Hæstiréttur íslands

Mál nr. 385/2000


Lykilorð

  • Skaðabætur
  • Vinnuslys
  • Örorka
  • Sakarskipting


Fimmtudaginn 22

 

Fimmtudaginn 22. febrúar 2001.

Nr. 385/2000.

Kaupfélag Eyfirðinga

(Hákon Árnason hrl.)

gegn

Birni Þorkelssyni

(Guðni Á. Haraldsson hrl.)

                                                   

Skaðabætur. Vinnuslys. Örorka. Sakarskipting.

B starfaði sem rafvirki hjá K. Hann fótbrotnaði þegar fótur hans varð á milli veggjar lyftuganga og þaks vörulyftu í húsnæði K. Bar slysið að með þeim hætti að lyftan hafði festst áður en hún var komin í rétta stöðu. Var B kallaður á vettvang. Honum tókst að opna lyftudyrnar og er hann teygði sig inn til að skoða aðstæður snerti hann lyftugólfið með fæti með þeim afleiðingum að lyftan féll með hann innanborðs vegna þess að slakrofi hafði ekki virkað og slaki myndast á spilvír lyftunnar. Héraðsdómur féllst á bótakröfu B gagnvart K. Var talið að nægar líkur væru að því leiddar að eftirliti og fyrirbyggjandi viðhaldi á lyftunni hefði ekki verið nægjanlega sinnt og það væri frumorsök slyssins. Hæstiréttur taldi vera líkur fyrir því að slakrofi lyftunnar hefði ekki verið fyllilega í lagi fyrir slysið. Var þá meðal annars horft til þess að gildandi reglur um eftirlit og viðhald lyftunnar höfðu ekki verið virtar. Einnig hefði komið fram ábending frá vinnueftirlitinu um að virkni slakrofa skyldi tryggð. Undanfarandi bilun, sem K bæri ábyrgð á, hefði verið frumorsök slyss B og K því skaðabótaskyldur. Líta bæri hins vegar til þess að B hefði til að bera fagþekkingu og hefði áður unnið við lyftuna. Honum hefði því mátt vera fulljóst að honum kynni að vera hætta búin ef hann stigi fæti inn í hana, meðal annars af þeirri ástæðu að slaki kynni að vera á spilvír hennar. Var hann því talinn bera ábyrgð á slysinu að hálfu á móti K.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson og Pétur Kr. Hafstein.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 16. október 2000. Krefst hann aðallega sýknu af kröfum stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Til vara er þess krafist að sök verði skipt, dæmdar skaðabætur lækkaðar og málskostnaður felldur niður í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst þess að áfrýjandi verði dæmdur til þess að greiða sér 10.753.624 krónur með 2% ársvöxtum frá 6. júní 1996 til 7. desember 1999, en frá þeim degi af sömu upphæð með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 til greiðsludags. Þá krefst hann staðfestingar á málskostnaðarákvæði héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

 

I.

Af hálfu stefnda hafa nokkur ný gögn verið lögð fyrir Hæstarétt. Þeirra á meðal er bréf lögmanns stefnda til fyrirtækisins Íselekt ehf. 1. desember 2000. Þar er vísað til þeirrar fullyrðingar áfrýjanda að ástæða fyrir því að slakrofi hefði staðið á sér væri sú að átak hafi komið á arminn þegar lyftan festist. Er af því tilefni spurt hvort sé líklegra, að armurinn hafi verið bilaður fyrir slysið eða hann hafi skemmst við það að lyftan festist. Í svarbréfi, undirrituðu af Eiríki Karlssyni, segir að ekki sé unnt að fullyrða um hvort „slakrofaarmurinn“ hafi verið fastur eða staðið á sér fyrir átökin þegar lyftan stöðvaðist, en átak lyftuspilsins ætti ekki að valda skaða á honum. Þá segir að ekki séu bein tengsl milli yfirálagsvarnar og slakrofans. Yfirálagsrofar séu af ýmsum gerðum, en eins og stefndi hafi nefnt í lögregluskýrslu hafi álagsútsláttarrofinn trúlega verið stilltur á „auto“, sem þýði að hann tengist aftur og verði virkur þegar hitafjöður eða sambærilegur búnaður í rofanum kólni. Þá hefur stefndi lagt fram yfirlýsingu frá Ólafi Jónssyni, löggiltum rafvirkjameistara fyrir hönd Ljósgjafans ehf. á Akureyri, þar sem segir að fyrirtækið hafi á sínum tíma séð um allar raflagnir og tengingar á rafbúnaði umræddrar lyftu, en hún hafi verið sett upp af vélsmiðjunni Odda á Akureyri. Hafi Ljósgjafinn ehf. séð um viðgerðir á rafbúnaði lyftunnar árum saman. Þá segir að lyftumótor hafi verið búinn svokallaðri yfirálagsvörn, sem hafi verið þannig útbúin, að hafi rofinn á vörninni slegið út af einhverjum ástæðum, hafi þurft að fara upp á lyftuhúsið og slá honum aftur inn til þess að gangsetja lyftuna að nýju.

II.

Í niðurstöðu héraðsdóms, sem skipaður var sérfróðum meðdómendum, segir að öll öryggistæki umræddrar lyftu hafi brugðist eða ekki virkað eins og nánar er þar lýst þegar slys stefnda varð 6. júní 1996. Verði að telja nægjanlegar líkur að því leiddar að eftirliti og fyrirbyggjandi viðhaldi á lyftunni hafi ekki verið sinnt fullnægjandi og sé það frumorsök slyssins. Ekki er frekar að því vikið, með hverjum hætti orsakasamband hafi verið milli slyssins og einstakra öryggisþátta, sem brugðist höfðu.

Ágreiningslaust er í málinu að lyftan féll niður á stefnda, eftir að hann snerti gólf hennar með fæti vegna þess að slakrofi hafði ekki virkað og slaki myndast á spilvír lyftunnar. Í skýrslu Vinnueftirlits ríkisins um slysið segir að slakrofi hafi virkað eðlilega eftir slysið að öðru leyti en því að armurinn sem virkjar slakrofann virtist ekki liðugur og átti það til að standa á sér yst í hreyfisviðinu. Þá segir að ekki eigi að vera unnt að slaka út af spili ef slaki kemur á vírinn. Armurinn sem virki slakrofann virðist hafa staðið á sér og því ekki stöðvað spilið þegar slaki kom á vírinn. Nokkurt átak muni hafa komið á arminn við átökin þegar lyftan festist og sé það hugsanleg skýring.

Í umræddri skýrslu segir og að þess hafi einnig sést merki að lyftan hefði einhvern tíma keyrt upp undir bita, sem öryggisbúnaður á hæð og slakrofi festast í. Hafi sá biti verið boginn, en óljóst sé hvort það sé afleiðing þess að lyftan hefði keyrt upp undir eða hvort það hafi verið gert sem liður í viðgerð á henni. Í bréfi til lögmanns stefnda í tilefni þess að spurt hafði verið um orsakir þess að slakrofi stóð á sér, bendir vinnueftirlitið á þetta sem hugsanlega skýringu auk þeirrar skýringar, sem það hafði áður talið koma til greina. Hér er og að líta til fyrrnefnds bréfs Eiríks Karlssonar, þar sem segir að átak lyftuspilsins ætti ekki að valda skaða á armi slakrofans.

