Hæstiréttur íslands
Mál nr. 778/2017
Lykilorð
- Kærumál
- Innsetningargerð
- Gjafsókn
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 8. desember 2017, en kærumálsgögn bárust réttinum 22. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 29. nóvember 2017, þar sem tekin var til greina krafa varnaraðila um að henni yrði heimilað að fá nánar tilgreinda muni tekna úr vörslum sóknaraðila með beinni aðfarargerð og fengna sér. Kæruheimild var í 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðili krefst þess að framangreindri kröfu varnaraðila verði hafnað. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar án tillits til gjafsóknar, sem henni hefur verið veitt.
Eins og greinir í hinum kærða úrskurði munu aðilarnir hafa verið í óvígðri sambúð, sem lokið hafi í september 2016. Í framhaldi af samvistarslitunum hafi varnaraðili fengið búslóð geymda á tilteknum stað, en hún kveður ágreining milli sín og sóknaraðila hafa leitt til þess að hann hafi tekið búslóðina í sínar vörslur og neitað síðan að láta hana af hendi. Við þessu brást varnaraðili með því að beina til héraðsdóms beiðni 2. maí 2017 um að munir, sem þar voru taldir upp, yrðu teknir með innsetningargerð úr vörslum sóknaraðila og fengnir sér. Mál þetta, sem snýst um þá beiðni, var þingfest í héraði 6. júní 2017. Í þinghaldi 28. sama mánaðar breytti varnaraðili kröfugerð sinni í málinu með þeirri skýringu að sóknaraðili hefði „skilað hluta af búslóð“ hennar eftir að beiðni hafði verið sett fram um innsetningargerð og felldi því til samræmis niður níu liði í talningu muna, sem hún krafðist að fá afhenta sér. Að þessu gerðu sneri krafa varnaraðila að munum, sem hún lýsti í 26 liðum, og eru þeir taldir upp í hinum kærða úrskurði.
Samkvæmt 78. gr. laga nr. 90/1989 getur sá, sem telur sér með ólögmætum hætti aftrað að neyta umráða yfir öðru en fasteign, sbr. 73. gr. sömu laga, með nánar tilteknum skilyrðum krafist þess að fá réttindum sínum fullnægt með aðfarargerð án þess að fyrir liggi aðfararheimild eftir 1. mgr. 1. gr. laganna. Þegar aðfarargerðar er krafist á þessum grundvelli til að fá fullnustu réttinda til umráða yfir lausafjármunum verður með hliðsjón af meginreglu d. liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála að tilgreina í aðfararbeiðni með ótvíræðum hætti þá muni, sem um ræðir, með nákvæmri lýsingu á auðkennum þeirra, hvort sem þeir eru einstaklega ákveðnir eða tegundarákveðnir. Ber þá sá, sem leitar aðfarargerðar, jafnframt sönnunarbyrði fyrir réttindum sínum til munanna og að sá, sem gerðinni er beint að, hafi þá í umráðum sínum.
Þegar litið er að þessu virtu á talningu varnaraðila á þeim munum, sem hún krefst að fá afhenta sér með aðfarargerð, er ljóst að í þeim 26 liðum, sem nú standa eftir í dómkröfu hennar, er hvergi að finna nokkra lýsingu á mununum umfram það að sagt er með almennum orðum um hvers konar hluti sé að ræða. Í nokkrum liðum er þó ekki svo langt gengið þegar látið er við það sitja að lýsa munum með orðum eins og „myndir“, „tveir svartir pokar, innihalda föt og skó“, „kassar með persónulegum munum dóttur gerðarbeiðanda“ eða „föt af dóttur gerðarbeiðanda“. Í tveimur síðastnefndu tilvikunum er reyndar heldur ekkert skýrt á hvaða grunni varnaraðili telji sig eiga sjálfa rétt til að fá umráð yfir munum, sem sagt er að tilheyri öðrum. Þá er til þess að líta að í málatilbúnaði sóknaraðila er kröfu varnaraðila um afhendingu einstakra muna mótmælt ýmist með vísan til þess að þeir tilheyri sóknaraðila eða hann hafi þá ekki í vörslum sínum. Varnaraðili hefur í engu tilviki axlað sönnunarbyrði sína fyrir því gagnstæða með haldbærum gögnum. Þegar af þessum ástæðum verður hafnað kröfu varnaraðila um heimild til aðfarargerðar.
