Hæstiréttur íslands
Mál nr. 249/2001
Lykilorð
- Vinnusamningur
- Uppsögn
|
|
Fimmtudaginn 13. desember 2001. |
|
Nr. 249/2001. |
Annáll ehf. (Kristján Stefánsson hrl.) gegn Kristínu Sigríði Jónsdóttur (Örn Clausen hrl.) |
Vinnusamingur. Uppsögn.
K réð sig til starfa hjá A ehf. og fékk greiddar innborganir inn á laun sín 5 til 20 dögum eftir gjalddaga þeirra. K taldi sig eiga vangoldin laun hjá A ehf. og krafði félagið vegna þessa um greiðslu þeirra ella liti hún svo á að félagið hefði slitið vinnusambandinu fyrirvaralaust. A ehf. sinnti ekki áskorun K og sagði henni í framhaldi af því upp störfum. Af þessu tilefni höfðaði K mál á hendur félaginu þar sem hún krafðist greiðslu vangoldinna launa, akstursgjalds, orlofs, orlofsuppbótar og desemberuppbótar, og launa í uppsagnarfresti. Voru kröfur K teknar til greina í aðalatriðum.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 2. júlí 2001. Hann krefst þess að sér verði aðeins gert að greiða stefndu 113.004 krónur, svo og aðallega að sér verði dæmdur málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að hann verði felldur niður.
Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms, en þó þannig að krafa hennar beri frá 1. júlí 2001 dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Þá krefst hún málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Eins og rakið er í héraðsdómi hóf stefnda skrifstofustörf hjá áfrýjanda um mánaðamót janúar og febrúar 1999 og gegndi þeim til 22. nóvember á því ári. Er óumdeilt að vinnutími hennar hafi verið óreglulegur og umfang vinnunnar farið eftir því, sem hún sjálf kaus. Hún hélt skrá um vinnustundir sínar og er ekki ágreiningur um að þær hafi samtals verið 1.094,5 á fyrrgreindu tímabili. Er jafnframt óumdeilt milli aðilanna að leggja megi til grundvallar að vinnustundirnar hefðu orðið 1.123,3 ef stefnda hefði haldið áfram störfum til loka nóvember 1999. Stefnda unir við þá niðurstöðu héraðsdóms að miða verði við að aðilarnir hafi samið um að greiddar yrðu 1.000 krónur fyrir hverja vinnustund. Aðilarnir deila á hinn bóginn um hvort sú fjárhæð hafi átt að ná til alls þess, sem stefnda ætti tilkall til fyrir störf sín, svo sem áfrýjandi heldur fram. Aðilana greinir einnig á um það hvort stefnda eigi rétt á launum í uppsagnarfresti á tímabilinu frá 22. nóvember 1999 til loka febrúar 2000, en um lengd uppsagnarfrestsins sem slíks er ekki deilt. Fyrir Hæstarétti viðurkennir áfrýjandi að hann skuldi stefndu alls 113.004 krónur, en þá fjárhæð sundurliðar hann þannig að stefnda eigi rétt á að fá í fyrsta lagi laun til loka nóvember 1999, sem séu að eftirstöðvum 36.487 krónur, í öðru lagi greiðslu á 54.678 krónum, sem skorti á að áfrýjandi hafi að fullu staðið skil á staðgreiðslu opinberra gjalda stefndu, í þriðja lagi orlofsuppbót að fjárhæð 4.495 krónur og í fjórða lagi 17.344 krónur í desemberuppbót.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest sú niðurstaða hans að laun stefndu fyrir tímabilið frá 1. febrúar til 30. nóvember 1999 hefðu réttilega átt að verða 1.123.300 krónur, sem áfrýjandi hefur greitt 830.000 krónur af. Þá er óumdeilt að stefnda eigi rétt á samtals 2.105 krónum vegna aksturs í þágu áfrýjanda, eins og tekið var til greina í héraðsdómi. Nýtur stefnda jafnframt réttar til orlofsuppbótar og desemberuppbótar, svo sem héraðsdómari komst að niðurstöðu um og áfrýjandi viðurkennir samkvæmt framansögðu fyrir Hæstarétti. Eins og getið er í hinum áfrýjaða dómi vefengdi áfrýjandi ekki í héraði fjárhæðirnar, sem stefnda krafðist vegna þessara tveggja liða í dómkröfu sinni, alls 26.272 krónur. Verður fyrrgreindri kröfu áfrýjanda um útreikning þeirra því ekki komið að fyrir Hæstarétti gegn mótmælum stefndu. Einnig verður með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms fallist á að stefnda eigi rétt til skaðabóta vegna launa í uppsagnarfresti, sem verður að ákveða á grundvelli meðaltals mánaðarlegra vinnustunda á áðurgreindum starfstíma hennar hjá áfrýjanda, eða 112.330 krónur fyrir hvern mánuð, samtals 336.990 krónur. Ekki hefur verið sýnt fram á að stefnda hafi notið launa frá öðrum, sem hún hefði ekki getað unnið fyrir samhliða starfi sínu hjá áfrýjanda, og skerðist því krafa hennar um laun í uppsagnarfresti ekki vegna tekna hennar af öðrum störfum. Loks verður með vísan til forsendna héraðsdóms að fallast á með stefndu að hún eigi rétt til orlofsfjár úr hendi áfrýjanda. Með hinum áfrýjaða dómi var sá kröfuliður tekinn til greina á þann hátt að miðað var við laun stefndu á tímabilinu frá 1. febrúar til 31. október 1999, svo og laun í uppsagnarfresti 23. til 30. nóvember sama árs, en tímaskeiðinu þar á milli sleppt til samræmis við útreikning þessa kröfuliðar í héraðsdómsstefnu. Á hinn bóginn var að öðru leyti hafnað kröfu stefndu um orlofsfé af launum í uppsagnarfresti. Með því að héraðsdómi hefur ekki verið gagnáfrýjað verður sú niðurstaða látin standa óröskuð og stefndu dæmdar 105.697 krónur í orlofsfé. Samkvæmt þessu öllu verður krafa stefndu því tekin til greina með alls 764.364 krónum, svo sem gert var í héraði.
