Hæstiréttur íslands

Mál nr. 21/2004


Lykilorð

  • Eftirlaun


Fimmtudaginn 27

 

Fimmtudaginn 27. maí 2004.

Nr. 21/2004.

Sigurður Njálsson

(Einar S. Hálfdánarson hrl.)

gegn

Síldarvinnslunni hf.

(Helgi Jóhannesson hrl.)

og gagnsök

 

Eftirlaun.

SN, sem starfað hafði sem skrifstofustjóri SR, hélt því fram að hluti starfskjara hans hafi falist í því að hann skyldi njóta ellilífeyris úr eftirlaunasjóði starfsmanna SR. Með því að umræddur lífeyrissjóður var fyrst stofnaður eftir að SN lét af störfum hjá SR og þar sem ekkert benti til þess að í starfskjörum SN hafi falist réttur til greiðslna úr eftirlaunasjóði eftir að hann lét af störfum, var S sýknaður af öllum kröfum SN.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Guðrún Erlendsdóttir og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 14. janúar 2004. Krefst hann þess aðallega að viðurkennt verði að gagnáfrýjanda beri að greiða sér „eftirlaun er samsvari 26,83% af launum skrifstofustjóra Síldarverksmiðja ríkisins samkvæmt þeim reglum sem gilda og gilt hafa um lífeyrisgreiðslur til sjóðfélaga í lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins sem hófu töku lífeyris í aprílmánuði 1987. Frá því að staða skrifstofustjóra Síldarverksmiðja ríkisins var lögð niður til gildistöku laga nr. 1/1997 um lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins er þess krafist að viðurkennt verði með dómi að [gagnáfrýjanda] beri að greiða [aðaláfrýjanda] eftirlaun er samsvari 26,83% af launum fyrir sambærilegt starf. Frá gildistöku laga nr. 1/1997 ... er þess krafist að viðurkennt verði með dómi að eftirlaunin skuli fylgja meðalbreytingum sem verða á föstum launum opinberra starfsmanna fyrir dagvinnu, skv. 24. grein laga nr. 1/1997.“ Til vara krefst aðaláfrýjandi þess að viðurkennt verði að gagnáfrýjanda beri að greiða sér eftirlaun úr Eftirlaunasjóði starfsmanna Síldarverksmiðja ríkisins. Til þrautavara krefst aðaláfrýjandi þess að viðurkennt verði að gagnáfrýjanda beri að greiða sér eftirlaun. Í öllum tilvikum miðar aðaláfrýjandi upphaf lífeyrisgreiðslna við 1. október 1989, en að því frágengnu 1. október 1995. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. 

Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 18. febrúar 2004. Hann krefst staðfestingar héraðsdóms um annað en málskostnað og að honum verði dæmdur málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti.   

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Aðaláfrýjandi verður dæmdur til að greiða gagnáfrýjanda málskostnað fyrir Hæstarétti, sem verður ákveðinn eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Aðaláfrýjandi, Sigurður Njálsson, greiði gagnáfrýjanda, Síldarvinnslunni hf., 150.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 27. október 2003.

          Mál þetta, sem dómtekið var hinn 15. september sl., að loknum munnlegum málflutningi, var höfðað af Sigurði Njálssyni, kt. 270322-3369, Efstaleiti 14, Reykjavík, SR-mjöli hf., kt. 560793-2279, Kringlunni 7, Reykjavík, nú á hendur Síldarvinnslunni hf., með stefnu áritaðri um birtingu og þingfestri 14. maí 2002.

             Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær aðallega, að viðurkennt verði með dómi, að stefnda beri að greiða stefnanda eftirlaun, er samsvari 26,83% af launum skrifstofustjóra Síldarverksmiðju ríkisins, samkvæmt þeim reglum, sem gilda og gilt hafa um lífeyrisgreiðslur til sjóðfélaga í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, sem hófu töku lífeyris í aprílmánuði 1987.  Frá því að staða skrifstofustjóra Síldarverksmiðja ríkisins var lögð niður til gildistöku laga nr. 1/1997, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, er þess krafist, að viðurkennt verði með dómi, að stefnda beri að greiða stefnanda eftirlaun, er samsvari 26,83% af launum fyrir sambærilegt starf.  Frá gildistöku laga nr. 1/1997, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, er þess krafist að viðurkennt verði með dómi að eftirlaunin skuli fylgja meðalbreytingum, sem verða á föstum launum opinberra starfsmanna fyrir dagvinnu, samkvæmt 24. gr. laga nr. 1/1997.