Rétt er að málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður falli niður. Ákvæði hins kærða úrskurðar um gjafsóknarkostnað varnaraðila skal vera óraskað, en um þann kostnað hér fyrir dómi fer samkvæmt því, sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hafnað er kröfu varnaraðila, Ingu Jónu Traustadóttur, um aðfarargerð gagnvart sóknaraðila, Marteini Þórarinssyni.
Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.
Ákvæði hins kærða úrskurðar um gjafsóknarkostnað skal vera óraskað.
Allur gjafsóknarkostnaður varnaraðila fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 350.000 krónur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 29. nóvember 2017
Mál þetta, sem barst dóminum 5. maí 2017, var tekið til úrskurðar 8. nóvember 2017. Gerðarbeiðandi er Inga Jóna Traustadóttir, Hraunbæ 102a, Reykjavík. Gerðarþoli er Marteinn Þórarinsson, Melbraut 15, Garði.
Endanlegar dómkröfur gerðarbeiðanda eru þær að úrskurðað verði að umráð eftirtalinna eigna (lausafé), sem gerðarþoli tók ófrjálsri hendi úr geymslu, skuli veitt gerðarbeiðanda með aðför samkvæmt 1. mgr. 78. gr., sbr. 73. gr. laga nr. 90/1989 um aðför:
- Frystiskápur
- Þvottavél
- Rúm 140 cm
- Tungusófi 3,20cm
- Mótorhjólagalli úr leðri
- Mótorhjólagalli úr Goritex
- Ýmsir hlutir úr dánarbúi
- Flatskjár 32"
- Mótorhjólastígvél, stærð 37
- Mótorhjólahjálmur, svartur og grár
- Mótorhjólahjálmur, svartur einlitur
- Tvö málverk
- Tveir hátalarar
- Örbylgjuofn
- Brauðvél
- Tveir svartir pokar, innihalda fõt og skó
- Kassar með persónulegum munum dóttur gerðarbeiðanda
- Föt af dóttur gerðarbeiðanda
- Myndir
- Straujárn
- Stórt borðstofuborð, hvíttað
- Svartur poki með rúmfötum
- Svartur skartgripakassi með skarti
- Bleikur skartgripakassi með skarti
- Matvinnsluvél
- Ein fartölva
Jafnframt krefst gerðarbeiðandi þess að málskostnaður verði tildæmdur gerðarbeiðanda eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.
I.
Málsatvik eru þau að aðilar voru í sambúð en þau slitu samvistum í september 2016. Gerðarþoli mun þá hafa flutt út úr húsi þeirra í Garði. Gerðarbeiðandi kveður að þau hafi ákveðið að hún yrði í húsinu eitthvað áfram þar til hún myndi finna nýjan samastað fyrir sig og dóttur sína. Þær mæðgur hafi stuttu seinna flutt inn til sonar gerðarbeiðanda. Á meðan þær bjuggu þar hafi gerðarbeiðanda vantað stað til að geyma búslóð sína og hafi ákveðið að setja hana í geymslu hjá Geymslum Eitt ehf. Þar sem gerðarbeiðandi hafi á þessum tíma ekki verið með kreditkort hafi hún fengið gerðarþola til að setja kortið sitt til tryggingar hjá Geymslum Eitt ehf. Gerðarþoli hafi fallist á það, en gerðarbeiðandi hafi engu að síður verið skráð sem greiðandi fyrir geymslunni.
Gerðarbeiðandi segir að gerðarþoli hafi skyndilega tekið upp á því að krefja hana um leigu fyrir þann skamma tíma sem hún og dóttir hennar hafi verið áfram í húsinu eftir að hann fór. Það hafi ekki komið til greina af hálfu gerðarbeiðanda enda hefði verið samið um að þær mæðgur fengju að vera þar áfram í skamman tíma, eða þangað til þær fyndu húsnæði í kjölfar sambandsslitanna. Auk þess hefði gerðarþoli aldrei nokkurn tímann minnst á neina leigu. Gerðarbeiðandi hafi því hafnað kröfu gerðarþola og hann reiðst mjög, farið í geymsluna og tekið til sín með ólögmætum hætti alla búslóð gerðarbeiðanda. Þá hafi gerðarþoli hótað að selja eða henda búslóðinni ef gerðarbeiðandi myndi ekki greiða honum leigu o.fl.
