Hæstiréttur íslands
Mál nr. 319/2008
Lykilorð
- Kærumál
- Farbann
- Úrskurður héraðsdóms felldur úr gildi
|
|
Fimmtudaginn 12. júní 2008. |
|
Nr. 319/2008. |
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum(Júlíus Magnússon fulltrúi) gegn X(Bjarni Hauksson hdl.) |
Kærumál. Farbann. Úrskurður héraðsdóms felldur úr gildi.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta farbanni samkvæmt 110. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var felldur úr gildi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 6. júní 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 9. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 6. júní 2008, þar sem varnaraðila var bönnuð för frá Íslandi allt til föstudagsins 27. júní 2008 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að farbanni verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Í hinum kærða úrskurði er þess getið að tveir samlandar varnaraðila, karl og kona, séu í gæsluvarðhaldi hér á landi vegna gruns um brot gegn almennum hegningarlögum nr. 19/1940. Varnaraðili kom hingað til lands 27. maí 2008 en var handtekinn þremur dögum síðar. Hann mun hafa haft samband við lögmann í því skyni að grennslast fyrir um þessa samlanda sína. Kvaðst hann hafa gert það að beiðni móður konu þeirrar sem í situr í gæsluvarðhaldi. Hin grunuðu hafa neitað því hjá lögreglu að þekkja varnaraðila.
Krafa sóknaraðila er einkum við það studd að varnaraðili, sem kveðst vera ferðamaður hér á landi og þekkja þau tvö sem sitji í gæsluvarðhaldi, hafi grennslast fyrir um afdrif þeirra, en þau vilji ekkert við hann kannast. Verður þetta ekki talið nægilegt til að uppfyllt teljist skilyrði 110. gr. laga nr. 19/1991 um að varnaraðili skuli sæta farbanni. Verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 6. júní 2008.
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur krafist þess fyrir dóminum í dag að X, fd. [...], rúmenskum ríkisborgara, verði með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness gert að sæta farbanni allt til föstudagsins 27. júní 2008, kl. 16:00.
Kærði krefst þess að kröfunni verði hafnað. Til vara er þess krafist að farbanni verði markaður skemmri tími.
Í greinargerð lögreglu kemur fram að tveir samlandar kærða voru handtekin eftir að hafa verið stöðvuð í tollhliði við reglubundið eftirlit er þau komu til landsins með flugi frá London sunnudaginn 18. maí s.l. Við leit í farangri þeirra fann lögregla og tollgæsla 60 óútfyllt kort, sams konar og greiðslukort sem höfðu að geyma segulrönd. Voru kortin vandlega falin innan um klæðnað í ferðatöskum þeirra.
Rannsókn máls þessa er vel á veg komin. Telur lögreglan rökstuddan grun fyrir því að umræddir samlandar kærða hafi ætlað að nota þau kort sem haldlögð voru í vörslum þeirra í ólögmætum tilgangi með því að koma þeim í umferð hér á landi og að kærði kunni að tengjast því máli. Hefur við rannsókn málsins komið fram að eitt kortanna var notað á Hótel Loftleiðum hér á landi þann 16. þessa mánaðar af lögmætum handhafa. Þá hefur komið í ljós að lögmætur handhafi þess greiðslukorts sem farmiðar samlanda kærða voru greiddir með er í vörslum hennar í Rúmeníu sem kveðst ekki hafa greitt farmiða til Íslands. Því telur lögreglustjóri að það kort kunni að vera falsað sem notað var við greiðslu farmiðanna. Með vísan til þessa telur lögreglustjóri að ætluð brot kærða og handtekinna samlanda hans kunni að vera mun umfangsmeiri og kunni að tengjast aðilum og skipulagðri glæpastarfsemi víða um heiminn. Er í þessu sambandi vísað til gagna sem fram eru lögð um umfangsmikil greiðslukortasvik samlanda kærðu hér á landi frá síðustu páskum en lögregla telur kærðu hugsanlega tengjast þeirr brotastarfsemi.
Þann 23. maí sl. kom kærði til landsins og hafði þann 27. maí sl. samband við lögmann í því skyni að grennslast fyrir um samlanda sína sem sitja nú í gæsluvarðhaldi. Var kærði handtekinn 30. maí hér á landi. Ljóst er að verulegs ósamræmis gætir í framburði aðila í málinu. Staðfest hefur verið af greiðslukortafyrirtækjum að 50 af kortum þeim sem samlandar kærða höfðu undir höndum höfðu að geyma greiðslukortaupplýsingar sem greiðslukortafyrirtæki hafa gefið út, all flest á Bretlandseyjum.
Meðal þess sem rannsaka þarf er aðdragandi ferðar kærða til landsins og tengsl hans við grunaða samlanda sína auk tengsla við hugsanlega vitorðsmenn á Íslandi og/eða erlendis auk annarra atriða.
Með vísan til alls framangreinds og gagna málsins telur lögreglustjóri fram kominn rökstuddan grun til að ætla að kærði kunni að tengjast grunuðum samlöndum sínum og vera viðriðinn ætluð brot þeirra gegn ákvæðum XVII. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940, einkum 155. gr., með því að afrita kort og gefa út samskonar kort með greiðslukortaupplýsingum til notkunar og gegn XXVI. kafla sömu laga, einkum 248. og 249. gr. með því að hafa notað og ætlað að nota afrituð greiðslukort til greiðslu farmiða þeirra hingað til lands og til frekari úttekta og notkunar hér á landi.
Kærði er rúmenskur ríkisborgari og mun eigi hafa sérstök tengsl við landið.
Telur lögreglustjóri brýna hagsmuni vera fyrir því að kærða verði meinuð för úr landi á meðan rannsókn á ætluðu broti hans er ólokið.
Fram er komið að kærði hefur borið að hann þekki umrædda samlanda sinna sem til dagsins í dag hafa sætt gæsluvarðhaldi vegna gruns brot gegn XVII. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940 en mikið ber á milli í framburði þeirra annars vegar og kærða hins vegar. Fallist er á það með lögreglustjóra að kærði teljist samkvæmt gögnum málsins vera undir rökstuddum grun um að tengjast brotum sem kunna að varða allt að 8 ára fangelsisrefsingu. Rannsókn málsins er ekki lokið. Kærði er rúmenskur ríkisborgari og mun ekki hafa nein sérstök tengsl við landið. Með hliðsjón af framangreindu verður því fallist á kröfu lögreglustjóra eins og hún er fram sett.
Úrskurð þennan kveður upp Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari.
Úrskurðarorð:
X, rúmenskum ríkisborgara, er gert að sæta farbanni allt til föstudagsins 27. júní 2008 kl. 16.00.