             Til vara krefst stefnandi þess, að viðurkennt verði með dómi, að stefnda beri að greiða stefnanda eftirlaun úr Eftirlaunasjóði starfsmanna SR.

             Til þrautavara krefst stefnandi þess, að viðurkennt verði með dómi, að stefnda beri að greiða stefnanda eftirlaun.

             Þá krefst stefnandi þess aðallega, að dæmt verði, að upphafstími lífeyrisgreiðslna verði 1. október 1989.  Til vara er þess krafist, að dæmt verði, að upphafstími lífeyrisgreiðslna verði 1. október 1995.

             Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda.

             Stefndi krefst aðallega frávísunar málsins, en til vara, að hann verði sýknaður af kröfugerð stefnanda.  Í báðum tilvikum krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda, að skaðlausu.

             Með úrskurði, dagsettum 26. febrúar sl., var frávísunarkröfu stefnda hafnað.

             Gætt var ákvæða 115. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, áður en dómur var kveðinn upp.

II

             Stefnandi máls þessa starfaði sem skrifstofustjóri Síldarverksmiðja ríkisins frá 1. ágúst 1945 til ársloka 1958.  

Mál þetta snýst um meinta skyldu stefnda til að greiða stefnanda eftirlaun samkvæmt þeim reglum, sem gilda um lífeyrisgreiðslur til sjóðfélaga í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins.  Telur stefnandi sig eiga rétt til eftirlauna frá Síldarverksmiðjum ríkisins, sem störfuðu samkvæmt lögum nr. 1/1938, um Síldarverksmiðjur ríkisins og voru lagðar niður með lögum nr. 20/1993, um stofnun hlutafélags um Síldarverksmiðju ríkisins.

Stefnandi kveður að á stjórnarfundi Síldarverksmiðja ríkisins þann 1. mars 1940, sem haldinn hafi verið á Hótel Borg hafi 4. tl. á dagskrá fundarins verið tillaga um að stofnaður yrði eftirlaunasjóður fyrir starfsmenn SR.  Stjórnin hafi tekið vel í málið og falið framkvæmdastjóra að athuga það nánar.  Í framhaldi af þessu, eða á fundi stjórnar hinn 22. maí 1940, hafi verið tekin ákvörðun um stofnun eftirlaunasjóðsins, og hafi af því tilefni verið lagðar fram, sem stofntillag, 50.000 krónur af óráðstöfuðum tekjuafgangi fyrra árs.  Hafi framkvæmdastjóra verið falið að semja reglugerð fyrir sjóðinn svo fljótt sem auðið var.  

Í reglugerð sjóðsins, sem fundist hafi á Bókasafni Siglufjarðar, segi, að sjóðféð skuli aðskilið frá eignum SR.  Þar séu ofangreindar 50.000 krónur taldar meðal tekna sjóðsins.  Einnig sé þar ákvæði um 2% tillög sjóðfélaga.

Í samræmi við framangreinda samþykkt hafi síðan jafnaðarlega verið lagt í sjóðinn.  Skömmu eftir að stefnandi hafi komið til starfa hjá Síldarverksmiðjum ríkisins, þ.e.a.s. hinn 31. desember 1945, hafi verið í sjóðnum 65.004,78 krónur, en 141.542,92 krónur, þegar hann lét af störfum hinn 31. desember 1958, sbr. ársreikninga Síldarverksmiðja ríkisins fyrir árin 1945 og 1958.

