Hæstiréttur íslands
Mál nr. 291/2011
Lykilorð
- Líkamsárás
- Skilorðsrof
- Skaðabætur
|
|
Fimmtudaginn 15. desember 2011. |
|
Nr. 291/2011.
|
Ákæruvaldið (Kolbrún Benediktsdóttir settur saksóknari) gegn Elvu Mary Baldursdóttur (Brynjar Níelsson hrl.) |
Líkamsárás. Skilorðsrof. Skaðabætur.
E var dæmd fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa slegið A hnefahöggi í andlitið með þeim afleiðingum að A hlaut glóðarauga og blóðnasir. Með brotinu rauf E skilorð og var refsing hennar ákveðin óskilorðsbundið fangelsi í þrjá mánuði. E var einnig gert að greiða A skaðabætur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 28. apríl 2011 í samræmi við yfirlýsingu ákærðu um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærðu verði þyngd.
Ákærða krefst aðallega sýknu og að einkaréttarkröfu A verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að refsing verði milduð og fjárhæð kröfunnar lækkuð.
A hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti. Verður því litið svo á að hún krefjist þess að staðfest verði ákvæði hins áfrýjaða dóms um einkaréttarkröfu sína.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Ákærðu verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Ákærða, Elva Mary Baldursdóttir, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 276.069 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, 251.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 4. apríl 2011.
Mál þetta, sem var dómtekið 28. febrúar sl., höfðaði sýslumaðurinn á Akureyri hér fyrir dómi 29. desember sl., með ákæru á hendur Elvu Mary Baldursdóttur, kt. [...];
„fyrir líkamsárás, með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 17. október 2010, á dansgólfi skemmtistaðarins Pósthúsbarsins að Skipagötu 10 á Akureyri, slegið A, [...], hnefahögg í andlitið, með þeim afleiðingum, að hún hlaut glóðarauga (mar á augnsvæði og augnloki) og blóðnasir.
Telst þetta varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 10. gr. laga nr. 20, 1981.
Þess er krafist að ákærða verði dæmd til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.
Einkaréttarkrafa: Í málinu gerir A, [...], bótakröfu á hendur ákærðu að fjárhæð kr. 483.473, með vöxtum samkvæmt 8. gr., sbr. 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38, 2001, frá 17.10.2010, til þess dags sem mánuður er liðinn frá því að bótakrafan er kynnt ákærðu, en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags.“
Ákærða krefst þess aðallega að verða sýknuð af kröfum ákæruvalds, til vara að sér verði ekki gerð refsing og til þrautavara að dæmd verði eins væg refsing og lög frekast heimila. Þá krefst hún þess aðallega að bótakröfu verði vísað frá dómi, til vara sýknu, en ella að hún sæti verulegri lækkun.
I.
Samkvæmt frumskýrslu lögreglu voru lögreglumennirnir B og C stödd í Skipagötu, við Pósthúsbarinn, um kl. 03:00 aðfaranótt 17. október 2010. Þá komu A, D og E á tal við þau. A kvaðst hafa orðið fyrir líkamsárás inni á Pósthúsbarnum. Hún hélt kælingu að vinstra auga og kinnbeini og sagði að stúlka hefði barið sig í andlitið að tilefnislausu. D og E sögðu að stúlkan hefði barið hana með flösku. Í þessari frumskýrslu er frásögn A, E og D síðan rakin nánar. Haft er eftir A að hún hefði verið á dansgólfi þegar stúlka hefði snúið sér að E og barið hann margoft í höfuðið. E hefði beygt sig fram og ýtt stúlkunni frá sér. A hefði sett lófann á móti stúlkunni og spurt hvað á gengi og reynt að ræða við hana, en þá hefði stúlkan slegið hana í andlitið. Hún hefði þegar fundið fyrir miklum sársauka og fengið blóðnasir. Eftir E er haft að hann hefði verið að dansa við D og A þegar stúlka hefði farið að slá hann í höfuðið, á vinstra eyrað, að ástæðulausu. Hann hefði beygt sig fram og síðan ýtt stúlkunni frá sér. A hefði eitthvað gefið sig á tal við hana, en svo hefði hann séð stúlkuna slá hana með flösku í andlitið. Eftir D er haft að hún hefði verið á dansgólfinu ásamt E og A þegar hún hefði séð stúlku ganga að E og byrja að slá hann í höfuðið. Hann hefði ýtt stúlkunni frá sér og A hefði gengið að henni og hún þá brugðist við með því að slá A með flösku á vinstri vanga. Flaskan hefði ekki brotnað. D hefði stokkið til og stöðvað stúlkuna þegar hún hefði verið að gera sig líklega til að slá A á ný. Þá hefði stúlkan farið. Á eftir hefðu þær A gefið sig á tal við dyravörð og bent honum á stúlkuna. Hann hefði þekkt hana fyrir Elvu Mary Baldursdóttur.
