Hæstiréttur íslands
Mál nr. 673/2013
Lykilorð
- Tryggingarbréf
- Aðfararheimild
- Lögvarðir hagsmunir
- Kröfugerð
- Ómerking héraðsdóms
- Heimvísun
|
|
Fimmtudaginn 20. mars 2014. |
|
Nr. 673/2013.
|
Helga Laufey Guðmundsdóttir (Tómas Jónsson hrl.) gegn Íslandsbanka hf. (Jón Auðunn Jónsson hrl.) |
Tryggingarbréf. Aðfararheimild. Lögvarðir hagsmunir. Kröfugerð. Ómerking héraðsdóms. Heimvísun.
Í hf. krafðist þess að staðfestur yrði veðréttur hans samkvæmt tilteknu veðtryggingarbréfi í fasteign í eigu H til tryggingar skuld O ehf. við sig. Í niðurstöðu Hæstaréttar kom m.a. fram að dómur um viðurkenningu á veðrétti samkvæmt tryggingarbréfinu gæti hvorki veitt Í hf. heimild til aðfarar né til að krefjast nauðungarsölu á eign nema m.a. að uppfylltu því skilyrði að um væri að ræða tryggingu fyrir tiltekinni peningakröfu. Taldi Hæstiréttur á hinn bóginn að Í hf. hefði lögvarða hagsmuni af því að fá dóm um hvort fjárkrafa hans væri fyrir hendi og hún væri tryggð með veði í fasteigninni samkvæmt tryggingarbréfinu. Í héraðsdómi hefði verið látið hjá líða að taka rökstudda afstöðu til þessa atriðis eins og skylt hefði verið samkvæmt f. lið 1. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála en jafnframt veittur dómur um atriði sem Í hf. gerði ekki kröfur um og var það í andstöðu við 1. mgr. 111. gr. laganna. Var hinn áfrýjaði dómur því ómerktur án kröfu og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar og dómsálagningar á ný.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Benedikt Bogason og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 16. ágúst 2013. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 2. október sama ár og áfrýjaði hún öðru sinni 18. sama mánaðar. Hún krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Stefndi höfðaði mál þetta í héraði með þeim kröfum að staðfestur yrði veðréttur hans samkvæmt veðtryggingarbréfi útgefnu 7. mars 2000, upphaflega með 1. veðrétti í fasteigninni að Spóaási 22 í Hafnarfirði og uppfærslurétti, að höfuðstól 6.000.000 krónur til tryggingar skuld einkahlutafélagsins Ocean Direct við sig að fjárhæð 30.301.053 krónur. Krafan var reist á lánssamningi félagsins við Sparisjóð Hafnarfjarðar 1. nóvember 2007, upphaflega að höfuðstól 42.600.000 krónur en skilmálum lánsins var breytt þrisvar á árunum 2008 og 2009. Fasteignin að Spóaási 22 í Hafnarfirði mun vera í eigu áfrýjanda. Eiginmaður hennar var eigandi Ocean Direct ehf. sem tekið var til gjaldþrotaskipta 31. mars 2011 og lauk skiptum 26. júlí sama ár. Ekki er deilt um að ætluð fjárkrafa Sparisjóðs Hafnarfjarðar hafi verið framseld stefnda.
Í forsendum héraðsdóms segir meðal annars að efni tryggingabréfsins veiti tryggingu fyrir öllum skuldum Ocean Direct ehf. við stefnda og að ekki hafi verið skilyrði fyrir gildi tryggingarinnar að tilgreina sérstaklega við stofnun skulda félagsins við stefnda að bréfið tæki til þeirra. Var í kjölfarið komist að þeirri niðurstöðu að taka bæri dómkröfu stefnda til greina, en það gert með þeim hætti að staðfesta 1. veðrétt í framangreindri fasteign stefndu samkvæmt tryggingarbréfinu til tryggingar skuldum allt að 6.000.000 krónur.
