Hæstiréttur íslands
Mál nr. 300/2006
Lykilorð
- Skaðabætur
- Líkamstjón
- Örorka
- Miski
- Uppgjör
- Fyrning
|
|
Fimmtudaginn 18. janúar 2007. |
|
Nr. 300/2006. |
Jóhanna Steinunn Guðmundsdóttir og Tryggingamiðstöðin hf. (Guðmundur Pétursson hrl.) gegn Kristni Þór Guðbjartssyni (Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hrl.) |
Skaðabætur. Líkamstjón. Örorka. Miski. Uppgjör. Fyrning.
K slasaðist í umferðarslysi í október 1999 og var óumdeilt að J og T væru skaðabótaskyld vegna tjóns hans. Hins vegar var deilt um miskastig og örorkustig K og hvort greiðsla T til hans í apríl 2003 girti fyrir að hann gæti krafist frekari bóta. Þar sem gerður hafði verið skýr fyrirvari af hálfu K, sem síðan var ítrekaður, um frekari kröfur ef endurmat leiddi í ljós meira tjón en þá lá fyrir var ekki talið að sérstaklega reyndi á 11. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 í málinu. Kröfugerð K studdist við matsgerð tveggja dómkvaddra manna og féllst héraðsdómur á hana. Eftir uppsögu dómsins hlutuðust J og T til um að dómkvaddir yrðu þrír yfirmatsmenn og töldu þeir varanlegan miska og varanlega örorku K vera minni en samkvæmt matsgerð. Við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti var af hálfu J og T meðal annars vísað til yfirmatsins til stuðnings því að lækka bæri kröfu K. Ekki var talið að sú málsástæða að miski og örorka K væri of hátt metin í mati hinna dómkvöddu manna hefði með skýrum hætti verið höfð uppi í héraði. Var málsástæðan því talin of seint fram komin og matsgerðin lögð til grundvallar niðurstöðu í málinu. Af sömu ástæðu gat ekki reynt á hvort fyrrgreint yfirmat fæli í sér sönnun um að varanlegur miski og varanleg örorka K væri of hátt metin í matsgerðinni. Var því fallist á kröfugerð K að öðru leyti en því að hluti vaxta voru fyrndir.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Markús Sigurbjörnsson.
Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 6. júní 2006 og krefjast sýknu og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I.
Stefndi slasaðist í umferðarslysi 16. október 1999. Óumdeilt er að áfrýjendur eru skaðabótaskyldir vegna tjóns hans. Í málinu er hins vegar deilt um miskastig og örorkustig stefnda og hvort greiðsla áfrýjandans Tryggingamiðstöðvarinnar hf. til hans 30. apríl 2003 girði fyrir að hann geti krafist frekari bóta.
Í hinum áfrýjaða dómi eru rakin atvik í tengslum við þá greiðslu, sem að framan greinir. Örorkumat 28. nóvember 2001 lá þá fyrir, en samkvæmt því hafði stefndi við slysið hlotið 8% varanlegan miska og 5% varanlega örorku. Lögmaður stefnda óskaði eftir bótauppgjöri við áfrýjandann Tryggingamiðstöðina hf. á grundvelli þessa mats með fyrirvara um endurmat síðar, ef starfsvettvangur stefnda breyttist. Eru bréfaskipti þeirra í apríl 2003 rakin í héraðsdómi. Verður staðfest sú niðurstaða hins áfrýjaða dóms að af hálfu stefnda hafi verið gerður skýr fyrirvari, sem síðan var ítrekaður, um frekari kröfur ef endurmat leiddi í ljós meira tjón en þá lá fyrir. Ræður þá ekki úrslitum þótt fyrirvarinn hafi ekki enn á ný verið ítrekaður eftir að áfrýjandinn hafði greitt bætur til lögmannsins í samræmi við matið, sem þá lá fyrir. Við aukna kröfugerð stefnda nú reynir samkvæmt því ekki sérstaklega á hvort skilyrði 11. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 séu uppfyllt.
II.
