Hæstiréttur íslands

Mál nr. 259/2008


Lykilorð

  • Bifreið
  • Líkamstjón
  • Skaðabætur
  • Fyrning


Fimmtudaginn 19

 

Fimmtudaginn 19. febrúar 2009.

Nr. 259/2008.

Guðrún Valný Þórarinsdóttir og

Sjóvá-Almennar tryggingar hf.

(Kristín Edwald hrl.)

gegn

Guðlaugu Geirsdóttur

(Björgvin Þorsteinsson hrl.)

 

Bifreiðir. Líkamstjón. Skaðabætur. Fyrning.

GG krafðist skaðabóta úr hendi GV og S hf. vegna líkamstjóns sem hún varð fyrir í umferðarslysi árið 1995. Deildu aðilar um hvort skaðabótakrafan hefði verið fyrnd í skilningi 99. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 þegar málið var höfðað. Talið var að heilsufar GG hefði versnað í kjölfar slyssins og leitt til þess að hún hvarf af vinnumarkaði árið 2002. Það sama ár hafi hún verið metin til fullrar örorku hjá Tryggingastofnun ríkisins. GG hafi því fyrst á árinu 2002 mátt vera ljóst að varanlegt mein hennar af slysinu hafi orðið meira en talið var í álitsgerð örorkunefndar 1998 og átt þess kost að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að leita fullnustu kröfu sinnar. Hafi fyrningarfrestur samkvæmt 99. gr. umferðarlaga því byrjað að líða 1. janúar 2003 og krafa GG því ekki verið fallin niður er málið var höfðað á árinu 2005. Voru GV og S hf. dæmd til að greiða GG óskipt skaðabætur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 8. maí 2008. Þau krefjast aðallega sýknu af kröfu stefndu og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að krafan verði lækkuð og málskostnaður felldur niður.

Stefnda krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Samkvæmt gögnum málsins slasaðist stefnda í umferðarslysi 24. ágúst 1989. Í örorkumati 11. júní 1991 kom fram að hún hafi við slysið hlotið tognun á háls, sem að hluta til hafi lagast, og væga tognun á mjóbak. Auk þess hefði stefnda talsverða vöðvabólgu, eins og raunar hafi einnig verið fyrir slysið, en þetta hafi valdið frekari einkennum í baki og útleiðsluverkjum í hendur og fætur. Þá hefði stefnda einkenni frá augum, sem rekja mætti til hálstognunar. Þar varð niðurstaðan sú að vegna vægrar tognunar í hálsi og baki væri varanleg örorka hennar 15%. Stefnda mun aftur hafa lent í umferðarslysi 1994. Einkenni hennar munu hafa versnað nokkuð við það tímabundið, en hún mun ekki hafa talið sig hafa orðið fyrir varanlegu tjóni af þessu slysi.

Stefnda lenti enn í umferðaslysi 22. ágúst 1995 og eru afleiðingar þess til úrlausnar í máli þessu. Hún leitaði á slysadeild Borgarspítalans að kvöldi sama dags og var þar talið að hún hafi hlotið tognun í hálsi, brjóstbaki og mjóbaki, en við þessu fékk hún hálskraga og verkjalyf. Í vottorði heimilislæknis stefndu 6. júní 1997 kom fram að hún hafi fyrst leitað til hans vegna þessa slyss 29. ágúst 1995 og þá rætt um að öll sín gömlu einkenni hefðu ýfst upp af því og versnað. Talið hefði verið að stefnda hafi hlotið nýja tognun í háls-, brjóst- og mjóhrygg við þetta slys. Í vottorðinu var því lýst að stefnda hafi ítrekað fengið bólgueyðandi lyf og meðal annars verið vísað til sjúkraþjálfara, taugasérfræðings og endurhæfingarlæknis. Taldi heimilislæknirinn að stefnda hafi hlotið nokkra örorku af völdum hálshnykkja og sýndust slysin 1989 og 1995 skipta þar mestu, en erfitt væri að meta hlut hvors um sig. Stefnda teldist að mestu leyti vinnufær, en geta hennar til allra líkamlegra starfa væri þó skert og ekki horfur á breytingum til batnaðar í bráð.

Áfrýjandinn Sjóvá-Almennar tryggingar hf. fór þess á leit 11. júní 1997 að örorkunefnd mæti tjón stefndu vegna slyssins 22. ágúst 1995. Í álitsgerð nefndarinnar 15. desember 1998 kom fram að eftir 1. september 1996 hafi stefnda ekki getað vænst frekari bata. Taldi nefndin að varanlegur miski af völdum slyssins væri innan við 5 stig, en varanleg örorka af því engin.

