Hæstiréttur íslands

Mál nr. 306/1999


Lykilorð

  • Vinnuslys
  • Sjómaður
  • Skaðabætur
  • Líkamstjón
  • Örorka
  • Gjafsókn


Fimmtudaginn 17

 

Fimmtudaginn 17. febrúar 2000.

Nr. 306/1999.

Filippus Hróðmar Birgisson

(Steingrímur Þormóðsson hrl.)

gegn

Siglfirðingi hf.

(Guðmundur Pétursson hrl.)

 

Vinnuslys. Sjómenn. Skaðabætur. Líkamstjón. Örorka. Gjafsókn.

Bátsmaðurinn F varð fyrir slysi við vinnu um borð í skipi S þegar unnið var við að hífa troll um borð í skipið. Var F staddur á svokölluðu trolldekki skipsins og stjórnaði þar verki skipverja þegar belgur trollsins slóst í hann með þeim afleiðingum, að hann kastaðist á járnþil og hlaut meiðsl á baki. F bar fyrir dómi, að skipstjóri hefði híft í gils, sem F hafði rétt lokið við að festa í belginn, án þess að merki hefði verið gefið um að það væri óhætt. Hefði þetta valdið slysinu. Talið var, að S yrði að bera hallann af því að sjópróf hefðu ekki farið fram. Yrði því við úrlausn málsins að líta svo á, að réttilega hefði verið greint frá orsökum slyss F í framburði hans sjálfs og hásetanna G, B og E fyrir dómi, en framburði F, G og B bar að þessu leyti ekki fyllilega saman við skýrslur þeirra hjá lögreglu. Þótti verða að leggja til grundvallar, að F hefði orðið fyrir slysinu vegna þess að skipstjórinn hefði af vangá eða misskilningi híft með gilsinum í trollbelginn áður en F var kominn í öruggt var. Var skaðabótaábyrgð felld á S vegna þessa atviks, en líkur voru ekki taldar hafa verið leiddar að því, að F ætti að bera hluta tjóns síns sjálfur. Voru F dæmdar bætur fyrir sjúkrakostnað, þjáningar, tímabundið atvinnutjón, varanlega örorku og miska, en kröfu hans vegna annars fjártjóns hafnað sem órökstuddri.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 4. ágúst 1999. Hann krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 13.107.725 krónur með 2% ársvöxtum frá 13. desember 1997 til 25. nóvember 1998, en dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til greiðsludags. Hann krefst einnig málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem honum hefur verið veitt á báðum dómstigum.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður falli þá niður.

Tryggingamiðstöðinni hf. hefur verið stefnt til réttargæslu í málinu.

 

I.

Áfrýjandi varð fyrir slysi 12. desember 1997 við vinnu um borð í skipi stefnda, Sigli SI 250. Fyrir liggur að slysið varð þegar unnið var við að hífa troll um borð í skipið. Munu hafa verið um 13 tonn af fiski í trollinu. Áfrýjandi var staddur á svokölluðu trolldekki skipsins þegar belgur trollsins slóst í hann með þeim afleiðingum að hann kastaðist á járnþil. Hlaut hann af því meiðsl í baki og var óvinnufær til loka veiðiferðarinnar.

Siglir er tæplega 2000 rúmlesta skuttogari. Þegar áfrýjandi varð fyrir slysinu stjórnaði skipstjórinn hífingu á trollinu. Við það verk stóð skipstjórinn í brú skipsins, en þaðan munu hafa verið um 40 til 50 metrar að þeim stað, sem áfrýjandi var við vinnu. Áfrýjandi var bátsmaður í veiðiferðinni og stjórnaði verki skipverja á trolldekki skipsins. Hann hafði á höfðinu hjálm með innbyggðum sendibúnaði til að eiga orðaskipti við skipstjórann. Óumdeilt er að sendibúnaður þessi var bilaður og misjafnt hvort samband hafi náðst með honum upp í brú eða til baka, en notkun hans mun hafa verið hætt eftir umrædda veiðiferð. Í henni var því notast við bendingar eftir því, sem sendibúnaðurinn kom ekki að haldi.

II.

Samkvæmt frásögn áfrýjanda voru nánari atvik að slysinu þau að búið hafi verið að hífa trollið í þeim mæli að framhluti þess og belgur var kominn um borð. Hafi þá verið hætt að hífa um stund til þess að áfrýjandi og skipverjinn Guðmundur Meyvantsson gætu sett stroffu utan um belginn. Að því gerðu hafi verki Guðmundar verið lokið og hann fært sig frá. Áfrýjandi hafi hins vegar orðið eftir bakborðsmegin á skipinu og fest í stroffuna járnkrók, sem var á enda vírs sem lá frá spili. Sá krókur ásamt vírnum kallist í einu lagi gils. Hafi áfrýjandi rétt lokið þessu þegar skyndilega hafi verið byrjað á ný að hífa viðstöðulaust án þess að hann hafi gefið merki um að það væri óhætt. Við þetta hafi hann fengið á sig belginn og fallið aftur fyrir sig, en af því hafi hann hlotið meiðslin. Áfrýjandi heldur fram að með réttu hefði átt að standa þannig að verki að þegar gilsinn hefði verið festur í stroffuna yrði híft lítillega á meðan áfrýjandi styddi við krókinn til að taka slaka af vírnum. Hefði þá átt að hætta að hífa svo hann gæti komist undan í öruggt var, en fyrst að því gerðu hefði mátt byrja aftur að hífa. Undir engum kringumstæðum hefði skipstjórinn átt að hífa án þess að fá merki um það frá áfrýjanda eða öðrum skipverja.

