Hæstiréttur íslands
Mál nr. 51/2000
Lykilorð
- Líkamsárás
- Neyðarvörn
- Skilorð
- Skaðabætur
|
|
Fimmtudaginn 30. mars 2000. |
|
Nr. 51/2000. |
Ákæruvaldið (Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari) gegn Garðari Guðjónssyni (Þorsteinn Einarsson hrl.) |
Líkamsárás. Neyðarvörn. Skilorð. Skaðabætur.
G var ákærður fyrir tvö brot gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa annars vegar veist að S og slegið hann tvívegis í höfuðið með flösku og hins vegar lagt til D með hnífi. Talið var að þótt D hefði í umrætt sinn ráðist að fyrra bragði að G væri ekki unnt að fallast á að honum yrði metið refsilaust samkvæmt 12. gr. almennra hegningarlaga að hafa beitt sér til varnar hnífi. Hins vegar yrði að líta til aðdraganda atlögunnar við ákvörðun refsingar G. Var héraðsdómur staðfestur um sakfellingu G fyrir bæði brotin, refsingu hans og skaðabætur til handa S. Með hliðsjón af því að D hafði átt upptök að átökunum við G þótti hann verða bera hluta tjóns síns sjálfur. Var G dæmdur til að bæta tjón hans að hálfu.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Haraldur Henrysson, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 21. janúar 2000 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að refsing ákærða verði þyngd frá því, sem ákveðið var í héraðsdómi, svo og að honum verði gert að greiða Davíð Rúnarssyni hærri miskabætur, eða 250.000 krónur.
Ákærði krefst sýknu af þeim sökum, sem hann var borinn með b. lið ákæru, og að refsing hans verði að öðru leyti lækkuð. Þá krefst hann þess að sér verði aðeins gert að greiða Sigurkarli Rúnarssyni skaðabætur að fjárhæð 17.400 krónur. Að því er varðar skaðabótakröfu Davíðs Rúnarssonar krefst ákærði aðallega sýknu, en til vara að henni verði vísað frá héraðsdómi.
Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi er ákærði sóttur til saka í málinu fyrir að hafa brotið gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 10. gr. laga nr. 20/1981, þar sem hann var staddur á veitingastaðnum Pizza 67 í Kópavogi að kvöldi 21. apríl 1999, með líkamsárás annars vegar á Sigurkarl Bjart Rúnarsson, sem a. liður ákæru tók til, og hins vegar Davíð Rúnarsson, svo sem um ræddi í b. lið hennar. Í ákærunni var höfð uppi á hendur ákærða skaðabótakrafa Sigurkarls að fjárhæð 544.340 krónur og Davíðs að fjárhæð 472.168 krónur. Með héraðsdómi var ákærði sakfelldur fyrir bæði brotin, sem greindi í ákæru, og dæmdur til refsingar. Skaðabótakröfu Sigurkarls var að meginhluta vísað frá dómi, en ákærða þó gert að greiða honum 49.340 krónur, svo og Davíð 247.168 krónur, með nánar tilteknum vöxtum.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða fyrir báðar líkamsárásirnar, sem hann er borinn sökum um, og heimfærslu brotanna til refsiákvæða. Þótt Davíð Rúnarsson hafi í umrætt sinn ráðist að fyrra bragði harkalega að ákærða er ekki unnt að fallast á að honum verði metið refsilaust vegna 1. mgr. 12. gr. almennra hegningarlaga að hafa beitt sér til varnar hnífi, sem hann veitti Davíð áverka með, eða að ákvæði 2. mgr. sömu greinar geti tekið til verknaðarins. Við ákvörðun refsingar verður á hinn bóginn að líta til þessa aðdraganda atlögunnar að Davíð, sbr. 3. mgr. 218. gr. a almennra hegningarlaga, eins og þeim var breytt með 12. gr. laga nr. 20/1981, svo og að ákærði hefur ekki svo vitað sé að öðru leyti en um ræðir í málinu gerst sekur um refsiverða háttsemi. Árás ákærða á Sigurkarl Bjart Rúnarsson var tilefnislaus. Við hana beitti ákærði sérstaklega hættulegri aðferð. Að virtu þessu og ákvæði 77. gr. almennra hegningarlaga er refsing ákærða hæfilega ákveðin í hinum áfrýjaða dómi. Vegna þeirra atvika, sem hér hefur verið getið, eru ekki efni til að binda refsingu ákærða skilorði í ríkara mæli en gert var í héraðsdómi. Verður niðurstaða hans um refsingu því staðfest.
