Hæstiréttur íslands

Mál nr. 597/2013


Lykilorð

  • Gjöf
  • Umboð


                                     

Fimmtudaginn 6. febrúar 2014.

Nr. 597/2013.

 

A

(Jón Magnússon hrl.)

gegn

B

(Gísli M. Auðbergsson hrl.)

 

Gjöf. Umboð.

A, sem var erfingi C, höfðaði mál gegn B en tekist var á um hvort B bæri að endurgreiða fjármuni sem millifærðir voru af bankareikningi C á bankareikning B skömmu áður en C lést. Sú ráðstöfun hafði verið gerð í krafti umboðs frá C. Hafnað var málsástæðu A er laut að því að umboðsskjalið hefði verið ógilt vegna ætlaðra form- og efnisannmarka. Þá var ekki talið að A hefði hnekkt framburði vitna um að heilsufar C hefði á þessum tíma verið það gott að engin ástæða væri til að efast um hæfi hennar til að taka ákvörðun um ráðstöfun fjármunanna. Voru skýringar B á tilefni þess að C hefði gefið henni umrædda fjármuni lagðar til grundvallar sem óumdeildar en þær þóttu fá stoð í trúverðugum framburði vitna. Var ekki talið að A hefði fært fram haldbær rök eða gögn sem styddu að C hefði ætlast til að sú fjárhæð sem hún lét B í té yrði endurgreidd. Var B því sýknuð af kröfu A.

 

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 12. september 2013. Hún krefst þess að stefnda greiði sér 1.376.266 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 28. maí 2008 til greiðsludags. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Áfrýjanda verður gert að greiða stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, A, greiði stefndu, B, 400.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Austurlands 13. júní 2013.

                Mál þetta sem dómtekið var 19. apríl 2013 er höfðað 26. apríl 2012.

                Stefnandi er A, [...].

                Stefnda er B, [...]. 

                Dómkröfur stefnanda eru þær að stefnda verði dæmd til greiðslu 1.376.266 króna, ásamt dráttarvöxtum skv. III. kafla laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 28. maí 2008 til greiðsludags og leggist dráttarvextir við höfuðstól skuldarinnar á 12 mánaða fresti, í fyrsta sinn þann 28. maí 2009, sbr. 12. gr. laga nr. 38/2001. Þá er krafist málskostnaðar.

                Dómkröfur stefndu eru þær að hún verði alfarið sýknuð af öllum kröfum stefnanda í málinu. Þá er krafist málskostnaðar.

I

                Málsatvik eru þau að hinn 23. desember 2007 lést C, sem fædd var árið [...], móðir stefnanda þessa máls og föðursystir stefndu. Nokkru fyrir andlát C heitinnar, þ.e. í ágústmánuði 2007 var bankareikningi í eigu hennar eytt og innistæða hans að fjárhæð 4.128.797 krónur millifærð á bankareikning í eigu stefndu, allt samkvæmt fyrirmælum í umboðsskjali sem liggur fyrir í málinu, sem dagsett er 13. ágúst 2007. Bera ljósrit af bankakvittunum og reikningsyfirlit sem liggja fyrir í málinu með sér að millifærslan hafi átt sér stað þann sama dag, 13. ágúst 2007, en ljósritið af bankakvittunum ber jafnframt stimpil Glitnis banka með skýringunni „afgreitt“, sem dagsettur er 24. ágúst sama ár.

                Í beiðni um leyfi til einkaskipta á dánarbúi C, sem undirrituð er af stefnanda auk annarra erfingja, er krafa á hendur stefndu að nefndri fjárhæð tilgreind meðal eigna búsins. Leitaði lögmaður sem aðstoðaði erfingja við skiptin skýringa stefndu á tilurð þessarar kröfu með bréfum, dags. 20. febrúar og 18. mars 2008. Er í síðara bréfinu meðal annars vísað til heilsufars C og að hún hafi verið blind þegar umræddur gjörningur hafi átt sér stað. Í svarbréfum lögmanns stefndu, dags. 2. og 19. maí 2008, kemur fram að erfingjar C hafi vitað af þessari greiðslu áður en C féll frá og að umrædda fjárhæð hafi C gefið stefndu til minningar um foreldra sína og systkini og e.t.v. að einhverju leyti vegna tjóns sem stefnda hafði orðið fyrir á íbúðarhúsi sínu á jörðinni [...], þar sem C hafi verið fædd og uppalin og foreldrar hennar og áður afa og amma búið. Er í greinargerð stefndu í þessu sambandi vísað til þess að aðfaranótt 7. janúar 2006 hafi þakið fokið af íbúðarhúsinu á [...] í ofsaveðri, en tjón vegna viðgerðarkostnaðar, sem numið hafi háum fjárhæðum, hafi ekki fengist bætt af tryggingum og hafi stefnda orðið að bera það sjálf. 