Kröfugerð stefnda í málinu styðst við matsgerð tveggja dómkvaddra manna 30. mars 2005, en samkvæmt því er varanlegur miski hans af völdum slyssins 10% og varanleg örorka 15%. Féllst héraðsdómur á kröfu hans. Eftir uppsögu dómsins hlutuðust áfrýjendur til um að dómkvaddir yrðu þrír yfirmatsmenn til að fjalla um sama úrlausnarefni. Matsgerð þeirra er dagsett 16. júlí 2006, en samkvæmt því er varanlegur miski stefnda 8% og varanleg örorka 10%. Í bréfi 22. ágúst 2006 gerði stefndi athugasemdir við sitthvað í yfirmatinu, sem hann taldi ekki standast. Yfirmatsmenn voru þrátt fyrir það ekki kvaddir fyrir dóm til að staðfeta matið og skýra það. Við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti var af hálfu áfrýjenda meðal annars vísað til matsins til stuðnings því að lækka bæri kröfu stefnda.
Í héraði var málsvörn áfrýjenda einkum reist á því að stefndi hefði ekki gert fyrirvara við móttöku á greiðslu og að skilyrði 11. gr. skaðabótalaga væru ekki fyrir hendi til að geta gert frekari kröfur. Ennfremur segir í greinargerð þeirra að þeir „mótmæla niðurstöðum síðari matsgerðarinnar og áskilja sér rétt til athugasemda við hana síðar, ef ástæður þykja til.“ Með þessum orðum var ekki með skýrum hætti höfð uppi sú málsástæða að miski og örorka stefnda væri of hátt metin í mati hinna dómkvöddu manna. Ummælin lýsa ekki öðru en almennum mótmælum og áskilnaði til að gera athugasemdir síðar, ef ástæður þyki til. Samkvæmt 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála skulu málsástæður og mótmæli stefnda koma fram jafnskjótt og tilefni verður til. Sú málsástæða, sem að framan greinir, er of seint fram komin og verður matsgerðin frá 20. mars 2005 því lögð til grundvallar niðurstöðu. Getur af sömu ástæðu ekki reynt á hvort yfirmat, sem áfrýjendur öfluðu á síðari stigum, feli í sér sönnun um að varanlegur miski og varanleg örorka stefnda sé of hátt metin í fyrrnefnda matinu.
Áfrýjendur mómæla sérstaklega vaxtakröfu stefnda og bera fyrir sig að hún sé að hluta fyrnd. Greiðsla til hans 30. apríl 2003 fól ekki í sér viðurkenningu á þeirri kröfu, sem nú er höfð uppi, og sleit ekki fyrningu samkvæmt 6. gr. laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda. Málið var höfðað 12. september 2005 og eru því vextir sem krafan bar fram til 12. september 2001 því fyrndir. Dráttarvextir verða dæmdir frá 8. maí 2005 er mánuður var liðinn frá dagsetningu kröfubréfs stefnda.
Áfrýjendur verða dæmdir til að greiða stefnda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem verður ákveðinn í einu lagi eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Áfrýjendur, Jóhanna Steinunn Guðmundsdóttir og Tryggingamiðstöðin hf., greiði óskipt stefnda, Kristni Þór Guðbjartssyni, 5.560.734 krónur með 4,5% ársvöxtum frá 12. september 2001 til 8. maí 2005, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.
Áfrýjendur greiði óskipt stefnda samtals 1.100.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 13. mars 2006.
Mál þetta, sem dómtekið var 23. febrúar 2006, er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Kristni Þór Guðbjartssyni, kt. 211163-5349, Austurgötu 3, Vogum, gegn Jóhönnu Steinunni Guðmundsdóttur, kt. 090760-3949, Steinási 27, Njarðvík, og Tryggingamiðstöðinni hf., kt. 660269-2079, Aðalstræti 6, Reykjavík, með stefnu, sem birt var 12. september 2005.
