Hæstiréttur íslands

Mál nr. 615/2017

Straumhvarf ehf. (Hjörleifur B. Kvaran lögmaður)
gegn
Torfa G. Yngvasyni og Sumardal ehf. (Skarphéðinn Pétursson lögmaður)
og gagnsök

Lykilorð

  • Málskostnaður

Reifun

S ehf. féll frá áfrýjun máls á hendur T og SU ehf., en hinir síðarnefndu höfðu með gagnáfrýjun krafist málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti sem kom til úrlausnar Hæstaréttar. Var niðurstaða héraðsdóms um að málskostnaður félli niður milli aðila staðfest, en S ehf. gert að greiða T og SU ehf. málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson og Benedikt Bogason og Arngrímur Ísberg héraðsdómari.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 28. september 2017. Með bréfi til réttarins 7. júní 2018 tilkynnti aðaláfrýjandi að hann félli frá áfrýjun málsins.

Gagnáfrýjendur áfrýjuðu héraðsdómi fyrir sitt leyti 13. desember 2017. Þeir  krefjast þess að héraðsdómur verði staðfestur um annað en málskostnað, sem þeir krefjast í héraði og fyrir Hæstarétti. Með tölvubréfi til réttarins 13. júní 2018 í tilefni af framangreindu bréfi aðaláfrýjanda tilkynntu gagnáfrýjendur að þeir héldu sig við kröfu sína. Í kjölfarið var málið dómtekið án sérstaks málflutnings um kröfu gagnáfrýjenda í samræmi við óskir aðila, sbr. 3. mgr. 161. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, eins og það ákvæði hljóðaði fyrir gildistöku laga nr. 49/2016, sbr. 1. mgr. 78. gr. þeirra laga, sbr. 4. gr. laga nr. 53/2017.

Í ljósi atvika málsins verður ákvæði hins áfrýjaða dóms um málskostnað staðfest en aðaláfrýjanda gert að greiða gagnáfrýjendum málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Ákvæði hins áfrýjaða dóms um málskostnað skal vera óraskað.

Aðaláfrýjandi, Straumhvarf ehf., greiði gagnáfrýjendum, Torfa G. Yngvasyni og Sumardal ehf., hvorum fyrir sig 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 26. júní 2017.

Mál þetta var höfðað með stefnu birtri 29. júní 2015 og dómtekið að lokinni aðalmeðferð 7. júní sl. Stefnandi er Straumhvarf hf., Vatnagörðum 8, Reykjavík. Stefndu eru Torfi G. Yngvason og Sumardalur ehf., bæði til heimilis að Barónsstíg 59, Reykjavík.

Endanleg krafa stefnanda er sú að stefndu verði dæmdir til að greiða stefnanda sameiginlega 25 milljónir króna að frádregnum þremur milljónum króna, sem var kaupverð stefnda Sumardals ehf. á tveimur milljónum hluta í Vélsleðaleigunni ehf. af Eyju ehf., auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 16. júní 2016 til greiðsludags. Hann krefst einnig málskostnaðar.

Stefndu krefjast aðallega sýknu, en til vara lækkunar kröfu stefnanda, auk málskostnaðar.

Yfirlit málsatvika og helstu ágreiningsefni

Stefndi Torfi var um skeið framkvæmdastjóri stefnanda og jafnframt eigandi 25% hlutafjár í félaginu í gegnum einkahlutafélag sitt, stefnda Sumardal ehf. Á fyrri hluta ársins 2015 seldi hann hlut sinn í félaginu og lét af störfum fyrir félagið. Í málinu liggur fyrir starfslokasamningur Torfa við stefnanda 11. mars þess árs. Samkvæmt aðilaskýrslu stefnda Torfa keypti hann þriðjungshlut í Vélsleðaleigunni ehf. fyrir hönd fyrrnefnds einkahlutafélags síns 2. eða 3. febrúar 2015 þegar hann gegndi enn starfi framkvæmdastjóra stefnanda, en sá samningur hefur ekki verið lagður fram í málinu þrátt fyrir áskorun stefnanda. Seljandi hlutarins var Eyja ehf. og er ekki um það deilt að kaupverð nam þremur milljónum króna. Munu aðrir hluthafar í Vélsleðaleigunni ehf. og stjórn áður hafa fallið frá forkaupsrétti vegna kaupa stefnda Torfa á hlutunum. Þá er ekki um það deilt að stefndi Sumardalur ehf. seldi félaginu hlut sinn í Vélsleðaleigunni ehf. 30. október 2015 og nam kaupverðið 25 milljónum króna. Lýtur ágreiningur aðila að því hvort kaup stefnda Torfa á hlutunum hafi falið í sér brot í starfi hans sem framkvæmdastjóri stefnanda og hvort stefndu beri skaðabótaábyrgð gagnvart stefnanda á þeim grundvelli. Aðila greinir verulega á um þau atvik sem þýðingu hafa fyrir málið og er þeim nánar lýst í tengslum við málsástæður þeirra og lagarök.