Að framansögðu virtu verður að telja fram komnar líkur fyrir því að slakrofinn hafi ekki verið fyllilega í lagi fyrir slysið. Verður að leggja sönnunarbyrði fyrir hinu gagnstæða á áfrýjanda, en honum þykir ekki hafa tekist sú sönnun eins og málið horfir við. Er þá meðal annars horft til þess að gildandi reglur um eftirlit og viðhald lyftunnar höfðu ekki verið virtar fyrir slysið, eins og lýst er í héraðsdómi. Einnig hafði komið fram ábending frá vinnueftirlitinu 23. nóvember 1995 um að virkni slakrofa skyldi tryggð. Verður að leggja til grundvallar að undanfarandi bilun í umræddum öryggisbúnaði, sem áfrýjandi beri ábyrgð á, hafi verið frumorsök slyss stefnda. Samkvæmt því verður áfrýjandi talinn skaðabótaskyldur.

Ekki verður á því byggt að stefndi hafi verið fastur eftirlitsmaður eða viðhaldsaðili umræddrar lyftu. Líta verður á hinn bóginn til þess að hann hafði til að bera fagþekkingu og reynslu á þessu sviði og hafði áður unnið við lyftuna. Hann var kallaður á vettvang vegna þess að ólag var komið á hana og mátti honum vera fullljóst að honum kynni að vera hætta búin ef hann stigi fæti inn í hana, meðal annars af þeirri ástæðu að slaki kynni að vera á spilvír hennar. Verður að telja að með því að gera það við þessar aðstæður hafi hann átt verulegan þátt í því að slysið varð. Er því rétt að hann beri ábyrgð á slysinu að hálfu á móti vinnuveitanda sínum.

Stefndi lagði fram leiðrétta kröfugerð fyrir Hæstarétt og er ekki tölulegur ágreiningur um hana. Samkvæmt framansögðu verður áfrýjandi dæmdur til að greiða stefnda 5.376.812 krónur með vöxtum eins og nánar greinir í dómsorði.

Dæma ber áfrýjanda til að greiða stefnda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði segir.

                                               D ó m s o r ð:

Áfrýjandi, Kaupfélag Eyfirðinga, greiði stefnda, Birni Þorkelssyni, 5.376.812 krónur með 2% ársvöxtum frá 6. júní 1996 til 7. desember 1999, en síðan með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 til greiðsludags.

Áfrýjandi greiði stefnda samtals 900.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 3. ágúst 2000.

Mál þetta, sem dómtekið var 23. júní sl. eftir endurflutning en aðalflutningur fór fram 26. apríl sl., hefur Guðni Á. Haraldsson hrl. höfðað með stefnu útgefinni í Reykjavík 29. mars 1999 og birtri 6. apríl s.á. fyrir hönd Björns Þorkelssonar, rafvirkjameistara kt. 160733-3229, Lyngholti 9, Akureyri á hendur Kaupfélagi Eyfirðinga, kt. 680169-2769, Hafnarstræti 91-95, Akureyri og Vátryggingafélagi Íslands h.f., kt. 690689-2009, Ármúla 3 Reykjavík, til réttargæslu. 

Endanlegar dómkröfur stefnanda eru að stefndi Kaupfélag Eyfirðinga verði dæmt til að greiða stefnanda kr. 12.386.891 með 2% ársvöxtum frá 6. júní 1996 til 2. apríl 1997, en frá þeim degi af kr. 12.145.611 til 17. nóvember 1999, en frá þeim degi af kr. 10.753.624 til 7. desember 1999, en frá þeim degi með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25, 1987 af sömu fjárhæð til greiðsludags. 

Þá er þess krafist að stefndi, Kaupfélag Eyfirðinga, verði dæmt til að greiða stefnanda málskostnað samkvæmt málskostnaðarreikningi samkvæmt gjaldskrá Löggarðs ehf., alls kr. 2.257.743.

Á hendur réttargæslustefnda, Vátryggingarfélagi Íslands h.f. eru engar kröfur gerðar. 

Dómkröfur stefnda, Kaupfélags Eyfirðinga, eru þær aðallega að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og tildæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda að mati dómsins, en til vara að sök verði skipt í málinu og stefnukröfur lækkaðar og málskostnaður felldur niður.

Af hálfu réttargæslustefnda eru ekki gerðar sjálfstæðar dómkröfur.

Lögmaður stefnanda er Guðni Á. Haraldsson hrl. og lögmaður stefnda Hákon Árnason hrl., en við endurflutning flutti málið fyrir stefnda Árni Pálsson hrl.

Stefnandi lýsir málsatavikum svo í stefnu að stefnandi muni hafa starfað sem rafvirki hjá stefnda, Kaupfélagi Eyfirðinga, KEA, óslitið frá árinu 1970.  Aðalstarf hans fólst í viðgerðum á rafmagni og raflögnum.  Í matvöruverslun KEA, Hrísalundi á Akureyri, var 1000 kg. vörulyfta af gerðinni DEMAG - Seilzug sett upp af Vélsmiðjunni Odda árið 1977.  Lyftan var aðallega notuð til þess að flytja vörur milli hæða.  Við fermingu og affermingu hennar var því nauðsynlegt að stíga inn í lyftuna, en hún hafi ekki verið ætluð til fólksflutninga. 

Þann 6. júní 1996 var Bára Sigþórsdóttir ræstitæknir hjá KEA við störf.  Setti hún þvottavél og ræstivagn inn í lyftuna þar sem hún var stödd í kjallara vöruhúss KEA Hrísalundi og sendi síðan lyftuna upp á jarðhæð hússins.  Er hún ætlaði að taka á móti lyftunni heyrði hún skruðninga og gat ekki opnað lyftudyrnar.  Eftir að hafa borið málið undir Óskar Óskarsson, starfsmann KEA Hrísalundi, kallaði hún lyftuna niður aftur.  Við það heyrðist enn hávaði og sló þá Óskar út útsláttarrofa lyftunnar.  Að sögn Óskars mun hann hafa áttað sig á því að lyftumótorinn hafi farið af stað án þess að lyftan hafi farið niður.  Þannig hafi mótorinn gengið og slakað út vírnum.  Bára mun hafa ýtt á stopptakkann á lyftunni án þess að hann virkaði.  Óskar mun hafa kallað á stefnanda og beðið hann um að koma á staðinn.  Var honum greint frá því sem gerst hafði.  Hann mun hafa losað skrúfu á hurð lyftunnar og opnað hana, þá hafi komið í ljós að 5-10 cm. vantaði uppá að lyftan næði fullri hæð.  Lyftan hafi verið það ofarlega í dyrunum að ekki var hægt að sjá hvernig staðan á vírunum var né hvort hún væri krækt í krók sem halda á henni fastri.  Þrátt fyrir kröfu Vinnueftirlits ríkisins       -VER- að aðgangur að lyftuhúsinu yrði lagfærður hafði því ekki verið sinnt og því var ekki stigi að lyftuhúsinu eins og áskilið er í reglugerð.  Er litið var inn í lyftuna kom í ljós að tvö hjól ræstivagnsins höfðu orðið milli veggs og lyftu og er talið að það hafi valdið því að lyftan komst ekki alla leið og að mótor hennar stöðvaðist.  Ræstivagninn var í þeim enda lyftunnar sem var fjær hurðinni og því ekki að hægt að ná taki á honum án þess að stíga inn í lyftuna.  Að sögn stefnanda teygði hann sig inn í lyftuna til þess að skoða málið betur og kveðst þá trúlega hafa snert lyftugólfið með öðrum fæti.  Skipti þá engum togum að lyftan féll þá niður með hann innan borðs og klemmdist þá vinstri fótur hans milli veggjar lyftuganganna og þaks lyftunnar með þeim afleiðingum að hann fótbrotnaði. 

