Hæstiréttur íslands
Mál nr. 685/2009
Lykilorð
- Kærumál
- Dómkvaðning matsmanns
- Aðild
- Úrskurður héraðsdóms felldur úr gildi
|
|
Þriðjudaginn 15. desember 2009. |
|
Nr. 685/2009. |
Kaupás hf. (Indriði Þorkelsson hrl.) gegn Högum hf. (Þórður Bogason hrl.) |
Kærumál. Dómkvaðning matsmanna. Aðild. Úrskurður héraðsdóms felldur úr gildi.
Felldur var úr gildi úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu K hf. um að dómkveðja tvo matsmenn til að meta fjárhagslegt tjón vegna reksturs KR sem félagið taldi sig hafa orðið fyrir vegna ólögmætrar háttsemi H hf. Héraðsdómur hafnaði beiðninni á þeim grundvelli að K hf. væri móðurfélag, en KB ehf. dótturfélag K hf. hafi rekið KR. K hf. ætti því ekki lögvarða hagsmuni af því að fá ætlað tjón metið heldur KB ehf. Í dómi Hæstaréttar kom fram að lögð hafi verið fram gögn sem staðfesti að verslanir KR hafi verið reknar undir kennitölu K hf. og enginn rekstur hafi verið hjá KB ehf. Var því fallist á að K hf. ætti lögvarinna hagsmuna að gæta við að fá mat um ætlað tjón sitt. Þá var talið að málsástæða H hf. um að það reki þrjár verslanir sem hver um sig njóti aðildarhæfis væri of seint fram komin. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og fallist á kröfu K hf. um dómkvaðningu matsmanna.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 25. nóvember 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 2. desember sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. nóvember 2009, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um dómkvaðningu matsmanna. Kæruheimild er í c. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að lagt verði fyrir héraðsdómara að kveðja tvo menn til að framkvæma mat í samræmi við matsbeiðni sóknaraðila 21. júlí 2009. Hann krefst einnig kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
I
Af hálfu sóknaraðila er fram komið að hann hyggist höfða mál á hendur varnaraðila vegna þess fjárhagslega tjóns, sem hann telur sig hafa orðið fyrir vegna ólögmætrar háttsemi varnaraðila, sem Samkeppniseftirlitið hafi talið vera andstæða samkeppnislögum og staðfest hafi verið með úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála. Um heimild til að leita eftir mati á tjóni sínu áður en mál sé höfðað vísar sóknaraðili til XII. kafla laga nr. 91/1991. Með hinum kærða úrskurði var matsbeiðni sóknaraðila hafnað. Í forsendum héraðsdóms var vísað til þess að óskað sé mats á því hvaða tjóni háttsemi varnaraðila hafi valdið sóknaraðila vegna reksturs Krónunnar, en ekki vegna reksturs annarra verslana, sem sóknaraðili kveðist eiga. Krónubúðin sé einkahlutafélag og dótturfélag sóknaraðila, sem sé móðurfélagið. Sóknaraðili eigi því ekki lögvarða hagsmuni af því að fá ætlað tjón bætt heldur dótturfélag hans, Krónubúðin ehf. Á þeim grundvelli var matsbeiðni sóknaraðila hafnað.
II
Með kæru sinni lagði sóknaraðili fyrir Hæstarétt yfirlýsingu 20. nóvember 2009 frá KPMG hf., endurskoðanda sóknaraðila, þar sem staðfest var að verslanir Krónunnar hafi verið reknar undir kennitölu sóknaraðila allt frá opnun fyrstu verslunar Krónunnar 1999. Þar var einnig staðfest að enginn rekstur hafi verið hjá Krónubúðinni ehf. allt frá stofnun félagsins, sem ráða má að hafi verið á árinu 2000. Kærunni fylgdu einnig afrit ársreikninga Krónubúðarinnar ehf. 2005 til 2008 að báðum árum meðtöldum, þar sem fram kemur að engin starfsemi hafi verið hjá félaginu á nefndu tímabili. Reikningarnir eru óendurskoðaðir, en bera áritun endurskoðanda um að hann hafi aðstoðað Krónubúðina ehf. við að leggja fram ársreikning sem sé í samræmi við lög og góða reikningsskilavenju. Að því virtu, sem að framan greinir, verður fallist á með sóknaraðila að hann eigi lögvarinna hagsmuna að gæta við að fá mat um ætlað tjón sitt. Sú málsástæða varnaraðila er haldlaus að ekki sé unnt að krefjast mats um ætlað tjón meðan ekki liggi fyrir úrslit í máli, sem hann kveðst hafa höfðað gegn Samkeppniseftirlitinu vegna atvika, sem getið var í kafla I að framan.