Undir rekstri málsins fyrir héraðsdómi lagði stefnda fram álagningar- og innheimtuseðil vegna opinberra gjalda sinna á árinu 2000, þar sem meðal annars kom fram að áfrýjandi hefði staðið skil á staðgreiðslu skatta hennar að fjárhæð 148.804 krónur á árinu 1999. Þá hefur áfrýjandi lagt fram í Hæstarétti kvittun til sín frá Lífeyrissjóði verzlunarmanna, sem ber með sér að hann hafi 27. febrúar 2001 greitt meðal annars iðgjöld í lífeyrissjóðinn vegna stefndu, ásamt félagsgjaldi hennar til Verzlunarmannafélags Reykjavíkur. Hluti stefndu í lífeyrissjóðsiðgjöldum nam samtals 44.932 krónum, en félagsgjald hennar 11.233 krónum. Í kvittuninni eru þessar fjárhæðir sundurgreindar eftir einstökum mánuðum á árinu 1999, en af þeim greiddi áfrýjandi dráttarvexti til greiðsludags. Í málflutningi fyrir Hæstarétti var því lýst yfir að stefnda féllist á að þessir þrír liðir kæmu til frádráttar kröfu hennar, en samtals nema þeir 204.969 krónum. Verða stefndu því dæmdar 559.395 krónur úr hendi áfrýjanda.
Um dráttarvexti af kröfu stefndu fer samkvæmt því, sem í dómsorði greinir. Við ákvörðun þeirra er farið með áðurgreinda greiðslu áfrýjanda til Lífeyrissjóðs verzlunarmanna sem mánaðarlega innborgun á kröfu stefndu, en með því að ekkert liggur fyrir í málinu um hvenær á árinu 1999 áfrýjandi stóð skil á staðgreiðslu opinberra gjalda stefndu kemur sú greiðsla til frádráttar kröfunni í lok þess árs.
Ákvæði héraðsdóms um málskostnað er staðfest. Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti, eins og ákveðið er í dómsorði.
Dómsorð:
Áfrýjandi, Annáll ehf., greiði stefndu, Kristínu Sigríði Jónsdóttur, 559.395 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af 158.429 krónum frá 1. mars 1999 til 5. sama mánaðar, af 58.429 krónum frá þeim degi til 1. apríl sama árs, af 107.204 krónum frá þeim degi til 1. maí sama árs, af 204.692 krónum frá þeim degi til 5. sama mánaðar, af 104.692 krónum frá þeim degi til 1. júní sama árs, af 218.177 krónum frá þeim degi til 15. sama mánaðar, af 118.177 krónum frá þeim degi til 1. júlí sama árs, af 188.952 krónum frá þeim degi til 19. sama mánaðar, af 88.952 krónum frá þeim degi til 1. ágúst sama árs, af 155.452 krónum frá þeim degi til 18. sama mánaðar, af 105.452 krónum frá þeim degi til 1. september sama árs, af 164.827 krónum frá þeim degi til 21. sama mánaðar, af 114.827 krónum frá þeim degi til 1. október sama árs, af 270.627 krónum frá þeim degi til 15. sama mánaðar, af 220.627 krónum frá þeim degi til 27. sama mánaðar, af 140.627 krónum frá þeim degi til 1. nóvember sama árs, af 134.202 krónum frá þeim degi til 1. desember sama árs, af 241.362 krónum frá þeim degi til 1. janúar 2000, af 204.888 krónum frá þeim degi til 1. febrúar sama árs, af 317.218 krónum frá þeim degi til 1. mars sama árs og af 559.395 krónum frá þeim degi til 1. júlí 2001, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.
Ákvæði héraðsdóms um málskostnað skal vera óraskað.
Áfrýjandi greiði stefndu 150.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 3. apríl 2001.
