Hæstiréttur íslands

Mál nr. 172/2015


Lykilorð

  • Lögmaður
  • Málflutningsumboð
  • Stjórnvaldsúrskurður


                                            

Fimmtudaginn 17. desember 2015.

Nr. 172/2015.

Kári Stefánsson 

(Sigurður G. Guðjónsson hrl.)

gegn

Karli Axelssyni

(Guðjón Ármannsson hrl.)

Lögmaður. Málflutningsumboð. Stjórnvaldsúrskurður.

KS krafðist ógildingar á úrskurði úrskurðarnefndar lögmanna um þóknun lögmannsins KA og lögmannsstofu hans vegna vinnu sem unnin var af þeirra hálfu í þágu KS. Byggði KS meðal annars á því að úrskurðarnefndin hefði farið út fyrir valdssvið sitt samkvæmt lögum um lögmenn nr. 77/1998 er hún kvað upp úrskurð um þóknun lögmannsins og lögmannsstofunnar og að KA hefði framselt málflutningsumboð sitt án samþykkis KS til annarra lögmanna á stofunni. Talið var að heimild samkvæmt 26. gr. laga um lögmenn, til að bera ágreining um endurgjald undir úrskurðarnefnd lögmanna, tæki bæði til vinnu lögmannsins sjálfs og annarra sem ynnu á hans ábyrgð og gæti það ekki haft áhrif á málskotsréttinn samkvæmt áðurnefndu ákvæði hvort reikningar hefðu verið gefnir út í nafni félags eða lögmannsins persónulega. Hefði úrskurðarnefndin því ekki farið út fyrir valdsvið sitt er hún kvað á um hæfilegt endurgjald fyrir vinnu KA og annarra á lögmannsstofunni. Þá hefði KS verið ljóst að annar lögmaður á stofu KA myndi vinna að málinu og ósannað var að það hefði sætt sérstökum andmælum af hálfu KS. KA hefði haft yfirumsjón með vinnunni, borið á henni ábyrgð gagnvart KS og farið með fyrirsvar málsins, enda yrði ekki annað ráðið af málsgögnum en að KA hefði ætlað að flytja málið sjálfur fyrir dómi, sbr. 4. mgr. 21. gr. laga um lögmenn. Var niðurstaða héraðsdóms um sýknu KA því staðfest.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma Eggert Óskarsson fyrrverandi héraðsdómari, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Sigríður Ingvarsdóttir fyrrverandi héraðsdómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 5. mars 2015. Hann krefst þess að felldur verði úr gildi úrskurður úrskurðarnefndar lögmanna í málinu nr. 14/2012: Kári Stefánsson gegn Karli Axelssyni. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Áfrýjandi leitaði til stefnda um lögmannsþjónustu í ágúst 2011 vegna ágreinings er upp var kominn milli áfrýjanda og byggingarverktakans Fonsa ehf., sem tekið hafði að sér að ljúka uppsteypu á einbýlishúsi hans að Fagraþingi 5 í Kópavogi samkvæmt verksamningi 18. júní 2010. Stefndi var á þeim tíma starfandi hæstaréttarlögmaður og einn af eigendum lögmannsstofunnar LEX. Áfrýjandi mætti á fund hjá stefnda á lögmannsstofunni LEX 18. ágúst 2011 ásamt samstarfsmanni sínum. Fundinn sat einnig Þórhallur Bergmann héraðsdómslögmaður sem starfaði á lögmannsstofunni. Var áfrýjanda gerð grein fyrir því að hann myndi vinna að málinu með stefnda. Byggingarverktakinn höfðaði mál á hendur áfrýjanda fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, með stefnu birtri 25. janúar 2012, vegna vangreiddra reikninga samkvæmt verksamningnum og fól áfrýjandi stefnda jafnframt að gæta hagsmuna sinna í því máli. Af hálfu stefnda var unnið að gagnaöflun í málinu í þágu áfrýjanda og greinargerð lögð fram í héraðsdómi 29. mars 2012, þar sem teflt var fram gagnkröfum vegna ofgreiddra verklauna, dagsekta og ýmissa galla sem áfrýjandi taldi vera á verki verktakans. Ekki kom til þess að stefndi færi með flutning málsins fyrir dómi þar sem hann sagði sig frá því í ágúst 2012. Áður var kominn brestur í samskipti aðila og reikningar frá lögmannsstofunni LEX voru í vanskilum. Af hálfu lögmannsstofunnar var óskað eftir því að áfrýjandi greiddi reikningana ella yrðu þeir innheimtir með atbeina dómstóla. Í nóvember 2012 lagði áfrýjandi fyrir úrskurðarnefnd lögmanna kvörtun vegna lögmannsþóknunar stefnda. Í úrskurði úrskurðarnefndarinnar 14. mars 2013 var kveðið á um það hvað væri hæfilegt endurgjald fyrir vinnu stefnda og lögmannsstofu hans, LEX, í þágu áfrýjanda.

