Hæstiréttur íslands

Mál nr. 319/2010


Lykilorð

  • Sjómaður
  • Vinnuslys
  • Málsástæða


Fimmtudaginn 20. janúar 2011.

Nr. 319/2010.

Almar Jóhannesson 

(Jónas Þór Jónasson hrl.)

gegn

Þorbirni hf.

(Jóhannes Bjarni Björnsson hrl.)

Sjómenn. Vinnuslys. Málsástæður.

A krafðist greiðslu launa úr hendi Þ vegna óvinnufærni til starfa á skipi Þ. Reisti A kröfu sína á því að óvinnufærnin yrði rakin til slyss sem hann hafi orðið fyrir við störf sín um borð í skipinu. Í héraðsdómi var talið að A hefði ekki tekist að færa sönnur á að umrætt slys hafi átt sér stað og Þ því sýknað í málinu. Hæstiréttur staðfesti héraðsdóm með þeirri athugasemd að við áfrýjun málsins hafi A einnig byggt á því að óvinnufærni hans væri sönnuð með framlögðum læknisvottorðum, og mætti einu gilda hvort hún stafaði af slysi eða veikindum. Með þessu hafi A byggt á nýrri málsástæðu sem ekki kæmi til álita í málinu, sbr. 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991  um meðferð einkamála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 21. maí 2010 og krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 1.354.400 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 15. nóvember 2008 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Eins og nánar greinir í héraðsdómi leitar áfrýjandi með máli þessu greiðslu launa úr hendi stefnda vegna óvinnufærni til starfa á skipi þess síðarnefnda, Hrafni GK 111, á tímabilinu frá 10. ágúst til 30. október 2008, en þar hafði áfrýjandi gegnt stöðu stýrimanns og háseta í afleysingum frá því í maí á sama ári. Í héraðsdómsstefnu var á því byggt að óvinnufærni áfrýjanda yrði rakin til slyss, sem hann hafi orðið fyrir 29. júlí 2008 við störf sín um borð í skipinu. Fyrir Hæstarétti ber áfrýjandi því sama við, en jafnframt að hvað sem öðru líði sé óvinnufærni hans á fyrrgreindu tímabili sönnuð með framlögðum læknisvottorðum og megi þá einu gilda hvort hún stafi af slysi eða veikindum. Með þessu síðastnefnda heldur áfrýjandi fram nýrri málsástæðu fyrir Hæstarétti, sem ekki getur komist að í málinu, sbr. 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála með áorðnum breytingum. Með þessari athugasemd verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur með vísan til forsendna hans.

Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Almar Jóhannesson, greiði stefnda, Þorbirni hf., 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 26. mars 2010.

I

Mál þetta, sem dómtekið var fimmtudaginn 11. marz sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Almari Jóhannessyni, kt. 060460-5239, Nóatúni 32, Reykjavík, með stefnu, þingfestri 25. júní 2009, á hendur Þorbirni hf., kt. 420369-0429, Hafnargötu 12, Grindavík.

   Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndi, Þorbjörn hf., kt. 420369-0429, verði dæmdur til að greiða stefnanda kr. 1.354.400, auk dráttarvaxta skv. III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá 1. nóvember 2008 til greiðsludags.  Enn fremur er krafizt málskostnaðar að skaðlausu, að teknu tilliti til þess, að stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur.

   Dómkröfur stefnda eru þær, að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og stefnanda verði gert að greiða honum málskostnað að skaðlausu að mati réttarins.

II

Málavextir

Stefnandi var ráðinn sem háseti og annar stýrimaður í afleysingum á skip stefnda Hrafn GK-111 hinn 13. maí 2008.  Honum var síðan sagt upp störfum þann 27. júlí 2008 með þriggja mánaða fyrirvara.

   Stefnandi byggir á því í málatilbúnaði sínum, að hann hafi orðið fyrir slysi um borð í skipinu þann 29. júlí 2008, sem hafi atvikazt með þeim hætti, að hann hafi orðið undir kassastæðum, sem hafi hrunið yfir hann í lestinni.  Stefnandi kveðst hafa haldið áfram vinnu sinni það sem eftir var veiðiferðarinnar, þrátt fyrir slysið og tilkynnti hann hvorki skipstjóra né öðrum skipstjórnarmönnum um það, en engin vitni voru að atburðinum. 