I
Mál þetta var dómtekið þann 16. mars sl. að loknum munnlegum málflutningi. Málið var þingfest þann 20. júní 2000. Stefnandi er Kristín Sigríður Jónsdóttir kt. 210660-7719 Esjugrund 13, Reykjavík. Stefndi er Annáll ehf. kt. 220846-5049, Klyfjaseli 26, Reykjavík
Endanlegar dómkröfur stefnanda eru að stefndi verði aðallega dæmdur til greiðslu vangoldinna launa að fjárhæð krónur 1.050.937 ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af krónum 188.080 frá 1. mars 1999 til 5. mars 1999, frá þeim degi af krónum 88.080 til 1. apríl 1999, frá þeim degi af krónum 164.709 til 1. maí 1999, frá þeim degi af krónum 280.516 til 5. maí 1999, frá þeim degi af krónum 180.516 til 1. júní 1999, frá þeim degi af krónum 314.810 til 15. júní 1999, frá þeim degi af krónum 214.810 til l. júlí 1999, frá þeim degi af krónum 298.892 til 19. júlí 1999, frá þeim degi af krónum 198.892 til 1. ágúst 1999, frá þeim degi af krónum 277.895 til 18. ágúst 1999, frá þeim degi af krónum 227.895 til 1. september 1999, frá þeim degi af krónum 298.434 til 21. september 1999, frá þeim degi af krónum 248.434 til 1. október 1999, frá þeim degi af krónum 433.528 til 15. október 1999, frá þeim degi af krónum 383.528 til 27. október 1999, frá þeim degi af krónum 303.528 til l. nóvember 1999, frá þeim degi af krónum 314.697 til l. desember 1999, frá þeim degi af krónum 442.005 til 1. janúar 2000, frá þeim degi af krónum 601.629 til l. febrúar 2000, frá þeim degi af krónum 742.469 til 1. mars 2000, frá þeim degi af krónum 1.050.937 til greiðsludags.
Þess er krafist, að dæmt verði, að dráttarvextir skuli leggjast við höfuðstól á tólf mánaða fresti í fyrsta sinn þann 1. mars 2001. Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt mati dómsins. Krafist er vaxta af málskostnaði skv. 3. kafla vaxtalaga frá uppkvaðningu dóms til greiðsludags. Einnig er krafist virðisaukaskatts af málskostnaði þar sem stefnandi er ekki virðisaukaskattskyldur.
Til vara gerir stefnandi þær kröfur að stefndi verði dæmdur til greiðslu króna 604.868 með dráttarvöxtum af krónum 180.507 frá 1. desember 1999 til 1. janúar og frá þeim tíma af krónum 296.937 til 1. febrúar og frá þeim tíma af krónum 413.367 til 1. mars og frá þeim tíma af krónum 604.868 til greiðsludags. Þá er krafist, að dæmt verði, að dráttarvextir skuli leggjast við höfuðstól á tólf mánaða fresti í fyrsta sinn þann 1. desember 2000. Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt mati dómsins.
Endanlegar dómkröfur stefnda eru aðallega að hann verði gegn greiðslu á krónum 36.486 sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Til vara gerir hann kröfu um verulega lækkun dómkrafna. Málskostnaðar er aðallega krafist úr hendi stefnanda að mati dóms en til vara að málskostnaður verði felldur niður.
II
Stefnandi hóf störf á skrifstofu stefnda í lok janúar 1999. Stefnandi hafði starfað áður hjá stefnda á árinu 1996 og var umsamið að stefnandi ynni eftir þörfum stefnda og hún hefði talsvert frjálsan vinnutíma. Stefnandi hélt sjálf utan um tímafjölda þann sem hún innti af hendi í þágu stefnda og skilaði þeim í hendur stefnda mánaðarlega. Þá tók hún við greiðslum inn á laun sín án þess að nákvæmt uppgjör færi fram og var staðgreiðslu skilað af þeim greiðslum.
Rætt var um milli aðila að stefnandi hefði sambærileg kjör og hún hafði haft áður í vinnu fyrir stefnda, sem var krónur 1.000 á tímann, en stefnandi leit svo á að um sömu kjör væri að ræða ásamt kjarasamningsbundnum hækkunum sem stefnandi kveður að hafi verið 4,7% í mars 1997, 4% 1. janúar 1998 og 3,65% í janúar 1999 eða krónur 1.128,62 á tímann þegar hún hóf störf.
Enginn skriflegur ráðningarsamningur var gerður á milli aðila og ekki voru gefnir út launaseðlar og kveður stefnandi að henni hafi verið greiddar innborganir á laun 5 til 20 dögum eftir gjalddaga þeirra.
Stefnandi óskaði eftir því ítrekað að stefndi gæfi út launaseðla, en stefndi hefur borið að ekkert hafi orðið af því vegna tímaskorts. Þann 15. nóvember 1999 sendi stefnandi stefnda bréf með aðvörun um að ef vangoldnum launum og launaseðlum væru ekki gerð full skil fyrir kl. 12 á hádegi þann 22. nóvember 1999 liti hún svo á að stefndi hefði slitið vinnusambandinu fyrirvaralaust og stefnandi mundi hætta þann dag og krefjast bóta vegna vanefndanna. Þessari áskorun sinnti stefndi ekki og hætti stefnandi störfum 22. nóvember 1999. Þann sama dag sagði stefndi stefnanda upp störfum munnlega og staðfesti það í bréfi til stefnanda dagsettu 22. nóvember 1999 og segir þar meðal annars: “Nú í morgun var þér munnlega sagt upp starfi þínu hjá okkur. Með línum þessum viljum við koma þessari uppsögn á framfæri skriflega”.
Þann 23. nóvember 1999 sendi Verslunarmannafélag Reykjavíkur innheimtubréf fyrir hönd stefnanda og gerði kröfu um vangoldin laun auk launa í uppsagnarfresti. Því bréfi var svarað af hálfu stefnda með bréfi dagsettu 30. nóvember 1999 og var því mótmælt að stefnandi hefði átt inni vangoldin laun er hún ritaði áðurnefnt aðvörunarbréf.