 Í máli þessu gerir áfrýjandi ekki kröfu um að fá niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar breytt en leitar fyrir dómi ógildingar á úrskurði hennar, svo sem heimilt er samkvæmt 5. mgr. 28. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998. Er sú krafa meðal annars á því byggð að úrskurðarnefndin hafi farið út fyrir lögboðið valdsvið sitt og kveðið upp úrskurð í þágu stefnda og félags, sem hann eigi eignarhlut í. Lögin kveði aðeins á um heimild úrskurðarnefndar til að úrskurða um þóknun lögmanna fyrir vinnu sína að einstökum verkefnum en ekki lögmannsstofu. Einnig er á því byggt að stefndi hafi framselt málflutningsumboð sitt, án samþykkis áfrýjanda, til annarra lögmanna sem starfandi voru á lögmannsstofunni LEX. Stefndi geti ekki átt rétt á þóknun úr hendi áfrýjanda vegna vinnu sem hann hafi látið aðra lögmenn vinna án samþykkis áfrýjanda.

II

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. laga um lögmenn er úrskurðarnefnd lögmanna sjálfstæð nefnd sem leysir úr málum eftir ákvæðum þeirra laga og hefur lögsögu yfir lögmönnum sem starfa hér á landi. Lögmönnum er heimilt að stofna félag um rekstur sinn í því formi sem þeir sjálfir kjósa samkvæmt 3. mgr. 19. gr. laganna. Þá er þeim heimilt að ráða til starfa hjá sér löglærða fulltrúa samkvæmt 1. mgr. 11. gr. laganna og samkvæmt 3. mgr. sama ákvæðis er þeim jafnframt heimilt að ráða aðra lögmenn til starfa hjá sér enda bera þeir fébótaábyrgð á störfum þeirra. Verður því fallist á með héraðsdómi að heimild samkvæmt 26. gr. laga um lögmenn til að bera ágreining um endurgjald undir úrskurðanefnd lögmanna taki bæði til vinnu lögmannsins sjálfs og annarra sem vinna á ábyrgð hans og jafnframt að það hafi ekki áhrif á þennan málskotsrétt hvort reikningar eru gefnir út í nafni félags eða lögmannsins persónulega. Úrskurðarnefndin fór því ekki út fyrir valdsvið sitt er hún kvað á um hæfilegt endurgjald fyrir vinnu stefnda og annarra lögmanna á lögmannsstofunni LEX í þágu áfrýjanda.

Óumdeilt er að áfrýjanda var frá upphafi ljóst að lögmaðurinn Þórhallur Bergmann myndi vinna að málinu með stefnda. Reikningar, vinnuskýrslur og tölvupóstsamskipti vegna málsins bera og með sér aðkomu hans að málinu og ósannað er að það hafi sætt sérstökum andmælum af hálfu áfrýjanda. Stefndi hafði yfirumsjón með vinnunni og bar á henni ábyrgð gagnvart áfrýjanda. Með hliðsjón af þessu, og áður tilvitnuðum ákvæðum laga nr. 77/1998 um lögmenn, verður ekki á það fallist með áfrýjanda að stefnda hafi verið óheimilt að hafa þennan háttinn á við þá lögmannsþjónustu sem hann hafði tekið að sér fyrir áfrýjanda. Sú tilhögun fól ekki í sér framsal á því málflutningsumboði sem áfrýjandi hafði veitt stefnda. Stefndi fór eftir sem áður með fyrirsvar málsins og verður ekkert annað ráðið af málsgögnum en að til hafi staðið að hann annaðist jafnframt flutning þess fyrir dómi, sbr. ákvæði 4. mgr. 21. gr. laga um lögmenn.

Með þessum athugasemdum og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Kári Stefánsson, greiði stefnda, Karli Axelssyni, 400.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

  

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 8. desember 2014.

                Mál þetta, sem var dómtekið 21. október sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur með stefnu birtri 5. nóvember í fyrra. Stefnandi er Kári Stefánsson Þingholtsstræti 6 í Reykjavík og stefndi er Karl Axelsson Boðagranda 12 í Reykjavík.

