Hæstiréttur íslands
Mál nr. 709/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Fjármálafyrirtæki
- Stefna
- Frávísunarúrskurður felldur úr gildi
|
|
Fimmtudaginn 21. nóvember 2013. |
|
Nr. 709/2013. |
Drómi hf. (Bjarki Már Baxter hdl.) gegn Birnu Pálsdóttur (enginn) |
Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Stefna. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi.
D hf. höfðaði mál á hendur B til heimtu skuldar samkvæmt tveimur lánssamningum. Með úrskurði héraðsdóms var málinu vísað frá dómi af sjálfsdáðum sökum vanreifunar, einkum með vísan til þess að það hefði staðið D hf. nær að upplýsa nánar um málsatvik í stefnu. Hæstiréttur vísaði til þess að stefna í málinu samrýmdist kröfum 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og þess að ekki væri ætlast til að í stefnu væri fjallað um hugsanlegar málsástæður, sem stefndi kynni að bera fyrir sig í greinargerð ef hann tæki til varna í máli, heldur svaraði stefnandi slíku í síðasta lagi við munnlegan flutning máls. Taldi Hæstiréttur samhengi málsástæðna D hf. í stefnu ljóst þótt ekki hefði verið greint frá öllum málsatvikum tengdum viðskiptum aðila. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Greta Baldursdóttir og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 30. október 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 6. nóvember sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 21. október 2013 þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi af sjálfsdáðum. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá kefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
I
Sóknaraðili höfðaði mál þetta fyrir héraðsdómi og krafðist greiðslu skuldar úr hendi varnaraðila. Krafan var reist á tveimur lánssamningum sem báðum er skýrlega lýst í stefnu, auk þess sem gerð er grein fyrir framlengingum á lánssamningunum, sem aðilar þeirra sömdu um. Í stefnunni er einnig lýst útreikningi á fjárhæð stefnukröfu og öðrum atriðum, sem þörf er á samkvæmt 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Við þingfestingu málsins lagði sóknaraðili fram, auk stefnu og skrár um framlögð skjöl, 16 skjöl sem öll lutu að lánssamningunum, grundvelli útreiknings stefnukröfunnar svo og yfirlýsingu um rétt hans til að fara með kröfuna.
Varnaraðili lagði fram greinargerð og krafðist aðallega frávísunar málsins, til vara sýknu og að því frágengnu lækkunar stefnukröfunnar. Frávísunarkröfuna reisti varnaraðili á því, að á skorti að sóknaraðili lýsti þeim lögskiptum, sem lánssamningar þeir, sem um ræðir, væru sprottnir af. Um hafi verið að ræða viðskipti með stofnfjárhluti í SPRON og hafi sú stofnun lánað varnaraðila fé til kaupanna og tekið lánsfjárhæðina til fullnustu á greiðslu kaupverðsins. Sé engar skýringar að finna í stefnu á þessum viðskiptum og rangt sé að varnaraðili hafi haft frumkvæði að þeim. Hún hafi auk þess aldrei fengið lánsfjárhæðina til frjálsrar ráðstöfunar, heldur hafi SPRON tekið hana til fullnustu á greiðslu fyrir stofnfjárhlutina sem keyptir voru í bæði skiptin. Telur varnaraðili að málatilbúnaður sóknaraðila að þessu leyti fari í bága við 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991, einkum e. og g. lið þeirrar málsgreinar. Afleiðing þessarar vanreifunar sé sú að varnaraðili sé í lakari stöðu en ella væri til að gæta hagsmuna sinna í málinu.
Varnaraðili féll frá frávísunarkröfunni í þinghaldi 26. febrúar 2013 og skoraði þá á sóknaraðila að leggja fram frumrit samnings aðila um kaup á stofnfjárhlutum í SPRON, áskriftarloforð og veðsamninga. Sóknaraðili varð við þessari áskorun í næsta þinghaldi og lagði þá fram handveðssamning 10. maí 2006 og tvær óundirritaðar umsóknir um stofnfjárkaup. Í kæru til Hæstaréttar kveður hann sérstakan kaupsamning ekki hafa fundist og efist hann reyndar um að slíkur samningur hafi verið gerður.
II
Aðalmeðferð í málinu fór fram fyrir Héraðsdómi Reykjaness 16. september 2013 og var málið að henni lokinni tekið til dóms. Héraðsdómur vísaði málinu frá dómi af sjálfsdáðum. Var sú niðurstaða einkum á því reist að það hefði staðið sóknaraðila nær í ljósi allra atvika málsins að upplýsa í stefnu um efni kaupsamninga um stofnfjárhlutina og helstu atvik að kaupunum. Þar sem hann hafi kosið að gera það ekki sé málið svo vanreifað að vísa beri því frá dómi.
