagsins. Viðaukinn sé ekki ógildur og þá hafi ekki verið gerð krafa af hálfu stefnanda um að hann verði dæmdur ógildur.

            Stefndi byggir á því að hluthafasamningurinn frá 31. mars 2011 eigi rót að rekja til ársins 2007 og fari því fjarri að um eitthvert leyndarmál eða leynigerning hafi verið að ræða. Hafi tilvist samkomulagsins verið uppi á borðum stjórnar stefnda og það sérstaklega tilkynnt til OMX þegar hlutafé félagsins hafi verið á markaði. Hluthafasamningar séu algengir og lögmætir samningar og sé samningurinn á engan  hátt bundinn við atkvæðagreiðslu um samruna fyrirtækjanna. Engu skipti um skuldbindingargildi samningsins þó Elínborg hafi á undirritunardegi ekki verið orðin hluthafi í stefnda. Henni hafi verið frjálst að skuldbinda sig með þessum hætti kæmi til þess að hún yrði hluthafi. Stefndi telur að dómur Hæstaréttar verði ekki túlkaður svo rúmt að eigendum 2,5% hlutafjárins, sem þeir hafi keypt og greitt fullt verð fyrir, verði meinað að gera hluthafasamninga eða greiða atkvæði.

            Stefndi hafnar því að ákvörðunin á hluthafafundi þann 8. október 2014 hafi falið í sér brot á 4. gr. samþykkta stefnda. Um sé að ræða hefðbundna grein í samþykktunum og hafi ákvörðun hluthafafundarins falið í sér samruna við Ufsaberg-útgerð ehf., sem m.a. hafi falið í sér að nota nýtt hlutafé sem gjaldmiðil í þeim viðskiptum. Ekki hafi verið um neina mismunun að ræða þegar ákvörðunin hafi verið tekin og hafi allir hluthafar verið á sama báti að því er hagsmuni varðaði. Aukinn meirihluti hafi því getað tekið ákvörðun um að nýta hlutaféð með þessum hætti, óháð 4. gr. samþykktanna, sbr. 33. gr. þeirra og 3. mgr. 34. gr. laga um hlutafélög.

            Stefndi byggir á því að ákvæði í 3. mgr. 34. gr. og 95. gr. hlutafélagalaganna eigi ekki við í máli þessu. Ákveðnum hluthöfum hafi ekki verið færð nein verðmæti umfram öðrum og þá hafi þau Eyjólfur og Elínborg ekki verið hluthafar þegar ákvörðunin hafi verið tekin. Þá hafi ekki verið mætt fyrir hönd Ufsabergs ehf., sem sé fyrrum hluthafi í Ufsabergi-útgerð ehf. á fundinn og því hafi þau atkvæði ekki verið nýtt. Allir hluthafar verði að sitja við sama borð og njóta þess sama hags sem samruninn myndi hafa í för með sér fyrir stefnda og hluthafa þess félags. Stefndi telur það rangt sem stefnandi haldi fram að félagið myndi skaðast verulega á samrunanum, samruninn sé mjög hagfelldur fyrir félagið og hluthafa þess.

            Stefndi hafnar þeirri málsástæðu stefnanda að með samrunanum hafi verið brotið gegn 95. gr. hlutafélagalaganna. Ákveðnum hluthöfum hafi ekki verið færðir ótilhlýðilegir hagsmunir á kostnað annarra hluthafa félagsins. Samruninn hafi verið hagfelldur fyrir stefnda og alla hluthafa stefnda. Í minnisblaði Þorvarðs Gunnarssonar, löggilts endurskoðanda stefnda, komi fram að með samrunaákvörðuninni hafi á engan verið að hygla hluta hluthafanna á kostnað annarra.

