Hæstiréttur íslands

Mál nr. 543/2008


Lykilorð

  • Landamerki
  • Réttaráhrif dóms


Fimmtudaginn 28

 

Fimmtudaginn 28. maí 2009.

Nr. 543/2008.

Ásdís Hauksdóttir og

Emil Haraldsson

(Sveinn Guðmundsson hrl.)

gegn

Sigríði Jósefsdóttur og

Jósef Markússyni

(Már Pétursson hrl.)

 

Landamerki. Réttaráhrif dóms.

Á árinu 1998 gekk dómur Hæstaréttar, þar sem leyst var úr ágreiningi um landamerki milli jarðanna B og S. Með niðurstöðu dómsins var mörkuð lína meðfram lóðinni H í landi B og við það færðist hluti lóða við H yfir til SJ og J, sem voru eigendur að útskiptu landi úr landi S. Dómi Hæstaréttar var þinglýst. Síðar keyptu Á og E lóðir nr. 11 og 11 a við H og var þeim afsalað til þeirra á árunum 2003 og 2006. Með bréfi 4. nóvember 2006 var vakin athygli Á og E á dómi Hæstaréttar og því lýst að dregist hefði að færa girðinguna meðfram H til samræmis við dóminn. SJ og J höfðuðu síðar mál og kröfðust þess að viðurkennt yrði með dómi að landamerki milli útskipts lands þeirra úr landi S og lóða Á og E við H væru í samræmi við umræddan dóm. Fallist var á kröfu SJ og J, enda höfðu Á og E ekki vefengt að landamerkin ættu að vera með þeim hætti sem SJ og J kröfðust. Þá var talið að Á og E hefði við kaupin á umræddum landspildum mátt vera ljóst að deilt var um landamerki sem áhrif gætu haft á eignarréttindi þeirra.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 8. október 2008. Þau krefjast sýknu af kröfu stefndu og að stefndu verði dæmd óskipt til að greiða þeim málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndu krefjast staðfestingar héraðsdóms þó með þeirri breytingu að leiðrétt verði villa í dómsorði er lýtur að tilgreiningu á hnitum punkta 104 og 107. Að teknu tilliti til þess er krafa þeirra, að viðurkennt verði að landamerki milli útskipts lands þeirra úr landi Stærribæjar í Grímsnesi og lóða áfrýjenda í Brjánsstaðaparti úr Bjarkarlandi, en lóðirnar nefnast Heiðarbraut 11, landnúmer 194152, og Heiðarbraut 11 a, landnúmer 195564, séu á beinni línu dreginni frá Miðþúfu á Markahrygg, hnit X 633948,45, Y 402570,78, punkti 104 í dómi Hæstaréttar í málinu nr. 338/1996 er upp var kveðinn 25. júní 1998, í Brjánsstaða-Smalaskála, hnit X 633845,59, Y 401635,52, punkt 107 í sama dómi. Þau krefjast málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Stefndu skýra framangreinda leiðréttingu á þann veg að um sé að ræða lagfæringu á ritvillu í kröfugerð þeirra í héraðsstefnu og í dómsorði. Áfrýjendur lýstu því yfir að þeir gerðu ekki athugasemd við leiðréttinguna. Leiðréttingin, sem fellur innan marka 3. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, er stefndu heimil.

Hinn áfrýjaði dómur er staðfestur með vísan til forsendna að teknu tilliti til framangreindrar leiðréttingar.

Hvor aðili beri sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Viðurkennt er að landamerki milli útskipts lands stefndu, Sigríðar Jósefsdóttur og Jósefs Markússonar, úr landi Stærribæjar í Grímsnesi og lóða áfrýjenda, Ásdísar Hauksdóttur og Emils Haraldssonar, í Brjánsstaðaparti úr Bjarkarlandi, en lóðirnar nefnast Heiðarbraut 11, landnúmer 194152 og Heiðarbraut 11 a, landnúmer 195564, séu á beinni línu dreginni frá Miðþúfu á Markahrygg, hnit X 633948,45, Y 402570,78, punkti 104 í dómi Hæstaréttar í málinu nr. 338/1996 er upp var kveðinn 25. júní 1998, í Brjánsstaða-Smalaskála, hnit X 633845,59, Y 401635,52, punkt 107 í sama dómi.