Lögreglumenn sóttu ákærðu inn á Pósthúsbarinn og færðu hana á lögreglustöð. Er síðan rakið í skýrslunni að hún hafi þar skýrt varðstjóra svo frá að karlmaður á dansgólfinu hefði gert eitthvað við hana, sem hún hafi þó ekki lýst nánar. Hún hefði brugðist hart við með því að hella drykk yfir hann. Hann hefði orðið æstur og tekið eitthvað í hana. Þá hefði hún orðið reið og gripið tóma bjórflösku sér til varnar en ekki notað hana. Kona hefði verið að reyna að stöðva hana og tala við hana þarna um það að hún ætti ekki að láta svona. Hún hefði orðið þreytt á þessari konu og því slegið hana, en ekki með flösku því hún hefði verið búin að sleppa henni.
Lögreglan yfirheyrði ákærðu 18. nóvember. Í samantekt um skýrslu hennar kemur fram að hún hafi sagst hafa verið að ganga á dansgólfið og þá hefði karlmaður henni ókunnur farið að dilla sér fyrir framan hana og henni fundist það óþægilegt. Hún hefði því hellt yfir hann úr glasi og síðan sett það á hillu. Þá hefði maðurinn gengið að henni, gripið í hana, hrist hana og spurt hvers vegna hún hefði gert þetta. A hefði gripið í vinstri handlegg hennar, en hún hefði samt náð að grípa flösku af hillu skammt frá, sem þegar hefði verið tekin úr hendi hennar aftur. Hún hefði reynt að losa sig en það ekki tekist. Hún hefði loks náð að losa hægri hönd og slá A með hnefanum í andlitið. Þá hefði A sleppt henni og gripið um andlit sitt. Ákærða hefði þá gengið á brott. Hún tók fram við lögreglu að hún hefði verið með rispur á handlegg eftir A og ætti ljósmyndir af þeim. Lagði ákærða síðan fram sex ljósmyndir undir rekstri þessa máls, sem hún segir sýna mar á handlegg og öxl sem hún hafi hlotið um nóttina og telur vera af völdum A.
Endurrit úr bráðasjúkraskrá, vegna komu A á slysadeild aðfaranótt 17. október kl. 03:44, liggur frammi í málinu. Þar kemur fram að við skoðun hafi hún verið vel vakandi og áttuð á stað og stund og ekki ölvuð að sjá. Er hún sögð hafa gefið skýra og greinargóða sögu og lýsingu á atburðum. Hún hafi verið með „ágætt“ glóðarauga, sérstaklega marin fyrir neðan augað og aum við þreifingu þar sem bólgan hafi verið. Henni hafi verið ráðlögð kæling eftir að heim yrði komið og eftirlit eftir þörfum.
II.
Ákærða skýrði svo frá fyrir dómi að hún hafi verið á leið á dansgólf, ásamt F vinkonu sinni, þegar karlmaður á dansgólfinu hafi farið að dansa í kringum hana og strjúka á henni rassinn og mjaðmirnar. Hún kveðst hafa hellt úr glasi yfir hann og síðan sett glasið á hillu. Hann hafi komið og gripið um hendurnar á henni. Hún hafi orðið hrædd og beðið hann að sleppa sér. Hann hafi öskrað á hana af hverju hún hefði gert þetta. Þá hafi A komið og gripið í hana. Hún hafi þá gripið flösku af hillu, sem hafi þegar verið tekin af henni aftur. Hún hafi náð að rífa sig lausa frá manninum og þá slegið A í sömu sveiflunni. Síðan hafi hún farið. Hún hafi slegið A alveg óvart og aðeins viljað komast frá þessu. Allt hafi þetta gerst hratt. Hún hafi ekki gert sérstaklega grein fyrir því hjá lögreglu að þetta hefði verið óvart af því að hún hefði þar ekki verið spurð nánar út í þetta.