                Skiptum á dánarbúi C lauk með einkaskiptagerð, dags. 13. maí 2008, en þar er bent á að hver erfingi um sig skuli sjá um að innheimta sinn hluta kröfu vegna umræddrar millifærslu, sem ekki hafi fengist skýring á.

                Stefndu var með innheimtuviðvörun, dags. 12. október 2011, krafin af hálfu stefnanda og þriggja annarra erfingja C um greiðslu 7/12 hluta af heildarkröfunni samkvæmt einkaskiptagerð í dánarbúi C, þ.e. 2.408.465 krónur, auk kostnaðar og dráttarvaxta. Í kjölfar þess áttu sér stað bréfaskipti milli lögmanna aðila þar sem leitað var skýringa á kröfunni. Greiðsluáskorun var birt stefndu 20. desember 2011 og var krafa stefnanda þar tilgreind að höfuðstól 1.376.266 krónur, sem er stefnufjárhæð máls þessa. Með bréfi lögmanns stefndu, dags. 3. janúar 2012, var því vísað á bug að hún stæði í skuld við dánarbú C eða þá sem sæktu rétt sinn til þess. Höfðaði stefnandi þá mál þetta með stefnu birtri 26. apríl 2012, eins og fyrr sagði.

                Í greinargerð stefndu er málsatvikum nánar lýst svo að C hafi sett sig í samband við hana sumarið 2008 [sic], er stefnda var stödd í Reykjavík, og tjáð henni að hún vildi að arfur sem hún hafi fengið eftir bræður sína, D og E, ábúendur á jörðinni [...] áður en stefnda tók við búinu, gengi til uppbyggingar á jörðinni. Lýsir stefnda C sem skörungi sem hafi haft fulla andlega heilsu og vitað algerlega hvað hún var að gera. Hafi C falið F, bróður stefndu, að annast millifærslu fjármunanna af reikningi þar sem hún hafi geymt arfinn óhreyfðan og yfir á reikning stefndu.

                Við aðalmeðferð málsins gaf stefnda aðilaskýrslu en auk þess gáfu skýrslu sem vitni F, bróðir stefndu, G, eiginkona F, H, sambýlismaður stefndu og I.

II

                Stefnandi kveðst byggja dómkröfu sína á því að stefndu hafi borið, þegar þess var krafist, að endurgreiða þær 4.128.797 krónur sem hún hafi tekið við frá eiganda fjármunanna, C. Erfingjar C hafi tekið við arfi eftir hana og hafi erfingjar hver um sig eignast hlutdeild í kröfunni á hendur stefndu, í samræmi við arfshlut sinn, frá og með frágangi einkaskiptagerðar í málinu þann 28. maí 2008. Sé því byggt á því að millifærsla C til stefndu hafi verið lán, sem stefndu hafi borið að greiða þegar þess var krafist.

                Stefnandi byggi á því að með töku arfs eftir móður sína, C, hafi hann tekið við ofangreindri kröfu á hendur stefndu í samræmi við erfðafjárhlut sinn í búi C sem sé þriðjungur eða alls 1.376.266 krónur.

                Stefnandi byggi á því að hann hafi eignast umrædda kröfu á hendur stefndu  með frágangi og undirritun einkaskiptagerðar og erfðafjárskýrslu þann 28. maí 2008.  Stefnandi hafi frá þeim tíma ítrekað krafið stefndu um greiðslu síns hluta kröfunnar en án árangurs.

