Hæstiréttur íslands

Mál nr. 69/2004


Lykilorð

  • Þjófnaður
  • Vanaafbrotamaður
  • Ítrekun


Fimmtudaginn 1

 

Fimmtudaginn 1.apríl 2004.

Nr. 69/2004.

Ákæruvaldið

(Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari)

gegn

Anthony Lee Bellere

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

 

Þjófnaður. Vanaafbrotamaður. Ítrekun.

A, sem frá 18 ára aldri hafði hlotið 24 refsidóma, var dæmdur í þriggja mánaða fangelsi fyrir þjófnað.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Garðar Gíslason og Pétur Kr. Hafstein.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 2. febrúar 2004 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar á sakfellingu ákærða en þyngingar á refsingu hans.

Ákærði krefst aðallega sýknu en til vara mildunar á refsingu.

Með skírskotun til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur.

Ákærði greiði áfrýjunarkostnað málsins, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur á að vera óraskaður.

Ákærði, Anthony Lee Bellere, greiði allan áfrýjunarkostnað sakarinnar, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 100.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 19. desember 2003.

          Mál þetta var höfðað með ákæru Lögreglustjórans í Reykjavík, dagsettri 9. september 2003. Á hendur Anthony Lee Bellere,

          „fyrir þjófnað, með því að hafa aðfaranótt fimmtudagsins 12. desember 2002, brotist inn í húsnæði [L] við [...] í Reykjavík og stolið lýsispillum, derhúfu, eyrnarhlífum og verkfærum, samtals að verðmæti kr. 60.818.

          Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

          Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.”

          Ákærði kom fyrir dóm við þingfestingu málsins 20. október sl. og neitaði sök.

          Af hálfu ákærða var krafist sýknu en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa. Þá var þess krafist að allur sakarkostnaður yrði greiddur úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða.

          Verða nú rakin málsatvik og skýrslur ákærða og vitna.

I.

          Hinn 12. desember kl. 5:13 var óskað eftir aðstoð lögreglu en tilkynnt hafði verið um mann sem komist hafði óboðinn inn í húsnæði L. Samkvæmt því sem fram kemur í lögregluskýrslu hittist fyrir á vettvangi starfsmaður fyrirtækisins sem þar var á næturvakt. Kvaðst hann hafa séð mann á fystu hæð sem stóð við steinolíutunnu og fyllti á brúsa. Hafi maðurinn verið undir áhrifum áfengis. Lýsti tilkynnandi manninum þannig að hann væri um 180 cm á hæð, þybbinn, snoðklipptur með skollitað hár og klæddur svörtum jakka og gallabuxum. Kvaðst hann telja hann heita Anthony eða Tony. Lögreglan leitaði í húsinu en varð ekki vör við manninn. Verksummerki sáust á lager en borað hafði verið í timburhurð þannig að hægt var að koma hendi í gegn og opna lásinn á hurðinni.

          Ákærði var handtekinn af lögreglumanni sem hafði tilkynnt um að hafa séð til hans á gangi á Bárugötu við Stýrimannastíg kl. 5:48. Í fórum ákærða var plastpoki með 101 spjaldi af lýsisperlum. Þá hélt hann á borvél frá Bosch í grænni tösku og innan klæða var hann með derhúfu merkta L, ásamt Morgunblaðinu frá 12. desember 2002. Var ákærði fluttur á lögreglustöðina við Hverfisgötu og vistaður í fangageymslu.

          Ákærði kom fyrir dóminn við aðalmeðferð málsins og hélt fast við neitun sína á sakargiftum. Kvaðst hann ekki hafa verið í húsnæði L umrætt sinn. Hann kvaðst hafa verið á leið úr samkvæmi á Meistaravöllum eða einhvers staðar þar í kring sem honum hefði verið boðið í á Kaffi Austurstræti. Ákærði kvaðst ekki geta útskýrt af hverju hann hefði verið með framangreinda muni á sér við handtöku. Hann kvaðst hafa unnið hjá L fyrir löngu og þá hefði hann hirt fullt af lýsisperlum en gat ekki skýrt hvers vegna hann var með lýsisperlurnar á sér umrætt sinn enda sagðist hann ekki nota þær sjálfur. Hins vegar kvaðst hann vera að safna derhúfum og því gæti hann alveg eins átt húfuna. Ákærði gaf enga skýringu á bornum sem tekinn var honum við handtöku. Ákærði kvað skóna, sem hann var í umrætt sinn, ekki vera sína eigin skó. Hann hefði verið drukkinn í samkvæminu sem hann var í og hefði farið í einhverja skó þar í ganginum, en áttað sig á því þegar hann kom heim að þetta voru ekki skórnir hans og því hent þeim strax út í tunnu. Aðspurður kvaðst ákærði ekki geta bent á nokkurn mann úr samkvæminu sem gæti staðfest frásögn hans.

