Hæstiréttur íslands
Mál nr. 266/2017
Lykilorð
- Börn
- Forsjársvipting
- Ómerking héraðsdóms
- Gjafsókn
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Greta Baldursdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 28. apríl 2017. Hún krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað, en til vara að hún verði sýknuð af kröfu stefnda. Í báðum tilvikum krefst hún málskostnaðar fyrir Hæstarétti, án tillits til gjafsóknar sem henni hefur verið veitt.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og að málskostnaður verði felldur niður.
Áfrýjandi reisir ómerkingarkröfu sína annars vegar á því að þegar barnavernd krefst þess fyrir dómi að foreldri skuli svipt forsjá fari málsmeðferð fyrir dómi eftir ákvæðum X. kafla barnaverndarlaga nr. 80/2002, sbr. 3. mgr. 29. gr. sömu laga. Í 2. mgr. 55. gr. laganna segi að þegar barni hefur verið skipaður talsmaður skuli gefa honum kost á að vera viðstaddur þinghöld í máli ef vörnum er haldið uppi og að gefa skuli barni kost á að tjá sig um mál í samræmi við aldur þess og þroska. Hafi héraðsdómi því verið skylt að gefa eldri dreng áfrýjanda, sem sé 13 ára gamall, kost á að tjá sig um málið áður en úr því var leyst.
Jafnframt er ómerkingarkrafan á því byggð að héraðsdómari hafi verið vanhæfur til meðferðar málsins. Með bókun í þingbók 16. janúar 2017 hafi áfrýjandi gert kröfu um að héraðsdómarinn viki sæti í málinu með vísan til g. liðar 5. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Væri ástæða til að draga óhlutdrægni hans í efa þar sem hann hafi áður úrskurðað að yngri drengur áfrýjanda skyldi vistast utan heimilis hennar í tvo mánuði á þeim forsendum að hann hefði, líkt og eldri bróðir hans, búið við alvarlega vanrækslu í umsjón áfrýjanda og að líkamlegri og andlegri heilsu hans væri hætta búin. Beri úrskurðurinn með sér að héraðsdómarinn fái ekki litið óhlutdrægt á málavexti, en með úrskurðinum hafi verið tekin afstaða í máli sem varðaði heimilisaðstæður og forsjárhæfni áfrýjanda, sama ágreining og uppi sé í máli þessu. Leiði afstaða héraðsdómarans til sakarefnisins á fyrri stigum því til vanhæfis hans til að fara með málið. Einnig er krafan á því reist að framganga annars hinna sérfróðu meðdómenda í yfirheyrslum við aðalmeðferð málsins hafi verið með þeim hætti að valdi vanhæfi hans.
Í fyrrgreindu máli um vistun yngri drengs áfrýjanda voru ekki gerðar sömu kröfur og í máli þessu og er því um tvö aðskilin mál að ræða. Þá var úrskurðinn reistur á þeim gögnum, sem lágu fyrir á þeim tíma er málið var til meðferðar fyrir dómi. Samkvæmt þessu eru ekki fyrir hendi atvik eða aðstæður sem til þess eru fallnar að draga óhlutdrægni héraðsdómarans í efa, sbr. g. lið 5. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður eigi talið að annar sérfróðra meðdómenda hafi, með vísan til fyrrgreinds lagaákvæðis, gert sig vanhæfan í málinu með spurningum sínum til áfrýjanda.
Samkvæmt 2. mgr. 55. gr. barnaverndarlaga, sem er í X. kafla laganna um meðferð mála fyrir dómi, er skylt að gefa barni kost á að tjá sig um mál í samræmi við aldur þess og þroska. Eldri drengur áfrýjanda var 13 ára að aldri þegar aðalmeðferð málsins fór fram. Enda þótt afstaða drengsins til málsins hafi áður komið fram í skýrslu talsmanns hans 22. júní 2016, en þar sagði að ekkert annað kæmi til greina af hans hálfu en að fara til áfrýjanda, voru ekki, með tilliti til aldurs drengsins og þroska, efni til að víkja frá fyrrgreindri lagareglu, sbr. til hliðsjónar dóma Hæstaréttar 21. nóvember 2008 í máli nr. 619/2008 og 23. apríl 2008 í máli nr. 192/2008. Þá er sá annmarki á héraðsdómi að í forsendum hans er vísað til vottorða lækna og sálfræðinga til stuðnings niðurstöðu málsins, en í engu getið skýrslu nafngreinds sálfræðings fyrir dómi, sem áfrýjandi hafði verið í meðferð hjá í rúmt ár og þar með ekki tekin afstaða til þess sem þar kom fram. Að þessu virtu verður ekki hjá því komist að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og vísa málinu heim í hérað til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju.
Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður, en um gjafsóknarkostnað áfrýjanda fer eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur er ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar og dómsálagningar á ný.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, A, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 1.000.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 10. apríl 2017.
I
Mál þetta, sem tekið var til dóms 13. mars sl., er höfðað með þingfestingu stefnu 27. september 2016.
Stefnandi er Hafnarfjarðarkaupstaður vegna barnaverndarnefndar, kt. 590169-7579, Strandgötu 6, Hafnarfirði.
Stefnda er A, kt. [...], [...], [...].
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefnda verði svipt forsjá sona sinna, þeirra B, kt. [...], og C, kt. [...], sem báðir séu vistaðir utan heimilis á vegum barnaverndarnefndar Hafnarfjarðar.
Stefnda krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi stefnanda eins og eigi væri um gjafsóknarmál að ræða.
II
Málið varðar tvo drengi stefndu, þá B, sem er þrettán ára, og C, sem er tæplega þriggja ára. Stefnda deilir forsjá B með föður hans, D, en fer með óskipta forsjá C.
Eldri drengur stefndu hefur um árabil átt við erfiðleika að stríða, en hann hefur glímt við mikla vanlíðan og hegðunarerfiðleika. Þá hefur hann átt erfitt uppdráttar í skóla vegna athyglisbrests og samskiptavanda og átt erfitt með að fylgja fyrirmælum og glímt við erfiðleika í námi. Hafa erfiðleikar hans ágerst með aldrinum.
E barnageðlæknir tilkynnti stefnanda um aðstæður drengsins í nóvember 2014 og í samráði við stefndu var óskað eftir stuðningi stefnanda til að tryggja drengnum öruggt athvarf á heimili stefndu. E hafði áður vísað málefnum drengsins til barna- og unglingageðdeildar vegna vaxandi hegðunar- og tilfinningavanda hans. Fram kom að E færi ekki eftir fyrirmælum heima fyrir og missti þvag og hægðir í buxur. Samkvæmt greiningarmati barna- og unglingageðdeildar, dags. 8. júní 2015, var B greindur með ofvirkniröskun, aðlögunarröskun, tal- og málþroskaröskun og sértæka námserfiðleika. Jafnframt fékk B greiningu um „fjandsamlegt viðmót við barnið eða barnið gert að blóraböggli“. Fram kemur í gögnum málsins að drengurinn hefur verið á lyfjunum Ritalin, Concerta, Abilify og Circadin frá árinu 2011.
Frá því að stefnandi fékk málefni stefndu til meðferðar í nóvember 2014 hafa margvísleg úrræði verið reynd til þess að styðja við stefndu í uppeldishlutverki sínu svo að hún væri betur í stakk búin til að takast á við hegðunarvanda sonar síns. Tvær áætlanir um meðferð máls voru gerðar og undirritaðar og giltu fyrir tímabilið 23. mars til 26. október 2015. Tilsjón var höfð með heimili stefndu frá því í byrjun árs 2015, en þar áður þáði hún aðstoð á vegum fjölskylduþjónustu Hafnarfjarðar vegna vanda í tengslum við óreglu á heimilishaldi og umhirðu barnanna. Auk tilsjónar sem fólst í aðstoð við heimilishald fékk stefnda aðstoð við að vekja B á morgnana og við að koma reglu á matar- og svefnvenjur beggja barnanna.
