Hæstiréttur íslands

Mál nr. 539/2006


Lykilorð

  • Kærumál
  • Aðild
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


Miðvikudaginn 25

 

Miðvikudaginn 25. október 2006.

Nr. 539/2006.

Hörður Einarsson

(sjálfur)

gegn

samkeppniseftirlitinu

(Kristinn Bjarnason hrl.)

 

Kærumál. Aðild. Frávísunarúrskurður staðfestur.

H stefndi S og krafðist þess að úrskurður áfrýjunarnefndar samkeppnismála í tilefni af kæru hans til nefndarinnar yrði felldur úr gildi. Þar sem hann hafði ekki beint kröfu sinni að þeim, sem álitið var að hefðu átt aðild að málinu fyrir áfrýjunarnefnd, var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að vísa bæri málinu frá dómi.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Hjördís Hákonardóttir og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. október 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 12. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. september 2006, þar sem máli sóknaraðila gegn varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í c. lið 2. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að lagt verði fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Eins og rakið er í hinum kærða úrskurði sendi sóknaraðili samkeppnisstofnun erindi 19. maí 2003, þar sem hann beindi því til hennar að hún tæki til athugunar nánar tilgreind atriði varðandi starfsemi Frjálsa lífeyrissjóðsins, sem hann taldi stangast á við tiltekin ákvæði þágildandi samkeppnislaga nr. 8/1993. Í tilefni af erindinu leitaði samkeppnisstofnun eftir umsögnum Frjálsa lífeyrissjóðsins, Kaupþings banka hf., Íslenska lífeyrissjóðsins og Almenna lífeyrissjóðsins, auk þess sem óskað var umsagnar fjármálaráðuneytisins. Svör bárust frá þeim öllum. Í ákvörðun samkeppnisráðs 1. apríl 2004 var komist að þeirri niðurstöðu að ekki væri ástæða til íhlutunar í tilefni af erindi sóknaraðila. Þessa ákvörðun kærði hann 29. sama mánaðar til áfrýjunarnefndar samkeppnismála, þar sem hann krafðist að ákvörðunin yrði felld úr gildi og gripið til viðeigandi aðgerða vegna tiltekinna ákvæða í samþykktum lífeyrissjóðanna. Með úrskurði áfrýjunarnefndar 7. júní 2004 var ákvörðunin felld úr gildi og lagt fyrir samkeppnisráð að taka málið fyrir að nýju. Af þessu tilefni kynnti samkeppnisstofnun 9. júlí 2004 Frjálsa lífeyrissjóðnum, Kaupþingi banka hf., Almenna lífeyrissjóðnum og Íslenska lífeyrissjóðnum úrskurð áfrýjunarnefndar og óskaði eftir nánar tilgreindum upplýsingum í tilefni af honum. Henni bárust umbeðnar upplýsingar frá þeim öllum, auk þess sem þeir lýstu afstöðu sinni til erindisins. Samkeppniseftirlitið, sem sett var á stofn með samkeppnislögum nr. 44/2005, lauk athugun sinni á málinu með ákvörðun 11. október 2005, þar sem komist var að sömu niðurstöðu og samkeppnisráð hafði áður gert. Þessa ákvörðun kærði sóknaraðili til áfrýjunarnefndar samkeppnismála 7. nóvember 2005 og krafðist þess meðal annars að ákvörðunin yrði felld úr gildi og að gripið yrði til viðeigandi aðgerða gegn þeim ætluðu samkeppnishömlum, sem kvörtunin laut að. Áfrýjunarnefndin staðfesti ákvörðun samkeppniseftirlitsins með úrskurði 6. janúar 2006. Í úrskurðinum kom meðal annars fram að nefndin hafi sent málið „hagsmunaaðilum til kynningar“. Sóknaraðili höfðaði síðan mál þetta, sem hann beinir að samkeppniseftirlitinu, og krafðist þess að úrskurður áfrýjunarnefndarinnar yrði felldur úr gildi. Með hinum kærða úrskurði vísaði héraðsdómari málinu frá dómi.