          Í málinu liggja frammi tvær lögregluskýrslur af ákærða. Sú fyrri er dagsett 12. desember og þar lýsir ákærði því að hann hafi verið ósofinn og undir áhrifum áfengis um nóttina og því muni hann ekkert eftir þessu. Þó þyki honum frekar ólíklegt að hann hafi gert þetta. Í seinni skýrslunni dags. 16. janúar 2003 kvaðst ákærði ekki ætla að neita einu eða neinu en benti á að sumir starfsmenn L hefðu verið á Hrauninu.             

          Vitnið A starfsmaður L. kom fyrir dóminn og gaf skýrslu. Kvaðst vitnið hafa verið við vinnu sína á 3. hæð umrætt sinn þegar hann fann mikla steinolíulykt og fór að athuga málið. Hefði hann séð mann vera búinn að opna krana á tunnu og steinolía runnið úr tunnunni um allt gólf. Kvaðst vitnið hafa spurt manninn hvað hann væri að gera og maðurinn svarað að hann ætlaði að þvo gólfið. Kvaðst vitnið ekki hafa séð manninn taka neitt og hefði maðurinn ekki verið með neina muni í höndunum þegar þeir ræddust við. Aðspurður kvaðst vitnið hafa séð innbrotsþjófinn greinilega.  Vitnið sagðist síðan farið niður á skrifstofu til að hringja á lögreglu en maðurinn fylgt honum eftir og beðið um að fá að fara á klósettið. Vitnið kvaðst hafa bent manninum á klósettið og síðan hringt í lögregluna en maðurinn verið horfinn þegar símtalinu lauk. Staðfesti vitnið að hafa tekið þátt í myndsakbendingu hjá lögreglu 14. janúar sl. og hefði ekki farið á milli mála hver innbrotsþjófurinn hefði verið. Þá benti vitnið á ákærða í dómsalnum og kvað hann vera umræddan innbrotsþjóf. Aðspurður kvaðst vitnið ekki hafa þekkt ákærða áður. Aðspurður kvaðst vitnið hafa nefnt nafnið Tony eða Anthony vegna þess að hann hefði lýst manninum fyrir vinnufélögum sínum daginn eftir innbrotið og hefðu þeir talið það vera þennan mann. Framburður vitnisins fyrir dóminum var í meginatriðum í samræmi við framburð hans hjá lögreglu 12. desember 2002.

          Guðrún Árnadóttir lögreglumaður kom fyrir dóminn sem vitni en hún samdi frumskýrslu málsins og staðfesti hana fyrir dóminum. Hún kvaðst hafa farið á vettvang og leitað að innbrotsþjófi en ekki tekið þátt í handtöku ákærða. Var vitnisburður hennar fyrir dóminum í aðalatriðum á sama veg og í frumskýrslu. Aðspurð um það sem bókað er í frumskýrslu vitnisins um að ákærði hafi sagt að einhver uppi á Túngötu hefði gefið honum muni þá, sem fundust á honum við handtöku, kvaðst vitnið hafa haft það eftir þeim sem handtóku ákærða.

          Ragnar Jónsson rannsóknarlögreglumaður gaf skýrslu fyrir dóminum. Hann kvaðst hafa komið að málinu með vettvangsrannsókn morguninn eftir innbrotið. Hefði hann tekið yfirlitsmyndir og jafnframt tekið tvö sýni af olíu á vettvangi. Hefði hann jafnframt tekið sýni með bómullarpinna af skóm í fangageymslu sem mikil olíulykt hefði verið af. Þá kvaðst vitnið hafa séð um myndsakbendingu í málinu. Staðfesti hann framlagðar þrjár skýrslur sem hann samdi.          

          B starfsmaður L. kom fyrir dóminn sem vitni. Kvað hann hina stolnu muni hafa verið geymda inni á verkstæði fyrirtækisins á fyrstu hæð. Aðspurður um hverju hefði verið stolið umrætt sinn kvaðst hann ekki muna það nákvæmlega en það hefðu verið borvélar, slípirokkar og eitthvað af minni handverkfærum. Að betur athuguðu máli kvað vitnið það þó geta verið að slípirokkunum hefði ekki verið stolið í þessu innbroti. Hins vegar var hann viss um að eyrnahlífum hefði verið stolið umrætt sinn. Kvað hann eina borvél, lýsispillur og húfu hafa komist til skila og hefði hann náð í þá muni á lögreglustöð. Megnið af mununum, sem stolið var, hefði hins vegar ekki skilað sér. Staðfesti vitnið verðmætamat hinna stolnu muna sem fram kom í skýrslu hans hjá lögreglu 12. desember 2002 sem og í skjölum nr. 5 og 6. Lögregluskýrsla vitnisins er í meginatriðum í samræmi við framburð hans fyrir dóminum.