Eins og áður greinir höfðaði sóknaraðili málið til heimtu skuldar samkvæmt tveimur lánssamningum. Stefna í málinu samrýmist þeim kröfum, sem gerðar eru til hennar í 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Ekki er ætlast til að í stefnu sé fjallað um hugsanlegar málsástæður, sem stefndi kann að bera fyrir sig í greinargerð ef hann tekur til varna í máli, heldur svarar stefnandi slíku í síðasta lagi við munnlegan flutning máls. Samhengi málsástæðna sóknaraðila í héraðsdómsstefnu var ljóst þótt hann hafi ekki gert grein fyrir því að lánin hafi verið tekin í tengslum við kaup varnaraðila á stofnfjárhlutum í SPRON. Um þetta var varnaraðila vel kunnugt og gat, ef hún vildi reisa sýknukröfu á atvikum er lutu að lögskiptum að baki lánssamningunum, haldið uppi vörnum um það efni. Ef hún taldi skorta gögn í málið, sem hún ætti ekki kost á að afla sjálf, en væru nauðsynleg fyrir varnir hennar gat hún beint áskorun til sóknaraðila um framlagningu þeirra svo sem hún gerði. Málið var því ekki vanreifað af hendi sóknaraðila af þeim ástæðum, sem hér um ræðir. Verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til löglegrar meðferðar.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til löglegrar meðferðar.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 21. október 2013.
Mál þetta, sem dómtekið var 16. september sl., höfðaði stefnandi, Drómi hf., Lágmúla 6, Reykjavík, hinn 3. september 2012, gegn stefndu, Birnu Pálsdóttur, Hrísmóum 4, Garðabæ.
Dómkröfur stefnanda eru að stefnda verði dæmd til að greiða honum 21.752.469 krónur ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 13.504.653 krónum frá 7. maí 2009 til 15. sama mánaðar, en af 21.752.469 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefndu.
Endanlegar dómkröfur stefndu eru aðallega að hún verði sýknuð af öllum kröfum stefnanda, en til vara að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega. Í báðum tilvikum krefst stefnda málskostnaðar úr hendi stefnanda.
I
A
Stefnda átti stofnfjárhluti í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis (SPRON). Á aðalfundi SPRON 6. mars 2006 var stjórn sjóðsins veitt heimild til að auka stofnfé hans allt að sjöfalt. Í kjölfarið var stofnfé sparisjóðsins aukið í skrefum og var stofnfjáreigendum boðið að taka þátt, en sæta annars hlutfallslegri skerðingu á stofnfjáreign sinni. Stefnda mun ekki hafa haft handbært fjármagn til að halda hlutfallslegri eign sinni í SPRON. Svo fór að stefnda tók lán hjá SPRON til kaupa á stofnfjárhlutum í sparisjóðnum.
B
Með skriflegri lánsumsókn 15. maí 2006 óskaði stefnda eftir því að SPRON veitti henni:
... fjölmyntareikningslán að ... upphæð JPY 2.960.526- og CHF 32.642,98- sbr.
eftirfarandi:
1) að fjárhæðin verði til reiðu á reikningi mínum númer 1163-26-030053 þann 15. maí 2006 og skuldfærist af honum í einu lagi ásamt vöxtum og kostnaði á gjalddaga þann 15. maí 2007.
2) Vextir verði 3 mán. LIBOR að viðbættu 2,5% álagi.
3) Lántökugjald verði 1,0%.
Stefnda vísar sérstaklega til þess í málatilbúnaði sínum að þrátt fyrir orðalag umsóknarinnar hafi hún í raun og veru ekki óskað eftir þessari lántöku heldur hafi SPRON att stefndu út í að að taka lán hjá sparisjóðnum í því skyni að kaupa hluti í honum sjálfum.
SPRON samþykkti hina skriflegu lánsumsókn stefndu samdægurs, sbr. framlagða „Staðfestingu á fjölmyntareikningsláni“. Samkvæmt beiðni í hinni undirrituðu lánsumsókn var andvirði lánsins lagt inn á fyrrgreindan reikning stefndu 15. maí 2006. Í málatilbúnaði sínum hefur stefnda sérstaklega á það bent að hún hafi ekki undirritað staðfestingarskjalið og þá sé í því hvergi vikið að kaupum stefndu á stofnfjárhlutum, þó svo þau kaup hafi verið hin eiginlegu viðskipti aðila. Enn fremur heldur stefnda því fram að hún hafi ekkert komið nærri millifærslum inn og og út af áðurnefndum reikningi.
Með beiðni 7. maí 2007 óskaði stefnda eftir framlengingu reikningslánsins. SPRON samþykkti beiðni stefndu og var nýr gjalddagi lánsins ákveðinn 15. nóvember 2007, þó þannig að einnig skyldi greiða vexti af láninu 15. maí það ár. Þá var vaxtakjörum lánsins breytt þannig að vextir lánsins skyldu eftirleiðis vera sex mánaða LIBOR-vextir að viðbættu 2,5% álagi.