II
Hvorki er ágreiningur með aðilum um aðild að málinu né að framangreint tryggingarbréf skuli standa til tryggingar skuldum Ocean Direct ehf. við stefnda. Á hinn bóginn kveður áfrýjandi dómkröfu stefnda einungis taka til staðfestingar þess að tryggingarbréfið tryggi kröfu stefnda samkvæmt lánssamningnum 1. nóvember 2007 og krefst hún sýknu á þeim forsendum að skuldin sé greidd og þá að teknu tilliti til þess að um ólögmætt gengislán hafi verið að ræða. Hefur áfrýjandi lagt fram útreikninga um fulla greiðslu miðað við þessa forsendu. Stefndi kveður kröfugerð sína óbreytta frá í héraði og dómsorð héraðsdóms vera í samræmi við hana, í öllu falli rúmist krafa hans innan dómsorðsins. Stefndi hefur ekki vefengt útreikninga áfrýjanda með öðrum hætti en þeim að áfrýjandi sé bundin við niðurstöðu skiptastjóra þrotabús Ocean Direct ehf. um samþykki kröfunnar samkvæmt lánssamningnum sem miðist við að ekki hafi verið um að ræða ólögmætt gengislán. Hefur stefndi skýrt málatilbúnað sinn þannig að hann krefjist staðfestingar á veðrétti í fasteign áfrýjanda í því skyni að geta gert fjárnám í eigninni og í kjölfarið leitað fullnustu með nauðungarsölu.
Dómur á hendur áfrýjanda um viðurkenningu á veðrétti samkvæmt umræddu tryggingarbréfi í framangreindri fasteign getur ekki veitt stefnda heimild til aðfarar samkvæmt 1. tölulið 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, enda fæli dómur um þetta efni ekki í sér fyrirmæli um skyldu, sem framfylgt yrði með slíkri gerð, sbr. dóm Hæstaréttar 11. mars 1999 í málinu nr. 90/1999 í dómasafni réttarins bls. 1073 það ár. Þá veitir tryggingarbréf ekki heimild til að krefjast nauðungarsölu á tiltekinni eign nema meðal annars að uppfylltu því skilyrði að um sé að ræða tryggingu fyrir tiltekinni peningakröfu samkvæmt 2. tölulið 1. mgr. 6. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Stefndi hefur á hinn bóginn lögvarða hagsmuni af því að fá dóm um hvort fjárkrafa sú sem greinir í kröfugerð hans sé fyrir hendi og að hún sé tryggð með veði í fasteigninni samkvæmt tryggingarbréfinu. Með hinum áfrýjaða dómi var látið hjá líða að taka rökstudda afstöðu til þessa atriðis eins og skylt var samkvæmt f. lið 1. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála en jafnframt veittur dómur um atriði sem stefndi gerði ekki kröfur um og var það í andstöðu við 1. mgr. 111. gr. laganna. Samkvæmt þessu verður hinn áfrýjaði dómur ómerktur án kröfu og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar og dómsálagningar á ný.
Krafa áfrýjanda um málskostnað í héraði kemur til afgreiðslu þar þegar dómur verður lagður á málið. Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur er ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar á ný.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 5. júní 2013.
Mál þetta var þingfest 10. október 2012 og tekið til dóms 8. maí sl. Stefnandi er Íslandsbanki hf., Kirkjusandi 3, Reykjavík, en stefnda er Helga Laufey Guðmundsdóttir, Spóaási 22, Hafnarfirði.
Dómkröfur stefnanda eru þær að staðfestur verði veðréttur hans samkvæmt veðtryggingarbréfi, útgefnu 7. mars 2000, allsherjarveði tryggðu upphaflega með 1. veðrétti í Spóaási 22, Hafnarfirði, og uppfærslurétti af höfuðstól 6.000.000 króna til tryggingar skuldum Ocean Direct ehf. við stefnanda að fjárhæð 30.301.053 krónur. Þá krefst stefnandi málskostnaðar að skaðlausu.
Af hálfu stefndu er þess krafist að kröfu stefnanda um staðfestingu á veðrétti verði hafnað. Jafnframt er gerð sú gagnkrafa að dæmt verði að veðtryggingarbréfi stefnanda skuli aflýst. Þá krefst stefnda málskostnaðar úr hendi stefnanda.
I.