Vinnueftirlitið var kallað á staðinn og við skoðun þess kom í ljós að orsök slyssins var sú að lyftuspilið mun hafa slakað út vír eftir að lyftan festist og að svokallaður slakrofi sem kom í veg fyrir að slíkt geti gerst hafi staðið á sér. 

Í skýrslu VER kom fram að á árinu 1995, sbr. dskj. nr. 3, höfðu verið gerðar kröfur um lagfæringu á aðgengi að vélbúnaði lyftunnar og að virkni slakrofans skyldi tryggð. 

Stefnandi hlaut af slysi þessu opið beinbrot og hefur verið undir læknishendi að mestu síðan.

Samkvæmt matsgerð Ragnars Jónssonar, læknis og sérfræðings í bæklunarskurðlækningum og Stefáns Carlssonar læknis og sérfræðings í bæklunarskurðlækningum, dagsettri í Reykjavík 7. nóvember 1999, sbr. dskj. nr. 23 var tímabundið atvinnutjón, (óvinnufærni) samkvæmt 2. gr. skaðabótalaga nr. 50, 1993, frá 06.06.1996 til 26.07.1999 100%. 

Þjáningabætur samkvæmt 3. gr. sömu laga:

Telja þeir stefnanda hafa verið veikan í skilningi skaðabótalaga frá 06.06.1996 til 26.07.1999, þar af rúmliggjandi frá 06.06.1996 til 02.07.1996 og 14.05.1998 til 18.05.1998.  Varanlega miska samkvæmt 4. gr. skaðabótalaga meta þeir 40% og varanlega örorku samkvæmt 5. gr. skaðabótalaga 100%.

Á grundvelli þessa mats sundurliðar stefnandi dómkröfur sínar þannig, sbr. dskj. nr. 27 og 31. 

1. Tímabundið, tekjutap kr. 3.344.926, stefnandi fékk laun frá KEA eftir slysið út desember 1996.  Janúar 1997 fékk hann greitt orlof sem jafngilti eins mánaðar launum.  Réttargæslustefndi hefur greitt inn á tímabundið tekjutap stefnanda, sbr. yfirlit á dskj. nr. 26 kr. 3.174.343.  Laun stefnanda á þessu tímabili voru kr. 210.299 á mánuði.  Kr. 210.299 x 31 mánuður = kr. 6.519.269-3.174.343= kr. 3.344.926, sem er tímabundið tekjutap stefnanda. 

2.  Til frádráttar koma greiddir dagpeningar frá Tryggingastofnun ríkisins og réttargæslustefnda - kr. 241.280.

3.  Þjáningabætur.  Samkvæmt matsgjörðinni telst stefnandi hafa verið veikur í skilningi 3. gr. skaðabótalaga frá 6. júní 1996 til 26. júlí 1999, þar af rúmliggjandi 06.06.1996 til 02.07.1996 og aftur 14.05.1998 til 18.05.1998, sem gera kr. 1.510 x  í 30 daga eða kr. 45.300 og kr. 810 í 1094 daga sem gera kr. 886.140, eða samtals þjáningabætur kr. 931.440.

4.  Varanlegur miski.  Samkvæmt matsgerðinni telst varanlegur miski 40%.  Stefnandi er fæddur 16. júlí 1933 var hann því 62 ára á slysdegi, samkvæmt 4. gr. skaðabótalaga á slysadegi dragast 15% frá bótum hans samkvæmt þessum lið og sundurliðast útreiknurinn þanni:  kr. 4.652.000 x 40% = 1.860.800-15% sem gera endanlega kröfu kr. 1.581.680.

5.  Bætur fyrir varanlega örorku.  Laun stefnanda frá júní 1995 til og með maí 1996 námu kr. 2.515.408, lífeyrisframlag 6% af þeirri fjárhæð kr. 150.924, þannig eru viðmiðunarlaun til útreikningsbóta fyrir varanlega örorku kr. 2.666.332.  Matsgerð matsmanna gerir ráð fyrir að örorka stefnanda sé 100% samkvæmt því nemur varanleg örorka kr. 2.666.332 x 7,5 = kr. 19.997.490-68% vegna aldursfrádráttar samkvæmt 9. skaðabótalaga sem gera kr. 6.399.196 í kröfugerð stefnanda á dskj. nr. 27, en í endanlegri kröfugerð á dskj. nr. 31 kr. 6.378.845.

6.  Annað tjón.  Líkur megi að því leiða slysið hafi leitt af sér annað tjón, en tjónþoli hefur þurft að gangast undir aðgerðir og þannig ekki verið ferðafær svo mánuðum skipti.  Með vísan til 1. gr. skaðabótalaga er gerð krafa um annað tjón að fjárhæð kr. 150.000.

7.  Greitt úr samningsbundinni slysatryggingu launþega sem til frádráttar kemur  kr. 1.391.987 eða samtals kr. 10.753.624. 

Miðað er við að dagpeningar frá Tryggingarstofnun ríkisins og réttargæslustefnda hafi greiðst 2. apríl 1997.  Greiðsla samkvæmt samningsbundinni slysatryggingu launþega var greidd 17. nóvember 1999.  Stefndi hafi aðeins viljað viðurkenna að honum beri ábyrgð á tjóni stefnanda til hálfs og hann og beri að sama skapi tjón sitt að öðru leyti.  Hafi réttargæslustefndi sem vátryggingarfélag stefnda greitt tímabundið tekjutjón stefnanda til hálfs.

 

Málsástæður og lagarök stefnanda.

Stefnandi byggir á því í fyrsta lagi að stefndi berið ábyrgð á tjóni hans þar sem að lyftan hafi ekki verið í lögmætu ástandi, þannig megi rekja orsök slyssins til þess að hún var úr lagi gengin fyrir slysið og hafði ekki fengið fullnægjandi eftirlit eða fyrirbyggjandi viðhald, slíkt sé á ábyrgð eiganda, sbr. 1. tl. 6. gr. reglugerðar nr. 54, 1995, sbr. eftirfarandi: 

Við skoðun Vinnueftirlits ríkisins á lyftunni þann 23. nóvember 1995, sbr. dskj. nr. 3, er gerð sú krafa að bæta þurfi aðgengi að vélbúnaði lyftunnar.  Skyldi þetta gert fyrir 1. janúar 1996.  Samkvæmt bréfi Vinnueftirlitsins dagsett 15. september 1997, sbr. dskj. nr. 13 hafði þetta ekki verið lagfært er slysið varð.  Slíkt sé brot á 3. mgr. 12. gr. reglugerðar nr. 203, 1972 um búnað rekstur og eftirlit með lyftum og lyftubúnaði en þessi reglugerð gildi um lyftuna á slysdegi.  Ef slíkur búnaður hefði verið til staðar hefði það auðveldað skoðun og hugsanlega getað komið í veg fyrir slysið. 