Við aðalmeðferð málsins gaf stefndi Torfi aðilaskýrslu. Þá kom fyrir dóminn sem vitni Ragnar O. Rafnsson, ráðgjafi hjá Ernst & Young, sem vann að áreiðanleikakönnun á stefnanda í tengslum við sölu á hlutum í félaginu í upphafi ársins 2015.

Helstu málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi, sem hefur um árabil rekið ferðaþjónustu undir heitinu „Arctic Adventure“ vísar til þess að hann hafi átt í áralöngu samstarfi við Vélsleðaleiguna ehf. og á árinu 2013 hafi komið til tals að hann keypti þriðjungshlut í félaginu. Hafi þannig verið komið upp viðskiptatækifæri eða kaupréttur að hlutnum sem stefnda Torfa hafi verið vel kunnugt um. Á haustmánuðum 2014 hafi stefndi Torfi upplýst nafngreinda menn um umræddan kauprétt eða viðskiptatækifæri í tengslum við viðræður um kaup þeirra á hlut í stefnanda. Í febrúar 2015 hafi starfsmaður Ernst & Young hf. unnið áreiðanleikakönnun í tengslum við sölu á hlut stefnda Torfa í stefnanda og hafi þar meðal annars verið farið yfir kauprétt eða möguleika stefnanda á því að kaupa hlutinn í Vélsleðaleigunni ehf.

Stefnandi vísar til þess að á fundi með starfsmanni Ernst & Young hf. í febrúar 2015 hafi stefndi Torfi veitt starfsmanninum þær upplýsingar að ekki væri til neinn samningur um kauprétt eða kauptækifæri stefnanda á hlutum í Vélsleðaleigunni ehf. Hafi stefndi Torfi skýrt svo frá að stefnanda hafi á sínum tíma staðið til boða að kaupa þriðjungshlut í félaginu á 4,5 milljónir króna en síðar á 3,5 milljónir króna en ekki hafi orðið af því. Hafi stefndi Torfi útskýrt þetta þannig að velta Vélsleðaleigunnar ehf. hefði stóraukist og væri félagið því ekki lengur jafn háð stefnanda og áður. Stefnandi telur að í umræddu samtali, sem stefndi Torfi hefur staðfest að átti sér stað, hafi stefndi viðurkennt að stefnanda hafi staðið til boða að kaupa hlutinn. Hins vegar hafi stefndi Torfi leynt því að á þessum tíma hafði hann þegar keypt hlutinn sjálfur og þannig brotið gróflega gegn trúnaðarskyldu sinni gagnvart stefnanda. Stefndi Torfi hafi hvorki á þessum tíma né síðar tilkynnt stjórn stefnanda um kaup sín á hlutnum í Vélsleðaleigunni af Eyju ehf. og stjórninni hafi ekki verið kunnugt um kaupin þegar gerður var starfslokasamningur við stefnda 11. mars 2015. Stefnandi kærði háttsemi stefnda Torfa til lögreglu 17. september 2015.

Stefnandi telur að með því að ljúka ekki kaupum stefnanda á umræddum hluta í Vélsleðaleigunni ehf., en kaupa hlutinn þess í stað sjálfur, hafi hann brotið gegn skyldum sínum sem framkvæmdastjóri stefnanda og valdið honum tjóni. Þá er á því byggt að stefndi Sumardalur ehf. hafi vitað af broti stefnda Torfa enda sitji sá síðarnefndi einn í stjórn félagsins. Stefnda Sumardal ehf. hafi því með ólögmætum og ótilhlýðilegum hætti verið aflað ávinnings á kostnað stefnanda sem eigi rétt á því að fá tjón sitt bætt.