Samkvæmt frumskýrslu lögreglunnar um atvik málsins var blóð í andliti og á fatnaði á bringu Sigurkarls Bjarts Rúnarssonar þegar komið var að honum á vettvangi. Er með þessu stutt viðhlítandi gögnum að skemmdir hafi orðið á þeim fatnaði hans. Lagðar hafa verið fram í málinu kvittanir, sem sýna að verð nýrrar skyrtu og peysu hafi alls numið 11.940 krónum. Verður sá liður í skaðabótakröfu Sigurkarls því tekinn til greina. Ekki hefur verið mótmælt kröfu hans um bætur vegna kostnaðar af læknisvottorðum, samtals 17.400 krónur. Við gerð skaðabótakröfu á hendur ákærða naut Sigurkarl aðstoðar lögmanns, sem sótti jafnframt þing af hans hálfu þegar málið var tekið til aðalmeðferðar í héraði. Eru ekki efni til annars en að staðfesta niðurstöðu héraðsdómara um skyldu ákærða til að greiða Sigurkarli 15.000 krónur vegna lögmannskostnaðar. Samtals nema þessir kröfuliðir 44.340 krónum, sem ákærði verður dæmdur til að greiða með vöxtum eins og í dómsorði greinir.
Krafa Davíðs Rúnarssonar á hendur ákærða um bætur fyrir tímabundið atvinnutjón er studd við yfirlýsingu vinnuveitanda hans, Jarðborana hf., um að hann hafi verið frá vinnu á tímabilinu frá 23. apríl til 4. maí 1999 og farið þá á mis við laun að fjárhæð samtals 136.168 krónur, ásamt vottorði læknis 14. maí 1999, þar sem látið var uppi það álit að reikna hafi mátt með að Davíð yrði frá vinnu í tvær vikur vegna áverka, sem hann hlaut af átökunum við ákærða. Á þessum grunni verður staðfest niðurstaða héraðsdómara um að taka kröfulið Davíðs vegna tímabundins atvinnutjóns að fullu til greina. Með vísan til þess, sem greinir í hinum áfrýjaða dómi, verður einnig staðfest niðurstaða hans um miskabætur, sem sóttar verða með stoð í ákvæði 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og eru hæfilega ákveðnar 60.000 krónur, og að ákærða beri að bæta kostnað af aðstoð lögmanns við brotaþola með 30.000 krónum. Í gögnum málsins liggur á hinn bóginn ekkert fyrir um að Davíð hafi í kjölfar atlögu ákærða verið veikur í þeim skilningi, sem um ræðir í 3. gr. skaðabótalaga. Þegar af þeirri ástæðu verður að hafna kröfu Davíðs um þjáningabætur. Samkvæmt þessu nemur óbætt tjón Davíðs samtals 226.168 krónum. Eins og áður greinir átti hann upptök að átökum sínum við ákærða. Ástæðan, sem Davíð hefur fært fram til að réttlæta þær gerðir sínar, er með öllu haldlaus. Verður hann því að bera hluta tjóns síns sjálfur. Er hæfilegt að dæma ákærða til að bæta tjónið að hálfu með 113.084 krónum ásamt vöxtum, eins og í dómsorði greinir.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest. Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, eins og nánar segir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður um refsingu ákærða, Garðars Guðjónssonar, og sakarkostnað.
Ákærði greiði Sigurkarli Bjarti Rúnarssyni 44.340 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 13. ágúst 1999 til greiðsludags.
Ákærði greiði Davíð Rúnarssyni 113.084 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá 13. ágúst 1999 til greiðsludags.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Þorsteins Einarssonar hæstaréttarlögmanns, 80.000 krónur.
Dómur Hérðasdóms Reykjaness 29. desember 1999.
Málið er höfðað með ákæru útgefinni 3. september s.l. gegn Garðari Guðjónssyni, kt. 150180-4149, Trönuhjalla 9, Kópavogi fyrir líkamsáras, með því að hafa að kvöldi miðvikudagsins 21. apríl 1999, á veitingastaðnum Pizza 67, að Engihjalla 9, í Kópavogi, veist að:
a) Sigurkarli Bjarti Rúnarssyni, kt. 080779-4299, og slegið hann tvívegis í höfuðið með bjórflösku, með þeim afleiðingum að hann hlaut 2,5 cm skurð á hægri augabrún og 4 cm. skurð á vinstra gagnauga.
b) Davíð Rúnarssyni, kt. 021274-4459, og lagt til hans með hnífi með þeim afleiðingum að hann hlaut 4-5 cm skurð á vinstri olnboga.