Fyrir Hæstarétti hefur varnaraðili borið því við að hann eigi og reki „þrjár matvöruverslanir“, en hvert þessara félaga hans njóti aðildarhæfis í skilningi laga nr. 91/1991. Því hafi borið að beina kröfu um að fengið yrði mat að „fyrirtækinu Bónus”, sem hafi tekið þátt í verðstríði, sem sé tilefni fyrir kröfu sóknaraðila og beri það ætlaða sök í málinu, en þar geti ekki verið um varnaraðila að ræða. Þessi málsástæða er of seint fram komin og kemur þegar af þeirri ástæðu ekki til álita við úrlausn málsins.
Samkvæmt öllu framanröktu verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og fallist á kröfu sóknaraðila. Varnaraðili verður dæmdur til að greiða kærumálskostnað, eins og nánar segir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi. Fallist er á kröfu sóknaraðila, Kaupáss hf., um dómkvaðningu matsmanna.
Varnaraðili, Hagar hf., greiði sóknaraðila 200.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. nóvember 2009.
Með matsbeiðni, sem barst héraðsdómi 23. júlí sl., hefur matsbeiðandi, Kaupás hf., Bíldshöfða 20, Reykjavik farið þess á leit við Héraðsdóm Reykjavikur, með vísan til XII. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, að dómkvaddir verði tveir sérfróðir og óvilhallir matsmenn til þess að framkvæma mat í samræmi við nánar tilgreindar matsspurningar.
Matsþoli, Hagar hf., Hagasmára 1, Kópavogi mótmælti því á dómþingi 9. október sl. að dómkvaðning næði fram að ganga. Málið var flutt 26. október sl. og tekið til úrskurðar. Matsþoli krefst þess að synjað verði um dómkvaðningu matsmanns. Matsbeiðandi krefst þess að dómkvaðningin nái fram að ganga.
I
Matsbeiðandi vísar til þess að með ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 64/2008, Misnotkun Haga hf. á markaðsráðandi stöðu sinni á matvörumarkaði, sem staðfest hafi verið með úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála nr. 2/2009, hafi verið komist að þeirri niðurstöðu að matsþoli hefði misnotað markaðsráðandi stöðu sína á matvörumarkaði í andstöðu við 11. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005.
Samkvæmt ákvörðun Samkeppniseftirlitsins hafi brot matsþola einkum falist í svokallaðri skaðlegri undirverðlagningu mjólkurvara sem matsþoli hafi verið talinn hafa stundað á árunum 2005-2006. Hafi það verið mat Samkeppniseftirlitsins að háttsemin hafi meðal annars verið til þess fallin að viðhalda og styrkja með ólögmætum hætti stöðu matsþola á markaðinum fyrir sölu á dagvörum í matvöruverslunum. Háttsemin hafi verið til þess fallin að hafa útilokunaráhrif gagnvart helstu keppinautum, þ.m.t. lágvöruverslunum í eigu matsbeiðanda, einkum Krónuna. Hafi brotin verið talin alvarleg.
Í úr
skurði
áfrýjunarnefndar samkeppnismála hafi niðurstaða Samkeppniseftirlitsins verið
staðfest. Í forsendum úrskurðarins hafi meðal annars staðið:
„Áfrýjunarnefndin telur, að Samkeppniseftirlitið hafi fært fram fullnægjandi gögn og rök fyrir því, að áfrýjandi hafi misnotað hina markaðsráðandi stöðu sína með því að selja nánar tilgreindar mjólkurvörur um langan tíma á undirverði í skilningi samkeppnisréttar. Óumdeilt er að áfrýjandi hafi selt tilgreindar mjólkurvörur undir breytilegum kostnaði. Með því hátterni sínu hefur áfrýjandi brotið gegn ákvæðum 11. gr. samkeppnislaga eins og nánar er rakið í hinni kærðu ákvörðun Samkeppniseftirlitsins ..."