Skipverjarnir Guðmundur Meyvantsson, Birgir Eiríksson og Einar Einarsson voru við störf með áfrýjanda þegar hann varð fyrir slysinu. Framangreind frásögn hans fær stuðning í vætti þeirra þriggja fyrir dómi, að frátöldu því að enginn þeirra kvaðst þó hafa séð þegar áfrýjandi féll, enda hafi þeir ekki fylgst með honum á því augnabliki. Bæði í lögregluskýrslu og fyrir dómi kvaðst Kristján Helgason, sem var skipstjóri í umræddri veiðiferð, ekki hafa orðið var við neitt óvenjulegt þegar verið var að hífa trollið í þetta sinn og gæti hann því ekki borið um atvik málsins. Í yfirlýsingu, sem hann sendi til lögreglunnar á Hólmavík 2. febrúar 1998 í tengslum við rannsókn slyssins, sagði þó að við eftirgrennslan hans hafi komið í ljós að áfrýjandi hafi orðið fyrir hnjaski á trolldekki við að taka trollið, en belgurinn muni hafa slegist í hann með þeim afleiðingum að hann hafi dottið á svonefndan bobbingagarð og fengið högg á bakið. Fyrir dómi kvað skipstjórinn hugsanlegt að í umrætt sinn hefði hann fengið röng skilaboð úr fyrrnefndum sendibúnaði vegna bilunar í honum. Hann lýsti annars vinnubrögðum í þessum efnum almennt á þann veg að hann hífði ekki í gilsinn nema það væri augljóslega óhætt, annaðhvort eftir bendingu frá skipverjum eða vegna þess að þeir væru farnir frá án þess að hafa gefið bendingu.

III.

Eins og málið liggur fyrir verður ekki litið svo á að annað fái staðist en að skipstjóra hafi orðið kunnugt um slysið meðan á veiðiferðinni stóð, þótt leggja verði til grundvallar þá frásögn hans að hann hafi ekki orðið var við það þegar í stað.

Lögreglurannsókn á atvikum að slysi áfrýjanda hófst að tilhlutan hans sjálfs í janúar 1998. Liggja fyrir í málinu lögregluskýrslur, sem voru meðal annars teknar þá og í febrúar 1998 af áfrýjanda, Guðmundi Meyvantssyni og Birgi Eiríkssyni. Í skýrslum þeirra allra var greint frá því að slysið hafi orðið vegna þess að trollið hafi slegist í áfrýjanda. Sjálfur sagði hann að þetta hafi gerst þegar slynkur kom á skipið. Birgir kvað trollið hafa slegist til „í einni veltunni“. Hins vegar bar enginn við lögreglurannsókn að slysið hefði tengst því að híft væri í trollið. Eins og ráðið verður af framangreindu var frásögn áfrýjanda um orsakir slyssins þannig að þessu leyti á annan veg þegar hann gaf skýrslu fyrir dómi en þegar hann bar um þær fyrir lögreglu. Gegnir sama máli um framburð Guðmundar Meyvantssonar og Birgis Eiríkssonar, en frásögn þeirra fyrir dómi var þó í samræmi við framburð Einars Einarssonar, sem gaf ekki skýrslu fyrir lögreglu. Við mat á sönnunargildi framburðar þessara vitna verður að líta til þess að samkvæmt 219. gr. siglingalaga nr. 34/1985 skal halda sjópróf þegar maður, sem ráðinn er til starfa á skipi, hefur orðið fyrir meiri háttar líkamstjóni þegar skipið hefur verið statt utan íslenskrar hafnar. Tryggingamiðstöðin hf. fór þess á leit við Héraðsdóm Norðurlands vestra 7. apríl 1998 að sjópróf yrði haldið og var sú beiðni ítrekuð af áfrýjanda, en henni var í engu sinnt. Frásögn áfrýjanda og skipsfélaga hans fyrir lögreglu kann að hafa orðið með þeim hætti, sem raun ber vitni, vegna ónákvæmni við skýrslutöku, sem síður hefði gætt ef sjópróf hefði verið haldið í kjölfar þess að skipið kom að landi. Stefndi verður að bera hallann af því að sjópróf fór ekki fram. Verður því við úrlausn málsins að líta svo á að réttilega hafi verið greint frá orsökum slyss áfrýjanda í framburði hans sjálfs, Guðmundar, Birgis og Einars fyrir dómi.

Að virtu öllu framangreindu verður að leggja til grundvallar að áfrýjandi hafi orðið fyrir umræddu slysi vegna þess að skipstjórinn hafi af vangá eða misskilningi híft með gilsinum í trollbelginn áður en áfrýjandi var kominn í öruggt var. Hafi þetta ásamt öldugangi valdið því að belgurinn slóst í áfrýjanda svo hann kastaðist á járnþil. Verður að fella skaðabótaábyrgð á stefnda vegna þessa atviks, en líkur hafa ekki verið leiddar að því að áfrýjandi hafi sjálfur átt þátt í rás atburða með þeim hætti að tilefni sé til að hann beri hluta tjóns síns sjálfur.

IV.

Bótakrafa áfrýjanda er sundurliðuð í héraðsdómi. Stefndi andmælir því að miða megi kröfu áfrýjanda um bætur fyrir tímabundið atvinnutjón og varanlega örorku við meðaltal tekna hans á árunum 1993 til 1997, heldur eigi eingöngu að taka mið af tekjum á síðasta árinu. Frá kröfu áfrýjanda eigi jafnframt að draga laun, sem stefndi greiddi honum í veikindaforföllum, dagpeninga úr almannatryggingum og greiðslu Tryggingamiðstöðvarinnar hf. vegna slysatryggingar launþega. Lækka eigi kröfu um þjáningabætur og hafna með öllu kröfu um annað fjártjón.

