Hæstiréttur íslands
Mál nr. 636/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Lögræði
|
Þriðjudaginn 7. október 2014. |
|
|
Nr. 636/2014.
|
A (Guðmundur Óli Björgvinsson hrl.) gegn B (Hulda Rós Rúriksdóttir hrl.) |
Kærumál. Lögræði.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem synjað var kröfu A um að henni yrði veitt fjárræði að nýju.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Helgi I. Jónsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. september 2014, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 26. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. september 2014, þar sem synjað var kröfu sóknaraðila um að henni yrði veitt fjárræði að nýju. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess aðallega að fyrrgreind krafa hennar verði tekin til greina en til vara að fjárræðissvipting taki einungis til nánar tilgreindra eigna. Þá krefst hún þóknunar til handa skipuðum talsmanni sínum.
Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist þóknun skipaðs talsmanns sóknaraðila vegna flutnings málsins fyrir Hæstarétti úr ríkissjóði og ákveðst hún að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Þóknun skipaðs talsmanns sóknaraðila fyrir Hæstarétti, Guðmundar Óla Björgvinssonar hæstaréttarlögmanns, 125.500 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. september 2014.
Með beiðni, 18. febrúar sl., krafðist Bjarni Eiríksson hdl. þess fyrir hönd sóknaraðila, A, kt. [...], sem dvelst á hjúkrunarheimilinu [...] við [...] í Reykjavík, að úrskurðað yrði að sóknaraðili fengi fjárræði sitt að nýju, sem hún var svipt með úrskurði 26. júní 2013. Til vara hefur þess verið krafist að sóknaraðili verði áfram svipt fjárræði en einungis að því er varðar tilteknar eignir. Um aðild sóknaraðila vísast til 1. mgr. 15. gr., sbr. 1. mgr. 7. gr. lögræðislaga nr. 71, 1997. Varnaraðili mótmælir kröfunni.
Fram er komið í málinu að sóknaraðili á íbúð, verðbréf að andvirði um 660 þúsund krónur og tvo bankareikninga, samtals með um 600 þúsund króna innstæðu.
Í fyrrnefndum úrskurði héraðsdóms Reykjavíkur segir svo: „Í beiðni sóknaraðila kemur meðal annars fram að varnaraðili hafi flutt í lok mars sl. á hjúkrunarheimilið [...] í Reykjavík. Þangað hafi hún flutt af því að hún hafi verið ófær um að búa á sínu heimili lengur, þar sem hún hafi þurft langvarandi hjúkrun og aðstoð. Fram kemur að varnaraðili eigi íbúð en þar sem fyrir liggi að hún muni aldrei búa þar aftur þurfi að selja íbúðina. Varnaraðili eigi einnig bankareikninga. Kveður sóknaraðili að heilsufari varnaraðila hafi farið hrakandi og sé hún blind og bundin við hjólastól. Þá sé minni hennar afar lítið. Hún hafi því enga möguleika að gæta hagsmuna sinna, hvorki að selja fasteignina né annað. Sóknaraðili telji því að eina leið til þess að hagsmuna varnaraðila verði gætt sé að henni sé skipaður fjárhaldsmaður að undangenginni sviptingu.
Í málinu liggur fyrir vottorði C, lyfja- og öldrunarlæknis. Kemur þar fram að læknirinn hafi annast varnaraðila frá því hún hafi flutt á hjúkrunar-heimilið [...] 22. mars sl. Varnaraðili sé lögblind og með verulega skerta nýrnastarfsemi. Líkamlegt ástand hennar hafi verið stöðugt síðan hún hafi komið á [...]. Andlega sé varnaraðili einnig orðin skert. Sé hún bæði minnisskert og óáttuð. Hún kannist ekki við starfsfólk sem sinni henni daglega og muni ekki hluti sem séu ræddir við hana frá einni stund til annarrar. Í minnisprófi MMSE sem lagt hafi verið fyrir varnaraðila daginn sem vottorðið sé ritað hafi hún fengið 17/27 sem sé mikil skerðing. Hún geti ekki leyst þá þrjá þætti sem fólk þurfi að hafa sjón til að leysa. Telur læknirinn að vegna framangreindra orsaka sé varnaraðili ekki fær um að annast eigin fjármál.