Ómar Kjartansson, fyrirsvarsmaður stefnda skilaði Verslunarmannafélagi Reykjavíkur, stéttarfélagi stefnanda, ítarlegri greinargerð um viðskipti málsaðila og vakti athygli á því að stefnandi hafi unnið fyrir stefnda á árinu 1996 í íhlaupum á álagstímum. Hafi þá verið umsamið að greiddar væru 1.000 krónur fyrir unna klukkustund. Hafi verið um jafnaðarkaup að ræða sem geymdi orlof, hvers kyns álögur og öll launatengd fríðindi. Um þennan samning hafi aldrei verið deilt og hafi hann verið efndur af beggja hálfu. Stefnandi kveður það rétt að hún hefði unnið fyrir stefnda á árinu 1996 mun færri stundir en hún vann á árinu 1999. Hafi hún ekkert gert með það þótt hún fengi ekki greitt orlof ofan á þau laun þar sem um tiltölulega lítið vinnuframlag hafi verið að ræða.
Stefnandi hefur haldið því fram að þess hafi ekki verið óskað af hálfu stefnda að hún inni hjá stefnda á meðan á uppsagnarfresti stóð en stefndi hefur haldið því fram að til þess hafi verið ætlast og að aðilar semdu um starfslokin. Í bréfi stefnda til Verslunarmannafélags Reykjavíkur sem dagsett er 30. nóvember 1999 kemur meðal annars fram að hann telji að meginregla sé að starfsfólki beri að vinna uppsagnarfrest sinn, en stefnandi kæri sig sýnilega ekki um að starfa áfram hjá stefnda. Síðan segir orðrétt:”Við óskum ekki sérstaklega eftir þjónustu hennar.”
Ágreiningsefni máls þessa er á hvaða kjörum stefnandi réði sig til starfa hjá stefnda og hvort hún eigi rétt á greiðslum fyrir laun í uppsagnarfresti.
Fyrir dóminum gáfu skýrslur stefnandi Kristín Sigríður Jónsdóttir og Ómar Kjartansson forsvarsmaður stefnda.
III
Stefnandi kveðst hafa ráðið sig til starfa hjá stefnda á sambærilegum kjörum og gilt hafi í fyrrum vinnusambandi aðila. Stefnandi leit svo á að um væri að ræða sömu laun og hún hefði haft auk samningsbundinna launahækkana, enda engin rök fyrir því að hún réði sig á lakari kjörum en hún hafði áður. Ekki hafi hún getað staðreynt launakjörin þar sem stefndi hafi ekki sinnt þeirri skyldu sinni að gefa út launaseðla sbr. kjarasamningi VR, þrátt fyrir ítrekaða beiðni stefnanda. Þá hafi laun ekki verið greidd á réttum tíma, en gjalddagi launa sé 1. dagur hvers mánaðar.
Stefnandi kveðst ekki hafa sætt sig við endurtekinn drátt á launagreiðslum og hafi hún því ritað aðvörunarbréf þann 15. nóvember 1999 þar sem krafist var launagreiðslna vegna október fyrir 22. nóvember 1999, að öðrum kosti yrði litið svo á að vanefnd við greiðslu launa jafngilti uppsögn og áskildi hún sér rétti til bóta.
Þann 22. nóvember 1999 hafi stefnanda verið sagt upp störfum í kjölfar aðvörunarbréfs hennar, án þess að launauppgjör færi fram. Stefnandi hafi þá hætt störfum. Í bréfi stefnda dagsettu 22. nóvember 1999 komi fram staðfesting á uppsögn svo og ósk um að stefnandi hætti störfum sem fyrst. Kveður stefnandi að í bréfinu sé ekki dregið í efa að stefnandi eigi rétt á uppsagnarfresti.
Hafi svo innheimtubréf verið sent frá Verslunarmannafélagi Reykjavíkur þann 23. nóvember og hafi verið krafið um mismun launa frá upphafi starfsambandsins auk vangoldinna launa fyrir september til nóvember. Þá hafi verið krafist launa í uppsagnarfresti, orlofs, desember- og orlofsuppbótar.
