Hæstiréttur íslands
Mál nr. 477/2007
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Þriðjudaginn 18. september 2007. |
|
|
Nr. 477/2007. |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu(Jón H.B. Snorrason saksóknari) gegn X (Kristján Stefánsson hrl.) |
|
Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103 gr. laga nr. 19/1991.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Hjördís Hákonardóttir og Páll Hreinsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 13. september 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 14. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. september 2007, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi uns dómur gengur í máli hans, en þó eigi lengur en til þriðjudagsins 6. nóvember 2007 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Það athugast að samkvæmt gögnum málsins hefur ekki verið gefin út ákæra á hendur varnaraðila vegna þeirra ætluðu brota sem rannsókn sóknaraðila beinist að og gerð er grein fyrir í úrskurði héraðsdóms. Að þessu gættu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur á þann hátt sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Varnaraðili, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 6. nóvember 2007 kl. 16.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. september 2007.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur lagt fram kröfu um að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að [ ], kt. [ ], óstaðsettur í hús, Hafnarfirði, með dvalarstað að [ ], Reykjavík, sæti gæsluvarðhaldi uns dómur gengur í málum hans, þó eigi lengur en til þriðjudagsins 6. nóvember 2007, kl. 16:00.
Í greinargerð lögreglu kemur fram að kærði hafi verið handtekinn í nótt skömmu eftir að tilkynnt hafði verið um innbrot í verslunina Takka ehf., Síðumúla 34, Reykjavík. Hafði kærði í fórum sínum þýfi úr innbrotinu. Embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu hafi nú til rannsóknar fjölmörg mál á hendur kærða og sé ljóst að hann hafi einbeittan brotavilja og virðist ekkert lát vera á brotastarfsemi hans. Frá því að kærði lauk afplánun 3. ágúst sl. séu til rannsóknar á hann fjöldi mála og muni þau líklega öll sæta ákærumeðferð á næstunni. Þá hafi kærði strokið úr afplánun í júní s.l. og séu þrjú mál til rannsóknar á hann frá þeim tíma:
M. 007-2007-42876:
Innbrot í heimili við [ ], Reykjavík þann 11. júní sl. Þaðan hafi verið stolið miklu magni af skartgripum, ávísanahefti, fartölvu, vegabréfum, 75.000 kr. í reiðufé, 200 dönskum kr., 200 pundum, og MP3 spilara. Kærði hafi neitað aðild að þessu innbroti, en tveir aðrir sakborningar í málinu hafi sagt kærða hafa verið með þeim umrætt sinn.
M. 007-2007-46826 og 007-2007-47231:
Innbrot í Fella- og Hólakirkju tvisvar þann 22. júní sl. Í fyrra innbrotinu hafi verið tekin fartölva en í seinna innbrotinu hafi hleðslutæki fyrir fartölvuna verið tekið. Hafi kærði verið handtekinn skammt frá eftir seinna innbrotið þar sem hann hafi verið með hleðslutækið á sér. Kærði hafi þó neitað því að hafa verið í innbrotunum, en hafi þó ekki getað gefið neinar skýringar á því hvers vegna hann hafi verið með umrætt hleðslutæki meðferðis.
M. 007-2007-59731:
Hlutdeild að þjófnaði í verslun Bónus, þann 5. ágúst sl. Vinkona kærða hafi stolið ýmsum vörum úr versluninni og er starfsmaður verslunarinnar hafi ætlað að stöðva hana hafi kærði hjálpað henni að komast á brott með vörurnar.
M. 007-2007-62027:
Varsla fíkniefna með því að hafa aðfararnótt miðvikudagsins 15. ágúst sl. haft í vörslum sínum 2,1 gr. af amfetamíni, sem kærði játaði að eiga og hafi afhent lögreglu við leit hennar í bifreið hans [ ].
M. 0007-2007-62436:
Innbrot í bifreiðina [ ] fimmtudaginn 16. ágúst sl. þar sem hún hafi staðið fyrir utan Bygggarða 12, Reykjavík og stolið þaðan fartölvu, leðurtösku, 2 stk Garmin GPS leiðsögutæki, Nuvi 660 leiðsögutæki, stafrænni myndavél af gerðinni Canon EOS 350D í svartri tösku, veski með greiðslukortum og peningum, um 100.000 krónur. Kærði hafi neitað sök í málinu en hafi ekki getað gefið neinar skýringar á því hvers vegna greiðslukort úr bifreiðinni fannst í hans bifreið fjórum dögum síðar.
M. 007-2007-63256:
Innbrot í bifreiðina [ ] mánudaginn 20. ágúst s.l. þar sem hún hafi staðið fyrir utan [ ], Reykjavík. Kærði hafi neitað sök í málinu en vitni kvað mann hafa verið að gramsa í bifreiðinni og svipar lýsingu hans á manninum við kærða, þá sást maðurinn fara upp í bifreiðina [ ], en það sé bifreið kærða. Engu hafi verið stolið úr bifreiðinni.