Dómkröfur stefnanda eru að stefndu verði dæmdir óskipt til að greiða stefnanda skaðabætur að fjárhæð 5.560.734 kr. auk 4,5% ársvaxta frá 16. mars 2000 til 8. maí 2005 en með dráttarvöxtum, samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.
Dómkröfur stefndu eru að sýknað verði af öllum kröfum stefnanda og stefndu dæmdur málskostnaður að skaðlausu að mati dómsins.
Helstu málavextir eru að 16. október 1999 lenti stefnandi í umferðarslysi á gatnamótum Suðurlandsvegar og Vesturlandsvegar. Stefnandi kom akandi bifreiðinni RE-138, Toyota Land Cruiser jeppa, árgerð 1989, skráðri eign eiginkonu hans, Ernu Gunnlaugsdóttur, eftir Suðurlandsvegi í norður og hugðist beygja til hægri inn á Vesturlandsveg. Í málsatvikalýsingu í stefnu segir að hann hafi verið í bílbelti og snúið höfðinu til vinstri til að huga að umferð á veginum, þegar annarri bifreið [Y-100] var ekið harkalega aftan á bifreið hans. Við höggið hafi hann fengið þungan slink á líkamann.
Þá segir í læknisvottorði Péturs Thorsteinssonar læknis frá 29. ágúst 2000 varðandi stefnanda, dskj. nr 10, að hann hafi fyrst séð Kristin 18. október 1999 vegna verkja í hálsi og hafi Kristinn sagt honum frá atvikum slyssins er varð tveimur dögum áður. Þá segir í vottorðinu:
Sjúklingur fékk á sig slink en fann ekki fyrir neinu fyrstu klukkutímana eftir áreksturinn. Hann fer síðan að stífna meira upp í háls og hafði verk aftan á hálsi vinstra megin og seyðings höfuðverk. Við skoðun þann 18. var eymsli um miðjan háls, meira vinstra megin, tekur í þegar hann beygir höfuðið áfram. Getur fett höfuð vel aftur. Hliðarsveigja og höfuðsnúningur nánast eðlilegur. Ástandið var túlkað sem væg tognun á hálsi.
Sjúklingur leitar aftur þann 10.11.99, gaf þá sögu að hafa alltaf vitað af óþægindum í hálsinum eftir áverkann. Stirður í hálsi og aumur í herðavöðvum en þetta hefur þó ekki haldið honum frá vinnu en sagt til sín. Lýst drunga og þunga yfir höfuð. Sjúklingur fékk beiðni til sjúkraþjálfunar. Þann 17.01.00 hefur hann símasamband og segist vera að lagast hægt, var byrjaður í þjálfun. Var þá sendur í rtg.mynd af hálsi sem sýnir enga áverka en þó liðbil í lægra lagi milli C5 og C6.
Ég [sá] hann síðan þann 24.01.00 og þá enn með einkenni frá hálsi og herðum. Skrifuð var beiðni fyrir framhalds sjúkraþjálfun.
Sjúklingur hefur þannig hlotið tognun á hálsi sem sjúkraþjálfun hefur ekki getað lagað að fullu enn. Þetta hefur þó aldrei verið svo slæmt að ég hafi þurft að gefa vottorð vegna fjarveru frá vinnu vegna þess. Ég hef ekki heyrt í sjúklingi í rúmlega hálft [ár] vegna þessa og veit ég ekki hver staðan er í dag. ...
Í læknisvottorði Stefáns Dalberg, sérfræðings í bæklunarlækningum, varðandi stefnanda, dags. 26. október 2000, segir m.a.:
Leitar á stofu hjá undirrituðum, 29.06.2000. Við skoðun þá, hafði hann þreifi eymsli yfir hálsvöðvum og út á axlir, meira vinstra megin. Nokkuð góðar hreyfingar voru í hálsinum.
Segulómun tekin af hálsi, 06.07.2000, sýndi sú rannsókn vægar, degeneratívar breytingar á disk C6 C7, með lítilli afturbungu. Aðrar breytingar greindust ekki.