Á stjórnarfundi Síldarverksmiðja ríkisins, sem haldinn hafi verið hinn 25. nóvember 1959, hafi verið á dagskrá fundarins, eftirlaunasjóður fastra starfsmanna SR.  Hafi þar komið fram að ætlun stjórnar SR væri sú, að verksmiðjurnar stofnuðu eigin lífeyrissjóð fyrir starfsmenn sína með hliðstæðum reglum og skuldbindingum og giltu fyrir lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins.  Stofnun sjóðsins miðaðist við ársbyrjun 1959 og hefjast þá greiðslur af hálfu SR og starfsmanna sjóðsins.  Hins vegar skyldi SR taka á eigin herðar að standa undir skuldbindingum til fastra starfsmanna miðað við það, að sjóðurinn væri stofnaður í ársbyrjun 1940, að svo miklu leyti sem fastir starfsmenn misstu einhvers við það, að hann væri ekki stofnaður fyrr en 1. janúar 1959.  Viðskiptaframkvæmdastjóra var falið að ganga frá uppkasti að reglugerð fyrir lífeyrissjóð SR í samráði við sérfróðan mann og bera síðan uppkastið undir verksmiðjustjórn.  Samþykkt var að senda framangreindum fulltrúum starfsmanna afrit þessarar bókunar.  Umrædd ákvörðun stjórnar var framkvæmd og réttindi keypt í Lífeyrissjóði starfsmanna Síldarverksmiðja ríkisins vegna fjórtán starfsmanna, sem taldir eru upp í bréfi Sjávarútvegsráðuneytisins, dagsettu 8. september 1995.

Á árinu 1971 fór fram réttindaflutningur milli Lífeyrissjóðs starfsmanna SR og Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, sem tók að sér skuldbindingar Lífeyrissjóðs starfsmanna SR.  Stefnandi kveður, að þegar lífeyrissjóður starfsmanna SR hafi skilað af sér hafi komið fram eignir, sem nemi 2.558.965 krónum, þ.e. 61.916,16 krónur bundnar í skuldabréfum og 2.097.048,60 króna ógreidd skuld SR til sjóðsins.

             Stefnandi máls þessa hefur áður höfðað mál á hendur stefnda vegna sama sakarefnis, og var dómur í því máli kveðinn upp í héraði hinn 19. desember 2000, þar sem stefndi var sýknaður af kröfum stefnanda. Þeim dómi var áfrýjað til Hæstaréttar, sem með dómi, dagsettum 8. nóvember 2001, vísaði málinu frá héraðsdómi vegna vanreifunar þess.  Í rökstuðningi Hæstaréttar kemur fram, að þar sem hvorki hafi verið lögð fram reglugerð fyrir Eftirlaunasjóð SR, og þar með sé óvíst um, hvort og þá hvaða réttur til ellilífeyris starfsmönnum Síldarverksmiðja ríkisins kunni að hafa verið ákveðinn í reglugerðinni, né liggi fyrir, hver framlög Síldarverksmiðja ríkisins til eftirlaunasjóðsins fram til þess, að lífeyrissjóður starfsmanna var stofnaður, hafi verið, yrði ekki lagður efnisdómur á málið.

III

Stefnandi byggir kröfur sína á því, að hann hafi áunnið sér eftirlaunarétt, sem verði ekki af honum tekinn frekar en önnur starfskjör hans.  Einnig byggir stefnandi á því, að það hafi verið brot á jafnræðisreglu að Síldarverksmiðjur ríkisins hafi keypt réttindi handa öllum öðrum starfsmönnum en stefnanda og hafi í því sambandi miðað við daginn eftir að stefnandi hafi látið af störfum.  Ekki verði um það deilt, að greiðsla Síldarverksmiðju ríkisins, sem þær hafi innt af hendi án mótframlags starfsmanna hafi verið endurgjald fyrir liðinn starfstíma.  Slíkt framlag af hálfu ríkisins án skyldu sé óhugsandi og verði ekki önnur ályktun dregin af því, en að Síldarverksmiðjur ríkisins hafi talið sér það skylt.  Jafnframt verði að telja að tímabilið sem réttindakaupin hafi miðast við hafi ekki verið valin af tilviljun.

Stefnandi telur, að hann hafi átt að njóta réttinda samkvæmt lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, sbr. dóm Hæstaréttar í málinu nr. 90/1996.  Honum hafi því borið réttur til eftirlauna í samræmi við 13. gr. laga nr. 38/1954.  Fastir starfsmenn allra annarra ríkisfyrirtækja virðist hafa notið lífeyrisréttinda fyrir það tímabil sem stefnandi geri kröfu um.  Það væri því brot á jafnræðisreglu ef ríkið keypti þannig lífeyrisréttindi handa föstum starfsmönnum ríkisfyrirtækja, en ekki handa stefnanda.  Hvíli sú skylda á Síldarverksmiðjum ríkisins.

