Hæstiréttur íslands
Mál nr. 473/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
|
Miðvikudaginn 9. júlí 2014. |
|
Nr. 473/2014.
|
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H. B. Snorrason saksóknari) gegn X (Brynjólfur Eyvindsson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem X var gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. júlí 2014 sem barst réttinum 8. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 4. júlí 2014 þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 1. ágúst 2014, klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur á þann hátt sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Varnaraðili, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 1. ágúst 2014, klukkan 16.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness föstudaginn 4. júlí, 2014.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur í dag krafist þess að X, kt. [...], verði með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 1. ágúst 2014, kl. 16:00.
Kærði mótmælir kröfunni og krefst þess að henni verði hafnað en til vara að ef fallist verði á gæsluvarðhaldskröfuna verði henni markaður skemmri tími.
Í greinargerð lögreglustjóra segir að þau brot sem krafa þessi sé byggð á séu tvö talsins, það eldra frá 25. júní sl. en þá hafi kærði stolið vörum í Apótekinu, [...], þar sem hann hafi tekið vörur að verðmæti 6.229 krónur og stungið inn á sig. X hafi viðurkennt að hafa stoðið þessum vörum. Þann 3. júlí sl. hafi kærði stolið vörum í verslun Lyfju í [...] að verðmæti 67.333 krónur. Hann hafi skorið þjófavörn af vörum og sett í poka og vasa en hafi verið stöðvaður eftir að hann hafi farið út úr versluninni. X hafi viðurkennt að hafa stolið þessum vörum.
Daginn áður, þann 24. júní sl., hafi kærði hlotið 12 mánaða fangelsi fyrir að hafa í sjö tilvikum stolið verðmætum úr verslunum í mars og apríl á þessu ári.
Þá megi geta þess að þann 1. júlí sl. hafi lögregla fengið tilkynningu um mann sem starfsfólk Útilífs, [...], hafi verið hrætt við en hann hafi virst vera í miklu ójafnvægi. Í bókun lögreglu, mál 007-2014-[...], segi að þarna hafi X verið að ráfa í [...], hann hafi tekið Poweradeflösku, opnað hana í versluninni, tekið sopa og skilað aftur í hilluna. Starfsfólk hafi hins vega ekki vilja gera neitt í málinu.
X kvaðst í skýrslutöku búa að [...] ásamt kærustu sinni. Hann væri atvinnulaus og hafi hætt að vinna fyrir 2-3 dögum síðan. X kvaðst vera í neyslu fíkniefna og hann væri í daglegri neyslu sem hann fjármagni stundum með því að stela.
Að öllu framangreindu sé ljóst að veruleg hætta sé á að kærði muni halda brotastarfsemi sinni áfram. Sakarefni málanna séu talin varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 en brot gegn ákvæðunum geti varðað fangelsi allt að 6 árum ef sök sannast. Um heimild til gæsluvarðhaldsins sé vísað til c-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.
Varnaraðili hefur frá 24. október 2012 fimm sinnum hlotið fangelsisdóm þar sem brotið er gegn 244. gr. almennra hegningarlaga. Þá hefur honum tvisvar ekki verið gerð sérstök refsing fyrir brot gegn ákvæðum 244. gr. almennra hegningarlaga. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur þann 24. júní sl. var hann dæmdur í 12 mánaða óskilorðsbundið fangelsi fyrir brot gegn 244. gr. almennra hegningarlaga. Varnaraðili tók sér áfrýjunarfrest í því máli. Varnaraðili hefur nú játað fyrir lögreglu að hafa eftir uppkvaðningu þess dóms eða þann 25. júní sl. og síðan aftur í gær, enn á ný gerst sekur um brot gegn ákvæðum 244. gr. almennra hegningarlaga. Er varnaraðili því miðað við aðstæður, undir rökstuddum grun um að hafa gerst sekur um háttsemi sem óskilorðsbundin fangelsisrefsing er lögð við.
Fram kemur í gögnum lögreglu að varnaraðili hafi upplýst að hann sé án atvinnu og sé í daglegri neyslu sem hann fjármagni að hluta til með þjófnaði. Í því ljósi og með hliðsjón af brotum þeim sem kærði hefur játað að hafa framið síðustu daga, verður að ætla að hann muni halda áfram brotum meðan málum hans er ólokið, gangi hann laus. Skilyrðum c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamál er því fullnægt. Verður krafa lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um gæsluvarðhald kærða tekin til greina eins og nánar greinir í úrskurðarorði, en ekki þykir ástæða til að marka gæsluvarðhaldinu skemmri tíma.
Úrskurð þennan kveður upp Bogi Hjálmtýsson héraðsdómari.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, skal sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 1. ágúst nk. kl. 16:00.