Hæstiréttur íslands

Mál nr. 160/2003


Lykilorð

  • Kærumál
  • Málsástæða
  • Vanreifun
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


Þriðjudaginn 6

 

Þriðjudaginn 6. maí 2003.

Nr. 160/2003.

Landsbanki Íslands hf.

(Hákon Árnason hrl.)

gegn

Fóni ehf. og

Holberg Mássyni

(Guðmundur Ágústsson hrl.)

 

Kærumál. Málsástæður. Vanreifun. Frávísunarúrskurður staðfestur.

L höfðaði mál gegn F og H með stefnu 26. apríl 2002, þar sem hann krafðist þess að þeim yrði í sameiningu gert að greiða sér tiltekna fjárhæð. Fékk L gerða kyrrsetningu hjá F og H til tryggingar kröfunni og höfðaði mál til staðfestingar gerðinni. Það mál var síðan sameinað máli þessu og komu þá inn í það ný gögn, sem lögð höfðu verið fram í fyrrnefnda málinu. Við aðalmeðferð málsins 4. apríl 2003 lögðu aðilarnir fram hver fyrir sitt leyti skjal með endanlegri kröfugerð og talningu málsástæðna. Féllst Hæstiréttur á það með héraðsdómara að málatilbúnaður L hafi þá verið kominn í slíkt horf að hann hafi ekki lengur verið samrýmanlegur þeim grundvelli, sem L markaði málinu með fyrrnefndri stefnu 26. apríl 2002. Samkvæmt því var frávísunarúrskurður héraðsdóms staðfestur um annað en málskostnað.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. apríl 2003, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 2. maí sl. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. apríl 2003, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í c. lið 2. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst sóknaraðili kærumálskostnaðar.

Varnaraðilar krefjast þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og þeim dæmdur kærumálskostnaður.

Eins og nánar greinir í hinum kærða úrskurði höfðaði sóknaraðili mál þetta gegn varnaraðilum með stefnu 26. apríl 2002, þar sem hann krafðist þess að þeim yrði í sameiningu gert að greiða sér 27.785.468,23 krónur. Sóknaraðili fékk gerða kyrrsetningu hjá varnaraðilum 14. mars 2003 til tryggingar þessari kröfu og höfðaði með stefnu 20. sama mánaðar mál til staðfestingar gerðinni. Það mál var síðan á dómþingi 2. apríl 2003 sameinað máli þessu og komu þá inn í það ný gögn, sem lögð höfðu verið fram í fyrrnefnda málinu. Við aðalmeðferð málsins 4. apríl 2003 lögðu aðilarnir fram hver fyrir sitt leyti skjal með endanlegri kröfugerð og talningu málsástæðna. Fallast verður á með héraðsdómara að málatilbúnaður sóknaraðila hafi þá verið kominn í slíkt horf að hann var ekki lengur samrýmanlegur þeim grundvelli, sem sóknaraðili markaði málinu með fyrrnefndri stefnu 26. apríl 2002. Samkvæmt því verður hinn kærði úrskurður staðfestur um annað en málskostnað.

Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðilum málskostnað í héraði og kærumálskostnað, sem er ákveðinn í einu lagi handa hvorum þeirra fyrir sig eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur um annað en málskostnað.

Sóknaraðili, Landsbanki Íslands hf., greiði varnaraðilum, Fóni ehf. og Holberg Mássyni, hvorum fyrir sig samtals 150.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. apríl 2003.

I.

         Mál þetta, sem dómtekið var fimmtudaginn 16. janúar sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Landsbanka Íslands hf., kt. 540291-2259, Austurstræti 11, Reykjavík, með stefnu birtri 26. apríl 2002 á hendur Fóni ehf., kt. 680292-2489, Mímisvegi 6, Reykjavík, og Holbergi Mássyni, kt. 210954-3339, Mímisvegi 6, Reykjavík.  Með stefnu, birtri 21. marz sl., höfðaði stefnandi sérstakt mál á hendur stefnda í máli þessu til staðfestingar á kyrrsetningargerð.  Málið var sameinað máli þessu í þinghaldi 2. apríl sl.

 

         Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndu verði dæmd in solidum til að greiða stefnanda kr. 27.785.468,23, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001, frá 16.11.2001 til greiðsludags.                 Þá krefst stefnandi þess, að staðfest verði kyrrsetning nr. K-5/2003, sem sýslumaðurinn í Reykjavík gerði hinn 14. marz 2003 í fasteignunum Mímisvegi 6, Reykjavík, eignarhluta 0301, og Haga við Selfjall 4, Rangárþingi ytra, lóðarréttindum og mannvirkjum, sem báðar eru í eigu Holbergs Mássonar, sem og í Nissan Patrol bifreið nr. PB-562, sem er í eigu Fóns ehf.  Enn fremur krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefndu að mati dómsins, auk virðisaukaskatts á málskostnað.