   Þann 10. ágúst 2008, daginn eftir að skipið kom að landi, leitaði stefnandi til bráðadeildar Landspítalans.  Samkvæmt læknisvottorðum, sem fyrir liggja í málinu, var stefnandi metinn óvinnufær frá 10. ágúst 2008 að telja og til 30. október 2008. 

   Í læknisvottorði bráðadeildar Landspítalans kemur fram, að við röntgenmyndatöku hafi komið í ljós merki um gamalt brot á hryggjarlið.  Kveður stefnandi, að hugsanlega megi rekja það til slyss, sem hann varð fyrir á árinu 2000.

   Stefnandi kveðst hafa tilkynnt útgerðarstjóra stefnda um óvinnufærni sína hinn 11. ágúst 2008, og jafnframt, að hann kæmist ekki í næstu veiðiferð.

   Með bréfi lögmanns stefnanda, dags. 5. nóvember 2008, krafði stefnandi stefnda um greiðslu veikindalauna, sem var synjað af hálfu stefnda.

   Stefndi heldur því fram, að stefnandi hafi ekki verið í neinu sambandi eða samráði við útgerðina vegna slyssins, en hafi sent henni afrit af læknisvottorðum og lögregluskýrslu.

   Þann 16. janúar 2009 hafnaði Tryggingastofnun ríkisins því að greiða stefnanda bætur úr Sjúkratryggingum Íslands með vísan til þess, að ekki hefði verið sýnt fram á, að slys hefði átt sér stað.

   Stendur ágreiningur aðila um það, hvort stefnandi hafi orðið fyrir slysi við vinnu sína umrætt sinn, og hvort stefnda beri að greiða honum staðgengilslaun tímabilið 10. ágúst 2008 til 10. október s.á., og kauptryggingu tímabilið 11.-30. október s.á.

III

Málsástæður stefnanda

Stefnandi byggir mál sitt á því, að hann hafi verið í ráðningarsambandi við stefnda, þegar hann hafi orðið óvinnufær vegna afleiðinga vinnuslyss um borð í b.v Hrafni GK 111 (1628) þann 27. júlí 2008.  Stefnandi hafi verið úrskurðaður óvinnufær frá 10. ágúst 2008 að telja, en þá hefjist tveggja mánaða staðgengilslaunatímabil hans, sbr. Hrd.1996:3338.  Óvinnufærni stefnanda hafi staðið til 30. október 2008.

   Krafa stefnanda sé því um greiðslu staðgengilslauna tímabilið 10. ágúst til 10. október 2008, sbr. 1. mgr. 36. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 og greiðslu kauptryggingar tímabilið 11. til 30. október 2008, sbr. 3. mgr. 36. gr., eins og fram komi í sundurliðun krafna.  Ekki sé um það deilt, að stefnandi hafi verið í ráðningarsambandi við útgerðina, þegar hann varð óvinnufær.  Fyrirliggjandi læknisvottorðum um óvinnufærni stefnanda hafi ekki verið hnekkt af hálfu stefnda, sem sé forsenda þess, að stefndi geti hafnað greiðsluskyldu sinni.

   Krafa stefnanda sundurliðist þannig, sbr. til hliðsjónar dskj. nr. 19:

   Staðgengilslaun tímabilið 10. ágúst til 10. október 2008:

   Veiðiferð, sem lauk þann 15. september 2008.

   Hásetahlutur kr. 845.250, 7% frystiálag kr. 59.168, fæðispeningar kr. 35.264, hlífðarfatapeningar kr. 4.816, aukaþóknun dekkmanna kr. 6.265, 10.17% orlof kr. 96.692. Samtals kr. 1.047.456.

   Veiðiferð, sem lauk þann 27. október 2008. 5 dagar af henni, þ.e til 10. október 2009.