                Stefnandi krefst þess að felldur verði úr gildi úrskurður úrskurðarnefndar Lögmannafélags Íslands í málinu nr. 14/2012 Kári Stefánsson gegn Karli Axelssyni. Þá krefst hann greiðslu málskostnaðar úr hendi stefnda.

                Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda og að stefnandi greiði honum málskostnað að skaðlausu.

                Málsatvik og ágreiningsefni

                Ágreiningur máls þessa er sprottinn af lögmannsþjónustu sem stefndi og aðrir lögmenn á lögmannstofunni LEX inntu af hendi fyrir stefnanda á árunum 2011 og 2012. Stefndi er hæstaréttarlögmaður, hann starfar á lögmannsstofunni LEX og er einn eigenda hennar. Stefndi sagði sig frá verkinu 13. ágúst 2012 og var stefnandi upplýstur um þá ákvörðun með tölvupósti sama dag frá Erni Gunnarssyni, faglegum framkvæmdastjóra LEX. Voru þá ógreiddir reikningar, útgefnir af LEX til stefnanda, að fjárhæð 1.741.023 krónur og var var óskað eftir því í framangreindum tölvupósti að þeir yrðu greiddir innan 15 daga.

                Stefnandi greiddi ekki framangreinda reikninga en skaut kröfu um lögmannsþóknun stefnda til úrskurðarnefndar lögmanna samkvæmt heimild í 2. mgr. 3. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998. Í kvörtun sinni til úrskurðarnefndarinnar, sem dagsett er 12. nóvember 2012, kvartaði stefnandi yfir þóknun stefnda, að stefndi hefði unnið verkið með fjórum öðrum lögmönnum, yfir tímafjölda og yfir því að stefndi hefði sagt sig frá verkinu án aðvörunar.

                Í niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar, sem kveðin var upp 14. mars 2013, segir að hæfilegt endurgjald fyrir vinnu stefnda og lögmannsstofu hans í þágu stefnanda sé 2.825.710 kr. Nefndin hafnaði því að stefndi hefði brotið gegn starfsskyldum sínum gagnvart stefnanda með því að fela starfsmanni lögmannstofunnar að vinna að máli stefnanda og taldi að stefnanda hafi mátt vera kunnugt um þetta fyrirkomulag af samskiptum sínum við fulltrúann og þeim reikningum sem honum bárust. Þá mat úrskurðarnefndin umfang verksins og vinnuframlag stefnda og starfsmanna hans og féllst á að umkrafin þóknun, með afslætti sem stefndi hafði áður boðið stefnanda, fæli í sér hæfilegt endurgjald fyrir verkið.

                Stefnandi vill ekki una þessum úrskurði og hefur höfðað mál þetta til að krefjast ógildingar hans samkvæmt heimild í 5. mgr. 28. gr. laga nr. 77/1998, um lögmenn.

                Aðilar gáfu skýrslu fyrir dómi og auk þeirra Björgvin Þórðarson og Þórhallur Bergmann héraðsdómslögmenn.

                Málsástæður og lagarök stefnanda

                Stefnandi byggir á því að úrskurður úrskurðarnefndar um lögmannsþóknun sé rangur, enda byggður á rangri túlkun á lögum um lögmenn nr. 77/1998. Samkvæmt 18. gr. lögmannalaga beri lögmanni, sem tekur að sér að gæta hagsmuna einstaklings eða lögaðila að rækja þann starfa af alúð og neyta allra lögmætra úrræða til að gæta lögvarinna hagsmuna umbjóðanda síns. Þessa hafi stefndi ekki gætt.

                Þess í stað hafi stefndi falið Þórhalli Bergmann héraðsdómslögmanni, starfsmanni á LEX, að gæta hagsmuna sinna. Stefnda geti ekki, nema með skýru og ótvíræðu samþykki skjólstæðings síns falið öðrum lögmanni hagsmunagæslu fyrir skjólstæðing sinn. Ekkert slíkt samþykki liggi fyrir í samskiptum stefnanda og stefnda. Þórhallur hafi komið fram gagnvart dómstólum, eins og stefnandi hefði veitt honum málflutningsumboð, sem ekki hafi verið reyndin. Komi fram í tölvupósti faglegs framkvæmdastjóra LEX að stefndi hafi fulltrúa sér við hlið sem vinni á hans ábyrgð að málum sem hann taki að sér. Það komi hins vegar hvergi fram í gögnum úr þingbók Héraðsdóms Reykjavíkur að Þórhallur Bergmann hafi komið fram gagnvart réttinum, sem löglærður fulltrúi stefnda.