Fallist verður á með stefnda að ákveða verði bætur handa áfrýjanda vegna tímabundins atvinnutjóns og varanlegrar örorku eftir tekjum hans á árinu 1997, sbr. 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, en samkvæmt skattframtali námu þær 2.140.943 krónum. Stefndi hefur ekki mótmælt lengd þess tímabils, sem stefndi miðar kröfu sína samkvæmt 2. gr. skaðabótalaga um bætur fyrir tímabundið atvinnutjón við, en það er 15 mánuðir. Samkvæmt þessu telst tjón áfrýjanda að þessu leyti 2.676.179 krónur, en frá þeirri fjárhæð dragast 591.025 krónur, sem stefndi greiddi áfrýjanda í veikindaforföllum, og 282.132 krónur, sem hann fékk greiddar í dagpeninga úr almannatryggingum. Er því óbætt tjón áfrýjanda hvað þetta varðar 1.803.022 krónur. Í kröfu áfrýjanda um þjáningabætur er tekið mið af fjárhæðum, sem greinir í 3. gr., sbr. 15. gr. skaðabótalaga, og því tímabili, sem greint er í fyrirliggjandi læknisfræðilegum gögnum að hann hafi verið veikur. Verður sá liður í kröfu áfrýjanda því tekinn að fullu til greina með 427.447 krónum. Krafa áfrýjanda um varanlegan miska, 662.706 krónur, verður og tekin til greina að fullu, enda hefur hún ekki sætt andmælum. Krafa áfrýjanda um bætur vegna varanlegrar örorku nemur 5.790.184 krónum, þegar tekið er mið af tekjum hans á árinu 1997. Frá þeirri fjárhæð verður að draga bætur, sem áfrýjandi fékk greiddar frá Tryggingamiðstöðinni hf. úr atvinnuslysatryggingu launþega, að fjárhæð 408.010 krónur. Kröfu áfrýjanda um bætur fyrir sjúkrakostnað, 40.492 krónur, er ekki andmælt og verður hún því tekin til greina. Krafa áfrýjanda um bætur fyrir annað fjártjón er á hinn bóginn með öllu órökstudd og verður henni hafnað.

Samkvæmt framansögðu verður krafa áfrýjanda tekin til greina með 8.315.841 krónu. Verður stefnda gert að greiða áfrýjanda þá fjárhæð með vöxtum eins og í dómsorði greinir, en dráttarvextir verða dæmdir frá 25. desember 1998, þegar mánuður var liðinn frá því að áfrýjandi gerði fyrst kröfu um bætur á hendur Tryggingamiðstöðinni hf.

Áfrýjanda var veitt gjafsókn í héraði og fyrir Hæstarétti. Verður gjafsóknarkostnaður hans greiddur úr ríkissjóði á báðum dómstigum, þar á meðal málflutningsþóknun lögmanns hans, sem er ákveðin í einu lagi, svo sem greinir í dómsorði.

Stefndi verður dæmdur til að greiða í ríkissjóð málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðinn er í einu lagi eins og í dómsorði segir.

Dómsorð:

Stefndi, Siglfirðingur hf., greiði áfrýjanda, Filippusi Hróðmari Birgissyni, 8.315.841 krónu með 2% ársvöxtum frá 13. desember 1997 til 25. desember 1998, en dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til greiðsludags.

Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, samtals 900.000 krónur.

Stefndi greiði í ríkissjóð málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, samtals 900.000 krónur.

 

 

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 26. júlí 1999.

Mál þetta, sem dómtekið var þann 30. júní 1999, er höfðað með stefnu birtri 5. janúar 1999.

Stefnandi er Filippus Hróðmar Birgisson, kt. 290850-3719, Aðalbraut 12, Drangsnesi.

Stefndi er Siglfirðingur hf., kt. 580679-0729, Aðalgötu 34, Siglufirði.

Réttargæslustefndi er Tryggingamiðstöðin hf. kt. 660269-2079, Aðalstræti 6-8, Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 13.107.725 krónur ásamt 2% ársvöxtum frá 13. desember 1997 til 25. nóvember 1998, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu, þar sem tekið verði tillit til útlagðs kostnaðar og til þess að stefnandi er ekki virðisaukaskattskyldur.

Dómkröfur stefnda eru þær aðallega að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda, en til vara er krafist verulegrar lækkunar á stefnukröfu. Í aðalkröfu er krafist málskostnaðar að skaðlausu, en í varakröfu er þess krafist að málskostnaður verði felldur niður.

Engar kröfur eru gerðar á hendur réttargæslustefnda og hann gerir engar kröfur í málinu.

 

Málsatvik

Stefnandi var bátsmaður á skipinu Sigli, SI-250, sem er í eigu stefnda og var hann við vinnu um borð í skipinu í desember 1997 er hann slasaðist á baki.

Í lögregluskýrslu sem stefnandi gaf 9. janúar 1998 skýrði hann svo frá að skipið hefði verið að veiðum á Reykjaneshrygg um það bil 470 sjómílum fyrir sunnan land.  Hann kvað áhöfn hafa verið að hífa troll úr sjó og hafi hann verið á efra dekki að taka á móti trollinu. Þá hafi komið slynkur á skipið og hafi hann fengið belginn sem kemur á undan pokanum í fangið og kastast til hliðar. Hann  hafi þá dottið á bakið á innra þil og fundið að eitthvað hafi látið undan í bakinu.

