Hæstiréttur íslands

Mál nr. 393/2017

Ákæruvaldið (Jón H. B. Snorrason saksóknari)
gegn
X (Jóhanna Sigurjónsdóttir hdl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008

Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem X var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Benedikt Bogason og Eiríkur Tómasson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. júní 2017, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 13. júní 2017, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 11. júlí 2017 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 13. júní 2017.

                Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur í dag krafist þess að X, sæti áframhaldandi gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 11. júlí 2017, kl. 16.00, á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.

  Í greinargerð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu segir að kærði hafi verið handtekinn 18. apríl sl. grunaður um að hafa framið rán í apótekinu að [...] í [...] vopnaður öxi og í kjölfarið reynt að flýja undan lögreglu í bifreiðinni [...], þannig að hann hafi raskað umferðaröryggi og stefnt lífi fólks í augljósa hættu.

Samkvæmt skýrslu af vitninu A, starfsmanni apóteksins, hafi kærði komið inn fyrir afgreiðsluborðið og í sömu andrá dregið fram öxi úr frakkavasa sínum og síðan reist hana á loft. Hann hafi svo staðið um einum metra frá A með öxina á lofti og sagt við hana: „Ég vil fá töflurnar mínar, þú veist hvað ég vil“. Hún hafi í kjölfarið beint honum að lyfjunum og náð að komast út úr versluninni. Önnur vitni sem rætt hafi verið við hafi gefið sömu lýsingu, þ.e. að kærði hafi verið vopnaður öxi og ógnað starfsmanni með henni. Þá hafi þau lýst því að hann hefði yfirgefið vettvang á bifreiðinni [...], sem sé rauð [...], auk þess sem lýsingar á fatnaði og útliti hafi komið heim og saman við kærða er hann hafi verið handtekinn. Er kærði var handtekinn hafi lögregla fundið í bifreiðinni öxi og tvo hnífa ásamt nokkuð miklu magni af lyfjum.

Hvað varðar akstur kærða í kjölfar ránsins hafi vitni lýst því að lítil rauð bifreið hafi komið akandi vestur [...] á u.þ.b. 80-90 km hraða og yfir gatnamót [...] á rauðu ljósi. Vitnið hafi talið það með ólíkindum að bifreiðin hafi sloppið í gegnum gatnamótin án þess að lenda í árekstri miðað við þá umferð sem var á þeim tíma. Vitnið hafi talið augljóst að ökumaðurinn hafi skapað mjög mikla hættu með akstrinum. Lögregla hafi veitt kærða eftirför í töluverðan tíma án þess að hann sinnti neinum stöðvunarmerkjum ásamt því að brjóta ítrekað umferðarlög en akstri kærða lauk með því að hann ók aftan á aðra bifreið og þurfti ökumaður hennar að leita sér aðstoðar á slysadeild.

Með vísan til þessa og gagna málsins hafi það verið mat lögreglu að kærði lægi undir sterkum grun um að hafa framið brot sem varði 10 ára fangelsi. Frumrannsókn lögreglu hafi bent til þess að kærði hafi verið í mikilli neyslu fíkniefna og gæti jafnframt átt við geðræn vandamál að stríða.

                Hann hafi þann 18. apríl sl. verið úrskurðaður í gæsluvarðhald, sbr. úrskurð héraðsdóms Reykjaness nr. R-[...]/2017, til 16. maí sl. Þann dag hafi hann aftur, með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness nr. R-[...]/2017, verið úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðhald til dagsins í dag kl. 16:00.

Við yfirheyrslur hjá lögreglu hafi kærði játað framangreinda háttsemi. Einnig hafi verið gerð geðrannsókn á kærða og séu niðurstöður hennar þær að kærði sé  „örugglega sakhæfur skv. 15 gr. hegningarlaga“ og að einkenni hans „leiða ekki til ósakhæfis samkvæmt 16. gr. hegningarlaga“, að mati geðlæknis.

Sé það mat lögreglu að gæsluvarðhald sé áfram nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna og að óforsvaranlegt þyki að kærði gangi laus þegar sterkur grunur leiki á að hann hafi framið svo alvarlegt brot sem honum er gefið að sök og sýnt af sér aðra þá háttsemi sem hafi haft mikla hættu í för með sér fyrir almenna borgara. Þykja brot kærða því vera þess eðlis að það stríði gegn réttarvitund manna að hann gangi laus meðan mál hans er til meðferðar. 

                Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og 2. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.

Eins og rakið hefur verið hefur kærði sætt gæsluvarðhaldi frá 18. apríl sl. á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Ákæra hefur nú verið gefin út á hendur honum. Samkvæmt framangreindu og rannsóknargögnum málsins er fallist á það með lögreglustjóra að kærði sé undir sterkum grun um að hafa gerst brotlegur við ákvæði 252. gr. almennra hegningarlaga. Geta brot hans varðað allt að 10 ára fangelsi. Með tilliti til almannahagsmuna verður á það fallist með lögreglustjóra að brotið sé þess eðlis að nauðsynlegt sé að tryggja að kærði gangi ekki laus á meðan mál hans er til meðferðar, sbr. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Verður fallist á kröfu lögreglustjórans eins og greinir í úrskurðarorði.

Úrskurð þennan kveður upp Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari.

ÚRSKURÐARORÐ

Kærði, X, skal sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 11. júlí 2017 klukkan 16.00.