                Þá virðist Þórhallur Bergmann héraðsdómslögmaður hafa unnið nánast alla þá vinnu sem stefnandi sóttist eftir að stefndi ynni. Hann hafi auk þess mætt í eigin nafni fyrir stefnanda í Héraðsdómi Reykjavíkur í málinu nr. E-449/2012: Fonsi ehf. gegn Kára Stefánssyni, en ekki sem fulltrúi stefnda. Enn fremur hafi Þórhallur látið annan lögmann, Björgvin Þórðarson, mæta fyrir sína hönd við fyrirtöku málsins þar sem þó hafi verið lögð fram gögn, sem sögð voru stafa frá stefnda, sem þó fór ekki með málið samkvæmt dómabók Héraðsdóms Reykjavíkur heldur Þórhallur Bergmann hdl., sem, eins og áður sagði, hafði ekkert umboð til að koma fram fyrir hönd stefnanda gagnvart dómstólum eða á öðrum vettvangi, nema í nafni og á ábyrgð stefnda, sem ber óskerta bótaábyrgð á störfum fulltrúa sinna, þótt hann kunni að reka lögmannsþjónustu sína í félagi við fleiri með takmarkaðri ábyrgð félagsmanna sbr. 3. mgr. 19. gr. lögmannslaganna.

                Stefndi hefur samkvæmt 11. gr. lögmannslaga heimild til að ráða sér löglærðan fulltrúa enda tilkynni hann það dómstólum að fenginni staðfestingu Lögmannafélags Íslands. Upp frá því geti lögmannsfulltrúinn m.a. sótt þing fyrir öðrum dómstólum en Hæstarétti í umboði og á ábyrgð vinnuveitanda síns og gætt hagsmuna umbjóðanda vinnuveitandans sbr. 2. mgr. 11. gr. lögmannslaga. Stefndi gerði þetta ekki heldur ákvað upp á sitt eindæmi eða kannski í samáði við faglegan framkvæmdastjóra LEX að úthluta verkefninu til héraðsdómslögmannsins Þórhalls Bergmann, sem ber titilinn verkefnastjóri hjá LEX.

                Lögmannalögin geri ekki ráð fyrir því að verkefnastjórar á lögmannsstofum geti tekið yfir verkefni einstakra lögmanna sem til er leitað, án samþykkis umbjóðanda viðkomandi lögmanns, eins og helst virðist byggt á í úrskurði úrskurðarnefndar lögmanna. Lögmannalögin veiti lögmönnum ekkert svigrúm til að ákveða hver fari með málflutningsumboð. Málflutningsumboðið sé sótt til þess sem leitar lögmannsþjónustu. Vilji lögmaður hafa ráðrúm til að ráðstafa umboðinu til þriðja manns þarf hann að semja svo um við skjólstæðing sinn. Engir slíkir samningar hafi verið gerðir milli stefnanda og stefnda. Úrskurðarnefndin geti ekki byggt niðurstöðu sína á því hvað henni finnst vera eðlilegur liður í rekstri lögmannsstofu. Úrskurðarnefndinni bar að fara eftir því sem segir í lögum um lögmenn og því hvað almennt er og hefur verið talið felast í málflutningsumboði lögmanna.

                Stefnanda hafi því verið heimilt að hafna greiðslu reikninga LEX, sem félagið ákvað að senda út vegna vinnu verkefnastjórans og annarra lögmanna sem stefnandi hafði ekki leitað til og óskað eftir þjónustu frá.

                Stefndi hafi ákveðið sjálfur án nokkurs samráðs við stefnanda að framselja málflutningsumboð það sem stefnandi hafði veitt honum. Stefndi getur því aldrei átt rétt á þóknun úr hendi stefnanda vegna vinnu, sem hann lét aðra lögmenn vinna án samþykkis stefnanda. Með því háttalagi sem að framan er lýst hafi stefndi brotið gegn grunnreglum góðra lögmannshátta, sem bundnir eru í lögmannalögum. Stefndi verði að axla ábyrgð á tjóni, sem hlýst af því broti, sjálfur eða með félögum sínum á LEX. Hvorki stefndi né LEX eigi nokkra lögmæta kröfu á hendur stefnanda fyrir aðra vinnu en þá sem stefnandi innti af hendi. Fyrir þá vinnu hefur stefnandi löngu greitt stefnda og LEX og rúmlega það.

                Með vísan til alls framangreinds beri að fella úrskurð úrskurðarnefndar lögmanna í málinu nr. 14/2012 úr gildi.

                Um lagarök vísar stefnandi til framangreindra ákvæða laga um lögmenn nr. 77/1998, um varnarþing er vísað til 1. mgr. 36. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 og varðandi málskostnað til 129. og 130. gr. sömu laga.