Þessu hafi stefndi svarað með bréfi 30. nóvember og mótmælt kröfum stefnanda en þó viðurkennt að umsamin laun hafi átt að vera svipuð þeim kjörum sem stefnandi hafði áður haft, svo og að stefnandi hafi ítrekað óskað launauppgjörs en við því hafi ekki verið orðið. Kveður stefnandi sættir hafa verið reyndar án árangurs. Aðalkröfu sína sundurliðar stefnandi þannig:
|
Laun vegna febrúar 1999 |
|
|
166 x 1.128,62 |
kr.187.351,- |
|
Akstursgjald 20 x 36,45 |
kr. 729,- |
|
Laun vegna mars 1999 |
|
|
156,5 x 1.128,62 |
kr.176.629,- |
|
Laun vegna apríl 1999 |
|
|
102 x 1.128,62 |
kr.115.119,- |
|
Akstursgjald 18 x 38,20 |
kr. 688,- |
|
Laun vegna maí 1999 |
|
|
116,5 x 1.128,62 |
kr.131.484,- |
|
Akstursgjald 18 x 38,34 |
kr. 688,- |
|
Orlofsuppbót 1999 |
kr. 2.122,- |
|
Laun vegna júní 1999 |
|
|
74,5 x 1.128,62 |
kr. 84.082,- |
|
Laun vegna júlí 1999 |
|
|
70 x 1.128,62 |
kr. 79.003,- |
|
Laun vegna ágúst 1999 |
|
|
62,5 x 1.128,62 |
kr. 70.539,- |
|
Laun vegna september 1999 |
|
|
164 x 1.128,62 |
kr.185.094,- |
|
Laun vegna október 1999 |
|
|
98,5 x 1.128,62 |
kr.111.169,- |
|
Laun 1. - 22. nóvember 1999 |
|
|
84 x 1.128,62 |
kr. 94.804,- |
|
Laun 23. - 30. nóvember 1999 |
|
|
28,8 x 1.128,62 |
kr. 32.504,- |
|
Laun í uppsagnarfresti desember 1999 |
|
|
Meðallaun |
kr.140.840,- |
|
Laun í uppsagnarfresti janúar 2000 |
|
|
Meðallaun |
kr.140.840,- |
|
Laun í uppsagnarfresti febrúar 2000 |
|
|
Meðallaun |
kr.140.840,- |
|
Orlof 10,17% x 1.595.494,- |
kr.162.262,- |
|
Desemberuppbót 1999 |
kr. 18.784,- |
|
Orlofsuppbót 2000 |
kr. 5.366,- |
|
Samtals |
kr.1.880.937,- |
|
Áður greitt 5. mars 1999 |
kr. -100.000,- |
|
Áður greitt apríl 1999 |
kr. -100.000,- |
|
Áður greitt 5. maí 1999 |
kr. -100.000,- |
|
Áður greitt 15. júní 1999 |
kr. -100.000,- |
|
Áður greitt 19. júlí 1999 |
kr. -100.000,- |
|
Áður greitt 18. ágúst 1999 |
kr. -50.000,- |
|
Áður greitt 21. september 1999 |
kr. - 50.000,- |
|
Áður greitt 15. október 1999 |
kr. -50.000,- |
|
Áður greitt 27. október 1999 |
kr. - 80.000,- |
|
Áður greitt nóvember 1999 |
kr. -100.000,- |
|
Samtals áður greitt |
830.000, |
|
Mismunur samtals |
kr.1.050.937,- |
Hvað snertir varakröfu þá kveðst stefnandi miða við að umsamin laun hafi verið 1000 krónur á tímann og hafi komið 3,65% hækkun þann 1. janúar 1999 og sé þá tímakaupið 1.036,50.
Kveður stefnandi varakröfu sína byggjast á því að launa- lífeyris- og félagsgjalda uppgjör hafi farið fram fyrir tímabilið febrúar til nóvember 1999 að undanskyldum kr. 36.486 vegna vangoldinna launa samkvæmt launaseðlum svo og mismunar á 904 krónum og 1.036,50 krónum auk orlofs af þeirri upphæð svo og launa í uppsagnarfresti, orlofs og desemberuppbótar. Varakröfu sína sundurliðar stefnandi þannig:
|
Vangoldið skv. launaseðlum |
36.486 kr. |
|
Mismunur feb-nóv 1999 |
144.703 kr. |
|
des.99 |
116.430 kr. |
|
jan.00 |
116.430 kr. |
|
feb.00 |
116.430 kr. |
|
|
493.993 kr. |
|
Orlof 10,17% |
50.239 kr. |
|
Desemberuppbót |
18.784 kr. |
|
Orlofsuppbót |
5.366 kr. |
|
Samtals |
604.868 kr. |
Kröfur um bætur styður stefnandi við lög nr. 28/1930 um greiðslu verkkaups, lög nr. 19/1979 um rétt verkafólks til uppsagnarfrests. Lög nr. 30/1987 um orlof og kjarasamninga Verslunarmannafélag Reykjavíkur og vinnuveitenda, og bókanir sem teljist hluti kjarasamninga. Kröfur um dráttarvexti og vaxtavexti styður stefnandi við reglur III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987. Kröfur um málskostnað styður stefnandi við l. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 sbr. 129. gr. 4. tl. um vexti af málskostnaði. Einnig sé krafist virðisaukaskatts af málskostnaði þar sem stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur.
IV
Stefndi kveðst hafa ætlast til þess að stefnandi ynni á uppsagnarfresti eða semdi um starfslok. Hafi stefnandi vísað málinu til stéttarfélags síns og hafi því öll gögn um launauppgjör verið sent Verslunarmannafélagi Reykjavíkur sem hafi í kröfugerð litið fram hjá samkomulagi aðila. Telur stefndi að hann skuldi stefnanda krónur 36.486 miðað við vinnulok og krefst hann því sýknu gegn greiðslu þeirrar fjárhæðar. Telur stefndi málshöfðun þessa tilefnislausa og geti stefnandi vitjað uppgjörs þegar hún kjósi.
Stefndi kveður að umsamin laun hafi verið krónur 1.000 á klukkustund og í þeirri fjárhæð felist orlof og önnur launatengd fríðindi sbr. fyrra samkomulag. Þessi fjárhæð hafi verið langt fyrir ofan taxta Verslunarmannafélags Reykjavíkur fyrir starfsfólk sem unnið hafi sambærilega vinnu, auk þess sem stefnandi hafi haft frjálsræði um vinnumagn og vinnutíma.