Undir fyrirsögninni Álit segir í vottorðinu:
Kristinn virðist hafa orðið fyrir varanlegu líkamstjóni við bílslysið 16.10.1999. Hann hefur hlotið hálshnykk og við það tognun á háls og herðar. Hann hefur fengið lyfjameðferð, nudd og sjúkraþjálfun, og lagast lítillega við það. Ástandið hefur verið óbreytt í nokkra mánuði undanfarið. Ekki er að búast við, að hann verði betri með tímanum. Ástandið í dag telst varanlegt.
Stefnda, Jóhanna Steinunn, var eigandi bifreiðarinnar YZ-100, er ekið var á bifreið stefnanda umrætt sinn. Var bifreið stefndu tryggð lögboðinni ábyrgðartryggingu hjá stefnda, Tryggingamiðstöðinni hf. Er ágreiningslaust að ökumaður bifreiðarinnar YZ-100 átti sök á þessu óhappi.
Þann 27. september var af hálfu stefnanda leitað til Björns Daníelssonar, lögfræðings og sérfræðings í líkamstjónarétti, og Júlíusar Valssonar, sérfræðings í gigtarsjúkdómum og embættislækningum, til að skoða og meta afleiðingar umferðarslyssins fyrir stefnanda og þar með að meta varanlega örorku og varanlegan miska og greina hvenær stöðugleikatímapunkti hefði verið náð. Í niðurstöðu matsgerðar þeirra frá 28. nóvember 2001 segir að við umferðarslysið þann 16. október 1999 hafi matsbeiðandi orðið fyrir eftirfarandi tjóni með hliðsjón af SKL [skaðbótalögum nr. 50/1993] og segir í niðurstöðunni:
i Stöðugleikatímapunktur er 16. mars 2000.
ii Varanlegur miski skv. 4. gr.: 8%. átta af hundraði.
iii Varanleg örorka skv. 5. gr.: 5%.- fimm af hundraði.
Lögmaður stefnanda sendi með bréfi 11. apríl 2003 stefnda, Trygginga-miðstöðinni hf., framangreinda matsgerð Björns Daníelssonar og Júlíusar Valssonar. Þar er greint frá því að stefnandi væri ósáttur við þá niðurstöðu matsmanna að meta varanlega örorku hans lægri en miskann eins og þar segir: [A]ð því er virðist vegna þess að Kristinn hefur verið í stjórnunar- og eftirlitsstarfa hjá Keflavíkurverktökum, en ekki unnið “á gólfinu” sem pípulagningamaður. Í bréfinu var borin fram ósk um uppgjör málsins á grundvelli matsgerðarinnar, en tekið fram að tekið verði við bótunum með fyrirvara um endurmat, kæmi til þess að stefnandi þyrfti á nýjan leik að starfa við almenn störf pípulagningamanna. Hafi hann þurft að vinna slík störf sumarið 2002 og hafi vinnugeta hans við þau verið langt frá því vera 95% af því sem hún var fyrir slysið.