                Stefnandi vefengi umboð til F, dags. 13. ágúst 2007, þar sem C sé sögð hafa veitt F umboð til að millifæra umrædda fjárhæð yfir á reikning stefndu. Fyrir liggi að C hafi verið mjög illa á sig komin heilsufarslega þegar umrætt umboð eigi að hafa verið gefið út, meðal annars blind. Þá  hafi C ekki undirritað umboðið. Fyrir liggi að vottar þeir sem tilgreindir séu hafi ekki verið viðstaddir þegar C eigi að hafa undirritað umrætt umboð til nefnds F, auk þess sem vætti vottana sé einungis um dagsetningu og fjárræði Cen ekki undirritun hennar. Umboðið hafi því í raun verið ógilt og sé á því byggt að ekki hafi verið heimilt að millifæra 4.128.797 krónur af reikningi C yfir á reikning stefndu á grundvelli þess. 

                Stefnandi byggi á því að stefnda hafi haft vörslu fjármuna C frá því að millifærsla að fjárhæð 4.128.797 krónur átti sér stað af reikningi C yfir á reikning stefndu þann 24. ágúst 2012 [sic] og þær vörslur hafi verið ólögmætar allt frá því að stefnda var krafin um greiðslu fjármunanna af hálfu erfingja í samræmi við þá kröfu sem hver erfingi um sig hafi eignast á hendur stefndu á grundvelli ofangreindrar kröfu.

                Stefnandi byggi á því að hann, eins og aðrir erfingjar, hafi ekki vitað af tilvist millifærslunnar af reikningi C til stefndu fyrr en við frágang dánarbús hennar og þá hafi umrædd millifærsla komið öllum erfingjum mjög á óvart og þeir talið að stefnda væri að halda fjármunum sem þeim bæri í raun frá þeim.

                Stefnda hafi borið fyrir sig að umrædd greiðsla af reikningi C til sín hafi verið gjafagerningur af hennar hálfu til stefndu. Ekkert styðji þá fullyrðingu stefndu og hafni stefnandi þessari fullyrðingu alfarið sem rangri. Ekkert liggi fyrir sem styðji þá fullyrðingu stefndu að um gjafagerning C hafi verið að ræða. Þá hafi stefnda ekki talið umrædda fjármuni fram til skatts sem gjöf. 

                Á því sé byggt að engin yfirlýsing liggi fyrir af hálfu C um vilja til að gefa stefndu umrædda fjármuni. Við skiptameðferð dánarbúsins hafi einnig komið fram að ekkert lægi fyrir af hennar hálfu eða gögnum sem tiltæk hafi verið í búinu sem sýni fram á að umrædd fjárhæð hafi verið gjöf til stefndu. Þá liggi fyrir að lögmaður sá sem annaðist um skipti dánarbúsins hafni alfarið þeim sjónarmiðum stefndu að hún hafi fengið 4.128.797 krónur að gjöf frá C, hafi talið umrædda kröfu fram sem eign dánarbúsins og skipt kröfunni milli erfingja í réttum erfðahlutföllum.

                Af hálfu stefnanda sé á því byggt að fjármunir þeir sem millifærðir hafi verið á sínum tíma af reikningi C til stefndu hafi allan tímann verið eign C og því sé alfarið hafnað að C hafi gefið stefndu umrædda fjármuni. 

                Þá byggi stefnandi á því að hann eigi skaðabótakröfu á hendur stefndu þar sem  stefnda hafi tekið við fjármunum sem C hafi átt og ekki greitt kröfuna til dánarbúsins þrátt fyrir áskorun um það, heldur haldið fénu ranglega fyrir erfingjum. Hafi stefnda af ásetningi valdið stefnanda sem erfingja C tjóni sem nemi stefnufjárhæðinni, þar sem umræddir fjármunir hafi ekki verið tiltækir dánarbúinu til skiptingar milli erfingja í samræmi við erfðahlutföll.

                Stefnandi byggi á því að stefnda eigi ekki rétt til að halda fyrir réttum kröfuhöfum, þar á meðal stefnanda, þeim fjármunum sem millifærðir hafi verið til hennar af reikningi C, gegn mótmælum erfingja. Hafi stefnda ekki sýnt fram á að um óafturkræft framlag til hennar hafi verið að ræða eða gjöf svo sem vikið sé að og mótmælt sérstaklega hér að framan.