                Málsástæður og lagarök stefnda

                Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að fyrir liggi ítarlega rökstudd niðurstaða úrskurðarnefndar lögmanna, sem starfi á grundvelli laga nr. 15/1998 og hafi lögsögu yfir lögmönnum sem starfi hér á landi sbr. 2. mgr. 1. gr. laganna, um greiðsluskyldu stefnanda vegna vinnu stefnda. Stefndi gerir rökstuðning úrskurðarnefndar að sínum og vísar til forsendna hans til stuðnings sýknukröfu sinni en árétti að auki eftirfarandi atriði.

                Í fyrsta lagi hafnar stefndi því alfarið að úrskurðurinn sé byggður á rangri túlkun á lögum um lögmenn nr. 77/1998. Af hálfu stefnanda virðist byggt á því að úrskurðurinn sé efnislega rangur þar sem stefndi hafi ekki mátt fela starfsmanni sínum, Þórhalli Bergmann héraðsdómslögmanni á LEX, vinnu í þágu stefnanda. Að mati stefnda fái þetta engan veginn staðist. Málatilbúnaður stefnanda sé byggður á þeim grundvallarmisskilningi að ákvæði 1. og 2. mgr. 11. gr. lögmannalaga eigi við í máli þessu. Tilvitnuð ákvæði eigi við löglærðan fulltrúa á lögmannsstofu sem ekki hafi réttindi til flytja mál fyrir héraðsdómi. Í 1. mgr. 11. gr. laganna segi að lögmaður geti ráðið til starfa hjá sér fulltrúa sem fullnægi skilyrðum 1.-4. tölul. 1. mgr., sbr. 2. og 3. mgr. 6. gr. Þessi skilyrði 6. gr. laganna séu að viðkomandi sé lögráða, bú hans hafi aldrei verið tekið til gjaldþrotaskipta, hann hafi óflekkað mannorð og hafi lokið fullnaðarprófi í lögfræði með embættis- eða meistaraprófi við lagadeild háskóla. Í 1. mgr. 11. gr. sé þannig ekki vísað til 5. tölul. 6. gr. um að viðkomandi hafi staðist prófraun skv. 7. gr. laganna. Þórhallur Bergmann hafi haft réttindi til að flytja mál fyrir héraðsdómi allt frá árinu 2007. Af þessu leiði að 2. mgr. 11. gr. lögmannalaganna eigi ekki við í þessu máli. Þar sem Þórhallur Bergmann hafi réttindi til að flytja mál fyrir héraðsdómi þurfti ekki sérstaka tilkynningu til héraðsdóms vegna starfa hans. Um störf Þórhalls í umboði stefnda hafi því gilt ákvæði 3. mgr. 11. gr. lögmannalaga en þar segi að lögmaður geti ráðið annan lögmann til starfa hjá sér. Lögmaðurinn beri ábyrgð á fjárvörslu slíks starfsmanns síns, svo og fébótaábyrgð á störfum hans að öðru leyti. Þórhallur Bergmann sé ekki einn af eigendum LEX heldur starfi hann fyrir eigendur stofunnar undir handleiðslu þeirra, sbr. 3. mgr. 11. gr. lögmannalaga.

                Samhliða þessu sé vísað til 3. mgr. 21. gr. lögmannalaga en þar segi beinlínis að lögmaður geti falið fulltrúa sínum eða öðrum lögmanni að sækja fyrir sig dómþing, enda sé það ekki háð til aðalmeðferðar máls eða munnlegrar sönnunarfærslu. Ljóst sé að ekki hafi verið komið að aðalmeðferð málsins eða munnlegri sönnunarfærslu þegar starfsmenn stefnda, Þórhallur Bergmann hdl. og Björgvin Þórðarson hdl., hafi sótt þing fyrir hann í umræddu máli. Hafi stefndi því haft fulla heimild til að láta þá sækja fyrir sig þing. Staðhæfingum um að stefndi hafi brotið gegn 19. og 21. gr. lögmannalaga eða öðrum ákvæðum laganna sé þannig alfarið hafnað. Sérstaklega sé mótmælt þeirri staðhæfingu að stefndi hafi í umrætt sinn framselt lögmannsumboð sitt.