Af hálfu stefnda, Tryggingamiðstöðvarinnar hf., var lögmanninum svarað með bréfi, dags. 23. apríl 2003. Þar er greint frá því að félagið væri reiðubúið að greiða stefnanda:
|
Þjáningabætur (kr. 950.- x 151 dagur) |
kr. |
143.450.- |
|
Varanlegur miski (kr. 5.455.000.- x 8%) |
kr. |
436.400.- |
|
Varanleg örorka (kr. 4.876.319.- x 11,353 x 5%) |
kr. |
2.768.042.- |
|
Vextir |
kr. |
502.909.- |
|
Innheimtuþóknun m/vsk |
kr. |
245.435.- |
|
Útl. kostn. lögm. |
kr. |
130.600.- |
|
Samtals |
kr. |
4.226.836.- |
Þá segir í bréfinu:
Varðandi þjáningabætur er rétt að taka fram að tímabili þjáninga er ekki metið í fyrirliggjandi matsgerð og af matsgerðinni verður það helst ráðið að tjónþoli hafi ekki verið veikur í skilningi skaðabótalaga eftir slysið, a.m.k. er haft eftir tjónþola að hann hafi ekki verið frá vinnu vegna slyssins. Ofangreind tillaga er því sett fram með sérstökum fyrirvara. Við útreikning á varanlegri örorku er miðað við meðaltal launa tjónþola síðustu tvö árin fyrir slysið en þau námu á því tímabili kr. 4.876.319.- og hefur þá verið tekið tillit til verðbóta og framlags vinnuveitanda í lífeyrissjóð. Í bréfi þínu er óskað eftir fyrirvara varðandi endurmat samhliða viðtöku bóta og er í því sambandi vísað til þeirrar forsendu matsins að Kristinn sé í stjórnunar- og eftirlitsstarfi en vinni ekki "á gólfinu". Af lestri matsins verður ekki séð að þetta sé staðreyndin um störf ofangreinds en ítrekað kemur fram í matsgerðinni að ofangreindur hafi undanfarin 8 ár unnið við létta viðhaldsvinnu hjá Keflavíkurverktökum og ekkert sem bendir til annars en að ofangreindur vinni hefðbundin almenn pípulagningarstörf í þeirri merkingu. Af þeirri ástæðu og sömuleiðis þeirri staðreynd að ofangreindur hefur fram til þessa ekki orðið fyrir tekjuskerðingu af völdum slyssins er ofangreind tillaga sett fram með fyrirvara um að samkomulag takist um fyrirvaralaust lokauppgjör.
Á myndrit af bréfinu, sem liggur fyrir í málinu sem dskj. nr. 8, er handritað: „Samþ. Sjá þó fyrirvara í kröfubréfi. Vilhj. H. Vilhjálmsson hrl.“ Þá segir í bréfi stefnda til lögmanns stefnanda, dags. 30. apríl 2003, að félagið hafi í dag millifært á bankareikning Landslaga skaðbætur í samræmi við tillögu félagsins um uppgjör frá 23. apríl 2003. Um sé að ræða loka- og fullnaðaruppgjör vegna umferðarslyssins 16. október 1999 og komi endurupptaka ekki til álita nema skilyrði 11. gr. skaðabótalaga séu uppfyllt.
Af hálfu stefnanda er því lýst að breytingar hafi orðið á aðstæðum stefnanda frá því matsgerð Björns og Júlíusar var gerð. Hann væri pípulagningameistari og hafi starfað sem pípulagningamaður fyrir Keflavíkurverktaka. Starf hans hafi einkum falist í eftirliti. Þegar einkaleyfi Keflavíkurverktaka á viðhaldsvinnu fyrir varnarliðið var úr gildi numið, hafi starfsskilyrði breyst mikið á vinnustað hans. Fyrirtækið hafi leitað út á almennan markað eftir verkefnum og hafi hann neyðst til að ganga í öll venjuleg störf pípulagningamanna, svo sem nýlagnir í óupphituðum húsum, lagningu aðveitu- og frárennslislagna utan húss í öllum veðrum, bogra niður við gólf þar sem lagnir eru staðsettar, í skurðum, undir vöskum við klósett og ofna, auk burðar á rörum, lagnaefni, ofnum og hreinlætistækjum. Hafi hann ekki ráðið við þessi störf sökum afleiðinga slyssins og hafi hann neyðst til að segja upp starfi sínu hjá Keflavíkurverktökum. Hafi hann þá tekið til starfa við almenn pípulagningastörf í Hafnarfirði, en aðeins fengið líkamlega erfið verkefni, sem hann hafi illa ráðið við. Þá hafi hann hafið störf hjá Íslenskum aðalverktökum í viðlíka starfi og hann hafði áður haft hjá Keflavíkur-verktökum að því undanskildu, að nú hafi hann ítrekað þurft að bera þunga hluti. Að endingu hafi hann einnig orðið að hætt störfum hjá Íslenskum aðalverktökum þar sem hann réð ekki við þau vegna þeirrar heilsuskerðingar sem hann hafði orðið fyrir af völdum umferðarslyssins.
