Hæstiréttur íslands
Mál nr. 332/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Fjármálafyrirtæki
- Slit
- Lánssamningur
- Gengistrygging
- Handveð
|
|
Þriðjudaginn 28. maí 2013. |
|
Nr. 332/2013.
|
Davíð Heiðar Hansson (Jóhann H. Hafstein hrl.) gegn SPRON verðbréfum hf. (Hildur Sólveig Pétursdóttir hrl.) |
Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Slit. Lánssamningur. Gengistrygging. Handveð.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem meðal annars var hafnað að viðurkenna kröfu D við slit fjármálafyrirtækisins S hf. en viðurkennt að lán sem D tók hjá S hf. væri í íslenskum krónum sem hefði á óheimilan hátt verið tengt gengi japansks jens. Í kjölfar tilmæla frá Fjármálaeftirlitinu um að peningamarkaðssjóðum skyldi slitið greiddi S hf. til D fyrir hlutdeild hans í slíkum sjóði. Var hluta fjárhæðarinnar ráðstafað til innborgunar á lán D hjá S hf. en eftirstöðvar voru lagðar inn á handveðsettan reikning. Með dómi Hæstaréttar var hafnað kröfu D um viðurkenningu á því að lánið hefði verið í íslenskum krónum. D lýsti kröfu við slit S hf. vegna umræddrar innborgunar á lánið. Í dómi Hæstaréttar kom fram að peningamarkaðssjóðshlutdeild D hefði verið háð handveðrétti og því hefði S hf. verið heimilt að halda eftir útborguninni úr sjóðnum meðan ekki var útséð um greiðslu skuldbindinga D sem handveðrétturinn tryggði. Þótt ekki lægi fyrir að D hefði samþykkt að hluta af fénu væri ráðstafað inn á ógjaldfallna skuld sína yrði að gæta að því að gjaldagi lánsins væri liðinn og virtist S hf. hafa nýtt til fulls tryggingar til greiðslu inn á skuldina án þess að hafa fengið fullar efndir. Var því hafnað að viðurkenna kröfu D við slit S hf. Þá var fallist á kröfu S hf. er laut að greiðslu eftirstöðva lánsins.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Helgi I. Jónsson og Ingibjörg Benediktsdóttir
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 1. maí 2013, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 16. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. apríl 2013, þar sem hafnað var að viðurkenna kröfu að fjárhæð 25.396.453 krónur, sem sóknaraðili lýsti við slit varnaraðila, en viðurkennt að lán sem sóknaraðili tók hjá varnaraðila 31. júlí 2007 væri í íslenskum krónum sem hefði á óheimilan hátt verið tengt gengi japansks jens. Þá var hafnað gagnkröfu varnaraðila um að sóknaraðila yrði gert að greiða honum 6.297.871 krónu. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að við slit varnaraðila verði viðurkennd krafa sín að fjárhæð 25.396.453 krónur sem njóti stöðu í réttindaröð aðallega samkvæmt 109. gr. laga nr. 21/1991, til vara samkvæmt 112. gr. sömu laga, en að því frágengnu samkvæmt 113. gr. laganna. Í öllum tilvikum krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar. Að öllu þessu frágengnu krefst sóknaraðili þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður.
Varnaraðili kærði úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti 3. maí 2013. Hann krefst þess að sóknaraðila verði gert að greiða sér 6.297.871 krónu með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 5. ágúst 2009 til greiðsludags, en hafnað verði kröfu sóknaraðila um viðurkenningu á því að fjárhæð láns sem hann tók hjá varnaraðila hafi verið bundin ólöglegri gengistryggingu. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
I
Sóknaraðili óskaði 31. júlí 2007 eftir reikningsláni hjá varnaraðila að fjárhæð 18.489.899 krónur, sem veitt var sama dag og skyldi gjalddagi þess vera 2. ágúst 2008. Lán þetta átti að bera „12 mán. REIBOR“ vexti með 3% álagi, sem yrðu á gjalddaga sama dag. Með tryggingarbréfi 23. nóvember 2007 setti sóknaraðili varnaraðila að handveði öll verðbréf sín „í vörslusafni“ hjá varnaraðila til tryggingar greiðslu á öllum skuldum við hann. Samkvæmt tryggingarbréfinu var heimilt að gjaldfella skuldir, sem tryggðar voru með veðinu, færu tryggingar niður í 115% af uppreiknaðri heildarskuldbindingu sóknaraðila. Að beiðni sóknaraðila samþykkti varnaraðili 8. janúar 2008 að breyta skilmálum fyrrnefnds láns þannig að höfuðstóll þess að viðbættum áföllnum vöxtum til 21. nóvember 2007, samtals 19.450.526 krónur, breyttust „í eftirfarandi myntir JPY 34.141.699-.“ Átti skuldin að bera svonefnda 12 mánaða LIBOR útlánsvexti með 2,8% álagi sem greiddir yrðu ásamt höfuðstól hennar í einu lagi 2. ágúst 2008. Samkvæmt beiðni sóknaraðila 8. ágúst 2008 var gjalddaga lánsins frestað til 5. ágúst 2009, en um leið var samið um að áðurnefnt álag á LIBOR vexti yrði 6%. Fjármálaeftirlitið beindi 17. október 2008 tilmælum til rekstrarfélaga verðbréfasjóða um að grípa til aðgerða sem leiða myndu til þess að peningamarkaðssjóðum þeirra yrði slitið. Samkvæmt gögnum málsins átti sóknaraðili á þeim tíma hlutdeild í peningamarkaðssjóði hjá varnaraðila sem taldist að markaðsvirði 40.549.098 krónur og virðist sem fyrrgreint tryggingarbréf sóknaraðila frá 23. nóvember 2007 hafi eingöngu náð til þeirrar eignar.
Sóknaraðili ritaði 22. október 2008 undir yfirlýsingu þar sem innstæða á tilteknum reikningi hans hjá Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis hf. var sett varnaraðila að handveði til tryggingar greiðslu á öllum skuldum sóknaraðila við þann síðastnefnda. Stjórn sparisjóðsins ákvað 10. nóvember 2008 að kaupa eignir áðurnefnds peningamarkaðssjóðs og komu af því tilefni 17. sama mánaðar til úthlutunar til sóknaraðila 34.676.137 krónur fyrir hlutdeild hans í sjóðnum. Tveimur dögum síðar færði varnaraðili 20.000.000 krónur af þeirri fjárhæð til innborgunar á lán sóknaraðila, en lagði eftirstöðvar hennar, 14.676.137 krónur, inn á áðurnefndan handveðsettan reikning hans. Fyrir umræddar 20.000.000 krónur fengust 16.160.310 japönsk jen, sem var að hluta varið til greiðslu á gjaldföllnum vöxtum af skuld sóknaraðila, en afganginum var ráðstafað inn á höfuðstól hennar sem nam eftir það 18.665.642 japönskum jenum.
Á gjalddaga láns sóknaraðila 5. ágúst 2009 mun varnaraðili hafa gengið að innstæðu áðurnefnds reiknings sem stóð að handveði fyrir skuldum sóknaraðila og tekið þannig til sín 19.589.219 krónur. Fyrir þá fjárhæð virðast hafa fengist 14.850.803 japönsk jen sem að hluta var varið til greiðslu áfallinna vaxta og að öðru leyti til innborgunar á höfuðstól skuldarinnar sem varnaraðili kveður hafa numið eftir það 4.776.180 japönskum jenum. Hann hefur umreiknað skuldina í íslenskar krónur og beitt til þess gengi japansks jens á gjalddaganum, en samkvæmt því kveður hann fjárhæð skuldarinnar vera 6.297.871 krónu. Er það fjárhæð gagnkröfunnar sem hann heldur uppi í málinu og áður var greint frá.
Varnaraðili var tekinn til slita 7. ágúst 2009 eftir ákvæðum laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki með síðari breytingum. Við slitin lýsti sóknaraðili kröfum meðal annars um greiðslu á 20.000.000 krónum sem hann telur sóknaraðila hafa í heimildarleysi tekið af áðurgreindri útborgun við slit peningamarkaðssjóðs 19. nóvember 2008 til ráðstöfunar inn á skuld sóknaraðila vegna reikningsláns, en að viðbættum vöxtum sé sú krafa að fjárhæð 25.396.453 krónur. Hefur sóknaraðili krafist að þessari kröfu verði skipað í réttindaröð aðallega eftir 109. gr. laga nr. 21/1991, til vara 112. gr. sömu laga, en til þrautavara 113. gr. laganna. Þá krafðist sóknaraðili þess einnig að viðurkennt yrði að binding á fjárhæð reikningslánsins í íslenskum krónum við gengi japansks jens væri ólögmæt. Með því að slitastjórn varnaraðila viðurkenndi ekki kröfur þessar var ágreiningi um þær vísað til Héraðsdóms Reykjavíkur 25. júní 2012 og var mál þetta þingfest af því tilefni 11. september sama ár.