                Í öðru lagi byggir stefndi á því að hann hafi rækt störf sín fyrir stefnanda af alúð og neytt allra lögmætra úrræða til að gæta lögvarinna hagsmuna hans, sbr. 18. gr. lögmannalaga. Því sé harðlega mótmælt að stefndi hafi á einhvern hátt brotið gegn umræddu ákvæði með því að fela Þórhalli Bergmann héraðsdómslögmanni að vinna undir sinni stjórn við málið. Stefndi byggir á því að stefnanda hafi allt frá upphafi verið ljóst að starfsmaður sinn, Þórhallur Bergmann, myndi vinna að málinu ásamt honum. Þannig hafi Þórhallur verið kynntur til leiks strax á fyrsta fundi stefnanda og stefnda hinn 18. ágúst 2011. Þá liggi fyrir að Þórhallur hafi að mestu leyti séð um gagna- og upplýsingaöflun á upphafsstigum málsins og hafi síðan ritað kröfubréf í septembermánuði 2011. Engar athugasemdir hafi verið gerðar við þetta af hálfu stefnanda. Þvert á móti hafi stefnandi leitað aftur til stefnda þegar honum hafi verið stefnt í janúarmánuði 2012. Hafi þá verið hafður sami háttur og í fyrra sinnið, þ.e. Þórhallur Bergmann hafi unnið ásamt stefnda við gagna- og upplýsingaöflun og ritun greinargerðar. Reikningar LEX til stefnda hafi borðið þetta skýrlega með sér og hafi fyrstu reikningar verið greiddir án athugasemda. Til viðbótar við framangreint hafi Þórhallur Bergmann allt frá upphafi verið í beinum samskiptum við stefnanda hvort heldur sem var á fundum, símleiðis eða með tölvupóstsamskiptum.

                Í þriðja lagi mótmælir stefndi því að samið hafi verið um að hann myndi persónulega reka málið án þess að fela starfsmönum sínum vinnu við það. Ekkert slíkt samkomulag hafi verið fyrir hendi og hafi það aldrei verið gefið í skyn af hálfu stefnda. Stefndi hefði aldrei tekið að sér málið ef það hefði raunverulega verið forsenda af hálfu stefnanda að hann ynni einn við málið. Það skuli hins vegar áréttað að stefndi hafi haft yfirumsjón með vinnunni enda þótt hluti hennar hafi verið í höndum Þórhalls Bergmanns. Hafi þetta verklag verið í samræmi við mikinn meirihluta mála sem stefndi hafi með höndum, sem og í samræmi við það sem almennt tíðkast á lögmannsstofum, þ.e. eigendur feli löglærðum starfsmönnum sínum að vinna ákveðin verk.

                Í fjórða lagi er því sérstaklega mótmælt að Þórhallur Bergmann hdl. hafi komið fram gagnvart héraðsdómi í máli E-449/2012 eins og hann færi með málið í eigin nafni. Í greinargerð stefnanda í málinu sem lögð var fram 29. mars 2012 segir undir liðnum málflutningsumboð: „Karl Axelsson hrl., LEX, Borgartúni 29, Reykjavík flytur mál þetta fyrir hönd stefnda.“ Í samræmi við þetta hafi umrædd greinargerð verið undirrituð af stefnda, Karli Axelssyni. Undir rekstri dómsmálsins hafi svo verið lögð fram matsbeiðni f.h. stefnanda, Kára Stefánssonar. Í matsbeiðninni segir að tilkynningar vegna matsbeiðni, matsútnefningar og matsgerðar skuli berast stefnda. Matsbeiðni hafi auk þess verið undirrituð af Björgvini Þórðarsyni hdl., öðrum löglærðum starfsmanni stefnda á LEX, fyrir hönd Karls Axelssonar hrl. Þannig liggi fyrir að með greinargerð, dags. 28. mars 2012, hafi Héraðsdómi Reykjavíkur verið tilkynnt að stefndi, Karl Axelsson, færi með málið fyrir hönd stefnanda. Framlögð matsgerð í málinu beri einnig með sér að stefndi, Karl Axelsson, hafi farið með málið. Engin framlögð gögn hafi borið með sér að Þórhallur Bergmann færi með málið í eigin nafni fyrir stefnanda. Stefndi geti ekki borið á því ábyrgð að rafræna þingbók héraðsdóms hafi mátt skilja þannig að Þórhallur Bergmann færi með málið í eigin nafni. Slíkar færslur í þingbók séu beinlínis í andstöðu við greinargerð málsins þar sem skýrlega sé tekið fram hver hafi farið með málið fyrir stefnanda. Ef til hefði staðið að gera breytingu á málflutningsumboði þá hefði það eðli málsins samkvæmt þurft að gerast með sérstakri bókun í þingbók. Slík bókun hafi t.a.m. verið gerð þegar Árni Ármann Árnason tók síðar við málinu af stefnda í þinghaldi 15. febrúar 2013. Hér skal sérstaklega tekið fram að ekki stóð annað til en að stefndi, Karl Axelsson, myndi flytja umrætt mál þegar það kæmi til aðalmeðferðar.