Gerðarþoli mótmælir málsatvikalýsingu gerðarbeiðanda og segir að eftir sambúðarslitin hafi gerðarbeiðandi óskað eftir því að dvelja í fasteign gerðarþola fram að áramótum gegn greiðslu leigu, 110.000 krónur á mánuði. Gerðarbeiðandi hafi ekki greitt umræddar leigugreiðslur til gerðarþola en hún hafi farið út úr fasteigninni í október 2016.
Í gögnum málsins liggur fyrir tölvupóstur gerðarþola hinn 28. nóvember 2016 þar sem segir: „Þarft ekki að bögga þá í geymslum ég er búinn að tæma og skila þú þarft bara að ganga frá við mig.“
Einnig liggur fyrir tölvupóstur 26. nóvember 2016:
„Sæl vildi làta þig vita að ég hef læst geymslunni þar sem þú hefur ekki sínt neinn vilja til að ganga frà þínum màlum allar tilraunir til að opna geymsluna verða kærðar til lögreglu þar sem ég er rétthafi þú þarft ekki að mæta þarna til að greiða geymsluna þar sem þau munu ekki taka við greiðslu frà þér þú þarft að greiða mér reksturinn af húsinu meðan þú varst þar + leigu ég àskil mér rétt til að hirða draslið eða selja ef þú telur þig sleppa við að græja þetta ps.ofnamàlið er en à borði lögreglunnar à suðurnesjum .þú màtt svara mér hér þar sem ég kæri mig ekki um að heyra í þér í síma. Mk .kveðju fíflið sem hafði ekki vit à að henda þér út strax ...“
Gerðarbeiðandi kveðst ítrekað hafa reynt að fá gerðarþola til að láta af hendi búslóðina en án árangurs. Gerðarbeiðanda sé með vísan til alls framangreinds nauðugur sá kostur að leggja fram innsetningarbeiðni þessa.
Eftir að mál þetta var höfðað féll gerðarbeiðandi frá afhendingu á eftirtöldum munum, þar sem gerðarþoli hefði fallist á og skilað hluta af búslóð gerðarbeiðanda: Silkiblóm 120 cm, stór spegill, svartur, minni spegill, eik, þvottagrind, strauborð, tvö hvít Lack borð, stór gólfmotta, hvít, tvær minni gólfmottur og ein fartölva.
II.
Gerðarbeiðandi byggir á því að fyrir liggi játningar gerðarþola um að hann hafi tekið búslóðina og neiti að afhenda hana nema gegn því að gerðarbeiðandi gangi að ólögmætum skilmálum hans.
Gerðarbeiðandi vísar máli sínu til stuðnings til dóms Hæstaréttar í máli nr. 410/2011, en í því máli hafi verið fallist á kröfu konu um að fá búslóð sína afhenta.
Gerðarbeiðandi kveður kröfu sína byggja á óumdeildum umráða- og eignarétti að eigunum, sem varin sé af 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Umráða- eða vörsluréttur gerðarþola hafi aldrei verið til staðar. Óumdeilt sé að gerðarbeiðandi sé og hafi alltaf verið eigandi þessara eigna. Vörslur og umráð yfir eigunum séu því skýlaus og ótvíræður réttur gerðarbeiðanda.
Vörslur og umráð gerðarþola yfir eigunum sé í algjöru heimildarleysi og brjóti gegn lögvörðum eignarrétti gerðarbeiðanda. Jafnframt liggi ljóst fyrir að gerðarþoli muni aftra gerðarbeiðanda í að neyta réttinda sinna og því séu ekki aðrar leiðir færar en að leita atbeina dómstóla með vísan til 78. gr. laga nr. 50/1989 um aðför.
Gerðarbeiðandi heldur því fram að ekki sé ágreiningur um að eigurnar séu í eigu gerðarbeiðanda. Þá sé óumdeilt að eigurnar hafi ekki verið settar sem trygging fyrir kröfum sem gerðarþoli telur sig eiga á hendur gerðarbeiðanda. Verði því að teljast ámælisvert af hálfu gerðarþola að halda eigunum í sínum vörslum og neita gerðarbeiðanda um umráð og vörslur þeirra. Gerðarbeiðandi kveður að eigurnar séu samkvæmt bestu vitneskju gerðarbeiðanda í vörslum gerðarþola á heimili hans að Melbraut 15, Garði.
Gerðarbeiðandi telur ljóst að öllum skilyrðum laga nr. 90/1989 um aðför sé fullnægt.
Um lagarök vísar gerðarbeiðandi til 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og 1. mgr. 78. gr., sbr. 73. gr. laga nr. 90/1989 um aðför.