Lögregluskýrslur voru einnig teknar af skipstjóra og skipverjunum Birgi Svan Eiríkssyni, og Guðmundi Meyvantssyni. Atvikið var ekki skráð í skipsbækur og því kvaðst stefnandi ekki muna nákvæmlega hvaða dag slysið hefði orðið, en kvaðst telja að það hafi orðið á tímabilinu frá 10.-13. desember 1997. Í skipsdagbók föstudagsins 12. desember 1997 kemur fram að þann dag hafi verið híft. Stefnandi kveðst hafa haft hjálm á höfði sem í var senditæki, en með því átti hann að geta haft samskipti við skipstjórann í brúnni. Komið hefur fram að búnaðurinn átti til að bila, en ekki hefur verið í ljós leitt hvort hann var í lagi er slysið varð. Í málinu er hins vegar óumdeilt að flottromla skipsins var í ólagi. Stefnandi  fór á Slysadeild Sjúkrahúss Reykjavíkur þegar skipið kom í land þann 17. desember 1997. Þar var hann skoðaður og röntgenmyndir teknar. Brot fundust ekki á hrygg, en stefnandi var í meðferð vegna bakóþæginda hjá ýmsum læknum í kjölfar atviksins. Atli Þór Ólason, dr. med. mat örorku stefnanda 17. nóvember 1998 samkvæmt skaðabótalögum nr. 50/1993. Í örorkumati hans segir svo:

"Við vinnuslysið þann 13.12.1997 varð Filippus H. Birgisson fyrir eftirfarandi skaða með hliðsjón af skaðabótalögum nr. 50/1993:

 

1. Tímabundið atvinnutjón skv. 2. grein: Fimmtán mánuðir..100%

2. Þjáningabætur skv. 3. grein: Rúmliggjandi, fjórir mánuðir.

Batnandi með fótaferð, ellefu mánuðir.

3. Varanlegur miski skv. 4.grein 15%

4. Varanleg örorka skv. 5. grein 30%."

Á grundvelli matsins sendi lögmaður stefnanda réttargæslustefnda kröfubréf dags. 25. nóvember 1998, þar sem hann kom á framfæri kröfum umbjóðanda síns á stefnda, Siglfirðing hf., samtals að fjárhæð 8.381.863 krónur. Með bréfi dags. 2. desember 1998 hafnaði réttargæslustefndi bótaskyldu úr ábyrgðartryggingu skipsins. Hvorki skipstjóri skipsins né stefndi Siglfirðingur hf. fóru þess á leit að sjópróf yrðu haldin, en réttargæslustefndi fór þess ítrekað á leit við héraðsdóm Norðurlands vestra að þau yrðu haldin, án árangurs. Stefnanda var greitt slysakaup frá stefnda að fjárhæð 591.026 krónur og einnig fékk stefnandi greidda dagpeninga frá Tryggingastofnun ríkisins 282.132 krónur. Þá fékk stefnandi greiddar örorkubætur frá réttargæslu­stefnda, 408.010 krónur.

Ágreiningur í málinu lýtur að því hver hafi verið orsök slyssins og þar með hvort hið stefnda félag sé bótaskylt.

Fyrir dóminn komu og gáfu skýrslur stefnandi sjálfur, Kristján Helgason skipstjóri, kt.170855-7799, Birgir Svan Eiríksson sjómaður, kt. 031060-5409, sem gaf skýrslu sína símleiðis, Höskuldur Guðmundsson matsveinn, kt. 021229-4589, Guðmundur Meyvantsson sjómaður, kt. 231055-3479 og Einar Einarsson, sjómaður, kt. 170171-4889.

 

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi byggir á, að hann hafi orðið fyrir líkamlegum áverkum í vinnuslysi, sem hið stefnda félag beri ábyrgð á vegna gáleysislegra vinnubragða starfsmanns síns og sökum vanbúnaðar tækja. Byggir stefnandi á, að þessir líkamlegu áverkar hafi skert getu hans til að afla sér tekna með vinnu, þannig að stefnandi sé nú algerlega óvinnufær (100%) til þeirrar vinnu, sem hann hafi gegnt áður en hann varð fyrir slysinu.

Stefnandi kveður eina af þremur höfuðorsökum slyssins hafa verið vinnubrögð skipstjórans, þ.e. þá ákvörðun hans að byrja hífingu, áður en hann hafi verið kominn upp úr skutrennunni. Slíkum vinnubrögðum hafi skipstjórinn undir engum kringumstæðum mátt beita, eins og á stóð, en veltingur var á skipinu vegna sjógangs. Þar að auki hafi verið híft í með gilsinum, sem var bakborðsmegin, sem hafi gert það að verkum að trollið hafi dregist enn frekar að bakborðshlið skipsins í áttina að stefnanda.

Önnur höfuðorsök slyssins hafi verið vanbúnaður á flottromlu skipsins, en tromlan hafi gefið eftir þegar trollið hafi verið híft inn og einnig að þungt hafi verið í trollinu og skipið á ferð. Hafi trollið þá slengst til hliðanna með svipuðum hætti og þegar slaknar á kaðli, sem strengdur hefur verið milli tveggja krafta.

Stefnandi tekur fram, að skipverjar hafi verið margbúnir að kvarta yfir þessum vanbúnaði og benda skipstjóranum á þá hættu, sem þetta skapaði, er menn hafi verið í skutrennunni við vinnu.  Ábendingum þeirra hafi hins vegar í engu verið sinnt. Tekur stefnandi fram, að báðar þessar orsakir hafi hvor um sig sjálfstætt getað valdið slysinu.

