Hæstiréttur íslands

Mál nr. 58/2010


Lykilorð

  • Kærumál
  • Frávísunarúrskurður felldur úr gildi að hluta
  • Kröfugerð
  • Vanreifun


           

Föstudaginn 19. febrúar 2010.

Nr. 58/2010.

MP banki hf.

(Ólafur Eiríksson hrl.)

gegn

Albinas Jonas Valasinas

(Gísli Guðni Hall hrl.)

Kærumál. Frávísunarúrskurður fellur úr gildi að hluta. Kröfugerð. Vanreifun.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem máli M hf. gegn A var vísað frá dómi. Talið var að reikningsyfirlit sem M hf. hafi lagt fram í málinu væri nægilega glöggt til að A gæti gert sér grein fyrir kröfunni og tekið til varna. Þá var komið fram að A hafði mótmælt uppgjöri M hf. á viðskiptum þeirra. Hafði M hf. gert leiðréttingar af því tilefni sem A hafði ekki gert athugasemdir við fyrr en eftir að málið var höfðað. Var því talið að M hf. hafi lagt nægilega skýran grundvöll að máli sínu á hendur A og ekki væru efni til að vísa málinu frá dómi. Hins vegar var krafa M hf. um dráttarvexti ekki talin uppfylla skilyrði d-liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 þar sem ekki kom fram sú vaxtaprósenta sem krafa var gerð um og frávik 11. gr. laga nr. 38/2001 áttu ekki við. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi um annað en dráttarvaxtakröfu M hf. og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.

           

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Garðar Gíslason og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 25. janúar 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 3. febrúar sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. janúar 2010, þar sem máli sóknaraðila gegn varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Samkvæmt héraðsstefnu höfðaði sóknaraðili mál þetta til heimtu skuldar varnaraðila vegna viðskipta þeirra 12. janúar 2007 til 24. febrúar 2009. Er þar vísað til almennra markaðsskilmála fyrir viðskiptamenn sóknaraðila sem varnaraðili hafi undirritað og sérstaklega vísað til kafla þeirra um skuldajöfnuð og gjaldfellingu. Þá lagði sóknaraðili fram yfirlit sem sýnir hreyfingar á viðskiptareikningi varnaraðila frá 12. janúar 2007 til 24. febrúar 2009. Á yfirlitinu má sjá um hvaða viðskipti var að ræða hverju sinni og í hvaða gjaldmiðli.

Sóknaraðili reisir kröfu sína á því að hann hafi í stefnu í héraði greint svo glöggt sem unnt væri málsástæður þær sem málsóknin sé reist á og önnur atvik sem þurft hafi að greina til þess að samhengi málsástæðna yrði ljóst. Krafan á hendur varnaraðila sé reist á reikningsyfirliti sem sýni þau viðskipti sem aðilar hafi átt undanfarin ár og hvaða viðskipti sé um að ræða. Enginn ágreiningur hafi verið milli aðila fyrir málshöfðun um hvernig varnaraðili hafi stofnað til viðskipta sinna hjá sóknaraðila og því hafi enga nauðsyn borið til að leggja fram gögn um slíkt. Þegar varnir hafi komið fram er lutu að þessu hafi sóknaraðili leitast við að leggja umrædd gögn fram, en héraðsdómari synjað framlagningu þeirra.

Talið verður að áðurnefnt yfirlit sé nægilega glöggt til að varnaraðili geti gert sér grein fyrir kröfunni og tekið til varna. Þá er komið fram að varnaraðili mótmælti uppgjöri sóknaraðila á viðskiptum þeirra. Sóknaraðili gerði leiðréttingar af því tilefni sem varnaraðili gerði ekki athugasemdir við fyrr en eftir að málið var höfðað. Samkvæmt framangreindu verður ekki annað séð en að sóknaraðili hafi lagt nægilega skýran grundvöll að máli sínu á hendur varnaraðila og eru ekki efni til að vísa málinu frá dómi vegna vanreifunar.