Telst þetta varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 10. gr. laga nr. 20/1981.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.
Í málinu gerir Jón Egilsson, hdl., eftirfarandi kröfur:
a) Fyrir hönd Sigurkarls Bjarts Rúnarssonar, að ákærði greiði bætur að fjárhæð kr. 544.340,-.
b) Fyrir hönd Davíðs Rúnarssonar, að ákærði greiði bætur að fjárhæð kr. 472.168,-.
Við báðar kröfur leggjast dráttarvextir skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá tjónsdegi, 21.04.1999, til greiðsludags.
Gerður er fyrirvari um fjárhæð bótakrafna vegna frekari afleiðinga tjónsverknaðar.
Af hálfu ákærða er haldið uppi vörnum í málinu og þess krafist að refsiákvörðun verði frestað skilorðsbundið en til vara, að ákærða verði einungis gerð vægasta refsing sem lög frekast leyfa og að hún verði skilorðsbundin. Þá er þess krafist að bótakröfunni verði vísað frá dómi, en til vara að hann verði sýknaður af henni. Loks er þess krafist að allur kostnaður sakarinnar verði lagður á ríkissjóð, þar á meðal hæfileg varnarlaun til skipaðs verjanda hdl. Þorsteins Einarssonar.
Málsatvik
Miðvikudaginn 24. apríl s.l. kl. 22:50 var óskað aðstoðar lögreglunnar í Kópavogi vegna óláta og slagsmála á veitingastaðnum Pizza 67 að Engihjalla 8, Kópavogi. Er lögreglumenn komu á staðinn, kom í ljós að Sigurkarl Bjartur Rúnarsson, kt.080779-2299, Hjallabrekku 11, Kópavogi stóð við innganginn á veitingastaðnum og var blóðugur í andliti og á fötum sínum framan á bringu og hafði hann verið sleginn með flösku innan dyra. Við nánari athugun kom í ljós að hægri augabrún var sár og bólgin og hafði blætt úr sárinu, en á vinstra gagnauganu var djúpt sár sem blæddi talsvert úr og var Sigurkarl með svima. Honum var bent á að hann yrði að fara á slysadeild, en það fannst honum ómögulegt, þar eð hann vildi halda áfram að drekka og skemmta sér. Fram kom að hann hafði ýtt við einhverjum strák, sem hann var að ræða við, en þá hafi vinur stráksins komið og slegið Sigurkarl með flösku í andlitið. Sigurkarl kvaðst þá hafa sagt eitthvað miður fallegt við strákinn, og hafi hann slegið hann aftur með flösku í andlitið og hafi það högg lent á vinstra gagnauga en það fyrra á hægri augabrún.
Lögreglumennirnir fóru svo inn í veitingastaðinn í leit að árásarmanninum og vísaði eigandi staðarins þeim inn í eldhúsið, þangað sem hann hafði fært þann sem sló Sigurkarl, sem reyndist vera ákærður í máli þessu og lá fyrir að vinir Sigurkarls ætluðu sér að berja á honum. Ákærður sagðist hafa verið að hjálpa vini, sem hópur manna hafi ráðist að og viðurkenndi að hafa þá slegið Sigurkarl tvívegis í höfuðið með flösku, en hafði ekki viðhlítandi skýringu á því að hann notaði flöskuna. Ákærður var beðinn að halda sig inni í húsinu þar til búið væri að rýma það. Um þetta leyti eða rétt áður hafði Davíð Rúnarsson, kt. 021274-4459, bróðir Sigurkarls komið að veitingastaðnum á bíl til að sækja hann og var með honum félagi hans Gestur Kristinn Friðfinnsson, sem fór inn á veitingastaðinn til að sækja Sigurkarl meðan Davíð beið í bifreiðinni. Eftir nokkra stund hafi Gestur komið með Sigurkarl út, alblóðugan í framan. Davíð sagðist þá hafa farið inn á staðinn, til að komast að því hver hafi ráðist á bróður hans. Innandyra hafi fleiri verið að leita að þeim sem lamið hafði bróður hans, og eftir nokkra stund hefði honum verið bent á ákærða, þar sem hann stóð við barborðið. Hann hafði þá