Verði þessari málsástæðu stefnda hafnað fyrir dómi, setji hann fram lækkunarkröfu sem taki mið af því að tímakaupið, inniberandi orlof og öll fríðindi verði ákvarðað krónur 1.036,50, þ.e. að einungis verði litið til hækkunar frá 1. janúar 1999 sem hafi verið 3,65 %.
Stefndi hafnar greiðslum á uppsagnarfresti, stefnanda hafi verið sagt upp starfi en kosið sjálf að vinna ekki á uppsagnartíma og með þeim hætti eigi hún því ekki rétt til launa á uppsagnarfresti. Þá hafi hún á starfstíma sínum hjá stefnda haft með önnur verkefni að gera fyrir aðra aðila, auk þess sem hún hafi strax tekið að sér önnur verkefni eftir að hún hvarf úr þjónustu stefnda.
V
Eins og að framan er rakið greinir aðila á um launakjör og uppgjör vegna starfsloka hjá stefnda. Óumdeilt er að um samdist milli aðila að stefnandi tæki að sér að vinna fyrir stefnda á sömu kjörum og hún hafði þegar hún vann fyrir hann áður á árinu 1996, en deilt er um hvað í þeim kjörum hafi falist. Þegar stefnandi vann fyrir stefnda á árinu 1996 fékk hún greiddar krónur 1.000 á klukkustund. Stefnandi heldur því fram að aðilar hafi samið um að hún fengi þá fjárhæð með þeim hækkunum sem urðu á launum samkvæmt kjarasamningum frá árinu 1997 og fram til janúar 1999. Þá hafi hún einnig átt að fá greitt orlof. Stefndi heldur því hins vegar fram að samningur aðila hafi gengið út á það að stefnandi fengi greiddar krónur 1.000 á tímann og innifalið í þeirri fjárhæð væri orlof. Þá er ágreiningur milli aðila um hvort stefnandi eigi rétt á launum í uppsagnarfresti.
Stefnandi var sem starfsmaður stefnda félagi í Verslunarmannafélagi Reykjavíkur og vísar meðal annars til kjarasamnings sem gildir frá 9. mars 1997 til 15. febrúar 2000, milli þess félags annars vegar og Vinnuveitandasambands Íslands og Vinnumálasambandsins hins vegar um rökstuðning fyrir kröfum sínum.
Óumdeilt að stefnandi hafði frjálsan vinnutíma og átti að fá greitt jafnaðarkaup fyrir unnar vinnustundir. Ekki er í máli þessu deilt um tímafjölda sem stefnandi innti af hendi í þágu stefnda heldur aðeins um fjárhæð þá sem greiða átti fyrir hverja unna klukkustund.
Fyrir liggur að ekki var gerður skriflegur ráðningarsamningur milli aðila og ekki voru gefnir út launaseðlar. Um mikilvægi þess að gengið sé skriflega frá ráðningasamningi, þannig að ekki þurfi að velkjast í vafa um hvað samist hefur, þarf ekki að fjölyrða. Í 1. grein 11 í kjarasamningi Verslunarmannafélags Reykjavíkur segir að sé starfsmaður ráðinn til lengri tíma en eins mánaðar og að meðaltali lengur en átta klukkustundir á viku skuli eigi síðar en tveim mánuðum eftir að starf hefst gerður skriflegur ráðningasamningur eða ráðning staðfest skriflega. Um launaseðla segir í grein 1. grein 10.1 að launþegi skuli fá launaseðil við hverja útborgun þar sem greiðslan sé sundurliðuð svo sem í dagvinnu og yfirvinnu og unnar stundir í yfirvinnu greindar og allur frádráttur sundurliðaður. Þessum ákvæðum kjarasamningsins fullnægði stefndi ekki þrátt fyrir ítrekaðar óskir stefnanda, en honum bar skylda til þess samkvæmt framansögðu.
Samkvæmt 1. gr. orlofslaga nr. 30/1987 eiga allir þeir sem starfa í þjónustu annarra gegn launum rétt á orlofi og orlofslaunum. Samkvæmt 7. gr. laganna reiknast orlofslaun að lágmarki 10,17% af heildarlaunum og reiknast því af öllum launum, svo fremi ekki sé sérstaklega tekið fram í samningi að orlof sé undanþegið eða innifalið í greiðslu, enda er það meginregla í vinnurétti að orlof leggist ofan á laun. Með vísan til þess að ekki var gerður skriflegur ráðningarsamningur og ekki gefnir út launaseðlar eins og stefnda bar samkvæmt framangreindum kjarasamningi verður stefndi sem atvinnurekandi að bera sönnunarbyrðina fyrir þeirri fullyrðingu sinni að orlof hafi átt að vera innifalið í launum stefnanda. Hefur stefndi ekki lagt fram nein haldbær gögn sem staðfesta þessa fullyrðingu hans og verður hann að bera hallann af þeim sönnunarskorti.
Um desemberuppbót segir í kjarasamningi Verslunarmannafélags Reykjavíkur 1. grein 4.1. að starfsmenn sem verið hafi í fullu starfi allt árið í sama fyrirtæki og séu við störf í fyrirtækinu í síðustu viku nóvember eða fyrstu viku desember skulu eigi síðar en 15. desember ár hvert fá greidda sérstaka eingreiðslu, desemberuppbót. Starfsfólk í hlutastarfi sem uppfylli sömu skilyrði skuli fá greitt hlutfallslega. Desemberuppbót á árinu 1999 er samkvæmt kjarasamningi krónur 27.100. Stefnandi hefur gert kröfu um hlutfall af þessari fjárhæð í samræmi við vinnuframlag og hefur þeim útreikningi ekki verið mótmælt af hálfu stefnda. Með vísan til þess rökstuðnings sem að ofan greinir varðandi orlof verður krafa stefnanda tekin til greina að þessu leyti eins og hún er fram sett.