[. . .]
Með vísan til framangreinds vottorðs læknis og skýrslu læknisins hér fyrir dómi þykir sýnt að heilsufari varnaraðila er þannig komið að hún telst ekki fær um að ráða fé sínu. Þykir því fullnægt skilyrðum a. liðar 4. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 til að fallast á beiðni sóknaraðila.”
Meðal gagna málsins er staðfest vottorð D heilsugæslulæknis, dagsett 7. febrúar sl., þar sem læknirinn segir það vera álit sitt að sóknaraðili sé ekki svo andlega skert að það réttlæti frekari fjárræðissviptingu en orðið er, þótt hún eigi að vísu við nokkra vanheilsu að stríða. Mat læknisins var byggt á skoðun og viðtali við sóknaraðila 25. september í fyrra. Segir læknirinn um þá skoðun að sóknaraðili hafi þurft stutta stund til þess að átta sig á því hver hann væri þegar hann heimsótti hana í framhaldi af símtali þeirra áður. Hafi hún verið áttuð á stund og stað og getað gert grein fyrir sjálfri sér, vikudegi og mánuði en ekki vitað mánaðardaginn. Þá hafi hún getað gert grein fyrir nöfnum barna sinna og fæðingarárum þeirra. Spurð um hvað væri efst á baugi í fréttum hafi hún sagt frá útvarpsfrétt um efnahagsmál, kjarasamninga og verðbólguhættu. Læknirinn hefur sagt fyrir dómi að hann hafi hitt sóknaraðila einu sinni og hafði þá ekki séð hana í þrjú ár. Þá hafi hann ekki getað spurst fyrir um hana hjá starfsfólki heimilisins.
Meðal gagna málsins er staðfest vottorð E, sérfræðings í öldrunarlækningum, dagsett 9. maí sl. Segir þar:
„I
Undirritaður hefur kynnt sér sögu og metið A, kt.: [...], með vitjunum til hennar 27. mars 2014, 28. mars 2014 og 14. apríl 2014. Einnig hef ég kynnt mér sjúkraskrá hennar og rætt við starfsfólk hjúkrunarheimilisins, en A hefur dvalist á hjúkrunarheimilinu [...] frá 22. mars 2013.
A er klædd í öll skipti sem ég kem til að meta hana, hún er vakandi og í hjólastól, en undirritaður kom til hennar eftir hádegið og í öll skiptin var vinur A, E, tilstaðar, en vék úr íbúðinni þegar ég mat hana. A gaf fúslega samþykki sitt til matsins.
A hafði verið undirbúin og sagt frá komu minn og kom hún henni ekki á óvart 27.og 28. mars,. Í síðasta skiptið, 14 apríl, þurfti ég að kynna mig fyrir henni á ný. Kemur það heim og saman við daglegt líf A en samkvæmt starfsmönnum [...] ber á minnistruflunum hjá henni. Hún endurtekur beiðnir um erindi sem þegar hefur verið sinnt.
Aðspurð um skilning hennar á komu minni kveðst A vita af hverju ég komi. „ Það sé „út af eigum hennar, X hafi sagt að hún væri blind og rugluð“. Aðspurð segir A að hún hafi ekki heyrt X segja þetta heldur hafi sonur hennar sagt henni það.
A segist vilja fá bankabókina sína sem hún hafi safnað fjármunum í frá 17 ára aldri aftur og íbúðina sína.
A getur ekki tjáð sig um eðli fjárræðissviftingar við undirritaðan, veit ekki hvað í því felst hvorki þjónusta við hana né réttindi.
II
Fyrri sjúkrasaga og rannsóknir.
A býr við afleiðingar margra sjúkdóma.
Hún er með þekktan háþrýsting, kransæðahjartasjúkdóm og fékk kransæðastíflu 1987, en haft lítil einkenni frá hjarta. Merki um heilaæðasjúkdóm, hvítaefnisbreytingar.
Minnistruflun skorað lágt á minnisprófum MMSE 18/27 þann 22.10.2012.
Er með afar skerta nýrnastarfsemi, króníska nýrnabilun með kreatininblóðgildi >400 (gaukulsíunarhraði 8ml/min) lokastigssjúkdómur.
Langvinnur lungnasjúkdómur.