   Hásetahlutur kr. 615.562:22x5 = kr. 139.900, 7% frystiálag kr. 9.793, fæðispeningar kr. 5.501, hlífðarfatapeningar kr. 559, aukaþóknun dekkmanna kr. 870, 10.17% orlof kr. 15.929. Samtals kr. 172.552.

   Kauptrygging vegna tímabilsins 11.–30. október 2008 sé kr. 121.986  (166.345:30x20 = kr. 121.986), auk 10.17% orlofs eða kr. 12.406, eða alls kr. 134.392.            

   Heildarkrafa stefnanda vegna vangreiddra slysalauna sé því samtals kr. 1.354.400 (kr. 1.047.456 + kr. 172.552 + kr. 134.392)  ásamt dráttarvöxtum og málskostnaði, sem sé stefnukrafa máls þessa.

   Stefnandi byggi kröfu sína á 27. gr. og 36. gr. sjómannalaga nr. 35/1985.  Þá byggi stefnandi á gr. 1.21 í kjarasamningi S.S.Í. og L.Í.Ú.  Jafnframt á almennum reglum vinnuréttar um greiðslu veikinda- og slysalauna vegna óvinnufærni.  Um orlof vísist til orlofslaga nr. 30/1987.  Um dráttarvexti vísist til III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001, sbr. 5. gr.  Um málskostnað vísist til 1. mgr. 130. gr. EML nr. 91/1991.  Um virðisaukaskatt vísist til laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988.

Málsástæður stefnda

Stefndi byggir sýknukröfu sína á því, að ósannað sé að stefnandi hafi orðið fyrir slysi um borð í skipi stefnda, Hrafni GK-111, þann 27. júlí 2008, eins og hann haldi sjálfur fram.

   Það sé ótrúverðugt, að skipverji verði fyrir slysi með þeim hætti, sem stefnandi lýsi, og einnig að hann hafi orðið fyrir slíku slysi, án þess að nokkur skipverja viti til þess.  Þá beri skipverjum að tilkynna skipstjóra, eða 1. stýrimanni, um öll slys, sem verði um borð í skipinu, sbr. grein 1.21 í kjarasamningi Sjómannasambands Íslands og LÍÚ og SA, sbr. dskj nr. 20.  Hafi stefnanda mátt vera það ljóst, að tilkynning um slys væri nauðsynleg til þess að tryggja vitneskju yfirmanna um öll slys, svo hægt væri að bregðast við og bæta úr þeim hættum eða aðstæðum, sem hafi valdið viðkomandi slysi.  Hafi stefnanda hlotið, á grundvelli menntunar sinnar og stöðu sem 2. stýrimanns í afleysinum, að vera ljósar skyldur sínar að þessu leyti og mikilvægi þess að tilkynna um öll slys strax, jafnvel þótt afleiðingar þess væru óvissar.  Með því að stefnandi hafi vanvirt skyldur sínar að þessu leyti verði hann að bera hallann af skorti á sönnun, þar sem engar samtímaupplýsingar séu til um slysið.

   Það dragi enn úr trúverðugleika frásagnar stefnanda, að hann hafi, í lögregluskýrslu, sem hann gaf hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu þann 9. 10. 2008, nefnt Ívar Ásgeir Agnarsson sem vitni að slysinu.  Fyrirsvarsmenn stefnda hafi leitað eftir upplýsingum um slysið hjá nefndum Ívari, en hann hafi ekki kannazt við að hafa orðið vitni að slysinu, eða að stefnandi hafi rætt við sig um að hann hafi lent í slysi í umræddum túr.

   Einnig sé ótrúverðugt, að stefnandi hafi ekki orðið óvinnufær vegna meints slyss fyrr en 12 dögum eftir að það átti sér stað og þá mjög skyndilega.