Í vottorði heila- og taugaskurðlæknis 21. september 1999 kom meðal annars fram að stefnda væri illa haldin vegna afleiðinga slyssins 1995 og væri að áliti hans „sjúklingur með öll einkenni krónískra verkja“. Það væri skoðun læknisins að stefnda hafi í slysinu 1995 hlotið talsverðan varanlegan skaða. Í málinu liggur fyrir annað vottorð sama læknis 14. mars 2005. Hann komst þar að þeirri niðurstöðu að stefnda ætti við að etja „viðvarandi mjög slæmt verkjaástand eftir bílslys með hálshnykk 1995. Stöðugar meðferðir gefa einungis stuttverkandi hjálp.“

Fram kemur í málinu að stefnda hafi eignast sitt fyrsta barn árið 1992. Á árinu 1993 mun hún ekki hafa haft launatekjur, en þær virðast á hinn bóginn hafa verið reglubundnar frá miðju ári 1994 til ársins 1996. Hún mun hafa eignast sitt annað barn í byrjun árs 1997, en það þriðja haustið 1998. Hún hafði litlar launatekjur árin 1997 og 1998, en engar 1999. Á árunum 2000 og 2001 hafði stefnda nokkrar launatekjur, en hún mun hafa horfið af vinnumarkaði 2002 og verið metin til fullrar örorku hjá Tryggingastofnun ríkisins 30. apríl á því ári.

Stefnda fór þess á leit 20. ágúst 2002 að dómkvaddir yrðu menn til að meta afleiðingar umferðarslyssins 22. ágúst 1995. Matsmenn, sem upphaflega voru dómkvaddir, voru leystir undan starfinu 5. september 2003 og voru um leið dómkvaddir nýir matsmenn. Matsgerð var lokið 23. janúar 2006 og mun dráttur á störfum matsmanna hafa stafað af því að þeim hafi ekki borist gögn málsins fyrr en 11. nóvember 2005, en stefnda hafði þá áður höfðað mál þetta 19. ágúst sama ár. Í niðurstöðum matsmanna kom fram að þeir teldu ljóst að stefnda hafi ekki gengið heil til skógar fyrir slysið 1995. Heilsufar hennar hafi á hinn bóginn versnað mjög í kjölfar slyssins og það leitt til þess að hún hafi horfið af vinnumarkaði 2002 og aðeins sinnt léttum heimilisstörfum eftir það. Matsmenn teldu ekki unnt að rekja brotthvarf stefndu af vinnumarkaði eingöngu til slyssins, en það ætti þar nokkurn þátt. Mátu þeir varanlegan miska stefndu vegna slyssins 15% og varanlega örorku 20%.

Eftir að héraðsdómur var upp kveðinn fengu áfrýjendur dómkvadda bæklunarskurðlækni og taugalækni til að meta hvenær heilsufar stefndu hefði orðið stöðugt eftir slysið 22. ágúst 1995. Matsgerð 24. júní 2008 hefur verið lögð fyrir Hæstarétt og er niðurstaða matsmanna að heilsufar stefndu eftir þetta slys hafi orðið stöðugt ekki síðar en 1. september 1996.

II

Áfrýjendur reisa sýknukröfu sína á því að bótakrafa stefndu vegna umferðarslyssins 22. ágúst 1995 hafi verið fyrnd þegar mál þetta var höfðað 19. ágúst 2005. Samkvæmt 99. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 fyrnast allar bótakröfur samkvæmt XIII. kafla laganna á fjórum árum frá lokum þess almanaksárs, sem kröfuhafi fékk vitneskju um kröfu sína og átti þess fyrst kost að leita fullnustu hennar, en þó í síðasta lagi á tíu árum frá tjónsatburði. Málið var höfðað skömmu áður en tíu ár voru liðin frá slysinu og því reynir á hvort krafa stefndu hafi verið fallin niður 19. ágúst 2005 vegna framangreinds ákvæðis um fjögurra ára fyrningartíma. Mat dómkvaddra manna 23. janúar 2006 verður lagt til grundvallar við ákvörðun á varanlegum afleiðingum slyssins fyrir heilsufar stefndu. Samkvæmt matinu versnaði heilsufar stefndu í kjölfar slyssins og leiddi þetta til þess að hún hvarf af vinnumarkaði 2002. Þótt matsmenn telji ekki unnt að rekja brotthvarf stefndu af vinnumarkaði eingöngu til slyssins telja þeir að það hafi átt þar nokkurn þátt. Þá liggur fyrir að stefnda var metin til fullrar örorku hjá Tryggingastofnun ríkisins í apríl 2002. Matsgerð dómkvaddra manna 24. júní 2008 lýtur einungis að því hvenær heilsufar stefndu hafi verið orðið stöðugt eftir slysið og snýr matsgerðin því ekki að álitaefni, sem ráðið getur niðurstöðu um upphaf fyrningarfrests eins og atvikum er hér háttað. Verður að þessu öllu gættu að fallast á með héraðsdómi að stefndu hafi á árinu 2002 fyrst mátt vera ljóst að varanlegt mein hennar af slysinu hafi orðið meira en talið var í álitsgerð örorkunefndar 15. desember 1998 og átt þess kost að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að leita fullnustu kröfu sinnar. Fjögurra ára fyrningarfrestur samkvæmt 99. gr. umferðarlaga telst því hafa byrjað að líða 1. janúar 2003 og var krafa stefndu samkvæmt því ekki fallin niður þegar mál þetta var höfðað.

