Hæstiréttur íslands
Mál nr. 427/2001
Lykilorð
- Kærumál
- Málskostnaðartrygging
|
|
Föstudaginn 16. nóvember 2001. |
|
Nr. 427/2001. |
Þrotabú Genealogia Islandorum hf. (Ragnar Aðalsteinsson hrl.) gegn Íslenskri erfðagreiningu ehf. og Friðrik Skúlasyni ehf. (Reynir Karlsson hrl.) |
Kærumál. Málskostnaðartrygging.
G hf., ásamt Þ, höfðaði mál gegn Í ehf. og F ehf. Tók þrotabú G hf. síðar við rekstri málsins af félaginu og með hliðsjón af þeirri staðreynd þóttu uppfyllt skilyrði b-liðar, 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991 fyrir því að þrotabúinu yrði gert að setja málskostnaðartryggingu.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 1. nóvember 2001, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 14. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. október 2001, þar sem sóknaraðila var gert að setja tryggingu að fjárhæð 4.000.000 krónur í máli sínu og Þorsteins Jónssonar gegn varnaraðilum. Kæruheimild er í o. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hafnað verði kröfu varnaraðila um málskostnaðartryggingu, en til vara að fjárhæð hennar verði lækkuð í 600.000 krónur „eða aðra lægri fjárhæð að mati Hæstaréttar.“ Þá krefst sóknaraðili kærumálskostnaðar.
Varnaraðilar krefjast þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sóknaraðila gert að greiða þeim kærumálskostnað.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður staðfest sú niðurstaða héraðsdómara að eftir kröfu varnaraðila verði að skylda sóknaraðila til að setja tryggingu samkvæmt 133. gr. laga nr. 91/1991 fyrir greiðslu málskostnaðar. Að virtum gögnum málsins er fjárhæð hennar hæfilega ákveðin 1.500.000 krónur. Verður sóknaraðila gert að setja þá tryggingu á þann hátt og innan þess frests, sem í dómsorði greinir.
Rétt er að aðilarnir beri hver sinn kostnað af kærumáli þessu.
Dómsorð:
Sóknaraðila, þrotabúi Genealogia Islandorum hf., er gert að setja innan þriggja vikna frá uppsögu þessa dóms tryggingu í formi bankabókar eða bankatryggingar að fjárhæð 1.500.000 krónur fyrir greiðslu málskostnaðar í máli sínu og Þorsteins Jónssonar gegn varnaraðilum, Íslenskri erfðagreiningu ehf. og Friðrik Skúlasyni ehf.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. október 2001.
Krafa stefndu byggir á 133. gr. l. nr. 91/1991. Í 1. mgr. þeirra greinar er heimild stefnda í máli til að leggja fram kröfu um málskostnaðartryggingu bundin við að hún komi fram við þingfestingu málsins, að uppfylltu öðru hvoru skilyrða, sem fram koma í a og b lið greinarinnar. Skilyrði b-liðar er að leiða megi líkur að því að stefnandi sé ófær um greiðslu málskostnaðar.
Þótt skilyrði 1. mgr. um að krafan skuli koma fram við þingfestingu sýnist fortakslaust, verður að lesa það með hliðsjón af lögskýringargögnum. Það liggur fyrir í máli þessu, að gjaldþrot stefnandans, Genealogia Islandorum hf. var ekki ljóst við þingfestingu málsins og því fyrst nú, sem skilyrði b-liðar 1. mgr. 133. gr. sýnist fyrir hendi. Í grg. með lagaákvæðinu segir svo m.a.: “Ef tilefni kæmi annars fyrst fram til kröfu um málskostnaðartryggingu eftir þingfestingu, má ekki telja umrædd orð 1. mgr. 133. gr. útiloka, að hún verði tekin til greina, en þetta gæti öðru fremur gerzt, ef tilefni gefst fyrst til að telja stefnanda ógreiðslufæran, þegar rekstur máls er eitthvað kominn á veg.”
Með hliðsjón af því, að nýr aðili, þrotabú Genealogia Islandorum hf., hefur nú tekið við rekstri málsins af þessum stefnanda, þykir mega fallast á, að skilyrði b-liðar, 1. mgr. 133. gr. séu fyrir hendi, hvað þennan aðila varðar, enda hafa, af hálfu þessa stefnanda, ekki komið fram nein gögn, sem styðja það, að þrotabúið eða kröfuhafar þess séu reiðubúnir og hafi getu til þess að standa undir þeim kostnaði, sem af máli þessu kann að hljótast.
Hins vegar er ekki fallizt á, að það eitt að málskostnaðarkröfur stefndu á hendur stefnendum séu um solidariska ábyrgð þeirra, falli undir skilyrði 133. gr. laganna, og er kröfu um, að stefnandanum, Þorsteini Jónssyni, verði gert að leggja fram málskostnaðartryggingu á þessu stigi málsins, því hafnað.
Með hliðsjón af kröfum í máli þessu og umfangi þess þykir fjárhæð málskostnaðartryggingar hæfilega ákveðin kr. 4.000.000, sem sóknaraðili, þrotabúi Genealagia Islandorum hf. ber að leggja fram í formi bankabókar eða bankatryggingar innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu úrskurðarins.
Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Kröfu stefndu um að stefnandi, Þorsteinn Jónsson, leggi fram málskostnaðartryggingu, er hafnað.
Sóknaraðili, þb. Genealogia Islandorum hf., skal leggja fram málskostnaðartryggingu að fjárhæð kr. 4.000.000 í formi bankabókar eða bankatryggingar, innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu þessa úrskurðar.