Hæstiréttur íslands
Mál nr. 656/2008
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Mánudaginn 8. desember 2008. |
|
Nr. 656/2008. |
Sýslumaðurinn á Selfossi(Ólafur Helgi Kjartansson, sýslumaður) gegn X (Sigurður Sigurjónsson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 1. desember 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 5. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 29. nóvember 2008, þar sem fallist var á kröfu sóknaraðila um að varnaraðila yrði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 18. febrúar 2008 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.
Varnaraðili hefur viðurkennt að hafa valdið A áverkum á höfði þegar þeim varð sundurorða í samkvæmi á heimili varnaraðila aðfararnótt 8. nóvember 2008. Fyrir liggur í málinu sterkur grunur um að áverkar þessir hafi dregið A til dauða og að háttsemi varnaraðila geti varðað við 211. gr. eða 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Samkvæmt þessu eru uppfyllt skilyrði 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, eins og þau hafa verið skýrð í réttarframkvæmd, fyrir gæsluvarðhaldi varnaraðila. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur, sbr. 3. mgr. 169. gr. laga nr. 19/1991.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 29. nóvember 2008.
Lögreglustjórinn á Selfossi hefur gert þá kröfu að úrskurðað verði að X, kt. [...], með lögheimili að [...], [...], nú gæsluvarðhaldsfangi í fangelsinu að Litla Hrauni, Eyrarbakka, verði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi allt til kl. 16:00 miðvikudaginn 18. febrúar 2009 eða þar til rannsókn lögreglu á málinu sé lokið og ákvörðun hafi verið tekin um hugsanlega saksókn á hendur ákærða, á grundvelli 2. mgr. 103. gr., sbr. 110. gr., laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Kærði mótmælir kröfu um áframhaldandi gæsluvarðhald.
Í greinargerð lögreglustjórans á Selfossi kemur fram að lögreglan á Selfossi hafi til rannsóknar mál er varði meint brot kærða gegn 211. og 220. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, er A, kt. [...], var sviptur lífi aðfaranótt laugardagsins 8. nóvember sl. í sumarbústað í Y, [...]. Kærði hafi verið handtekinn síðdegis þann sama dag, og í framhaldi úrskurðaður í gæsluvarðhald frá sunnudeginum 9. nóvember sl. til kl. 16:00 þann 28. nóvember sl.
Rannsókn lögreglu hafi leitt í ljós að rökstuddur grunur sé kominn fram um að kærði hafi valdið dauða A. Kærði hafi við yfirheyrslur viðurkennt að hafa ráðist að A og valdið honum áverkum, en nokkuð misræmi sé enn á milli kærða og vitna um árásina, hvernig hún hafi farið fram og hvernig áverkarnir hafi verið veittir. Enn sé beðið endanlegra skýrslna frá réttarlækni og tæknideild, en frumniðurstöður séu þær að A hafi látist af völdum áverka sem honum hafi verið veittir umrætt sinn.
Rannsókn málsins hafi miðað nokkuð örugglega. Lögreglu þyki nú ljóst að kærði liggi undir sterkum rökstuddum grun um að hafa framið sérlega alvarlegt brot gegn líkama og lífi hins látna. Þau alvarlegu sakarefni sem hér um ræði varði allt að ævilöngu fangelsi, teljist sök sönnuð. Lögregla telji að brot kærða sé þess eðlis að gæsluvarðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna.
Krafa um gæsluvarðhald byggist á 2. mgr. 103. gr., sbr. 110. gr., laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Kærði hefur setið í gæsluvarðhaldi síðan 9. nóvember sl. á grundvelli rannsóknarhagsmuna skv. a-lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 samkvæmt úrskurði Héraðsdóms Suðurlands í málinu R-76/2008. Með vísan til rannsóknargagna málsins liggur kærði undir sterkum grun um að hafa framið ofangreint brot sem er til rannsóknar hjá lögreglu og kann að varða við 211. og/eða 220. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Það brot getur varðað allt að ævilöngu fangelsi ef sök sannast. Með hliðsjón af alvarleika brotsins er nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna að ákærði sæti gæsluvarðhaldi uns rannsókn lögreglu í málinu er lokið og ákvörðun hefur verið tekin um hugsanlega saksókn á hendur kærða. Er því fullnægt skilyrðum 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um gæsluvarðhald ákærða og fallist á kröfu lögreglustjórans á Selfossi um að kærði sæti gæsluvarðhaldi og þykja ekki efni til að marka gæsluvarðhaldi kærða skemmri tíma en krafist er.
Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð :
Kærði, X, kt. [...], sæti gæsluvarðhaldi til miðvikudagsins 18. febrúar 2009, kl. 16.00 eða þar til rannsókn lögreglu er lokið og tekin hefur verið ákvörðun um hugsanlega saksókn á hendur kærða.