Við munnlegan málflutning fyrir Hæstarétti lýstu áfrýjendur yfir að varakrafa þeirra lúti eingöngu að upphafstíma dráttarvaxta. Með vísan til 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu verður niðurstaða héraðsdóms um það efni staðfest. Samkvæmt þessu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur.

Áfrýjendur verða dæmd til að greiða stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjendur, Guðrún Valný Þórarinsdóttir og Sjóvá-Almennar tryggingar hf., greiði óskipt stefndu, Guðlaugu Geirsdóttur, 400.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 13. febrúar 2008.

Mál þetta, sem dómtekið var  5. febrúar sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykja­víkur af Guðlaugu Geirsdóttur, Hálsaseli 19, Reykjavík, á hendur Guðrúnu Valnýju Þórarinsdóttur, Garðatorgi 17, Garðabæ og Sjóvá-Almennum tryggingum hf., Kringlunni 5, Reykjavík, með stefnu áritaðri um birtingu 19. ágúst 2005.

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndu verði in solidum dæmdir til að greiða stefnanda 6.204.052 kr. með 2% ársvöxtum frá 19. ágúst 2001 til 12. október 2006, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefndu að mati dómsins.

Dómkröfur stefndu eru þær aðallega að verða sýknuð af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefndu málskostnað að mati dómsins.  Til vara krefjast stefndu þess að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega og málskostnaður verði felldur niður.

Málsatvik

Málsatvik eru þau að stefnandi lenti í umferðarslysi 22. ágúst 1995 er árekstur varð með bifreiðunum MV-834 og IX-708 á mótum Vitastígs og Grettisgötu, Reykjavík. Stefnandi var þá farþegi í framsæti í bifreiðinni MV-834, sem stefnda Guðrún Valný Þórarinsdóttir ók. Stefnda Guðrún sinnti ekki biðskyldu á ofangreindum vegamótum og var bifreiðinni IX-708 ekið inn í hægri hlið bifreiðar Guðrúnar með þeim afleiðingum að stefnandi kenndi nokkurra eymsla eftir. Bifreiðin MV-834 var tryggð lögboðinni ábyrgðartryggingu hjá stefnda Sjóvá-Almennum tryggingum hf. Við áreksturinn fékk stefnandi verulegan hnykk á háls og bak. Leitaði stefnandi á slysadeild um kvöldið og við rannsókn kom í ljós að stefnandi hafði tognað á hálsi og var hún sett í hálskraga til stuðnings og henni gefin verkjalyf. Stefnandi gaf skýrslu hjá lögreglunni í Reykjavík þann 25. ágúst 1995 og gat þess þá að hún væri slæm í hálsi og að verkur leiddi niður í bak. Stefnda, Sjóvá-Almennum tryggingum hf., var tilkynnt um slys þetta með tjónstilkynningu, dags. 4. janúar 1996.