Þá kveður stefnandi einnig að sjálfstæð tjónsorsök slyssins hafi verið sú bilun, sem orðið hafi í því senditæki, sem hafi verið innbyggt í hjálm stefnanda. Hefði tækið verið í lagi, hefði skipstjórinn farið eftir tilkynningu stefnanda um hífingu og stefnandi því getað forðað sér úr skutrennunni, áður en híft var.

Stefnandi kveður að skipstjóranum hafi einnig margoft verið bent á vanbúnað senditækisins, án þess að úr því væri bætt.

Þá sé viðbótarorsök slyssins sú staðreynd, að skipstjórinn hafi verið einn í brúnni og hafi því ekki getað stjórnað bæði siglingu skipsins og hífingu trollsins á sama tíma. Bendir stefnandi á, að ómögulegt sé að gera þessa tvo hluti samtímis. Siglingatæki skipsins séu staðsett fremst í brúnni, en stjórntæki hífingarbúnaðarins aftast í brúnni í sérstökum klefa. Á milli þessara svæða í brúnni séu 6 til 8 metrar að minnsta kosti.

Stefnandi byggir á, að ef siglingu skipsins hefði verið stjórnað á meðan á hífingu trollsins stóð, hefði mátt komast hjá þeim veltingi sem komið hafði á skipið, þegar stefnandi fékk trollið á bringuna. Stefnandi byggir og á, að vinnuaðstaða skipverja á efra dekki skipsins hafi verið vanbúin og að hægt hefði verið með réttum aðbúnaði og réttum vinnubrögðum, að minnka verulega þá hættu, sem um var að ræða. Á þessum vanbúnaði og röngum vinnubrögðum eigi útgerðin sök.

Stefnandi kveður að samkvæmt 219. og 220. greinum siglingalaga hafi skipstjóra borið að biðja um og krefjast þess, að sjópróf yrði haldið strax og slysið varð og komið var í höfn. Ekkert sjópróf hafi hins vegar farið fram og beri hið stefnda félag þar af leiðandi sönnunarbyrði um þau atriði, sem verði ef til vill ekki í ljós leidd í þessu máli.

Þegar við þá staðreynd bætist síðan, að Siglingastofnun, sem hafa eigi eftirlit með vinnuaðstöðu skipverja um borð í skipum samkvæmt lögum nr. 35/1993, sinni eftirlitsskyldu sinni á engan hátt, sé ljóst að staða skipverja til sönnunar á orsökum vinnuslyss geti reynst ómöguleg og sé í öllu falli óviðunandi.

Við þetta sé því að bæta, að dómstólar hafi litið svo á, að í þessu efni sé frumkvæðis­skyldan hjá útgerðinni, en ekki Siglingastofnun.

Af þessum ástæðum beri hinu stefnda félagi að sýna fram á, að aðbúnaður um borð hafi verið í samræmi við lög nr. 35/1993.

Stefnandi byggir á, að lögregluskýrslur geti ekki talist sönnunargögn í þessu máli, þar sem þær séu teknar að mjög óathuguðu máli og ekki af kunnáttumönnum um vinnubrögð til sjós og um eðli siglinga. Þá sé ljóst að aðrir skipverjar þori ekki að bera um atriði, sem eru óhagstæð útgerð skipsins, svo lengi sem þeir eru starfandi hjá útgerðinni.

Stefnandi rökstyður dómkröfur sínar tölulega með neðangreindum hætti:

 

a. Tímabundið örorkutjón.

Stefnandi byggir á örorkumati Atla Þórs Ólasonar læknis, frá 17. nóvember sl. þar sem hann er metinn 100% öryrki tímabundið í fimmtán mánuði.

Til grundvallar kröfum stefnanda í þessa fimmtán mánuði miðar hann við tekjur sínar síðastliðin 5 ár, sem hann aflaði sér sem sjómaður á togurum og sem verkstjóri við fiskvinnslu, skv. framlögðum skattframtölum:  Árið 1997, 2.140.943 krónur, árið 1996, 3.101.697 krónur, árið 1995, 3.879.433 krónur, árið 1994, 3.108.233 krónur og árið 1993, 3.269.062 krónur = 15.499.368/60 = 258.323 krónur.

Tekjutap í 15 mánuði geri 258.323x15=3.874.845. Þar af hafi stefnanda verið greiddar af hinu stefnda félagi vegna veikindaforfalla 531.378 krónur. Því kveður stefnandi fjárhæð örorkutjóns fyrir tímabundna örorku  3.343.467 krónur.

Kröfu sína um bætur fyrir tímabundna örorku byggir stefnandi á 1. mgr. 2. greinar laga nr. 50/1993 og reglum vinnuréttarins um staðgengilslaun.