         Endanlegar dómkröfur stefndu eru þær, að þeir verði alfarið sýknaðir af öllum kröfum stefnanda og stefnanda gert, að viðlögðum 10.000 króna dagsektum, að afmá skuld Fóns ehf. við stefnanda á reikningi nr. 110-26-8990.  Þá krefjast stefndu þess, að hafnað verði staðfestingu kyrrsetningargerðar nr. K-5/2003 í fasteignunum Mímisvegi 6, Reykjavík, eignahluta 0301, og Haga við Selfjall, Rángárþingi ytra, lóðarréttindum og mannvirkjum, sem eru eignir stefnda Holbergs Mássonar, sem og í bifreiðinni PB-562, að gerðinni Nissan Patrol, eign stefnda Fóns ehf.  Þá krefst stefndi þes, að stefnanda verði gert að greiða stefndu hæfilegar skaðabætur að mati dómsins vegna ólögmætrar kyrrsetningar.  Stefndu gera jafnframt þá kröfu að stefnandi verði gert að greiða þeim málskostnað að mati dómsins að viðbættum virðisaukaskatti.

II.

Málavextir:

Ágreiningur er um málavexti.  Stefnandi kveður skuldina þannig til komna, að hinn 2. maí 2001 hafi stefndi Fónn ehf. stofnað til yfirdráttarskuldar á tékkareikningi nr. 8990 hjá stefnanda, að fjárhæð kr. 24.775.764.  Stefndi Holberg hafi áður verið búinn að takast á hendur persónulega greiðsluskyldu á umræddri skuld, svo sem nánar greini að neðan, en hann hafi verið og sé stjórnarmaður í stefnda Fóni ehf.

         Stofnað hafi verið til skuldarinnar til að taka yfir með skuldskeytingu skuld annars félags, Ísnets ehf., við stefnanda að sömu fjárhæð á tékkareikningi nr. 0111-26-206, en það félag hafi verið í eigu stefnda Holbergs, þegar stofnað var til skuldarinnar upphaflega. Umrædd skuld Ísnets ehf. við bankann hafi verið til komin vegna persónulegra kaupa stefnda Holbergs á hlutum í brezka félaginu Netverki plc. í hlutafjárútboði í félaginu á árinu 1999, en stefndi Holberg hafi þá verið einn stærsti hluthafinn í Netverki plc., móðurfélagi Netverks ehf., og hafi átt í samstarfi við stefnanda og aðrar bankastofnanir um fjármögnun Netverks plc.  Ísnet ehf. hafi síðar orðið eitt af dótturfélögum Netverks ehf.  Hafi þá komið fram sú krafa af hálfu endurskoðenda Netverks plc., að umrædd skuld færi út af reikningum Ísnets og þar með samstæðureikningi Netverks, þar sem í raun væri um að ræða persónulega skuld stefnda Holbergs.  Stefnandi hafi samþykkt, að fram færu skuldaraskipti, þannig að einkahlutafélag stefnda Holbergs, stefndi Fónn ehf., kæmi sem skuldari í stað Ísnets, og hafi skuldaraskiptin farið þannig fram, að stefndi Fónn hafi greitt skuldina upp með því að stofna til áðurnefndrar yfirdráttarskuldar hjá stefnanda, en stefndi Holberg hafi jafnframt verið persónulega ábyrgur fyrir skuldinni samkvæmt yfirlýsingu frá 27. febrúar 2001.  Byggir stefnandi kröfur sínar á hendur stefnda Holbergi á þeirri ábyrgðaryfirlýsingu.

         Í stefnu vegna kröfu stefnanda um staðfestingu kyrrsetningar kveður stefnandi efnahagsstöðu stefndu hafa versnað til muna á skömmum tíma.  Bú Netverks ehf. hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, uppkveðnum 4. júlí 2002 og fyrir liggi, að Netverki plc., móðurfélagi Netverks ehf., muni verða slitið innan tíðar.  Stefndu eigi verulegan eignarhlut í Netverki plc., sem hafi stórlega lækkað í verði á undanförnum mánuðum.

         Stefndi Holberg hafi gert kaupmála, dags. 11. janúar 2002, sem rýri efnahagsstöðu hans.  Í kaupmálanum sé íbúð að Mímisvegi 6, Reykjavík, merkt 0201, fmnr. 200-9039, gerð að séreign Guðlaugar Björnsdóttur, eiginkonu stefnda.  Í kaupmálanum sé sú fasteign sögð vera að verðmæti kr. 22.800.000, en fyrir hafi eignarhlutur stefnda verið 50% en eiginkonu hans 50%.  Samkvæmt kaupmálanum sé risíbúð og hanabjálkaloft að Mímisvegi 6, Reykjavík, merkt 0301, fmnr. 200-9040, gerð að séreign stefnda, en fyrir hafi stefndi átt 50% og eiginkona hans 50%. Í kaupmálanum sé sú fasteign sögð vera að verðmæti kr. 11.300.000.  Kaupmáli þessi dragi mjög úr líkindum þess, að fullnusta takist.  Skipti höfuðmáli, að í stað fasteignar í eigu stefnda Holbergs komi samkvæmt kaupmálunum að hluta reiðufé, sem ekki verði séð, að standi kröfum lánadrottna til fullnustu.  Af þeirri ástæðu hafi stefnandi krafizt kyrrsetningar til tryggingar fullnustu á kröfu sinni, enda hafi stefnandi mátt telja, að fullnusta kröfunnar hefði orðið verulega örðugri, færi kyrrsetning ekki fram.