Þann 30. desember 1993, sbr. dskj. nr. 13, er gerð sú krafa að „skipta skuli um línu í læsingum uppi“ eins og það sé orðað.  Ekki er að sjá að þetta hafi verið lagfært, enda komi það fram í lögregluskýrslu Gunnars J. Jóhannssonar frá 12. júní 1996 að vír lyftunnar hafi verið þvældur að einhverju leyti. 

Af gögnum málsins megi ráða að stöðvunarrofi hafi ekki virkað, sbr. dskj. nr. 9, slíkt sé brot á 20. gr. reglugerðar nr. 203, 1972. 

Við lyftuskoðun Vinnueftirlitsins þann 23. nóvember 1995 er gerð athugasemd þess efnis að virkni öryggis/fallöryggis við efri hæð og virkni slakrofa skuli tryggð. 

Í umsögn Vinnueftirlitsins um slysið segi um slakrofann, sbr. dskj. nr. 9:

„Slakrofi virkaði eðlilega eftir slysið að öðru leyti en því að armurinn sem virkjar slakrofann virðist ekki liðugur, átti það til að standa á sér yst í hreyfisviðinu.“

Síðan segi:  „Einnig voru merki þess að lyftan hafði einhvern tíma keyrt upp undir bita þann sem öryggisbúnaður á hæð og slakrofi festast í.  Biti sá var boginn en óljóst hvort það er afleiðing af því að lyftan keyrir upp undir eða hvort það hefur verið gert sem liður í viðgerð á lyftunni og einnig óljóst hvenær slíkt hafi gerst eða verið framkvæmt.“

Það sem gerst hafa við það að slakrofinn virkar ekki er að spilið slakar út vírnum eftir að lyftan er kölluð niður.  Lyftan sjálf hreyfist hins vegar ekki.  Um þetta segir svo í umsögninni á dskj. nr. 9:  „Verulega mun þó hafa verið slakað út af spilinu eftir að lyftan festist, án þess að lyftan sigi niður á við, vegna þess að hún var fast skorðuð í lyftugöngunum.  Ekki á að vera mögulegt að slaka út af spili án þess að lyftan sígi niður, því að á lyftubúnaðinum er slakrofi, sem á að stöðva spilið ef slaki kemur á vírinn.  Slakrofinn (armurinn sem virkjar slakrofann) virðist hafa staðið á sér og því ekki stöðvað spilið þegar slaki kom á vírinn.” 

Í lögregluskýrslu Gunnars J. Jóhannssonar rannsóknarmanns frá 12. júní 1996, sbr. dskj. nr. 7, segi um þetta:  „Við athugun reyndist búnaður rofa þessa orðinn það stirður að hann hefur ekki virkað sem skyldi og því ekki slegið út rafmagninu þó að vírinn slaknaði.” 

Í úttekt ÍSELEKT ehf., dags. 9. október 1997, sbr. dskj. nr. 15 sem gerð var að beiðni réttargæslustefnda segir svo um orsök slyssins:  „Niðurstaða mín er eftir að hafa lesið málsskjöl að ætla megi að eftirlit og fyrirbyggjandi viðhaldi hafi ekki verið nægilega sinnt og sé það frumorsök slyssins.”  Undir skjal þetta ritar Eiríkur Karlsson. 

Það að hlíta ekki fyrirmælum Vinnueftirlitsins um lagfæringu slakrofans sé brot á 42. gr. laga nr. 46, 1980. 

Þannig megi það ljóst vera að öryggisbúnaði lyftunnar hafi verið ábótavant.  Eftirlit og fyrirbyggjandi viðhald hafi ekki verið í lagi, enda hafi stefndi ekki ráðið til sín eftirlitsmanns né tilkynnt hann til Vinnueftirlits ríkisins eins og beri að gera.  Komi þetta fram í bréfi Vinnueftirlitsins, dags. 12. janúar 2000, sbr. dskj. nr. 29.  Hafi stefndi þar með brotið 3. mgr. 32. gr. reglugerðar nr. 203, 1972 og 2. tl. 6. gr. reglugerðar nr. 54, 1995 um skráningu, eftirlit og umsjón með lyftum og lyftubúnaði til fólks og vöruflutninga.  Enginn slíkur eftirlitsmaður hafi verið til staðar né fór fram viðhald og eftirlit á 30 daga fresti eins og mælt er fyrir í 3. tl. 33. gr. reglugerðar nr. 203, 1972. 

Þá hafi vantað á lyftuna fallbremsu og hraðabremsu skv. lyftuskoðun Vinnueftirlits ríkisins er fram fór 20. júní 1996, sbr. dskj. nr. 6. 

Þá hafi engin viðhaldsbók verið til um viðhald á lyftunni eins og skylda sé til skv. viðkomandi reglugerðum, þannig að ekki sé hægt að fullvissa sig um að viðhaldi hafi verið sinnt.  Sönnunarbyrði um slíkt hvíli því á stefnda. 

Þá sé vert að hafa það í huga að lyfta þessi hafi nú verið fjarlægð og ný lyfta sett í staðinn.  Segi það allt sem segja þurfi.  Þannig er á því byggt að öryggisbúnaði lyftunnar hafi verið ábótavant og stefndi beri ábyrgð, sbr. sjónarmið er fram komi í dómi Hæstaréttar 1997, bls. 3649. 

Í öðru lagi er á því byggt að starfsmenn stefnda hafi á gáleysislegan hátt valdið því að slysið varð.  Þannig hafi sá starfsmaður er hugðist flytja ræstitæki upp á jarðhæð hússins ekki gætt nægilegrar varúðar og það aftur orðið til þess að lyftan skekktist í lyftugöngunum.  Athafnir hans og samstarfsmanns eftir að lyftan festist hafi síðan leitt til mikillar hættu.  Það hafi verið óvarlegt af þeim að eiga við lyftuna eftir að þeim varð ljóst að eitthvað hafði farið úrskeiðis.  Þau hafi kallað lyftuna niður eftir að hún varð föst og þannig valdið þeim slaka sem varð á lyftuvírnum.  Á þessu beri stefndi ábyrgð skv. almennum reglum um húsbóndaábyrgð. 

Stefnandi vísar til almennu sakarreglunnar svo og til þeirrar reglu að eigandi tækja beri ábyrgð á tjóni sem hlýst af vanbúnaði þeirra og viðhaldsleysi.  Að öðru leyti er vitnað til laga nr. 46, 1980 um aðbúnað og hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, einkum 13., 41. og 42. gr.  Einnig til reglugerðar nr. 203, 1972 um búnað, rekstur og eftirlit með lyftum og lyftubúnaði með síðari breytingum, sbr. reglugerð nr. 474, 1975 og 64, 1988 og reglugerðar nr. 54, 1995 um sama.  Um rétt stefnanda til skaðabóta er vitnað til skaðabótalaga nr. 50, 1993 svo og almennu sakarreglunnar. 