Stefnandi hafði áður lent í tveimur bílslysum og hlaut hún hálshnykk í þeim báðum. Hið fyrra var árið 1989 og var stefnandi metinn 15 % varanlegur öryrki af völdum þess. Hið síðara var árið 1994 en það var smávægilegt og fór ekki fram örorkumat vegna þess slyss enda náði stefnandi sér að fullu. Stefnandi hafði einnig náð verulegum bata vegna hins fyrra slyss og hafði á árunum 1991 til 1993 verið á námskeiði og gengist undir próf til löggildingar sem fasteignasali og starfaði sem slíkur þegar slysið varð 22. ágúst 1995. Þá hafði stefnandi unnið fullan vinnudag sem fasteignasali í alllangan tíma. Stefnandi leitaði til Leifs N. Dungals, læknis á Heilsugæslustöðinni í Efra Breiðholti, og sendi hann stefnanda í sjúkraþjálfun strax árið 1995. Hann ritaði jafnframt áverkavottorð þann 11. janúar 1996, en þar kemur fram að á þeim tíma hafði stefnandi slæma höfuð- og hálsverki, svima og sjóntruflanir. Segir í vottorðinu að öll fyrri einkenni hafi tekið sig upp vegna slyssins en að verkirnir séu mun meiri en fyrr frá mjóbaki og handleggjum en var eftir fyrra slys. Jafnframt kemur fram að stefnandi hafi látið sig hafa það að vinna en að afköst séu enn talsvert minni. Mat hann ástand stefnanda svo að hún hafi verið 50% óvinnufær í einn mánuð. Hinn 29. mars 1996 ritaði Einar Valdimarsson, taugasérfræðingur nótu um ástand stefnanda en til hans hafi Leifur Dungal sent stefnanda og Jón Baldursson læknir ritaði áverkavottorð þann 25. nóvember 1996, um ástand stefnanda við komu á slysadeild þann 22. ágúst 1995. Í vottorði Leifs Dungal, dags. 13. janúar 1997, kemur fram að ástand stefnanda sé svipað, hún sé slæm af verkjum í mjóbaki, hálsi og höfði. Jafnframt ritaði hann vottorð þann 6. júní 1997 þar sem sjúkrasaga stefnanda er rakin.

Með matsbeiðni til örorkunefndar, dags. 11. júní 1997, óskaði stefndi Sjóvá-Almennar tryggingar hf. eftir því að metið yrði líkamstjón stefnanda sem rekja mætti til slyssins 22. ágúst 1995. Örorkunefnd skilaði álitsgerð sinni 15. desember 1998. Niðurstaða örorkunefndar var sú að samanlagt tjón stefnanda vegna slysanna árið 1989 og 22. ágúst 1995 væri innan við 20% og að stefnandi hafi ekki getað vænst frekari bata eftir 1. september 1996. Þá taldi örorkunefnd að varanlegur miski stefnanda vegna afleiðinga umferðarslyssins 22. ágúst 1995 væri minni en 5%. Taldi nefndin stefnanda ekki hafa hlotið varanlega örorku vegna slyssins. Engar skriflegar fjárkröfur voru gerðar á hendur stefndu af hálfu stefnanda eða lögmanns hennar á grundvelli ofangreinds álits örorkunefndar frá 15. desember 1998. Voru því stefnanda engar bætur greiddar úr hendi stefndu á grundvelli þess álits.

Stefnandi var metinn til 75 % varanlegrar örorku hjá Tryggingastofnun ríkisins árið 2002.

Með beiðni til Héraðsdóms Reykjavíkur, dags. 20. ágúst 2002, óskaði stefnandi eftir því að dómkvaddir yrðu tveir matsmenn til að meta líkamstjón stefnanda sem rekja mætti til slyssins 22. ágúst 1995. Þeir luku ekki matsstörfum og voru leystir frá þeim starfa og í stað þeirra voru dómkvaddir þeir Ingvar Sveinbjörnsson hrl. og Arnbjörn Arnbjörnsson bæklunarlæknir hinn 5. september 2003. Hinir dómkvöddu matsmenn skiluðu matsgerð hinn 23. janúar 2006. Töldu þeir að varanlegur miski stefnanda væri 15% en varanleg örorka 20%. Tímabundið líkamstjón stefnanda vegna slyssins töldu matsmenn ekkert vera..

Mál þetta er höfðað með stefnu birtri 19. ágúst 2005.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi telur að líðan sín hafi sífellt versnað frá slysdegi og stefnandi unir ekki mati örorkunefndar. Hafi hún verið í stöðugri læknismeðferð undanfarin ár, aðallega hjá Garðari Guðmundssyni, heila- og taugaskurðlækni. Garðar hafi ritað tvö vottorð um ástand stefnanda, hið síðara 14. mars 2005. Þar lýsi hann meðferð þeirri sem stefnandi hafi fengið og segir í niðurstöðu sinni að um sé að ræða viðvarandi mjög slæmt verkjaástand eftir bílslys með hálshnykk 1995. Stöðugar meðferðir gefi einungis stuttverkandi hjálp. Segist Garðar stunda stóran hóp af verkjasjúklingum og enginn í þeim hópi sé jafn illa haldinn og stefnandi. Segir hann slysið hafa gjörbreytt lífi stefnanda og valdi henni áratug síðar stöðugri kvöl. Stefnandi sé þriggja barna móðir. Hún hafi nánast ekkert getað unnið utan heimilis frá slysdegi að því frátöldu að hún hafi reynt lítilsháttar að vinna fram til ársins 2002. Hún eigi afar erfitt með að sinna nauðsynlegum heimilisstörfum vegna afleiðinga slyssins og lendi þau að mestu á eiginmanni hennar.