Matsbeiðandi telur sig hafa orðið fyrir verulegu fjárhagslegu tjóni vegna þeirrar háttsemi sem talin hafi verið andstæð samkeppnislögum samkvæmt ákvörðun Samkeppniseftirlitsins og staðfest hafi verið með úrskurði áfrýjunarnefndarinnar. Tjónið sé fjölþætt. Telur matsbeiðandi tjón sitt meðal annars falið í beinum tekjumissi. Þá hafi viðskiptavild matsbeiðanda skaðast. Enn fremur hafi háttsemin leitt til þess að fjárhagslegur styrkleiki matsbeiðanda sé ekki sá sami og ella væri, sem geti jafnframt leitt af sér ýmiss konar tjón, svo sem i formi hærri fjármögnunarkostnaðar og missi framtíðarhagnaðar. Þá hafi matsbeiðandi haft verulegan kostnað, meðal annars í formi vinnu og aðkeyptrar þjónustu, vegna hinnar ólögmætu háttsemi.
Þá sé tjónið vegna hinnar ólögmætu háttsemi, eðli málsins samkvæmt, ekki bundið við mjólkurvörur, enda ljóst að skert markaðsstaða matsbeiðanda á þeim markaði skerði um leið stöðu hans fyrir aðrar vörur, þar sem mjólkurvörur og aðrar vörur séu yfirleitt keyptar saman.
Þá telur matsbeiðandi að matsþoli hafi einnig selt fleiri vörur undir kostnaðarverði eða eftir atvikum beitt sértækri verðlækkun gagnvart samkeppnisaðilum, þ.m.t. sér, m.a. að því er varði tilteknar tegundir annarra mjólkurvara en rannsókn Samkeppniseftirlitsins hafi tekið til, svo og til annarra vöruflokka en mjólkurvara, þ.e. algengrar dagvöru.
Matsbeiðandi kveðst hafa látið gera úttekt á fjártjóni sem rekja megi til tapaðrar framlegðar vegna samkeppnisbrota matsþola. Við mat á því fjártjóni hafi verið litið til mjólkurvara þeirra, sem rannsókn Samkeppniseftirlitsins hafi tekið til, svo og til annarra mjólkurvara, og einnig til algengrar dagvöru, sem matsbeiðandi telji matsþola hafa selt undir kostnaðarverði. Þá hafi matsbeiðandi einnig látið áætla tjón sitt allt til sl. áramóta, en talið sé að samkeppnisbrot matsþola séu ekki bundin við tímabil það sem Samkeppniseftirlitið miðaði rannsókn sina við, heldur nái allt til dagsins í dag.
Vegna framangreinds hafi matsbeiðandi ritað matsþola bréf, dags. 3. júní 2009, og krafið matsþola um skaðabætur. Matsþoli hafi hafnað kröfugerð matsbeiðanda með bréfi dags. 8. júlí sl. Telji matsbeiðandi því nauðsynlegt að höfða skaðabótamál á hendur matsþola og krefja hann um skaðabætur vegna alls þess tjóns sem matsbeiðandi telji sig hafa orðið fyrir.
Í samræmi við framangreint óskað matsbeiðandi þess að matsmenn létu í té ítarlega, rökstudda og skriflega álitsgerð um neðangreind atriði:
1. Má telja líklegt að matsbeiðandi hafi, vegna reksturs Krónunnar, orðið fyrir fjártjóni i tengslum við þá háttsemi sem talin var ólögmæt i ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 64/2008, sbr. og úrskurð áfrýjunarnefndar samkeppnismála nr. 2/2009, þ.e. frá 1. mars 2005 til 30. apríl 2006 ?
2. Ef svarið við spurningu 1 er játandi, hvert er líklegt fjártjón matsbeiðanda, m.a. að teknu tilliti til eftirfarandi atriða; líklegt tjón vegna sölu á vörum undir kostnaðarverði, tapaðri framlegð miðað við að ekki hefði komið til ólögmætrar samkeppni af hálfu matsþola, annað tap, s.s. tap vegna skertrar markaðshlutdeildar á matvörumarkaði á tímabilinu og til framtíðar?
3. Ef háttsemi, sem talin var ólögmæt i ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 64/2008, sbr. og úrskurð áfrýjunarnefndar samkeppnismála nr. 2/2009, er talin hafa viðgengist á tímabilinu frá. 1. maí 2006 til 31. des. 2008, hvort telja megi líklegt að matsbeiðandi, vegna reksturs Krónunnar, hafi orðið fyrir fjártjóni af þeim sökum ?
4. Ef svarið við spurningu 3 er játandi, hvert er líklegt fjártjón matsbeiðanda, m.a. að teknu tilliti til eftirfarandi atriða; líklegt tjón vegna sölu á vörum undir kostnaðarverði, tapaðri framlegð miðað við að ekki hefði komið til ólögmætrar samkeppni af hálfu matsþola, annað tap, s.s. tap vegna tapaðrar markaðshlutdeildar á matvörumarkaði á tímabilinu og til framtíðar?