Stefndi rekur málsatvik svo, að fimmtudagskvöldið 6. júní 1996 hafi Bára Sigþórsdóttir ræstitæknir verið við skúringar í kjörmarkaði KEA við Hrísalund á Akureyri.  Að loknum skúringum í kjallara hússins hugðist hún senda skúringatækin, þvottavél og skúringavagn, upp á næstu hæð með vörulyftu hússins.  Setti hún fyrst þvottavélina inn í lyftuna og síðan skúringavagninn og sendi lyftuna síðan upp.  Þegar lyftan fór af stað heyrði Bára einhverja skruðninga sem hún áttaði sig ekki á af hverju stöfuðu.  Eftir að hafa snúist aðeins í kjallaranum hafi Bára farið upp á hæðina fyrir ofan.  Reyndist lyftan þá stopp og ekki hægt að opna hurðina, vantaði um 10 cm upp á að lyftan væri komin alla leið upp á hæðina í venjulega stöðu.  Óskar A. Óskarsson, starfsmaður í kjörmarkaðinum, sem var að ljúka störfum í versluninni þarna á hæðinni, heyrði einnig skruðninga í lyftunni og tók eftir að dró niður í mótornum uppi á lyftuhúsinu rétt áður en hann stöðvaðist. 

Umrædd vörulyfta er gerð fyrir 1000 kg þunga og var sett upp af Vélsmiðjunni Odda 1977.  Var lyftan notuð til að flytja vörur úr kjallara upp á verslunarhæðina næst fyrir ofan og hafi eingöngu verið ætluð til vöruflutninga.  Lyftubúnaður hennar hafi verið rafmótorknúið spil með lyftivír, sem festur var í lyftuna að ofan.  Dragi og slakaði spilið lyftunni í samræmi við boð með venjulegumþrýstirofum við utanverðar lyftudyr, þ.e. upp-, niður- og stopp-rofum.  Þar sem um vörulyftu var að ræða var hún ekki búin fallhemlum eða gripbúnaði, enda óskylt sbr. 1. tl. a 26. gr. reglugerðar nr. 203, 1972.  Slitni eða slakni vír gat lyftan því fallið niður, nema hún væri í réttri hæð og lyftudyrnar hafi verið opnaðar, en þá læsti sérstakur búnaður lyftustólnum föstum, sbr. dskj. nr. 9 og 15 svo og áður tilvitnað reglugerðarákvæði.  Hins vegar var lyftan búin slakrofa í lofti lyftuhússins, sem ætlað var að stöðva spilið ef slaki kæmi á lyftuvírinn. 

Þegar Bára gat ekki opnað lyftudyrnar spurði hún Óskar hvort hún ætti að prófa að senda lyftuna aftur niður.  Svaraði Óskar því til að það hlyti að vera í lagi að prófa.  Ýtti Bára á “niður-“rofann á lyftunni og fór lyftumótorinn af stað en lyftan ekki.  Ýtti Bára síðan á stopprofann, en hann virkaði ekki og gekk mótorinn áfram.  Áttaði Óskar sig á því að mótorinn slakaði út vírnum á spilinu og hljóp hann niður í kjallara að rafmagnstöflu og tók rafmagnið af lyftunni.  Telja þau Bára að mótorinn hafi þá verið búinn að ganga í 1-2 mínútur. 

Hringdi Óskar síðan í stefnanda, en stefnandi hafði verið þjónustuaðili lyftunnar.  Hafði stefnandi starfað sem rafvirki hjá stefnda síðan 1970 og fólst aðalstarf hans í viðgerðum á raflögnum og raftengdum búnaði hjá stefnda.  Hafði stefnandi oft áður unnið við vörulyftuna að viðhaldi og viðgerðum.  Kom stefnandi fljótlega á staðinn og lýsti Óskar því sem skeð hafði fyrir honum og sagði honum að mótorinn hefði gengið einhverja stund og slakað út vírnum.  Þar sem ekki var hægt að opna lyftudyrnar skrúfaði stefnandi laust læsingajárnið á hurðinni og opnaði lyftudyrnar þannig.  Sagði stefnandi að Óskar hefði bent sér á að hjól eða fótur á þvottavagninum hefði klemmst.  Kvaðst stefnandi hafa teygt sig inn í lyftuna til að kíkja betur á þetta og hafi hann þá trúlega snert lyftugólfið með öðrum fætinum.  Hafi engum togum skipt að lyftan falli eldsnöggt niður og hann með.  Var Óskar sjónarvottur að slysinu.  Kvað hann að stefnandi hafi sagt við sig að þeir yrðu að ná þessu dóti út og hafi stefnandi stigið inn í lyftuna í sömu svifum.  Hafi þá engum togum skipt að lyftan hafi um leið fallið niður og stefnandi með henni.  Klemmdist stefnandi með vinstri fót milli veggjar lyftugangs og lofts lyftunnar og hékk þar fastur inni í lyftunni.  Lögreglan og vinnueftirlitið hafi verið kvödd á vettvang og stefnanda náð út úr lyftunni og komið á slysadeild FSA.  Tók lögreglan ljósmyndir af vettvangi og gerði frumskýrslur og skömmu síðar framburðarskýrslur af þeim Óskari, Báru og stefnanda, sbr. dskj. nr. 7 og 8. 

Í umsögn Vinnueftirlitsins um slysið segi að orsök þess megi rekja til þess að lyftan skekktist og festist við það að eitt hjól ræstivagnsins skorðaðist milli gólfs lyftunnar og veggs lyftuganga.  Verulega hafi slaknað út af spilinu eftir að lyftan festist, en slakrofinn virðist hafa staðið á sér og ekki stöðvað spilið þegar slaki kom á vírinn.  Nokkurt átak muni hafa komið á arminn sem virkjar slakrofann við átökin þegar lyftan festist og sé það möguleg skýring.  Við prófun eftir slysið hafi rofinn virkað að öðru leyti en því að armurinn virtist ekki liðugur og átti til að standa á sér yst í hreyfisviðinu.  Hafi engar athugasemdir verið gerðar í umsögn Vinnueftirlitsins sem bent gætu til þess að einhverju hefði verið áfátt um öryggisbúnað lyftunnar áður en hún festist og það valdi slysi stefnanda, sbr. dskj. nr. 9.

Stefnandi byggi kröfur sínar á því að lyftan hafi ekki verið í lögmætu ástandi fyrir slysið og ekki fengið nægjanlegt eftirlit eða fyrirbyggjandi viðhald.  Megi rekja slysið til þess.  Hafi þurft að bæta aðgengi að vélbúnaði lyftunnar, sbr. dskj. nr. 3, skipta hafi þurft um línu í læsingu, sbr. dskj. nr. 13, stöðvunarrofi hafi ekki virkað og ekki heldur slakrofi, sbr. dskj. nr. 9.  Þá hafi vantað fallbremsu á lyftuna og hraðabremsu, sbr. dskj. nr. 6.

Í annan stað byggi stefnandi kröfur sínar á því að starfsmenn stefnda þau Óskar og Bára hafi valdið slysi stefnanda með gáleysi sínu, en þau hafi kallað lyftuna niður eftir að hún festist og þannig framkallað slakann á lyftuvírnum. 

Af hálfu stefnda er öllum kröfum og málsástæðum stefnanda mótmælt.  Hefur bótaskyldu verið hafnað og telur stefndi slysið alfarið að rekja til eigin sakar stefnanda, sbr. dskj. nr. 16.  Eigi að síður bauð réttargæslustefndi til samkomulags að bæta tjón stefnanda að hluta og hefur greitt upp í það. 