Áður en að gjalddaga lánsins 15. nóvember 2007 kom óskaði stefnda aftur eftir framlengingu reikningslánsins og samþykkti SPRON beiðni stefndu. Var nýr gjalddagi lánsins ákveðinn 15. maí 2008, þó þannig að einnig skyldi greiða vexti af láninu 15. nóvember 2007. Vaxtakjör voru áfram þau sömu.
Hinn 14. maí 2008 óskaði stefnda enn eftir því að reikningslánið yrði framlengt. SPRON samþykkti beiðni stefndu og var nýr gjalddagi lánsins ákveðinn 15. maí 2009, þó þannig að einnig skyldi greiða vexti af láninu 15. maí 2008. Þá var vaxtakjörum lánsins breytt þannig að vextir lánsins skyldu eftirleiðis vera tólf mánaða LIBOR-vextir að viðbættu 4,5% álagi.
C
Með skriflegri ódagsettri lánsumsókn óskaði stefnda eftir því að SPRON veitti henni:
... fjölmyntareikningslán að upphæð jafnvirði ISK 6.070.000,- sbr. eftirfarandi:
1) að fjárhæðin verði til reiðu þann 22.12.2006 og skuldfærist af reikningi 1163-26-030053 einu lagi ásamt vöxtum og kostnaði á gjalddaga þann 05.05.2007.
2) Að fjárhæðin verði samsett af eftirfarandi gjaldmiðlum: CHF 53.433,10 og JPY 5.200.480,-
3) Vextir verði 6 mán. LIBOR að viðbættu 2,5% álagi.
4) Lántökugjald er 1,0%.
Hefur stefnda, líkt og hvað hið fyrra lán varðar, gert þær athugasemdir að þrátt fyrir orðalag umsóknarinnar hafi hún í raun og veru ekki óskað eftir þessari lántöku heldur hafi SPRON att stefndu út í að að taka lán hjá sparisjóðnum í því skyni að kaupa hluti í honum sjálfum.
SPRON samþykkti lánsumsókn stefndu 20. desember 2006, sbr. framlagða „Staðfestingu á fjölmyntareikningsláni“. Samkvæmt beiðni í hinni undirrituðu lánsumsókn stefndu var andvirði lánsins lagt inn á fyrrnefndan reikning hennar 22. desember 2006. Gerir stefnda sams konar athugasemdir við þetta staðfestingarskjal og hið fyrra, þ.e. að hún hafi ekki undirritað skjalið og þá sé í því hvergi vikið að kaupum stefndu á stofnfjárhlutum, þó svo þau kaup hafi verið hin eiginlegu viðskipti aðila. Þá hefur stefnda áréttað að hún hafi ekkert komið nærri millifærslum inn og og út af áðurnefndum reikningi sínum.
Af gögnum málsins verður ráðið að stefndu hafi verið veittur greiðslufrestur á gjalddaga lánsins 5. maí 2007 og hafi nýr gjalddagi verið ákveðinn 7. maí 2008. Í málinu liggur ekki fyrir skrifleg beiðni frá stefndu um greiðslufrest vegna gjalddagans 5. maí 2007, ólíkt öðrum gjalddögum.
Með beiðni, dagsettri 14. maí 2008, óskaði stefnda eftir framlengingu reikningslánsins. SPRON samþykkti beiðni stefndu og var nýr gjalddagi lánsins ákveðinn 7. maí 2009 með þeim skilmálum að stefndu bæri að greiða vexti af láninu 7. maí 2008. Þá var vaxtakjörum lánsins breytt þannig að vextir lánsins skyldu eftirleiðis vera tólf mánaða LIBOR-vextir að viðbættu 4,5% álagi.
D
Stefnandi sendi stefndu innheimtubréf 9. júlí 2012 og krafði hana um greiðslu tveggja framangreindra lána. Í bréfum stefnanda kom annars vegar fram að lán útgefið 15. maí 2007 væri í vanskilum frá 15. maí 2009 og næmi höfuðstóll þess, auk vaxta og kostnaðar, á ritunardegi bréfsins, 13.108.802 krónum. Hins vegar kom fram að lán útgefið 20. desember 2007 væri í vanskilum frá 7. maí 2009 og næmi höfuðstóll þess, auk vaxta og kostnaðar, á ritunardegi bréfsins, 21.400.675 krónum. Innheimtuaðgerðir stefnanda báru engan árangur og höfðaði hann því mál þetta 3. september 2012 samkvæmt áðursögðu.
Til útskýringar á aðild stefnanda skal þess getið að á grundvelli ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins frá 21. mars 2009 stofnaði bráðabirgðastjórn Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf. sérstakt hlutafélag, stefnanda í máli þessu, sem tók við öllum eignum félagsins og tryggingarréttindum, þ.m.t. öllum veðréttindum, ábyrgðum og öðrum sambærilegum réttindum sem tengdust kröfum SPRON.