Krafa um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 1. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför.
Gerð þessi fari fram á ábyrgð gerðarbeiðanda en á kostnað gerðarþola.
III.
Gerðarþoli byggir á því að ekki liggi fyrir gögn sem sýni fram á að þeir munir sem krafist sé innsetningar yfir séu í eigu gerðarbeiðanda og þá að þeir séu yfirhöfuð í vörslum gerðarþola.
Gerðarþoli telur að ágreiningsefni málsaðila sé ekki þess eðlis að krafist verði beinnar aðfarargerðar því til lausnar. Gerðarbeiðandi sé í raun að krefjast þess að sér verði útlagðir tilteknir munir úr búi málsaðila án þess að réttur hennar til þeirra sé ótvíræður. Í því ljósi hefði verið nærtækast fyrir gerðarbeiðanda að krefjast opinberra skipta til lausnar ágreinings aðila, sbr. 100. gr. laga nr. 20/1991.
Gerðarþoli mótmælir því að atvik hér séu sambærileg málsatvikum í dómi Hæstaréttar í máli nr. 410/2011. Í því máli hafi eignarréttur gerðarbeiðanda á innbúi verið óumdeildur en deilt hafi verið um handveðsrétt og haldsrétt leigusala í innbúi leigjanda vegna vangreiddra leigugreiðslna.
Gerðarþoli telur að sönnur hafi ekki verið færðar fyrir eignarhaldi gerðarbeiðanda á umræddum munum með sýnilegum sönnunargögnum. Málatilbúnaður gerðarbeiðanda uppfylli því ekki skilyrði 1. mgr. 78. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 3. mgr. 83. gr. sömu laga. Gegn andmælum gerðarþola á eignarhaldi gerðarbeiðanda, og vörslum gerðarþola, sé því varhugavert að gerðin nái fram að ganga. Því beri að hafna kröfu gerðarbeiðanda.
Um lagarök vísar gerðarþoli til laga nr. 90/1989 um aðför, einkum 12. og 13. kafla laganna.
Málskostnaðarkrafa gerðarþola er byggð á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 94. gr. laga nr. 90/1989 og lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.
IV.
Eins og rakið hefur verið voru málsaðilar í sambúð. Eftir að þau slitu samvistum mun gerðarbeiðandi hafa búið áfram á heimilinu og eftir að hún flutti þaðan setti hún búslóð sína í geymslu hjá fyrirtækinu Geymslur Eitt ehf. Ágreiningur er um það hvort málsaðilar hafi samið um að gerðarbeiðandi skyldi greiða leigu fyrir þann tíma sem hún var áfram á heimilinu eftir sambúðarslitin. Af tölvupósti gerðarþola 26. og 28. nóvember 2016 verður ekki annað ráðið en að gerðarþoli hafi farið í geymsluna og tæmt hana og neitað að afhenda gerðarbeiðanda búslóð hennar nema gerðarbeiðandi myndi „ganga frá við hann“, þ.e. greiða honum leigu. Samkvæmt þessum gögnum hefur gerðarbeiðandi sýnt nægilega fram á að gerðarþoli hafi tekið búslóð hennar og neiti að afhenda hana. Í aðfararmáli þessu verður ekki leyst úr ágreiningi aðila um það hvort þau hafi samið um leigugreiðslur eða ekki, en hvað sem þeim ágreiningi líður er ljóst að gerðarþoli hefur engan lagalegan rétt til að halda fyrir gerðarbeiðanda búslóð hennar vegna umdeildrar leiguskuldar. Verður því fallist á kröfu gerðarbeiðanda, sbr. 78. gr. laga nr. 90/1989 um aðför.
Eftir þessum úrslitum ber gerðarþola að greiða gerðarbeiðanda málskostnað, sem renni í ríkissjóð, en gjafsóknarkostnaður gerðarbeiðanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, sem er hæfilega ákveðin, með hliðsjón af umfangi málsins, 400.000 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti.
Úrskurð þennan kveður upp Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Hin umbeðna gerð má fara fram.
Gerðarþoli, Marteinn Þórarinsson, greiði gerðarbeiðanda, Ingu Jónu Traustadóttur, 400.000 krónur í málskostnað sem renni í ríkissjóð.
Gjafsóknarkostnaður gerðarbeiðanda, þar með talin þóknun lögmanns hennar, Jóhannesar Stefáns Ólafssonar héraðsdómslögmanns, að fjárhæð 400.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.