Ljóst er af ofangreindu að samkeppnisráð og síðar samkeppniseftirlitið tóku í tilefni af erindi sóknaraðila til athugunar hvort ákveðnir þættir í starfsemi fyrrnefndra lífeyrissjóða stönguðust á við samkeppnislög og hvort ástæða væri til að grípa til íhlutunar af þeim sökum. Áttu sjóðirnir ótvírætt aðild að því máli og litu samkeppnisstofnun og samkeppniseftirlitið enn fremur svo á. Þar sem athugun samkeppnisyfirvalda beindist meðal annars að fjárhagslegum og stjórnunarlegum tengslum sjóðanna við þá, sem höfðu með höndum rekstur þeirra, verður jafnframt að líta svo á að þeir hafi átt verulegra, einstaklegra og lögvarinna hagsmuna að gæta af úrlausn málsins. Einnig verður að líta svo á að þessir lífeyrissjóðir hafi átt aðild að málinu á málskotsstigi fyrir áfrýjunarnefnd samkeppnismála í tilefni af stjórnsýslukærum sóknaraðila. Í dómum Hæstaréttar hefur verið litið svo á að óhjákvæmilegt sé að beina kröfu um ógildingu úrskurðar æðra stjórnvalds að þeim, sem hafa átt aðild að málinu á málskotsstigi, enda hafi þeir átt verulegra, einstaklegra og lögvarinna hagsmuna að gæta af úrlausn stjórnsýslumálsins, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar 12. júní 2002 í málinu nr. 231/2002. Þar sem sóknaraðili hefur ekki beint kröfum sínum að þeim, sem áttu samkvæmt framansögðu aðild að málinu fyrir áfrýjunarnefnd samkeppnismála, verður að staðfesta niðurstöðu héraðsdóms um að vísa beri málinu frá dómi.

Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Hörður Einarsson, greiði varnaraðila, samkeppniseftirlitinu, 100.000 krónur í kærumálskostnað.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. september 2006.

I

Mál þetta sem dómtekið var 19. september sl. höfðaði Hörður Einarsson, Seljugerði 9, Reykjavík gegn Samkeppniseftirlitinu, Rauðarárstíg 10, Reykjavík með stefnu birtri 15. mars 2006.

Dómkröfur stefnanda eru þær að felldur verði úr gildi úrskurður áfrýjunarnefndar samkeppnismála sem kveðinn var upp 6. janúar 2006 í máli nr. 20/2005, Hörður Einarsson gegn Samkeppniseftirlitinu.

Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til þess að greiða stefnanda málskostnað að mati dómsins.

Dómkröfur stefnda eru þær að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda og stefnandi dæmdur til þess að greiða honum málskostnað.

II

Stefnandi er félagi í Frjálsa lífeyrissjóðnum (FL) þ.á m. í séreignadeild sjóðsins. Með bréfi, dags. 19. maí 2003, beindi stefnandi því til Samkeppnisráðs að það tæki til athugunar samkeppnishömlur sem sjóðurinn beitti og eftir atvikum aðrir hliðstæðir lífeyrissjóðir, sem stefnandi taldi vera brot á samkeppnislögum, einkum 10. og 11. gr. laganna.

Hinn 1. apríl 2004 tók Samkeppnisráð ákvörðun í málinu, nr. 8/2004, þess efnis að ekki væri ástæða til íhlutunar ráðsins vegna málsins.

Þessa ákvörðun kærði stefnandi til áfrýjunarnefndar samkeppnismála með bréfi dags. 29. apríl s.á. Hinn 7. júní 2004 kvað áfrýjunarnefndin upp úrskurð, nr. 1/2004, felldi ákvörðun Samkeppnisráðs úr gildi og lagði fyrir ráðið að taka málið fyrir á ný. Ástæða þess var sú að úrskurðarnefndin taldi að Samkeppnisráð hefði ekki tekið nægilega til skoðunar hvort ákvæði 17. gr. þágildandi samkeppnislaga, nr. 8/1993, ættu við að því er kvörtunarefni stefnanda varðaði, þ.e. ekki sinnt rannsóknarreglunni með fullnægjandi hætti.