         Við fyrirtöku kyrrsetningarbeiðni stefnanda hinn 31. janúar 2003 hafi sýslumaðurinn í Reykjavík tekið til greina kröfu stefnanda um kyrrsetningu gegn kr. 7.600.000 króna tryggingu frá stefnanda.  Stefndi Holberg hafi viljað afstýra kyrrsetningu með framlagningu bankaábyrgðar, og því hafi kyrrsetningu ítrekað verið frestað.  Kyrrsetning hafi þó að lokum farið fram þann 14. marz 2003 í fasteignum stefnda Holbergs að Mímisvegi 6, Reykjavík, og Haga við Selfjall 4, Rangárþingi ytra, og í Nissan Patrol bifreið nr. PB-562 í eigu stefnda Fóns ehf.  Við framkvæmd gerðarinnar hafi komið í ljós, að skuldabréf, að fjárhæð kr. 2.057.793, hafði verið gefið út þann 3. febrúar 2003, eða mánudeginum eftir að sýslumaður féllst efnislega á kyrrsetningarbeiðni stefnanda, og verið tryggt með veði í bifreiðinni.  Hafi stefndu með þessu dregið úr líkindum á fullnustu kröfunnar og því staðfest þá þörf á kyrrsetningu, sem stefnandi telji vera fyrir hendi.

 

         Stefndu gera athugasemdir við málatilbúnað stefnanda.  Í fyrsta lagi vísa þeir til þess, að mál hafi verið höfðað milli sömu aðila með stefnu, útg. 22. nóvember 2001, mál nr. E-12327/2001, og sömu kröfur gerðar í því máli og í máli þessu.  Samkvæmt þeirri stefnu sé málsatvikum lýst svo, að hin umstefnda skuld væri tilkomin vegna óheimils yfirdráttar á bankareikning, stefndu hjá stefnanda nr. 110-26-8990.  Því máli hafi verið vísað frá dómi með úrskurði Héraðdóms Reykjavíkur, uppkveðnum hinn 8. marz 2002, m.a. með vísan til eftirfarandi rökstuðnings:

 

        “Engin grein er gerð fyrir því hvenær umræddur tékkareikningur var stofnaður og af hverjum, hvenær til skuldar á reikningum var stofnað og með hvaða hætti.  Meintu samkomulagi um flutning framangreindar skuldar yfir á reikninginn er í engu lýst og ekki gerð grein fyrir hvernig meint ábyrgð stefnda Holbergs er til komin.”

 

         Stefndu vísa til greinargerðar sinnar í fyrra málinu um viðskipti stefnanda við stefnda, Holberg Másson, sem stefndi kveði hafa verið farsæl, þar til stefnandi hafi ákveðið að snúa við honum bakinu og með aðstoð annarra hluthafa í félaginu komið því til leiðar, að hann neyddist til að segja upp störfum sem framkvæmdastjóri hjá Netverki plc. og segja sig úr stjórn félagsins.  Stefndi telji málssókn þessa lið í því að bankinn sé að þvinga hann til eftirgjafar á hlutum sínum í félaginu, en stefndi eigi um þriðjungs hlut í Netverki plc.

         Málatilbúnaður stefnanda í þessu máli sem hinu fyrra sé með eindæmum.  Þegar ekki hafi gengið upp sú staðhæfing í fyrra málinu að fá stefndu dæmda fyrir óheimilan yfirdrátt á tékkareikningi, sé í þessu máli á því byggt, að stefndu hafi farið þess á leit við stefnanda að millifæra á milli reikninga í bankanum, skuld Ísnets ehf. á stefnda Fón ehf.  Stefndu mótmæli því að hafa heimilað slíkt.