                Um stefnufjárhæðina segir í stefnu að stefnandi taki þriðjung heildararfs eftir C. Alls hafi 4.128.797 krónur verið millifærðar af reikningi C yfir á reikning stefndu og nemi dómkrafan því þriðjungi þeirrar fjárhæðar eða 1.376.266 krónum, sem sé stefnufjárhæðin.

                Krafist sé auk höfuðstóls dráttarvaxta frá 28. maí 2008, sem sé dagsetning einkaskiptagerðar, en stefnandi byggi á því að við skipti dánarbús C hafi verið gerð krafa um að stefnda greiddi kröfuna. Þá sé þess krafist að dráttarvextir leggist við höfuðstól skuldarinnar á 12 mánaða tímabili, í fyrsta sinn þann 28. maí 2009. Þá sé krafist málskostnaðar samkvæmt mati dómsins, auk virðisaukaskatts á tildæmdan málskostnað, þar sem stefnandi sé ekki virðisaukaskattsskyldur.

                Um lagarök kveðst stefnandi vísa til meginreglna erfðaréttarins, kröfuréttarins og skaðabótaréttarins. Stefnandi vísi einnig til laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, einkum XXI. kafla laganna varðandi málskostnað. Þá vísi stefnandi til laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Málið sé sótt á heimilisvarnarþingi stefndu samkvæmt 1. mgr. 32. gr. laga nr. 91/1991

III

                Stefnda kveðst byggja kröfu sína um sýknu af dómkröfu stefnanda aðallega á því að um gjöf hafi verið að ræða þegar C hafi fengið henni umrædda peningaupphæð, en ekki lán eins og stefnandi og hluti erfingja C haldi fram.  Þetta hafi C tjáð stefndu og sambýlismanni hennar, sem og F og G, þegar gengið hafi verið frá millifærslunni. C hafi gefið á þessu ákveðnar skýringar, þess efnis að um hafi verið að ræða peninga frá jörðinni [...] sem hún hafi viljað að rynnu þangað aftur. C hafi lifað í hálft ár eftir þetta og við ágæta heilsu, a.m.k. allan þann tíma. Fráleitt sé annað en að á þeim tíma hafi hún og börn hennar séð að þessi fjárhæð væri farin af bankareikningnum.

                Það að ekki hafi verið gengið frá neinu samkomulagi um hvernig endurgreiðslu skyldi háttað staðfesti þá málsástæðu stefndu að þetta hafi verið gjöf en ekki lán. Aldur síns og fjárhagsástæðna stefndu vegna hefði C mátt vera ljóst að ef um lán væri að ræða þá væru allar líkur á að það kæmi í hlut erfingja C frekar en hennar sjálfrar að endurkrefja lánið. Hefði því verið rík ástæða til að ganga frá samkomulagi um endurgreiðslu. Það að svo var ekki gert telji stefnda að renni sterklega stoðum undir það að ekki hafi átt að endurgreiða féð.

                Að virtum öllum aðdraganda og framkvæmd á afhendingu fjármunanna telji stefnda að allar líkur hljóti að teljast á að um gjöf hafi verið að ræða. Sönnunarbyrðin um annað hljóti því að liggja hjá stefnanda og sú sönnun liggi ekki fyrir.

                Mótmælt sé því sem fram komi í stefnu að framlagt umboð stafi ekki frá C, sé ekki undirritað af henni og sé ekki fullgilt umboð. Þvert á móti beri umboðið með sér að hafa verið undirritað af C, sem auk þess hafi stimplað nafn sitt á skjalið. Ekki verði séð af stefnu að stefnukröfur séu byggðar á þessu atriði sérstaklega, slíkar málsástæður hafi ekki verið settar fram.

                Varðandi þá málsástæðu stefnanda að hún eigi skaðabótakröfu, þá sé hún ekki þannig fram sett að geta staðið sem sjálfstæð málsástæða. Stefnda byggi og á því að ekki sé vísað til neinna skaðabótareglna, engar skaðabótareglur eigi við um það sem stefnandi haldi fram, nema átt sé við að krafa um endurgreiðslu láns sé skaðabótakrafa. Sérstaklega skuli tekið fram að skilyrði sakarreglunnar séu ekki uppfyllt, m.a. ekki skilyrðin um ólögmæti og saknæmi.