II
Svo sem rakið var samþykkti varnaraðili 8. janúar 2008 beiðni sóknaraðila um að skilmálum reikningsláns hans frá 31. júlí 2007 yrði breytt á þann hátt að skuldbinding hans yrði ekki lengur í íslenskum krónum, heldur tiltekinnar fjárhæðar í japönskum jenum. Jafnframt samþykkti varnaraðili að skuld sóknaraðila bæri ekki lengur svonefnda REIBOR vexti, sem geta lagst á skuldbindingu í íslenskum krónum, heldur LIBOR vexti af skuldbindingum í japönskum jenum. Eftir þessa breytingu báru skjöl um skuldbindingu sóknaraðila, sem að sönnu voru fábrotin, hvergi með sér fjárhæð hennar í öðrum gjaldmiðli en japönskum jenum. Þegar af þeirri ástæðu verður að líta svo á að um hafi verið að ræða gilda skuldbindingu í erlendum gjaldmiðli, en ekki skuld í íslenskum krónum sem háð hafi verið gengistryggingu í andstöðu við ákvæði VI. kafla laga nr. 38/2001, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar 27. september 2012 í máli nr. 50/2012. Kröfu sóknaraðila um viðurkenningu á því að lán þetta sé í íslenskum krónum og tengt gengi japansks jens á ólögmætan hátt verður því hafnað.
Af gögnum málsins er ljóst að fé sem kom 17. nóvember 2008 á fyrrgreindan hátt í stað hlutdeildar sóknaraðila í peningamarkaðssjóði var háð handveðrétti varnaraðila samkvæmt tryggingarbréfinu sem sóknaraðili gaf út 23. nóvember 2007. Varnaraðila var því óskylt að inna þetta fé af hendi til sóknaraðila og gat þannig haldið því meðan ekki var útséð um greiðslu skuldbindinga þess síðarnefnda sem handveðrétturinn tryggði. Þótt ekki liggi fyrir að sóknaraðili hafi samþykkt að hluta af fénu yrði varið 19. nóvember 2008 til greiðslu inn á ógjaldfallna skuld sína vegna reikningslánsins verður að gæta að því að gjalddagi þess er nú liðinn og virðist varnaraðili eftir gögnum málsins hafa nýtt til fulls tryggingar til greiðslu inn á skuldina án þess að hafa fengið fullar efndir. Fer því þannig fjarri að sóknaraðili geti nú krafist þess að varnaraðili standi honum skil á þeim 20.000.000 krónum, sem hann tók á þennan hátt til sín 19. nóvember 2008, auk vaxta. Verður því hafnað að viðurkenna kröfur sóknaraðila sem að þessu snúa.
Samkvæmt því sem áður greinir verður lagt til grundvallar að skuld sóknaraðila við varnaraðila vegna reikningslánsins frá 31. júlí 2007 sé á gildan hátt í japönskum jenum. Sóknaraðili hefur hvorki hnekkt því að 4.776.180 japönsk jen hafi staðið eftir af þeirri skuld eftir innborgun 5. ágúst 2009 né að varnaraðili hafi réttilega umreiknað skuldina eftir gengi þessa gjaldmiðils þann dag í 6.297.871 krónu. Af þessu leiðir að gagnkrafa varnaraðila vegna eftirstöðva lánsins verður tekin til greina með vöxtum eins og krafist er og nánar segir í dómsorði.
Eftir þessum úrslitum verður sóknaraðili dæmdur til að greiða varnaraðila málskostnað í héraði og kærumálskostnað svo sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hafnað er að viðurkenna kröfu sóknaraðila, Davíðs Heiðars Hanssonar, að fjárhæð 25.396.453 krónur við slit varnaraðila, SPRON verðbréfa hf., sem og kröfu sóknaraðila um að viðurkennt verði að lán sem hann tók hjá varnaraðila 31. júlí 2007 sé í íslenskum krónum og hafi á óheimilan hátt verið tengt gengi japansks jens.
Sóknaraðili greiði varnaraðila 6.297.871 krónu með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 5. ágúst 2009 til greiðsludags.
Sóknaraðili greiði varnaraðila samtals 500.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. apríl 2013.
Þetta mál, sem barst dóminum, 26. júní 2012, með bréfi skiptastjóra í þrotabúi SPRON Verðbréfa hf. var þingfest 11. september það ár og tekið til úrskurðar 22. mars 2013.
Sóknaraðili, Davíð Heiðar Hansson, kt. 280763-5439, Hlíðarvegi 60, Kópavogi, krefst þess aðallega að viðurkennt verði að krafa hans á hendur varnaraðila, númer 15 í kröfuskrá varnaraðila, nú samtals að fjárhæð 25.396.453 krónur sé sértökukrafa í skilningi 109. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
Til vara krefst hann þess að viðurkennt verði að krafa sóknaraðila, númer 15 í kröfuskrá varnaraðila, nú samtals að fjárhæð 25.396.453 krónur sé forgangskrafa í skilningi 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
Til þrautavara er þess krafist að viðurkennt verði að krafa sóknaraðila, númer 15 í kröfuskrá varnaraðila, nú samtals að fjárhæð 25.396.453 krónur sé almenn krafa í skilningi 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
Sóknaraðili krefst þess til þrautaþrautavara að viðurkennt verði með dómi að verðtrygging við japanskt jen í samningi hans og varnaraðila um reikningslán sé ólögmæt.
Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila.
Varnaraðili, þrotabú SPRON Verðbréfa hf., kt. 670505-1970, krefst þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað.
Þá gerir varnaraðili þá gagnkröfu að sóknaraðili verði dæmdur til að greiða varnaraðila skuld að fjárhæð 6.297.871 kr. ásamt dráttarvöxtum, skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 5. ágúst 2009 til greiðsludags.
Varnaraðili krefst málskostnaðar úr hendi sóknaraðila í aðal- og gagnsök.
Sóknaraðili krefst þess að öllum kröfum varnaraðila í gagnsök verði hafnað. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi varnaraðila vegna hennar.
Málavextir
Ágreiningur málsaðila snýst um það hvort SPRON Verðbréfum hf. hafi verið heimilt að nýta andvirði hlutabréfa sóknaraðila í peningamarkaðssjóði SPV hf. til að greiða inn á eftirstöðvar láns sem sóknaraðili tók hjá félaginu, 31. júlí 2007.
Með umsókn, 31. júlí 2007, falaðist sóknaraðili eftir og fékk reikningslán að fjárhæð 18.489.899 krónur frá SPRON Verðbréfum hf. Lánið fékk þá númerið 1110 (en síðar númerið 10350) og skyldi fjárhæðin skuldfærð af reikningi nr. 1150-26-1440 í einu lagi ásamt vöxtum og kostnaði á gjalddaga lánsins, 2. ágúst 2008. Sóknaraðili skuldbatt sig til þess að hafa til ráðstöfunar á framangreindum reikningi, á gjalddaga lánsins, fjárhæð sem svaraði til uppgreiðslu þess, það er til greiðslu höfuðstóls og vaxta sem á hann legðust auk afgreiðslugjalds samkvæmt gjaldskrá.
Að ósk sóknaraðila, 8. janúar 2008, voru eftirstöðvar lánsins færðar í japönsk jen miðað við 21. nóvember 2007. Á gjalddaga lánsins, 2. ágúst 2008, var SPV hf. heimilt að skuldfæra áðurgreindan reikning fyrir andvirði lánsins í íslenskum krónum að viðbættum LIBOR-útlánsvöxtum ásamt 2,8% álagi. Að öðru leyti voru skilmálar lánsins óbreyttir.
Varnaraðili lítur svo á að við þessa skilmálabreytingu hafi eftirstöðvar lánsins numið 34.141.699 japönskum jenum, sem hafi orðið nýr höfuðstóll lánsins, og skyldu vextir reiknast frá þeim degi. Sóknaraðili lítur hins vegar svo á að lánið hafi eftir sem áður verið í íslenskum krónum en afborgun þess frá og með 8. janúar 2008 tengd gengi japansks jens.
Sóknaraðili óskaði eftir framlengingu reikningslánsins, 8. ágúst 2008. Með samþykki SPV hf. var lánið framlengt og í stað upphaflegs gjalddaga þess skyldi nýr gjalddagi höfuðstóls lánsins verða, 5. ágúst 2009, þó þannig að báða þessa daga skyldu greiðast vextir af láninu. Eftirstöðvar lánsins voru 35.204.423 japönsk jen, það er upphaflegur höfuðstóll þess í jenum auk áfallinna vaxta. Þá var vaxtakjörum lánsins breytt þannig að vextir skyldu verða 12 mánaða LIBOR-vextir að viðbættu 6% álagi. Ekki var samið um frekari framlengingar á láninu og var lokagjalddagi þess því 5. ágúst 2009. Við framlengingu lánsins greiddi sóknaraðili 805.031 kr.
Til tryggingar þessu láni, og öðrum hugsanlegum skuldbindingum sínum, gaf sóknaraðili út tryggingarbréf nr. 8393, 23. nóvember 2007, þar sem öll verðbréf í vörslusafni hans nr. 407884, voru handveðsett til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu á öllum þeim skuldum sem hann kynni að skulda eða ábyrgjast gagnvart SPV hf. Samkvæmt tryggingarbréfinu mátti SPV hf. selja veðsett verðbréf til greiðslu á vanskilum og/eða skuldum sem veðið tryggði þegar þær féllu í gjalddaga. Jafnframt var SPV hf. heimilt að gjaldfella þær skuldir sem veðið tryggði þegar hlutfall uppreiknaðs verðmætis tryggingarinnar færi niður í 115% af uppreiknaðri heildarskuldbindingu viðskiptamanns. Að sögn varnaraðila felst í því, í tilviki sóknaraðila, að verðmæti trygginga lánsins þurfti á hverjum tíma að vera 15% hærra en eftirstöðvar láns nr. 1110 (10350). Í tryggingarbréfinu segir jafnframt að SPRON Verðbréf verði að tilkynna viðskiptamanni um fyrirhugaða gjaldfellingu og veita honum eins dags frest, frá því gjaldfelling er heimil, til að leggja fram frekari tryggingar fyrir skaðlausri greiðslu samningsins.