         Það sé rangt, sem fram komi í stefnunni, að stefndi Holberg hafi verið eigandi Ísnets ehf. á árinu 1999, þegar skuldin myndaðist á reikningi Ísnets ehf.  Hafi Netverk þá þegar verið eigandi Ísnets ehf.  Ástæðan fyrir því, að skuld myndaðist á reikningi Ísnets ehf., hafi verið sú, að peninga vantaði inn í rekstur Netverks á árinu 1999 og ákveðið hafi verið á hluthafafundi í félaginu að auka hlutafé félagsins.  Hafi stefndi Holberg, sem þriðjungs eigandi og stefnandi sem eigandi 17% hlutafjár í félaginu tekið ákvörðun um það í sameiningu að taka þátt í hlutafjárútboðinu og kaupa 70.000 hluti í félaginu á útboðsgenginu 7.  Jafnframt hafi verið ákveðið að selja þessa hluti öðrum aðilum til að endurgreiða kaupverðið.  Hafi það verið ákvörðun bankans, að þeir fjármunir, sem bankinn lagði fram til kaupanna, yrðu skuldfærðir á tékkareikning Ísnets ehf. til bráðabirgða, meðan leitað væri að kaupanda að hlutunum.  Hafi stefndi Holberg verið skráður fyrir þessum hlutum, en stefnandi hafi haft handveð í þeim og sölurétt auk 180.000 hluta til viðbótar, sem hafi verið í hans eigu.  Hann hafi handveðssett þá bankanum með heimild til sölu þeirra til þriðja aðila.  Hafi stefnanda tekist á árinu 2000 að selja 25.000 hluti á genginu 10, og hafi kaupandinn verið svissneskur fjárfestir.  Stefnandi hafi alfarið séð um sölu hlutanna og ráðstafað sjálfur andvirði þeirra inn á tékkareikning Ísnets ehf. til lækkunnar á skuldinni.  Það sé því rangt, sem fram komi í stefnu, að stefndi hafi lagt inn á þann reikning.  Uppgjörið vegna þessarar sölu minnist stefndi ekki að hafa fengið eða séð.

         Tildrög þess, að yfirlýsingin á dskj. nr. 9 var útgefin, hafi ekki verið þau, sem haldið sé fram í stefnu, að stefndi Holberg hafi lýst yfir við stefnanda, að hann ábyrgðist greiðslu á reikningi Ísnets ehf., heldur hafi verið um það að ræða, að athugasemd kom fram í byrjun árs 2001 frá endurskoðanda Netverks plc. um þessa skuld dótturfélagsins.  Endur­skoðandinn hafi óskað eftir því, að stefndi Holberg gæfi út yfirlýsingu til að taka af öll tvímæli um það, að Ísnet ehf. skuldaði ekki þessa fjárhæð.  Í því ljósi verði að skoða yfirlýsinguna. Á þessum tíma hafi stefndi verið framkvæmdastjóri Netverks plc. og staðið hafi yfir ný hlutafjáraukning.  Það hafi því litið illa út að mati endurskoðandans að hafa skuldina bókaða á Ísnet ehf.  Þessa yfirlýsingu hafi stefndi einungis afhent endurskoðandanum til notkunar fyrir félagið, en hvorki afhent hana stefnanda né öðrum hluthöfum.  Endurskoðunarfyrirtækið, sem annist bókhald og uppgjör fyrir Netverk, sé PriceWaterhouseCoopers, með skrifstofu í London.

         Fyrir utan ofangreint telji stefndi, að yfirlýsingin geti hvorki gefið stefnanda tilefni til að færa hjá sér skuld Ísnets ehf. yfir á Fón ehf. né megi lesa út úr henni sjálfskuldarábyrgð hans á tékkareikningi Fóns ehf. eða öðrum tékkareikningum.  Þá sé alrangt, sem fram komi í stefnu, að yfirlýsing þessi hafi verið grundvöllur þess, að stefnandi færði yfir skuld Ísnets ehf. á Fón ehf., því skjal þetta hafi stefnandi ekki fengið vitneskju um, eða a.m.k. ekki fengið í hendur, fyrr en í marz 2002, þegar stefnandi hafi krafizt þess af Netverki að fá öll gögn þess í hendur, er vörðuðu viðskipti félagsins við stefnda Holberg. 

         Í yfirlýsingunni sé hvergi minnst á Fón ehf. eða á hvaða kjörum Fónn ehf. tæki yfir skuldina.  Yfirlýsingin ein út af fyrir sig gefi stefnanda eða öðrum því ekki heimild til að millifæra á milli reikninga eða draga þá ályktun, að hún feli í sér, að stefndi Holberg ábyrgist skuld á tékkareikningi Fóns ehf.  Svo stefnandi geti á því byggt, að stefndi Fónn ehf. eða stefndi Holberg hefðu yfirtekið eða séu í ábyrgð fyrir skuld Ísnets ehf., hafi stefnanda verið nauðsynlegt að ganga frá lána- og ábyrgðarsamningi við stefndu, þar sem Fónn ehf. tæki á sig greiðsluskyldu á skuldinni og stefndi Holberg ábyrgðist, að Fónn ehf. stæði við þá skuldbindingu.

         Yfirlýsingin hafi verið afhent endurskoðanda Netverks honum til notkunar, en ekki afhent stefnanda með beiðni um millifærslu á milli reikninga.

         Á það verði jafnframt að líta, að sú fjárhæð, sem skuldfærð var á reikning nr. 101-26­206, hafi verið til komin með afar sérstökum hætti, og telji stefndi Holberg, að stefnandi hafi á sínum tíma gert sér fulla grein fyrir því, að það gæti brugðið til beggja vona með sölu hlutabréfanna, og hvaða verð fengist fyrir þau.