            Stefndi byggir á því að samrunagögn séu algerlega hefðbundin og heimilt sé samkvæmt 1. mgr. 122. gr. hlutafélagalaganna að hafa sameiginlega matsmenn. Drög að samrunagögnum hafi verið lögð fram á stjórnarfundi í stefnda 20. júní 2014 og hafi forsvarsmenn stefnanda í stjórninni engar athugasemdir gert við form þeirra. Þá hafi engin athugasemd verið gerð af  hálfu hlutafélagaskrár og engin athugasemd hafi borist frá hluthöfum þó samrunagögn hafi legið frammi í mánuð fyrir hluthafafund. Stefndi telur það fyrirkomulag að skila inn einni skýrslu fyrir félög sem hyggist sameinast lengi hafa tíðkast og ekkert banni það verklag. Þá verði ekki séð hvaða þýðingu það hefði að krefjast þess að matsmaður skilaði inn tveimur eintökum af skýrslu þar sem inntakið væri nákvæmlega það sama. Stefndi kveður Þorvarð Gunnarsson vera endurskoðanda bæði stefnda og Ufsabergs-útgerðar ehf. og hafi  hann yfirgripsmikla sérþekkingu á rekstrarumhverfi útgerðarfélaga. Hann njóti óskoraðs trausts beggja félaganna, enda hafi hann verið kjörinn endurskoðandi af hluthöfum þeirra beggja á aðalfundum þeirra. Engin hagsmunatengsl séu milli endurskoðandans og hluthafa félaganna.   

Niðurstaða.

Ufsaberg-útgerð ehf., Eyjólfur Guðjónsson og Elínborg Jónsdóttir sem kaupendur og stefndi sem seljandi gerðu kaupsamning þann 10. maí 2011. Hið selda var eigið hlutafé stefnda að nafnvirði 429.002 evrur, sem jafngilti 2,5% af heildarhlutafé í félaginu. Kaupverðið skyldi greitt með afhendingu hlutafjár í Ufsabergi-útgerð ehf. að nafnverði 15.800.000 krónur, sem var 28,88% af heildarhlutafé félagsins. Samningurinn var gerður með fyrirvara um samþykki hluthafafundar í stefnda, en afhending hins selda og greiðsla kaupverðs skyldi ekki fara fram fyrr en fyrir lægi að Samkeppniseftirlitið teldi kaupin ekki tilkynningarskyld og gerði ekki athugasemdir við viðskiptin. Þegar þetta hvort tveggja lægi fyrir skyldi greiða kaupverðið með afhendingu á uppfærðri hluthafaskrá í Ufsabergi-útgerð ehf. og afhenda hin keyptu hlutabréf í stefnda inn á svonefnda VS-reikninga kaupendanna þriggja. Í samningnum var kveðið á um að öll réttindi sem fylgdu seldu hlutafé skyldu flytjast til kaupenda við afhendingu hlutanna, svo sem réttur til arðs og forgangsréttur að nýju hlutafé, og hið sama skyldi gilda varðandi það hlutafé í Ufsabergi-útgerð ehf. sem afhent væri sem greiðsla kaupverðs. Í kaupsamningnum var sérstakur kafli um forsendur kaupanna. Sagði þar í grein 3.1. að það væru forsendur kaupenda fyrir gerð samningsins að stefndi og Ufsaberg-útgerð ehf. yrðu sameinuð eins fljótt og auðið væri og eigi síðar en 31. desember 2011. Skyldi í tillögu til sameiningar miða við sama skiptihlutfall og lagt væri til grundvallar í kaupsamningnum þannig að kaupendur myndu fá til viðbótar hlutafé í stefnda, sem næmi 3,074% heildarhlutafjár í félaginu eftir samrunann. Var tekið fram að samkvæmt því myndu „kaupendur fá hlutafé í VSV að nafnverði € 965.670 eða sem nemur 5,53% af heildarhlutafé VSV eftir samruna.“ Þá var í grein 3.2. kveðið á um að gengi sameiningin ekki eftir í samræmi við grein 3.1. hefðu báðir aðilar rétt til að lýsa því yfir að kaupsamningurinn væri niður fallinn. Í því fælist að hvor aðili gæti skilað hlutafénu sem hann hefði fengið sem gagngjald og væri þá gagnaðilinn skuldbundinn til að skila því hlutafé sem hann hefði fengið á grundvelli samningsins. Niðurstaðan yrði sú sama og samningurinn hefði aldrei verið gerður og gæti hvorugur aðilinn öðlast bótakröfu á hendur hinum.