Fór í aðgerð vegan krabbameins í brjósti en þurfti að hætta eftirlyfjameðferð (Tamoxifen) vegna aukaverkana.
Briskirtilsbólgu fyrir 6 árum síðan og í kjölfarið óráð fékk einnig brisbólgu á síðustu öld.
Áfengisveiki ( Alcohol dependence) Ekki .drukkið áfengi undanfarin ár.
Gláka. Farið í aðgerð á hægra auga mikil sjónskerðing til staðar án batavonar.
Er með þéttingu í lungnatoppi sem hefur verið óbreytt frá því á miðju ári 2010 en orðin minna áberandi.
Slitgigt
Margar og viðeigandi rannsóknir hafa verið framkvæmdar þar á meðal við innlögn á Landspítalann 2012 vegna bráðs ruglástands, málstols og ofskynjunum. Er þá með bráða nýrnabilun til viðbótar við króníska. Tölvusneiðmynd af höfði 2 daga í röð vegna gruns um heilaslag sýndi eldri skemmd vinstra megin (cortical infarct frontalt). Talsverðar hvítavefssbreytingar við bæði fram- og afturhorn heilans. Það sást einnig lágþéttnibreyting sem teygir sig inn að corona radiatasvæðinu aftan til hægra megin, hugsanlega ummerki eftir eldra heilablóðfall (infarct). Örlitar eyður (lacunar) sjást í capsula externasvæðinu vinstra megin. en engar nýtilkomnar breytingar, ekki merki um fyrirferð eða nein klár merki um nýjan infarct.
Segulómun af heila rúmum mánuði síðar sýnir : Engin merki um infarct, blæðingu eða fyrirferðir. Heilahólf ekki víkkuð. Töluverðar hvítavefsbreytingar periventriculert og svarandi til centrum semiovale. Lítilsháttar hvítavefsbreytingar í pons.
Hvítavefsbreytinga tengjast háþrýstingi og skertri heilastarfsemi en eru ekki óyggjandi vísbendingar um minnisveiki eða andlega vangetu.
Í október 2012 fór fram formlegt mat á vitræni geti A í legu á Landspítalanum (MMSE próf) og fékk hún 18 stig af 27 (hafði ekki getað lesið né skrifað vegna sjónskerðingar og náði því ekki að fullgera prófið sem gefur 30 stig mest). Það þykir benda til minnistruflunar að hafa 21-24/30 stigum á þessu prófi.
Veikindi og vangeta A leiða síðan til þess að hún er metin í þörf fyrir hjúkrunarheimilisvist síðla árs 2012 og fær í framhaldi af því úthlutað íbúð í [...] (hjúkrunarheimili) þar sem hún nýtur sólarhringsaðstoðar.
III
Læknisfræðilegt mat samantekið úr viðtölum og skoðun 27., 28. mars og 14. apríl 2014.
A sat í hjólastól á herbergi sínu í þau þrjú skipti sem ég hitti hana. Var snyrtileg útlits, vakandi og svaraði spurningum mínum, en hafnaði því að taka þátt í formlegu minnisprófi. Matið er því byggt á samtölum og könnun á þeim þáttum sem tengjast minni og skilningi. Ef hana rak í vörðurnar, sem var nokkuð oft ef samtalið beindist að sérstökum þáttum, þá hætti hún í miðjum klíðum og neitaði að svara fleiri spurningum. Það þurfti því endurteknar heimsóknir til að nálgast mat á getu A. Nokkurrar þráhyggju gætti í samtölum við hana varðandi fjármál.
A mundi sæmilega vel atriði úr sinni persónusögu, skólagöngu kunni skil á börnum sínum, en minna það sem snéri að veikindum og sjúkrahúsvist síðari ára.
Andleg líðan virtist góð, þó umræða um fjármál hennar leiddu ætíð til sömu niðurstöðu að hún væri reið vegna þess að hún hefði ekki bankabókina sína. “X tók af mér fjárráðin” og íbúðina.
Aðspurð að því hvar sú íbúð sé staðsett segir A „ æ þú keyrir upp brekkuna þarna, æ hvað heitir hún“ „...það er þarna“ og bendir út frá sér
Það sé þriggja herbergja íbúð. Aðspurð hvað hún ætli að gera við íbúðina segir hún leigja eða selja
Aðspurð um það hvort hún ætli að standa í því sjálf segist A ætla að fá lögfræðing í það.