M. 007-2007-63271:
Hilming, með því að hafa aðfararnótt 20. ágúst sl., er lögregla hafði afskipti af kærða, haft í fórum sínum, greiðslukort og atvinnuskírteini á nafni [ ], 19 GSM síma inneignir hver að andvirði 1.000 kr. (Tengist máli 007-2007-62436).
Fíkniefnaakstur, með því að hafa umrætt sinn ekið bifreið undir áhrifum fíkniefna, en Drug-wipe prufa gaf til kynna að kærði væri undir áhrifum amfetamíns umrætt sinn.
M. 007-2007-63371:
Nytjastuld á bifreiðinni [ ] mánudaginn 20. ágúst s.l. þar sem hún hafi staðið á bifreiðastæði við Kænuvog, Reykjavík og þjófnað úr henni, en þaðan hafi verið stolið lyfseðlum og Ipod tónlistarspilara. Kærði hafi játað sök í málinu.
M. 007-2007-67107:
Innbrot í Kennaraháskóla Íslands, við Skipholt 37, Reykjavík aðfararnótt laugardagsins 1. september sl. Kærði kveðst ekki muna atvik sökum lyfjaneyslu en bifreið hans sást aka burt af vettvangi.
M. 007-2007-67730:
Innbrot og þjófnað á Fóstbræðraheimilinu, við Langholtsveg 109-111, Reykjavík aðfararnótt þriðjudagsins 4. september sl. Kærði kvað það geta verið að hann hefði farið þarna inn en hann myndi það ekki sökum lyfjaneyslu. Kærði hafi ekki getað útskýrt hvernig barmmerki, sem tengist sambandi íslenskra karlakóra, komst í bifreið hans, en barmmerkið hafi horfið í innbrotinu.
M. 007-2007-67840:
Innbrot og þjófnað að [ ], Reykjavík, þriðjudaginn 4. september sl., en þaðan hafi m.a. verið stolið 42” flatskjá, myndavélum og fjölda skartgripa. Kærði kveðst ekkert muna sökum lyfjaneyslu.
M. 007-2007-68019:
Varsla fíkniefna miðvikudaginn 5. september sl. er lögregla hafði afskipti af kærða. Kærði hafi játað eign sína á efnunum og kvað það vera hass.
M. 007-2007-69644:
Innbrot í verslunina Takka ehf., við Síðumúla 34, Reykjavík, aðfararnótt 11. september 2007. Hafi kærði verið handtekinn skömmu eftir innbrotið og hafi hann þá verið með þýfi á sér úr innbrotinu.
Kærði hafi lokið afplánun 12 mánaða fangelsisrefsingar þann 3. ágúst sl. Kærði hafi strokið úr afplánun 9. júní sl. og hafi verið í stroki til 22. júní sl. Á þeim tíma séu þrjú mál skráð til rannsóknar á kærða, en rannsókn þeirra telst vera lokið. Þá séu til rannsóknar 11 mál á kærða frá því 5. ágúst sl. Kærði hafi langan brotaferil að baki og sé það mat lögreglu að hann hafi einbeittan brotavilja. Með vísan til framangreinds ferils kærða telji lögregla yfirgnæfandi líkur á því að kærði muni halda brotastarfsemi áfram fari hann frjáls ferða sinna og því nauðsynlegt að kærði sæti gæsluvarðhaldi á meðan mál hans sæta dómsmeðferð.
Með vísan til framanritaðs, framlagðra gagna og c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 er þess krafist að krafan nái fram að ganga.
Samkvæmt því sem rakið er í greinargerð lögreglustjóra og ráða má af öðrum gögnum málsins hafa verið og eru til rannsóknar hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu 13 mál sem kærði er grunaður um að eiga aðild að. Er þar meðal annars um að ræða innbrot í íbúðarhúsnæði og bifreiðar, en brot þessi voru öll framin á tímabilinu 9. júní sl. til 22. júní sl., er kærði strauk úr afplánun 12 mánaða fangelsisrefsingar, og frá 5. ágúst sl. Liggur og fyrir að kærði hefur verið í neyslu fíkniefna og hefur meðal annars fjármagnað þá neyslu sína með brotastarfsemi. Með vísan til þess og framangreinds rökstuðning í greinargerð lögreglustjóra að öðru leyti verður fallist á með lögreglustjóra að verulega hætta sé á að kærði muni halda áfram brotastarfsemi sé hann frjáls ferða sinna. Er því krafan tekin til greina eins og hún er fram sett en ekki þykir ástæða til að marka henni skemmri tíma.
Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Kærði, [ ], skal sæta gæsluvarðhaldi uns dómur gengur í málum hans, þó eigi lengur en til þriðjudagsins 6. nóvember 2007, kl. 16:00.