Stefnandi og fleiri aðilar höfðuðu mál þann 6. desember 2011 á hendur stefnda og gerðu þær kröfur að ómerkt yrði eftirfarandi ákvörðun hluthafafundar stefnda, dags. 21. september 2011:

Hluthafafundurinn samþykki samruna Ufsabergs-útgerðar ehf. við Vinnslustöðina hf. Greiðsla skal innt af hendi með afhendingu eigin bréfa Vinnslustöðvarinnar, sem eru í dag að nafnverði EUR 237.611 og afhendingu á ný útgefnu hlutafé, sbr. 5. lið dagskrár að nafnverði EUR 299.057.

Hluthafafundurinn samþykkir að hækka hlutafé félagsins um EUR 299.057 vegna samruna Ufsabergs-útgerðar ehf. og Vinnslustöðvarinnar hf. Forgangsréttur hluthafa til áskriftar gildir ekki um hið nýja hlutafé. Stjórn félagsins skal nýta hlutaféð sem greiðslu í tengslum við samruna Ufsabergs-útgerðar ehf. og Vinnslustöðvarinnar. Heildarhlutafé Vinnslustöðvarinnar hf. eftir hlutafjáraukninguna nemur EUR 17.459.145.

Með dómi Héraðsdóms Suðurlands uppkveðnum þann 17. ágúst 2012 var stefndi sýknaður af þessum kröfum stefnenda en með dómi Hæstaréttar Íslands uppkveðnum þann 26. mars 2013 var fallist á kröfur áfrýjenda og framangreindar ákvarðanir hluthafafundarins ógiltar. Í dómi Hæstaréttar segir eftirfarandi: „Löggjöf um hlutafélög byggir ekki aðeins á þeirri meginreglu að meiri hluti hluthafa ráði að jafnaði ákvörðunum á hluthafafundi og fari þannig með æðsta vald í málefnum félags samkvæmt 1. mgr. 80. gr. laga nr. 2/1995, heldur einnig á meginreglu um jafnræði hluthafa og sér henni víða stað í þeim lögum. Í 3. mgr. 82. gr. laganna segir að eigin hlutir félags og hlutir, sem dótturfélag á í móðurfélagi, njóti ekki atkvæðisréttar og að slíkir hlutir skuli ekki taldir með þegar áskilið er samþykki allra hluthafa, ákveðins meiri hluta alls hlutafjár eða hlutafjár sem farið er með á hluthafafundi. Í lögskýringargögnum um 4. mgr. 65. gr. laga nr. 32/1978 um hlutafélög, sem var samhljóða 3. mgr. 82. gr. núgildandi laga um sama efni, sagði að samkvæmt eldri lögum fylgdi atkvæðisréttur þeim hlutum í hlutafélagi, sem það ætti sjálft, og færi félagsstjórn yfirleitt með atkvæðisrétt fyrir slíka hluti. Sú skipan væri mjög óheppileg og gæti leitt til óeðlilega mikils valds stjórnar, enda væri víðast hvar erlendis lagt bann við atkvæðisrétti fyrir eigin hluti, jafnframt því sem slíkri hlutabréfaeign væru yfirleitt settar miklar skorður. Samkvæmt áðursögðu verður að líta svo á að samningur stefnda við Ufsaberg-útgerð ehf. 10. maí 2011 hafi engan annan tilgang haft en þann að virkja atkvæðisrétt eigin hluta í stefnda og sniðganga þannig það jafnræði og um leið atkvæðavægi sem 3. mgr. 82. gr. laga nr. 2/1995 er ætlað að tryggja hluthöfum. Samkvæmt því verður lagt til grundvallar að á hluthafafundinum 21. september 2011 hafi borið að líta á þá hluti, sem kaupsamningurinn tók til, sem eigin hluti stefnda, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 22. febrúar 2005 í máli nr. 48/2005, sem birtur er dómasafni þess árs á bls. 730. Þar sem atkvæði voru greidd í skjóli þessara hluta um ákvarðanirnar, sem áfrýjendur krefjast að ógiltar verði, verður fallist á með þeim að þær hafi verið teknar með ólögmætum hætti og sæti því ógildingu samkvæmt 4. mgr. 96. gr. laga nr. 2/1995.