Auk hlutdeildarskírteina sinna í peningamarkaðssjóði SPV hf. setti sóknaraðili til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu á öllum skuldum sínum við SPV hf., að handveði, 22. október 2008, innstæðu á reikningi nr. 1150-18-250353, sem var í vörslum SPRON Verðbréfa hf.
Í málinu eru því tvö skjöl um tryggingar. Annars vegar tryggingarbréf þar sem sóknaraðili veitir SPV. hf. handveð í hlutdeildarskírteinum sínum í peningamarkaðssjóði SPV hf. og hins vegar handveðsyfirlýsing þar sem sóknaraðili selur bankanum innstæðu á tilteknum reikningi að handveði.
Sóknaraðili byggir á því að samkvæmt tryggingarbréfinu hafi SPV hf. ekki verið heimilt að ganga á verðmæti hlutdeildarskírteina hans í peningamarkaðssjóðnum fyrr en SPV hf. hefði kallað eftir frekari veðtryggingum frá sóknaraðila og hann ekki getað svarað því kalli.
Varnaraðili lítur svo á að SPV hf. hafi, samkvæmt handveðsyfirlýsingunni, verið heimilt hvenær sem var að taka sér greiðslu af handveðinu, eins og þörf krafði að mati félagsins og án afskipta eða atbeina annarra, til lúkningar gjaldföllnum kröfum SPV hf. á hendur sóknaraðila auk vaxta, dráttarvaxta, verðbóta og alls kostnaðar.
Í kjölfar falls stóru bankanna þriggja og efnahagshrunsins hér á landi mæltist Fjármálaeftirlitið, 17. október 2008, til þess að rekstrarfélög verðbréfasjóða gripu til aðgerða til þess að slíta peningamarkaðssjóðum félaganna. Hinn 18. nóvember 2008 var peningamarkaðssjóður SPRON Verðbréfa hf. leystur upp og hlutu sjóðsfélagar greiðslu sem nam 85,52% af eign þeirra miðað við 3. október 2008. Verðmæti hlutdeildar sóknaraðila í sjóðnum nam 34.676.137 kr.
Á þessum tíma, 18. nóvember 2008, voru eftirstöðvar láns sóknaraðila ásamt vöxtum 34.819.165 japönsk jen. Samkvæmt gengisskráningu þann dag námu eftirstöðvarnar 49.324.829 krónum Tryggingar lánsins voru hins vegar 34.676.137 kr. eða um 70,3% af uppreiknaðri heildarskuldbindingu sóknaraðila. Að mati varnaraðila var honum, í samræmi við skilmála tryggingarbréfsins, heimilt að gjaldfella lánið á þeim tíma.
Hinn 19. nóvember 2008 dró SPV hf., 20.000.000 kr., það er hluta af verðmæti hlutdeildarskírteinanna sem voru veðsett félaginu, af vörslusafni sóknaraðila og greiddi inn á lán hans nr. 1110 (10350) hjá SPV hf. Að sögn sóknaraðila var þetta gert án þess að kallað væri eftir frekari tryggingum eða veðum frá honum. Það sem eftir stóð af verðmæti hlutdeildarskírteina sóknaraðila í peningamarkaðssjóði SPV hf., 14.646.137 kr., færði SPV hf. inn á reikning sóknaraðila nr. 1150-18-250353, sem eins og áður greinir var settur félaginu að handveði.
Rúmum átta mánuðum eftir að SPV hf. tók 20.000.000 kr. og greiddi inn á lánið innleysti félagið, á gjalddaga lánsins, 5. ágúst 2009, handveð sitt í innstæðu reiknings sóknaraðila nr. 1150-18-250353, sem þá nam 19.582.269 kr., og færði hana inn á lán sóknaraðila nr. 1110 (10350). Með greiðslunni sem sóknaraðili innti af hendi 8. ágúst 2008 hafði hann, 5. ágúst 2009, greitt samtals 40.378.300 kr. inn á lánið en samkvæmt útreikningi varnaraðila var lánið þá ekki að fullu greitt.
Tveimur dögum síðar, 7. ágúst 2009, var SPRON Verðbréfum hf., með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, skipuð slitastjórn samkvæmt 101. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Frestdagur við slit SPV hf. var 31. júlí 2009. Kröfulýsingarfrestur rann út 31. desember 2009 og lýsti sóknaraðili þessari og annarri kröfu innan frestsins. Sú síðarnefnda fékk númerið 11 í kröfuskrá, hún nam 12.818.862 kr. og var henni lýst sem almennri kröfu. Með samþykki varnaraðila breytti sóknaraðili, 31. mars 2011, kröfulýsingu sinni vegna þeirrar kröfu sem hér er deilt um. Í málinu er miðað við forsendur breyttrar kröfulýsingar.
Kröfu sóknaraðila, að fjárhæð 25.396.453 kr., er lýst sem sértökukröfu samkvæmt 109. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., til vara er henni lýst sem forgangskröfu á grundvelli 112. gr. sömu laga en til þrautavara sem almennri kröfu, sbr. 113. gr. laganna. Samkvæmt kröfulýsingu er krafa sóknaraðila aðallega til komin vegna þess að gengið var að veði sem stóð til tryggingar láns nr. 1110 (10350) en einnig er krafist viðurkenningar á ólögmæti meintrar gengistryggingar lánsins. Slitastjórn neitaði að viðurkenna kröfuna við slitameðferð varnaraðila. Þar sem ekki tókst að jafna ágreining málsaðila um réttmæti kröfu sóknaraðila beindi skiptastjóri ágreiningnum, 25. júní 2012, til Héraðsdóms Reykjavíkur til úrlausnar, í samræmi við 120. gr., sbr. 171. gr., laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
Málsástæður sóknaraðila
Sóknaraðili krefst þess aðallega að krafa hans á hendur varnaraðila, nú samtals að fjárhæð 25.396.453 krónur, sé sértökukrafa í skilningi 109. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Þá kröfu reisir hann fyrst á því að SPV hf. hafi verið óheimilt að taka umkrafða fjármuni af vörslureikningi sóknaraðila, eða andvirði kröfufjárhæðarinnar við innlausn úr peningamarkaðssjóði SPRON Verðbréfa, þar sem lánið hafi þá verið gengistryggt á ólögmætan hátt og eftirstöðvar hafi raunverulega verið aðrar en SPV hf. hafi lagt til grundvallar. Sóknaraðili byggir á því að þegar skilmálum reikningsláns nr. 1110 var breytt, 8. janúar 2008, hafi ólögmætri gengistryggingu verið skeytt við það lán sem hann tók 31. júlí 2007 þá að fjárhæð 18.489.899 krónur. Þessu til stuðnings bendir sóknaraðili á að hann hafi upphaflega fengið íslenskar krónur að láni og þegar skilmálum lánsins var breytt hafi hann ekki endurgreitt krónurnar og fengið japönsk jen afhent enda hafi hann ekki átt neina gjaldeyrisreikninga. Þá hafi afborganir af láninu jafnframt verið innheimtar í íslenskum krónum sem og vextir. Eina raunverulega breytingin sem gerð hafi verið á lánssamningnum hafi verið að lánsfjárhæðin, sem var í íslenskum krónum, hafi verið tengd gengi japansks jens.
Sóknaraðili byggir á því að ólögmætt hafi verið að gengistryggja lánið á þennan hátt, sbr. 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Fráleitt sé að halda því fram að erlend mynt hafi verið tekin að láni þótt skilmálum lánsins hafi verið breytt og í þeim miðað við að eftirstöðvar lánsins væru í japönskum jenum.
Þessu til stuðnings vísar sóknaraðili til þess að það hafi verið skýr vilji löggjafans, með setningu laga nr. 38/2001, að útiloka að unnt væri að tengja lánaskuldbindingar í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla. Það ætti við hvort sem slík gengistrygging væri frá og með upphaflegri lántöku eða væri skeytt við á miðjum lánstíma eins og í tilviki sóknaraðila. Þá vísar sóknaraðili til þess að í almennum athugasemdum sem fylgdu því frumvarpi sem varð að lögum nr. 38/2001 segi að: „[...] heimildir til að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla eru felldar niður.“ Þessi túlkun löggjafans sé svo ítrekuð í athugasemdum við 13. og 14. gr. laganna.
Sóknaraðili bendir sérstaklega á að í staðfestingu fyrir reikningsláni hans, komi skýrt fram að lánið sé bundið við ISK eða erlenda gjaldmiðla. Óumdeilt sé að honum hafi upphaflega verið veitt lán í íslenskum krónum. Að minnsta kosti beri varnaraðili sönnunarbyrði fyrir því að umrætt lán sóknaraðila hafi á einhverjum tíma verið í erlendum gjaldmiðli færi svo ólíklega að varnaraðili héldi slíkum rökum fram í málinu.
Þá byggir sóknaraðili á því að það sé ótvírætt óheimilt að víkja frá ákvæðum 1. mgr. 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu þar sem segi að eingöngu sé heimilt að verðtryggja lánsfé samkvæmt 13. gr. sé grundvöllur verðtryggingarinnar vísitala neysluverðs sem Hagstofa Íslands reiknar samkvæmt lögum sem um vísitöluna gilda og birtir mánaðarlega í Lögbirtingablaði.