Þar sem stefnandi taldi afleiðingar slyssins vanmetnar fékk hann dómkvadda matsmenn, Torfa Magnússon taugalækni og Pál Sigurðsson prófessor, til að meta afleiðingar umferðarslyssins er hann varð fyrir 16. október 1999. Í beiðni um dómkvaðningu matsmanna, dags. 27. desember 2004, var þess óskað, að matsmenn létu í té skriflegt og rökstutt álit um eftirfarandi atriði:
1. Hver væri varanlegur miski matsbeiðanda, sbr. 4. gr. skaðabótalaga, vegna afleiðinga umferðarslyssins.
2. Hver væri varanleg örorka matsbeiðanda, sbr. 5. gr. skaðabótalaga, vegna afleiðinga umferðarslyssins.
Matsgerðin er dagsett 30. mars 2005 og var niðurstaða hennar að varanlegur miski væri 10% - tíu stig, en varanleg örorka væri 15% - fimmtán stig.
Með bréfi, dags. 8. apríl 2005, krafði stefnandi stefnda, Tryggingamiðstöðina hf., um bætur er hann sundurliðaði þannig:
|
1.Viðbótarmiski 2% af 5.732.500 |
114.650 kr. |
|
2.Varanleg viðbótarörorka 10% af 4.876.319,- x 11.353 |
5.536.084 kr. |
|
Samtals |
5.560734 kr. |
Stefnandi byggir á ábyrgðartryggingu ökutækisins YZ-100, en stefnda, Jóhanna Steinunn Guðmundsdóttir, hafi verið eigandi bifreiðarinnar þegar henni var ekið á bifreiðina sem stefnandi ók 16. október 1999. Jóhanna Steinunn hafi haft ábyrgðartryggingu samkvæmt 88., 90. og 91. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 hjá stefnda, Tryggingamiðstöðinni hf., en bótaskyldu stefndu reisi stefnandi að öðru leyti á sakarreglunni, sbr. 89. gr. umferðarlaga. Ekki sé ágreiningur um grundvöll bótaskyldu, enda hafi stefndu viðurkennt bótaábyrgð á slysinu og stefndi, Tryggingamiðstöðin hf., greitt stefnanda bætur.
Vísað er til þess að ágreiningur aðila málsins snúist um þá viðbótarfjárhæð sem stefndu beri að greiða samkvæmt 4. og 5. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 fyrir varanlegan miska og varanlega örorku stefnanda samkvæmt niðurstöðu dómkvaddra matsmanna. Matsgerðinni hafi ekki verið mótmælt með rökum, ekki verið hnekkt. Beri því að leggja matsgerðina til grundvallar dómi í málinu, enda séu afleiðingar slyssins verulega meiri en gert var ráð fyrir, þegar gengið var til bótauppgjörs 23. apríl 2003. Af hálfu stefnanda hafi skýr fyrirvari verið gerður um frekari bætur en þá voru inntar af hendi. Almenn skilyrði skaðabótaréttar og 11. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 fyrir að taka upp að nýju ákvörðun um bætur séu þannig fyrir hendi.
Byggt er á af hálfu stefndu að tryggingafélagið hafi við greiðslu bóta 30. apríl 2003 hafnað því að endurupptaka kæmi til greina nema að uppfylltum skilyrðum 11. gr. skaðabótalaga, en um það hefði verið ágreiningur. Stefnandi hafi athugsemdalaust tekið við greiðslu og fyrst með beiðni um dómkvaðningu matsmann [27. desember 2004] hafi tryggingafélaginu orðið kunnugt um að stefnandi sætti sig ekki við þá greiðslu sem endanlega. Þá er byggt á því að skilyrðum 11. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 til að taka upp að nýju ákvörðunina frá 23. apríl 2003 um bætur til stefnanda fyrir varanlegan miska og varanlega örorku vegna líkamstjóns, sem stefnandi hlaut við slysið 16. október 1999, sé ekki fullnægt.