Krafa stefnanda á hendur stefndu byggist á því að stefnda Guðrún Valný hafi bakað sér skaðabótaskyldu með því að fara ekki, við akstur sinn, eftir umferðarreglum. Henni bar að stöðva bifreið sína við gatnamót Grettisgötu og Vitastígs þar sem biðskylda var. Með atferli sínu hafi hún brotið gegn 25. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 og 3. gr. reglugerðar nr. 289/1995 með síðari breytingum og beri ábyrgð á tjóni stefnanda samkvæmt 88., 89. og 90. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Stefndi Sjóvá-Almennar tryggingar hf. beri ábyrgð á grundvelli ábyrgðartryggingar bifreiðarinnar MV-834 og sé félaginu stefnt á grundvelli 97. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Skaðabótakrafa stefnanda sé reist á skaðabótalögum nr. 50/1993 eins og þau voru á slysdegi. Krafa stefnanda um málskostnað sé reist á 129. og 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

Kröfugerð stefnanda

Í máli þessu gerir stefnandi þá kröfu að stefndu verði in solidum dæmdir til að greiða stefnanda 6.204.052 kr. auk vaxta og málskostnaðar.

Kröfugerðin sé byggð á skaðabótalögum nr. 50/1993 eins og þau voru á slysdegi. Krafan sé miðuð við árslaun Guðlaugar árið 1995 að fjárhæð 1.619.000 kr., auk þess sem krafist sé bóta vegna missis lífeyrisréttinda, 6% eða  97.140 kr., samtals 1.716.140 kr.  Þá sé krafist bóta vegna verðmætis vinnu við heimilisstörf, 50% af tekjutapi eða 858.070 kr. Krafan vegna tapaðra vinnutekna og vegna heimilisstarfa sé alls 2.754.210 kr. Fjárhæð þessi sé margfölduð með 7,5 á grundvelli 6. gr. laga nr. 50/1993 og síðan með örorkustiginu 0,2 og síðan dregin frá 4% þar sem Guðlaug var 29 ára á slysdegi. Niðurstaða kröfugerðar vegna varanlegrar örorku sé þá 3.706.862 kr. og vegna varanlegs miska, 15%, sé krafan 600.000 kr. eða alls 4.306.862 kr. Fjárhæð þessi sé síðan hækkuð miðað við lánskjaravísitölu frá slysdegi 22. ágúst 1995 til 21. janúar 2006 er endanlegt örorkumat lá fyrir, þ.e. 4915/3412. Heildarfjárhæð kröfunnar verði þá 4.306.862 x 4915/3412 = 6.204.052 kr.

Málsástæður og lagarök stefndu

Af hálfu stefndu er tekið fram að stefnandi hafði lent í a.m.k. tveimur umferðarslysum fyrir slysið 1995. Þá hafði hún einnig haft vöðvagigt í hálsi og hnakka. Í maí 1987 hafi verið hún send í sjúkraþjálfun vegna vöðvagigtar í hálsi og hnakka, sbr. vottorð Leifs N. Dungal, dags. 6. júní 1997. Þá hafi hún einnig verið send í sjúkraþjálfun vegna sömu eymsla í nóvember 1988. Í ágúst 1989 hafi hún orðið fyrir hálshnykksáverka í umferðarslysi og var eftir það slys metin til 15% læknisfræðilegrar örorku. Þá lenti hún einnig í umferðarslysi júní 1994 og versnuðu einkenni hennar nokkuð við það.

Aðalkrafa

Aðalkrafa stefndu um sýknu er á því reist að bótakrafa stefnanda vegna líkamstjóns er rekja megi til umferðarslyssins 22. ágúst 1995 hafi verið fyrnd þegar mál um hana var höfðað með birtingu stefnu hinn 19. ágúst 2005. Ótvírætt sé að bótakrafa stefnanda á hendur stefndu sé reist á XIII. kafla umferðarlaga nr. 50/1987 en samkvæmt 99. gr. laganna fyrnast allar bótakröfur samkvæmt þeim kafla á fjórum árum frá lokum þess almanaksárs sem kröfuhafi fékk vitneskju um kröfu sína og átti þess fyrst kost að leita fullnustu hennar.