Í málinu liggur frammi skýrsla tæknideildar lögreglunnar um vettvangsrannsókn dags. 12. desember 2002. Lögregla tók ljósmyndir af ummerkjum á vettvangi, bæði eftir ætlað innbrot og af bleytu á gólfum á skrifstofu L. Fram kemur að af bleytunni hafi verið megn olíulykt. Sama dag var tekið stroksýni með bómullarpinnum undan skóm ákærða þar sem hann dvaldi í fangageymslu og kemur fram að olíulykt hafi verið af skónum.

                Þá er í gögnum málsins að finna myndsakbendingu þar sem eru myndir af níu mönnum, þar á meðal ákærða. Kemur fram að A starfsmaður L. hafi skoðað myndirnar 14. janúar sl. og strax bent á myndina af ákærða og sagt hann vera mann þann sem hann hefði séð inni í húsakynnum L í desember 2002.

Niðurstaða.

                Ákærði hefur neitað sakargiftum fyrir dóminum. Í skýrslum sínum hjá lögreglu 12. desember 2002 og 16. 2003 bar ákærði hins vegar fyrir sig minnisleyfi og telur ólíklegt að hann hafi gert þetta. Fyrir dóminum neitaði ákærði því jafnframt að hafa verið í húsnæði L umrætt sinn. Fyrir liggur að rúmum hálftíma eftir innbrotstilkynningu var ákærði handtekinn með í fórum sínum 101 spjald af lýsispillum, borvél og derhúfu merkta L sem vitnið B bar kennsl á hjá lögreglu sem þýfi úr innbrotinu. Þá hefur A starfsmaður L fullyrt afdráttarlaust fyrir dóminum að hann hafi komið að ákærða inni í húsnæði fyrirtækisins umrætt sinn og hefði ákærði þá verið að setja steinolíu á brúsa. Hefur A borið kennsl á ákærða sem innbrotsþjófinn í myndsakbendingu hjá lögreglu og einnig bent á ákærða hér fyrir dóminum. Þá bar Ragnar Ólafsson rannsóknarlögreglumaður að megna steinolíulykt hefði lagt af skóm ákærða í fangageymslu. Ekkert hefur komið fram í málinu sem gerir framangreindan framburð vitna ótrúverðugan.

                Hins vegar verður að telja skýringar ákærða á því hvernig á því stendur að framangreint þýfi fannst í fórum hans, vera fráleitar. Þá er framburður hans um það að skórnir, sem hann var í umrætt sinn, væru ekki hans eigin heldur einhvers annars harla ótrúverðugur og kom hann ekki fram fyrr en við aðalmeðferð málsins. Þegar á málið er litið í heild sinni og að virtum framangreindum vitnisburðum, þykir fram komin lögfull sönnun fyrir því að ákærði hafi framið það brot sem honum er gefið að sök og er réttilega heimfært til refsiákvæða í ákæru. Verður ákærði því sakfelldur eins og krafist er.

Refsiákvörðun.

          Ákærði hefur frá 18 ára aldri hlotið 24 refsidóma. Hafa þeir flestir verið fyrir ýmis konar auðgunarbrot en einnig hefur hann verið dæmdur fyrir umferðarlagabrot.  Ákærði var síðast dæmdur til refsingar 8. júní 1999 og hlaut þá 10 mánaða óskilorðsbundinn fangelsisdóm en um hegningarauka var að ræða.

          Ákærði er vanaafbrotamaður sem ítrekað hefur gerst sekur um auðgunarbrot. Ber að ákvarða refsingu hans með vísan til 71. gr., sbr. 255. og 72. gr. almennra hegningarlaga. Þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin 3 mánaða fangelsi.

          Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns Hilmars Ingimundarsonar hrl. 75.000 krónur.

          Dagmar Arnardóttir fulltrúi lögreglustjóra flutti málið fyrir ákæruvaldið.

          Arnfríður Einarsdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp dóminn.

DÓMSORÐ:

          Ákærði, Anthony Lee Bellere, sæti fangelsi í 3 mánuði.

          Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns,  Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 75.000 krónur.