Vísað er til þess að skilyrði 11. gr. skaðabótalaga séu að ófyrirsjáanlegar breytingar hafi orðið á heilsu tjónþola þannig að ætla megi að miskastig eða örorkustig sé verulega hærra en áður var talið. Þá segi í greinargerð með skaðabótalögunum að ekki sé heimilt að beita þessu ákvæði þótt örorkustig reynist hærra en áður var gert ráð fyrir ef ástæða þess er ekki breyting á heilsu tjónþola.
Miski eða hin læknisfræðilega örorka hafi verið metið tveimur stigum hærri af dómkvöddum matsmönnum en Björn Daníelsson og Júlíus Valsson höfðu metið, m.ö.o. ekki verulega hærra en áður var talið.
Hækkun varanlegu örorkunnar úr fimm stigum í fimmtán leiði heldur ekki til þess að heimilt sé að taka upp að nýju ákvörðun um bætur fyrir örorku eða skerðingu aflahæfis stefnanda vegna líkamstjóns, sem hann hlaut við slysið 16. október 1999. Sjúkdómsgreiningin sé sú sama í báðum matsgerðunum. Engar ófyrirsjáanlegar breytingar til hins verra hafi orðið á heilsu stefnanda frá því að fyrri matsgerðin fór fram og þar til seinni matsgerðin var unnin.
Þá byggir stefndi á því að vextir áfallnir fyrir 12. september 2001 séu fyrndir, sbr. ákv. 2. tl. 3. gr. laga nr. 14/1905.
Páll Sigurðsson prófessor kom fyrir réttinn og staðfesti að hafa ásamt Torfa Magnússyni taugalækni unnið matsgerðina sem fram kemur á dskj. nr. 4, og dagsett er 30. mars 2005.
Aðspurður lýsti Páll í nokkrum orðum hver væri helsti munur á mati varanlegs miska og varanlegrar örorku og greindi frá því hvaða almenn gögn væru höfð til hliðsjónar og hvað væru hefðbundnar vinnuaðferðir í því sambandi.
Torfi Magnússon taugalæknir kom fyrir réttinn og staðfesti að hafa ásamt Páli Sigurðssyni prófessor unnið matsgerðina sem fram kemur á dskj. nr. 4, og dagsett er 30. mars 2005.
Aðspurður sagði Torfi m.a. að helsti munur á varanlegum miska og varanlegri örorku væri sá að varanlegur miski væri að mestu leyti byggður á læknisfræðilegum þáttum sem koma fram við sögu og skoðun sjúklings. Varanleg örorka væri á hinn bóginn reist á mati á möguleikum tjónþola til að afla sér tekna, hvaða skerðing hafi orðið á aflahæfi tjónþola við slysið.
Ályktunarorð: Tvær matsgerði liggja fyrir í málinu. Annars vegar matsgerð sem að beiðni stefnanda var unnin af Birni Daníelssyni, lögfræðingi og sérfræðingi í líkamstjónarétti, og Júlíusi Valssyni, sérfræðingi í gigtarsjúkdómum og embættis-lækningum, dags. 28. nóvember 2001, og hins vegar matsgerð sem unnin var af dómkvöddum matsmönnum, Torfa Magnússyni taugalækni og Páli Sigurðssyni prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, dags. 30. mars 2005. Í báðum matsgerðunum er gengið út frá því að stefnandi hafi hlotið varanlegt heilsutjón við umferðarslysið 16. október 1999, en stigsmunur er á varanlegum miska og varanlegri örorku tjónþola að mati Björns og Júlíusar og varanlegum miska og varanlegri örorku tjónþola að mati hinna dómkvöddu matsmanna eins og rakið var í lýsingu málavaxta. Mestu skiptir að Björn og Júlíus meta varanlega örorku stefnanda til fimm örorkustiga en dómkvaddir matsmenn meta varanlega örorku stefnanda til fimmtán örorkustiga.