Auk tilsjónar fékk stefnda aðstoð frá stefnanda vegna samskipta á teymisfundum í skóla og á barna- og unglingageðdeild. Þá var stefndu útveguð foreldraráðgjöf og sálfræðiþjónusta. B var úthlutað vist í [...], sumardvöl í sveit, fjárstyrk til tómstundaiðkunar og sálfræðiviðtöl. Stefnda hefur frá því hún varð barnshafandi að yngra syni sínum sótt stuðning til FMB-teymis hjá Landspítala (fæðing-meðganga-barn).
Þrátt fyrir þau úrræði sem nefnd hafa verið fór vandi B vaxandi á tímabilinu. Ítrekaðar tilkynningar bárust stefnanda frá lögreglu er vörðuðu átök og handalögmál á heimilinu á milli stefndu og B. Yngri sonur stefndu, C, var viðstaddur í öll skiptin, sem einkenndust af slagsmálum mæðginanna, háreysti og miklu uppnámi með aðkomu lögreglu og barnaverndaryfirvalda.
Fram kemur í gögnum málsins að tilsjónaraðilar höfðu á tímabilinu áhyggjur af vangetu stefndu til að setja B mörk varðandi hegðun og halda reglu varðandi tölvunotkun, svefn- og matarvenjur drengjanna beggja. Að sögn tilsjónaraðila einkenndi mikil óreiða og óregla allt heimilishald, og tilsjón til langs tíma hafði ekki tilætluð áhrif í því efni. Sömuleiðis lýstu tilsjónaraðilar áhyggjum af því að stefndu skorti innsæi í aðstæður B, hún sæi ekki eigin þátt í deilum þeirra heldur kenndi B alfarið um slæm samskipti þeirra á milli. Stefnda hafi ásakað drenginn um að beita sig ofbeldi, en hafi sjálf látið hendur skipta og þannig beitt B ítrekað harðræði þannig að hann hafi hlotið áverka af.
Fram kemur í gögnum málsins að á tímabilinu frá nóvember 2014 til janúar 2016 bárust stefnanda níu tilkynningar vegna heimilis stefndu, oftast frá lögreglu eftir að stefnda eða nágrannar hennar höfðu óskað eftir aðstoð vegna hávaða og átaka á heimilinu. Þá barst ein tilkynning undir nafnleynd og ein frá bakvakt barnaverndarnefndar.
Þegar nágranni stefndu kallaði eftir aðstoð lögreglu á heimili stefndu 15. júní 2015 hafði nágranninn heyrt öskur og hávaða frá íbúð stefndu. Þegar lögregla kom á staðinn hafði nágranninn tekið B inn til sín og hlúð að honum þar sem drengurinn hafði verið lokaður úti í rennandi blautum fötum og berfættur. Hafði komið upp ágreiningur á milli stefndu og drengsins þar sem hann vildi ekki hætta í tölvunni og fara í sturtu. Hafði stefnda þá þvingað drenginn í sturtu í fötunum, sem leiddi til handalögmála þeirra á milli.
Í ágúst 2015 óskaði stefnda tvisvar eftir aðstoð lögreglu á heimilið, í annað skiptið vegna þess að drengurinn hafði brjálast þegar hún reyndi að ná af honum símanum og í síðara skiptið vegna þess að hann hlýddi henni ekki. Hafði stefnda verið ósátt við það að drengurinn vildi sofa uppi í hjá henni, en ekki í sínu rúmi. Í tilkynningu lögreglu sagði að þegar lögregla kom á heimilið hefði drengurinn verið rólegur og kurteis og að svo virtist sem hann þyrfti aðeins á því að halda að talað væri við hann og að honum væri sýnd hlýja.
Tilkynning sem barst undir nafnleynd 2. september 2015 var á þá leið að mikil háreisti, öskur og grátur hefðu heyrst frá íbúð stefndu og að stefnda hefði hent syni sínum út á svalir. Kvaðst tilkynnandi hafa miklar áhyggjur af líðan barnanna og stefndu.
Í nóvember 2015 óskaði stefnda tvívegis eftir aðstoð lögreglu á heimilið. Í fyrra skiptið hafði stefnda lent í átökum við B vegna tölvunotkunar og kvaðst hafa orðið að leggjast ofan á hann. Var drengurinn með áverka eftir átök við móður sína. Í tilkynningu lögreglu kom fram að stefnda hefði sagt fyrir framan drenginn að hann væri með geðhvarfasýki og að hann væri ofbeldismaður. Hefði lögregla ítrekað þurft að biðja stefndu um að gæta orða sinna. Í síðara skiptið hafði aftur komið til átaka á milli stefndu og B vegna tölvunotkunar og hafði drengurinn ráðist á stefndu.
Í gögnum málsins kemur fram að eftir ítrekaðar uppákomur af því tagi sem lýst er hér að framan hafi stefnda ekki treyst sér til að hafa B á heimilinu lengur. Á meðferðarfundi í desember árið 2015 hafi verið ákveðið að drengurinn yrði vistaður á fósturheimili í eitt ár. Hinn 5. janúar 2016 hafi stefnda undirritað samþykki fyrir vistun drengsins utan heimilis í 12 mánuði frá þeim degi að telja. Samhliða var gerð áætlun um meðferð máls hjá barnavernd. Af hálfu stefnanda hafi stefndu verið veittur stuðningur til þess að stunda endurhæfingu hjá Virk og C útvegaður aðgangur á leikskóla svo að stefnda gæti sinnt endurhæfingu. Stefndu hafi verið falið að taka á móti tilsjón á heimili, sinna fjölskylduviðtölum og að undirgangast sálfræðimat.
Í gögnum málsins kemur fram að mikil breyting varð á líðan drengsins og hegðun eftir að hann fluttist á fósturheimili. Vandi tengdur óreglu vegna svefns og matar lagaðist til muna og drengnum gekk betur að fara eftir fyrirmælum og ná tökum á tölvufíkn sem háði honum á heimili stefndu. Sömuleiðis reyndist ekki vandkvæðum bundið að fá drenginn til þess að fara í bað eða að fara að sofa á kvöldin og vakna á morgnana. Lyfjagjöf var endurskoðuð og dregið var verulega úr lyfjanotkun.
C, yngri sonur stefndu, byrjaði á leikskóla 18 mánaða gamall. Samkvæmt upplýsingum frá leikskóla hans var aðbúnaði hans ábótavant og vísbendingar komu fram um óreglu á svefn- og matartíma. Var C mikið frá vegna veikinda og sömuleiðis kom stefnda í fleiri skipti með barnið veikt á leikskólann. Leikskólakennarar höfðu áhyggjur af málþroska barnsins og að hann tengdist ekki sem skyldi öðrum börnum.