         Á fyrri hluta árs 2001 hafi átt sér stað viðræður milli stefnda Holbergs og stefnanda um ýmsar ábyrgðir stefnda Holbergs gagnvart stefnanda og jafnframt, að stefnandi félli frá veðsetningum á hlutum stefnda í Netverki plc.  Þau mál hafi aldrei verið leidd til lykta að öðru leyti en því, að gengið hafi verið frá nýjum veðsamningi, sem hafi átt að fella eldri veðsamning úr gildi.  Í þessum nýja veðsamningi hafi verið veðsettir 100.000 hlutir í Netverki plc., sbr. dskj. nr. 10, en í hinum eldri hafi 250.000. hlutir í Netverki plc. verið veðsettir stefnanda.  Eftir gerð þessa veðsamnings hafi ekki átt sér stað frekari viðræður milli aðila.

         Í stefnu sé því haldið fram, að veðsamningurinn feli í sér skuldbindingu af hálfu stefnda Fóns ehf. og stefnda Holbergs, þ.e. að Fónn ehf. taki að sér að vera skuldari á yfirdráttarskuld Ísnets ehf. og sjálfskuldarábyrgð Holbergs á þeirri skuld.  Þessu sé alfarið mótmælt.  Samningur þessi sé einungis veðsamningur, eins og fram komi í meginmáli hans og sé háður því, að gerður sé sérstakur lánasamningur að fjárhæð kr. 25.000.000.  Sá lánasamningur hafi hins vegar aldrei verið gerður milli Fóns ehf. og Ísnets ehf., og af hálfu stefnda, Holbergs hafi aldrei staðið til að gera slíkan samning.  Það sé síðan allt annað mál, að stefnandi hafi tekið ákvörðun upp á sitt eindæmi að færa skuld Ísnets ehf. yfir á tékkareikning stefnda Fóns ehf.

         Um það, hvað felist í veðsamningnum, verði ekki til lykta leitt í máli þessu. Samkvæmt 21. og 22. gr. samningsins hafi aðilar skuldbundið sig til að bera ágreining um túlkun samningsins undir enska dómstóla og fara að enskum lögum.  Álit bresks lögfræðifirma breyti engu þar um.

         Grundvöllur málssóknar stefnanda sé gögn á enskri tungu.  Skjóti það skökku við í ljósi þess, að um málefni íslenzkra aðila sé að ræða.  Þó svo líta megi á Netverk plc. sem enskt fyrirtæki og að hluta til í eigu erlendra aðila, séu allir þeir aðilar, sem komi að máli þessu, íslenzkir, og komi hinir erlendu aðilar þar hvergi nærri.  Hafi verið um það að ræða, að stefndi Holberg eða Fónn ehf. hefðu ætlað að taka yfir skuld Ísnets ehf., þá hefði lánasamningurinn verið gerður á íslenzku og milli þessara aðila.  Sama hafi átt við um yfirlýsinguna, sem stefndi Holberg gaf hinn 27. febr. 2001.  Ef hann hefði ætlazt til þess, að hún færi til stefnanda, hefði hann haft hana á íslenzku, og í henni komið ótvírætt fram ósk um, að skuldin yrði færð á reikning Fóns ehf. auk yfirlýsingar af hans hálfu um persónulega ábyrgð á tékkareikningnum.

III.

Málsástæður stefnanda:

Stefnandi byggir kröfur sínar í frumstefnu á því m.a., að á árunum 1999 og 2000 hafi stefndi Holberg í verki viðurkennt persónulega greiðsluskyldu sína á skuldinni með því að greiða inn á hana með söluandvirði hlutabréfa sinna í Netverki plc.

         Með yfirlýsingu ("Statement"), gerðri í Reykjavík 27. febrúar 2001, hafi stefndi Holberg viðurkennt umrædda skuld Ísnets ehf. sem sína eigin persónulegu skuld gagnvart kröfuhafanum að skuldinni.  Bein, persónuleg greiðsluskylda stefnda Holbergs standi óhögguð, þótt skuldaraskipti hafi orðið á samskuldara hans með því að Fónn ehf. tók yfir greiðsluskuldbindingu Ísnets ehf., eins og greini að framan.  Greiðslukrafa stefnanda á hendur stefnda sé reist á framangreindri yfirlýsingu.

         Persónulega greiðsluskyldu sína hafi stefndi Holberg síðar staðfest í veðsamningi (Deed of Charge over Shares), dags. 25. apríl 2001, þar sem stefndi Holberg hafi sett stefnanda að handveði 100.000 hluti í Netverki plc. til tryggingar yfirdráttarskuldinni.  Í 2. grein þess hafi verið kveðið á um greiðsluábyrgð stefnda Holbergs á skuldinni.  Stefnandi hafi aflað lögfræðilegs álits hjá bresku lögfræðifirma á stöðu greiðsluábyrgðar stefnda Holbergs samkvæmt framangreindum veðsamningi að breskum rétti, sem sé á þann veg, að um sé að ræða beina, persónulega greiðsluábyrgð stefnda Holbergs á umræddri skuld.