Eins og áður greinir telur stefnandi það hafa verið hluta af starfskjörum sínum, að Síldarverksmiðjur ríkisins legðu til fé í eftirlaunasjóð starfsmanna meðan hann starfaði þar.  Það fé, sem til hafi verið í eftirlaunasjóði Síldarverksmiðja ríkisins, hafi aldrei getað orðið til frjálsrar ráðstöfunar til handa Síldarverksmiðju ríkisins, enda hafi verksmiðjurnar fært það til skuldar, eins og aðrir væru eigendur fjárins.

Stefnandi kveður verksmiðjurnar hafa virt þessar skuldbindingar sínar í verki alla tíð.  Kveður stefnandi ekkju Magnúsar Blöndals, starfsmanns Síldarverksmiðja ríkisins, hafa fengið greidd eftirlaun frá 1945 til giftingar.  Ekkja Benónýs Benediktssonar, starfsmanns Síldarverksmiðja ríkisins, hafi fengið greidd eftirlaun meðan hún lifði á 5. og 6. áratugnum.  Guðjón Jónsson, yfirverkstjóri, hafi fengið greidd 60% af launum eftir að hann hafi látið af störfum á 6. áratugnum.  Hins vegar verði ekki betur séð en að stefnandi sé eini fasti starfsmaður félagsins, sem ekki hafi notið eftirlaunaréttar áðurgreint tímabil.

Stefnandi kveðst hafa starfað allan sinn starfstíma hjá verksmiðjunum í trausti þess að með því væri hann að eignast eftirlaunarétt.  Þegar á árinu 1992, er hann hafi orðið 70 ára, hafi hann gert reka að því að fá greiðslur, en hann hafi talið að réttur sinn til eftirlauna miðaðist við þann aldur.  Stefnandi telur það ekki vera á sínu færi að móta peningakröfu á hendur stefnda vegna þess að til þess hafi hann ekki nægilegar upplýsingar.  Viðmiðun hans við laun skrifstofustjóra Síldarverksmiðju ríkisins byggist á þeirri stöðu, sem hann hafi gegnt og hundraðshluti af viðmiðunarlaunum byggist á því, sem upplýst sé um það efni í bréfi lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins.

Stefnandi vísar til 2. gr. laga nr. 14/1905, um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda, varðandi hugsanlega fyrningu.  Upphaf fyrningartíma sé þegar réttindin verði virk.  Einstaka greiðslur fyrnist á fjórum árum, sbr. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 14/1905.  Byggir stefnandi á því, að Síldarverksmiðjur ríkisins hafi vanrækt að skýra frá atvikum sem krafan byggist á, þ.e. hinni formlegu stofnun eftirlaunasjóðsins árið 1940.  Einstaka greiðslur fyrnist því á fjórum árum frá árinu 1998, sbr. 11. gr. laga nr. 14/1905.  Tímaviðmiðun aðalkröfu, þ.e. að miða við aprílmánuð, byggir stefnandi á 12. gr. laga nr. 29/1963, en stefnandi hafi orðið 65 ára gamall í mars 1987.  Viðmiðun upphafstíma við 1. október 1989 byggist á því, að vanræksla stefnda eigi að leiða til þess, að 7. gr. laga nr. 14/1905 eigi við um fyrningu einstakra greiðslna, en ekki 3. gr. eða 2. mgr. 4. gr. þeirra laga.

Um lagarök vísar stefnandi til laga nr. 20/1993, um stofnun hlutafélags um Síldarverksmiðjur ríkisins, laga nr. 29/1963, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, laga nr. 1/1997, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins og laga nr. 38/1954, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.  Þá vísar stefnandi til ólögfestrar jafnræðisreglu, nú 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Jafnframt vísar stefnandi til reglna vinnuréttarins um starfskjör launþega.