Eigin geta (ADL). Samkvæmt starfsfólki þarf A mikla aðstoð við athafnir daglegs lífs, A er aðstoðuð við klæðnað, bað, lagður fyrir hana matur en hún borðar sjálf. Getur gengið skemri vegalengdir með göngugrind, t.d. með aðstoð frá rúmi inn á bað max. ca 10m. Hún er afar sjónskert og getur ekki lesið og þarf að leggja matinn nákvæmlega á diska til að hún eigi auðveldara með að matast.
Ég gat ekki fundið einkenni þunglyndis eða geðrofs, en A var ekki fulláttuð á því hvar hún var eða hvað tímanum leið. Mundi ekki nákvæmlega hvenær hún flutti inn í [...], taldi það hafa verið skömmu fyrir síðustu jól. Innsæi í sjúkdóma lítið, telur sig geta lesið þrátt fyrir mikla sjónskerðingu, en fæst ekki til að færa sönnur á lestrargetu.
Reiknigeta: Einföld reikningsdæmi kláraði A í huganum (3+4+5) og hugmyndir hennar um verðgildi hluta virtust raunhæfar, en þegar reyna átti á nærminni (endurtekið) sagði A sig frá formlegum prófum, En minni hennar er greinilega skert. A man ekki hvaða dagur er né mundi hún eftir samtölum okkar og þeim prófum sem hún hafnaði þátttöku í (MMSE, klukkuprófi, þunglyndismati) við fyrri heimsóknir. Hún vissi að hún væri í [...] en ekki nánar. Man 1 hlut af 3 þegar nærminni er prófað. Reiknar í huganum 3+4+5=12 og fær rétta útkomu.
Ekki var hægt að meta hana með prófum sem útheimta sjón eða skrift. Því þó A fullyrti við undirritaðan að sjónin væri góð, þá var ekki hægt að staðfesta það. Grunur leikur á að hún hafi sjónsviðsskerðingu til hægri (homonym hemianopsiu) auk þess sem staðfest er af auglækni að sjónin er afar skert vegna gláku. Það kom einnig fram í mati A á eigin sjálfsbjargargetu að hún ofmetur getu sína. Kveður sig geta klætt sig, baðað og hreyft sig og séð um sig að mestu leiti.
Líkamleg geta. A sat í hjólastól í þau skipti sem ég ræddi við hana, kraftur í útlimum er jafn en skertur almennt þó ekki séu lamanir, ekki ber mikið á einkennum langvinns lungnasjúkdóms í samtali, þó má greina aðeins aukna öndunartíðni. A hafnaði því að standa upp eða flytja sig um set sjálf og því ekki lagt mat á hreyfigetu hennar, en starsfólk ber að hún þurfi aðstoð við þetta þvert á það sem A staðhæfir.
Þegar reynt er fá upplýsingar um það hvað fyrir A vakir og hvort hún er fær um að gera sér grein fyrir afleiðingum ákvarðana vísar hún því frá sér.
IV
Niðurstaða:
Ljóst er að A glímir við mikinn og vaxandi heilsufarsvanda, sjónskerðingu og afar skerta líkamlega getu, hamlandi minnistruflanir og þráhyggjukenndar hugsanir. Hún er innsæislaus í eigin sjúkdóma og getu.
Mitt mat er að hún hafi ekki getu til að skilja flókna fjárhagslega gjörninga.“
Læknirinn hefur sagt fyrir dómi að ekki sé vitað hvort sóknaraðili sé haldinn anga af alzheimers-sjúkdómi eða hvort ástand hennar stafi af heilaslagi. Hafi hún ekki verið til samvinnu um greiningu á hefðbundinn hátt. Því hafi verið látið nægja að lýsa afleiðingunum af sjúkdómi hennar. Hvor sem orsökin til þeirra sé muni þær ekki ganga til baka hjá henni. Ástæða þess að hún sé ekki fær um að gera flókna fjármálagerninga sé minnisleysi sem myndi hindra hana í því að sjá fyrir afleiðingar gerða sinna í þeim efnum. Þannig myndi hún gleyma þeim ákvörðunum sem hún hefði tekið og þá þyrfti að byrja aftur upp á nýtt. Um hvað átt sé við með „flóknum fjármálagerningum“ segist læknirinn eiga við ráðstafanir sem séu í eðli sínu flóknar vegna margra eða mikilla eigna eða þá að afleiðingar ráðstafananna hafi áhrif á fjárhag viðkomandi í framtíðinni. Verðskyn eða hæfileikinn til þess að reikna geti ekki hjálpað þar til. Ráðstafanir í sambandi við fasteignir eða verðbréf séu því flóknar í þessum skilningi.