 

b. Þjáningabætur skv. 3. grein skaðabótalaga kveður stefnandi vera í samræmi við bréf stefnanda til hins stefnda félags frá 23. nóvember sl.:

Rúmliggjandi: 1.300x3625/3282x120  

172.304 krónur

batnandi með fótaferð: 700x3625/3282x330

255.143 krónur

 

 

c. Miskabætur: 4.000.000x3625/3282x15%

662.706 krónur

 

 

d. Bætur fyrir varanlega örorku samkvæmt 5. grein skaðabótalaga:

 

3.099.873x106%=3.285.865x3625/3282=3.629.269x10x30%

10.887.808 krónur

 

Lækkun vegna aldurs 23%

-2.504.195 krónur

 

Stefnandi byggir kröfur sína um bætur fyrir varanlega örorku á, að hann hafi aðeins verið tæpt ár á Sigli sem bátsmaður er hann slasaðist. Tekjur hans þetta tæpa ár hafi verið mun lægri en næstu 4 ár á undan og að því leyti hafi óvenjulegar aðstæður verið fyrir hendi. Einnig verði hér að hafa í huga þær óvenjulegu aðstæður, sem sjómenn á togurum búi almennt við varðandi tekjur. Ekki sé um að ræða jafnar tekjur frá ári til árs, heldur fari tekjurnar eftir því hvernig fiskist. Því sé eðlilegt og sanngjarnt að miða árslaun við meðaltal tekna stefnanda árin 1993 til og með 1997, en ekki það ár sem lélegast er af þessum fimm árum.

 

e. Bætur fyrir annað fjártjón skv. 1. mgr. 1. greinar skaðabótalaga   250.000 krónur.

Stefnandi byggir þessa kröfu sína á öllum þeim kostnaði, sem hann hafi orðið fyrir vegna slyssins, en hann hafi þurft að ferðast langa vegu til lækna og orðið að dvelja langdvölum á sjúkrastofnunum, vegna þeirra áverka, sem hann hlaut í slysinu. Hafi hann af þessum sökum orðið að dvelja langdvölum fjarri heimili sínu.

Allt þetta hafi orðið stefnanda til mikils kostnaðar, sem erfitt sé að halda saman.

 

f. Bætur fyrir sjúkrakostnað samkvæmt l. mgr. 1. greinar skaðabótalaga 40.492 krónur.

Samtals nemi stefnukröfur 13.107.725 krónum.

Stefnandi styður dómkröfur sínar við almennu skaðabótaregluna og reglu skaðabóta­réttarins um vinnuveitendaábyrgð.

Þá vísar stefnandi til skaðabótalaga og þá sérstaklega til 2. mgr. 24. greinar laganna.

Einnig er vísað til reglna vinnuréttarins um hlýðnisskyldu undirmanns gagnvart yfirmanni og til reglna vinnuréttarins um fullkomnar vinnuaðstæður.

Þá skírskotar stefnandi til 25. greinar sjómannalaga og 6. greinar sl (sic). og til 175. greinar siglingalaga og til 178. greinar sömu laga.

Stefnandi byggir á að hið stefnda félag beri sönnunarbyrði í þessu máli.

 

Málsástæður og lagarök stefnda

Stefndi byggir sýknukröfu á því að slysið hafi ekki orðið með þeim hætti að um geti verið að ræða ábyrgð að lögum hjá eiganda skips eða útgerð.

Hann kveður að ekkert liggi fyrir um þá fullyrðingu stefnda að híft hafi verið of snemma eða að hífing hafi yfirleitt átt nokkurn þátt í slysinu. Samkvæmt frásögn stefnanda sjálfs í lögregluskýrslu segi hann að slynkur hafi komið á skipið vegna veltings. Framburður skipsfélaga stefnanda, þeirra Birgis Eiríkssonar og Guðmundar Meyvantssonar sem verið hafi með honum sé á sömu lund. Ekkert sé minnst á að hífingu hafi verið ábótavant, en ítrekað að trollið hafi slegist til vegna veltings og lent framan á stefnanda og þeytt honum út í lunningu bakborðsmegin. Þá komi fram hjá skipstjóranum í yfirheyrslu fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 15. janúar 1999, að útilokað sé að hann hafi híft gilsinn nema að hafa fengið um það bendingu um að það væri óhætt. Í þessu tilviki hafi það verið stefnandi sjálfur sem hefði gefið slíka bendingu, sem bátsmaður og verkstjóri á  dekki og sá sem verið hafði í rennunni. Fullyrðingar um að híft hefði verið of snemma séu síðar fram komnar. Varðandi þá orsök slyssins að mati stefnanda, að flottromla skipsins hafi verið biluð, bendir stefndi á að skipstjóri  hafi kannast við að trollið hafi sigið eitthvað til baka þegar mikið var í því, þar sem bremsur hafi verið farnar að gefa sig, en hann kvað einnig að það hefði ekkert með slátt á pokanum að gera.  Það sé því ljóst að þær málsástæður stefnanda sem hann telji höfuðorsakir slyssins eigi ekki við rök að styðjast og því sé augljóslega um óhappatilvik að ræða sem beri að sýkna stefnda af.  Þá kveður stefndi að ekkert liggi fyrir sem sanni að senditæki þau sem verið hafi í hjálmi stefnanda hafi verið biluð þegar slysið hafi orðið. Það sé hins vegar viðurkennt að illa hafi gengið að notast við þennan búnað og að lokum hafi verið skipt aftur yfir í hefðbundinn hátalarabúnað. Það breyti ekki því að eftir sem áður hafi menn gefið merki með bendingum um hvort hífa ætti eða ekki og það sé auðvitað hin viðtekna venja til sjós, hvað sem öllum tæknibúnaði líði. Þar sem skipverjum hafi verið kunnugt um vandræðin með senditækin í hjálmunum hafi verið enn ríkari ástæða fyrir þá að gefa skýr merki með bendingum. Það verði því ekki fallist á að bótagrundvöllur geti byggst á þessu atriði.  Þá verði ekki séð að skipt geti máli varðandi slysið hvort skipstjóri hafi verið einn í brúnni, sem reyndar sé mótmælt sem ósönnuðu. Hvað sem því líði komi fram hjá skipstjóra í yfirheyrslum að hann meti sjálfstætt hvort aðstæður séu með þeim hætti að nauðsynlegt sé að hafa annan í brúnni, en yfirleitt sé það ástæðulaust þar sem mjög lítil ferð sé á skipinu þegar híft sé og hafi hann metið það svo að betra væri að hann hífði, en aðrir skipverjar, þar sem hann væri vanur hífingum. Auðvitað hafi skipið oltið enda sjólag og veður þannig að ekkert hafi getað komið í veg fyrir það, en slíkt skapi ekki bótarétt til handa stefnanda. Sjópróf hafi ekki farið fram og óhappsins hafi heldur ekki verið getið í dagbók skips. Skipstjóri hafi hins vegar gefið þær skýringar að honum hafi ekki verið kunnugt um að slys hafi átt sér stað, heldur hafi hann talið að um veikindi væri að ræða hjá stefnanda og hafi hann frétt það síðar hjá öðrum að stefnandi hefði orðið fyrir meiðslum vegna slyss. Hvað þetta varði virðist a.m.k. ljóst að stefnandi hafi greinilega ekki tilkynnt neinum yfirmanni skipsins um atvikið í beinu framhaldi af því, sem honum hafi þó auðvitað borið að gera, þannig að þess yrði getið í dagbókinni. Þetta skýri að slysið hafi ekki verið rannsakað í upphafi og sé ábyrgð þess ekki síður hjá stefnanda en skipstjórnarmönnum skipsins. Allt beri þetta að sama brunni, ábyrgðargrundvöll skorti og hljóti atvikið að flokkast undir óhappatilvik og beri því að sýkna stefnda af kröfum stefnanda. Varakröfu sína um lækkun byggir stefndi á því í fyrsta lagi að um eigin sök stefnanda hafi verið að ræða. Hafa verði í huga að stefnandi hafi gegnt stöðu bátsmanns þegar óhappið hafi orðið. Hann sé því yfirmaður þeirra er hafi verið að vinna á efra dekkinu og verkstjóri. Hann sé vanur sjómaður og mátt eða átt að gera sér grein fyrir því að belgurinn kynni að hendast til í veltingnum sem þarna hafi verið og vera þess búinn að varast belginn ef slíkt gerðist. Það hafi honum ekki tekist og hljóti að bera ábyrgð á því sjálfur. Það sama eigi við ef merkjagjafir hafi ekki verið í lagi. Stefnandi sjálfur beri ábyrgð á þeim og geti ekki í þeim efnum komið ábyrgðinni yfir á aðra. Af þessu leiði að verði ekki fallist á sýknukröfuna hljóti stefnandi a.m.k. að verða að bera megin hluta tjóns síns sjálfur vegna eigin sakar.