         Í nóvember 2001 hafi stefnandi gjaldfellt yfirdráttarskuldina.  Þann 16. nóvember 2001 hafi staða yfirdráttar með áföllnum vöxtum verið kr. 27.367.767,66.  Innheimtubréf hafi verið sent stefndu 16. nóvember 2001.  Dráttarvaxta sé krafizt frá 16. nóvember 2001, en þá hafi innheimtuaðgerðir stefnandi á hendur stefnda hafizt.

         Krafa um virðisaukaskatt á málskostnað sé á því byggð, að skv. 10. tl. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, sé bankastarfsemi undanþegin virðisauka­skatti, og því sé stefnanda nauðsyn á því að fá dóm um greiðsluskyldu stefndu á virðisauka­skatti af málskostnaði.

         Stefndu hafi ekki sinnt greiðslukröfum, og sé stefnandi því knúinn til að innheimta skuldina með málsókn.

         Kröfu sína um staðfestingu á kyrrsetningu byggir stefnandi á því, að þau skilyrði kyrrsetningar hafi verið fyrir hendi, að kröfu hans hafi ekki þegar mátt fullnægja með aðför og að sennilegt hafi mátt telja, ef kyrrsetning hefði ekki farið fram, að dregið hefði mjög úr líkindum á því, að fullnusta hennar hefði tekizt eða fullnusta hefði orðið verulega örðugri.

         Stefnandi byggir kröfur sínar á reglum samninga- og kröfuréttar um skuldbindingar­gildi samninga og greiðsluskyldu lögmætra fjárskuldbindinga.  Kröfu um dráttarvexti styður stefnandi við III. kafla laga um vexti og verð­tryggingu nr. 38/2001.  Krafa um málskostnað er byggð á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála í héraði.  Krafa um greiðslu virðisaukaskatts á málskostnað er byggð á I. og II. kafla laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988.  Um varnarþing vísar stefnandi til 32. og 33. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

         Í yfirliti stefnanda yfir talningu málsástæðna, sem lagt var fram að ósk dómara við aðalmeðferð málsins með vísan til 1. mgr. 103. gr. l. nr. 91/1991, eru málsástæður stefnanda þessar:

a)      Til skuldarinnar hafi verið stofnað í upphafi samkvæmt skriflegri ósk stefnda Holbergs Mássonar og með sjálfsskuldarábyrgð hans, sbr. bréf stefnda Holbergs til stefnanda á dskj. nr. 29.

b)      Stefndi Holberg Másson hafi ítrekað staðfest ábyrgð sína á skuldinni skriflega, sbr. þríhliða samkomulag á dskj. nr. 31 og yfirlýsingu á dskj. nr. 9 og 21 og yfirlýsingu á dskj. nr. 38.

c)      Stefndi Holberg hafi viðurkennt ábyrgð sína á skuldinni í verki með greiðslum vegna sölu hlutabréfa í Netverki plc., sem komið hafi til frádráttar skuldinni, sbr. kvittanir á dskj. nr. 13 og 14.

d)      Afgerandi sönnunargögn styðji þá staðhæfingu, að yfirfærsla hinnar umstefndu skuldar frá Ísneti ehf. yfir á stefnda Fón ehf. hafi átt sér stað að ósk stefnda Holbergs Mássonar, með vitund og vilja hans, og gegn áframhaldandi sjálfsskuldarábyrgð hans á skuldinni, sbr. bréf Birgis Guðmundssonar til Netverks plc. á dskj. nr. 34, tillögu viðskiptastofu stefnanda til lánanefndar á dskj. nr. 35, skeyti Árna Þórs Þorbjörnssonar til stefnda Holbergs á dskj. nr. 37, yfirlýsingu stefnda Holbergs í samningi um veðsetningu hlutabréfa á dskj. nr. 38 og bréfi Birgis Guðmundssonar til Netverks plc. á dskj. nr. 38.

e)      Tómlæti stefnda Fóns ehf. styðji þá staðhæfingu, að yfirfærsla hinnar umstefndu skuldar frá Ísneti ehf. yfir á stefnda Fón ehf. hafi átt sér stað með vitund og vilja þess félags.  Fyrir liggi, að hið stefnda félag hafi tekið við reikningsyfirlitum frá stefnanda, sbr. t.d. dskj. nr. 57, sem hafi borið skuldinni skýrt vitni, án þess að hreyfa andmælum við henni.

f)       Umrædd yfirdráttarheimild hafi ávallt verið notuð til fjárfestinga í þágu stefnda Holbergs Mássonar persónulega eða félaga í hans eigu og undir hans stjórn.

 

         Krafa um staðfestingu kyrrsetningar er byggð á sömu sjónarmiðum og í stefnu.