gengið til ákærða, sem gert hafi sig líklegan til að taka á móti honum. Davíð hafði þá tekið í hann, snúið hann niður í gólfið og ætlað að halda honum þar, þar til lögreglan kæmi á staðinn. Ákærður hafði byrjað að streitast á móti og Davíð þá hert tökin. Davíð kvað ákærða þá hafa tekið hníf og otað að honum, en þó hafði Davíð ekki í fyrstu tekið eftir að hann var með hníf en í annað skiptið sem hann otaði að hafi hann gert sér grein fyrir að hann var með hníf og brugðið vinstri hendinni fyrir síðuna, þangað fannst honum ákærður beina hnífnum. Í þriðja skiptið, sem ákærður otaði að honum hnífnum hafði hann fundið til sársauka í vinstra handlegg við olnboga og hann þá hröklast aðeins frá, en í framhaldi af því kýlt ákærða í hnakkann og bakið tvisvar sinnum og svo sparkað í hann nokkrum sinnum. Hann hafi svo verið dreginn burt og í framhaldi af því farið af staðnum. Hann hafði skoðað skurðinn á handleggnum betur, þegar hann kom út í bíl og sá að hann var með alllangan skurð á vinstri handlegg, sem mikið blæddi úr. Hann hafi því ekið upp á Slysadeild Sjúkrahúss Reykjavíkur og Sigurkarl bróðir hans farið með honum og var þar gert að sárum þeirra.
Í áverkavottorði Ólafs R. Ingimarssonar, læknis kemur þetta fram um áverka og meiðsli Davíðs Rúnarssonar: ,, Við skoðun var hann með 4-5 cm sár á olnboganum vinstra megin. Þetta var yfirborðsskurður, sem dýpstur náði niður að vöðva-fasciu, en ekki dýpra. Perifer status á handlegg var alveg eðlilegur. Hann hlaut greinilega sár á olnboga s51,0.
Þetta sár var staðdeyft og saumað með níu saumum. Síðan settar á umbúðir og einnig gipsspelka þar sem sárið var svo nálægt hreyfanlegum lið. Saumataka og framhaldseftirlit átti að fara fram á heilsugæslu. (Gunnsteinn Gunnarsson, Heilsugæslustöð Kópavogs).
Reiknað með óvinnuhæfi í um það bil tvær vikur af þessum sökum og engum framtíðarmeinum öðrum en öri á ofannefndum stað.´´
Í læknisvottorði Hlyns Þorseinssonar, kemur þetta fram um meiðsli Sigurkarls: ,,Við skoðun er hann með skurði á báðum stöðum og er sá á hægri augabrún 2,5-3 cm á lengd og aðeins óreglulegur í laginu. Hinn skurðurinn sem er á vinstra gagnauga er 4 cm. langur og gapir hann nokkuð.
Báðir þessir skurðir eru deyfðir og saumaðir saman þannig að þeir falli vel og sjúklingi síðan ráðlögð saumataka hjá heimilislækni að viku liðinni.
Að venju var honum ráðlagt að leita hingað á ný ef frekari einkenni kæmu fram. Misjafnt er hvað menn muna eftir að hafa komið á Slysa- og bráðamóttökuna. Fór hann við svo búið og ekki eru skráðar frekari komur sjúklings vegna þessa máls.´´
Ákærður hafði og leitað á Slysadeild Sjúkrahúss Reykjavíkur vegna áverkanna sem hann hlaut í átökunum við Davíð og segir svo í læknisvottorði Hlyns Þorsteinssonar um meiðsl hans: ,,Við skoðun er hann með roða á vinstri kinn, alveg frá því um neðra augnlok og niður að höku. Í þessu bólgusvæði eru eymsli. Á enni er hann með þrjá bólgubletti með roða og eymslum við þreyfingu svo og eina rispu. Á hægri kinn eru fjórir bólgublettir rauðir að lit, misstórir og þá er hann með eina rispu á efri vör. Talsverð eymsli eru í kringum þessi bólgusvæði en ekkert sem bendir til beináverka.
Þá hefur hann eymsli í baki. Um mitt bakið má sjá fjóra bólgubletti rauða á lit og eru talsverð eymsli undir einum þeirra, eða þeim sem er í hæð við neðra horn á hægra herðablaði og er það í langvöðva baksins. Minni eymsli eru undir hinum blettunum.