Sóknaraðili hefur krafist dráttarvaxta ,,samkvæmt eins mánaðar EURIBOR millibankavöxtum, eins og þeir eru ákveðnir á hverjum tíma og birtir kl. 11 að morgni að staðartíma í Brussel á Reuterskjá EURIBOR01, auk 7,5% vaxtaálags, frá 24. febrúar 2009 til greiðsludags.“ Samkvæmt d. lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, eins og það ákvæði hefur verið skýrt í dómaframkvæmd, ber meðal annars að tilgreina, svo glöggt sem verða má, þá vaxtaprósentu sem krafa er gerð um. Í 11. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu er heimilað frávik frá þessu á þann veg að sé mál höfðað til heimtu peningakröfu og krafist vaxta með tilvísun til 4. eða 8. gr. eða dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. má dæma slíka vexti, enda þótt hundraðshluti þeirra sé ekki tilgreindur í stefnu. Krafa sóknaraðila um dráttarvexti uppfyllir ekki þessi skilyrði og verður staðfest niðurstaða hins kærða úrskurðar um frávísun hennar frá héraðsdómi.

Varnaraðila verður gert að greiða sóknaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi um annað en dráttarvaxtakröfu sóknaraðila, MP banka hf., og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.

Varnaraðili, Albinas Jonas Valasinas, greiði sóknaraðila 200.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. janúar 2010.

Mál þetta var tekið til úrskurðar 15. desember sl. en það var höfðað 5. maí sl. af MP Banka hf., Skipholti 50d, Reykjavík, gegn Albinas Jonas Valasinas, Merkinés 139, LT – 62235, Alytus, Litháen.

Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða 48.093,20 EUR og að fjárhæðin beri dráttarvexti samkvæmt eins mánaðar EURIBOR millibankavöxtum, eins og þeir eru ákveðnir á hverjum tíma og birtir klukkan 11.00 að morgni að staðartíma í Brussel á Reuterskjá EURIBOR01, auk 7,5% vaxtaálags frá 24. febrúar 2009 til greiðsludags. Einnig er krafist málskostnaðar samkvæmt málskostnaðar­reikningi ásamt virðisaukaskatti.

Af hálfu stefnda er þess aðallega krafist að málinu verði vísað frá dómi. Til vara er krafist sýknu og til þrautavara verulegrar lækkunar á dómkröfum stefnanda, þar með talið vaxtakröfum. Í öllum tilvikum er þess krafist að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað samkvæmt málskostnaðarreikningi.

Úrskurðurinn er kveðinn upp til úrlausnar á frávísunarkröfu stefnda en krafist er jafnframt málskostnaðar af hálfu stefnda úr hendi stefnanda að mati dómsins í þessum þætti málsins. Af hálfu stefnanda er þess krafist að frávísunarkröfunni verði hafnað og að málið verði tekið til efnismeðferðar.

I.

Af hálfu stefnda er því haldið fram að málatilbúnaður stefnanda sé langt frá því að standast kröfur 80. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Málsatvikum, sem búi að baki kröfu stefnanda, sé ekki nægilega lýst og ekki greint frá atvikum sem leitt hafi til stofnunar kröfunnar. Þá liggi ekki fyrir nægar upplýsingar til þess að unnt sé að leggja mat á fjárhæð kröfunnar og þýðingar vanti á gögnum. Erfitt sé því að sjá hvernig haga beri uppbygg­ingu varna í málinu með tilliti til framlagðra gagna og rökstuðnings stefnanda fyrir dómkröfu sinni.

Stefnandi leggi ekki fram þá skiptasamninga sem dómkrafa hans byggist á. Það hafi verið nauðsynlegt með tilliti til þess að skiptasamningur sé einungis skuldbind­andi fyrir stefnda hafi verið stofnað til hans í samræmi við greinar 5.3 og 13.1 í markaðsskilmálum stefnanda (e. General Terms for Customers of MP Investment Bank Capital Markets). Skilyrðin samkvæmt markaðsskilmálunum séu tvíþætt. Annars vegar að stefndi sendi beiðni til stefnanda um tiltekin viðskipti og hins vegar að samningurinn sé staðfestur skriflega af stefnanda. Eftir að stefnandi hafi staðfest efni samningsins í samræmi við beiðni viðskiptamanns sé samningurinn skuldbind­andi fyrir hann nema hann hafi mótmælt efni hans innan tveggja daga frá því að staðfestingin barst. Stefnanda hafi einnig borið samkvæmt markaðsskil­málunum að senda stefnda kvittun til staðfestingar á kaupum eða sölu á verðbréfum eða gjaldeyri. Stefnanda hafi verið rétt að álykta að efni kvittunar væri rétt ef henni væri ekki mótmælt innan 30 daga frá móttöku hennar nema um augljósar villur væri að ræða. Með vísan til þess að yfirlitin, sem dómkrafa stefnanda byggðist á, hafi ekki verið borin undir stefnda fyrr en honum var birt stefna í málinu sé ljóst að skipta­samningarnir, eða staðfesting á því að samningar hefðu komist á, hefðu þurft að liggja fyrir svo stefndi gæti gripið til fullnægjandi varna. Grundvallarskjöl í málinu hefðu þurft að liggja fyrir í upphafi málsins.