Í samræmi við áætlun um meðferð máls vann F sálfræðingur sálfræðilegt mat á forsjárhæfni stefndu. Niðurstaða matsins var afgerandi um að stefnda hefði ekki nægjanlega eða nauðsynlega hæfni til að fara með forsjá barna sinna. Í matinu kom fram að stefnda byggi yfir þeim styrkleikum að vilja sækja sér aðstoð í erfiðleikum sínum og væri til samvinnu um að fá áframhaldandi þjónustu og stuðning vegna þeirra. Helstu veikleikar stefndu sem forsjáraðila felist samkvæmt matinu í því að hún hafi verulega skert innsæi í þarfir barna sinna og eigi erfitt með að setja sig í spor þeirra út frá þroska þeirra og aldri. Viðamikill og langvarandi stuðningur hafi engan árangur borið og slæmt ástand á heimili hennar hafi ekki lagast.
Í matinu komu fram alvarlegar áhyggjur af C í umsjá stefndu. Þrátt fyrir að röskun á tengslum þeirra á milli hafi ekki þótt jafn afgerandi og alvarleg og á milli stefndu og eldri drengsins, væru tengsl stefndu og C neikvæð og líkur væru fyrir því að þau þróuðust með sama hætti og hjá eldri drengnum. Niðurstaða matsins var á þá leið að þroska og velferð sona stefndu væri ógnað með því að þeir ælust upp í umsjá hennar og mælt var með því að varnaraðili hugaði að undirbúningi fósturvistunar C.
Stefnandi tilkynnti stefndu um niðurstöður forsjármatsins og að meðferð máls myndi taka mið af því. Stefnda hafi verið ósátt við matsgerðina og gert margvíslegar athugasemdir við vinnslu hennar. Sama dag hafi stefnda haft samband símleiðis við B á fósturheimilinu og upplýst hann um niðurstöðu matsins. Símtalið hafi haft mikil áhrif á B og mikil afturför hafi orðið á líðan og hegðun hans í kjölfarið. Hafði B áður lýst því yfir að honum liði vel í fóstri og vildi vera þar áfram.
Á grundvelli áðurgreinds forsjárhæfnismats F sálfræðings kvað barnaverndarnefnd Hafnarfjarðar upp þann úrskurð 29. júlí 2016 að yngri sonur stefndu, C, skyldi tekinn af heimili móður og vistaður hjá föður á vegum barnaverndar. Hinn 27. september 2016 höfðaði stefnandi síðan mál þetta á hendur stefndu þar sem þess er krafist að hún verði svipt forsjá sona sinna.
Undir rekstri málsins óskaði stefnda eftir dómkvaðningu matsmanns til að meta forsjárhæfni stefndu. Matsgerð hins dómkvadda matsmanns, G sálfræðings, lá fyrir 12. desember 2016. Niðurstaða matsgerðarinnar var á þann veg að stefnda væri fær um að fara með forsjá sona sinna. Í matsgerðinni taldi hinn dómkvaddi matsmaður að vandamál fjölskyldunnar mætti að mestu leyti rekja til hegðunarvandamála og raskana eldri drengsins og þess að stefnda hafi verið að þrotum komin vegna þeirra þegar hún leitaði sér aðstoðar.
Stefnda kveðst hafa tekið leiðbeiningum frá tilsjónaraðilum, styrkt sig líkamlega og andlega með hjálp sálfræðings og VIRK endurhæfingu ásamt því að styrkja stöðu sína á vinnumarkaði með bættri menntun.
Stefnda kom fyrir dóminn og gaf aðilaskýrslu. Þá komu fyrir dóminn sem vitni G, sálfræðingur og dómkvaddur matsmaður, F sálfræðingur, H sálfræðingur, I, fósturforeldri B, og barnsfeður stefndu, þeir D og J.
III
Stefnandi kveður það vera mat barnaverndarnefndar Hafnarfjarðar að synir stefndu hafi til langs tíma búið við alvarlega vanrækslu í umsjá sóknaraðila og að líkamlegri og andlegri heilsu þeirra sé hætta búin við óbreyttar aðstæður. Niðurstaða forsjárhæfnismats F sálfræðings sé í samræmi við mat nefndarinnar og annarra fagaðila sem til þekki, þ.e. að stefndu skorti algerlega innsæi í þarfir barnanna og að persónulegir eiginleikar hennar séu þess eðlis að þeir komi í veg fyrir að hún geti tekið ábyrgð á velferð þeirra og þroska. Þannig sé það lýsandi dæmi um vanhæfni stefndu í þessu efni að hafa upplýst B um niðurstöðu sálfræðimats þannig að drengurinn upplifi nú að hann beri ábyrgð á þeirri stöðu sem upp sé komin.
Að mati stefnanda lýsi gögn málsins mikilli vanlíðan og erfiðleikum B á heimili stefndu og endurspegli hegðunarerfiðleikar hans þá vanlíðan, sem megi rekja til félagslegs umhverfis, heimilisaðstæðna og samskipta hans við stefndu. Til stuðnings því nægi að horfa á velgengni hans á fósturheimilinu og í skólanum sem hann hafi sótt þar, en þar beri aðilum saman um að hann hafi náð framförum á öllum sviðum.
Stefnandi taki undir niðurstöðu F sálfræðings um að málefni C muni þróast með sama hætti og málefni B hafi gert og því sé mikilvægt að gripið verði í taumana áður en það gerist með hagsmuni hans í huga. Ástæða sé til þess að hafa áhyggjur af innsæisleysi stefndu, tengslaröskun og skapsveiflum. Að mati stefnanda sýni gögn málsins að óæskileg samskipti stefndu við syni hennar séu ekki til hagsbóta fyrir þá og því sé staða þeirra, sérstaklega B, með þeim hætti sem hún er í dag.
Stefnandi kveðst byggja kröfu sína um forsjársviptingu á því að ákvæði a- og d-liðar 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 séu uppfyllt í máli þessu. Það sé mat stefnanda með hliðsjón af gögnum málsins og forsögu, að fullvíst sé að líkamlegri og andlegri heilsu drengjanna sé hætta búin fari stefnda með forsjá þeirra.
Þá telji stefnandi að gögn málsins sýni, svo ekki verði um villst, að daglegri umönnum, uppeldi og samskiptum stefndu og drengjanna sé alvarlega ábótavant með hliðsjón af aldri þeirra og þroska. Stefnda sé óhæf til að fara með forsjá drengjanna og veita þeim það öryggi, skjól og umhyggju sem ætlast er til að foreldri veiti börnum sínum og ætla verði að þeim sé nauðsynlegt til að ná að þroskast og dafna með eðlilegum hætti. Ítrekað hafi verið reynt að aðstoða stefndu á víðtækan hátt og afskipti stefnanda hafi staðið yfir samfellt í tæp tvö ár.
Þá telji stefnandi að stuðningsaðgerðir séu fullreyndar í því skyni að bæta forsjárhæfni stefndu og brýna nauðsyn beri til að skapa drengjunum til frambúðar það öryggi og þá umönnun sem þeir eigi rétt á að búa við lögum samkvæmt. Geti þau stuðningsúrræði sem stefnandi hefur yfir að ráða ekki megnað að skapa drengjunum þau uppeldisskilyrði sem þeir eigi skýlausan rétt til hjá stefndu. Að mati stefnanda hafi vægustu ráðstöfunum ávallt verið beitt til að ná þeim markmiðum sem að hafi verið stefnt og sé krafa stefnanda sett fram samkvæmt fortakslausu ákvæði 1. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Meðalhófsreglu hafi verið gætt í hvívetna við meðferð málsins og ekki hafi verið gripið til viðurhlutameiri úrræða en nauðsyn hafi verið á.