Í kjarasamningi Verslunarmannafélags Reykjavíkur segir í 1. grein 4.2 að starfsfólk sem hafi áunnið sér fullan orlofsrétt, með starfi hjá sama vinnuveitanda og sé í starfi í síðustu viku í apríl eða fyrstu viku í maí skuli við upphaf orlofstöku eigi síðar en 15. ágúst fá greidda sérstaka eingreiðslu, orlofsuppbót sem er samkvæmt samningnum kr. 9.000 fyrir árið 1999. Láti starfsmaður af störfum eftir 12 vikna samfellt starf á orlofsárinu skal hann við starfslok fá greidda orlofsuppbót vegna áunnins tíma miðað við starfshlutfall og starfstíma. Stefnandi hefur gert kröfu um hlutfall af eingreiðslu vegna áranna 1999 og 2000 og hefur þeim útreikningum ekki verið mótmælt af hálfu stefnda. Með sömu rökum og varðandi orlof og desemberuppbót verður tekin til greina krafa stefnanda um orlofsuppbót eins og sú krafa er fram sett. Þá hefur stefndi viðurkennt þann hluta kröfugerðar stefnanda sem lýtur að akstursgjaldi samtals að fjárhæð krónur 2.843 en hann hefur gert ráð fyrir þeim greiðslum á þeim launaseðlum sem hann gaf út eftir að stefnandi lét af störfum.
Aðila greinir á um hvað samist hafði milli þeirra um fjárhæð fyrir hverja unna klukkustund. Báðir viðurkenna að rætt hafi verið um það sama og stefnandi fékk greitt árið 1996, eða krónur 1.000 á tímann. Stefnandi heldur því fram að hún hafi litið svo á að samist hafi um það að viðbættum hækkunum samkvæmt kjarasamningum sem urðu á tímabilinu 1997 til janúar 1999. Í ljósi þess að báðir aðilar viðurkenna að rætt hafi verið um sömu kjör og stefnandi fékk árið 1996 þykir stefnandi bera sönnunarbyrðina fyrir því að samist hafi um hærri laun en krónur 1.000 á tímann, en stefndi hefur alfarið mótmælt því. Þykir stefnandi ekki hafa sýnt fram á það svo óyggjandi sé að laun hennar ættu að vera hærri en sem nemur krónum 1.000 á tímann og verður því slegið föstu að samist hafi um þau launakjör. Allar þær hækkanir sem urðu á kjarasamningum á tímabilinu, og stefnandi krefst að tekið verði tillit til komu til áður en stefnandi hóf störf hjá stefnda í febrúar 1999.
Að því virtu sem nú hefur verið rakið verður við það miðað að stefnandi eigi, auk framantalinna krafna sem lúta að akstursgjaldi, desemberuppbót og orlofsuppbótum, rétt á launagreiðslum sem nemur krónum 1.000 á tímann, að frádregnum þeim greiðslum sem hún óumdeilt hefur fengið upp í laun sín. Þá á hún rétt á lágmarksorlofsréttindum samkvæmt kjarasamningnum og orlofslögum sem eru 10,17% ofan á launagreiðslur.
Samkvæmt margnefndum kjarasamningi Verslunarmannafélags Reykjavíkur segir í 13. grein að starfsuppsögn skuli af beggja hálfu vera þrír mánuðir eftir sex mánaða starf. Stefnandi vann samfellt hjá stefnda frá febrúar 1999 þar til hún lét af störfum í nóvember 1999. Er því ljóst að uppsagnarfrestur stefnanda var þrír mánuðir og er sá uppsagnarfrestur gagnkvæmur. Fyrir liggur í málinu að stefndi hafði ekki fullnægt skyldum sínum gagnvart stefnanda og að stefnandi sendi honum viðvörun vegna þeirra vanefnda hans. Þá liggur fyrir að stefndi sagði stefnanda upp starfi sínu munnlega þann 22. nóvember 1999 og fylgdi þeirri uppsögn eftir skriflega sama dag. Í bréfi sínu til Verslunarmannafélags Reykjavíkur dagsettu 30. nóvember 1999 upplýsir stefndi félagið um uppsögnina og kemur þar fram að stefnandi hafi verið kölluð á fund fyrirsvarsmanns stefnda og henni sagt upp störfum munnlega og hafi komið fram í máli fyrirsvarsmanns stefnda að aðilar þyrftu að ná saman um starfslok stefnanda og að stefnda væri akkur í því, “en hún léti fljótlega eða strax af störfum. Kristín virti þessa bón okkar um viðræður um starfslok að vettugi. Trúlega hefði henni verið sagt upp, þó atvik þetta hefði ekki komið upp.” Þá segir í niðurlagi bréfsins að stefndi óski ekki sérstaklega eftir þjónustu stefnanda og í umhverfi sem þessu finnist stefnda að aðilar eigi að semja. Þykir ljóst af gögnum þessum að stefndi sagði stefnanda upp störfum og óskaði ekki eftir vinnuframlagi hennar á uppsagnarfresti. Af því leiðir að stefnanda var frjálst að nýta sér