II
Stefnandi vísar til þess að í skilmálum láns nr. 9791 (áður nr. 456), að fjárhæð JPY 2.960.526 og CHF 32.642,89, komi fram að á gjalddaga 15. maí 2007 hafi SPRON verið heimilt að skuldfæra tékkareikning stefndu nr. 1163-26-30053 fyrir andvirði lánsins í íslenskum krónum að viðbættum vöxtum sem miðuðust við þriggja mánaða LIBOR-útlánsvexti hverrar myntar eins og þeir væru skráðir á Reuters-síðu FRASETT, um kl. 12 á hádegi að íslenskum tíma, tveimur dögum fyrir útborgunardag láns, að viðbættu 2,5% álagi. Vextir af láninu skyldu reiknast á grundvelli actual/360 daga.
Stefnda hafi skuldbundið sig til þess að hafa á gjalddaga lánsins til ráðstöfunar á framangreindum reikningi fjárhæð í íslenskum krónum sem svaraði til uppgreiðslu á láninu, þ.e. höfuðstóli þess og vöxtum auk afgreiðslugjalds samkvæmt gjaldskrá SPRON. Útreikningur á þeirri fjárhæð sem greiða skyldi á gjalddaga í íslenskum krónum skyldi miðast við sölugengi Sparisjóðabanka Íslands hf. á gjalddaga lánsins.
Stefnandi hafi, að ósk stefndu, í þrígang breytt gjalddaga lánsins, sbr. kafla I hér að framan. Lánið hafi gjaldfallið 15. maí 2009 og verið í vanskilum síðan.
Síðara lán stefndu, sbr. lánssamning nr. 10018 (áður nr. 732), að fjárhæð JPY 5.200.480 og CHF 53.433,10, hafi tvisvar verið framlengt, með ákveðnum breytingum á vaxtakjörum og álagi, sbr. kafla I. Að öðru leyti hafi skilmálar lánsins verið sambærilegir fyrrgreindum skilmálum láns nr. 9791. Lánið hafi gjaldfallið 7. maí 2009 og verið í vanskilum síðan.
Stefnandi kveðst byggja kröfu sína á ákvæðum fjölmyntareikningslánanna tveggja og viðaukum við þau. Krafan sé reist á almennum reglum samninga- og kröfuréttar um skuldbindingargildi loforða og greiðslu skulda. Stefnda hafi lofað að greiða skuldina á gjalddaga og hafi jafnframt skuldbundið sig til að hafa á þeim degi til ráðstöfunar á reikningi sínum nr. 1163-26-30053 fjárhæð sem svaraði til uppgreiðslu lánanna, þ.e. höfuðstóls og vaxta, auk afgreiðslugjalds samkvæmt gjaldskrá í íslenskum krónum. Skuld samkvæmt lánssamningi nr. 9791 hafi verið í vanskilum frá 15. maí 2009 og skuld vegna lánssamnings nr. 10018 frá 7. maí 2009. Innheimtuaðgerðir hafi engan árangur borið og málshöfðun því reynst nauðsynleg.
Hvað varðar kröfu um málskostnað bendir stefnandi sérstaklega á að hann sé ekki virðisaukaskattsskyldur aðili og honum beri því nauðsyn til að fá dóm fyrir skattinum úr hendi stefndu.
Kröfusamlag í málinu segir stefnandi byggt á 27. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Staðhæfingar stefndu um málsatvik í greinargerð segir stefnandi rangar og ósannaðar. Þá vísar stefnandi til þess að lántaka stefndu annars vegar og kaup hennar á stofnfjárbréfum í SPRON hafi verið tveir aðskildir gerningar. Enn fremur bendir stefnandi á að viðskiptum með bréf í óskráðum félögum fylgi áhætta.
Hvað lög nr. 33/2003 um verðbréfaviðskipti varðar tekur stefnandi sérstaklega fram að lögin eigi ekki við um stofnfjárbréfaaukningu. Þá vísar hann jafnframt til þess að enga ógildingarreglu sé að finna í lögunum.
Stefnandi byggir enn fremur á því að stefnda hafi sýnt af sér tómlæti. Hún hafi engar athugasemdir haft uppi fyrr en um sex árum eftir að kaupin áttu sér stað, sbr. 27. gr. laga nr. 48/2003 um neytendakaup, en samkvæmt ákvæðinu geti frestur til að bera fyrir sig galla verið að hámarki fimm ár. Þá séu engin skilyrði fyrir því í málinu að ógilda lánssamninga aðila á grundvelli meints forsendubrests.