Ákvæði hins áfrýjaða dóms um málskostnað skal vera óraskað.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

Dómur Héraðsdóms Suðurlands 10. júlí 2008.

Mál þetta, sem dómtekið var 29. maí sl., er höfðað með stefnu birtri 26. febrúar 2007.

Stefnendur eru Sigríður Jósefsdóttir, kt. 160844-3109, Hraunbrún 38, Hafnarfirði og Markús Jósefsson, f.h. ólögráða sonar síns, Jósefs Markússonar, kt. 241096-2709, Hjallabraut 2, Hafnarfirði.

Stefndu eru Ásdís Hauksdóttir, kt. 160555-3139, og Emil Haraldsson, kt. 280252-3639, bæði til heimilis að Drápuhlíð 12, Reykjavík.

Endanlegar dómkröfur stefnenda eru þær að viðurkennt verði með dómi að landamerki milli útskipts lands stefnenda úr landi Stærribæjar í Grímsnesi og lóða stefndu í Brjánsstaðaparti úr Bjarkarlandi, en lóðirnar nefnast Heiðarbraut 11, landnúmer 194152, og Heiðarbraut 11 A, landnúmer 195564, séu á beinni línu dreginni frá Miðþúfu á Markahrygg, hnit X 633845,59, Y 401635,52, punktur 104 á uppdrætti með dómi Hæstaréttar í málinu nr. 338/1996 er upp var kveðinn 25. júní 1998, í Brjánsstaða- Smalaskála hnit X 633845,59, Y 401653,52, punktur 107 á sama uppdrætti.  Þá er krafist málskostnaðar að mati dómsins.

Dómkröfur stefndu eru þær að þau verði sýknuð af öllum kröfum stefnenda og þeim verði gert að greiða stefndu málskostnað að mati dómsins.

Málavextir.

Málavextir eru þeir að árið 1989 fékk Hjörtur Jónsson á Brjánsstöðum í Grímsnes- og Grafningshreppi samþykktan skipulagsuppdrátt fyrir frístundabyggð á spildu úr landi Bjarkar sem faðir hans hafði keypt árið 1939 og sameinað Brjánsstöðum.  Árið 1991 setti hann upp merkjagirðingu milli Stærribæjar og Brjánsstaðaparts frá Smalaskála, sem á uppdráttum er merktur punktur 107 í þúfu sem hann taldi vera Miðþúfu á Markahrygg, einnig nefnd Miðmarkahryggur, en hún er merkt sem punktur 102 á uppdráttum og er hornmark jarðanna Svínavatns, Stærribæjar og Brjánsstaðaparts úr Bjarkarlandi samkvæmt landamerkjabréfum.  Með afsali dagsettu 21. júní 2003 var lóðarspildu merktri nr. 11 A við Heiðarbraut afsalað til stefndu, en seljendur voru Hjörtur Jónsson og Sonja Jónsdóttir á Brjánsstöðum.   Með afsali dagsettu 18. ágúst 2006 var lóðinni nr. 11 við Heiðarbraut afsalað til stefndu, en seljendurnir, Jón Sigmar Jónsson og Sólrún Hrönn Indriðadóttir munu hafa keypt lóðina af þeim Hirti og Sonju á Brjánsstöðum.