Til stuðnings framangreindu vísar sóknaraðili sérstaklega til dóma Hæstaréttar í málum nr. 153/2010, 92/2010 og 155/2011. Aftur á móti hafi dómur Hæstaréttar í máli nr. 524/2011 ekkert fordæmisgildi við úrlausn þessa ágreinings. Í því máli hafi Hæstiréttur fallist á þá málsástæðu Íslandsbanka hf. að lán til viðkomandi einstaklinga hafi frá öndverðu verið í erlendum myntum, en það eigi ekki við í tilviki sóknaraðila.
Allt framangreint sýni að varnaraðila beri á grundvelli 18. gr. laga nr. 38/2001 að endurgreiða sóknaraðila þá fjárhæð sem hann hafi ranglega haft af honum, enda byggi hún á ólögmætri gengistryggingu lánsfjár. Þegar af þeirri ástæðu beri að fallast á kröfur sóknaraðila og viðurkenna kröfu hans á hendur varnaraðila í samræmi við fram lagða kröfulýsingu.
Sóknaraðili byggir í öðru lagi á því að þar sem SPV hf. hafi ekki kallað eftir frekari veðum vegna umrædds láns í september 2008, þrátt fyrir að hlutfall uppreiknaðs verðmætis þeirrar tryggingar sem sett hafi verið fyrir greiðslu lánsins hafi farið niður fyrir 115% af heildarskuldbindingu hans, eins og SPV hf. hafi reiknað hana á hverjum tíma, hafi félaginu verið óheimilt að ganga að veðinu. Sóknaraðili vísar til þess að slíkt athafnaleysi starfsmanna SPV hf. sé í verulegu ósamræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti og venjur í verðbréfaviðskiptum, sbr. 5. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti, sem og ákvæði í tryggingarbréfi milli aðila, dags. 23. nóvember 2007. Starfsmönnum SPRON Verðbréfa hafi því borið að tilkynna sóknaraðila að skuldir hans hefðu náð framangreindum viðmiðunarmörkum. Það hafi ekki verið fyrr en sóknaraðili hafi fengið innleysta fjármuni vegna peningamarkaðssjóðs SPRON greidda inn á innlánsreikning að honum hafi verið kunnugt um að skuldbindingar hans hefðu yfirstigið áðurnefnt viðmið.
Sóknaraðili byggir í þriðja lagi á því að forsendur viðskiptasambands hans og SPV hf. hafi að fullu verið brostnar þegar félagið gekk að veðsettri eign sóknaraðila, enda hafi inneign hans í peningamarkaðssjóði SPRON ekki verið innleysanleg fyrr en fjórum vikum eftir lokun sjóðsins, 3. október 2008. Sóknaraðili hafi því ekki haft tök á að greiða upp lánssamninginn á sama tímabili eða krefjast skuldajöfnuðar. SPRON Verðbréfum hafi því ekki verið heimilt að ganga að hinni veðsettu eign sóknaraðila við innlausn úr peningamarkaðssjóðnum og áður en greiðsla átti sér stað inn á reikning sóknaraðila.
Til stuðnings þeirri aðalkröfu að viðurkennt verði að umkrafin fjárhæð sé sértökukrafa í skilningi 109. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. vísar sóknaraðili sérstaklega til þess að SPV hf. hafi gengið á hina veðsettu eign sóknaraðila við innlausn úr peningamarkaðssjóði SPRON Verðbréfa. Sóknaraðili hafi því ekki innt greiðsluna af hendi. SPV hf. hafi ekkert tillit tekið til þess að veruleg umræða hafi á þeim tíma skapast um lögmæti erlendra og gengistryggðra lána, bæði hjá SPV hf. og öðrum íslenskum fjármálastofnunum. Hafi fjármunir sóknaraðila ekki verið sérgreinanlegir í fórum félagsins felist í því ólögmæt auðgun varnaraðila á kostnað sóknaraðila enda hafi SPV hf. verið kunnugt um að óvissa ríkti um lögmæti samskonar lána og þess sem sóknaraðili tók og hafi félagið gengið að hinni veðsettu eign án atbeina sóknaraðila.
Sóknaraðili ítrekar því að það fé sem SPRON Verðbréf hafi tekið úr peningamarkaðssjóðnum og greitt inn á lán sóknaraðila sé eign sóknaraðila sem varnaraðili og kröfuhafar hans geti ekki með neinu móti átt tilkall til enda hafi SPV hf. borið að sérgreina féð vegna framangreindra atriða. Félaginu hafi mátt vera ljóst að verulegar líkur stæðu til þess að lán sóknaraðila kynni að vera gengistryggt á ólögmætan hátt. Vegna þeirrar skyldu SPV hf. að halda eign sóknaraðila aðgreindri frá eigin fjármunum, vísar sóknaraðili einnig til 11. og 12. gr. laga. nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti.
Sóknaraðili sundurliðar fjárhæð kröfu sinnar þannig:
Höfuðstóll 20.000.000 kr.
Vextir 5.396.453 kr.
Samtals 25.396.453 kr.
Höfuðstóll kröfu sóknaraðila nemi sömu fjárhæð og SPV hf. færði af vörslureikningi sóknaraðila við innlausn úr peningamarkaðssjóði SPRON til innborgunar á lán sóknaraðila. Vöxtum er bætt við höfuðstól á tólf mánaða fresti, þ.e. raunvextir á innborgun sóknaraðila. Sóknaraðili sundurliðar útreikning vaxta í framlögðum skjölum.
Verði ekki fallist á aðalkröfu sóknaraðila gerir hann sömu fjárkröfu til vara og þrautavara, þó þannig að varakrafan sé viðurkennd sem forgangskrafa samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., en þrautavarakrafan viðurkennd sem almenn krafa í skilningi 113. gr. sömu laga. Sóknaraðili rökstyður bæði varakröfu og þrautavarakröfu sína með sömu málsástæðum og lagarökum og aðalkröfuna, það er að segja að því er varðar hina ólögmætu gengistryggingu lánsins, misbrest á að kalla eftir frekari veðum og brostnar forsendur, og vísar til umfjöllunar um aðalkröfu sína.
Til vara krefst sóknaraðili þess, eins og áður greinir, að fjárkrafan verði viðurkennd sem forgangskrafa samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Í 3. mgr. 102. gr. sé tekið fram að við slit fjármálafyrirtækis gildi sömu reglur og um rétthæð krafna á hendur þrotabúi, en þó skuli kröfur um innstæður samkvæmt lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta jafnframt teljast til krafna sem njóta rétthæðar skv. 1. og 2. mgr. 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili byggir á því að fjármunir hans hljóti að teljast til innstæðna hjá varnaraðila sé það niðurstaða dómsins að fjármunirnir séu ekki sérgreinanlegir enda hafi innstæða sóknaraðila verið dregin af vörslureikningi hans.
Þrautavarakrafa sóknaraðila tekur hins vegar mið af því að krafan verði viðurkennd sem almenn krafa í skilningi 113. gr. laganna, en samkvæmt ákvæðinu gangi allar aðrar kröfur á hendur þrotabúi að réttri tiltölu við fjárhæð hverrar, nema þær sem eru taldar í 114. gr.
Fari svo ólíklega að ekki verði fallist á aðal-, vara- eða þrautavarakröfu sóknaraðila, gerir hann þá kröfu til þrauta-þrautavara að viðurkennt verði með dómi að verðtrygging samnings hans og varnaraðila um reikningslán sé ólögmæt. Sóknaraðili styður varakröfu sína eftir því sem við á með vísan til sömu málsástæðna og raktar hafa verið hér að framan til rökstuðnings aðalkröfu. Tilgangur varakröfunnar sé jafnframt sá að koma í veg fyrir að ágreiningur um fjárhæð kröfunnar og rétthæð í skuldaröð varnaraðila leiði til óvissu um réttmæti hennar og að henni verði hafnað af þeim sökum.
Til stuðnings kröfum sínum vísar sóknaraðili til laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sbr. einkum 2., 13., 14. og 18. gr. laganna. Þá vísar hann til almennra reglna kröfu- og samningaréttarins, meðal annars um brostnar forsendur og reglna um ógild samningsákvæði. Sóknaraðili vísar að auki til ákvæða laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti og 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Til stuðnings kröfu sinni um vexti vísar sóknaraðili til ákvæða laga nr. 38/2001 og laga nr. 21/1991. Kröfu um málskostnað styður hann við XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Málsástæður varnaraðila
Um endurgreiðslukröfur sóknaraðila
Um málatilbúnað sóknaraðila
Varnaraðili telur málatilbúnað sóknaraðila mótsagnakenndan og í raun byggja á misskilningi á þeirri stöðu sem sóknaraðili stóð frammi fyrir í nóvember 2008. Grundvallaratriði málsins sé að sóknaraðili hafi aldrei átt kröfu til þess að fá þær 20.000.000 kr., sem þetta mál snúist um, greiddar út kvaðalausar. Eins og rakið sé í lýsingu málavaxta hafi peningamarkaðssjóður SPRON Verðbréfa verið leystur upp í nóvember 2008 og hafi samtals 34.676.137 kr. komið í hlut sóknaraðila inn á vörslureikning hans sem hafi verið handveðsettur SPV hf. Á þessum tíma hafi skuld sóknaraðila numið 49.324.829 kr. en veðtrygging fyrir henni aðeins numið um 70,3% og því komin langt niður fyrir 115% veðþekjulágmarkið. Af því leiði að SPV hf. hafi verið heimilt að gjaldfella þá þegar lán sóknaraðila og ganga að hinum veðsettu fjármunum. Aldrei hafi staðið til að veðsetningu fjármunanna yrði aflétt enda tryggingastaðan langt undir umsömdum mörkum. Af þessum sökum fái kröfugerð sóknaraðila í málinu engan veginn staðist.