 

Málsástæður stefnda:

Stefndi Fónn ehf. byggir sýknukröfu sína á eftirgreindum málsástæðum:

1.      Félagið hafi, hvorki með yfirlýsingu eða samningi, fallizt á yfirtöku á skuld Ísnets ehf., eða heimilað stefnanda með öðrum hætti að færa skuld Ísnets ehf. á reikningi nr. 110-26-206 yfir á reikning Fóns ehf. hjá stefnanda nr. 110-26-8990.

2.      Í yfirlýsingu stefnda, Holbergs Mássonar, til endurskoðanda Netverks plc., dags. 27. febr. 2001, komi hvergi fram fyrirætlun eða skuldbinding þess efnis, að skuldin verði færð yfir á nafn Fóns ehf.

3.      Fónn ehf. hafi engan lánasamning gert við stefnanda eða óskað eftir að taka á sig skuldbindingar fyrir Ísnet ehf.

 

         Stefndi, Holberg Másson, byggir sýknukröfu sína á eftirgreindum málsástæðum:

1.      Stefndi hafi hvorki í orði né verki fallizt á að taka á sig ábyrgð á tékkareikningi Fóns ehf.

2.      Yfirlýsingin frá 27. febr. 2001, sem afhent hafi verið PWC, feli ekki í sér ábyrgð á tékka­reikningi Fóns ehf., heldur sé þar einungis staðfest, að skuldin sé óviðkomandi Ísneti og Netverki.

3.      Veðsamningurinn (deed of charge over shares) hafi einungis falið í sér, að bankanum hafi verið sett að handveði 100.000 hlutir í Netverki.  Frekari ályktanir verði ekki dregnar af þeim samningi.  Telji stefnandi, að í þeim samningi felist ábyrgð á tékkareikningi Fóns ehf., verði hann að bera það mál undir brezka dómstóla til úrlausnar.

         Grundvöllur málsins af hálfu stefnanda hafi breytzt verulega, og raunar vendi stefnandi kvæði sínu í kross með málshöfðun þessari.  Í stað þess að byggja á óheimilum yfirdrætti, eins og gert hafi verið í fyrra málinu, ákveði stefnandi að freista þess að byggja málið upp á skjölum, alls ótengdum stefnanda, og byggja kröfur sínar á staðhæfingum um það, með hvaða hætti til skuldarinnar og ábyrgðar Holbergs hafi verið stofnað.  Með þessum málatilbúnaði sé stefnandi m.ö.o. að segja, að sú krafa, sem hann hafi haldið fram í fyrra málinu, ætti ekki við rök að styðjast.  Hljóti það að teljast ámælisverður málflutningur og eigi ekki að líðast af bankastofnun.

         Stefndu vísa til almennra reglna kröfu- og samningaréttar.  Í því sambandi bendi stefndu sérstaklega á þær reglur, sem gildi um stofnun kröfu, og hvenær samningur teljist kominn á milli aðila.  Þá bendi stefndu á ákvæði 2. tl. 4. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, hvað varði túlkun á veðsamningi aðila frá 27. apríl 2001.  Um málskostnað vísa stefndu til 131. gr. einkamálalaga og laga um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun.

                Í yfirliti stefnda yfir talningu málsástæðna, sem lagt var fram að ósk dómara við aðalmeðferð málsins með vísan til 1. mgr. 103. gr. l. nr. 91/1991, eru málsástæður stefndu þessar:

Stefndi Fónn ehf.:

1.      Að stefndi hafi ekki stofnað til þeirrar skuldar, sem fram komi á tékkareikningi hans hjá stefnanda nr. 110-26-8990.

2.      Að stefndi hafi, hvorki hinn 2. maí 2001 né fyrir það tímamark, gefið stefnanda heimild til að færa yfirdráttarskuld Ísnets ehf. á reikningi nr. 0111-26-206, að fjárhæð kr. 24.775.764, yfir á reikning stefnda nr. 110-26-8990.

3.      Að stefndi hafi hvorki undirritað samning um yfirtöku á skuld Ísnets ehf. né lýst því yfir, að félagið hafi undirgengizt þá skuldbindingu.

4.      Að stefndi hafi ekki óskað eftir yfirdráttarheimild hjá stefnanda.

 

Stefndi Holberg Másson:

1.      Að stefndi hafi ekki undirgengizt ábyrgð á reikningi Fóns ehf. fyrir skuld að fjárhæð kr. 24.775.764, sem skráð hafi verið á nafni Ísnets ehf. á reikningi nr. 0111-26-106.

2.      Að stefndi hafi ekki heimilað persónulega eða f.h. stefnda Fóns ehf., að reikningur Fóns ehf. yrði skuldfærður fyrir yfirdráttarskuld Ísnets ehf. að fjárhæð kr. 24.775.764, eða að hann hafi gengizt undir ábyrgð á þeim reikningi eða þeirri skuld.