Þá gerir stefndi athugasemdir við tölulega meðferð stefnanda á kröfum sínum.

Einnig mótmælir stefndi sérstaklega þeirri fullyrðingu stefnanda að lögreglu­skýrslur séu ekki sönnunargögn í málinu. Það sé vitanlega rangt og vangaveltur um að skipverjar þori ekki að bera um atriði sem þeim séu óhagstæð séu órökstuddar dylgjur. Þá er dráttarvaxtakröfu mótmælt og því haldið fram að dráttar­vexti beri ekki að reikna fyrr en eftir endanlega dómsuppsögu í Hæstarétti.

 

Niðurstaða

Samkvæmt 1. mgr. 219. gr. siglingalaga nr. 34/1985 skal halda sjópróf þegar maður sem ráðinn er til starfa á skipi hefur andast um borð, horfið eða orðið fyrir meiri háttar líkamstjóni er skipið var statt utan íslenskrar hafnar. Samkvæmt 224. gr. sömu laga er skipstjóra skylt að sjá til þess að sjópróf sé haldið svo skjótt sem auðið er og skal skriflegri beiðni hans um sjópróf fylgja skýrt ljósrit af því sem skráð er í skipsbækur um atburðinn, sbr. 225. gr. sömu laga.

Stefnandi kveðst hafa tilkynnt skipstjóra um slysið daginn eftir að það varð, en ekki verður ráðið af framburði stefnanda fyrir dómi hvað þeim fór nákvæmlega á milli og hvort stefnandi hefur gert skipstjóra nægilega ljóst að hann teldi að meiðsl sín væru þess eðlis að geta bæri þeirra í skipsdagbók. Þar sem stefnandi er þaulvanur sjómaður hefði honum þó átt að vera ljóst mikilvægi þess. Ekkert var skráð í skipsdagbók um slysið og skipstjóri bar fyrir dómi að honum hafi ekki borist vitneskja um slysið fyrr en eftir að ferð hafi lokið. Með hliðsjón af framangreindu verður ekki talið að skipstjóri hafi mátt ætla að þörf væri á sjóprófum að svo komnu máli, en ekki verður talið að sjópróf haldin löngu eftir slysatburð hefðu getað varpað ljósi á tildrög slyssins.

Stefnandi hefur haldið því fram að höfuðorsakir slyssins megi rekja til þess að híft hafi verið of snemma í bakborðsgilsinn þegar verið var að taka pokann, að sendibúnaður í öryggishjálmi stefnanda hafi verið bilaður og vanbúnaðar á flottromlu skipsins.