Ágreiningur í málinu snúist um uppgjör á flóknum viðskiptum og varði verulega hagsmuni. Hvorki í stefnu né í framlögðum gögnum sé greint frá því við hvaða gengi eða hvernig opnunargengi eða lokagengi skiptasamninganna sé fundið út, en ekki komi fram hvort um gengi kauphallar sé að ræða eða hvort gengið hafi verið umsamið í hvert skipti. Þá sé ekki greint frá því með nákvæmum hætti hvaða verðbréf stefndi hafi keypt hverju sinni, einungis sé tiltekið heiti og einkenni verðbréf­anna. Gengi í skiptasamningum ákvarði hvort tap hafi verið á viðskiptunum eða ekki. Gengi verðbréfa geti verið mismunandi frá byrjun dags til loka dags. Þar sem stefnda sé hvorki kunnugt um hvaða verðbréf það voru, sem hann eigi að hafa gert skiptasamning um, og við hvaða gengi var miðað hverju sinni, sé ómögulegt að leggja mat á hvort uppgjör hinna umstefndu gjaldmiðlasamninga hafi verið rétt. Möguleiki stefnda til að leggja fram gagnkröfu til skuldajafnaðar sé því útilokaður.

Með vísan til þessa og niðurlagsorða e-liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991, þar sem segi að lýsing málsástæðna og annarra atvika í stefnu skuli vera svo skýr að ekki fari á milli mála hvert sakarefnið sé, þá sé ljóst að málatilbúnaður stefnanda uppfylli ekki kröfur lagaákvæðisins. Auk þess sé útilokað að bæta úr þessari vanreifun á síðari stigum málsins án þess að málsgrundvellinum sé þar með breytt.

II.

Málsatvikum og helstu málsástæðum stefnanda er lýst þannig í stefnu að stefndi hafi leitað til stefnanda og óskað eftir að stofna til viðskipta. Fyrstu viðskipti hafi verið 12. janúar 2007, eins og fram komi í reikningsyfirliti. Stefndi hafi skrifað undir almenna markaðsskilmála fyrir viðskiptamenn stefnanda 15. janúar s.á., en skilmál­arnir gildi um réttarsamband málsaðila.

Viðskipti stefnda hafi staðið allt frá 12. janúar 2007 til 24. febrúar 2009. Síðustu viðskipti stefnda hafi verið gerð upp 27. janúar 2009 en stefndi hafi enn verið í skuld við stefnanda 24. febrúar s.á., samtals að fjárhæð 48.093,20 EUR og sé það stefnu­fjárhæð málsins.

Allir samningar við stefnda hafi verið gerðir upp með vísan til 10. kafla markaðsskilmálanna um skuldajöfnuð og 11. kafla um gjaldfellingu. Stefnandi hafi höfðað málið til innheimtu á skuldinni sem stefndi hafi ekki greitt. Stefnandi reisi kröfu sína á almennum reglum fjármunaréttarins um ábyrgð á fjárskuldbindingum og skuldbind­ingar­gildi samninga, auk almennra reglna um viðskipti viðskiptamanna við banka og fjárfestingabanka. Að auki sé meðal annars vísað til laga nr. 33/2003 og nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti og laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki.

Af hálfu stefnanda er því mótmælt að málatilbúnaður sé ófullnægjandi. Frávísunarkrafa stefnda byggðist aðallega á málsástæðum sem varði efnishlið málsins en ekki formhlið. Sakarefninu sé nægilega lýst í stefnu en krafist sé greiðslu skuldar sem hafi myndast á reikningi stefnda hjá stefnanda. Ekki sé krafist uppgjörs á flóknum fjármálagerningum en samningsbundnu uppgjöri afleiðusamninga sé lokið sem stefndi hafi engar athugasemdir gert við. Ágrein­ingur sé um skuldbindingargildi samninga sem varði ekki formið heldur efni málsins.