                Stefnda telji að erfingjar C hafi vitað af gjöfinni fyrir andlát C.

                Stefnda telji að engu skipti um sakarefni það sem hér sé um deilt, hvernig hún hafi gengið frá skattframtali sínu. Stefnandi geti ekki vitað hvernig það skattframtal líti út eða hafi a.m.k. ekki lagt það fram til stuðnings fullyrðingu sinni um efni framtalsins.

                Þó stefnandi og samerfingjar hennar hafi kosið að ganga þannig frá skiptum eftir C að telja þar fram sem eign meinta kröfu á hendur stefndu, þá hafi það ekkert gildi því til stuðnings því að um slíka kröfu sé að ræða.

                Varðandi málskostnaðarkröfu vísi stefnda til 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

IV

                Í máli þessu, og í þremur öðrum sambærilegum málum sem flutt voru samhliða því, er tekist á um það hvort stefndu beri að endurgreiða fjármuni sem millifærðir voru af reikningi C heitinnar á reikning stefndu í ágústmánuði 2007, að kröfu þeirra erfingja sem leiða rétt sinn frá dánarbúi C, þ. á m. stefnanda.

                Í málinu liggur fyrir afrit af skjali sem enga yfirskrift ber, en samkvæmt efni skjalsins veitir C þar F, bróður stefndu, umboð til að eyða reikningi hennar hjá Glitni banka með tilgreindu reikningsnúmeri og flytja innistæðu hans inn á annan tilgreindan reikning í eigu stefndu. Á línu undir texta skjalsins þar sem gert er ráð fyrir samþykki reikningseiganda hefur nafn og kennitala C verið stimplað á skjalið og eru upphafsstafir hennar, „OL“, ritaðir þar við. Undir skjalið rita einnig G, mágkona stefndu, og I sem „vottar að dagsetningu og fjárræði einstaklings“. Á skjalinu er að finna stimpil Glitnis banka um að skjalið hafi verið „afgreitt“ 24. ágúst 2007 af þar tilgreindum starfsmanni, en auk þess ber skjalið áritun um að samþykki annars tilgreinds manns „hjá lögfræðideild“ hafi legið fyrir.

                Í stefnu er framangreint umboðsskjal vefengt og byggt á því að það hafi verið „ógilt“ sökum ýmissa form- og efnisannmarka, sem raktir eru í kafla II hér að framan. Því hafi í raun ekki verið heimilt að millifæra umrædda fjárhæð af reikningi C á reikning stefndu á grundvelli þess umboðs.

                Á framangreint umboðsskjal, þótt það sé ekki undirritað með fullu nafni þess sem það veitir, hafa upphafsstafir C verið ritaðir á viðeigandi stað, auk þess sem nafn hennar og kennitala eru þar stimpluð á skjalið. Auk stefndu, báru bróðir hennar og mágkona fyrir dómi um að hafa verið viðstödd er C undirritaði skjalið með þessum hætti. Enda þótt stefnandi kveðist vefengja skjalið hefur ekki verið á því byggt að áletrun þessi sé fölsuð eða að skjalið hafi orðið til með einhverjum þeim hætti sem greinir í III. kafla laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, svo sem með misneytingu eða svikum.

                Athugasemdir stefnanda lúta einnig að því að vottun skjalsins snúi einungis að dagsetningu og fjárræði, en ekki undirritun þess. Leitt er í ljós með framburði vitna fyrir dómi að annar vottanna, I, var ekki viðstaddur undirritun skjalsins, frekar en texti við undirritun hans gefur til kynna. Hefur I þar af leiðandi ekki getað borið um afstöðu C heitinnar til þess hvort um lán eða gjöf var að ræða eða um heilsufar hennar og hæfi til ráðstafa fjármunum sínum, sem kynni að geta skipt máli varðandi sönnun um þau atriði. Ekki verður hins vegar séð hvernig athugasemdir stefnanda við form skjalsins, sem bankinn mat gilt og heimilaði millifærsluna, geti stutt kröfu hans í máli þessu á hendur stefndu.