Stefndi tók við hlutverki Samkeppnisráðs hinn 1. júlí 2005 samkvæmt samkeppnislögum nr. 44/2005. Stefndi tók ákvörðun í málinu hinn 11. október 2005, mál nr. 20/2005, og var hún sama efnis og ákvörðun Samkeppnisráðs frá 1. apríl 2003.

Ákvörðun stefnda kærði stefnandi til áfrýjunarnefndar samkeppnismála sem kvað upp úrskurð 6. janúar 2006 í máli nr. 20/2005. Áfrýjunarnefndin staðfesti ákvörðun stefnda.

III

Frjálsi lífeyrissjóðurinn starfar samkvæmt samþykktum sem upphaflega voru settar í júlí 1999 og síðast breytt á ársfundi sjóðsins 4. apríl 2005 eftir því sem séð verður af gögnum málsins. Þessar samþykktir munu hafa verið staðfestar af fjármálaráðuneytinu samkvæmt lögum nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Starfsleyfi samkvæmt framangreindum lögum fékk FL 23. júlí 1999. Síðar, eða á árinu 2002, voru tveir lífeyrissjóðir sameinaðir FL, þ.e. Lífeyrissjóðurinn Eining og Séreignalífeyrissjóðurinn. Frjálsi lífeyrissjóðurinn skiptist í tvær deildir með aðskilinn fjárhag, þ.e. séreignadeild og samtryggingardeild. Séreignardeildin er miklum mun stærri en tryggingardeildin. Hrein eign hennar var í árslok 2004 um 30,5 milljarðar á móti rúmum 5 milljörðum tryggingadeildarinnar.

Í fyrsta málslið 1. mgr. 4. gr. framangreindra samþykkta segir:

Stjórn sjóðsins skal skipuð sjö mönnum, fjórum skipuðum af stjórn Kaupþings banka hf. og þremur kjörnum á ársfundi sjóðfélaga til tveggja ára í senn.

 

Í 7. mgr. 4. gr. samþykktanna segir:

Kaupþing banki hf. skal annast daglegan rekstur sjóðsins skv. sérstöku samkomulagi sem stjórn sjóðsins og Kaupþing banki hf. gera þar að lútandi. Þetta samkomulag skal sent Fjármálaeftirlitinu eða öðru hlutaðeigandi stjórnvaldi til kynningar.

 

Í 6. mgr. 15. gr. segir svo í samþykktunum:

Kostnaður við flutning bundinnar eða frjálsrar séreignar getur numið allt að 1% af inneign rétthafans.

 

Í 1. mgr. 20. gr. samþykktanna segir:

Breytingar á samþykktum þessum öðlast því aðeins gildi að þær hafi verið samþykktar með a.m.k. 2/3 hlutum greiddra atkvæða á ársfundi sjóðsins eða aukaársfundi og hlotið staðfestingu fjármálaráðuneytis. Breytingar á ákvæði þessu, ákvæði 4.1. og ákvæði 4.7. þurfa einnig samþykki stjórnar Kaupþings banka hf. til að ná fram að ganga.

 

Tveir aðrir lífeyrissjóðir starfa á svipuðum grunni og Frjálsi lífeyrissjóðurinn, þ.e. Almenni lífeyrissjóðurinn og Íslenski lífeyrissjóðurinn. Almenni lífeyrissjóðurinn varð  til við samruna nokkurra lífeyrissjóða í árslok 2002. Einhverjir þessara lífeyrissjóða munu hafa starfað frá fyrri tíma. Íslenski lífeyrissjóðurinn mun hafa starfað allt frá árinu 1990 en núgildandi samþykktir hans eru frá árinu 2003. Hrein eign Almenna lífeyrissjóðsins var í árslok 2004 rúmir 33 milljarðar og hrein eign Íslenska lífeyrissjóðsins á sama tíma rúmir 10 milljarðar.