---
Stefnandi sundurliðar kröfu sína svo:
Vegna lánssamnings nr. 9791
Höfuðstóll í JPY 2.960.526,00
Samningsvextir í JPY 168.167,00
Samtals skuld í JPY 3.128.693,00
Höfuðstóll í CHF 32.642,89
Samningsvextir í CHF 2.512,01
Samtals skuld í CHF 35.154,90
Á gjalddaga lánsins 15. maí 2009 hafi skráð sölugengi svissnesks franka verið 115,01 krónur og sölugengi japansks jens 1,3439. Samtals nemi krafa vegna lánsins því 8.247.816 krónum og beri hún dráttarvexti skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá gjalddaga 15. maí 2009 til greiðsludags.
Vegna lánssamnings nr. 10018
Höfuðstóll í JPY 5.200.480,00
Samningsvextir í JPY 295.503,00
Samtals skuld í JPY 5.495.983,00
Höfuðstóll í CHF 53.433,10
Samningsvextir í CHF 4.117,32
Samtals skuld í CHF 57.550,42
Á gjalddaga lánsins 7. maí 2009 hafi skráð sölugengi svissnesks franka verið 112,305 krónur og sölugengi japansks jens 1,2812. Samtals nemi krafa vegna lánsins því 13.504.653 krónum og beri hún dráttarvexti skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá gjalddaga 7. maí 2009 til greiðsludags.
Samkvæmt öllu framansögðu nemi stefnukrafan því 21.752.469 krónum, auk dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 13.504.653 krónum frá 7. maí 2009 til 15. sama mánaðar, en af 21.752.469 krónum frá þeim degi til greiðsludags.
III
Stefnda bendir á að stefnandi hafi algerlega látið undir höfuð leggjast að fjalla um þau lögskipti aðila sem lán SPRON til stefndu hafi sprottið af. Stefnandi hafi þannig vikið sér undan umfjöllun um viðskipti aðila með stofnfjárhluti, enda þótt þau hafi verið hin eiginlegu viðskipti og það sem allt hafi snúist um. Engin gögn hafi verið lögð fram um þau viðskipti, svo sem kaupsamningur eða áskriftarloforð.
Þá sé í stefnu ranglega gefið í skyn að lánin hafi verið stefndu til fullrar og frjálsrar ráðstöfunar. Hið rétta sé að SPRON hafi jafnharðan tekið umrædda fjármuni út af reikningi stefndu til viðskipta með stofnfjárhluti í sjálfum sér. Jafnframt sé því haldið fram í stefnu að stefnda hafi haft frumkvæði að lánaviðskiptunum, sem sé fjarri öllum sanni.
Af hálfu stefndu var í munnlegum málflutningi sérstaklega tekið fram að málatilbúnaður stefnanda væri samkvæmt framansögðu svo vanreifaður að til greina hlyti að koma að dómari vísaði málinu frá dómi ex officio.
Stefnda byggir kröfur sínar á því að meintir lánssamningar aðila séu óskuldbindandi fyrir hana á grundvelli ógildingarreglna III. kafla laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, einkum 33. og 36. gr. laganna. Um sé að ræða stöðluð eyðublöð, útbúin af SPRON, sem stefnda hafi undirritað vegna kaupa á stofnfjárhlutum. Allt frumkvæði að gerð skjalanna hafi verið frá starfsmönnum SPRON komið, sem fullyrt hafi að stofnfjárhlutirnir væru örugg og góð fjárfesting. Ekkert hafi verið fjallað um lánskjör eða skuldsett kaup. Staðfestingar lánanna, sem stefnandi byggi á að séu hluti af þeim, hafi verið óundirritaðar af hálfu stefndu og geti af þeim sökum ekki skuldbundið hana. Stefnda, sem enga reynslu hafi haft af eða þekkingu á verðbréfaviðskiptum, hafi engar forsendur haft til að meta skjöl þau sem starfsmenn SPRON hafi lagt fyrir hana. Ástæða þess að stefnda hafi látið til leiðast hafi verið áralöng viðskipti hennar við SPRON og það traust sem starfsmenn sjóðsins höfðu áunnið sér hjá stefndu á löngum tíma.
Stefnda áréttar að lánin hafi ekki staðið henni til fullrar og frjálsrar ráðstöfunar, eins og ætla megi af málatilbúnaði stefnanda. Þvert á móti hafi SPRON hirt andvirði lánanna aftur til kaupa á hlutum í sjálfum sér. Í raun hafi stefnanda ekki tekist að sanna að nokkrir fjármunir hafi verið lánaðir, a.m.k. hafi stefnda aldrei fengið peningana í hendur. Þau yfirlit og kvittanir er fyrir liggi í málinu séu einhliða bókhaldsgögn SPRON sem stefnda hafi enga aðkomu átt að. Framlögð skjöl um framlengingu lána geti heldur enga þýðingu haft, enda hafi stefnda undirritað þau í trausti þess að SPRON ætti réttmæta kröfu á hendur henni. Svo hafi hins vegar ekki verið.