Það séu frumréttindi barna að búa við stöðugleika í uppvexti og þroskavænleg skilyrði. Það sé almenn skylda foreldra, sem lögfest sé í 2. mgr. 1. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, að sýna börnum virðingu og umhyggju, auk þess sem óheimilt sé með öllu að beita börn ofbeldi eða annarri vanvirðandi háttsemi. Forsjárréttur foreldra takmarkist af þeim mannréttindum barna að njóta forsvaranlegra uppeldisskilyrða. Þegar hagsmunir foreldris og barns vegist á séu hagsmunir barnsins, þ.e. hvað því sé fyrir bestu, þyngri á vogarskálunum. Þessi regla sé grundvallarregla í íslenskum barnarétti og komi einnig fram í þeim alþjóðlegu sáttmálum sem Ísland sé aðili að. Hinu opinbera sé og skylt að veita börnum vernd, svo sem fyrir sé mælt í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1994, barnaverndarlögum nr. 80/2002 og samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013. Þá eigi reglan sér einnig stoð í 2. mgr. 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, og í Alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, sbr. lög nr. 10/1979.
Um lagarök að öðru leyti kveðst stefnandi vísa til barnaverndarlaga nr. 80/2002, samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 18/1992 og lög um meðferð einkamála nr. 91/1991.
IV
Stefnda kveðst byggja sýknukröfu sína á því að stefnandi hafi ekki sýnt fram á að skilyrði a- og d-liðar 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 séu uppfyllt í máli þessu. Þvert á móti sýni niðurstaða matsgerðar hins dómkvadda matsmanns að stefnda sé hæf til að fara með forsjá sona sinna. Í matsgerðinni komi fram að stefnda glími ekki við nein geðræn vandamál og að hún sé reglusöm og eðlilega greind. Þá komi einnig fram í matsgerðinni að stefnda sýni drengjunum ástríki í orðum og athöfnum og tengist þeim nánum böndum. Einnig segir að drengirnir upplifi mikla væntumþykju frá stefndu, hún sé þeim góð, sýni þeim áhuga og skilning og þeir geti alltaf treyst henni. Hinn dómkvaddi matsmaður árétti í mati sínu að innsæi sé einn af hornsteinum góðrar forsjárhæfni og álíti matsmaður stefndu búa yfir nægilegu innsæi til að geta mætt þörfum B og C, auk þess sem hún sé aðaltilfinningagjafi þeirra. Þá segi ennfremur í matsgerðinni að stefnda glími ekki við geðræn vandkvæði, hún sé tilfinningalega stöðug og takist á við daglegt líf án óþarfa áhyggna. Matsmaður bendi einnig á að stefnda sé jákvæð og bjartsýn, með skýr markmið og viðhorf, en þessir persónueiginleikar auki þrautseigju hennar og aðlögunarhæfni. Auk þess bendi matsmaður á að ekkert í þeim prófum, sem lögð hafi verið fyrir stefndu, bendi til þess að hana skorti innsæi eða að hún sé sjálfhverf.
Stefnda kveðst því telja ljóst að daglegri umönnun, uppeldi eða samskiptum stefnanda og sona hennar sé ekki stórlega ábótavant, sbr. áðurgreindan a-lið 29. gr. Þaðan af síður kveðst stefnda geta fallist á að líkamlegri eða andlegri heilsu sona hennar, sbr. b-lið sömu greinar, sé hætta búin sökum vanhæfni stefndu, enda sé staðfest í matsgerð hins dómkvadda matsmanns að hún sé hæf til að fara með forsjá sona sinna.
Með vísan til alls framangreinds kveðst stefnda telja að skilyrði a- og d-liðar 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 séu ekki uppfyllt og því krefjist hún sýknu af kröfum stefnanda.
Stefnda kveðst einnig byggja sýknukröfu sína á 2. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, en þar segi að kröfu um sviptingu forsjár skuli aðeins gera ef aðrar og vægari aðgerðir hafa verið reyndar án viðunandi árangurs. Samkvæmt þessari grein sé ekki nóg að vægari aðgerðir hafi verið reyndar, heldur sé það gert að skilyrði að þessar aðgerðir hafi ekki skilað viðunandi árangri.
Stefnda kveðst hafa nýtt sér margvísleg úrræði sem hafa skilað góðum árangri. Hún kveðst sjálf hafa haft frumkvæði að því að sækja endurhæfingarnámskeið á vegum VIRK endurhæfingarsjóðs með góðum árangri, en einn liður í þeirri endurhæfingu sé að stefnda hafi bætt við sig menntun og unnið samhliða í starfi tengdu því námi, auk þess sem hún hafi fengið sálrænan stuðning og henni hafi verið kennt að setja mörk og virða mörk annarra í samskiptum. Kveðst stefnda hafa tekið miklum framförum í kjölfar þessa úrræðis.
Stefnda kveðst hafa samþykkt að sæta óboðuðu og boðuðu eftirliti á meðan á umgengni hennar við drengina stóð í júlí og ágúst 2016. Umsagnir eftirlitsaðila barnaverndar, í kjölfar eftirlitsheimsókna þeirra, séu allar á sama veg, þ.e. að undantekningarlaust hafi heimilið verið snyrtilegt og fínt, drengirnir kátir og í jafnvægi og samskipti móður og barna ánægjuleg.
Stefnda kveðst telja að umsagnir eftirlitsaðila í óboðuðu eftirliti á vegum barnaverndar sem vísað hafi verið til, sem og umsagnir frá meðferðaraðilum VIRK og sálfræðingi, feli í sér staðfestingu á því að aðgerðir og úrræði sem stefnda hafi tekið þátt í hafi skilað viðunandi árangri í þeirri viðleitni að bæta fjölskylduaðstæður stefndu og sona hennar. Í því sambandi kveðst stefnda benda á að heimilisaðstæður, eins og þeim sé lýst í því forsjárhæfnimati sem fram hafi farið í apríl 2016 og sem stefnandi byggi málatilbúnað sinn á, séu ekki í neinu samræmi við lýsingu á heimilisaðstæðum í skýrslum eftirlitsaðila frá barnavernd við óboðað eftirlit í júlí og ágúst.
Samkvæmt því sem hér hafi verið rakið kveðst stefnda telja ljóst að krafa um forsjársviptingu geti ekki náð fram að ganga þar sem viðunandi árangur hafi náðst með þeim úrræðum sem stefnda hafi sjálf haft frumkvæði að að sækja og sinna, sbr. 2. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.
Verði ekki fallist á þessi sjónarmið kveðst stefnda telja ljóst að stefnandi hafi ekki kynnt sér nægjanlega vel hvort og þá hver árangur stefndu af þeim úrræðum sem reynd hafi verið hafi orðið. Stefnda telji því ljóst að málið hafi ekki verið nægjanlega upplýst af hálfu stefnanda líkt og 1. mgr. 41. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 og 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 kveði á um. Þar af leiðandi geti forsjársvipting ekki náð fram að ganga.
Stefnda bendir á að stefnandi byggi kröfu sína um forsjársviptingu á niðurstöðum forsjárhæfnismats sem stefnandi hafi aflað einhliða. Í því mati segi að líkamlegri og andlegri heilsu sona stefndu sé hætta búin þar sem stefndu skorti algerlega innsæi í þarfir þeirra og að persónulegir eiginleikar hennar séu þess eðlis að þeir komi í veg fyrir að hún geti tekið ábyrgð á velferð þeirra og þroska. Þessu kveðst stefnda mótmæla og benda á að þessi niðurstaða sé í algjöru ósamræmi við niðurstöðu í matsgerð hins dómkvadda matsmanns, þar sem fram komi að stefnda sé hæf til að fara með forsjá sona sinna og búi yfir nægjanlegu innsæi til að geta mætt þörfum sona sinna.