Í samþykktum Almenna lífeyrissjóðsins, eins og þeim var breytt í nóvember 2005, segir í 1. mgr. 5. gr.:

Stjórn sjóðsins skal skipuð sex sjóðfélögum, fimm kjörnum á ársfundi og einum skipuðum af stjórn Íslandsbanka til þriggja ára í senn.

 

Í 14. gr. samþykktanna þar sem kveðið er á um flutning inneignar segir í 2. mgr.:

Endurgreiðslufjárhæðin er inneign sjóðfélaga að frádregnum kostnað sem nemur allt að einu prósenti af inneign viðkomandi sjóðfélaga en þó aldrei minna en 5.000 kr.

 

Um daglegan rekstur sjóðsins segir eftirfarandi í 29. gr. samþykktanna:

29.1 Eignastýring Íslandsbanka hf., skal annast daglegan rekstur sjóðsins og skal gert um það sérstakt samkomulag milli stjórnar sjóðsins og Íslandsbanka hf.

29.2 Til að breyta um rekstraraðila samtryggingarsjóðs þarf samþykki 2/3 hluta greiddra atkvæða á sjóðfélagafundi.

29.3. Til að breyta um rekstraraðila séreignarsjóðs og þessari grein samþykktanna þarf (a) samþykki sjóðfélagafundar sbr. 8.2 og staðfestingu stjórnar Íslandsbanka eða (b) samþykki a.m.k. helmings heildaratkvæðamagns í sjóðnum.

 

Í 27. gr. samþykktanna er kveðið á um það að stjórn sé heimilt að flytja réttindi einstakra sjóðfélaga, sem þess óski, úr samtryggingarsjóði yfir til annars löglegs lífeyrissjóðs þegar að töku lífeyris komi. Ekki er kveðið á um að kostnaður fylgi þeim flutningi.

Í samþykktum Íslenska lífeyrissjóðsins frá 15. maí 2003 segir í 1. mgr. 4. gr. eftirfarandi:

 

Stjórn sjóðsins skal skipuð fimm mönnum, þremur skipuðum af bankaráði Landsbanka Íslands hf. og tveimur kjörnum á almennum fundi sjóðfélaga til þriggja ára í senn.

 

Í 9. mgr. 4. gr. segir þetta:

Landsbanki Íslands hf. skal annast daglegan rekstur sjóðsins skv. sérstöku samkomulagi sem stjórn sjóðsins skal gera við stjórn Landsbanka Íslands hf. þar að lútandi. Þetta samkomulag skal senda Fjármálaeftirliti eða öðru hlutaðeigandi stjórnvaldi til kynningar.

 

Í 6. mgr. 15. gr. samþykktanna segir:

Kostnaður við flutning bundinnar eða frjálsrar séreignar telst vera 1% af inneign sjóðfélaga.

 

Í 1. mgr. 20. gr. samþykktanna segir svo:

Breytingar á samþykktum þessum öðlast því aðeins gildi að þær hafi verið samþykktar með a.m.k. 2/3 hlutum greiddra atkvæða á aðalfundi sjóðsins eða aukaaðalfundi og hlotið staðfestingu Fjármálaráðuneytis. Breytingarnar þurfa einnig samþykki stjórnar Íslenska lífeyrissjóðsins til að ná fram að ganga.

IV

Sem fyrr greinir beindi stefnandi því til Samkeppnisstofnunar á sínum tíma að hún tæki til athugunar samkeppnishömlur sem hann taldi að Frjálsi lífeyrissjóðurinn beitti og eftir atvikum aðrir hliðstæðir lífeyrissjóðir. Stefnandi telur það í kæru sinni að ákvæði samþykkta FL, sem að framan eru rakin, feli það í sér að sjóðurinn sé lokaður inni „til frambúðar hjá Kaupþingi banka hf., þannig að sjóðurinn á þess engan kost að leita til annarra fjármálastofnana (eða annarra) um rekstur sjóðsins, sem þó er eign sjóðfélaganna.“ Vilji sjóðfélagar flytja inneign sína í annan lífeyrissjóð verði þeir að greiða umtalsvert gjald, eða allt að 1% af inneign, og verði þá að flytja eignina í annan sjóð sem lúti svipuðum samkeppnishömlum og FL. Í samþykktum annarra sjóða séu sams konar ákvæði sem feli í sér hliðstæðar samkeppnishömlur. Þá segir orðrétt í niðurlagi kærunnar:

Þær samkeppnishömlur Frjálsa lífeyrissjóðsins/Kaupþings banka hf. og annarra umræddra lífeyrissjóða og fjármálastofnana, sem að framan var lýst, hljóta að teljast brot á ákvæðum samkeppnislaga, sbr. þó sérstaklega 10. og 11. gr. laganna. Meðal annars verður ekki hjá því komizt að líta á sams konar áskilnað í samþykktum allra þessara lífeyrissjóða um rekstur tiltekinna fjármálastofnana á tilteknum lífeyrissjóðum sem misnotkun á markaðsráðandi eða sameiginlegri markaðsráðandi stöðu á markaði séreignalífeyrissparnaðar, sbr. sérstaklega b. lið 2. mgr. 11. gr. samkeppnislaga.

V

Í ákvörðun Samkeppnisráð frá 1. apríl 2004 kemur fram að ráðið leitaði umsagna Frjálsa lífeyrissjóðsins, Kaupþings banka hf., fjármálaráðuneytis, Íslenska lífeyrissjóðsins og Almenna lífeyrissjóðsins og bárust umsagnir frá öllum þessum aðilum.

Í úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála kemur fram að kæra stefnanda til nefndarinnar hafi verið send framangreindum aðilum til kynningar og þeim gefinn kostur á að skila inn athugasemdum. Athugasemdir hafi borist frá Íslenska lífeyrissjóðnum.

Í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins frá 11. október 2005 kemur fram að úrskurður áfrýjunarnefndar var sendur lífeyrissjóðunum þremur, sem að framan er getið, til umsagnar og óskað eftir gögnum sem þeir kynnu að hafa undir höndum og málið varðaði. Allir sjóðirnir skiluðu umsögn.

Í úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála frá 6. janúar 2006 er sagt að málið hafi verið sent hagsmunaaðilum til kynningar.

Við munnlegan flutning málsins var á það bent af hálfu stefnda að lífeyrissjóðirnir þrír og viðkomandi bankar hafi verið aðilar að stjórnsýslumáli því sem krafist sé ógildingar á fyrir dóminum. Hagsmunir sem þessir aðilar hafi af niðurstöðu í dómsmálinu séu lögvarðir og því hafi verið nauðsynlegt að í málsókninni gæfi stefnandi þeim kost á að grípa til varna. Það hafi hann ekki gert og eigi það að leiða til frávísunar málsins án kröfu.

Af hálfu stefnanda var af þessu tilefni á það bent að einungis væri krafist ógildingar á úrskurði áfrýjunarnefndar en ekki Samkeppniseftirlitsins. Aðilar málsins fyrir áfrýjunarnefndinni hefðu einungis verið stefnandi og Samkeppniseftirlitið, en ekki lífeyrissjóðirnir eða viðkomandi bankar.

VI

Rétt þykir samhengisins vegna að gera stuttlega grein fyrir málsástæðum stefnanda. Stefnandi heldur því fram að kvörtun hans til samkeppnisyfirvalda hafi ekki fengið fullnægjandi meðferð hjá stjórnvöldum samkeppnismála og með því móti hafi verið brotið gegn málsmeðferðarreglum stjórnsýsluréttarins, sem eigi að leiða til ógildingar úrskurðar áfrýjunarnefndar samkeppnismála. Þessu er mótmælt af hálfu stefnda. Málsástæður stefnanda eru aðallega þær að í úrskurðum Samkeppniseftirlits og áfrýjunarnefndar samkeppnismála sé einungis fjallað um láréttar samkeppnishömlur en ekki lóðréttar. Lóðréttu samkeppnishömlurnar séu í því fólgnar að FL sé bundinn við það að eiga viðskipti við Kaupþing banka hf. til frambúðar, sbr. 4. mgr. 7. gr. og 1. mgr. 20. gr. samþykkta sjóðsins. Sama máli gegni um hina lífeyrissjóðina tvo, sem að framan eru nefndir, gagnvart þeim bönkum sem hafi vörslur sjóða þeirra. 