Þær greiningar sem hann fær eru mar og yfirborðsáverkar í andliti og mar á baki´´.
Ákærður hefur viðurkennt að hafa slegið Sigurkarl Bjart tvívegis með bjórflösku í höfuðið eins og lýst er í ákæru og með þargreindum afleiðingum. Fram kom hjá ákærða að félagi hans Anton Eggertsson og Sigurkarl hafi verið að rífast og að hann hafi ekki sérstaklega verið að spá í það, fyrr en Sigurkarl hafi hrint Antoni á hann. Ákærður kvaðst hafa vitað af því að þeir Anton og Sigurkarl höfðu nokkru áður lent í átökum í miðbæ Reykjavíkur og Sigurkarl þá sparkað nokkrum framtönnum úr Antoni. Hann hafði því talið að átök væru í uppsiglingu milli Antons og Sigurkarls og hann því brugðist við skjótt og lamið með flösku tvívegis í höfuð Sigurkarls.
Ákærður kvað Davíð bróður Sigurkarls hafa komið fljótlega eftir þetta, en þá hafi ákærður verið við barborðið. Hann hafi bent á ákærða og kallað upp ,, þetta er hann´´ og ráðist á ákærða og slegið hann í andlitið, en kvaðst hafa verið algjörlega óviðbúinn þessari árás, en hann hafi verið kýldur áfram og hann fallið á gólfið eða verið tekinn niður af Davíð, sem hafi sparkað í höfuð hans og búk og svo tekið hann hálstaki. Ákærður kvaðst þá hafa fundið hníf venjulegan steikarhníf á gólfinu, sem hann hafi tekið upp og sveiflað í átt að Davíð. Ákærður taldi sig vera í hættu og ætlaði að hræða Davíð burt með þessu. Hann hafi verið á grúfu á gólfinu er hann sá hnífinn og teygði sig eftir honum og Davíð verið ofan á honum. Hann kvaðst hafa sveiflað hnífnum að Davíð, án þess að sjá alveg hvert hann sveiflaði honum en hann hafi ekki sveiflað honum eða beint að neinum ákveðnum stað á Davíð svo sem andliti.
Ákærður kvaðst ekki hafa hugsað út í eða gert sér grein fyrir afleiðingum af því að sveifla eða ota hnífnum svona að Davíð.
Hann kvaðst ekkert hafa sagt eða kallað áður en hann sveiflaði hnífnum. Hann kvaðst ekki hafa vitað hvort hnífurinn hefði komið við Davíð eða einhvern annan fyrr en daginn eftir, að Davíð hafi hringt í hann og sagt honum frá því, um leið hafi hann verið með hótanir í hans garð.
Davíð Rúnarsson, bar vitni í málinu og kvaðst hafa farið inn á veitingastaðinn eftir að bróðir hans kom þaðan út alblóðugur og hafi þá ætlað að hafa uppi á árásarmanninum og halda honum þangað til lögreglan kæmi. Eftir að því hafði verið sagt að ákærður væri árásarmaðurinn, kvaðst það hafa tekið ákærða niður í gólfið, þar sem þeir hafi barist um. Vitnið hafði setið á hnjánum ofan á ákærða og kvað það þá ákærða hafa sveiflað hníf aftur fyrir sig en það þó í fyrstu ekki áttað sig á því að það var hnífur, sem ákærður sveiflaði. Það kvaðst ekki hafa séð ákærða þreifa eftir hníf á gólfinu og taldi ólíklegt, að á pizzastað væru hnífar út um allt gólf. Vitninu sýndist fremur að ákærður hafi tekið hnífinn upp úr vasanum. Vitnið sagði að þegar ákærður hafi í fyrstu sveiflað hnífnum aftur fyrir sig, hafi hann ekki séð það þar sem að hann lá á grúfu. Þegar vitnið áttaði sig á því að ákærður var með hníf í hendinni, kvaðst það hafa fært sig frá en þá hafi ákærður fengið meira svigrúm og náð að komast meir að og hann þá séð vitnið almennilega. Því sýndist að ákærður ætlaði að stinga það í magann, varð hrætt og færði sig frá um leið og það bar hendina fyrir magann eða síðuna og fær þá hnífinn í handlegginn sem ella hefði farið í magann eða síðuna. Vitnið kvaðst ekki hafa slegið ákærða áður en það tók hann niður, en eftir að hann var búinn að stinga það, varð það hrætt og kýldi hann í bak og hnakka og svo hafi það sparkað einu sinni í hann eftir að það hafi staðið upp. Aðspurt hvers vegna það hefði verið að skipta sér af ákærða í greint sinn, sagði það að það hafi verið hrætt um að hann myndi sleppa.