Málsástæður og lagarök varnaraðila vegna aðal-, vara- og þrautavarakröfu sóknaraðila
Til stuðnings því að hafna beri kröfu sóknaraðila vísar varnaraðili í fyrsta lagi til þess að gögn málsins sýni að sóknaraðili hafi samþykkt þá ráðstöfun sem deilt sé um. Sú ályktun byggist á skriflegum athugasemdum fyrrum starfsmanns SPV hf. Þegar verðmæti þeirra verðbréfa, sem áttu að tryggja greiðslu lánsins, hafi verið komið niður í rúm 70% af því sem eftir stóð af láninu í nóvember 2008 hafi SPV hf. verið heimilt að gjaldfella lánið. Það hafi því verið sameiginleg ákvörðun sóknaraðila og starfsmanns SPV hf. að greiða 20.000.000 kr. inn á lánið. Auk þess beri gögnin með sér að kallað hafi verið eftir frekari veðum, meðal annars í fasteignum sóknaraðila að Þverbrekku 2 og Miðstræti 8a. Jafnframt hafi verið ákveðið að sóknaraðili greiddi 2.000.000 kr. í desember 2008. Nú reyni sóknaraðili hins vegar, gegn betri vitund, að fá þá fjárhæð sem var greidd inn á lánið endurgreidda með vísan til þess að ekki hafi verið kallað eftir frekari veðum vegna lánsins.
Í öðru lagi hafi hlutdeildarskírteini sóknaraðila í peningamarkaðssjóðnum verið veðsett SPV hf. og þar með andvirði þeirra við innlausn. Grundvallaratriði sé að þær 20.000.000 kr. sem um sé deilt hafi aðeins getað ratað á annan hvorn tveggja staða. Annars vegar sem greiðsla inn á lán sóknaraðila, eins og raunin varð, eða hins vegar inn á handveðsettan reikning nr. 250353. Hefði síðari kosturinn verið valinn hefði SPV hf. verið heimilt að ganga að fjármununum á gjalddaga lánsins. Sú staða hefði aldrei getað komið upp að sóknaraðili fengi umþrætta fjárhæð greidda út kvaðalausa óháð skuldastöðu hans við SPV hf. eins og hann krefjist nú. Sú krafa sé andstæð samningsskuldbindingum sóknaraðila.
Í þriðja lagi geti meint ólögmæt gengistrygging lánsins ekki leitt til þeirrar niðurstöðu að SPV hf. hafi verið óheimilt að færa umrædda fjárhæð inn á lán sóknaraðila. Varnaraðili bendir á að lánssamningar með ólöglegri gengistryggingu séu ekki ólögmætir samningar að öllu leyti. Skuld sóknaraðila yrði samt sem áður til staðar. Á þessum tíma, í nóvember 2008, hafi hvorki fallið dómur um ólögmæti gengistryggðra lána né heldur verið rætt um ólögmæti þeirra. Þá megi geta þess að upphafleg lánsfjárhæð hafi numið 18.489.899 kr. og væri sú fjárhæð auk áfallinna vaxta hærri en 20.000.000 kr. Því leiddi umþrætt innborgun ekki til ofgreiðslu miðað við stöðu lánsins á þessum tíma. Málsástæða sóknaraðila sé þar af leiðandi haldlaus. Að öðru leyti sé því alfarið hafnað að lánssamningur sóknaraðila hafi verið gengistryggður eins og síðar verði rakið.
Í fjórða lagi telur varnaraðili málsástæðu sóknaraðila um forsendubrest verulega vanreifaða og óljóst á hvaða hátt hún geti verið grundvöllur endurgreiðslukröfu sóknaraðila. Varnaraðili áréttar að réttaráhrif brostinna forsendna leiði til ógildingar samnings en sóknaraðili geri ekki slíka kröfu. Til öryggis (ex tuto) telur varnaraðili sóknaraðila ekki hafa sýnt fram á að það hafi verið forsenda lántöku hans að eign hans í peningamarkaðssjóðnum yrði ávallt innleysanleg auk þess sem SPV hf. hefði aldrei fallist á slíka forsendu fyrir láninu.
Krafa sóknaraðila um endurgreiðslu að fjárhæð 20.000.000 kr. auk vaxta styðjist ekki við nokkur rök og því beri alfarið að hafna aðal-, vara- og þrautavarakröfu sóknaraðila.
Staða kröfu sóknaraðila í kröfuröð
Verði af einhverjum ástæðum fallist á kröfur sóknaraðila mótmælir varnaraðili því að skilyrðum sé fullnægt til þess að krafa hans njóti stöðu utan skuldaraðar eða forgangs innan hennar.
Sóknaraðili krefjist þess aðallega að krafa hans verði viðurkennd sem sértökukrafa samkvæmt 109. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti. Í ákvæðinu segi að afhenda skuli eign eða réttindi í vörslum þrotabús þriðja manni sanni hann eignarrétt sinn að þeim. Samkvæmt réttarvenju og lögskýringargögnum verði tveimur meginskilyrðum að vera fullnægt til þess að eftir ákvæðinu verði farið með afhendingu peningafjárhæðar. Hið fyrra sé að sá sem krefst afhendingar peningafjárhæðar sýni fram á eignarrétt að henni. Seinna skilyrðið lúti að því að féð verði að liggja sérgreint í vörslum búsins. Þessu til stuðnings vísar varnaraðili til dóma Hæstaréttar í málum nr. 327/1986, 357/1993 og 656/2011. Ljóst sé að þeir fjármunir sem sóknaraðili vilji fá afhenta hafi aldrei verið sérgreindir í vörslum búsins og því alfarið hafnað að þessum skilyrðum sé fullnægt.
Til vara krefjist sóknaraðili þess að krafa hans verði viðurkennd sem forgangskrafa samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Forgangur innstæðna samkvæmt framangreindu ákvæði takmarkist við innstæður aðila á þeim tíma sem SPV hf. var tekið til slitameðferðar. Þeir fjármunir sem nú sé krafist hafi ekki legið á vörslureikningi sóknaraðila í ágúst 2009 heldur hafi fjármununum verið ráðstafað inn á lán sóknaraðila í nóvember 2008.
Vaxtakrafa sóknaraðila sé vegna tímabilsins 19. nóvember 2008-17. mars 2011. SPV hf. hafi hins vegar verið tekið til slita 7. ágúst 2009. Því verði vaxtakröfur eftir það tímamark aðeins viðurkenndar sem eftirstæðar kröfur skv. 114. gr. laga um gjaldþrotaskipti. Vaxtakrafa sóknaraðila sé því vanreifuð að þessu leyti.
Skuldajöfnuðaryfirlýsing varnaraðila
Verði fallist á kröfu sóknaraðila að einhverju leyti muni skuld sóknaraðila við varnaraðila hækka. Eftirstöðvar lánsins verði þá þær sem tilgreindar séu í gagnkröfu varnaraðila auk 20.000.000 kr. skuldar sem rakni við vegna „endurgreiðslu“ innborgunar sem innt hafði verið af hendi inn á lánið. Varnaraðili lýsi því hér með yfir skuldajöfnuði vegna eftirstöðva lánsins gagnvart kröfum sóknaraðila verði fallist á þær, sbr. 1. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
Um meinta verðtryggingu láns sóknaraðila
Sóknaraðili krefjist þess til þrautaþrautavara að viðurkennt verði með dómi að verðtrygging við japanskt jen í samningi milli hans og varnaraðila um reikningslán sé ólögmæt. Krafa sóknaraðila sé viðurkenningarkrafa en þess sé ekki krafist að tilteknar eftirstöðvar verði lagðar til grundvallar eða að endurgreidd verði fjárhæð sem svari til meintrar ofgreiðslu sóknaraðila vegna láns nr. 1110 (10350).
Varnaraðili hafnar kröfu sóknaraðila með vísan til þess að lánið sé í erlendri mynt og þar með ekki gengistryggt á ólögmætan hátt eins og nánar verði greint. Eftirfarandi umfjöllun eigi jöfnum höndum við um aðal-, vara- og þrautavarakröfu sóknaraðila.
Lánsfjárhæð tilgreind í erlendri mynt
Varnaraðili byggir kröfur sínar á því að lán sóknaraðila sé lögmætt lán í erlendri mynt og styður það einkum þeim rökum að frá skilmálabreytingu lánsins, 8. janúar 2008, hafi lánsfjárhæðin verið tilgreind í japönskum jenum en ekki íslenskum krónum.
Varnaraðili vísar til þess að í 13. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu sé fjallað um heimildir til að verðtryggja „skuldbindingar sem varða sparifé og lánsfé í íslenskum krónum“. Forsenda þess að skuldbinding verði talin verðtryggð, það er höfuðstóll skuldbindingar, sé augljóslega að hún sé samkvæmt orðalagi ákvæðisins ákveðin og tilgreind í íslenskum krónum, enda falli skuldbindingar í erlendri mynt ekki undir VI. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sbr. einnig dóma Hæstaréttar í málum nr. 92/2010 og 471/2010.