Stefnandi, sem vill ekki bera tjón sitt að neinum hluta sjálfur hefur hins vegar hafnað samningum um bótauppgjör á grundvelli sakarskiptingar.  Komi því í hlut dómsins að skera að öllu leyti úr um sök stefnanda. 

Málsástæður og lagarök. 

Sýknukrafa stefnda er á því byggð að hann beri ekki að lögum skaðabótaábyrgð á slysi stefnanda, sem rekja megi alfarið til eigin sakar hans sjálfs. 

Í fyrsta lagi sé ósannað að vörulyftan hafi verið í ólögmætu ástandi fyrir óhappið eða rekja megi slysið til slíks.  Sé ósannað að orsakasamband sé milli slyssins og aðgengis að vélbúnaði lyftunnar, línu í læsingu og óvirkni stöðvunarrofa þá er lyftan var orðin föst.  Öll þessi atriði skiptu engu um það að lyftan féll niður með stefnanda.  Sama gildi um yfirhraðavörn.  Hins vegar hafi ekki verið skylt að búa lyftuna fallhemlum, sbr. 9. og 11. gr. reglugerðar nr. 54, 1995, enda um gamla vörulyftu að ræða.  Þá hafi slakrofi lyftunnar ekki verið bilaður fyrir óhappið heldur hafi átök á arm slakrofans valdið því þegar lyftan festist að rofinn virkaði ekki, sbr. umsögn Vinnueftirlitsins á dskj. nr. 9.  Verði þannig ekki séð að ólögmætur eða saknæmur vanbúnaður lyftunnar hafi valdið slysi stefnanda.  Hafi svo verið beri stefnandi hins vegar sjálfur jafnframt á því alla ábyrgð auk þess sem hann olli sjálfur slysi sínu með stórfelldu gáleysi þegar hann kom á slysstað.  Var stefnandi þjónustuaðili lyftunnar, sbr. umsögn Vinnueftirlitsins á dskj. nr. 9 og bar sem slíkur ábyrgð á því gangvart stefnda að lyftan og búnaður hennar væri í lagi og lögmætu ástandi á hverjum tíma.  Hafi allt eftirlit og viðhald lyftunnar verið í höndum stefnanda, sem hafi annast það um árabil ásamt viðhaldi og viðgerðum á raflögnum og raftengdum tækjabúnaði hjá stefnda.  Hafi stefnandi því ekki við aðra að sakast en sjálfan sig ef slysið er að rekja til ólögmæts ástands lyftunnar fyrir slysið eða skorts á eftirliti eða fyrirbyggjandi viðhaldi á henni. 

Í annan stað er sýknukrafan byggð á því að stefnandi hafi sjálfur valdið slysi sínu af stórfelldu gáleysi.  Stefnandi hafi verið 62 ára að aldri og rafvirkjameistari að mennt.  Hafði hann oft áður unnið við lyftuna að viðhaldi hennar og viðgerðum og hafi því gjörþekkt hana og allan búnað hennar.  Hlaut hann að vita er hann kom á staðinn að lyftan var ekki búin fallhemlum eða gripbúnaði og gat hvenær sem var fallið niður ef slaki var á lyftuvírnum þar sem lyftan hafði ekki stöðvast í réttri hæð.  Hafi Óskar A. Óskarsson sagt stefnandi hvað skeð hafði með lyftuna er stefnandi kom á vettvang og að mótorinn hafi gengið einhverja stund og slakað út vírnum, sbr. dskj. nr. 7, bls. 5.  Jafnframt hafi stefnandi séð er hann skrúfaði lyftuhurðina lausa að lyftan var ekki í réttri hæð og vantaði nokkra sentimetra upp á, sbr. dskj. nr. 7, bls. 8.  Hafi stefnanda því verið mæta vel ljóst að lyftan gat fallið niður hvenær sem var.  Eigi að síður hafi hann stigið inn í lyftuna og Óskar A. Óskarsson verið sjónarvottur að því.  Hafi þetta verið stórkostlega gálaust af stefnanda eins og á stóð.  Hafi þetta gálausa atferli hans valdið slysinu og ekkert annað.  Hefði stefnandi og aldrei slasast eins og hann gerði nema vegna þess að hann steig inn í lyftuna.  Hefði hann áður átt að strengja lyftuvírinn en þá hefði ekkert slys orðið. 

Loks er því sérstaklega mótmælt að starfsmenn stefnda þau Óskar og Bára hafi með saknæmum hætti valdið slysi stefnanda eins og hann haldi fram.  Hafi það verið eins og hver önnur óhappatilviljun að hjól þvottavagnsins festust milli lyftugólfs og veggjar lyftuganga og hafi það í sjálfu sér ekki valdið neinu slysi.  Að sama skapi olli það ekki slysinu sem slíkt að slaki hafði myndast á lyftuvírnum, enda hafi stefnandi vitað um slakann þar sem Óskar hafði greint stefnanda frá honum.  Verði Óskari og Báru heldur ekki metið til sakar að hafa reynt að kalla lyftuna niður eftir að hún gekk ekki alla leið upp, enda hvorugt þeirra fróð um lyftur og búnað þeirra.  Að þessu virtu megi ljóst vera að ekki sé grundvöllur til bótaábyrgðar stefnda á slysi stefnanda. 

Verði ekki fallist á sýknukröfuna er krafist sakarskiptingar og á því byggt að stefnandi eigi sjálfur megin sök á slysi sínu.  Hafi stefnanda borið að gera ráðstafanir til þess að lyftan gæti ekki fallið niður áður en hann steig inn í hana, teygði sig þar inn eða tyllti þar niður fæti.  Hafi verið nærtækast að byrja á því að huga að mótornum ofan á lyftuhúsinu og strekkja aftur á lyftuvírunum áður en farið var að teygja sig inn eða stíga inn í lyftuna.  Það gerði stefnandi ekki þó hann mætti vita betur og eigi því í öllu falli höfuðsök á slysi sínu hvað sem öðru líði. 

Hvað varðar stefnufjárhæðina þá telur stefndi vafasamt að bæta eigi tímabundið örorkutjón stefnanda sem sé metin 100 % öryrki þar sem alls óvíst sé að hann hefði störf aftur.  Sé nú þegar búið að greiða tímabundið örorkutjón hans að hálfu og athugandi að beita lækkunarheimildum skaðabótalaga. 

Verða nú raktir framburðir vitna og aðila og önnur gögn málsins eftir því sem tilefni þykir. 

Á dskj. nr. 7 er skýrsla Rannsóknardeildar lögreglunnar á Akureyri um slysið.  Segir þar að fimmtudaginn 6. júní 1996 kl. 20:28 hafi verið hringt í neyðarsíma slökkviliðsins og tilkynnt um að maður væri klemmdur fastur í lyftu í verslun KEA í Hrísalundi.  Kom lögreglan á staðinn stuttu á eftir sjúkrabifreið.  Niðri í kjallara í vörulyftu verslunarinnar var stefnandi og var vinstri fótur hann fastur á milli veggjar og lyftu í lofti hennar.  Þar héldu undir hann Óskar Óskarsson og slökkviliðsmaður.  Á staðinn komu tveir starfsmenn frá Vinnueftirliti ríkisins og sá Gunnar J. Jóhannsson rannsóknarlögreglumaður um rannsókn málsins. 