                Stefndi byggir loks á því að málssókn stefnanda sé tilhæfulaus með öllu. Þess er krafist að til þess verði litið við ákvörðun málskostnaðar í málinu, sbr. 1. og 2. mgr. 131. gr. laga um meðferð einkamála.

                Um lagarök vísar stefndi til ákvæða laga um lögmenn nr. 77/1998 og meginreglna kröfuréttar. Málskostnaðarkrafa stefnda er byggð á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

                Niðurstaða

                Í máli þessu krefst stefnandi ógildingar á úrskurði úrskurðarnefndar lögmanna um þóknun stefnda og lögmannstofu hans, LEX, vegna vinnu sem unnin var í þágu stefnanda. Samkvæmt úrskurðinum er hæfilegt endurgjald fyrir þá vinnu talið 2.825.710 krónur. Af hálfu stefnanda er á því byggt að stefnda hafi verið óheimilt að fela öðrum lögmanni, Þórhalli Bergmann héraðsdómslögmanni, að vinna við mál sem hann hafði samið um að stefndi sjálfur innti af hendi. Þá megi sjá af þingbókum í rekstri málsins að Þórhallur hafi farið með málflutningsumboðið sem stefnandi hafi samið við stefnda um að hann færi sjálfur með. Þetta sé í andstöðu við ákvæði lögmannalaga. Af þessum sökum beri að ógilda úrskurð nefndarinnar sem kveður á um greiðslu fyrir þessa þjónustu. Úrskurðurinn sé að þessu leyti byggður á rangri túlkun laga nr. 77/1998.

                Í lögum um lögmenn nr. 77/1998 er kveðið á um störf úrskurðarnefndar lögmanna og segir í 3. mgr. 3. gr. laganna að nefndin leysi úr málum eftir ákvæðum þeirra laga.

                Stefndi starfar á lögmannstofunni LEX og rekur hana í félagi við aðra lögmenn, svo sem honum er heimilt samkvæmt 2. mgr. 19. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998. Lögmönnum er heimilt að ráða aðra lögmenn til starfa á stofu sinni sbr. 3. mgr. 11. gr. sömu laga enda bera þeir fébótaábyrgð á störfum þeirra. Nýti lögmenn sér framangreindar heimildir í lögunum til að starfrækja félag um rekstur sinn og ráða til sín lögmenn, leiðir af því að reikningar fyrir störf þeirra eru gefnir út af félaginu en ekki þeim persónulega og jafnframt að reikningar eru gefnir út vegna vinnu lögmanna sem þeir ráða til starfa á grundvelli 11. gr. auk vinnu þeirra sjálfra. Í ljósi þessara heimilda um rekstrarform og starfsmenn á lögmannsstofu verður að líta svo á að réttur samkvæmt 26. gr. laganna til að bera ágreining um endurgjald undir úrskurðanefnd lögmanna, taki bæði til endurgjalds vegna vinnu lögmannsins sjálfs og annarra sem vinna á ábyrgð hans og jafnframt að það hafi ekki áhrif á þennan málskotsrétt hvort reikningar eru gefnir út í nafni félags eða lögmannsins persónulega. Úrskurðarnefndinni var því rétt að taka til úrskurðar ágreining aðila þessa máls um endurgjald vegna allrar vinnu lögmanna á LEX, sem er innheimt með reikningum útgefnum af því félagi. Því er ekki fallist á það með stefnanda að úrskurðarnefndin hafi farið út fyrir hlutverk sitt með því að úrskurða um þóknun vegna vinnu í þágu stefnanda, óháð því hvort hún var unnin af stefnda sjálfum eða öðrum sem starfa á hans ábyrgð.

                Þá byggir stefnandi á því stefndi hafi ekki sinnt skyldu sinni samkvæmt 18. gr. laga nr. 77/1998, þar sem m.a. er kveðið er á um að lögmönnum beri í hvívetna að rækja af alúð þau störf sem þeim er trúað fyrir. Felist brot stefnda í því að hafa falið öðrum lögmanni að vinna mest af þeirri vinnu sem stefnandi hafi samið við hann um að vinna sjálfur. Vísar stefnandi í þessu sambandi til vinnuskýrslna sem liggja að baki reikningum frá félagi stefnda en þar kemur fram að stefndi hafi unnið liðlega 15. klst., Þórhallur Bergmann 156,5 klst. og aðrir lögmenn 9 klst. Fyrir liggur í málinu að Þórhallur og aðrir lögmenn sem unnið hafa að málum stefnanda eru lögmenn sem starfa á lögmannsstofu stefnda.