                Stefnandi byggir á því í fyrsta lagi að nýting atkvæðisréttar 2,5% hlutar í stefnda á grundvelli kaupsamnings dags. 10. maí 2011 sé óheimil samkvæmt dómi Hæstaréttar í máli nr. 585/2012. Hafi rétturinn í því máli komist að þeirri niðurstöðu að sambærileg ákvörðun og krafist sé ógildingar á í þessu máli væri ógild. Hafi verið talið óheimilt að nýta 2,5% hlut í stefnda við atkvæðagreiðslu um samruna stefnda og Ufsabergs-útgerðar ehf. á hluthafafundinum 21. september 2011, en hluturinn hafi verið seldur hluthöfum í Ufsabergi-útgerð ehf., þeim Elínborgu og Eyjólfi og félagi þeirra, Ufsabergi ehf., með kaupsamningi frá 10. maí 2011. Hafi Hæstiréttur talið að eini tilgangurinn með kaupunum hafi verið að sniðganga reglu 3. mgr. 82. gr. laga um hlutafélög. Á hluthafafundinum þann 8. október 2014 hafi þessi sömu atkvæði verið nýtt til að taka efnislega sömu ákvörðun. Réttaráhrif dómsins séu þau að óheimilt sé að nýta hlutaféð til atkvæðagreiðslu um samruna stefnda við Ufsaberg-útgerð ehf. og vísar stefnandi til 1., 3. og 4. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991. Engu máli skipti þótt framangreindir hluthafar hafi framselt hlutafjáreign sína til Seilar ehf. frá uppkvaðningu Hæstaréttardómsins. Engu skipti hver fari með atkvæðisrétt á grundvelli hlutafjáreignarinnar þar sem óheimilt sé að nýta hann. Geti síðari framsöl hlutafjárins með engu móti upphafið þann efnisannmarka sem hafi verið á upphaflega framsalinu frá stefnda.

Fallast ber á það með stefnanda að aðeins hafi verið gerðar formbreytingar á undirbúningi ákvarðanatöku hluthafafundar stefnda sem eftir sem áður hafi haft það að markmiði að sniðganga þau grunnsjónarmið sem dómur Hæstaréttar sé byggður á. Eru því að mati dómsins enn við lýði þau réttaráhrif Hæstaréttardómsins að óheimilt sé að nýta hlutaféð til atkvæðagreiðslu um samruna stefnda við Ufsaberg-útgerð ehf. og þegar af þeirri ástæðu verða kröfur stefnanda teknar til greina.

             Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.

            Hjörtur O. Aðalsteinsson  dómstjóri kvað upp dóminn. Uppkvaðning hans hefur dregist fram yfir lögbundinn frest en dómari og lögmenn aðila töldu ekki þörf endurflutnings.

DÓMSORÐ:

                Eftirgreindar ákvarðanir hluthafafundar stefnda, Vinnslustöðvarinnar hf., þann 8. október 2014 eru ógiltar:

„Hluthafafundurinn samþykkir samruna Ufsabergs-útgerðar ehf. og Vinnslustöðvarinnar hf. þar sem Vinnslustöðin hf. verður yfirtökufélagið.“

og

„Hluthafafundurinn samþykkir að hækka hlutafé Vinnslustöðvarinnar hf. um 611.067 evrur. Forkaupsréttur hluthafa gildir ekki um viðbótarhlutaféð og veitir hluthafafundurinn stjórn félagsins heimild til að ráðstafa hinu nýja hlutafé ásamt eigin bréfum félagsins að nafnvirði 96.598 evrur til annarra hluthafa Ufsabergs-útgerðar ehf. (samtals 707.665 evrur) í samræmi við samrunaáætlun félaganna.“

            Málskostnaður fellur niður.