Hæstiréttur hafi þegar komist að þeirri niðurstöðu að við mat á því hvort skuldbinding sé í íslenskum krónum eða erlendri mynt skipti tilgreining lánsfjárhæðar mestu um efni hennar, sbr. dóma í málum nr. 520/2011, 551/2011 og 552/2011. Í tveimur síðastnefndu dómunum segi um þetta:
Af orðalagi ákvæðanna [13. og 14. gr., sbr. 2. gr. laga nr. 38/2001] og lögskýringar¬gögnum verður ráðið að við úrlausn á því, hvort um sé að ræða skuldbindingu í íslenskum krónum eða erlendum gjaldmiðli eða gjaldmiðlum, verði fyrst og fremst að líta til forms og meginefnis þeirra gerninga sem liggja til grundvallar skuldbindingunni. Í því sambandi skipti einkum máli hvernig sjálf skuldbindingin er tilgreind í þeim.
Af þessum dómum Hæstaréttar leiði því, að mati varnaraðila, að lán sóknaraðila sé í erlendum myntum.
Þessu til viðbótar sé það liður í rökstuðningi héraðsdóms, sem Hæstiréttur hafi staðfest í dómum nr. 30/2011 og 31/2011, að „fjárhæð hinna erlendu gjaldmiðla [komi] hvergi fram í samningi aðila“ og að bankanum hefði „verið í lófa lagið að tilgreina fjárhæðir“ hinna erlendu mynta. Þá sé það liður í forsendum Hæstaréttar í máli nr. 155/2011 að í samningum aðila sé „hvergi [ ] getið um fjárhæð skuldarinnar í hinum erlendu gjaldmiðlum“. Varnaraðili dregur þá ályktun af dómunum að sé fjárhæð hinna erlendu mynta tilgreind nákvæmlega í samningi aðila, eins og í samningi aðila þessa máls, sé lánið í erlendri mynt.
Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 524/2011 hafi endanlega verið úr því skorið að þegar lánsfjárhæð sé tilgreind í erlendri mynt sé lánið í erlendri mynt. Óumdeilt sé að lánsfjárhæð samkvæmt reikningsláni sóknaraðila hafi upphaflega verið tilgreind í íslenskum krónum. Með breytingu á skilmálum lánsins hafi myntum þess hins vegar verið breytt og lánsfjárhæðin frá þeim tíma tilgreind í japönskum jenum. Vaxtakjörum hafi jafnframt verið breytt úr REIBOR-vöxtum í LIBOR-vexti. Skilmálabreyting lánsins í kjölfarið hafi borið með sér að þetta væri reikningslán í erlendum myntum auk þess sem lánsfjárhæðin hafi verið skýrt tilgreind í japönskum jenum.
Allt framangreint sýni að lán sóknaraðila hafi verið löglegt lán í erlendri mynt og því beri að staðfesta kröfu varnaraðila og hafna kröfu sóknaraðila.
Gengistryggingar getið með beinum hætti í skuldaskjali
Til frekari rökstuðnings bendir varnaraðili á að í dómum Hæstaréttar í málum nr. 92/2010, 153/2010, 603/2010 og 604/2010 hafi verið tilgreint í skuldaskjölum að samningar væru gengistryggðir auk þess sem grunns gengistryggingar hafi verið getið. Um lánssamninga Lýsingar og SP-Fjármögnunar sem fjallað hafi verið um í dómum Hæstaréttar í málum nr. 92/2010 og 153/2010 segi rétturinn til að mynda að „[b]erum orðum kom fram að íslensk fjárhæð hverrar afborgunar ætti að breytast eftir gengi á þeim erlendu myntum, sem mið var tekið af, og sagði að auki í [yfirskrift samningsins / texta samningsins] að hann væri [gengistryggður / 100% gengistryggður].“
Um skuldabréf í málum Frjálsa fjárfestingarbankans segi Hæstiréttur í málum nr. 603/2010 og 604/2010: „Þá voru lánin bundin við sölugengi Seðlabanka Íslands á tilteknum erlendum gjaldmiðlum eins og áður er lýst, sem einnig bendir ótvírætt til að þau séu í íslenskum krónum, enda engin þörf á að kveða á um gengistryggingu ef lán væri í raun í erlendri mynt, svo sem varnaraðili heldur fram að samningarnir kveði á um.“
Orðin „gengistrygging“, „verðtrygging“ eða önnur í þeim dúr séu hvergi í skilmálum skuldaskjala þessa máls. Þá sé enginn gengistryggingar- eða verðtryggingargrunnur í skilmálum skjalanna sem hljóti að teljast meginforsenda þess að skuld verði talin gengis- eða verðtryggð. Sá málatilbúnaður sóknaraðila að lán hans sé gengistryggt fái því ekki stoð í skuldaskjölunum sjálfum.
Varnaraðili hafnar sérstaklega þeirri málsástæðu sóknaraðila að með skilmálabreytingunni hafi gengistryggingu á einhvern hátt verið skeytt við upphaflegt lán sóknaraðila. Varnaraðili bendir á að sóknaraðili hefði allt eins getað tekið nýtt lán í japönskum jenum og greitt upp hið íslenska lán. Í slíkum tilvikum yrði vart talað um að gengistryggingu hefði verið skeytt við hið uppgreidda lán. Til hagræðis fyrir sóknaraðila, jafnt sem SPV hf., hafi sú leið verið farin að breyta skilmálum lánsins og myntbreyta þannig skuldbindingu sóknaraðila. Skuldbindingin hafi frá þeim tíma verið í erlendri mynt eins og hún væri nýtt lán. Því séu ekki nein efni til þess að fallast á röksemdir sóknaraðila.
Skyldur aðila samkvæmt samningnum
Varnaraðili hafnar því alfarið að inntak og eðli skuldbindingarinnar geti ráðist af því í hvaða mynt lánsfjárhæðin var greidd sóknaraðila eða í hvaða mynt sóknaraðili endurgreiddi lánsfjárhæðina og vexti. Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 524/2011 hafi slíkt ekki áhrif á niðurstöðu þess hvort lán væri í erlendri mynt eða gengistryggt á ólögmætan hátt. Jafnframt hafi sóknaraðila verið frjálst að velja skuldfærslureikning og endurgreiða lánið og vexti í japönskum jenum enda hafi ekki verið gjaldeyrishöft á þeim tíma sem til skuldbindingarinnar var stofnað. Sóknaraðili hafi hins vegar óskað eftir því að lánið yrði skuldfært af reikningi hans með höfuðbókarnúmerinu 26 sem sé, eins og alkunna sé, reikningur í íslenskum krónum. Svona hafi málsaðilar samið og breyti það ekki þeirri staðreynd að skuldbinding sóknaraðila sé í japönskum jenum.
Ólögmætt gengistryggt lán
Vilji svo ólíklega til að dómurinn fallist á að lán sóknaraðila sé gengistryggt á ólögmætan hátt bendir varnaraðili á að sakarefni málsins lúti ekki að viðurkenningu á eftirstöðvum lánsins eða að endurgreiðslu vegna meintrar ofgreiðslu vegna þess. Tilvísun sóknaraðila til 18. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og framlagning hans á áætlun um endurútreikning tengist því ekki sakarefni málsins. Varnaraðili telur kröfu um endurgreiðslu á grundvelli ólögmætrar gengistryggingar hvorki rúmast innan viðurkenningarkröfu sóknaraðila né innan kröfu hans um endurgreiðslu þeirrar fjárhæðar sem ráðstafað var inn á lán nr. 1110 (10350).
Þá sé misræmi í málatilbúnaði sóknaraðila þar sem hann krefjist annars vegar endurgreiðslu vegna umþrættrar 20.000.000 kr. innborgunar á lán nr. 1110 (10350) en hins vegar taki framlagður endurútreikningur mið af innborgun þeirrar fjárhæðar. Málatilbúnaður sóknaraðila sé því fremur óljós og ruglingslegur.
Loks mótmælir varnaraðili endurútreikningnum sem röngum en hann taki mið af upphaflegum höfuðstól sem sé rangt tilgreindur.
Gagnkrafa varnaraðila
Til stuðnings gagnkröfu sinni vísar varnaraðili til þess að lán sóknaraðila nr. 1110 (10350) hafi verið í vanskilum frá gjalddaga þess, 5. ágúst 2009. Tryggingar vegna lánsins hafi ekki nægt til að greiða það upp og því geri varnaraðili gagnkröfu um greiðslu eftirstöðva lánsins auk dráttarvaxta. Gagnkrafan byggist á ákvæðum framangreinds fjölmyntareikningsláns aðila og viðaukum. Krafan sé reist á almennum reglum samninga- og kröfuréttar um skuldbindingargildi loforða og greiðslu skulda. Skuldina hafi sóknaraðili lofað að greiða á gjalddaga og skuldbundið sig til þess að hafa til ráðstöfunar, á gjalddaga, á reikningi nr. 1150-26-1440 í sinni eigu fjárhæð sem svari til uppgreiðslu lánsins, það er höfuðstóls og vaxta auk afgreiðslugjalds samkvæmt gjaldskrá, í íslenskum krónum.