Stefnda kveðst benda á þá þversögn sem felist í niðurstöðu þess mats sem stefnandi byggi mál sitt á, þ.e. að annars vegar skorti stefndu nægjanlegt innsæi í þarfir barna sinna og eigi erfitt með að setja sig í spor þeirra út frá þroska þeirra og aldri, en hins vegar á sama tíma sé hún þeim styrkleika gædd að vilja sækja sér aðstoð vegna fjölskylduerfiðleika sinna og hafi verið til samvinnu um að fá áframhaldandi þjónustu og stuðning vegna þeirra. Kveðst stefnda einnig benda á að hún hafi haft frumkvæði að því að leita til stefnanda eftir aðstoð vegna þeirra vandamála sem hún og eldri sonur hennar hafi glímt við. Enn fremur kveðst stefnda benda á að hún hafi sýnt gott innsæi og góða eftirfylgni þegar þurft hafi að styðja við þroska yngri drengsins, C, hjá sjúkraþjálfara, en á þetta hafi hinn dómkvaddi matsmaður bent í matsgerð sinni.
Ljóst sé að forsjárhæfnismat F, sem stefnandi hafi aflað einhliða, sé í verulegu ósamræmi við niðurstöður hins dómkvadda matsmanns. Auk þess sé niðurstaða forsjárhæfnismatsins ekki í samræmi við eftirlitsskýrslur barnaverndar vegna óboðaðs eftirlits með heimilisaðstæðum hjá stefndu, skýrslur meðferðaraðila VIRK og skýrslu sálfræðings stefndu. Stefnda kveðst telja að við úrlausn þessa máls skuli leggja niðurstöðu hins dómkvadda matsmanns til grundvallar, en ekki það mat sem stefnandi hafi aflað einhliða og lagt fram í máli þessu, sbr. meginreglu réttarfars um sönnunargildi matsgerða, enda sé matsgerð hins dómkvadda matsmanns í meira samræmi við önnur gögn málsins.
Stefnda kveðst mótmæla forsjárhæfnimati F þar sem það sé haldið slíkum ágöllum að ekki verði á því byggt, samanber það sem fyrr hafi verið rakið, auk þess sem þess hafi verið aflað einhliða af stefnanda. Ekki hafi verið haft samband við þann sálfræðing sem haft hafi stefndu til meðferðar, H. Þá hafi ekki verið haft samband við nokkurn frá VIRK starfsendurhæfingu sem stefnda hafi sótt eða þá nokkurn annan sem þekkti stefndu persónulega. Forsjárhæfnimat F hafi að mestu leyti verið unnið úr viðtölum við starfsmenn stefnanda, auk þess sem matsmaður hafi framkvæmt einfalt geðgreiningarviðtal á stefndu. Þó sé alveg ljóst að niðurstaða matsmanns um vanhæfni stefndu til að fara með forsjá sona sinna byggist ekki á umræddu greiningarviðtali heldur á viðtölum við starfsmenn stefnanda, sem ekki hafi nægjanlega færni eða menntun til þess að taka faglega afstöðu til sálfræðilegra hugtaka, eins og skorts á innsæi, sjálfhverfu og tengslaleysis. Á hinn bóginn byggist matsgerð hins dómkvadda matsmanns meðal annars á fjórum ítarlegum persónuleikaprófum sem lögð hafi verið fyrir stefndu og niðurstaða þess mats hafi verið ótvíræð, þ.e. að stefnda sé hæf til þess að fara með forsjá sona sinna.
Stefnda kveðst telja að stefnanda hafi mátt vera það ljóst þegar matsgerð hins dómkvadda matsmanns lá fyrir að ekki hafi verið tilefni til þess að halda forsjársviptingarkröfu stefnanda til streitu fyrir dómi. Stefnda kveðst telja að stefnandi hafi höfðað mál þetta sýnilega að þarflausu eða án neins tilefnis af hendi stefndu. Þessi háttsemi stefnanda sé verulega ámælisverð og ekki í samræmi við meginreglur barnaverndarstarfs, sbr. 4. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 og meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sem og óskráða meginreglu stjórnsýsluréttarins um meðalhóf.
Stefnda kveðst telja sig hæfa til að fara með forsjá barna sinna og að öll gögn og upplýsingar sem stefnandi hafi lagt fram til stuðnings kröfum sínum um forsjársviptingu séu úrelt og til þess fallin að varpa rýrð á hæfni hennar og aðbúnað drengjanna. Það sé óumdeilt í málinu að stefnda sé reglusöm, neyti ekki vímuefna og hafi ekki gerst sek um vanrækslu eða ofbeldi í garð barna sinna. Þá kveðst stefnda telja að ekki hafi verið sýnt fram á með hliðsjón af matsgerð hins dómkvadda matsmanns að hún sé vanhæf til að fara með forsjá barnanna. Þvert á móti komi fram í matsgerðinni að stefnda hafi á tímabili ekki getað framfylgt forsjárskyldum sínum gagnvart eldri drengnum þar sem hún hafi verið þrotin að kröftum, en hún hafi þá haft frumkvæði að því að leita að viðeigandi úrræðum fyrir son sinn. Það sem gert hafi útslagið hafi verið gríðarlega mikill hegðunarvandi eldri drengsins á þeim tíma, sem hvorki foreldrar, skólayfirvöld né tilsjónaraðilar á heimilinu hafi ráðið við. Stefnda hafi verið nýkomin úr erfiðri sambúð, með ungt barn sem hafi oft verið veikt á umræddu tímabili. Þá hafi stefnda að mestu borið ein ábyrgð á báðum drengjunum með sáralítilli aðstoð frá feðrum þeirra. Í dag sé staðan önnur, en breytt lyfjagjöf eldri drengsins hafi skilað góðum árangri og hann sé nú í betra andlegu jafnvægi. Þá megi ráða af gögnum málsins að starfsendurhæfing stefndu hafi skilað góðum árangri, bæði líkamlega og andlega.
Stefnda kveðst telja ljóst að í kjölfar ákvörðunar hennar um að leita aðstoðar fyrir sig og drengi sína hafi henni tekist með góðri hjálp að breyta til batnaðar þeim erfiðu aðstæðum sem þau hafi verið komin í. Þessi ákvörðun og sú vinna sem stefnda hafi innt af hendi beri vott um ást hennar og umhyggju fyrir hag drengja sinna og enn fremur vott um nauðsynlegt innsæi í þarfir drengjanna og aðstæður þeirra.
Að lokum kveðst stefnda taka fram að hún beri hagsmuni drengjanna sinna fyrir brjósti í hvívetna. Hún sé reglusöm, dugleg og njóti góðs stuðnings fjölskyldu sinnar. Aðstæður hennar hafi farið batnandi síðastliðna mánuði og þurfi vart annað en að skoða niðurstöðu hins dómkvadda matsmanns frá desember 2016 til að sjá breytingu til batnaðar. Þá beri skýrslur eftirlitsaðila barnaverndar og meðferðaraðila VIRK augljós merki þess að stefnda hafi náð fyrri kröftum eftir erfitt tímabil. Aðila sem sé í framför í foreldrahlutverkinu eigi ekki að svipta forsjá barna sinna.
Stefnda kveður málskostnaðarkröfuna byggjast á 60. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, en stefndu hafi verið veitt gjafsókn í málinu með bréfi innanríkisráðuneytisins 5. október 2016. Málskostnaðarkrafan sé einnig byggð á a-lið 1. mgr. 131. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, sem heimili að dæma aðila til að greiða gagnaðila málskostnað óháð úrslitum máls, ef hann hefur höfðað mál að þarflausu eða án neins tilefnis af hendi gagnaðila.