Um það hvort sóknaraðili sé fær um að fylgjast með stöðu bankareiknings og því hvort tekið er út af honum án heimildar segir læknirinn að það myndi hún ekki geta án hjálpar annarra vegna sjónskerðingarinnar. Þá sé ekki víst að hún myndi muna eftir því að fylgjast með stöðu reikningsins eða muna hver hún væri á hverjum tíma. Hún geti verið fær um að greiða út af reikningi einfaldar, reglulegar greiðslur, þótt hún sé haldin minnisbilun. Að færa á milli reikninga, muna lykilorð o.þ.h. sé hún ekki fær um.
A hefur komið fyrir dóm og gert nokkra grein fyrir máli sínu. Kveðst hún ekki geta sætt sig við það að hafa verið svipt fjárræði sem hafi verið ástæðulaus ráðstöfun. Hún kveðst eiga íbúð og búslóð og óska þess helst að fá að hafa íbúðina og búslóðina í umráðum sínum til þess að geta komið þar og notið þess að rifja upp fyrri tíma, þótt hún flytti ekki þangað. Hún kveðst aðspurð gera sér grein fyrir því að þessu fyrirkomulagi hljóti að fylgja nokkur kostnaður. Hún segist eiga bankareikning en kannast ekki við að tekið hafi verið út af honum í heimildarleysi. Loks segist hún hafa átt bíl, sem hún seldi fyrir alllöngu síðan. Hún segist muna eftir að hafa hitt E lækni sem hafi komið til þess að grennslast fyrir um heilsu hennar. Ekki muni hún hversu margar þær heimsóknir voru. Aðeins ber á minnisleysi í frásögn A og því að henni hættir til að missa þráðinn.
Niðurstaða
Dómurinn álítur vafalaust af því sem fram er komið að A er haldin heilabilun sem einkum lýsir sér í minnisleysi. Þá liggur fyrir að hún er verulega sjónskert. Að mati E öldrunarlæknis er hún einungis fær um að gera venjulegar og einfaldar fjárhagsráðstafanir. Enda þótt sjónskerðing geti ein sér ekki verið ástæða fjárræðissviptingar verður að telja að hún geri heilabilun sóknaraðila tilfinnanlegri en ella væri, dragi úr færni hennar til þess að ráða fé sínu en auki jafnframt hættuna á því að aðrir geti haft af henni fé. Álítur dómurinn að hún sé af þessum sökum ekki fær um að ráða fé sínu í skilningi a- liðar 1. mgr. 4. gr. lögræðislaga. Eru því ekki skilyrði til þess að hagga við úrskurði héraðsdóms Reykjavíkur, 26. júní 2013, um það að sóknaraðili skuli vera svipt fjárræði.
Kostnað af máli þessu, þ.m.t. þóknun ásamt virðisaukaskatti til skipaðra talsmanna aðilanna, Bjarna Eiríkssonar hdl., 50.000 krónur, Guðmundar Óla Björgvinssonar hrl., 200.000 krónur, og Huldu Rósar Rúriksdóttur hrl., 250.000 krónur, ber að greiða úr ríkissjóði.
Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.
Úrskurðarorð:
Synjað er kröfu sóknaraðila, A, um það að úrskurður um það að hún sé svipt fjárræði, 26. júní 2013, verði felldur úr gildi.
Kostnaður af máli þessu, þ.m.t. þóknun ásamt virðisaukaskatti til skipaðra talsmanna aðilanna, Bjarna Eiríkssonar hdl., 50.000 krónur, Guðmundar Óla Björgvinssonar hrl., 200.000 krónur, og Huldu Rósar Rúriksdóttur hrl., 250.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.