Stefnandi vísar til meginreglna vinnuréttar um samningssamband starfsmanns og vinnuveitanda og til laga um hlutafélög nr. 2/1995, einkum 2. mgr. 68. gr., 72. gr. og 76. gr. Þá er vísað til 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og almennra reglna skaðabóta- og kröfuréttar.

Helstu málsástæður og lagarök stefndu

Stefndu mótmæla málsástæðum stefnanda um brot stefnda Torfa á trúnaðarskyldu sinni gagnvart stefnda og óréttmæta auðgun vegna kaupa stefnda Sumardals ehf. á þriðjungshlut í Vélsleðaleigunni ehf. af Eyju ehf. Þá er harðlega mótmælt fullyrðingum um umboðssvik.

Stefndu vísa til þess að stefnanda hafi ekki staðið til boða að kaupa þann þriðjungshlut í Vélsleðaleigunni ehf. sem stefndi Sumardalur ehf. keypti. Ekkert renni stoðum undir staðhæfingar stefnanda um kauprétt eða kauptækifæri í þessa veru og einnig sé ósannað að aðrir hluthafar eða stjórn Vélsleðaleigunnar ehf. hefðu fallið frá forkaupsrétti við slíka sölu. Stefndu vísa til þess að sá hlutur í Vélsleðaleigunni ehf. sem staðið hafi stefnanda til kaups á sínum tíma hafi verið í eigu tilgreindra stjórnarmanna Vélsleðaleigunnar ehf. Stefndi Sumardalur ehf. hefði hins vegar keypt sinn hluta af Eyju ehf. og hefði fyrirsvarsmaður þess félags lýst því fyrir dómi, vegna annars dómsmáls sem rekið var á milli aðila, að hún hefði aldrei boðið stefnanda þann hluta til kaups. Samkvæmt þessu hafi stefnandi ekki sýnt fram á að hann hafi orðið af viðskiptatækifæri sem honum stóð til boða, hvað þá kauprétti sem stefndu telja enga stoð fyrir.

Stefndu mótmæla einnig fullyrðingum stefnanda um brot stefnda Torfa gegn skyldum sínum sem framkvæmdastjóri. Telja þeir, með vísan til ákvæða hlutafélagalaga, að skyldur stefnda Torfa hafi ekki náð til þess að ráðast í áhættusamar fjárfestingar fyrir hönd stefnanda og geti engu skipt í því sambandi þótt Vélsleðaleigan ehf. hafi verið í föstum viðskiptum við stefnanda. Slík ráðstöfun hafi verið óvenjuleg eða mikils háttar og því ekki á færi framkvæmdastjóra félagsins. Stefndi Torfi geti því ekki hafa bakað sér skaðabótaskyldu á grundvelli 134. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög. Stefndu telja einnig að nauðsynlegt hefði verið að afla samþykkis hluthafafundar til slíkrar ráðstöfunar og a.m.k. hefði stjórn þurft að taka ákvörðun um slík kaup á stjórnarfundi. Ekkert liggi hins vegar fyrir um vilja hluthafafundar eða stjórnar til að kaupa umræddan hlut.

Stefndu mótmæla því að stefndi Torfi hafi ekki upplýst stjórn stefnanda með viðhlítandi hætti meðan hann gegndi starfi framkvæmdastjóra. Stefndu vísa meðal annars til gr. 5.3 í starfslokasamningi stefnda Torfa þar sem tekið er fram að honum sé heimilt að starfa fyrir Vélsleðaleiguna ehf. eða eiga hlut í því félagi eftir að hann hafi lokið störfum fyrir stefnanda. Fyrirsvarsmenn stefnanda hafi samkvæmt þessu hlotið að vita um tengsl stefnda Torfa við Vélsleðaleiguna ehf. Hafi stjórn stefnanda borið að gera athugasemdir ef hún taldi að stefnandi ætti rétt á því að kaupa hlut í Vélsleðaleigunni ehf. og hafi stefnandi við engan að sakast nema sig sjálfan að hafa látið umrædd viðskipti sér úr greipum ganga. Í reynd sé því aðildarskortur stefndu fyrir hendi sem leiði til sýknu samkvæmt 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991.