uppsagnarfrestinn á þann hátt sem hún helst kaus, þar með talið að vinna hjá öðrum, án þess að það skerti kröfu hennar á hendur stefnda. Hins vegar liggur ekkert fyrir í málinu um að hún hafi tekið að sér vinnu fyrir aðra á uppsagnarfrestinum nema þá sem hún hafði haft með höndum samhliða starfi sínu hjá stefnda. Verður stefndi því dæmdur til að greiða stefnanda laun í þrjá mánuði frá því að uppsögn tók gildi fyrir desember 1999, janúar og febrúar 2000 og með hliðsjón af því sem nú hefur verið slegið föstu um launakjör stefnanda á hún rétt á að fá greidd meðallaun vegna tímabilsins febrúar til nóvember 1999. Það er því niðurstaða máls þessa að stefnandi á rétt á eftirfarandi greiðslum fyrir vinnu sína úr hendi stefnda:
|
Laun vegna febrúar 1999 |
krónur 166.000 |
|
Laun vegna mars 1999 |
krónur 156.500 |
|
Laun vegna apríl 1999 |
krónur 102.000 |
|
Laun vegna maí 1999 |
krónur 116.500 |
|
Laun vegna júní 1999 |
krónur 74.500 |
|
Laun vegna júlí 1999 |
krónur 70.000 |
|
Laun vegna ágúst 1999 |
krónur 62.500 |
|
Laun vegna september 1999 |
krónur 164.000 |
|
Laun vegna október 1999 |
krónur 98.500 |
|
Laun vegna nóvember 1999 |
krónur 112.800 |
|
Samtals laun |
krónur 1.123.300 |
Samtals laun fyrir tímabilið eru samkvæmt þessu krónur 1.123.300 og eru því meðallaun vegna tímabilsins krónur 112.330 eða 112,33 klukkustundir á mánuði. Eru því laun í uppsagnarfresti krónur 112.330 fyrir desember 1999, janúar og febrúar 2000. Krafa stefnanda um orlof er þannig úr garði gerð að gerð er krafa um orlof á launagreiðslur, nema vegna tímabilsins 1. til 22. nóvember 1999 og miðað við þá framsetningu eru orlofslaun krónur 105.697, eða 10,17% af krónum 1.039.300. Akstursgjald vegna febrúar er krónur 729, vegna apríl krónur 688 og vegna maí krónur 688. Desemberuppbót er krónur 18.784 og orlofsuppbót 1999 í maí 1999 krónur 2.122 og orlofsuppbót 2000 krónur 5.366.
Samkvæmt þessu eru heildarlaun stefnanda vegna vinnu fyrir stefnda á tímabilinu febrúar 1999 til nóvember 1999 og launa í uppsagnarfresti fyrir desember 1999 til febrúar 2000 krónur 1.594.364. Frá þeirri fjárhæð dregst það sem þegar hefur greiðst inn á launin samtals krónur 830.000 og standa því eftir ógreiddar krónur 764.364 sem greiðist með dráttarvöxtum eins og stefnandi krefst í aðalkröfu sinni þó með breyttum fjárhæðum eins og nánar greinir í dómsorði.
Eftir þessum úrslitum þykir rétt að stefndi greiði stefnanda krónur 170.000 í málskostnað og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Guðmundur B. Ólafsson hdl. flutti málið af hálfu stefnanda en Kristján Stefánsson hrl. af hálfu stefnda.
Greta Baldursdóttir héraðsdómari kveður upp dóminn.stefnanda
D Ó M S O R Ð
Stefndi Annáll ehf. greiði stefnanda Kristínu Sigríði Jónsdóttur krónur 764.364 ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af krónum 166.729 frá 1. mars 1999 til 5. mars 1999, af krónum 66.729 frá þeim degi til 1. apríl 1999, af krónum 123.329 frá þeim degi til 1. maí 1999, af krónum 225.917 frá þeim degi til til 5. maí 1999, af krónum 125.917 frá þeim degi til 1. júní 1999, af krónum 245.227 frá þeim degi til 15. júní 1999, af krónum 145.227 frá þeim degi til 1. júlí 1999, af krónum 219.727 frá þeim degi til 19. júlí 1999, af krónum 119.727 frá þeim degi til 1. ágúst 1999 af krónum 189.727 frá þeim degi til 18. ágúst 1999, af krónum 139.727 frá þeim degi til 1. september 1999, af krónum 202.227 frá þeim degi til 21. september 1999, af krónum 152.227 frá þeim degi til 1. október 1999, af krónum 316.227 frá þeim degi til 15. október 1999, af krónum 266.227 frá þeim degi til 27. október 1999, af krónum 186.227 frá þeim degi til 1. nóvember 1999, af krónum 184.727 frá þeim degi til 1. desember 1999, af krónum 297.527 frá þeim degi til 1. janúar 2000, af krónum 409.857 frá þeim degi til 1. febrúar 2000, af krónum 522.187 frá þeim degi til 1. mars 2000, af krónum 764.364 frá þeim degi til greiðsludags.
Stefndi greiði stefnanda krónur 170.000 í málskostnað þar með talinn virðisaukaskatt.