                Samkvæmt framanrituðu verður hafnað þeirri málsástæðu stefnanda sem lýtur að því að umrætt umboðsskjal hafi verið ógilt og að heimild til millifærslunnar hafi skort.

Stefnandi byggir á því að C hafi á umræddum tíma verið heilsutæp og blind og að stefndu hafi mátt vera það ljóst. Liggur fyrir að C var á 91. aldursári þegar gerningur þessi átti sér stað og lést fáeinum mánuðum síðar, eða þann 23. desember 2007. Ekki hefur verið á því byggt í málinu að um dánarbeðsgjöf hafi verið að ræða svo fylgja hafi borið reglum um dánargjafir, sbr. 54. gr. erfðalaga nr. 8/1962, en skilja verður málatilbúnað stefnanda svo að dregið sé í efa að C hafi verið fær um að ráðstafa fé sínu. Engin gögn hafa þó verið lögð fram í málinu um sjón hennar eða heilsufar að öðru leyti. Óumdeilt er að hún hafi a.m.k. verið sjóndöpur og kom fram í framburði vitna að hún hafi notast við stækkunargler þegar umboðsskjalið var undirritað. Í framburði vitnisins F fyrir dómi, sem kvaðst hafa heimsótt C nokkuð reglulega, sérstaklega síðasta árið sem hún lifði, kom fram að C hafi nokkrum árum fyrir andlátið verið haldin krabbameini sem hún hafi síðan læknast af, en að meinið hafi greinst að nýju að nýju á haustmánuðum 2007, líklega í október. Í framburði vitnisins G, eiginkonu F, kom fram að hún héldi að krabbameinið gæti hafa verið byrjað að taka sig upp að nýju þegar gerningurinn átti sér stað. Bæði fullyrtu þau þó að C hafi á umræddum tíma virst við ágæta líkamlega og fulla andlega heilsu og að hún hafi sýnilega haft fullan skilning á ráðstöfun sinni.

Þótt staðhæfing stefnanda um að C hafi verið heilsutæp fái samkvæmt framangreindu nokkra stoð í framburði vitnanna F og G um að mein hennar hafi tekið sig upp að nýju skömmu fyrir andlát hennar, hefur ekki verið hnekkt þeim framburði þeirra að heilsufar C, líkamlegt og andlegt, hafi á umræddum tíma verið það gott að engin ástæða sé að efast um hæfi hennar til að taka ákvörðun um ráðstöfun fjármunanna. Liggur ekki annað fyrir í málinu en að C hafi búið á eigin heimili á þeim tíma og kom fram í framburði F að þar hafi hún raunar búið allt til dauðadags. Hefur stefnandi í engu leitast við að styðja staðhæfingar sínar um heilsufar C gögnum og þykir hann, eins og hér stendur á, verða að bera hallann af því að ósannað telst að C hafi sökum heilsufars verið ófær um að ráðstafa fé sínu á umræddum tíma.

                Eftir stendur hvort um gjöf hafi verið að ræða eins og stefnda heldur fram eða lán eins og stefnandi heldur fram. Engin skjalleg gögn þess efnis liggja fyrir og framlagt umboðsskjal sker samkvæmt efni sínu ekki úr um það, enda felur það einungis í sér heimild fyrir F til þess að eyða bankareikningi C og leggja innistæðuna inn á reikning stefndu.

                Stefnda hefur gefið þær skýringar á staðhæfingu sinni að C, sem sé fædd og uppalin á jörðinni [...], hafi hlotið arf eftir bræður sína sem þar voru ábúendur og viljað láta það fé renna til uppbyggingar á jörðinni, þar sem stefnda hafi tekið við búi að bræðrunum gengnum. Hefur þessum staðhæfingum um staðreyndir, þ.e. um tengsl C við jörð stefndu og um arf sem hún hafi hlotið eftir fyrri ábúendur hennar, sem fram koma í greinargerð stefndu, sem og í bréfaskiptum lögmanna málsaðila fyrir málshöfðun þessa, ekki verið mótmælt sérstaklega af hálfu stefnanda. Verða þær því lagðar til grundvallar sem óumdeildar, sbr. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991.