Stefnda bendir á að á gjalddaga lánanna 5. og 15. maí 2007 hafi hún ekki verið krafin um endurgreiðslu þeirra heldur hafi þau verið framlengd, en sú tilhögun hafi verið almenn hjá SPRON vegna lána sem veitt höfðu verið til kaupa á stofnfjárhlutum. Á gjalddaga hefði SPRON getað leyst hlutina til sín og ráðstafað andvirði þeirra til greiðslu lánanna. Það hefði SPRON hins vegar ekki gert. Rekstur sjóðsins hafi þá verið kominn í óefni og hagsmunir sjóðsins að eiga kröfu á hendur stefndu en ekki súrnandi bréf í sjálfum sér. Það hafi forsvarsmenn SPRON vitað en stefnda ekki.
Af hálfu stefndu er því haldið fram að SPRON hafi orðið uppvís að háttsemi sem sjálfstætt leiði til ógildingar á lántöku stefndu og ráðstöfun lánsins. Auk fyrrnefndra ógildingarreglna samningalaga kveðst stefnda vísa til þágildandi laga nr. 33/2003 um verðbréfaviðskipti, sbr. nú lög nr. 108/2007, og laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Skv. 5. gr. laga nr. 33/2003 hvíli sú skylda á fjármálafyrirtæki að veita viðskiptavinum greinargóðar upplýsingar, meðal annars um þá fjárfestingarkosti sem þeim standi til boða. Í ákvæðinu segi enn fremur að upplýsingar sem fjármálafyrirtæki veiti skuli vera skýrar, nægjanlegar og ekki villandi þannig að viðskiptavinir geti tekið upplýsta fjárfestingarákvörðun. Ljóst sé að SPRON hafi brotið gegn ákvæðinu við upplýsingagjöf til stefndu, sbr. 14. gr. laga nr. 108/2007. Starfsmönnum SPRON hafi því borið að ganga úr skugga um að stefnda gerði sér skýra grein fyrir þeirri áhættu sem fælist í undirritun beiðnanna. Allt að einu hafi SPRON borið að haga skjalagerð með þeim hætti að stefndu væri ljóst um hvað væri að tefla. Starfsmönnum SPRON hafi mátt vera það ljóst að ef stefnda hefði verið upplýst um þá fjárhagslegu áhættu sem fólst í kaupum á stofnfjárhlutunum hefði ákvörðun hennar orðið önnur. Þá hafi starfsmenn SPRON ekki hirt um að meta stefndu sem fjárfesti, þ.m.t. tapsþol hennar. Stefnandi verði að bera allan halla af því hversu illa SPRON hafi staðið að málum, en gera verði ríkar kröfur til fjármálafyrirtækja, enda séu þau oft í yfirburðastöðu gagnvart viðsemjendum sínum. Það að láta hjá líða að upplýsa stefndu um jafnveigamikil atriði og raun bar vitni hafi verið ólögmætt. Stefnda hafi verið í góðri trú við undirritun beiðnanna og treyst því að starfsmenn SPRON gættu lögvarinna réttinda hennar. Með villandi upplýsingum hafi starfsmenn SPRON hins vegar blekkt stefndu. Sú háttsemi þeirra hafi meðal annars verið andstæð 4. og 9. gr. laga nr. 33/2003, auk reglugerða og reglna sem settar hafi verið með stoð í þeim lögum. Samkvæmt öllu framangreindu beri dómnum að víkja lánssamningi aðila til hliðar að öllu leyti.
Sýknukröfu sína segir stefnda einnig á því byggða að það hafi verið forsenda fyrir viðskiptum hennar við SPRON í desember 2006 að áhættan við þau væri bundin við stofnfjáreign hennar. Þá hafi starfsmenn sjóðsins fullyrt að arðgreiðslur myndu standa undir afborgunum og þannig greiða upp lánin. Í öllu falli myndi stefnda ekki tapa meiru en sem næmi stofnfjáreign hennar. Forsenda þessi hafi verið veruleg og jafnframt ákvörðunarástæða fyrir lánaviðskiptum stefndu við SPRON. Skemmst sé frá því að segja að ekki hafi staðið steinn yfir steini í þessum fullyrðingum starfsmanna SPRON. Með málshöfðun stefnanda hafi komið í ljós að stefnda fór út í lánaviðskiptin við SPRON á röngum forsendum.
Verði ekki á það fallist að víkja beri skuldbindingu stefndu til hliðar að öllu leyti kveðst stefnda með sömu rökum og að framan eru rakin byggja á því að svo beri að gera að verulegu leyti, sbr. 36. gr. laga nr. 7/1936.
Lækkunarkröfu sína segir stefnda einnig á því reista að skuldbindingar stefndu, verði á annað borð á það fallist að þær séu til staðar, séu í íslenskum krónum en bundnar við gengi hinna tilgreindu erlendu mynta. Slík verðtrygging sé ólögmæt skv. VI. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Skuldbinding stefndu sé því langtum lægri en sem nemi dómkröfum stefnanda. Þessu til stuðnings vísar stefnda meðal annars til dóma Hæstaréttar í málum nr. 92/2010 og 153/2010, en með þeim hafi verið skorið úr um það að gengistrygging sé ólögmæt að því er varði þær skuldbindingar sem falli undir VI. kafla laga nr. 38/2001.