Þann 12. júní 1996 gerir Gunnar J. Jóhannsson rannsóknarmaður skýrslu um vinnuslysið.  Kvaðst hann hafa verið kvaddur á staðinn á slysadegi kl. 20:35 og verið kominn þangað kl. 20:45 og hafi þá verið að enda við að losa stefnanda úr lyftunni, en klippa hafi þurft í sundur prófíljárn í lyftunni sjálfri til að ná honum lausum, en hann hafði klemmst á vinstra fæti og var greinilega brotinn fyrir ofan ökklann.  Segir að lyftan sé vörulyfta sem gangi milli kjallara og jarðhæðar í versluninni í Hrísalundi og knúin með 2,5 tonna rafmótor og sé gerð fyrir 1 tonns þunga.  Stærð lyftunnar er sem hér segir:  Lyftugöngin 156 cm á breidd og 175 cm á lengd (dýpt) og eru þau steinsteypt.  Lyftan sjálf er 127 cm á breidd, 191 cm á hæð og 169 cm á lengd (dýpt).  Hurðir lyftunnar eru 128 cm á breidd og 191 cm á hæð.  Lyftan er smíðuð úr prófíljárni (4x4 cm) og vinkiljárnum, klædd að innan með blikki og opin í báða enda, þ.e.a.s. hliðar sem snúa að dyrunum.  Á staðinn komu Helgi Haraldsson og Sigþór Ingólfsson frá Vinnueftirliti ríkisins og var lyftan skoðuð ásamt þeim þarna um kvöldið frá kl. 21:00 til 23:00.  Einnig var farið á staðinn 7. júní 1996 frá kl. 09:00 til 10:30 og framkvæmdar frekari skoðanir og þá hafi einnig komið á staðinn Ingvi Björnsson, rafvirki hjá KEA, en hann hafi annast viðhald hjá fyrirtækinu m.a. á þessari lyftu.  Við athugun kom í ljós að stopp rofi við lyftudyr virkaði ekki.  Einnig kom í ljós að tvö hjól svokallaðs skúringavagns, sem verið var að flytja í lyftunni, höfðu klemmst milli lyftugólfsins og austurveggjar lyftuganganna.  Förin voru 3,5 cm hvort með 51 cm millibili.  Passaði það við hjól skúringavagnsins og kjálka hans.  Einnig voru förin í steyptan vegginn það greinileg að greina mátti för eftir ró í vagnkjálkanum á veggnum.  Einnig mátti sjá að lyftan hafði átt eina 10 cm eftir í að komast í venjulega stöðu, þ.e.a.s. alla leiðina upp á jarðhæðina.  Megi því leiða að því mjög sterkar líkur að hjól vagnsins hafi klemmst á milli og orðið þess valdandi að lyftan gekk ekki alla leið upp og mótor hennar stöðvaðist án þess að lyftan væri komin í læsta stöðu.  Mótorinn hafi svo slakað vírnum út þegar reynt var að senda lyftuna niður á ný og ekki stöðvast fyrr en rafmagni var slegið út af honum.  Þar virðist neyðarstoppari á lyftuvírnum einnig hafa brugðist en neðst í lofti lyftuhússins er rofi sem á að slá mótornum út ef slaknar á vírnum.  Við athugun reyndist búnaður rofa þessa orðinn það stirður að hann hefur ekki virkað sem skyldi og því ekki slegið út rafmagninu þó að vírinn slaknaði.  Þegar stefnandi hefur svo stigið inn í lyftuna eftir að vera búinn að opna hana,  þá hafi þyngdarhlutfall hennar breyst þannig að hún hefur losnað og fallið niður með fyrrgreindum afleiðingum.  Einnig skoðuðu þeir mótor lyftunnar og þar mátti sjá að vírinn á honum var orðinn þvældur að einhverju leyti.  Einnig var stýring á honum fyrir vírinn brotinn, en ekki var hægt að segja um hvort það hafði skeð áður eða við átakið sem kom á mótorinn þegar skúringarvagninn klemmdist í lyftunni.  Á mótornum var álagsútsláttarrofi og var hann tekinn til frekari skoðunar og m.a. til að kanna hvort hann slái sér inn sjálfur eftir að hafa slegið út.

Á dskj. nr. 9 er umsögn Vinnueftirlits ríkisins um vinnuslys undirrituð af Helga Haraldssyni umdæmisstjóra.  Ekki verður ráðið af skjalinu hvenær umsögn þess er dagsett, en hún fjallar um margnefnt slys.  Segir að umdæmisstjórinn hafi komið á staðinn kl. 21:05 á slysdegi, hafði þá stefnandi verið fluttur á FSA með sjúkrabíl.  Á staðnum hafi verið lögregla og starfsmenn rannsóknarlögreglu.  Tildrögum er lýst þannig að verið var að flytja gólfþvottavél og ræstivagn frá kjallara og upp á jarðhæð.  Segir að lyftan sé þannig gerð að hún opnast til austurs í kjallara, en til vesturs á jarðhæð.  Samanstandi lyftan því af tveimur veggjum, gólfi og lofti, en er opin að veggjum lyftuhússins á tvo vegu.  Þegar opna átti lyftuna á jarðhæðinni reyndist það ekki mögulegt.  Starfsmenn í versluninni munu þá hafa reynt að senda lyftuna niður aftur, en það ekki gengið.  Þegar síðan hávaði frá spili lyftunnar gaf til kynna að eitthvað væri í ólagi munu starfsmenn hafa slegið út rafmagni til lyftunnar í rafmagnstöflu, en stopprofi lyftunnar mun ekki hafa virkað.  Að því búnu var stefnandi kallaður til, en hann sé þjónustuaðilji lyftunnar.  Þegar hann kom á staðinn skrúfaði hann af læsingarjárn við lyftudyr á jarðhæð.  Kom þá í ljós að lyftan var ofarlega en þó ekki í eftsu stöðu, mun hafa vantað um 5-10 cm. upp á að lyftan væri komin í rétta stöðu.  Þegar stefnandi var búinn að opna lyftuhurðina mun hann hafa stigið öðrum fæti inn í hana til að kanna aðstæður.  Við það hrapaði lyftan og klemmdist annar fótur stefnanda milli lyftuganganna og þaks lyftunnar og hann hlotið fótbrot á vinstra fæti.  Ekki voru gerðar athugasemdir við aðstæður á slysstað, þættir eins og lýsing og hitun voru í lagi miðað við eðli þeirra starfa sem þar eru unnin. 