Kröfu um málskostnað byggir stefnandi á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

IV

             Stefndi vísar til þess, að með lögum nr. 20/1993, hafi verið ákveðið að stofna hlutafélag um Síldarverksmiðjur ríkisins (SR).  Samkvæmt 1. gr. þeirra laga hafi ríkisstjórninni verið heimilt að leggja hlutafélaginu til eignir SR sem stofnfé, og samkvæmt 9. gr. hafi ráðherra verið heimilt, fyrir hönd ríkissjóðs, að yfirtaka skuldir SR fyrir allt að fjárhæð 500 milljónir króna.  Vegna bágrar fjárhagslegrar stöðu SR á þeim tíma sem unnið hafi verið að því að breyta rekstrarformi verksmiðjanna í hlutafélagsform hafi skuldir og skuldbindingar verið lækkaðar umtalsvert þannig að unnt væri að lögum að framkvæma breytingarnar.  Stofnsamningur félagsins sé dagsettur 6. júlí 1993.  Í 1. mgr. 4. gr. segi, að félagið taki við öllum rekstri, eignum og skuldum SR eins og þær verði 1. ágúst 1993.  Frá sama tíma taki félagið við hvers konar skuldbindingum, réttindum og skyldum SR.  Ekki verði séð af stofnefnahagsreikningi félagsins, þ.e.a.s. SR-mjöls hf., að félagið yfirtaki nokkrar skuldbindingar gagnvart stefnanda, hvorki lífeyrisskuldbindingar né aðrar greiðsluskuldbindingar.  Samkvæmt tilkynningu Hagstofu Íslands yfirtók Síldarvinnslan hf. SR-mjöl hf., og frá og með 1. janúar 2003 tók það félag við öllum eignum og skuldum, réttindum og skyldum SR-mjöls hf.

             Stefndi byggir sýknukröfu sína á því, að fullyrðingar stefnanda um að eftirlaunasjóður SR hafi verið til og skapað starfsmönnum verksmiðjunnar rétt, áður en Lífeyrissjóður starfsmanna SR hafi verið stofnaður, standist ekki, samanber framlögð afrit fundagerða stjórnar SR frá árunum 1940 til 1942.  Fundagerðirnar beri það með sér, að enginn eftirlaunasjóður hafi verið starfræktur fyrr en Lífeyrissjóður starfsmanna SR hafi verið stofnaður.  Hins vegar hafi vilji stjórnar SR í þessu efni lengi legið fyrir, eða allt frá árinu 1940, sem án efa hafi verið ástæða þess, að stjórnin hafi tekið ákvörðun um að kaupa föstum starfsmönnum réttindi aftur í tímann.  Til þess hafi stofntillagið verið notað.  Geti stefnandi ekki reist kröfur sínar á fyrirætlunum stjórnarinnar, sem ekki hafi enn verið komnar til framkvæmda, er stefnandi hafi látið af störfum.

             Stefndi kveður það rétt hjá stefnanda, að stofntillag stjórnarinnar hafi verið fært til skuldar í efnahagsreikningi verksmiðjanna, þar sem stjórnarsamþykkt hafi legið fyrir um að verja hluta hagnaðar af rekstrinum til þessa.  Hins vegar hafi eftirlaunasjóður ekki verið fyrir hendi.  Stefndi telur að ekki sé hægt að draga þá ályktun,  að eftirlaunaréttur hafi stofnast fyrir alla fasta starfsmenn, þar eð sjóðurinn hafi ekki verið til frjálsrar ráðstöfunar fyrir SR.

             Stefndi mótmælir þeirri fullyrðingu stefnanda, að jafnaðarlega hafi verið lagt í sjóðinn og að stefnandi hafi sjálfur greitt í sjóðinn, enda engin gögn sem sýni það.  Vísbending sé hins vegar í fundagerðum SR, um að svo hafi ekki verið gert. 

             Eftirlaunagreiðslur til starfsmanna fyrir stofnun Lífeyrissjóðs starfsmanna SR hafi ekki verið úr eftirlaunasjóðnum heldur hafi í þeim tilvikum er greidd hafi verið eftirlaun vegna starfsmanna, sem störfuðu á sama tíma og stefndi hjá verksmiðjunum, verið gerð sérstök stjórnarsamþykkt, sem heimilaði slíkar greiðslur. Mótmælir stefndi því, að SR hafi með þeim tilteknu greiðslum sýnt skuldbindingu sína í verki, enda hvergi í þessum stjórnarsamþykktum vísað til eftirlaunasjóðs.  Sýna og þessar samþykktir, að það hafi verið í höndum stjórnar hverju sinni að taka ákvörðun um það, hvort og þá með hverjum hætti eftirlifandi maki fengi lífeyri.