A ber um að hafa verið að dansa á Pósthúsbarnum ásamt D samstarfskonu sinni og E frænda sínum. Hún hafi fyrst séð til ákærðu þar sem hún hafi verið fyrir aftan E og slegið hann í höfuðið, á eyrun. Hann hafi beygt sig niður. A kveðst hafa sett hönd á öxl ákærðu og spurt hvort ekki væri allt í lagi, en að þeim orðum vart slepptum hafi hún fengið högg frá henni með hnefa eða flösku. Það hafi komið á vinstri vanga og verið mjög fast. Hún hafi hratað til baka. Blóð hafi þegar byrjað að spýtast úr nefinu á henni og hún hafi ,,sjokkerast.“ Ákærða hafi ætlað að slá hana aftur og reitt höndina upp og þá verið með flösku í henni. D hafi gripið um úlnlið hennar og komið í veg fyrir höggið. D hafi síðan fylgt sér brott og þær tekið leigubíl upp á slysadeild.
A kveðst hafa jafnað sig að mestu en það hafi tekið nokkurn tíma. Hún hafi ekki farið út úr húsi í viku því hún hafi ekki viljað láta nokkurn mann sjá sig með glóðaraugað, auk þess sem hún hafi verið með mikla verki. Hún hafi verið fjarverandi frá vinnu í sjö heila daga og ekki getað unnið fullan vinnudag þegar hún hóf vinnu.
Nánar spurð kvaðst A ekki hafa séð ákærðu greiða sér höggið en er alveg viss um að það hafi verið ákærða sem sló hana. Flösku kvaðst hún ekki hafa séð í hendi ákærðu, en verið sagt frá henni.
Vitnið D kveðst hafa verið á dansgólfinu og þar hafi verið mannmargt. Hún hafi einhvern veginn orðið vör við að E hafi farið í burtu og þá litið á A sem hafi haldið um andlitið vinstra megin. Hún hafi séð stúlku vera með flösku og tekið um handlegg hennar til að stöðva högg. Þá hafi verið eins og stúlkan áttaði sig. Hún hafi svo verið dregin í burtu og D farið að huga að A. Hún kveðst ekki hafa séð viðskipti E við stúlkuna en hafa séð hann fara af gólfinu.
Vitnið E kveður ákærðu hafa hellt yfir sig. Hann kveðst enga ástæðu vita til þess. Síðan hafi hún slegið hann á vinstra eyra. Hann hafi haldið höndum út, hörfað frá og ekki ætlað að taka neitt á móti. A hafi komið að til að spyrja hvað væri í gangi og þá fengið högg á sig. D hafi komið og stöðvað frekari högg. Síðan hafi ákærða horfið frá.
Nánar spurður sagði E að hann hafi verið sleginn tvisvar á vinstra eyra, rétt eftir að hellt var yfir hann.
Vitnið G, móðir ákærðu, staðfesti að hafa tekið ljósmyndirnar sex af dóttur sinni, um hádegi daginn eftir að atvik urðu. Kvað hún myndirnar sýna marbletti og áverka á vinstri handlegg og öxl. Hún hafði eftir dóttur sinni að á hana hefði verið ráðist á dansgólfi, þannig að karlmaður hefði komið að henni og farið að káfa á henni. Þá hefði henni verið haldið. Hún hefði barist um og reynt að losa sig, en ekki vitað hvort hún hefði meitt einhvern. Hún hefði örugglega hrint viðkomandi frá sér og beðið hann að láta sig í friði.