Að öðru leyti kveðst stefnda vísa til barnaverndarlaga nr. 80/2002, einkum 4. gr., 2. mgr. 29. gr., 1. mgr. 41. gr. og 60. gr. Þá vísi stefnda til stjórnsýslulaga nr. 37/1993, einkum 10. og 12. gr., auk óskráðrar meginreglu stjórnsýsluréttarins um meðalhóf.
V.
Í máli þessu krefst stefnandi þess að stefnda verði svipt forsjá tveggja barna sinna, þeirra B, sem varð 13 ára í [...] síðastliðnum, og C, sem verður þriggja ára í [...]. Byggir stefnandi kröfu sína á mati F sálfræðings, sem fenginn var af hálfu stefnanda til að leggja mat á forsjárhæfni stefndu, og gögnum frá fagaðilum sem komið hafa að málefnum stefndu og barna hennar í gegnum tíðina. Kveður stefnandi þessi gögn vera í samræmi við mat stefnanda um að stefndu skorti innsæi í þarfir barnanna og að persónulegir eiginleikar hennar séu þess eðlis að þeir komi í veg fyrir að hún geti tekið ábyrgð á velferð þeirra og þroska. Af gögnum málsins sé ljóst að synir stefndu hafi til langs tíma búið við alvarlega vanrækslu í umsjá stefndu og að líkamlegri og andlegri heilsu þeirra sé stefnt í hættu fari stefnda áfram með forsjá þeirra.
Stefnda byggir sýknukröfu sína á matsgerð G sálfræðings, sem var dómkvödd sem matsmaður í málinu, en niðurstaða matsgerðarinnar sé sú að stefnda búi yfir nægilegu innsæi til að geta mætt þörfum sona sinna, auk þess sem hún sé aðaltilfinningagjafi þeirra. Fram komi í matsgerðinni að stefnda glími ekki við geðræn vandkvæði, sé tilfinningalega stöðug og takist á við daglegt líf án óþarfa áhyggna. Þá bendi matsmaður á að hún sé jákvæð og bjartsýn og með skýr markmið og viðhorf. Ekkert í þeim prófum sem lögð hafi verið fyrir stefndu bendi til þess að hana skorti innsæi eða að hún sé sjálfhverf. Með hliðsjón af framgreindu hafi stefnandi ekki sýnt fram á að skilyrði a- og d-liðar 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 séu uppfyllt í málinu.
Þá byggir stefnda sýknukröfu sína á því að gögn málsins sýni að viðunandi árangur hafi náðst í málefnum hennar og barnanna með öðrum og vægari úrræðum sem stefnda hafi sjálf haft frumkvæði að að sækja og sinna, sbr. 2. mgr. 29. gr. laga nr. 80/2002.
Stefnda viðurkennir að hún hafi á tímabili ekki getað sinnt forsjárskyldum sínum gagnvart eldri drengnum vegna gríðarlegs hegðunarvanda hans. Um hafi verið að ræða tímabundin vandræði, vítahring sem nú hafi verið höggvið á, og hafi henni tekist með góðri hjálp að breyta til batnaðar þeim erfiðu aðstæðum sem hún og eldri drengurinn hafi verið komin í.
Í niðurstöðukafla matsgerðar hins dómkvadda matsmanns kemur fram í kafla um forsjárhæfni móður að á tímabili hafi stefnda ekki getað framfylgt forsjárskyldum sínum gagnvart eldri drengnum þar sem hún hafi verið þrotin að kröftum. Í fyrsta lagi hafi það verið vegna gríðarlegs hegðunarvanda drengins, sem hvorki foreldrar, skólayfirvöld né tilsjón á heimili hafi ráðið við. Þá hafi móðir verið nýkomin úr erfiðri sambúð með ungt barn sem oft hafi verið veikt og þá virtist sem lítil stoð hafi verið í feðrum beggja drengjanna. Í niðurstöðukaflanum segir einnig að stefnda hafi sýnt þrautseigju við umönnun eldri drengsins. Í ljósi þess flókna og og margvíslega vanda sem drengurinn hafi glímt við sé skiljanlegt að þrek móður hafi þorrið og hún gripið til örþrifaráða eins og fram komi í gögnum málsins. Einnig kemur fram að aðskilnaður móður og drengsins virtist hafa haft jákvæði áhrif og rofið neikvætt munstur sem komið hafi verið á samskipti þeirra. Þau hafi bæði náð betra jafnvægi og fullvissu um að vilja búa saman.
Fram kemur í gögnum málsins að vandamál tengd vanlíðan og hegðun eldri drengs stefnanda komu fram talsvert áður en afskipti stefnanda af málefnum fjölskyldunnar hófust. Í læknabréfi E geðlæknis til stefnanda 14. nóvember 2014 kemur fram að B hafi verið skjólstæðingur hennar lengi. Hann sé með ofvirkni og alvarlegan hegðunarvanda sem verði síst minni með árunum. Í vottorðinu segir að eftir því sem drengurinn verði eldri verði hegðunarvandinn alvarlegri og nú sé svo komið að foreldrar séu úrræðalausir varðandi það hvernig þau taki á vanda drengsins.
Í greinargerð K, umsjónarkennara B, dagsettri 27. janúar 2016, kemur fram að drengurinn hafi átt erfitt uppdráttar í skólanum frá upphafi skólagöngu og hafi það ástand farið versnandi. Í greinargerðinni segir að umhirðu heima sé ábótavant og að drengurinn mæti oft með óboðlegan mat og sé illa hirtur. Hann fari sjaldan í bað og sé því illa lyktandi og í rifnum fötum. Einnig segir að drengurinn fái ekki heimanám þar sem því sé ekki sinnt. Gerðar séu kröfur til þess að hann lesi heima, en það hafi ekki gengið vel. Hann lesi mjög sjaldan heima. Hann komi oft seint í skólann og hafi misst talsvert úr skóla vegna veikinda og leyfa. Samskipti við heimili drengsins séu lítil, en þar sé ekkert gert til að hjálpa honum við hlutina.
Samkvæmt vottorði L, sálfræðings á Heilsugæslunni [...], frá 13. október 2016 var hún með B í sálfræðiviðtölum á tímabilinu maí 2014 til ágúst 2015, en þangað hafi honum verið vísað af lækni vegna hegðunarvanda hans, þ. á m. vegna vanda sem tengdist því að drengurinn átti það til að missa hægðir í buxur. Í vottorðinu kemur fram að móðir drengsins hafi verið boðuð í viðtöl án drengsins til að vinna með hagnýta atferlisgreiningu vegna áðurnefnds vandamáls, en til að ná árangri með slíkri aðferð sé samvinna við foreldra afar mikilvæg. Móðir hafi hins vegar ekki fylgt eftir þeirri heimavinnu sem sálfræðingurinn lagði til milli viðtala. Þá kemur fram í vottorðinu að sálfræðingurinn hafi haft áhyggjur af uppeldisaðferðum móður, en í viðtali við drenginn hafi m.a. komið fram að móðir læsti drenginn inni í herbergi. Einnig hafi komið fram upplýsingar frá drengnum um samtöl hans við móður sem hafi á þeim tíma haft áhrif á líðan hans.