3.      Að yfirlýsing hans, dags. 27. febrúar 2001, hafi verið send endurskoðanda Netverks plc. til notkunar í bókhaldi félagsins.  Yfirlýsingin hafi hvorki verið rituð til stefnanda né hafi stefndi afhent stefnanda afrit af þeirri yfirlýsingu.  Yfirlýsingin geti því ekki verið grundvöllur ábyrgðar á reikningi Fóns ehf., enda hvergi tekið fram í yfirlýsingunni, að stefndi ætlaði að gangast undir sjálfsskuldarábyrgð á þeim reikningi eða öðrum reikningi.

4.      Að veðsamningurinn, sem lagður hafi verið fram í málinu, feli ekki í sér ábyrgð stefnda samkvæmt íslenzkum lögum á skuld Ísnets ehf. eða Fóns ehf. eða yfirtöku á skuld Ísnets ehf.  Enginn lánasamningur hafi verið gerður samhliða veðsamningi þessum, sem sé grundvöllur gildi hans.  Þá hafi veðsamningur þessi enga þýðingu í málinu, enda sé skýrt tekið fram í honum að túlka eigi hann í samræmi við brezk lög og af brezkum dómstólum.

 

         Krafa stefndu um dagsektir sé byggð á því, að um ólögmætt ástand sé að ræða, með því að reikningur Fóns ehf. sé neikvæður um tæpar kr. 30.000.000.  Sé nauðsynlegt, falli dómur stefndu í hag, að beita stefnanda þrýstingi til að aflétta hinu ólögmæta ástandi.

         Krafa stefnda um, að kyrrsetningin falli niður, byggist á því, að hvorki hafi verið efnisleg né formleg skilyrði fyrir þeirri kröfu.  Krafa stefnanda eigi ekki við rök að styðjast og engin hætta hafi verið á undanskoti eigna.

         Krafa um skaðabætur sé byggð á álitshnekki, sem stefndu telja sig hafa orðið fyrir vegna kyrrsetningarinnar og að þeim hafi ekki verið unnt að nýta eignirnar, sem kyrrsettar voru.

         Við aðalmeðferð mótmælti lögmaður stefndu breyttum kröfugrundvelli vegna nýrra málsástæðna stefnanda.

IV.

Forsendur og niðurstaða:

Í stefnu er greiðslukrafa stefnanda á hendur stefnda Holbergi byggð á yfirlýsingu hans á dskj. nr. 9.  Þá er vísað í staðfestingu stefnda Holbergs á persónulegri greiðsluskyldu hans á dskj. nr. 10.

         Í endanlegum málatilbúnaði stefnanda byggir hann á því, að til skuldarinnar hafi verið stofnað með bréfi stefnda Holbergs til stefnanda á dskj. nr. 29, en það skjal var fyrst lagt fram í kyrrsetningarmálinu, sem sameinað var máli þessu þann 2. apríl sl., eða tveimur dögum fyrir aðalmeðferð málsins.  Þá byggir hann á þríhliða samkomulagi milli stefnanda, stefnda Holbergs og Netverks plc., sem einnig var fyrst lagt fram í máli þessu þann 2. apríl sl. sem eitt af gögnum í kyrrsetningarmálinu.  Einnig vísar hann til dskj. nr. 9 sem staðfestingu á ábyrgð sinni, sem og til dskj. nr. 38, en það er sama skjal og lagt var fram sem dskj. nr. 10.  Þá byggir stefnandi einnig á tómlæti stefnda Fóns ehf., en sú málsástæða hefur ekki komið fram fyrr, en í stefnu er ekkert vikið að greiðsluskyldu stefnda Fóns ehf., þegar fjallað er um málsástæður.  Ekki er þó gerð sérstök athugasemd við þann málatilbúnað af hálfu stefnda.  Önnur gögn, sem stefnandi vísar til kröfum sínum til stuðnings, voru fyrst lögð fram í kyrrsetningarmálinu og komu inn í mál þetta við sameiningu málanna.  Var þannig lagt fram 41 skjal úr kyrrsetningarmálinu.  Þar af höfðu nokkur verið lögð fram áður, en flest voru ný.  Þykir mega fallast á það með stefndu, að með tilkomu þeirra gagna, svo og með hliðsjón af endanlegum málsástæðum stefnanda í málinu, hafi kröfugrundvellinum verið breytt á þann hátt á lokastigum málsins, að brýtur gegn 5. mgr. 105. gr., sbr. og e- og g-lið 80. gr. l. nr. 91/1991.  Að svo komnu verður ekki lagður á málið efnisdómur og ber að vísa því frá dómi ex officio. 

         Stefnandi skal greiða stefnda málskostnað, sem þykir eftir atvikum hæfilega ákveðinn kr. 250.000.

         Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

 Málinu er vísað frá dómi ex officio.

         Stefnandi, Landsbanki Íslands hf., greiði stefndu, Fóni ehf. og Holbergi Mássyni, kr. 250.000 í  málskostnað.