             Ljóst sé samkvæmt því sem fyrir liggi um aðdraganda stofnunar sjóðsins, að þau sjónarmið sem ráðið hafi því fyrir hverja starfsmenn hafi verið keypt réttindi, hafi í alla staði verið málefnaleg og laus við mismunun.  Stefnandi hafi ekki verið starfsmaður SR við stofnun sjóðsins.  Sé því ljóst að ólögfest jafnræðisregla stjórnsýsluréttar hafi ekki verið brotin við kaup SR á réttindum fyrir starfsmenn í Lífeyrissjóði starfsmanna SR.  Stefndi heldur því og fram, að kröfu vegna meints brots á jafnræðisreglunni verði ekki haldið uppi gegn stefnda, með vísan til þess að liðin séu tæp 30 ár frá umræddri ráðstöfun og krafa stefnanda á grundvelli þess brots því fyrnd.

             Þá byggir stefndi á því, að að svo miklu leyti, sem kröfur stefnanda kunni að hafa verið fyrir hendi, séu þær nú fyrndar.  Í stefnu sé á því byggt, hvað varði fyrningu, að SR hafi vanrækt að skýra frá hinni formlegu stofnun eftirlaunasjóðsins og því fyrnist einstaka greiðslur á 4 árum frá árinu 1998.  Þessi málsástæða stefnanda sé í þversögn við málatilbúnað hans að öðru leyti, þar sem hann fullyrði, að hann hafi starfað allan sinn starfstíma hjá verksmiðjunum í trausti þess að með því væri hann að eignast eftirlaunarétt.

             Um lagarök vísar stefndi til laga nr. 20/1993, um stofnun hlutafélags um Síldarverksmiðjur ríkisins, laga nr. 1/1938, um Síldarverksmiðjur ríkisins og laga nr. 101/1943 um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins.

             Einnig vísar stefndi til laga nr. 14/1905, um fyrningu.

             Kröfu um málskostnað byggir stefndi á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

V

             Stefnandi leitar nú í annað sinn til dómstóla með kröfu á hendur stefnda um viðurkenningu á réttindum úr eftirlaunasjóði.  Byggir hann kröfur sína á hendur stefnda á þeim málsástæðum, að hann hafi átt að njóta réttinda samkvæmt lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og hafi honum því borið réttur til eftirlauna.  Þá byggir stefnandi á því, að það hafi verið hluti starfskjara hans að Síldarverksmiðjur ríkisins legðu til hliðar fjármuni í eftirlaunasjóð til að standa undir eftirlaunum til fastra starfsmanna verksmiðjanna.  Þetta fé hafi ekki verið eign Síldarverksmiðja ríkisins.  Einnig byggir stefnandi á því að Síldarverksmiðjur ríkisins hafi keypt réttindi handa öllum öðrum starfsmönnum en stefnanda fyrir það tímabil, sem hann geri kröfu um eða greiddi þeim eftirlaun og hafi í því sambandi miðað við daginn eftir að hann hætti.  Þá heldur stefnandi því fram, að allir fastir starfsmenn annarra ríkisfyrirtækja hafi notið lífeyrisréttinda fyrir það tímabil sem hann geri kröfu um.  Eru þetta hinar sömu málsástæður og hann byggði kröfu sína á í hinu fyrra máli.

             Eins og að framan hefur verið rakið starfaði stefnandi sem skrifstofustjóri Síldarverksmiðja ríkisins á Siglufirði frá 1. ágúst 1945 til ársloka 1958.  Heldur stefnandi því fram, að hluti starfskjara hans hafi falist í því, að vinnuveitandi hans legði til hliðar fjármuni í eftirlaunasjóð til að standa undir greiðslu eftirlauna til fastra starfsmanna sinna.  Ekki liggur fyrir skriflegur ráðningarsamningur stefnanda við þennan vinnuveitanda sinn, og hefur stefnandi ekki haldið því fram að gerður hafi verið við hann slíkur samningur.

             Svo sem rakið hefur verið byggir stefnandi á því, að hluti starfskjara hans hafi falist í því, að að hann skyldi njóta ellilífeyris úr eftirlaunasjóði starfsmanna Síldarverksmiðja ríkisins.

             Fyrir liggur og óumdeilt er að Lífeyrissjóður starfsmanna SR var stofnaður eftir að stefnandi lét þar af störfum og var stefnandi ekki meðal sjóðfélaga þar.  Eins og áður greinir var sjóðurinn sameinaður Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins árið 1971.

