Hæstiréttur íslands
Mál nr. 437/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Málskostnaður
|
|
Mánudaginn
18. ágúst 2014. |
|
Nr.
437/2014. |
Maron ehf. (Guðjón
Ármann Jónsson hrl.) gegn þrotabúi Perlufisks ehf. (Bjarni Lárusson hrl.) |
Kærumál. Málskostnaður.
Staðfestur var
úrskurður héraðsdóms þar sem mál þrotabús á hendur M ehf. var fellt niður og M
ehf. gert að greiða þrotabúinu málskostnað tilgreindrar fjárhæðar.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Eiríkur
Tómasson og Þorgeir Örlygsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. júní 2014 sem barst
réttinum ásamt kærumálsgögnum 24. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness
3. júní 2014 þar sem mál varnaraðila á hendur sóknaraðila var fellt niður og
sóknaraðila gert að greiða varnaraðila 75.300 krónur í málskostnað. Kæruheimild
er í 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðili krefst þess að úrskurður
héraðsdóms um málskostnað varnaraðila til handa verði felldur úr gildi og sér
úrskurðaður málskostnaður í héraði úr hendi varnaraðila auk kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess aðallega að sóknaraðili greiði sér málskostnað í
héraði að mati Hæstaréttar, til vara staðfestingar hins kærða úrskurðar en að
því frágengnu að málskostnaður verði felldur niður. Í öllum tilvikum krefst
hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili hefur ekki kært úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti og kemur
aðalkrafa hans því ekki til álita við úrlausn málsins hér fyrir dómi.
Með vísan til síðari málsliðar 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, sbr.
2. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, og forsendna hins kærða úrskurðar
verður hann staðfestur.
Sóknaraðili greiði varnaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í
dómsorði en við ákvörðun hans er tekið tillit til dæmds kærumálskostnaðar í
samkynja málum aðila nr. 435/2014 og 436/2014.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Maron ehf., greiði varnaraðila, þrotabúi Perlufisks ehf.,
125.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 3. júní 2014.
Aðfararbeiðni
gerðarbeiðanda barst héraðsdómi Reykjaness 16. júní 2014. Málið var til
úrskurðar 22. maí sl.
Gerðarbeiðandi er þrotabú
Perlufisks ehf., kt. 661104-2440, Kirkjubraut 12,
Akranesi.
Gerðarþoli er Maron ehf.,
kt. 460303-2140, Háseylu 16, Reykjanesbæ.
Dómkröfur gerðarbeiðanda
voru þær að vöruflutningabifreiðin DH-693, af gerðinni Volvo FH12 6x4, ásamt
öllu sem henni fylgdi og fylgja bæri, yrði tekin úr vörslum gerðarþola með
beinni aðfarargerð og vörslur bifreiðarinnar fengnar Jóni Hauki Haukssyni hdl.,
umboðsmanni gerðarbeiðanda.
Þá krafðist
gerðarbeiðandi þess að gerðarþola yrði gert að greiða málskostnað að mati
dómsins.
Af
hálfu gerðarþola var framangreindum kröfum gerðarbeiðanda mótmælt og þá var
krafist málskostnaðar að mati dómsins.
Með vísan til c-liðar 1. mgr. 105.
gr. laga nr. 91/1991, sbr. 1. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, ber að
fella mál þetta niður.
Málið var
þingfest 4. febrúar sl. og var eftir það tekið fyrir alls fimm sinnum. Í ljósi þess,
atvika málsins og þess að gerðarþoli upplýsti ekki með fullnægjandi hætti um
málsatvik fyrr en skömmu áður en munnlegur málflutningur skyldi fara fram í
málinu þykir rétt að stefndi greiði stefnanda 75.300 krónur í málskostnað að
meðtöldum virðisaukaskatti. Við ákvörðun málskostnaðar er tekið tillit til tildæmds
málskostnaðar í málum aðila nr. E-163/2014 og E-205/2014, sem varða sömu
málsatvik og voru rekin voru samhliða þessu máli.
Ragnheiður
Bragadóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Mál þetta er fellt niður.
Gerðarþoli, Maron ehf.,
greiði gerðarbeiðanda, þrotabúi Perlufisks ehf., 75.300 krónur í málskostnað.