Stefndu byggja á því að krafa stefnanda hafi verið löngu fyrnd þegar stefnandi höfðaði mál um hana. Vísar stefnandi hér m.a. til álitsgerðar örorkunefndar frá 15. desember 1998, þar sem fram komi að eftir 1. september 1996 hafi stefnandi ekki getað vænst frekari bata vegna afleiðinga umferðarslyssins 22. ágúst 1995 en þá var orðinn. Samkvæmt því hafi fyrningarfrestur á kröfu stefnanda byrjað að líða 1. janúar 1997 og krafan því verið fyrnd 1. janúar 2001. Stefndu byggja á því að  ósannað sé að stöðugleikapunktur vegna slyssins 22. ágúst 1995 sé síðar en getið sé um í álitsgerð örorkunefndar. Vekja stefndu í þessu sambandi t.a.m. athygli á því að í matsgerð dómkvaddra matsmanna frá 23. janúar 2006 sé ekki lagt mat á þetta atriði. Í ljósi eindreginnar niðurstöðu örorkunefndar um þetta atriði beri stefnandi sönnunarbyrðina um að stöðugleikapunktur stefnanda vegna slyssins 22. ágúst 1995 hafi verið síðar en þar greini og jafnframt um það hvenær stöðugleikapunktur teljist hafa verið.

Stefndu hafna því sem ósönnuðu að einkenni stefnanda hafi aukist eftir metinn stöðugleikapunkt, 1. september 1996, sem áhrif hafi á upphafstíma fyrningarfrests samkvæmt 99. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Hafi þau aukist byggja stefndu á því að hana sé ekki að rekja til umferðarslyssins 22. ágúst 1995 heldur til annarra ástæðna, svo sem fyrri einkenna eða umferðarslysa. Að minnsta kosti sé hana að litlu leyti að rekja til umferðarslyssins 22. ágúst 1995. Þegar af þessum ástæðum geti slík ætluð auknin einkenni ekki haft áhrif á upphafstíma fyrningarfrests samkvæmt 99. gr. umferðarlaga.

Þá byggja stefndu á því að jafnvel þótt versnun hafi orðið á einkennum stefnanda sem rekja megi til umferðarslyssins 22. ágúst 1995 eftir metinn stöðugleikapunkt 1. september 1996 þá hafi sú versnun verið komin fram á árinu 2000 eða fyrr. Þegar af þeirri ástæðu hafi fyrningarfrestur skaðabótakröfu stefnanda í síðasta lagi hafist 1. janúar 2001 og krafan því fyrnst 1. janúar 2005, sbr. 99. gr. umferðarlaga. Hún hafi því, hvað sem öðru líður, verið fyrnd þegar stefnandi höfðaði mál á hendur stefndu hinn 19. ágúst 2005.

Verði ekki fallist á að krafa stefnanda á hendur stefndu hafi verið fyrnd þegar mál um hana var höfðað er sýknukrafa stefndu reist á því að ósannað sé að hið varanlega líkamstjón sem stefnandi búi við sé að rekja til umferðarslyssins 22. ágúst 1995. Þannig mótmæla stefndu niðurstöðum dómkvaddra matsmanna um það atriði í matsgerð, dags. 23. janúar 2006, sem röngum.

Verði því samkvæmt öllu framangreindu að sýkna stefndu af kröfum stefnanda í máli þessu.

Varakrafa

Ef ekki verði fallist á sýknukröfu stefndu sé gerð varakrafa um verulega lækkun bóta til handa stefnanda.

lækkunarkrafan í fyrsta lagi á því reist að líkamstjón stefnanda, sem rekja megi til umferðarslyssins 22. ágúst 1995, sé verulega ofmetið í matsgerð hinna dómkvöddu matsmanna frá 23. janúar 2006. Verði að lækka skaðabótakröfu stefnanda sem því ofmati nemi.

Í öðru lagi lækkunarkrafan byggð á því að árslaunaviðmið það sem stefnandi leggi til grundvallar við útreikning á skaðabótum vegna varanlegrar örorku í kröfugerð sinni sé rangt. Þannig virðist stefnandi miða við árslaun sín árið 1995, sem þó séu ekki rétt tilgreind, en samkvæmt þágildandi ákvæði 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga beri stefnanda að miða við heildarvinnutekjur sínar næstliðið ár fyrir þann dag er tjón varð. Umferðarslysið varð 22. ágúst 1995 og því skuli árslaun til útreiknings á skaðabótum vegna varanlegrar örorku miðast við vinnutekjur stefnanda á tímabilinu 22. ágúst 1994 til 22. ágúst 1995. Stefndu vekja athygli á því að vinnutekjur stefnanda á árinu 1994, samkvæmt skattframtölum, hafi verið mun lægri en vinnutekjur stefnanda á árinu 1995. Á árinu 1994 voru þær 780.000 krónur en á árinu 1995 voru þær 1.560.000 krónur.