Vitnið Arnar Ingvarsson, kt. 250278-5439, Álfhólsvegi 40, Kópavogi hafði verið á veitingastaðnum Pizza 67, Engihjalla 8, Kópavogi og fylgst með átökunum milli ákærða og Davíðs. Það kvaðst hafa komið labbandi inn á veitingastaðinn og stansað í andyrinu og þá séð Davíð halda að ákærða og taka hann niður og þeir svo barist um, orðið læti og fólk safnast að. Það kvaðst svo hafa séð ákærða sveifla hendinni í átt til Davíðs, sem þá hafi kýlt ákærða og svo staðið upp og sparkað frá sér og svo gengið frá. Það kvaðst ekki hafa séð hnífinn lenda í Davíð. Það kvað átökin hafa farið fram fyrir framan barborðið og það séð á hliðina á ákærða og Davíð, en Davíð hafið verið ofan á ákærða er ákærði sveiflaði hnífnum, en taldi samt að hann hefði náð að sveifla honum fram fyrir sig að Davíð og hann hafi bara sveiflað honum einu sinni. Það hafði ekki séð ákærða taka hníf af gólfinu. Það kvað Davíð hafa brugðið eftir að hendi ákærða lenti á honum og eftir það hafi hann kýlt í ákærða og sparkað í hann en hann hafi þá verið að mestu kominn á fætur, en það sá ekki hvar sparkið eða spörkin lentu. Það kvaðst ekki hafa í upphafi séð Davíð slá ákærða, en Davíð hafi tekið hann hálstaki og ákærður hafi barist um.
Vitnið Anton Ingi Eggertsson, kt. 230481-5719, Engihjalla 11, Kópavogi kvaðst hafa staðið við hliðina á ákærða og séð átökin milli hans og Davíðs. Það hafði og verið við fyrri átökin en eftir þau hafi Sigurkarl kallað á bróður sinn og það og ákærður vitað af honum fyrir utan húsið og að hann ætlaði að lemja þá. Þeir höfðu því ætlað að fara af staðnum bakdyramegin, en þá hafi það séð strák fara framhjá sér og að ákærða. Strákurinn hafi spurt ákærða að nafni og ákærður gefið það upp. Strákurinn hafi þá byrjað að kýla ákærða og svo hafi hann dregið hann niður og tekið hann hálstaki. Það kvaðst fyrst hafa reynt að ýta stráknum frá, en þá hafi vinur hans komið að og farið að slást við vitnið og það misst af einhverju af því sem fram fór á milli ákærða og stráksins, en er það hafi séð til þeirra aftur hafi strákurinn verið að sparka í ákærða. Vitnið kvaðst ekki hafa séð þegar hnífurinn lenti í stráknum og það ekki vitað að ákærði væri með áverka. Það kvað ákærða vera kunningja sinn, en það hafi ekki séð ákærða setja hníf í vasann og það kvaðst heldur ekki hafa séð hann þreifa eftir hníf á gólfinu. Það mundi ekki til þess að nein átök hafi átt sér stað er átökin hófust, en kvað strákinn fyrst hafa kýlt ákærða í andlitið og svo tekið ákærða hálstaki, en spörkin hafi lent í andliti og maga ákærða.
Niðurstöður
Með játningu ákærða sem er í samræmi við rannsóknargögn málsins er sannað að ákærður réðist fyrirvaralaust á Sigurkarl Rúnarsson og sló hann tvívegis í andlitið með bjórflösku svo að hann hlaut þá áverka sem lýst er í ákæru og áverkavottorði Hlyns Þorsteinssonar, læknis.