Haustið 1992 reis upp ágreiningur milli eigenda Svínavatns og Brjánsstaða um það hvar Miðmarkahryggur væri.  Hélt Jón Ingileifsson á Svínavatni því fram að hið rétta hornmark væri punktur 104 á uppdráttum en ekki punktur 102 sem Hjörtur hafði girt í.  Með dómi Héraðsdóms Suðurlands uppkveðnum 5. júní 1996 var fallist á að þúfan í punkti 104 væri hið rétta hornmark.  Með dómi Hæstaréttar Íslands uppkveðnum 25. júní 1998 var þessi niðurstaða staðfest.  Hafði héraðsdómi verið þinglýst 2. júlí 1996 og dómi Hæstaréttar var þinglýst 14. júlí 1998.  Var Hjörtur þá búinn að selja allar lóðirnar við Heiðarbraut.  Stefnendur voru eigendur að 25 % eignarhluta í jörðinni Stærribæ í Grímsnesi.  Hinn 9. desember 2003 var gengið frá landskiptagerð þar sem fjórðungshluta er útskipt og 17. desember 2003 samþykkti sveitarstjórnin landskiptagerðina og beiðni um stofnun nýbýlis með fyrirvara um að fyrir liggi staðfesting aðliggjandi jarða á aðliggjandi landamörkum.  Verði fallist á dómkröfur stefnenda virðist það leiða til þess að samtals 2.025 m² af lóðum stefndu falli til stefnenda, en ekki 2.875 m² eins og í stefnu greinir.

Með bréfi til stefndu dagsettu 4. nóvember 2006 var vakin athygli á framangreindum dómi Hæstaréttar og því lýst að dregist hefði að færa girðinguna meðfram Heiðarbraut til samræmis við dómlínu Hæstaréttar.

Málsástæður og lagarök stefnenda.

Stefnendur kveða mál þetta snúast um landamerkin á milli Stærribæjar og Brjánsstaðaparts úr Bjarkarlandi.  Hæstiréttur hafi dæmt um landamerkin milli Svínavatns og aðliggjandi jarða en ekki hafi verið dæmt um dómkröfulínuna í máli þessu.  Hæstiréttur hafi hins vegar sett niður með dómi sínum punktinn 104, en hann sé hornmarkið milli Svínavatns, Stærribæjar og Brjánsstaðaparts úr Bjarkarlandi.  Sé dómkröfulínan dregin úr þeim punkti í Brjánsstaða- Smalaskála, punkt 107, en hann sé óumdeilt hornmark milli Brjánsstaða, Minniborgar, Brjánsstaðaparts úr Bjarkarlandi og Stærribæjar.  Hafi þar í áratugi verið hornstaur allra merkjagirðinganna milli þessara jarða.

Málsástæður og lagarök stefndu.

Stefndu byggja á því að þau hafi nú þegar fengið afsal fyrir lóðinni og greitt að fullu gagngjald fyrir hana og í framhaldi þinglýst henni án athugasemda stefnenda.  Stefndu telja málatilbúnað stefnenda snúast um að það hafi fyrst verið með niðurstöðu Hæstaréttar 25. júní 1998 að ljóst hafi verið að landamerki milli Brjánsstaða og Stærribæjar breyttust með þeim hætti að hluti af lóðinni hafi fallið til stefnenda án þess að stærðin sé skilgreind í stefnu en vísað í kort af svæðinu.

Stefndu byggja á því að allt frá niðurstöðu Hæstaréttar í ofangreindu máli hafi stefnendur haldið að sér höndum gagnvart stefndu.  Hafi engin tilraun verið gerð til leiðréttinga eða að gera stefndu grein fyrir ágreiningi sem upp væri kominn milli stefnanda og seljanda lóðanna.  Telja stefndu sér hafa verið ókunnugt um ágreininginn allt þar til ritað hafi verið bréf og í framhaldi af því gefin út stefna á fyrsta ársfjórðungi síðasta árs.

Stefndu byggja á því að það sé viðurkennd höfuðregla að kröfuhafi verði að gæta réttar síns og halda honum til haga og verði hann að bera halla af vanrækslu á því sviði.  Hafi stefnendur því glatað kröfu sinni með tómlæti.  Hafi þau látið hjá líða lengur en hæfilegt þykir að gera einhverjar ráðstafanir til að tryggja ætlaðan rétt sinn eða viðgang kröfunnar.  Mæli rök með því að samskiptum aðila ljúki endanlega áður en mjög langt líði frá réttum efndatíma eða þegar ljóst hafi verið að hægt var að hafa kröfuna uppi.  Sé réttarreglum um tómlæti og tómlætisáhrif ætlað að stuðla að þessu markmiði.  Verði því að teljast mjög bagalegt gagnvart stefndu að vera knúðir til að afhenda eða greiða stefnendum hluta úr lóðinni allt að því tíu árum frá því stefnendum var ljóst að þau gætu átt kröfu á hendur stefndu.  Megi halda því fram að hefði krafan verið gild hefðu stefnendur gefið hana eftir vegna aðgerðarleysis.