Vitnið H skýrði svo frá að þær hafi allar verið að dansa, hún, ákærða og F. Hún hafi ekki séð hvernig atvik byrjuðu, en séð ákærðu haldið og hún hafi reynt að losa sig. Síðan hafi hún losað sig og gengið burtu. Hún hafi farið til hennar og farið að tala um þetta við hana. Hún hafi ekki séð hverjir héldu ákærðu, en það hafi verið strákur og stelpa. Hún hafi kvartað um áverka daginn eftir. Hún hafi skýrt sér frá að strákurinn hefði verið að dansa utan í henni, káfa á henni eða eitthvað, en þetta hafi allt gerst mjög fljótt. Sérstaklega spurð kvaðst hún ekki hafa séð ákærðu hella yfir neinn.
Vitnið F segir að þær ákærða hafi verið komnar hálfa leiðina á gólfið, einhver karlmaður hafi þá gripið um mjaðmir ákærðu og ætlað að fara að dansa eitthvað við hana. Ákærða hafi þá hellt yfir hann úr fullu glasi og ætlað að leggja það frá sér á hillu við dansgólfið. Karlmaðurinn hafi farið á eftir og dökkhærð kona með, þau staðið yfir henni og hindrað að hún kæmist frá. F kvaðst hafa ákveðið að skipta sér ekki af þessu og hún hafi ekki séð hvort haldið væri í ákærðu, hún hafi bara reynt að forða sér og ekki séð ákærðu fyrr en um tíu mínútum seinna.
III.
Ákærðu er í þessu máli gefið að sök að hafa slegið A hnefahögg í andlitið, með þeim afleiðingum að hún hlaut glóðarauga og blóðnasir. Með framangreindum upplýsingum úr bráðasjúkraskrá, svo og ljósmyndum af A verður ekki vefengt að hún hafi fengið þann áverka sem í ákæru er lýst. Ákærða kannaðist við það fyrir lögreglu að hafa slegið A í andlitið, en dró úr því er hún gaf skýrslu fyrir dómi og sagði að hönd sín hefði óvart lent í A þegar hún hefði verið að losa sig frá E.
Framburður A um að hún hafi verið slegin mjög fast í andlitið og þau gögn sem liggja fyrir um áverka hennar styðja þá frásögn. Frásögn ákærðu um að hún hafi óvart rekið höndina í andlit A verður metin fráleit. Er þá haft í huga að höggið var fast, ákærða kannaðist við það fyrir lögreglu að hafa slegið A og framburður vitnisins D, um að hún hafi gripið um úlnlið ákærðu, til að varna því að hún slægi A aftur. Verður eftir þessu ekki annað lagt til grundvallar en að ákærða hafi slegið A af ásetningi með þeim afleiðingum sem eru raktar í ákæru. Varðar það við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga.
Ákærða hefur sjálf skýrt svo frá um tildrög þessa, að hún hafi orðið fyrir einhvers konar óviðeigandi framkomu af hálfu E og þá hellt yfir hann. Þá hafi hún verið tekin tökum af E og A eins og áður er lýst. Hafi það leitt til þess að hún var marin á handlegg og öxl. Vitnið H, sem var á dansgólfinu en sá ekki upphaf atvika, kveðst hafa séð að ákærðu hafi verið haldið, hún hafi verið að reyna að losa sig og síðan hafi hún losað sig og gengið í burtu. Þetta vitni sá ekki þegar A var slegin, en segir að það hafi verið strákur og stelpa sem héldu ákærðu. Þar sem vitnið sá ekki höggið sem A fékk, sem miðað við framburð ákærðu gerðist í beinu framhaldi af því að hún losaði sig úr tökum, er álitamál hvort það sem vitnið sá hafi verið sá hluti atburðarásarinnar sem gerðist eftir að A fékk höggið og lúti þá að því þegar D tók um handlegg ákærðu. Ekki verður frekar um þetta ráðið af framburði F, sem segist hafa séð upphafið og að ákærða hafi hellt yfir mann úr glasi og síðan hafi sá maður og einnig kona króað ákærðu af. Þetta vitni kveðst ekki hafa séð hvort þau héldu henni og kveðst ekki hafa atvik frekar.
E og A neituðu því alfarið að hafa tekið ákærðu þessum tökum. Fyrir liggur að síðar um nóttina var ákærða tekin föstum tökum sem gætu hafa valdið marblettunum, þar sem í lögregluskýrslu segir að við lögreglustöð hafi ákærða neitað að fara út úr lögreglubifreiðinni þrátt fyrir margítrekaða ósk um það. Hún hafi þá verið færð út úr bifreiðinni og verið haldið af tveimur lögreglumönnum. Hún hafi barist á móti og náð að rífa sig lausa þegar reynt hafi verið að reyna að koma henni inn á lögreglustöðina.