Þótt Samkeppniseftirlitið og áfrýjunarnefndin hafi tekið afstöðu til hinna láréttu samkeppnishamla þá hafi þeim láðst að taka afstöðu til þess sem í ljós hafi komið undir rekstri málsins fyrir samkeppnisyfirvöldum, að bankarnir hafi samráð um það að taka ekki 1% flutningsgjaldið af þeim sjóðfélaga sem færa vilji inneign sína á milli einhverra þessara þriggja banka. Það gjald verði sjóðfélaginn hins vegar að greiða vilji hann flytja inneign sína til vörslu einhvers annars aðila en bankanna þriggja.

Þá heldur stefnandi því fram að órannsakað sé hvort og þá hvern hlut fjármálaráðuneyti eða fjármálaeftirlitið hafi átt í því að samþykktir lífeyrissjóðanna séu þess efnis að fari gegn samkeppnislögum eins og fram hafi komið í umsögnum til Samkeppniseftirlitsins.

Öllum málsástæðunum er andmælt af hálfu stefnda.

Það er ljóst að efnisdómur, þar sem kröfur stefnanda yrðu teknar til greina, hefði í för með sér að bæði úrskurður áfrýjunarnefndar samkeppnismála og álit Samkeppniseftirlitsins féllu úr gildi þar sem áfrýjunarnefndin staðfesti álit Samkeppniseftirlitsins.

Í 5. gr. reglna nr. 880/2005 um málsmeðferð Samkeppniseftirlitsins segir að þeir sem eigi lögvarinna hagsmuna að gæta eigi aðild að málum sem Samkeppniseftirlitið hefur til rannsóknar. Sams konar ákvæði var í reglum um málsmeðferð Samkeppnisráðs nr. 922/2001 og 672/1994. Þetta ákvæði reglnanna byggist sýnilega á þeirri almennu reglu í stjórnsýslurétti að sá eigi aðild að stjórnsýslumáli sem hefur einstaklegra hagsmuna að gæta umfram aðra, þeir hagsmunir séu verulegir, varði hann beint og tengist úrlausn viðkomandi stjórnsýslumáls.

Það verður að telja ljóst að kæruefni stefnanda til samkeppnisyfirvalda var þess eðlis að rannsókn vegna kærunnar beindist óhjákvæmilega að lífeyrissjóðunum þremur, Frjálsa lífeyrissjóðnum, Almenna lífeyrissjóðnum og Íslenska lífeyrissjóðnum, svo og þeim bönkum sem sjá um vörslu þeirra og ávöxtum, þ.e. Kaupþingi banka hf., Íslandsbanka hf., nú Glitni hf., og Landsbanka Íslands hf. Telja verður ljóst af gögnum málsins að þessir aðilar hafi umtalsverðra hagsmuna að gæta varðandi niðurstöður samkeppnisyfirvalda um kæruefnið. Það kemur og fram í niðurstöðum samkeppnisyfirvalda að þau hafa litið á þá sem aðila stjórnsýslumálsins. Svipuðu máli má segja að gegni með aðild fjármálaráðuneytisins og Fjármálaeftirlitsins að svo miklu leyti sem þessir aðilar tveir hafa komið að setningu samþykkta sjóðanna þriggja. Þetta leiðir til þess að líta verður svo á að stefnanda hafi borið samkvæmt almennum relgum stjórnsýsluréttarins, eins og þeim er lýst afð framan, að gefa framangreindum aðilum kost á því að taka til varna í dómsmálinu sem hér er til meðferðar. Það gerði hann ekki. Samkvæmt framansögðu og með hliðsjón af 1. málslið 2. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991 þykir óhjákvæmilegt að vísa málinu frá dómi án kröfu.

Rétt þykir að hvor aðili beri sinn málskostnað í þessum þætti málsins.

Friðgeir Björnsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð.

Máli þessu er vísað frá dómi. Málskostnaður fellur niður.