Þann 7. mars 2000 gaf Arnar Borgar Atlason, eiginmaður stefndu, út tryggingarbréf, svokallað allsherjarveð, til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu á skuldum Arnars við Sparisjóð Hafnarfjarðar á hvaða tíma sem er, nú eða síðar, hvort sem um er að ræða víxilskuld, víxilábyrgð, yfirdrátt á hlaupareikningi eða hvers konar aðrar skuldir við sparisjóðinn samtals að fjárhæð 6.000.000 króna. Sparisjóðnum var sett að veði fasteignin Spóaás 12, Hafnarfirði, með 1. veðrétti. Undir tryggingarbréfið skrifaði stefnda sem maki Arnars og sem þinglesinn eigandi fasteignarinnar. Með yfirlýsingu 3. febrúar 2005 lýsti Arnar því yfir með samþykki sparisjóðsins að tryggingarbréfið stæði einnig til tryggingar skuldum útgerðarfélagsins Ocean Direct ehf. við sparisjóðinn. Segir í yfirlýsingunni að tryggingarbréfið standi til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu á skuldum þeim sem Ocean Direct ehf., nú eða síðar, á hvaða tíma sem er, kann að skulda eða ábyrgjast Sparisjóði Hafnarfjarðar, með öllum sömu ákvæðum og getið er um í bréfinu. Undir þessa yfirlýsingu ritar stefnda sem maki og sem þinglesinn eigandi fasteignarinnar að Spóaási 22, Hafnarfirði.
Í skýrslu sinni fyrir dómi sagði Arnar að upphaflega hefði tryggingarbréfið verið gefið út þegar þau hjón byggðu hús sitt að Spóaási 22. Þau hafi fengið lán til framkvæmdanna hjá sparisjóðnum og greitt lánið síðar upp með húsnæðisláni. Tryggingarbréfið hafi hvílt áfram á húsinu. Á árunum 2004 hafi hann keypt hlut meðeiganda síns í Ocean Direct ehf. og til þeirra kaupa fengið lánafyrirgreiðslu hjá Sparisjóði Hafnarfjarðar. Af því tilefni hafi yfirlýsingin 3. febrúar 2005 verið undirrituð.
Ocean Direct ehf. var úrskurðað gjaldþrota 31. mars 2011 og lauk skiptum 26. júlí 2011. Meðal gagna málsins er kröfuskrá þar sem fram kemur að forveri stefnanda, Byr hf., lýsti kröfum samtals að fjárhæð 549.329.251 króna í búið. Skiptastjóri samþykkti þessar kröfur og þeim var ekki mótmælt af öðrum kröfuhöfum. Til úthlutunar úr þrotabúinu til stefnanda komu 154.196.558 krónur og standa því eftir 395.132.693 krónur af skuld Ocean Direct ehf. við stefnanda. Meðal gagna málsins er lánssamningur Ocean Direct ehf. við forvera stefnanda, dagsettur 1. nóvember 2007, að fjárhæð jafnvirði allt að 42.600.000 krónur sem greiddar voru út í svissneskum frönkum og japönskum jenum. Láninu var þrisvar sinnum skilmálabreytt á árunum 2008 og 2009. Í stefnu segir að stefnandi hafi vegna þessa samnings lýst kröfu að fjárhæð 36.952.503 krónur í þrotabúið og sú krafa hafi verið samþykkt. Síðan hafi greiðst upp í kröfuna 6.651.450 krónur og séu því eftirstöðvar 30.301.053 krónur.
Ekki er deilt um aðild í málinu, að Byr hf. hafi tekið við skuldbindingum Sparisjóðs Hafnarfjarðar og Íslandsbanki hf. við skuldbindingu Byrs hf.
II.
Stefnandi krefst þess að staðfestur verði veðréttur hans í Spóaási 22, Hafnarfirði, til tryggingar ofangreindri skuld samkvæmt fyrrgreindu tryggingarbréfi. Krafan sé sett fram til þess að stefnandi geti boðið upp fasteignina, sem sé þinglesin eign stefndu, til lúkningar stefnukröfum að svo miklu leyti sem veðtryggingarbréfið tryggir kröfuna. Í málflutningsræðu sinni gat lögmaður stefnanda þess að ofangreindur lánssamningur væri aðeins tekinn sem dæmi um eina af þeim kröfum sem stefnandi eigi á hendur Ocean Direct ehf. og falli undir tryggingarbréfið. Heildarskuld félagsins við stefnanda að öðrum lánssamningum meðtöldum sé að fjárhæð 395.132.693 krónur. Skiptastjóri hafi viðurkennt kröfur samkvæmt öllum þessum lánssamningum og engin mótmæli hafi borist frá öðrum kröfuhöfum. Gildi framlagðs lánssamnings sé því ekki til umfjöllunar í þessu máli, enda geri stefnandi ekki fjárkröfu í málinu heldur krefjist einungis staðfestingar á veðrétti.