Í þriðja lagi hafna stefndu því að stefnandi skuli fá bætur vegna „missis lífeyrisréttinda 6%“, enda hafi stefnandi verið með sjálfstæðan rekstur á næstliðnu ári fyrir umferðarslys og ekki fyrir að fara framlagi vinnuveitanda (hennar sjálfrar) í lífeyrissjóð sem hún hafi farið á mis við.

Í fjórða lagi hafna stefndu því að stefnandi eigi sérstakan rétt til skaðabóta vegna „verðmætis vinnu við heimilisstörf 50% af tekjutapi“ enda standi engin lagarök til þess, hvorki á grundvelli 3. mgr. 1. gr. skaðabótalaga né öðrum lagagrundvelli, m.a. af þeim sökum að ekki fæst annað séð en að stefnandi hafi nýtt vinnugetu sína að fullu á atvinnumarkaði fyrir slys.

Í fimmta lagi mótmæla stefndu því að kröfur stefnanda beri dráttarvexti frá fyrra tímamarki en þegar mánuður var liðinn frá framlagningu matsgerðar í málinu, sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

Öllum útreikningum og bótafjárhæðum stefnanda og tölulegum forsendum þeirra er að öðru leyti mótmælt.

Um lagarök vísa stefndu til umferðarlaga nr. 50/1987, laga nr. 14/1905, um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda, skaðabótalaga nr. 50/1993, eins og þau voru fyrir gildistöku laga nr. 42/1996 og laga nr. 37/1999, og laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Um málskostnað er vísað til XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

Niðurstaða

Aðalkrafa stefndu um sýknu er á því reist að bótakrafa stefnanda vegna líkamstjóns er rekja má til umferðarslyssins 22. ágúst 1995 hafi verið fyrnd, samkvæmt 99. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, þegar mál þetta var höfðað með stefnu, birtri 19. ágúst 2005.

Ákvæði 99. gr. umferðarlaga kveður svo á um að allar bótakröfur samkvæmt XIII. kafla laganna, fyrnist á fjórum árum frá lokum þess almanaksárs, sem kröfuhafi fékk vitneskju um kröfu sína og átti þess fyrst kost að leita fullnustu hennar.

Samkvæmt álitsgerð örorkunefndar, dags., 15. desember 1998, var talið að stefnandi hafi ekki hlotið varanlega örorku vegna afleiðinga slyssins 22. ágúst 1995 og varanlegur miski stefnanda vegna slyssins var metinn minni en 5%. Miðað við þá niðurstöðu var enginn grundvöllur fyrir stefnanda að setja fram fjárkröfur á hendur stefndu, enda engar bætur greiddar þegar varanlegur miski er metinn minni en 5%, sbr. niðurlagsákvæði þágildandi ákvæðis 1. mgr. 4. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.

Stefnandi var til læknismeðferðar hjá Garðari Guðmundssyni, heila- og taugaskurðlækni. Samkvæmt vottorðum hans, dags. 21. september 1999 og 14. mars 2005, kemur fram að um sé að ræða viðvarandi mjög slæmt verkjaástand hjá stefnanda eftir bílslys með hálshnykk 1995.

Í matsgerð dómkvaddra matsmanna, dags. 23. janúar 2006, segir m.a. í samantekt að mikil versnun hafi orðið á heilsufari stefnanda í kjölfar slyssins 22. ágúst 1995 sem hafi leitt til þess endanlega að stefnandi hvarf af vinnumarkaði 2002 og hafi eftir það eingöngu sinnt léttum heimilisstörfum. Matsmenn telja ekki unnt að rekja brotthvarf stefnanda af vinnumarkaði eingöngu til slyssins en telja hins vegar að slysið eigi þar nokkurn þátt. Versnun hafi orðið á einkennum frá hálsi og baki og auk þess megi telja nokkuð víst að afleiðingar slyssins hafi haft áhrif á andlega líðan stefnanda. 

Stefnandi segir að henni hafi versnað í hálsi, baki, herðum og handleggjum síðan árið 1997.