Augljóst er að hinir dómkvöddu matsmenn höfðu miklu lengra tímabil úr lífi stefnanda til að skoða, meta og sjá varanlega örorku hans vegna slyssins en Björn og Júlíus höfðu. Þá verður að jafnaði mati dómkvaddra matsmanna ekki hnekkt nema með yfirmati. Verður því ályktað að varanleg örorka stefnanda á grundvelli skaðabótalaga sé 15% - fimmtán stig.
Í bréfi lögmanns stefnanda til stefnda, dags. 11. apríl 2003, var óskað eftir uppgjöri málsins á grundvelli matsins frá 28. nóvember 2001. Jafnframt var greint frá því að stefnandi væri ósáttur við matið á varanlega örorku sinni, og ritað, að tekið yrði við bótunum með fyrirvara um endurmat „komi til þess að Kristinn þurfi á nýjan leik að starfa við almenn störf pípulagningamanna. Hann þurfti að vinna slík störf í sumar og vinnugeta hans við þau var langt frá því að vera 95% af því sem hún var fyrir slys.“ Í málavaxtalýsingu hér að framan eru rakin bréfaskipti aðila í apríl 2003 og þar til stefndi greiddi stefnanda 30. sama mánaðar. Jafnframt því að greiða stefnanda þennan dag tjáði stefndi stefnanda bréflega að um loka- og fullnaðaruppgjör vegna slyssins 16. október 1999 væri að ræða og endurupptaka kæmi ekki til álita nema að skilyrði 11. gr. skaðbótalaga væru uppfyllt. Bréfi stefnda frá 30. apríl 2003 var ekki svarað af hálfu stefnanda og ekki liggur fyrir í málinu sérstök kvittun fyrir móttöku, en ekki er deilt um að stefndi fékk greiddar samtals 4.226.836 kr. frá stefnda þennan dag.
Alkunna er að almenn störf pípulagningamanna eru líkamlega erfið og ljóst er af gögnum málsins að við slysið hafði verulega dregið úr getu stefnanda til að vinna slík störf. Áður en stefnandi tók við greiðslu frá stefnda 30. apríl 2003 hafði lögmaður stefnanda upplýst forsvarsmann stefnda og gert þann fyrirvara að krafist yrði endurupptöku ákvörðunar um bætur fyrir varanlegt líkamstjón, færi svo að varanleg örorka stefnanda reyndist meiri en móttekin bótagreiðsla var reist á.
Hafnað er þeirri málsástæðu stefnda að stefnandi hafi sýnt af sér vítavert tómlæti með því að ítreka ekki fyrirvara um kröfu um endurupptök, er hann tók við greiðslu frá stefnda 30. apríl 2003, og að láta málið kyrrt liggja gagnvart stefnda þar til með dómkvaðningu matsmanna 27. desember 2004. Líta verður til þess að stefnandi mátti hafa nokkurn tíma til að fullvissa sig um að batahorfur væru engar og þar með að þær bætur - sem hann hafði móttekið 30. apríl 2003 án viðurkenningar á því að um fyrirvaralaust uppgjör væri að ræða af hans hálfu gætu ekki talist fullnægjandi.
Greiðsla stefnda til stefnanda 30. apríl 2003 sleit fyrningu á kröfu stefnanda um gjaldkræfa vexti.
Ekki er tölulegur ágreiningur um bótakröfur stefnanda.
Samkvæmt framangreindu verða stefndu óskipt dæmdir til að greiða stefnanda umkrafða fjárhæð ásamt málskostnaði, allt eins og í dómsorði segir.
Páll Þorsteinsson héraðsdómari og meðdómsmennirnir, Allan V. Magnússon héraðsdómari og Albert Páll Sigurðsson læknir, kveða upp dóminn.
DÓMSORÐ:
Stefndu, Jóhanna Steinunn Guðmundsdóttir og Tryggingamiðstöðin hf., greiði óskipt stefnanda, Kristni Þór Guðbjartssyni, 5.560.743 krónur með 4,5% ársvöxtum frá 16. mars 2000 til 8. maí 2005, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.
Stefndu greiði óskipt stefnanda 1.404.747 krónur í málskostnað.