Stefnandi byggir dómkröfu sína á ákvæðum tryggingarbréfsins. Einnig vísar stefnandi til ákvæða laga um samningsveð nr. 75/1997, almennra reglna kröfuréttarins um skyldur til greiðslu fjárskuldbindinga og til laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu.
Málsástæður stefndu eru þær að framlagður lánssamningur sé ólöglegt gengislán sem hafði einnig verið tryggt með tryggingarbréfi á 4. veðrétti í fiskiskipinu Sæbergi HF-224. Ekki komi fram í stefnu hvernig veðtryggingunni í skipinu reiddi af en inn á lánssamninginn virðast hafa komið 6.651.450 krónur. Stefnda byggir á því að krafa stefnanda samkvæmt framlögðum lánssamningi sé ranglega reiknuð. Hefur stefnda lagt fram útreikninga sem hún telur að sýni að krafan sé að fullu greidd. Kröfu sína um aflýsingu tryggingarbréfsins styður stefnda þeim rökum að krafa samkvæmt framlögðum lánssamningi sé uppgreidd og því beri að aflýsa tryggingarbréfinu. Vísar stefnda til 1. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991 í þessu sambandi. Loks byggir stefnda á því að málið sé svo vanreifað af hálfu stefnanda að vísa eigi því frá dómi án kröfu og ennfremur að það orki tvímælis hvort tryggingarbréfið haldi gildi sínu vegna ákvæða þinglýsinga- og fyrningarlaga.
III.
Samkvæmt framansögðu krefst stefnandi þess að staðfestur verði veðréttur hans samkvæmt veðtryggingarbréfi, útgefnu 7. mars 2000, áhvílandi á 1. veðrétti í fasteigninni Spóaási 22, Hafnarfirði, að fjárhæð 6.000.000 króna.
Í málinu er aðallega deilt um hvort kröfur stefnanda á hendur Ocean Direct ehf., sem samþykktar voru af skiptastjóra, að eftirstöðvum 395.132.693 krónur, njóti veðtryggingar samkvæmt tryggingarbréfinu, eða, eins og stefnda heldur fram, að veðtryggingin sé einvörðungu bundin við framlagðan lánssamning frá 1. nóvember 2007 en stefnda telur kröfu samkvæmt honum uppgreidda.
Í yfirlýsingu með tryggingarbréfinu, sem undirrituð var 3. febrúar 2005, segir að tryggingarbréfið skuli einnig standa til tryggingar skuldum Ocean Direct ehf. við forvera stefnanda sem félagið stofnar til nú eða síðar, á hvaða tíma sem er, eins og það er orðað í yfirlýsingunni.
Samkvæmt texta sínum veitir því tryggingarbréfið stefnanda veðrétt fyrir öllum skuldum Ocean Direct ehf. við stefnanda og er það ekki skilyrði fyrir gildi tryggingarinnar að tekið sé fram sérstaklega við stofnun skulda félagsins við stefnanda að bréfið taki til þeirra.
Samkvæmt þessu verður krafa stefnanda tekin til greina, enda verður ekki fallist á með stefndu að málatilbúnaði stefnanda sé áfátt eða að gildi tryggingarbréfsins verði dregið í efa á grundvelli þinglýsinga- eða fyrningarlaga.
Eftir þessari niðurstöðu kemur gagnkrafa stefndu ekki til skoðunar.
Í samræmið við meginreglu 1. mgr. 130. gr. laga nr. 90/1991 um meðferð einkamála ber að dæma stefndu til að greiða stefnanda málskostnað sem telst hæfilega ákveðinn 400.000 krónur.
Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
Dómsorð
Staðfestur er 1. veðréttur í fasteign stefndu, Helgu Laufeyjar Guðmundsdóttur, að Spóaási 22, Hafnarfirði, samkvæmt tryggingarbréfi útgefnu 7. mars 2000 til tryggingar skuldum Ocean Direct ehf. við stefnanda að fjárhæð allt að 6.000.000 króna.
Stefnda greiði stefnanda, Íslandsbanka hf., 400.000 krónur í málskostnað.