Þegar virt eru þau læknisfræðileg gögn sem fyrir liggja um heilsufar stefnanda eftir að hún lenti í umferðarslysinu 22. ágúst 1995 verður ekki talið að heilsufar hennar hafi verið orðið stöðugt í skilningi 1. mgr. 2. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 hinn 1. september 1996, eins og örorkunefnd telur í álitsgerð sinni. Þvert á móti liggur fyrir að heilsu stefnanda fór hrakandi eftir þann tíma og leiddi til þess að stefnandi hvarf af vinnumarkaði árið 2002, eins og fram kemur í matsgerð dómkvaddra matsmanna. Í apríl það ár var hún og metin til fullrar örorku hjá Tryggingastofnun ríkisins og með beiðni til Héraðsdóms Reykjavíkur, dags. 20. ágúst 2002, óskaði stefnandi eftir því að dómkvaddir yrðu tveir matsmenn til að meta líkamstjón stefnanda sem rekja mætti til slyssins 22. ágúst 1995. Verður því að telja að stefnandi hafi átt þess fyrst kost að leita fullnustu kröfu sinnar á árinu 2002. Fyrningarfrestur á kröfu stefnanda samkvæmt 99. gr. umferðarlaga byrjaði því að líða 1. janúar 2003 og var krafan því ófyrnd þegar málið var höfðað  19. ágúst 2005. Þá hafa stefndu í engu hnekkt niðurstöðu dómkvaddra matsmanna um það að líkamstjón stefnanda sé að rekja til umferðarslyssins 22. ágúst 1995.

Samkvæmt framansögðu er ekki fallist á sýknukröfu stefndu í málinu.

Af hálfu stefndu hefur ekki verið sýnt fram á að afleiðingar slyssins væru ekki réttilega metnar í matsgerð dómkvaddra matsmanna, dags. 23. janúar 2006. Samkvæmt því, og þar sem niðurstöðum matsgerðar hefur ekki verið hnekkt, verður hún lögð til grundvallar um líkamstjón stefnanda vegna slyssins 22. ágúst 1995.

Í kröfugerð stefnanda er byggt á ákvæðum skaðabótalaga nr. 50/1993, eins og þau voru á slysdegi. Eftir atvikum er fallist á að miða grundvöll bóta vegna varanlegrar örorku við árslaun stefnanda árið 1995, sem voru 1.619.000 kr. samkvæmt skattframtali vegna sjálfstæðrar starfsemi. Fallist er á það með stefndu að stefnandi eigi ekki rétt til bóta vegna missis lífeyrisréttinda, 6% framlags vinnuveitanda, þar sem hún stundaði sjálfstæða starfsemi. Er þeirri kröfu hafnað.

Stefnandi krefst bóta vegna verðmætis vinnu við heimilisstörf sem samsvari 50% af tekjutapi. Ekki liggur annað fyrir en stefnandi hafi verið í fullu starfi utan heimilis fyrir slys. Verður því ekki fallist á, að hún eigi rétt til bóta vegna óvinnufærni til heimilisstarfa og er þeirri kröfu hafnað.

Í samræmi við útreikningsgrundvöll á fjárkröfu stefnanda samkvæmt ákvæðum 6. og 9. gr. skaðabótalaga, eins og þau ákvæði voru á slysdegi, verða bætur vegna  20% varanlegrar örorku samkvæmt matsgerð ákveðnar 2.331.360 kr. (1.619.000 x 7,5 x 0,2 – 4%). Bætur vegna varanlegs 15% miska verða ákveðnar 600.000 kr., sbr. ákvæði 1. mgr. 4. gr. skaðabótalaga eins og þau voru á slysdegi, samtals 2.931.360 kr. (2.331.360 + 600.000).  Að teknu tilliti til breytinga á lánskjaravísitölu frá slysdegi 22. ágúst 1995 til 21. janúar 2006 er matsgerð lá fyrir, þ.e. 4915/3412, sbr. ákvæði 15. gr., eins og þau voru á slysdegi, er heildarfjárhæð bóta 4.222.636 kr. sem stefndu ber að greiða stefnanda óskipt og með ársvöxtum eins og krafist er, en dráttarvöxtum frá 12. nóvember 2006, sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001, eins og í dómsorði greinir.

Þá ber að dæma stefndu til að greiða stefnanda óskipt málskostnað, sem ákveðst 881.650 kr.  Hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts og útlagðs kostnaðar vegna matsgerðar samkvæmt framlögðum reikningum að fjárhæð 381.650 kr.

Eggert Óskarsson héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

DÓMSORÐ:

Stefndu, Guðrún Valný Þórarinsdóttir og Sjóvá-Almennar tryggingar hf., greiði óskipt stefnanda, Guðlaugu Geirsdóttur, 4.222.636 kr. með 2% ársvöxtum frá 19. ágúst 2001 til 12. nóvember 2006, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags og 881.650 kr. í málskostnað.