Í átökum milli ákærða og Davíðs er ljóst af framburði ákærða og vætti vitna, að ákærður veldur Davíð því skurðsári á olnboga vinstri handar sem lýst er í ákæru og læknisvottorði með því að sveifla að honum hníf, sem hann hafði tekið þarna á staðnum. Sá framburður Davíðs að ákærður hafi einungis fyrst sveiflað hnífnum án þess að geta séð hvar hann lenti, en svo tvívegis eftir það beint hnífnum að ákærða og ætlað að stinga hann í magann fær ekki stoð í vætti vitnanna, en vitnið Arnar Ingvarsson, sem fylgdist með átökunum nær allan tímann sem þau stóðu var öruggt á því að ákærður hafi bara sveiflað hendinni að Davíð einu sinni. Það þykir því bresta sönnun um að ákærður hafi lagt hnífnum til Davíðs með það í huga að hann lenti á honum og þá í maga hans.
Yfirgnæfandi líkur voru á því að er ákærði sveiflaði hnífnum að hann lenti í Davíð og ylli honum líkamstjóni. Í báðum framangreindum átökum verður að telja að ákærður hafi beitt hættulegum aðferðum, sem fallnar voru til að valda verulegu líkamstjóni. Miðað við það líkamstjón sem varð, þykir mega fella verknaði ákærða undir 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga, en telja verður verknaðina mjög vítaverða.
Við refsimat í málinu vegna síðara brotsins verður að líta til þess, að ákærður hafði hendur sínar að verja í átökum sem kærandi var upphafsmaður að. Fram er komið að ákærður gaf honum upp nafn sitt áður en Davíð réðst að honum, og verður árásin ekki réttlætt með því að nauðsynlegt hafi verið að halda ákærða, svo að hann kæmist ekki undan ábyrgð á broti sínu gagnvart Sigurkarli. Þá verður að telja að ákærður hafi farið út fyrir takmörk leyfilegrar neyðarvarnar með því að beita hnífnum, en árás Davíðs gaf ekki tilefni til svo harkalegra verknaða.
Þegar þetta er allt virt og höfð er hliðsjón af 77. gr. alm. hegningarlaga, þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 6 mánuði. Rétt þykir með hliðsjón af ungum aldri ákærða og að hann hefur ekki gerst áður brotlegur við refsilög að fresta fullnustu á 4 mánuðum af refsingunni og niður falli hún að liðnum 2 árum haldi ákærður almennt skilorð samkv. 57. gr. alm. hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 22/1955.
Skaðabætur og sakarkostnaður
Í málinu hafa árársarþolar gert bótakröfur á hendur ákærða dskj. nr. 3/14 og 3/15, sem ákærðu gerir kröfu að verði í heild vísað frá dómi. Ekki er fallist á það, þar eð nægjanleg gögn eru til leggja dóm á hluta af kröfunum.
Sigurkarl Rúnarsson sundurliðar kröfu sína þannig.
1. Þjáningabætur kr. 200.000,-
2. Miskabæturkr. 250.000,-
3. Kostn. vegna fataskemmdakr. 11.940,-
4. Kostn. vegna læknisvottorðakr. 17.400,-
5. Þóknun til lögmanns bótakrefjandakr. 65.000,-
Samtalskr. 544.340,-
Þá er krafist vaxta af 3. fyrstu kröfliðunum. Þ.e. skv. 7. gr. vaxtalaga frá tjónsdegi og dráttarvaxta frá dagsetn. kröfubréfs 10. júlí 1999.
Í málinu liggur ekki fyrir læknisfræðilegt mat um hversu lengi Sigurkarl hafi verið veikur vegna áverkanna sem hann hlaut, en ætla má að það hafi vart tekið meira en 2-3 mánuði fyrir hann að jafna sig eftir þá. Samkvæmt vottorði Knúts Björnssonar læknis, telur hann of snemmt að segja til um varanleg lýti vegna meiðslanna og telur að til þess geti komið að gera þurfi skurðaðgerð til að bæta örið. Þessari aðgerð gætu og fylgt veikindi og þjáningar. Hér gætu komið einkum til álita 3. og 4. gr. skaðabótalaga. Að þessu athuguðu þykir rétt að vísa 1. og 2. kröfulið frá dómi, en fallast má á að ákærður greiði kostnað vegna fataskemmda og læknisvottorða samtals kr. 29.340,-, Þóknun vegna lögmannsaðstoðar hdl. Jóns Egilssonar, bótakrefjanda telst hæfileg kr. 15.000,- með vsk.