Stefndu telja einnig ósannað að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni. Stefndi Sumardalur ehf. hafi keypt hlutinn í Vélsleðaleigunni ehf. á markaðsvirði og eftir að hluthafar og stjórn síðargreinda félagsins höfðu fallið frá forkaupsrétti sínum. Um hafi verið að ræða áhættusama fjárfestingu og sé þýðingarlaust þótt stefndu hafi tekist að selja hlutinn fyrir hærra verð mun síðar þegar aðstæður félagsins höfðu breyst til batnaðar. Í raun sé því stefnandi að krefjast þess að stefndu greiði sér hagnað af viðskiptum eftir að í ljós kom að þau reyndust ábatasöm. Er því mótmælt að stefnandi geti skilgreint tjón sitt með þessum hætti. Samkvæmt þessu skorti allt orsakasamhengi milli kaupa stefnda Sumardals ehf. á umræddum hlut og ætluðu tjóni stefnanda. Tjón stefnanda, sem stefndu telja ósannað, geti því síður talist sennileg afleiðing viðskiptanna.

Varakrafa stefndu um lækkun byggist á því að tjón stefnanda geti ekki grundvallast á mismun á kaupverði stefnda Sumardals ehf. á umræddum hlut og söluverði síðar. Er vísað til þess að sala Sumardals ehf. á hlutunum í Vélsleðaleigunni ehf. hafi farið fram við þær aðstæður að stefnandi þrýsti á aðra hluthafa Vélsleðaleigunnar ehf. um að kaupa hlut stefnda Sumardals ehf. og selja stefnanda alla hluti í félaginu. Sú hafi og orðið raunin og sé stefnandi nú einn eigandi félagsins. Ljóst sé að ekki sé tækt að miða tjón stefnanda við söluverð sem orðið hafi til við þessar aðstæður.

Niðurstaða

Svo sem áður greinir var Vélsleðaleigan ehf. viðvarandi samstarfsaðili stefnanda í ferðaþjónustu og var stefnda Torfa vel kunnugt um að af hálfu stefnanda hafði verið áhugi á því kaupa hlut í fyrirtækinu eða jafnvel félagið í heild. Hvað sem líður skyldu stefnda Torfa, sem starfaði sem framkvæmdastjóri stefnanda, til þess að upplýsa stjórnarformann eða stjórn félagsins um fyrirhuguð kaup sín á hlut í Vélsleðaleigunni ehf. við þessar aðstæður, er hins vegar ósannað að stefnanda hafi staðið sá samningur til boða sem stefndi Torfi gerði fyrir hönd einkahlutafélags síns, stefnda Sumardals ehf., við Eyju ehf. 2. eða 3. febrúar 2015. Þá hefur stefnandi ekki fært fyrir því sönnur að hann hefði keypt umræddan hlut, ef stefndi Torfi hefði vakið athygli stjórnar félagsins á slíku viðskiptatækifæri, eða gert viðhlítandi grein fyrir því tjóni sem hann varð af af þessum sökum. Að síðustu hefur stefnandi engin haldbær rök fært fyrir því að hann hafi átt eiginlegan kauprétt að hlutum í Vélsleðaleigunni ehf. eða gert grein fyrir því hvernig stefndi Torfi braut gegn slíkum rétti.

Samkvæmt framangreindu hefur stefnandi ekki sýnt fram á að téð samningsgerð stefnda Torfa, fyrir hönd hins stefnda einkahlutafélag síns, hafi valdið honum tjóni. Verða báðir stefndu því sýknaðir af kröfu stefnanda.

Í ljósi atvika málsins þykir rétt að málskostnaður falli niður.

Af hálfu stefnanda flutti málið Bernhard Bogason hdl.

Af hálfu stefndu flutti málið Skarphéðinn Pétursson hrl.

Skúli Magnússon héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð

Stefndu, Torfi G. Yngvason og Sumardalur ehf., eru sýkn af kröfu stefnanda, Straumhvarfs ehf.

Málskostnaður fellur niður.