Þýðingarmestu atriðin í hinum meintu lánssamningum, sem leiði í ljós að um skuldbindingar í íslenskum krónum sé að ræða, séu þessi helst: Lánsfjárhæðin í framlagðri ódagsettri lánsbeiðni sé tilgreind í íslenskum krónum, þ.e. 6.070.000 krónum, gert hafi verið ráð fyrir að lánsfjárhæðirnar yrðu greiddar út í íslenskum krónum, gert hafi verið ráð fyrir að lánsfjárhæðirnar yrðu endurgreiddar í íslenskum krónum, lánsfjárhæðum hafi verið varið til kaupa á stofnfjárhlutum í íslenskum krónum og í staðfestingu á fjölmyntaláni og framlengingum sé fjallað um gengisviðmið. Þessi atriði varpi hvert og eitt, og til samans, skýru ljósi á þá staðreynd að meintar skuldbindingar stefndu hafi verið í íslenskum krónum en ekki erlendum gjaldmiðlum Þar sem lán SPRON til handa stefndu hafi verið gengistryggð sé ljóst að ógreiddar eftirstöðvar séu lægri. Í greinargerð stefndu er að finna áskorun til stefnanda um að leggja fram rétta fjárhæð eftirstöðva lánanna.
Kröfu stefnanda um dráttarvexti kveðst stefnda mótmæla sérstaklega. Telur stefnda að dráttarvextir verði í fyrsta lagi reiknaðir frá dómsuppsögu, verði að einhverju leyti fallist á kröfur stefnanda, þar sem kröfufjárhæðin sé óljós.
Hvað varðar kröfu um málskostnað bendir stefnda sérstaklega á að hún sé ekki virðisaukaskattsskyldur aðili og beri henni því nauðsyn til að fá dóm fyrir skattinum úr hendi stefnanda.
Til stuðnings kröfum sínum vísar stefnda til almennra reglna kröfu- og samningaréttar, meðal annars reglna um brostnar forsendur. Einnig vísar stefnda til laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, einkum 33. og 36. gr. laganna. Þá vísar stefnda til laga nr. 33/2003, einkum 4. og 5. gr. þeirra laga, sem og laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki.
IV
Upplýst er með framlögðum gögnum og málatilbúnaði beggja aðila að á árinu 2006 tók stefnda í tvígang lán hjá SPRON og var andvirði lánanna nýtt til kaupa stefndu á stofnfjárhlutum í sparisjóðnum. Í málinu krefst stefnandi þess að stefnda verði dæmd til að endurgreiða honum lánin, en fyrir liggur að stefnandi er réttur aðili að málinu, sbr. reifun á aðild hans í kafla I D hér að framan.
Stefnda byggir meðal annars á því að ofangreind lán séu skuldbindingar í íslenskum krónum, bundnar við gengi erlendra mynta, og því ólögmætar skv. VI. kafla laga nr. 38/2001.
Í dómum Hæstaréttar Íslands í málunum nr. 551/2011 og 552/2011, kveðnum upp 23. nóvember 2011, var sérstaklega tekið fram að fjárhæð þar umræddra skuldbindinga væri nákvæmlega tilgreind í hinum erlenda gjaldmiðli. Enn fremur sagði í dómunum að af orðalagi ákvæða 13. og 14. gr., sbr. 2. gr., laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og lögskýringargögnum yrði ráðið að við úrlausn þess hvort um væri að ræða skuldbindingu í íslenskum krónum eða erlendum gjaldmiðlum yrði fyrst og fremst að líta til forms og meginefnis þeirra gerninga sem lægju til grundvallar skuldbindingunni. Í því sambandi skipti einkum máli hvernig sjálf skuldbindingin væri tilgreind í viðkomandi gerningum.
Í undirritaðri beiðni stefndu, dagsettri 15. maí 2006, „... um reikningslán í erlendum myntum“ kemur fram að óskað sé eftir fjölmyntareikningsláni að upphæð JPY 2.960.526 og CHF 32.642,89. Samkvæmt því sem rakið er í kafla I hér að framan var umrætt lán framlengt þrisvar. Í öllum umsóknum stefndu um framlengingu skuldbindingarinnar, en undirritun stefndu má finna á þeim öllum, kom eingöngu fram staða lánsins í erlendum myntum. Þá verður ekki fram hjá því litið að vextir skuldbindingarinnar voru í beiðni stefndu frá 15. maí 2006 sagðir þriggja mánaða LIBOR-vextir að viðbættu 2,5% álagi, er samræmist því að um erlent lán hafi verið að ræða. Að þessu virtu, og í ljósi fyrrgreindra dóma Hæstaréttar, þykir verða að slá því föstu að í umræddri skuldbindingu stefndu hafi falist lán í erlendum myntum þeirrar fjárhæðar er áður var nefnt, sem ekki var andstætt ákvæðum laga nr. 38/2001.