Vaxtakrafan er tekin til greina þannig, að ákærður greiði vexti skv. 7. gr. vaxtalaga af kr. 11.940,- frá 21. apríl s.l. til 13. ágúst s.l. en frá þeim degi til greiðsludags greiði hann dráttarvexti skv. III. kafla vaxtalaga af kr. 44.340,-. Davíð Rúnarsson sundurliðar kröfu sína þannig:
1. Tímabundið atvinnutjón frá 23/4-4/5 1999 kr. 136.168,-
2. Þjáningabæturkr. 21.000,-
3. Miskabæturkr. 250.000,-
Þá er krafist vaxta skv. 1. gr. vaxtalaga af þessari fjárhæð frá tjónsdegi og dráttarvaxta frá dags. kröfubréfs 10. 7. s.l.
Lögmaður bótakrefjanda krefst í lögmannsþóknun með vsk. kr. 65.000,-.
Í vottorði Ólafs R. Ingimarssonar læknis, kemur fram að Davíð muni vera frá vinnu í tvo mánuði vegna meiðsla og þykir mega miða við það í málinu. Í staðfestingu Jarðboranna hf. er upplýst að launatap Davíðs hafi verið frá 23/4 - 4/5 1999, kr. 136.168,- og þykir mega leggja það til grundvallar í málilnu og liðir 1 og 2 teknir til greina óbreyttir.
Um lið 3 er það að segja að samkv. vottorði Ólafs Ingimarssonar læknis verður Davíð með ör á handleggnum til framtíðar en mun engin önnur mein hljóta af áverkanum til framtíðar. Í framburði Davíðs hér fyrir dómi kom fram, að meiðslin hafi ekki haft alvarleg áhrif á hann og hann væri ekki haldinn þunglyndi vegna þeirra. Hann kvaðst enn finna til í hendinni ef mikið reyndi á hana og hann hafi óþægindi af þessu og hafi þetta haft slæm áhrif á unnustu hans og bróður. Hann kvaðst ekki hafa fengið laun frá öðrum aðila á veikindatímabilinu né frá tryggingarfélagi.
Atlaga ákærða að Davíð með hnífnum var gróf og óvænt og verður metin sem meingerð gagnvart honum, svo að hann eigi rétt á miskabótum, sem þykja í ljósi atvika að árásinni hæfilega ákveðnar kr. 60.000,-.
Þóknun til lögmanns bótakrefjanda þykir hæfilega ákveðin kr. 30.000,- að meðtöldum virðisaukaskatti.
Fallast má á að ákærður greiði vexti skv. 7. gr. vaxtalaga af kr. 217.168,- frá 21. apríl 1999 til 13. ágúst s.l. en dráttarvexti skv. III. kafla vaxtalaga frá þeim tíma til greiðsludags af kr. 247.168,-.
Alls ber ákærða því að greiða Davíð kr. 237.168,- auk vaxta.
Dæma ber ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar, þar með talin málsvarnarlaun til skipaðs verjanda, sem ákveðast kr. 60.000,-.
Vegna frátafa dómarans við önnur mál hefur orðið dráttur á uppsögu dóms þessa.
Guðmundur L. Jóhannesson héraðsdómari kvað upp dóminn.
Dómsorð
Ákærður Garðar Guðjónsson, sæti fangelsi í 6 mánuði en fresta skal fullnustu á 4 mánuðum af refsingunni og hún niður falla að liðnum 2 árum haldi ákærður almennt skilorð samkv. 57. gr. alm. hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 22/1955.
Ákærður greiði Sigurkarli Rúnarssyni, kt. 080779-4299, Hjallabrekku 11, Kópavogi kr. 49.340,- auk vaxta skv. 7. gr. vaxtalaga af kr. 11.940,- til 13. ágúst s.l. en frá þeim degi til greiðsludags af kr. 44.340,- .
Kröfu Sigurkarls að fjárhæð kr. 450.000,- er vísað frá dómi.
Ákærður greiði Davíð Rúnarssyni, kt. 021274-4459, Hjallabrekku 11, Kópavogi kr. 247.168,- auk vaxta skv. 7. gr. vaxtalaga, af kr. 217.168,- frá 21. apríl s.l. til 13. ágúst s.l. en dráttarvexti skv. III. kafla vaxtalaga frá þeim degi til greiðsludags af kr. 247.168,-.
Ákærður greiði allan kostnað sakarinnar, þar með talin málsvarnarlaun til skipaðs verjanda hdl. Þorsteins Einarssonar kr. 60.000,-.