Engir sjónarvottar voru að tildrögum slyssins og því er margt á reiki um þau. Stefnandi hefur lagt fram skýrslu sem hann gaf fyrir lögreglu 9. janúar 1998, eða skömmu eftir að slys varð. Þar segir stefnandi að er hann hafi verið að taka á móti trollinu á efra dekki hafi: ,,allt í einu komið slynkur á skipið og hafi hann fengið belginn sem kemur á undan pokanum í fangið og hafi hann kastast til hliðar”. Skipverjarnir Birgir Svan Eiríksson og Guðmundur Meyvantsson unnu með stefnanda við að taka trollið skömmu áður en slysið varð.

Í lögregluskýrslu Birgis Svans Eiríkssonar frá 30. janúar 1998 kvað hann aðdraganda slyssins vera þann að: ,,það hafi verið að hífa inn trollið. Það hafi verið kaldi eða stinningskaldi og trollið slegist talsvert til. Trollið slóst í einni veltunni yfir í bakborðssíðuna og við það lenti það framan á Filippusi”.. Í lögregluskýrslu sem tekin var af Guðmundi Meyvantssyni lýsir hann aðdraganda slyssins svo: ,,Það var verið að taka trollið í talsverðum veltingi. Er trollið var komið inn var Filippus í rennunni, en það er hans venjulegi staður er trollið er tekið. Trollið hafi slegist allt í einu til og lent framan á Filippusi með þeim afleiðingum að Filippus kastaðist út í lunningu bakborðsmegin”. Fyrir dómi upplýstist að í umrætt sinn voru teknar tvær færur á belginn. Fyrri færan hafði verið hífð upp í gálga, í blökk, sem staðsett er stjórnborðsmegin við miðlínu skips. Verið var að taka seinni færuna með bakborðs­gilsinum þegar slysið varð. Guðmundur Meyvantsson lýsti atvikinu svo fyrir dómi að Birgir hafi rétt stefnanda gilsinn og hann hafi haldið honum klárum, en þá hafi hann sjálfur gengið burt. Hann hafi ekki séð hvort stefnandi gaf bendingu um að hífa, þar sem hann hafi verið að ganga í burtu. Allt hafi gerst mjög snögglega og þegar hann hafi snúið sér við hafi stefnandi legið yfir lunninguna. Af framburði Birgis Eiríkssonar fyrir dómi verður ekkert ráðið um tildrög slyss, þar sem ósamræmi er í frásögn hans um þau. Samkvæmt ofangreindum framburði skipverja fyrir dómi verður ekki ráðið hver tildrög slyssins voru, einkum þegar hliðsjón er höfð af því að nokkurt misræmi er einnig milli frásagnar þeirra í lögregluskýrslu og framburði þeirra fyrir dómi, en fyrir lögreglu kváðu þeir báðir að trollið hafi slegist til vegna veltings og belgurinn slegist í stefnanda. Þá bar stefnandi sjálfur fyrir lögreglu að hann hefði fengið belginn í fangið er slynkur hafi komið á skipið, en gat ekkert um að orsök slyssins væri vangá skipstjóra við hífingu eða vanbúnaður á tækjum skipsins. Skipstjóri bar fyrir dómi að hann hefði ekkert óeðlilegt séð við framangreinda hífingu og ekki verið kunnugt um að stefnandi hefði slasast fyrr en eftir að ferðinni lauk. Tildrög og orsakir slyss stefnanda eru samkvæmt framangreindu með öllu óljós. Þær skýringar á slysi stefnanda sem komið hafa fram af hans hálfu undir rekstri málsins eru að mati dómsins alveg ósannaðar. Þannig hefur stefnanda hvorki tekist að sýna fram á að orsaka slyssins sé að leita í saknæmri háttsemi skipstjóra við stjórnun skips og veiðarfæra, vanbúnaði á flottromlu skips, bilunar í senditækjum í öryggishjálmi, né vanbúinnar vinnuaðstöðu skipverja. Verður því að telja að um óhappatilvik hafi verið að ræða, sem hvorugur málsaðila ber ábyrgð á.

Með hliðsjón af framangreindu ber að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í máli þessu, en eftir atvikum er rétt að hvor aðila beri sinn kostnað af málinu.

Meðdómandinn Hrafnkell Guðjónsson er ósammála meirihluta dómenda um sönnun á orsökum slyssins og telur að stefnandi hafi fært sönnur á að orsakir þess megi rekja til vangár skipstjóra við hífingu trollsins. Hann telur að hífingin í gilsinn í umrætt skipti hafi verið með óvenjulegum hætti þannig að stefnanda hafi ekki gefist tóm til að yfirgefa skutrennuna í tæka tíð. Því sé um bótaskylt atvik að ræða og að stefndi eigi að bæta stefnanda það tjón sem hann varð fyrir við slysið.

Stefnandi fékk gjafsókn með bréfi dóms-og kirkjumálaráðuneytisins, dagsettu 18. maí 1999. Samkvæmt því verður allur gjafsóknarkostnaður stefnanda lagður á ríkissjóð, þar af laun lögmanns stefnanda, Steingríms Þormóðssonar hdl., er þykja hæfilega ákveðin 560.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, og útlagður kostnaður 86.188, eða samtals 646.188 krónur.

Dóminn kveður upp Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari ásamt meðdóms­mönnunum Daða Jóhannessyni, stýrimanni, sem jafnframt er lögfræðingur og Hrafnkatli Guðjónssyni stýrimanni.

Dómsorð:

Stefndi, Siglfirðingur hf. er sýkn af kröfum stefnanda, Filippusar H. Birgissonar.

Málskostnaður fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda, 646.188 krónur, þar af laun lögmanns stefnanda, Steingríms Þormóðssonar hdl., 560.000 krónur og útlagður kostnaður 86.188 krónur greiðist úr ríkissjóði.