                Fyrir dómi báru aðilar málins að Þórhallur hefði setið fyrsta fund þeirra þegar stefnandi fól stefnda verkefnið sem deila þessi er sprottin af. Aðilum ber saman um að á fundinum hafi komið fram að Þórhallur myndi koma að því verki með stefnda þótt ekki liggi fyrir nákvæmlega hvernig aðkomu hans að verkinu var lýst á þeim fundi. Reikningar sem bárust stefnanda frá ágúst 2011 fram í júlí 2012 báru með sér hve mörgum tímum var varið í verkið sem rukkað var fyrir hverju sinni og hvaða starfmenn inntu það af hendi.

                Engin gögn styðja þá staðhæfingu stefnanda að hann hafi samið svo um að aðrir lögmenn á lögmannsstofu stefnda myndu ekki vinna í hans þágu. Fyrir liggur að honum var kynnt í upphafi máls að Þórhallur myndi vinna að málinu með stefnda. Þá er ósönnuð sú staðhæfing stefnda að hann hafi mótmælt því verklagi þegar leið á verkið en af útsendum reikningum og fjölda tölvupóstsamskipta sem liggja fyrir í málinu má ráða að stefnanda mátti vera fullkunnugt um að Þórhallur ynni mestalla vinnuna sem fólst í þjónustu við hann. Ekki er heldur fallist á að fyrirkomulag þetta sé í andstöðu við lög og vísast í því efni til þess sem áður greinir í umfjöllun um 11. gr. laga nr. 77/2008.

                Loks heldur stefnandi því fram að stefndi hafi, án hans heimildar, falið Þórhalli að fara með málflutningsumboð það sem stefnandi veitti stefnda. Vísar hann í því sambandi til afrita af þingbók málsins E-449/2012, Fonsi ehf. gegn Kára Stefánssyni, en þar er bókað að Þórhallur Bergmann sæki þing fyrir stefnanda án þess að getið sé um að hann mæti þar fyrir stefnda. Jafnframt kemur fram í þingbókinni að við fyrirtöku málsins þann 18. júní 2012 sé mættur Björgvin Þórðarson fyrir hönd stefnda vegna Þórhalls Bergmanns.

                Í þessu efni er til þess að líta að samkvæmt 4. mgr. 21. gr. laga nr. 77/1998 var stefnda heimilt, þrátt fyrir skyldu sína til að inna sjálfur af hendi þau störf fyrir dómi sem honum voru falin, að fela öðrum lögmanni að sækja fyrir sig dómþing sem ekki eru háð til aðalmeðferðar eða munnlegrar sönnunarfærslu. Óumdeilt er að umrædd þinghöld voru ekki þess eðlis. Þá liggur fyrir að samkvæmt þeim skriflegu gögnum sem lögð voru fram í málinu fyrir hönd stefnanda, var stefndi sjálfur sagður fara með málflutningsumboðið. Á það bæði við um greinargerðina í málinu og matsbeiðnina sem lögð var fram í þinghaldi því sem Björgvin Þórðarson sótti. Er þingbókin því að þessu leyti í andstöðu við þau gögn sem lögð voru fyrir dóminn. Gegn mótmælum stefnda verður ekki fallist á að framangreindar bókanir í þingbók feli í sér sönnun þess að stefndi hafi falið Þórhalli að fara með málflutningsumboð fyrir stefnanda án hans samþykkis.

                Með vísan til þess sem að framan er rakið er hvorki fallist á að úrskurðarnefnd lögmanna hafi farið út fyrir hlutverk sitt þegar hún kvað upp úrskurð um þóknun til handa stefnda og öðrum starfsmönnum félags hans né að úrskurðurinn sé haldinn þeim efnisannmörkum sem stefnandi byggir málatilbúnað sinn á. Verður kröfum stefnanda því hafnað og stefndi sýknaður í málinu.

                Með hliðsjón af úrslitum málsins og vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður stefnanda gert að greiða stefnda málskostnað sem er hæfilega ákveðinn 470.000 kr. að teknu tilliti til virðisaukaskatts. Ekki er fallist á það með stefnda að nægt tilefnis sé til að beita 1. eða 2. mgr. 131. gr. sömu laga við ákvörðun málskostnaðar.

                Ingibjörg Þorsteinsdóttir héraðsdómari kveður upp dóminn.

Dómsorð

                Stefndi, Karl Axelsson, er sýkn af kröfu stefnanda, Kára Stefánssonar. Stefnandi greiði stefnda 470.000 krónur í málskostnað.