A hefur borið eindregið að hafa ekki með nokkru móti lagt hendur á ákærðu heldur eingöngu lagt hönd á öxl hennar eða brjóst og spurt hvað væri í gangi þegar ákærða hafi veist að E. Þegar þetta er allt virt verður ekki lagt til grundvallar, gegn eindreginni neitun A og skýrum framburði E, að A hafi lagt hendur á ákærðu eða gert henni eitthvað það sem réttlætt geti að beita reglum 12. gr. almennra hegningarlaga um neyðarvörn, eða reglum 3. mgr. 218. gr. b. sömu laga um refsingu ákærðu. Skiptir það ekki máli hér hvort það hafi átt sér einhverja réttlætingu að ákærða veittist að E með því að hella yfir hann vökva.
Samkvæmt framansögðu verður ekki fallist á að ákærða eigi sér málsbætur. Hún var þann 16. september 2009 dæmd til að sæta fangelsi í tvo mánuði, skilorðsbundið í tvö ár, fyrir brot gegn 1. mgr. 218. gr. og 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga. Ákærða hefur nú rofið skilorð þessa dóms og ber að taka refsingu samkvæmt honum upp og dæma í einu lagi með þessu máli, sbr. 60. gr. almennra hegningarlaga með áorðnum breytingum. Refsing ákærðu ákveðst fangelsi í þrjá mánuði, sem ekki er fært að skilorðsbinda þegar litið er til fyrri ofbeldisbrota ákærðu og skilorðsrofs hennar.
Bótakröfu er getið í ákæru og var hún reifuð við flutning málsins. Gerð er krafa um 350.000 krónur í miskabætur úr hendi ákærðu. Skilyrði til greiðslu miskabóta eru uppfyllt, sbr. 26. gr. laga nr. 50, 1993 með áorðnum breytingum. Verða þær ákveðnar 150.000 krónur. Þá er krafist 13.373 króna vegna útlagðs kostnaðar. Þar af eru 8.473 krónur nægilega studdar gögnum en 4.900 krónur þar af, sem eru studdar innheimtubréfi en ekki reikningi verða ekki dæmdar. Krafist er 57.600 króna vegna vinnutaps. Samkvæmt yfirlýsingu frá vinnuveitanda var brotaþoli frá vinnu sinni sem snyrtifræðingur í sex heila vinnudaga frá 18. til 26. október. Kemur fram að ekki hafi þótt boðlegt að láta hana vinna með bólgið og blátt auga vegna eðlis starfsins. Þótt krafan sé ekki studd vottorði um óvinnufærni þykir hún nægilega rökstudd eins og hér stendur á og verður þessi kröfuliður, sem er studdur launaseðlum og hljóðar um dagvinnu án orlofs í sex daga, tekinn til greina. Málskostnaður verður dæmdur 62.500 krónur. Samtals verður ákærða því dæmd til að greiða brotaþola 216.073 krónur, ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38, 2001 frá 17. október 2010 til 17. febrúar 2011, er mánuður var liðinn frá því að ákærðu var birt bótakrafan, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Dæma ber ákærðu til að greiða sakarkostnað, útlagðan kostnað að fjárhæð 25.000 krónur og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sigmundar Guðmundssonar hdl., sem ákveðast eins og greinir í dómsorði að virðisaukaskatti meðtöldum.
Dóminn kveður upp Erlingur Sigtryggsson héraðsdómari. Gætt var ákvæða 1. mgr. 184. gr. laga nr. 88, 2008.
D Ó M S O R Ð :
Ákærða, Elva Mary Baldursdóttir, sæti fangelsi í þrjá mánuði.
Ákærða greiði A 216.073 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38, 2001 frá 17. október 2010 til 17. febrúar 2011, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags og 62.500 krónur í málskostnað.
Ákærða greiði 213.250 krónur í sakarkostnað, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sigmundar Guðmundssonar héraðsdómslögmanns, 188.255 krónur.