Varnaraðili sundurliðar gagnkröfu sína þannig:
Höfuðstóll 35.204.423 JPY
Vextir 1.660.329 JPY
Innborgun 8. ágúst 2008 -1.077.459 JPY
Innborgun 19. nóvember 2008 -16.160.310 JPY
Innborgun 5. ágúst 2009 -14.850.803 JPY
Samtals skuld 4.776.180 JPY
Á gjalddaga lánsins, 5. ágúst 2009, hafi skráð sölugengi japansks jens numið 1,3186 kr. Samtals nemi krafa vegna eftirstöðva lánsins 6.297.871 kr. (JPY 4.776.180 x 1,3186). Krafan beri vexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá vanskiladegi, 5. ágúst 2009, til greiðsludags.
Gagnkrafan sé gerð með heimild í 2. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. tölulið 173. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
Tilvísanir til laga og annarra réttarheimilda
Til stuðnings aðalkröfu sinni og gagnkröfu vísar varnaraðili til laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., einkum 109.-113. gr., og 173. og 178. gr. svo og laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Hann vísar jafnframt til meginreglna samninga- og kröfuréttar um skuldbindingargildi loforða og efndir fjárskuldbindinga svo og meginreglna veðréttar og laga nr. 75/1997 um samningsveð. Krafa hans um málskostnað byggir á XXI. kafla laga nr. 91/1991. Kröfusamlag er byggt á 27. gr. sömu laga. Kröfu um dráttarvexti styður varnaraðili við reglur III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001.
Málsástæður sóknaraðila vegna gagnkröfu varnaraðila
Sóknaraðili krefst þess að gagnkröfu varnaraðila verði hafnað. Hann byggir aðallega á því að umþrætt lán sé gengistryggt á ólögmætan hátt og því geti varnaraðili ekki krafið sóknaraðila um eftirstöðvar lánsins eins og hann geri í gagnkröfu sinni. Sé það niðurstaða dómsins að lán sóknaraðila sé gengistryggt á ólögmætan hátt verði eftirstöðvar lánsins ekki þær sömu og gagnkrafa varnaraðila.
Skuldajafnaðaryfirlýsing varnaraðila
Sóknaraðili mótmælir skuldajafnaðaryfirlýsingu varnaraðila sem óljósri og vanreifaðri. Hann bendir sérstaklega á að yfirlýsing um skuldajöfnuð geti ekki tekið mið af íslenskum krónum annars vegar og hins vegar eftirstöðvum sem hafi verið uppreiknaðar á ólögmætan hátt, það er bundnar við gengi japanska jensins. Verði fallist á kröfu sóknaraðila um greiðslu 20.000.000 króna með tilliti til þess að lánið sé gengistryggt á ólögmætan hátt, sé ljóst að eftirstöðvar lánsins séu ekki þær sem varnaraðili tilgreini í gagnkröfu sinni. Mótmæli sóknaraðila við skuldajafnaðaryfirlýsingu varnaraðila taki einvörðungu mið af endanlegri niðurstöðu dómsins vegna málsástæðna sem séu reistar á ólögmætri gengistryggingu, en ekki öðrum málsástæðum, svo sem að ekki hafi verið kallað eftir frekari veðum.
Aðrar röksemdir og mótmæli
Sóknaraðili mótmælir harðlega túlkun varnaraðila á dómum héraðsdóms og Hæstaréttar um mál sem varði gengistryggða lánssamninga. Túlkun varnaraðila á dómunum og tilvísun í einstakar forsendur þeirra sé ekki aðeins villandi, heldur einnig andstæð niðurstöðu Hæstaréttar í málum af þessu tagi. Dómar sem varnaraðili vísi til hafi afar takmarkað fordæmisgildi, enda augljóst að hin íslenska fjárhæð hafi verið bundin gengi japanska jensins eftir að lánið var greitt út.
Sóknaraðila sé nauðsynlegt að mótmæla sérstaklega þeim staðhæfingum varnaraðila að eftirstöðvar lánsins hafi verið færðar yfir í japönsk jen í janúar 2008. Þetta sé alrangt enda hafi eftirstöðvarnar verið bundnar við gengi japanska jensins í janúar 2008. Varnaraðili hafi að minnsta kosti ekki lagt fram nein gögn sem sýni fram á að eftirstöðvarnar hafi verið færðar yfir í japönsk jen. Þá sé sóknaraðili einnig knúinn til að mótmæla sérstaklega þeirri staðhæfingu varnaraðila að það hafi verið sameiginleg ákvörðun sóknaraðila og starfsmanns SPV hf. að greiða 20.000.000 kr. inn á lán sóknaraðila. Hér fari varnaraðili hreinlega með ósannindi. Sóknaraðili byggir á því að fram lagt handritað skjal beri alls ekki með sér, eins og varnaraðili haldi fram, að sóknaraðili hafi samþykkt þá ráðstöfun sem deilt er um í málinu.
Á fram lögðu yfirliti yfir lán hans sé útgáfudagur láns í japönskum jenum sá sami og í íslenskum krónum, 31. júlí 2007. Þetta staðfesti augljóslega þann skilning sóknaraðila að upphafleg lánsfjárhæð í íslenskum krónum hafi síðar verið bundin gengi japanska jensins og að varnaraðili hafi aldrei lánað sóknaraðila jen í lagalegum skilningi.
Sóknaraðili mótmælir þeirri málsástæðu varnaraðila að réttaráhrif brostinna forsendna leiði alltaf til ógildingar samnings. Atvik kunni að vera þannig að réttlætanlegt og eðlilegt sé að efndaskyldu sé breytt til samræmis við brostnar eða breyttar forsendur.
Hvað varðar stöðu kröfunnar í kröfuröð, bæði utan skuldaraðar og forgangs innan hennar, byggi sóknaraðili einnig á því að kröfulýsingin taki til allra innborgana, þar á meðal innborgunar 5. ágúst 2009, sem gerð hafi verið eftir frestdag og aðeins tveimur dögum áður en Fjármálaeftirlitið skipaði varnaraðila slitastjórn.
Sóknaraðili mótmælir að öðru leyti öllum málsástæðum varnaraðila.
Niðurstaða
Ágreiningur þessa máls hverfist um það hvort SPRON Verðbréfum hf. hafi verið heimilt að taka 20.000.000 kr. af inneign sóknaraðila í peningamarkaðssjóði SPRON Verðbréfa þegar sjóðurinn var leystur upp, í nóvember 2008, og greiða með þeim inn á lán sem sóknaraðili tók hjá fyrirtækinu 31. júlí 2007. Sóknaraðili telur SPV hf. ekki hafa verið heimilt að ráðstafa þessu fé á þennan hátt. Það byggir hann í fyrsta lagi á því að lán hans sé ólögmætt gengistryggt lán í íslenskum krónum, í öðru lagi að SPV hf. hafi ekki kallað eftir frekari veðum áður en gengið var að inneign sóknaraðila og loks að forsendur samningssambands hans við SPV. hf. hafi verið brostnar þegar fjármununum var ráðstafað inn á lánið.
Sóknaraðili fékk lán í íslenskum krónum 31. júlí 2007. Lánsfjárhæðin var lögð inn á reikning fyrir íslenskar krónur og átti að skuldfærast af þeim sama reikningi á gjalddaga. Lánið bar þá 13,85% REIBOR-vexti og 3% álag á þá, samtals 16,85% vexti. Að einungis fimm mánuðum liðnum, 8. janúar 2008, samþykkti lánveitandinn að beiðni skuldara að eftirstöðvum lánsins, eins og það stóð 21. nóvember 2007, yrði breytt í japönsk jen. Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að frá þeim degi til gjalddaga, fyrst 5. ágúst 2008 en síðar 5. ágúst 2009, hafi lánið einungis átt að bera 7,16% LIBOR-vexti. Þegar skilmálum lánsins var breytt endurgreiddi sóknaraðili félaginu ekki íslensku krónurnar sem hann fékk 31. júlí 2007 og fékk ekki heldur afhent nein japönsk jen. Eins og fyrr átti að skuldfæra lánið af reikningi í íslenskum krónum á gjalddaga.
Að mati dómsins getur sú breyting sem gerð var á skilmálum lánsins, 8. janúar 2008, ekki kollvarpað eðli þess þannig að það verði talið hafa orðið sambærilegt nýju láni í jenum enda hafði lánveitandinn nokkrum mánuðum áður þegar uppfyllt meginskyldu sína með því að afhenda lántakanum höfuðstól lánsins í íslenskum krónum. Með breytingunni, 8. janúar, samþykkti lánveitandinn að lántakinn breytti meginskyldu sinni, endurgreiðslunni, þannig að hún tæki mið af gengi japansks jens og LIBOR-vöxtum. Að mati dómsins er lánið því í íslenskum krónum en endurgreiðsla þess bundin gengi erlendrar myntar og brýtur sá þáttur lánsins gegn lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.
Fjármálaeftirlitið lagði, 17. október 2008, fyrir rekstrarfélög verðbréfasjóða að leysa upp peningamarkaðssjóði sína. Það gerði SPV hf., 18. nóvember 2008, og tók þá 20 milljónir króna af inneign sóknaraðila og ráðstafaði þeim inn á lán hans, 19. nóvember 2008. Enda þótt lánið sé nú dæmt ólögmætt getur það eitt og sér ekki valdið því að SPV hf. hafi á sínum tíma verið óheimilt að nýta inneign sóknaraðila í sjóðnum til að greiða inn á lánið.