Í undirritaðri beiðni stefndu „... um reikningslán í erlendum myntum“, samþykktri 20. desember 2006, kemur fram að óskað sé eftir fjölmyntareikningsláni „... að upphæð jafnvirði ISK 6.070.000“. Þar segir einnig að fjárhæðin verði samsett af eftirfarandi gjaldmiðlum: CHF 53.433,10 og JPY 5.200.480, og að vextir verði sex mánaða LIBOR-vextir að viðbættu 2,5% álagi. Samkvæmt því sem rakið er í kafla I hér að framan mun lán þetta hafa verið framlengt tvisvar. Skrifleg ósk stefndu um framlengingu lánsins frá því í maí 2007 liggur ekki frammi. Af skriflegri umsókn stefndu um framlengingu skuldbindingarinnar frá 14. maí 2008 má hins vegar ráða að nýr gjalddagi hafi þá verið ákveðinn 7. maí 2008. Í hinni skriflegu umsókn „... um framlengingu reiknisláns í erlendum myntum“ kemur eingöngu fram staða lánsins í hinum erlendu myntum. Þá verður ekki fram hjá því litið að vextir skuldbindingarinnar voru í þeirri beiðni stefndu, sem samkvæmt áðursögðu var samþykkt 20. desember 2006, sagðir sex mánaða LIBOR-vextir að viðbættu 2,5% álagi, er samræmist því að um erlent lán hafi verið að ræða. Að öllu þessu heildstætt virtu, og í ljósi fyrrgreindra dóma Hæstaréttar, þykir verða að slá því föstu að í þessari skuldbindingu stefndu hafi einnig falist lán í erlendum myntum þeirrar fjárhæðar er áður var nefnt, sem ekki var andstætt ákvæðum laga nr. 38/2001.
Ekki nýtur neinna gagna í málinu um hinn meginþátt viðskipta stefndu og SPRON, þ.e. sjálf kaupin á stofnfjárhlutunum. Þannig hefur stefnandi hvorki lagt fram samning stefndu við SPRON um kaupin né eiginlegt áskriftarloforð þrátt fyrir áskorun stefndu þar um. Jafnframt lét stefnandi með öllu undir höfuð leggjast að reifa þennan þátt viðskiptanna í stefnu. Þá liggur fyrir að engin vitni voru leidd fyrir dóm við aðalmeðferð málsins.
Stefnandi vísaði til þess í munnlegum málflutningi að lántaka stefndu annars vegar og kaup hennar á stofnfjárbréfum í SPRON hins vegar væru tveir aðskildir gerningar. Að virtum þeim skuldaskjölum er fyrir liggja í málinu, sem og málsútlistun beggja aðila fyrir dómi, verður ekki á þetta fallist með stefnanda, enda ljóst að lánin voru veitt gagngert til kaupa á stofnfé í sjóðnum sjálfum og var lánsfjárhæðin í báðum tilfellum strax tekin út af reikningi stefndu og henni ráðstafað til kaupanna. Af þeim sökum verður því ekki vísað á bug án nokkurrar frekari umfjöllunar að atvik við kaupin geti skipt máli þegar skorið er úr um greiðsluskyldu stefndu.
Í ljósi þess að SPRON var í umrætt sinn að lána stefndu til kaupa á stofnfé í fjármálastofnuninni sjálfri verður að gera kröfur til stefnanda, sem leiðir rétt sinn frá SPRON, um ákveðna lágmarks reifun á þeim viðskiptum. Svo sem áður var rakið hefur stefnandi látið það undir höfuð leggjast með öllu. Þó svo fallast megi á það með stefnanda að stefnda sjálf hafi litlar sem engar tilraunir gert til að færa sönnur á þær málsástæður sínar sem hún telur að leiða eigi til sýknu þykir það standa stefnanda nær samkvæmt áðursögðu og í ljósi allra atvika málsins að upplýsa um efni kaupsamninganna og helstu atvik að kaupunum. Þar sem stefnandi kaus að gera það ekki þykir önnur leið ekki fær en vísa máli þessu alfarið frá dómi ex officio vegna vanreifunar.
Með vísan til úrslita málsins, sbr. 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, dæmist stefnandi til að greiða stefndu málskostnað, er hæfilega þykir ákveðinn svo sem í úrskurðarorði greinir.
Úrskurð þennan kveður upp Kristinn Halldórsson héraðsdómari. Fyrir uppkvaðningu úrskurðarins var gætt fyrirmæla 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Máli þessu er vísað frá dómi ex officio.
Stefnandi, Drómi hf., greiði stefndu, Birnu Pálsdóttur, 400.000 krónur í málskostnað.