5. Við matið óskast tjón, ef til kemur, sundurgreint miðað við eftirfarandi vöruflokka, fyrir hvort tímabil um sig (sp. 1 og 3):
a. 17 helstu mjólkurvörur (sbr. meðf. lista A)
b. Aðrar mjólkurvörur (sbr. meðf. lista B)
c. Aðrar vörur (sbr. meðf. lista C)
II
Til stuðnings kröfu sinni vísar matsþoli til þess að ákvörðun Samkeppniseftirlitsins sé lögleysa, haldin ýmsum annmörkum. Af þeim sökum sé nú rekið mál fyrir dómstólum enda sé það lögvarinn réttur matsþola að fá afstöðu þeirra til málsins. Þar sem málsmeðferð sé ekki lokið fyrir dómstólum sé ekki grundvöllur til þess að dómkveðja matsmenn. Matsbeiðandi byggi matsbeiðni sína á 77. gr. laga nr. 91/1991 en samkvæmt því ákvæði sé þeim sem hafi lögvarinna hagsmuna að gæta heimilt að beiðast dómkvaðningar matsmanns án þess þó að hann hafi fyrst haft uppi kröfu vegna matsatriðis í dómsmáli. Á meðan mál vegna ákvörðunar Samkeppniseftirlitsins sé enn rekið fyrir dómstólum liggi ekki fyrir lögvarðir hagsmunir matsbeiðanda.
Matsþoli
kveður málið sprottið af verðstríði á matvörumarkaði sem Krónan hafi átt upptök
að. Hún eigi því með réttu að vera aðili að matsmálinu
. Orðalag matsbeiðninnar
styðji það enn frekar að Krónubúðin ehf. sé réttur aðili málsins þrátt fyrir að
matsbeiðandi sé eini hluthafi Krónubúðarinnar ehf.
III
Mál hefur ekki verið höfðað um það sakarefni sem matsbeiðni matsbeiðanda lýtur að. Öflun matsgerðar á þessu stigi sækir því stoð í XII. kafla laga nr. 91/1991, einkum 1. mgr. 77. gr. þeirra, en samkvæmt ákvæðinu er aðila, sem hefur lögvarinna hagsmuna að gæta, heimilt að beiðast dómkvaðningar matsmanns, þótt hann hafi ekki haft uppi kröfu vegna matsatriðis í dómsmáli, sé það gert til að staðreyna kröfu eða sanna atvik að baki henni. Aðili getur ekki notið þeirra lögvörðu hagsmuna, sem vísað er til í ákvæðinu, nema hann sé sá, sem með réttu gæti sótt í dómsmáli kröfu á grundvelli matsgerðarinnar.
Matsbeiðandi hefur ekki skýrt aðild sína á annan hátt en þann að vísa til þess að hann eigi margar verslanir sem hafi orðið fyrir tjóni vegna háttsemi matsþola þar á meðal verslunina Krónuna (Krónubúðin ehf.)
Í matsbeiðni óskar matsbeiðandi mats á því hvaða tjóni meint ólögmæt háttsemi matsþola hafi valdið matsbeiðanda vegna reksturs Krónunnar (Krónubúðarinnar ehf.) en ekki vegna annarra verslana sem matsbeiðandi kveðst eiga. Samkvæmt framlögðum gögnum er Krónubúðin einkahlutafélag. Samkvæmt þeirri fullyrðingu matsbeiðanda, að hann sé eigandi Krónubúðarinnar ehf., er matsbeiðandi móðurfélag en Krónubúðin ehf. dótturfélag hans. Þrátt fyrir þessi tengsl öðlast dótturfélagið réttindi í eigin nafni og ber skyldur sjálfstætt. Reynist meint ólögmæt háttsemi hafa valdið Krónubúðinni ehf. tjóni eignast Krónubúðin ehf. rétt til að fá það tjón bætt en ekki móðurfélagið, þ.e. matsbeiðandi.
Þar sem matsbeiðandi getur ekki verið handhafi þeirra réttinda sem hann reynir að fá staðreynd með matsgerð dómkvaddra matsmanna nýtur hann ekki þeirra lögvörðu hagsmuna sem ofangreint ákvæði vísar til. Því verður að hafna kröfu hans um dómkvaðningu matsmannanna.
Anna M. Karlsdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfum matsbeiðanda, Kaupáss hf., í máli þessu.