Sóknaraðili byggir næst á því að skilyrði þess að SPV hf. mætti ganga beint að fjármununum hafi verið að félagið kallaði eftir frekari veðum hjá sóknaraðila eins og því hafi verið skylt samkvæmt tryggingarbréfinu. Gögn málsins sýna að inneign sóknaraðila í sjóðnum nam, í nóvember 2008, tæplega 35 milljónum króna. Út frá þeirri forsendu að lánið sé í íslenskum krónum og gengistrygging þess hafi frá ársbyrjun 2008 verið ólögmæt má fastlega gera ráð fyrir að inneign sóknaraðila í sjóðnum í nóvember 2008 hafi veitt SPV hf. næga tryggingu fyrir láninu og SPV hf. hafi hvorki mátt gjaldfella lánið né þurft að kalla eftir frekari veðum.
Upphafleg kröfulýsing sóknaraðila í bú varnaraðila er dagsett 28. desember 2009. Í henni byggir hann fyrst á brostinni forsendu á sama hátt og í þessu máli og í annan stað á því að ekki hafi verið kallað eftir frekara veði áður en gengið var á inneignina. Hann nefnir ekki að hann telji lánið gengistryggt. Í nýrri kröfulýsingu, 31. mars 2011, er það fyrsta röksemd sóknaraðila að lán hans hjá félaginu sé gengistryggt. Þetta sýnir að í nóvember 2008 gengu bæði lántaki og lánveitandi út frá því að lánið væri í erlendri mynt. Miðað við þá forsendu var inneign sóknaraðila í peningamarkaðssjóðnum í nóvember 2008 ekki nægjanleg trygging fyrir láninu. SPV hf. hefði því borið, áður en félagið gjaldfelldi lánið, að kalla eftir frekari tryggingum eins og um var samið.
Varnaraðili byggir á því að SPV hf. hafi tekið 20 milljónirnar beint af fjármunum sóknaraðila í peningamarkaðssjóðnum í samráði við sóknaraðila og þannig í reynd kallað eftir frekari tryggingum. Til stuðnings þeirri fullyrðingu vísar varnaraðili til handritaðra athugasemda á útprent af verðbréfaeign sóknaraðila eins og hún var 18. nóvember 2008. Varnaraðili hefur hins vegar ekki leitt sem vitni þann starfsmann SPV hf. sem á að hafa skrifað þetta niður. Af þeim sökum verður að miða við þá fullyrðingu sóknaraðila að ráðstöfun fjármunanna inn á lánið hafi ekki farið fram með hans samþykki og að SPV hf. hafi ekki kallað eftir frekari tryggingum frá honum. Sóknaraðili hefur hins vegar hvorki haldið fram né sýnt fram á að hann hafi átt kvaðalausar eignir sem hann hefði getað lagt fram sem fullnægjandi tryggingu hefði SPV hf. kallað eftir frekari tryggingum. Sóknaraðili hefur því ekki sýnt fram á að hann hafi orðið fyrir réttarspjöllum við það að SPV hf. gekk að eign hans í peningamarkaðssjóðnum, 19. nóvember 2008, án þess að gefa honum fyrst sólarhringsfrest til að leggja fram frekari veð.
Í þriðja lagi byggir sóknaraðili á því að forsendur viðskiptasambands hans og SPRON Verðbréfa hafi að fullu verið brostnar þegar SPV hf. gekk að veðsettri eign sóknaraðila, enda hafi inneign hans í peningamarkaðssjóði SPRON ekki verið innleysanleg fyrr en fjórum vikum eftir lokun sjóðsins 3. október 2008. Sóknaraðili hafi því ekki haft tök á að greiða upp lánssamninginn á sama tímabili eða krefjast skuldajafnaðar. Varnaraðila hafi því ekki verið heimilt að ganga að hinni veðsettu eign sóknaraðila við innlausn úr peningamarkaðssjóði SPRON og áður en greiðsla átti sér stað inn á reikning sóknaraðila.
Að mati dómsins er ekki skýrt hvert hlutverk þessarar málsástæðu er í málatilbúnaði sóknaraðila og hvaða réttaráhrif henni séu ætluð. Viðskiptasamband sóknaraðila og SPV hf. var að minnsta kosti tvíþætt. Annars vegar lánið sem hann fékk 31. júlí 2007 og hins vegar inneign hans í peningamarkaðssjóðnum sem SPV hf. ávaxtaði fyrir hann. Miðað við röksemdafærslu í greinargerð virðist hin brostna forsenda einna helst eiga að leiða til þess að víkja eigi til hliðar tryggingarbréfi þar sem sóknaraðili veitir SPV hf. veð í hlutdeildarskírteinum sínum í peningamarkaðssjóðnum því hún á ekki að leiða til þess að hann sé óbundinn af láninu heldur þess að SPV hf. hafi ekki verið heimilt að ganga að inneigninni í peningamarkaðssjóðnum. Sóknaraðili krefst þess þó ekki að tryggingarbréfinu sé vikið til hliðar. Í framhaldsgreinargerð vísar sóknaraðili til þess að brostin forsenda kunni að geta réttlætt að efndaskyldu sé breytt án þess þó að útfæra það nánar. Sóknaraðili færir hvorki fram rök né gögn fyrir því að forsendan hafi verið veruleg, og ákvörðunarástæða hans svo og að SPV hf. hafi mátt vera ljóst að forsendan hafi verið hvort tveggja ákvörðunarástæða sóknaraðila og veruleg. Þar sem þessi málsástæða er ekki nægilega rökstudd verður hún ekki tekin til greina.
Þegar peningamarkaðssjóðurinn var leystur upp hlaut SPRON Verðbréf hf. að þurfa að leggja þá fjármuni sem varnaraðili fékk úr sjóðnum inn á einhvern reikning sem varnaraðili átti hjá SPV hf. Samningur sóknaraðila við SPV hf. um vörslu hlutdeildarskírteina hans í peningamarkaðssjóðnum er ekki meðal gagna málsins. Í þeim samningi hefði að öllu jöfnu átt að tilgreina hvað SPV hf. bæri að gera kæmi til útgreiðslu úr sjóðnum. Sóknaraðili byggir ekki á því að samið hafi verið um að SPV hf. bæri að leggja fjármuni sóknaraðila inn á annan reikning en þann sem hann hafði áður sett SPV hf. að handveði.
Þar sem sóknaraðili hafði sett SPV hf. að veði öll þau verðbréf sem SPV hf. varðveitti fyrir hann og átti jafnframt ógreitt lán hjá félaginu gat hann ekki gert ráð fyrir því að hann ætti rétt til þess, við slit peningamarkaðssjóðsins, að fá andvirði verðbréfanna greitt út í hönd. Sóknaraðili hefur því ekki sýnt fram á að SPV hf. hafi borið að ráðstafa inneign hans í peningamarkaðssjóðnum á annan hátt en inn á lánið eða inn á reikning sem sóknaraðili hafði engan ráðstöfunarrétt yfir.
Það lán sem sóknaraðili tók 31. júlí 2007 var lögmætt enda þótt tenging endurgreiðslu þess við japönsk jen sé ólögmæt. Þær 20 milljónir sem SPV hf. tók af inneign sóknaraðila í peningamarkaðssjóðnum gengu til greiðslu skuldar hans við félagið. Þar sem þeim 20 milljónum króna sem um er deilt var sannarlega ráðstafað inn á gilda skuld sóknaraðila við SPV hf. verður ekki séð að hann hafi orðið fyrir tjóni vegna þeirrar tilteknu ráðstöfunar SPV hf.
Eins og málið hefur verið lagt fyrir dóminn kemur ekki til skoðunar nú hvort SPV hf. hafi síðar tekið sér, af þeim fjármunum sem sóknaraðili átti í vörslum félagsins, hærri fjárhæð en nam verðmæti lánsins miðað við endurreiknaða stöðu þess.
Það er því niðurstaðan að SPV hf. hafi ekki verið óheimilt, eins og málum var háttað 19. nóvember 2008, að nýta eign sóknaraðila í peningamarkaðssjóðnum til að greiða inn á lánið, þegar sjóðnum var slitið að tilmælum Fjármálaeftirlitsins. Af þeim sökum þarf ekki að taka afstöðu til þess hvaða stöðu í kröfuröð krafa sóknaraðila í bú varnaraðila ætti að njóta. Jafnframt þarf ekki að taka afstöðu til yfirlýsingar varnaraðila um skuldajöfnuð.
Með heimild í 4. mgr. 177. gr., sbr. 2. mgr. 173. gr., laga nr. 21/1991 setti varnaraðili fram gagnkröfu í greinargerð sinni. Henni verður að hafna þar sem hún byggir á því að lán sóknaraðila hafi verið lögmætt erlent lán. Þar fyrir utan er ekki nokkur leið að finna þær fjárhæðir, sem varnaraðili telur að samanlagðar myndi gagnkröfu hans, á því skjali sem hann hefur lagt fram til stuðnings þessari fjárkröfu.
Þar sem fallist er á eina af kröfum sóknaraðila og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991, þykir rétt að varnaraðili greiði sóknaraðila nokkurn málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 250.000 krónur. Við ákvörðun hans var tekið tillit til virðisaukaskatts.
Ingiríður Lúðvíksdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Aðal-, vara- og þrautavarakröfu sóknaraðila, Davíðs Heiðars Hanssonar, er hafnað.
Viðurkennt er að það lán sem sóknaraðili tók hjá SPRON Verðbréfum hf., 31. júlí 2007, sé lán í íslenskum krónum og tengt gengi japansks jens á ólögmætan hátt.
Gagnkröfu varnaraðila, þrotabús SPRON Verðbréfa hf., er hafnað.
Varnaraðili greiði sóknaraðila 250.000 krónur í málskostnað.