                Staðhæfing stefndu fær stoð í framburði þeirra F og G, sem báru um að hafa verið viðstödd, ásamt stefndu, þegar C undirritaði skjalið og að skýrt hafi komið fram að vilji hennar stæði til þess að arfur sem hún hafi hlotið eftir bræður sína gengi til uppbyggingar á jörðinni [...] og að um gjöf væri að ræða. Hafi C átt allt frumkvæði að þessum gerningi. Kom fram í framburði F að í samskiptum hans við C bæði fyrir og eftir gjörninginn hafi þetta margítrekað komið fram og hún hafi óskað eftir aðstoð hans við að koma þessu í kring þar sem hún taldi erfingja sína ekki vilja hjálpa sér til þess. Við mat á sönnunargildi framburðar vitnanna F og G ber að líta til tengsla þeirra við stefndu. Á hinn bóginn er ekkert annað fram komið sem varpar rýrð á framburð þeirra. Þvert á móti fellur framburður þeirra vel að þeim staðreyndum sem leggja verður til grundvallar, eins og að framan var rakið og metur dómari framburð þeirra trúverðugan.

                Gegn framangreindu hefur stefnandi engin haldbær rök eða gögn fært fram sem styðja það að C hafi ætlast til endurgreiðslu á þeirri fjárhæð sem hún lét stefndu í té og að framburður vitnanna F og G um vilja hinnar látnu til að gefa féð sé rangur.

                Sú málsástæða stefnanda að lögmaður sem aðstoðað hafi erfingja við einkaskiptin hafi talið umrædda kröfu fram sem eign dánarbúsins og skipt henni milli erfingja í réttum erfðahlutföllum er haldlaus til sönnunar í þessum efnum. Sú staðhæfing stefnanda að stefnda hafi ekki talið umrædda fjármuni fram til skatts sem gjöf er alls ósönnuð og verður stefnandi að bera hallann af því að hafa ekki neytt þess úrræðis að skora á stefndu að leggja fram skattframtal sitt eins og honum hefði verið í lófa lagið ef hann taldi þörf á sönnun um þetta atriði. Við munnlegan málflutning var því hreyft af hálfu lögmanns stefnanda að af framburði F fyrir dómi yrði ráðið að hann hafi talið C fært að taka gjörninginn til baka, sem útilokaði að um gjöf gæti verið að ræða, en ekki verður á þann skilning á framburði vitnisins fallist.

                Samkvæmt framansögðu og eins og atvikum þessa máls og málatilbúnaði stefnanda er háttað, þykir stefnandi verða að bera hallann af því að ósannað telst að C hafi vænst þess að það fé yrði endurgreitt sem hún veitti bróður stefndu, F, umboð til að millifæra á bankareikning stefndu í ágústmánuði 2007. Verður þeirri málsástæðu stefnanda að um lán hafi verið að ræða, því hafnað og lögð til grundvallar staðhæfing stefndu, sem fær stoð í framburði þeirra vitna sem leidd voru fyrir dóminn, að um örlætisgerning hafi verið að ræða. Af framangreindri niðurstöðu leiðir jafnframt að hafna verður þeirri málsástæðu stefnanda að hann eigi skaðabótakröfu á hendur stefndu þar sem umræddir fjármunir hafi ekki staðið dánarbúinu til reiðu. Þar sem öllum málsástæðum stefnanda hefur verið hafnað ber að sýkna stefndu af öllum kröfum stefnanda í máli þessu.

                Með hliðsjón niðurstöðu málsins verður stefnandi dæmdur til þess að greiða stefndu málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn eins og í dómsorði greinir. Hefur þá verið tekið tillit til þess að samhliða þessu máli voru flutt þrjú önnur samkynja mál sem dæmd eru samhliða, sbr. 4. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

                Hildur Briem héraðsdómari kveður upp dóm þennan. Við dómsuppsögu var gætt ákvæðis 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991, en dómsuppsaga hefur dregist vegna embættisanna dómarans.

Dómsorð:

                Stefnda, B, er sýkn af öllum kröfum stefnanda, A, í máli þessu.

                Stefnandi greiði stefndu 200.000 krónur í málskostnað.