   Þá sé athyglisvert, að stefnandi lýsi ástandi sínu eftir slysið með mjög misjöfnum hætti í gögnum málsins.  Þannig segi í tilkynningu um slys til Tryggingastofnunar ríkisins, dskj. nr. 7, að „heilsan hafi farið versnandi og leitaði hann loks læknis er í land var komið“ (í þessu sambandi skuli athuga, að stefnandi hafi skrifað umrædda skýrslu sjálfur).  Í lögregluskýrslu á dskj nr. 8 segi:  „Segir Almar að hann hafi ekki fundið til fyrst á eftir... ...Hann hafi unnið túrinn en er hann kom í land hafði hann verið orðinn slæmur og farið á slysadeild.“  Í læknisvottorði slysadeildar, dskj. nr. 12, segi:  „Var mjög slæmur fyrstu daganna en hefur farið batnandi.  Kom í land í gær.  Í nótt skyndileg versnun með þyngsli yfir brjósti... ...Aðspurður segist hann vera búinn að léttast um 10 kg. sl. 12 daga.“  Í vottorði heimilislæknis stefnanda þann 21. 8. 2008, dskj. nr. 10, sé sjúkrasaga hans sögð þannig:  „Versnaði hægt og 9. ágúst þá kominn í land fór hann á bráðamóttöku.“

   Í vottorði heimilislæknis, dags. 21. 8. 2008, komi jafnframt fram, að stefnandi hafi, á árinu 2000, lent í slysi, þar sem hryggjaliður hans hafi brotnað.  Stefnandi hafi hins vegar ekkert upplýst um það slys eða afleiðingar þess.

   Með vísan til framangreinds telji stefndi ósannað, að stefnandi hafi orðið fyrir slysi um borð í Hrafni GK-111, og því eigi hann ekki rétt til slysabóta úr hendi stefnda.

   Kröfu stefnanda um dráttarvexti sé mótmælt.   Verði fallizt á kröfu stefnanda, beri ekki að dæma dráttarvexti fyrr en frá dómsuppsögu, enda hafi stefnandi ekki lagt fram gögn til stefnda, sem hafi gert honum kleift að fallast á bótaskyldu, sbr. 4. mgr. 5. laga nr. 38/2001.  Til vara verði miðað við 5.12. 2008, en þá hafi verið liðinn mánuður frá því að lögmaður stefnanda setti fram kröfu um greiðslu, sbr. bréf hans, dags. 5.11. 2008, dskj. nr. 4, sbr. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2008.

Um málskostnað sé vísað til 130. gr. laga nr. 91/1991.

IV

Forsendur og niðurstaða

Stefnandi gaf skýrslu fyrir dómi, sem og Ívar Ásgeir Agnarsson.

   Stefnandi byggir kröfur sínar á því, að hann hafi orðið fyrir slysi um borð í Þorbirni hf. þann 29. júlí 2008.  Af hálfu stefnda er því haldið fram, að ósannað sé, að stefnandi hafi orðið fyrir slysi umræddan dag.

   Það liggur fyrir, að engin vitni eru að meintu slysi.  Þá liggur jafnframt fyrir, að stefnandi tilkynnti meint slys, hvorki til skipstjóra, stýrimanns, né annarra af áhöfn skipsins.  Í skýrslutöku hjá lögreglu hinn 9. október 2008 kvaðst hann hafa sagt skipverjanum Ívari Ásgeiri Agnarssyni frá því, að hann hefði orðið fyrir slysi, en fyrir dómi kannaðist Ívar Ásgeir ekki við það.

   Í gögnum málsins koma fram misvísandi lýsingar stefnanda á meintu slysi og fyrstu afleiðingum þess.  Í frásögn stefnanda á dskj. nr. 3, sem dags. er 24. september 2008, kveðst hann hafa verið sendur niður í lest að stafla kössum, þegar halli hafi komið á skipið og stæða hafi hrunið niður og klemmt hann upp við færibandaborð.  Hann hafi klárað vaktina, en heilsu hafi farið hrakandi næstu daga á eftir.  Hann hafi þó klárað túrinn, sem lauk 9. ágúst.  Daginn eftir hafi hann verið orðinn það slæmur í baki og herðum, að hann hafi leitað til slysa- og bráðamóttöku.