Stefndu vísa til þinglýsingar- og traustfangsreglna og meginreglu um tómlæti og tómlætisáhrif.  Krafa um málskostnað er reist á 129. gr. og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.

Niðurstaða.

Eftir að niðurstaða Hæstaréttar Íslands lá fyrir eins og að framan greinir varð ljóst að girðingin meðfram Heiðarbraut frá hliðinu við Brjánsstaða-Smalaskála upp á Miðmarkahrygg afmarkaði ekki með réttum hætti Stærribæ og frístundabyggðina á Brjánsstaðaparti.  Þessari niðurstöðu réttarins var þinglýst 14. júlí 1998 og varð þá ljóst að færa yrði landamerkin til samræmis við niðurstöðuna.  Stefndu hafa að vísu krafist sýknu í máli þessu en þeir hafa ekki vefengt að landamerkin eigi að vera með þeim hætti sem í stefnu greinir.  Telja stefndu að stefnendur hafi glatað rétti sínum fyrir tómlæti og þá vísa þau til traustfangsreglna án nánari skýringar á þeirri málsástæðu og verður henni ekki frekar sinnt.  Þar sem stefndu hafa engin rök fært gegn því að landamerkin milli umrædds lands skuli vera eins og stefnendur hafa krafist verður fallist á kröfu stefnenda eins og nánar greinir í dómsorði.

Verður því að skoða hvort stefnendur hafi glatað rétti sínum fyrir tómlæti.  Stefndu keyptu umræddar spildur árin 2003 og 2006 en þá hafði verið leyst úr  ágreiningi milli eigenda Svínavatns og Brjánsstaða um það hvar Miðmarkahryggur væri, fyrst með dómi Héraðsdóms Suðurlands 5. júní 1996 og síðan með Hæstaréttardómi 25. júní 1998.  Báðum þessum dómum var þinglýst.  Með bréfi til stefndu dagsettu 4. nóvember 2006 var vakin athygli á framangreindum dómi Hæstaréttar og því lýst að dregist hefði að færa girðinguna meðfram Heiðarbraut til samræmis við dómlínu Hæstaréttar.  Þar sem engin viðbrögð urðu af hálfu stefndu höfðuðu stefnendur mál þetta.  Verður því að telja að stefndu hafi við kaupin á umræddum landspildum mátt vera ljóst að deilt var um landamerki sem áhrif gætu haft á eignarréttindi þeirra, en þá lá fyrir þinglýstur Hæstaréttardómur.  Ber því að hafna þeirri málsástæðu þeirra að stefnendur hafi glatað rétti sínum fyrir tómlæti.

Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.

Hjörtur O. Aðalsteinsson, dómstjóri kvað upp dóminn.  Dómsuppkvaðning hefur dregist fram yfir lögbundinn frest en lögmenn aðila töldu ekki þörf endurflutnings.

DÓMSORÐ:

Viðurkennt er að landamerki milli útskipts lands stefnenda úr landi Stærribæjar í Grímsnesi og lóða stefndu í Brjánsstaðaparti úr Bjarkarlandi, en lóðirnar nefnast Heiðarbraut 11, landnúmer 194152, og Heiðarbraut 11 A, landnúmer 195564, séu á beinni línu dreginni frá Miðþúfu á Markahrygg, hnit X 633845,59, Y 401635,52, punktur 104 á uppdrætti með dómi Hæstaréttar í málinu nr. 338/1996 er upp var kveðinn 25. júní 1998, í Brjánsstaða- Smalaskála hnit X 633845,59, Y 401653,52, punktur 107 á sama uppdrætti.

Málskostnaður fellur niður.