Í vottorði M, félagsráðgjafa og verkefnisstjóra PMTO og SMT, frá 31. ágúst 2016 segir að stefnda hafi sótt PMTO/PTC-hópmeðferð hjá henni, og sálfræðingunum N og O haustið 2014. Alls hafi verið um að ræða 14 skipti, tvær klukkustundir í senn með heimavinnu og handleiðslu á milli tíma. Stefnda hafi mætt í 10 skipti af 14 og tekið þátt í hópnum, en átt erfitt með að yfirfæra þau foreldraverkfæri sem unnið hafi verið með hverju sinni yfir á heimili sitt. Á sama tíma hafi hún fengið úrræðið „fjölskyldustuðninginn heim“ á vegum Fjölskylduþjónustunnar. Með þeim hætti hafi verið reynt að auka líkur á því að árangur næðist og að móðir fengi enn frekari stuðning til að innleiða PMTO-verkfærin á heimili sínu og mæta þannig þörfum drengsins enn frekar. Þrátt fyrir aukastuðning hafi hún ekki virst geta nýtt sér verkfærin sem skyldi. Í lok vottorðsins segir að stundum hafi stefnda átt erfitt með að taka þátt í hópnum þar sem hún hafði ekki náð tökum á verkfærum PMTO heima og því hafi hún ekki verið á sama stað í ferlinu og hinir foreldrarnir.
Í vottorði P, sérfræðilæknis á göngudeild geðsviðs vegna FMG-teymis, dagsettu 8. júní 2016, kemur fram að stefnda og barnsfaðir hennar, J, hafi verið í viðtölum hjá R frá 18. febrúar til 14. apríl 2014 á meðgöngu yngri drengs stefndu, en einnig hafi stefnda verið í lyfjameðferð og eftirliti hjá áðurgreindum lækni. Í vottorðinu kemur fram að stefnda hafi aðeins mætt í þriðjung skipulagðra viðtala og mætt stopult í lyfjaeftirlit. Hún hafi síðan hætt lyfjatöku án samráðs við lækninn. Um líðan stefndu segir í vottorðinu að stefnda hafi glímt við töluverðar sveiflur í líðan og óstöðugt geðslag. Hún hafi takmarkað innsæi gagnvart eigin líðan og annarra. Á sjálfsmatskvörðum hafi hún hins vegar mælst með góða líðan. Öll þunglyndis-, kvíða- og streitupróf hafi verið innan marka. Það sé hins vegar klínískt mat læknisins að líðan stefndu sé mun verri en sjálfsmatskvarðar gefi til kynna og að góð útkoma á prófum skýrist af því að stefnda hafi takmarkað innsæi í eigin líðan.
Í vottorði R, félagsráðgjafa og fjölskyldumeðferðar-fræðings, dagsettu 8. júní 2016, segir um áðurgreinda viðtalsmeðferð stefndu og J barnföður hennar að mikil spenna hafi verið á milli þeirra, en eldri sonur stefndu hafi oft verið ástæðan fyrir þessum rifrildum og ágreiningi þeirra á milli. Stefnda hafi átt mjög erfitt með að setja sig í spor annarra og haft lítið innsæi í drenginn og hvaða áhrif þessir miklu árekstrar hefðu á líðan allra. Lýsir R yfir áhyggjum sínum af aðstæðum yngri sonar stefndu, en mikil hætta sé á því að sagan endurtaki sig hvað hann varði, sérstaklega þegar hann verði meira krefjandi fyrir móður sína með auknum þroska og aldri. Stefnda sé með takmarkað innsæi í þarfir annarra og eigi mjög erfitt með að stjórna skapi sínu, en um sé að ræða persónuleikaþætti sem séu ekki heppilegir fyrir lítið barn.
Í vottorði S sérfræðilæknis og T, sálfræðings á göngudeild barna- og unglingadeildar Landspítalans, dagsettu 12. september 2016, sem ritað var að beiðni stefndu, segir að fyrri greining „Z62.3 Andúð á barni og það gert að blóraböggli“, hafi verið gerð til að koma á framfæri þeim upplýsingum að B hefði verið beittur harðræði af fyrrverandi sambýlismanni stefndu, svo og því að lögregla hefði komið að árekstrum milli móður og sonar. Í vottorðinu segir að móðir hafi verið dugleg að sækja hjálp fyrir B, en hún hafi átt í erfiðleikum með að sjá sinn þátt í erfiðleikum drengsins. Móðir upplifi líkamlegan sársauka vegna þess hversu miklar kröfur B geri til hennar. Þá séu vísbendingar um veikleika í tengslamyndun móður og B.
Í ljósi framangreindra gagna getur dómurinn ekki tekið undir með hinum dómkvadda matsmanni að vanræksla við uppeldi og umönnun á börnunum hafi verið tímabundin vegna gríðarlegs álags sem hlotist hafi af hegðunarvanda eldri drengsins og erfiðum sambúðarslitum við barnsföður yngri drengsins. Þykja gögnin þvert á móti benda til þess að úrræðaleysi og vanræksla stefndu við uppeldi drengjanna hafi verið viðvarandi og til langs tíma að því er eldri drenginn varðar. Samkvæmt því sem fram hefur komið í málinu hefur stefnda réttlætt vanrækslu sína og átök við eldri drenginn með því að benda á hegðunarvanda hans og erfiðleika honum tengda, en hefur ekki séð sinn þátt í erfiðleikum hans. Hefur stefnda þannig gert barnið ábyrgt fyrir vanlíðan sinni og erfiðleikum fjölskyldunnar. Þessi viðhorf stefndu komu ekki einungis fram þegar eldri drengurinn bjó hjá henni, heldur einnig eftir að hann var kominn í fóstur. Með því að varpa ábyrgð yfir á drenginn hefur stefnda gefið honum misvísandi skilaboð, þ.e. hann hefur í senn upplifað væntumþykju frá móður sinni en einnig höfnun. Slík framkoma gagnvart barni getur leitt til mikillar tilfinningalegrar togstreitu og haft varanleg áhrif á barnið. Afar ámælisvert þykir t.d. er stefnda hringdi í tilfinningauppnámi í drenginn á meðan hann var í fósturvistuninni og tjáði honum að barnavernd ætlaði að taka þá bræður af henni. Þá hefur komið fram að stefnda ræddi þessi mál ítrekað við drenginn, en í skýrslu sinni fyrir dóminum kvaðst stefnda hafa talið eðlilegt í ljósi aldurs drengsins að hann fengi að tjá sig um málið. Samkvæmt gögnum málsins og vitnisburði I, fósturmóður drengsins, og U, félagsráðgjafa og starfsmanns stefnanda, hafði símtalið mjög neikvæð áhrif á drenginn og í kjölfarið varð alger viðsnúningur á líðan hans og hegðun á fósturheimilinu, sem og frammistöðu hans í skóla, en áður hafði drengurinn á tiltölulega skömmum tíma sýnt miklar framfarir á öllum sviðum.
Samkvæmt framlögðum gögnum snerti vanræksla stefndu alla grunnþætti í umönnun og uppeldi barnanna, þ.e. hvað varðar matar-, svefn- og þrifavenjur, en einnig að því er varðaði aðstoð við heimanám, að setja þeim mörk og halda uppi aga. Samkvæmt gögnum málsins hafa einnig komið fram vísbendingar um veikleika í tengslamyndun móður og eldri drengsins og að hann hafi verið tilfinningalega sveltur. Þá er ljóst af gögnum málsins að stefnda fékk mikla ráðgjöf og kennslu frá fagaðilum, sem og mikla aðstoð við heimilishald og uppeldi barnanna í langan tíma án þess hún virðist hafa getað tileinkað sér þær aðferðir og ráð sem sem henni voru gefin.