   Í skýrslu hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu, dags. 9. október 2010, lýsir stefnandi atvikinu svo, að hann hafi verið að vinna við að taka af færibandi, sem flytur kassa af efra dekki og niður í lest.  Hann hafi snúið að færibandinu með bakið í stíuna, sem kössunum var staflað í, og hafi ekki vitað til fyrr en kassarnir inni í stíunni runnu af stað og fram af stíunni.  Fyrst hafi hann fengið einn kassa, sem skall á bakinu á honum.  Við það hafi hann dottið fram fyrir sig og skollið með bringspalirnar á færibandaborðið.  Þá hafi fleiri kassar komið, sem skullu á honum.  Hver kassi vegi um 30 kg.  Hann hafi ekki fundið til fyrst á eftir og ekki tilkynnt skipstjóranum um slysið, en talað um málið við Ívar.  Hann hafi unnið túrinn, en er hann kom í land, hafi hann verið orðinn slæmur.

   Í vottorði Salóme Ástu Arnardóttur læknis, á dskj. nr. 4, hefur læknirinn eftir stefnanda svofellda lýsingu á atvikinu, að hann hafi verið að ferma kassa í lestinni, þegar hann fékk skyndilega kassa í bakið.  Hann hafi þá misst jafnvægið, dottið aftur fyrir sig og fengið um 15 kassa ofan á thorax, sem mun vera brjóstkassi.  Hann hafi misst andann en náð að losa sig undan þyngdinni.  Hann hafi verið mjög slæmur fyrstu dagana en farið batnandi.  Er framangreint skráð eftir stefnanda daginn eftir að hann kom í land.

   Fyrir dómi lýsti stefnandi slysinu svo, að hann hafi snúið baki í stíuna og hent kössunum svona aftur fyrir sig til að hreinsa færibandið.  Þá hafi komið halli á skipið og kassar hafi runnið frá stöflunum í bakið á honum, þannig að hann hafi klemmzt upp við færibandið, en svo hafi hann bara hreinsað burtu það sem var þarna til að losa sig.  Hann hafi verið alveg vinnufær eftir þetta, þetta hafi ekki verið svo mikið, bara þrýstingur af að lenda þarna á milli.  Hann hafi síðan komið upp, hitt Ívar og sagt honum frá atvikinu.  Hann hafi síðan klárað vaktina.  Næsta dag hafi allt verið í lagi, en svona á þriðja, fjórða degi, hafi hann verið farinn að finna til verkja.  Þegar hann vaknaði daginn eftir að hann kom í land, hafi hann vaknað með miklum verkjum og leitað læknis.  Hann kvaðst aðspurður ekki hafa fengið kassana yfir sig, heldur hefðu þeir bara ýtt honum upp að færibandinu.  Spurður um gamalt brot á hryggjarlið, sem kom fram á röntgenmyndum, kvaðst hann hafa orðið fyrir slysi árið 2000 og átt í því í fjögur fimm ár.

   Eins og mál þetta er vaxið og með hliðsjón af því að engin vitni voru að meintu slysi, auk þess sem lýsingar stefnanda á slysinu sjálfu og verkjasögu fyrst eftir slysið eru afar misvísandi, hefur stefnanda ekki tekizt að færa sönnur að því, að umrætt slys hafi átt sér stað.  Þá kemur fram í gögnum málsins, að stefnandi var með gamalt brot á hryggjalið, sem rakið var til slyss, sem hann varð fyrir árið 2000 og stríddi við afleiðingar þess um árabil, en ekki liggur fyrir, að sú áverkasaga stefnanda hafi legið fyrir, þegar læknar gáfu út vottorð sín.  Verður m.a. af þeim sökum ekki um það ráðið, hvort eða í hvaða mæli þessir eldri áverkar kunni að hafa valdið verkjum stefnanda.  Einnig kom við skýrslugjöf stefnanda fyrir dómi, að hann hafði hafið störf á ný, meðan hann var enn talinn óvinnufær af völdum meintra áverka samkvæmt læknisvottorði.  Framangreind atriði draga úr trúverðugleika frásagnar stefnanda af framangreindu slysi, en hann er einn til frásagnar um það.

   Með vísan til framanritaðs er ekki hjá því komizt að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda í máli þessu.

   Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðila beri sinn kostnað af málinu. 

   Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.

D Ó M S O R Ð

Stefndi, Þorbjörn hf., er sýkn af öllum kröfum stefnanda, Almars Jóhannessonar, í máli þessu.

Málskostnaður fellur niður.