             Stefnandi styður kröfur sínar stjórnarsamþykktum Síldarverksmiðja ríksins.  En samkvæmt stjórnarsamþykkt frá 22. maí 1940 var samþykkt að stofna Eftirlaunasjóð starfsmanna SR og leggja til hans 50.000 krónur af óráðstöfuðum tekjuafgangi fyrra árs.  Samkvæmt fundargerð stjórnar SR frá 28. júlí 1942 var ákveðið að fela framkvæmdastjóra að semja reglugerð fyrir Eftirlaunasjóð SR.  Reglugerð þessi var samin og hefur hún verið lögð fram í málinu, en stefnandi kveður að hún hafi fundist á Bókasafni Siglufjarðar.  Samkvæmt henni skyldu sjóðfélagar vera allir þeir starfsmenn, sem ráðnir voru fyrir 1. janúar 1941, skoðast sem sjóðfélagar frá ráðningardegi.  Tekjur sjóðsins skyldu vera fyrrgreindar 50.000 krónur, sem SR lagði fram 31. desember 1939 til stofnunar sjóðsins, ásamt vöxtum 1940.  Þá er og gert ráð fyrir tillögum sjóðfélaga, sem sé 2% af árslaunum þeirra hjá SR. Einnig var gert ráð fyrir að tekjur sjóðsins væru lífeyrissjóðsiðgjöld, sem eftirlaunasjóðurinn kynni að fá endurgreiðslu á vegna sjóðfélaga þeirra, ef sjóðurinn öðlaðist viðurkenningu Tryggingastofnunar ríkisins.  Þá skyldu tekjur sjóðsins vera tillög SR, sem þurfi til þess að sjóðurinn geti staðið við skuldbindingar sínar á hverjum tíma. Í reglugerðinni er og kveðið á um með hvaða hætti eftirlaun starfsmanna skuli reiknast og er þar gert ráð fyrir sérstökum eftirlaunareikningi hvers starfsmanns.  Samkvæmt XVI. gr. reglugerðar þessarar var gert ráð fyrir að leitað skyldi samþykkis og staðfestu Stjórnarráðsins fyrir sjóðstofnuninni og reglugerðinni, eins og hún yrði á hverjum tíma.  Í framlögðum fundargerðum er ekki getið um reglugerð þessa og komu ákvæði hennar ekki til framkvæmda, enda liggur ekkert fyrir um það, að Alþingi hafi samþykkt stofnun sjóðsins.  Einstaka ákvarðanir stjórnar SR um greiðslu maka- og örorkubóta fyrir 1959, er Lífeyrissjóður starfsmanna SR var stofnaður, sem greiddar voru úr sjóðum fyrirtækisins, benda og ekki til að meðal starfskjara starfsmanna hafi verið lífeyrisréttindi úr lífeyrissjóði.

             Þó svo að vilji stjórnar SR hafi staðið til þess að stofna eftirlaunasjóð til handa starfsmönnum meðan stefnandi var þar að störfum liggur fyrir að það var ekki gert og var sjóðurinn fyrst stofnaður eftir að stefnandi lét þar af störfum.  Lífeyrisréttindi voru þá keypt fyrir alla starfsmenn SR, sem enn voru við störf, en ekki starfsmenn sem þá þegar höfðu látið af störfum.  Liggur því ekki annað fyrir en að jafnræðis hafi verið gætt.  Þá liggur fyrir að stefnandi greiddi ekki iðgjöld í eftirlaunasjóð.  Með því að Lífeyrissjóður starfsmanna SR var fyrst stofnaður eftir að stefnandi lét þar af störfum og þar sem ekkert það er fram komið, að í starfskjörum stefnanda hafi falist réttur til greiðslna úr eftirlaunasjóði, og þar með greiðslna úr Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, eftir að stefnandi lét af störfum ber að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda.

             Þrátt fyrir þessa niðurstöðu þykir rétt, með hliðsjón af málsatvikum, að hvor aðila beri sinn kostnað af máli þessu.    

             Hervör Þorvaldsdóttir, héraðsdómari, kvað upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð :

             Stefndi, Síldarvinnslan hf., er sýkn af kröfum stefnanda, Sigurðar Njálssonar, í máli þessu.

             Málskostnaður fellur niður.