Samkvæmt framangreindu telur dómurinn að í mati hins dómkvadda matsmanns hafi ekki verið litið til þeirrar miklu og langvarandi vanrækslu sem átt hafði sér stað við uppeldi og umönnun barna stefndu og hversu mikillar og margvíslegrar aðstoðar stefnda naut á vegum stefnanda án þess að þau úrræði hafi skilað árangri.
Þá þykir útlistun hins dómkvadda matsmanns á MMPI/2-persónuleikaprófinu ekki gefa rétta mynd af útkomu prófsins. Samkvæmt upplýsingum í matsgerð skoraði stefnda mjög hátt á kvarðanum hypochondraisis, en slíkir einstaklingar eru mjög uppteknir af líkamlegum kvillum og nota þá til að stjórna öðrum. Þeir krefjast mikillar athygli og eru neikvæðir og svartsýnir. Þessir einstaklingar eru afar fastir í slíku munstri og nota það gjarnan til að koma í veg fyrir breytingar. Þykir stefnda hafa mörg þessara einkenna, en fram hefur komið að stefnda er oft þreytt og hefur þörf fyrir að leggja sig á daginn, en einnig hefur komið fram að flest á heimilinu hafi snúist um hennar þarfir en ekki annarra, samanber upplýsingar frá tilsjónaraðilum á heimili stefndu og framburð fyrrverandi sambýlismanns hennar og föður yngri drengsins.
Fram kemur í matsgerð að hinn dómkvaddi matsmaður lagði Bene-Anthony-fjölskyldutengslaprófið fyrir B. Þar kemur fram að drengurinn sendi föður sínum 12 skilaboð og öll jákvæð. Þá segir að drengurinn upplifi hjálpsemi og góðmennsku frá föður sínum, hann treysti honum og finnist gott að faðma hann. Í ljósi framangreinds dregur dómurinn í efa þá ályktun matsmanns af útkomu prófsins að stefnda sé aðaltilfinningagjafi drengsins, en eins og að framan greinir komu einnig fram sterk tilfinningaleg tengsl drengsins við föður á prófinu, sem matsmaður kýs þó að fjalla ekki frekar um. Fram hefur komið að faðir drengsins og stefnda slitu sambúð er B var tæplega fjögurra ára gamall og hafa síðan farið sameiginlega með forsjá hans. Þá hefur komið fram að faðir drengsins hefur umgengist drenginn með reglubundnum hætti. Traust tengsl virðast því vera á milli þeirra feðga.
Þá þykir umfjöllun hins dómkvadda matsmanns um persónulega eiginleika stefndu ekki samrýmast öðrum framlögðum gögnum, sbr. t.d. áðurgreindu vottorði P geðlæknis þar sem fram kemur að þrátt fyrir að á sjálfsmatskvörðum hafi stefnda mælst með góða líðan og öll þunglyndis- kvíða- og streitupróf hafi verið innan marka hafi það verið klínískt mat læknisins að líðan stefndu væri mun verri en sjálfsmatskvarðar gæfu til kynna. Góð útkoma á prófum skýrðist af því að stefnda hefði takmarkað innsæi í eigin líðan.
Þá tiltekur hinn dómkvaddi matsmaður í matsgerð sinni að stefnda sé tilfinningalega stöðug og takist á við daglegt líf án óþarfa áhyggna. Enn fremur að hún sé jákvæð og bjartsýn. Þykir þetta vera í hróplegu ósamræmi við önnur gögn málsins, sem og framburð stefndu sjálfrar, en í skýrslu hennar fyrir dóminum kom fram að hún er á þunglyndislyfinu fluoxetine og er nú á sterkari skammti en áður. Kvað hún mikið álag og streitu fylgja rekstri þessa dómsmáls og því væri nauðsynlegt fyrir hana að taka lyfið. Í gögnum málsins kemur og fram að stefnda hefur um nokkurt skeið tekið þunglyndislyf.
Eins og fram hefur komið gerði F sálfræðingur sálfræðilegt mat á forsjárhæfni stefndu og við mat sitt leit hann m.a. til umsagna þeirra fagaðila sem komið hafa að málefnum stefndu í gegnum tíðina, þess mikla stuðnings sem stefnda hefur notið í langan tíma og þeirra miklu breytinga sem urðu á líðan og hegðun B eftir að honum var komið í fóstur. Var það niðurstaða hans að vegna innsæisleysis stefndu í þarfir barnanna og vanda sem sé að rekja til persónuleika hennar sé þroska og velferð beggja drengjanna ógnað með því að þeir alist upp í umsjá hennar.
Fram hefur komið að á meðan synir stefndu voru vistaðir utan heimilis hefur stefnda náð nokkrum árangri við að byggja sig upp og bæta geðheilsu sína, sem og að greiða úr óreiðu á heimili sínu. Í ljósi þess að drengirnir voru ekki í umsjá stefndu á þessum tíma og að skammur tími er liðinn frá því að stefnda tók á sínum málum þykir of snemmt að álykta að um varanlegar breytingar á högum stefndu sé að ræða.
Af gögnum málins þykir ljóst að báðir synir stefndu þurfa á miklum stöðugleika og sértækum úrræðum að halda í framtíðinni. Í ljósi þess og af því sem að framan er rakið um persónulega eiginleika stefndu þykir sýnt að hún sé ekki fær um að sinna krefjandi forsjárskyldum gagnvart drengjunum og bera ábyrgð á velferð þeirra og þroska. Brýna nauðsyn þykir bera til þess að skapa drengjunum til frambúðar það öryggi og þá umönnun sem þeir þurfa á að halda og eiga rétt á lögum samkvæmt, sbr. 1. og 2. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Drengirnir eru nú vistaðir hjá feðrum sínum þar sem þeim hefur liðið vel og kváðust feðurnir fyrir dómi vera reiðubúnir til að taka ábyrgð á uppeldi sona sinna. Ekki er ástæða til að draga í efa að bræðurnir tengjast tilfinningaböndum, en þó verður að hafa í huga að á þeim er 10 ára aldursmunur og munu þeir því eiga takmarkaða samleið á næstu árum.
Af gögnum málsins er ljóst að önnur og vægari úrræði barnaverndarlaga hafa verið reynd allt frá því að stefnandi hóf afskipti af málefnum sona stefndu á árinu 2014 án þess að þau hafi skilað viðunandi árangri, sbr. 2. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga.
Samkvæmt því sem að framan er rakið og með hagsmuni barnanna B og C að leiðarljósi verður að fallast á það með stefnanda að uppfyllt séu skilyrði a- og d-liðar 29. gr. barnaverndarlaga til að svipta stefndu forsjá drengjanna. Verða dómkröfur stefnanda því teknar til greina.
Rétt þykir að málskostnaður falli niður.
Stefndu var veitt gjafsókn til að taka til varna í málinu með bréfi innanríkisráðuneytisins, dagsettu 5. október 2016.
Allur gjafsóknarkostnaður stefndu greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. þóknun lögmanns hennar, Ingu Lillýjar Brynjólfsdóttur hdl., sem þykir hæfilega ákveðin 1.500.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Ragnheiður Bragadóttir héraðsdómari kveður upp dóminn ásamt meðdómsmönnunum Guðfinnu Eydal sálfræðingi og Helga Viborg sálfræðingi.
Dómsorð:
Stefnda, A, er svipt forsjá barnanna B, kt. [...], og C, kt. [...], sem báðir eru vistaðir utan heimilis á vegum stefnanda.
Málskostnaður fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður stefndu greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. þóknun lögmanns hennar, Ingu Lillýjar Brynjólfsdóttur hdl., 1.500.000 krónur.