Á yfirliti yfir hreyfingar á reikningi stefnda komi fram um hvers konar færslur hafi verið að ræða. Þótt tiltekinni færslu sé mótmælt varði það ekki frávísun en geti leitt til sýknu sökum sönnunarskorts verði ekki lögð fram viðhlítandi gögn undir rekstri málsins um það ágreiningsatriði. Gögn um færslur sem liggi að baki skuldinni þurfi ekki að fylgja stefnu enda megi leggja þau fram síðar. Stefnda hafi verið sendur ítarlegur gagnalisti um færslur hans. Stefndi geti því ekki borið við að hann hafi ekki vitað um hvað málið snúist eða hvernig hann ætti að taka til varna. Þótt skjöl vanti leiði það ekki til að málinu verði vísað frá dómi. Stefnandi hafi ekki getað vitað fyrir að stefndi bæri því við að hann kannaðist ekki við skjöl vegna málsins.

III.

Stefnanda ber samkvæmt e-lið 1. mgr. 80. gr. laga um meðferð einkamála að greina svo glöggt sem unnt er frá málsástæðum, sem málssóknin er byggð á, og öðrum atvikum, sem þarf að greina til þess að samhengi málsástæðna verði ljóst, en lýsingin skal vera gagnorð og svo skýr að ekki fari milli mála hvert sakarefnið er. Þótt stefnandi hafi í munnlegum málflutningi í þessum þætti málsins haldið því fram að stefnda hafi verið kunnugt um skiptasamningana og önnur gögn, sem málssóknin sé byggð á, leiðir framangreind regla til þess að gera þarf grein fyrir því í stefnu hver þau málsatvik eru sem stefnandi byggir kröfur í málinu á. Í greinargerð stefnda kemur fram að kröfur stefnanda í málinu séu reistar á svokölluðum skiptasamningum og vísað er til gjaldmiðlasamninga og viðskipta stefnda við stefnanda vegna kaupa og sölu á gjaldeyri og hlutabréfum með skiptasamningum. Engum slíkum samningum er lýst í stefnu og ekki er þar gerð grein fyrir því hvort krafa stefnanda í málinu er byggð á þeim. Í málatilbúnaði stefnanda kemur þó fram að ágreiningur í málinu snúist um skuldbindingargildi samninga.

Eins og lýst hefur verið hér að framan er krafa stefnanda byggð á því að stefndi hafi stofnað til viðskipta hjá stefnanda. Þessum viðskiptum er ekki lýst í stefnu en vísað er þar til reikningsyfirlits um upphaf viðskiptanna 12. janúar 2007. Á reikningsyfirlitinu kemur einnig fram að skuld stefnda hafi verið 48.093,20 EUR 24. febrúar 2009. Þá er í stefnu vísað til almennra markaðsskilmála, sem gildi um réttar­samband málsaðila, en ekki kemur fram hvað úr þessum skilmálum eigi við um sakar­efni málsins að öðru leyti en því að vísað er til ákveðinna kafla í þeim um skulda­jöfnuð og gjaldfellingu. Af stefnunni verður ekki ráðið hvernig stofnast hafi til skuldar­innar að öðru leyti en því að það hafi verið með viðskiptum án þess að þeim eða færslum á reikninginn sé lýst með viðhlítandi hætti í stefnu.

Með vísan til alls þessa verður að telja að stefnandi hafi hvorki lýst nægilega í stefnu hverjar málsástæður hans eru né lýst sakarefninu þar á viðhlítandi hátt. Ber þegar af þeirri ástæðu að vísa málinu frá dómi.   

Með vísan til 2. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála ber stefnanda að greiða stefnda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 250.000 krónur.

Úrskurðinn kveður upp Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari.

ÚRSKURÐARORÐ:

Máli þessu er vísað frá dómi.

Stefnandi, MP Banki hf., greiði stefnda, Albinas Jonas Valasinas, 250.000 krónur í málskostnað.