Við athugun tækja og búnaðar kom eftirfarandi í ljós:  „Vírastýri á spili var úr lagi og vírinn hafði mislagst.  Telja má víst að það hafi gerst við átök þegar lyftan festist eða þegar reynt var að slaka henni niður eftir að hún festist.  Verulegar skemmdir voru á lyftubúnaðinum eftir slysið og björgunaraðgerð í kjölfar þess.  Slakrofi virkaði eðlilega eftir slysið að öðru leyti en því að armurinn sem virkjar slakrofann virtist ekki liðugur, átti það til að standa á sér yst í hreyfisviðinu.  Hæðarstopp á efri hæð lyftugangann virkaði sem og efra endastopp og hurðaskynjarar.  Ekki reyndist unnt að prófa neðra endastopp.  Stopprofi/stöðvunar-hnappur fyrir lyftuna á efri hæð mun ekki hafa virkað.  Greinilegt var að mikil átök höfðu átt sér stað fyrir slysið m.a. voru djúp för á vegg lyftuganganna eftir hjól ræstivagnsins.  Einnig voru merki þess að lyftan hafði einhvern tíma keyrt undir bita þann sem öryggisbúnaðar á hæð og slakrofi festast í.  Biti sá var boginn en óljóst hvort það er afleiðing af því að lyftan keyrir upp undir eða hvort það hefur verið gert sem liður í viðgerð á lyftunni og einnig óljóst hvenær slíkt hafi gerst eða verið framkvæmt. 

Orsök slyssins má rekja til þess að lyftan skekktist og festist því eitt hjól ræstivagnsins milli gólfs lyftunnar og veggs lyftuganga.  Veruleg átök munu hafa verið í gangi þegar lyftan stöðvaðist og festist.  Spilið,  2,5 tonna spil, mun hafa híft að því er talið er þar til það sló út á yfirálagsvörn.  Einhver tími mun hafa liðið frá því að yfirálagsvörnin sló út þar til farið var að huga að lyftunni og mun sá tími hafa nægt til að yfirálagsvörnin (hitastýrður bimentalrofi) komi inn aftur.  Verulega mun þó hafa verið slakað út af spilinu eftir að lyftan festist, án þess að lyftan sigi niður á við, vegna þess að hún var fastskorðuð í lyftugöngunum.  Ekki á að vera mögulegt að slaka útaf spili án þess að lyftan sigi niður, því á lyftubúnaðinum er slakrofi sem á að stöðva spilið ef slaki kemur á vírinn.  Slakrofinn (armurinn sem virkjar slakrofann) virðist hafa staðið á sér og því ekki stöðvað spilið þegar slaki kom á vírinn.  Nokkurt átak mun hafa komið á arminn sem virkar á slakrofann við átökin þegar lyftan festist og er það möguleg skýring.  Við prófun eftir slysið virkaði slakrofinn, sem og efra endastopp lyftunnar.  Þegar undirritaður kom að lyftunni eftir slysið var armurinn við slakrofann í þeirri stöðu að slakrofinn var búinn að slá út spilinu.  Búnaðar sem á að halda lyftunni í réttri stöðu á jarðhæðinni, jafnvel þó t.d. vír slitni komi ekki í veg fyrir slysið þar sem að lyftan mun ekki hafa verið komin nægilega hátt til að búnaðurinn virkaði. 

Skyldur aðilja skv. lögum nr. 46, 1980 voru skýrðar fyrir verkstjóra/for-stöðumanni og eftirfarandi fyrirmæli voru gefin:  1.  Lagfæra skal skemmdir á lyftugöngum, yfirfara öryggis- og stjórnbúnað og skipta um burðarvír.  2.  Fyllstu varúðar skal gætt við notkun og viðhald á lyftum og lyftubúnaði.“

Þann 10. júní 1996 var tekin vitnaskýrsla hjá lögreglu af Óskari Aðalgeiri Óskarssyni, starfsmanns kjörmarkaðar KEA við Hrísalund, Norðurgötu 11, Akureyri, fæddum 1956.  Þegar slysið varð kvaðst Óskar hafa verið að enda vinnu sína í Hrísalundi og verið að ganga frá.  Bára Sigþórsdóttir hafi einnig verið þarna á staðnum og verið að hefja skúringar í versluninni.  Hafi hann verið við að fara út úr dyrum á jarðhæðinni sunnan á húsinu þegar hann heyri að Bára sendi lyftuna úr kjallaranum og upp á jarðhæðina.  Hafi hann einnig tekið eftir því að einhverjir skruðningar voru í lyftunni og virtist hljóðið koma innan úr lyftuhúsinu.  Hafi hann einnig tekið eftir því að lyftumótorinn sem að er uppi á lyftuhúsinu hafi erfiðað, þ.e. dregið niður í honum rétt áður en hann stöðvaðist.  Bára hafi svo komið upp en ekki getað opnað lyftudyrnar og það hafi litið út sem að lyftan væri ekki komin á réttan stað.  Bára hafi spurt hann hvort hún ætti að prófa að senda lyftuna niður aftur, hafi hann svarað því til að það hlyti að vera í lagi að prófa það.  Því hafi Bára ýtt á takka lyftunannar sem gefur skipun um að senda hana niður.  Lyftumótorinn hafi strax farið af stað, en hann kvaðst líka hafa áttað sig á því að lyftan fór ekki niður heldur gekk mótorinn og slakaði út á vírnum.  Bára hafi ýtt á stopptakkann á lyftunni en hann hafi ekki virkað.  Þrír takkar væru á lyftunni upp, niður og stopp.  Hafi það tekið hann nokkur augnablik að átta sig á að eitthvað væri að og hann yrði að slá lyftumótornum út.  Hafi hann því þurft að hlaupa niður í kjallara og að rafmagnstöflunni þar til að slá mótornum út, það hafi hann gert og hafi mótorinn því gengið einhverja stund, en hve lengi gat hann ekki giskað á kannski eina til tvær mínútur.  Hafi hann talið rétt að kalla út viðgerðarmann og hringt í stefnanda, sem sjái um viðgerðir hjá KEA.  Hafi stefnandi komið fljótlega og farið strax í það að opna lyftudyrnar með því að skrúfa stoppstykkið sem er innan á hurðinni í burtu.  Þegar hann opni þá sagði hann að þeir sjái að lyftan var ekki komin alveg upp í rétta stöðu, það hafi vantað u.þ.b. 10 cm. upp á að hún væri komin alla leið eins og venjan hafi verið.  Einnig hafi hann séð að í lyftunni var svokölluð þvottavél sem notuð er við gólfskúringar og skúringarvagn.  Eitt hjól skúringarvagnsins hafi verið skorðað eða klemmt milli lyftugólfsins og veggjar lyftuganganna.  Hafi hann strax ályktað að þarna væri komin skýringin á því hvers vegna lyftan hafi stoppað, þ.e.a.s. hjólið á vagninum hefði klemmst á milli og skorðað lyftuna fasta.  Skúringarvagninn hafi verið fjær þeim, þ.e. við austurhlið lyftunnar en þvottavélin nær dyrunum.  Hafi hann lýst fyrir stefnanda því sem skeð hafði og sagt honum að mótorinn hefði gengið einhverja stund og slakað út vírnum.  Það næsta sem skeði hafi verið að stefnandi hafi sagt eitthvað á þá leið að þeir yrðu að ná þessu dóti út og stigi í sömu svifum inn í lyftuna.  Skipti það þá engum togum að um leið og stefnandi stigi inn í lyftuna þá falli hún niður, alveg niður í kjallara og stefnanda með henni.  Hafi hún fallið um leið og stefnandi snerti lyftugólfið.  Hafi þetta allt skeð í einu vettvangi og hann ekki áttað sig á því að stefnandi hefði klemmst, en samt álitið að hann væri slasaður og því farið rakleitt og hringt á sjúkrabíl og aðstoð.  Um leið og lyftan féll hafi stefnandi hljóðað upp fyrir sig og strax látið vita að hann væri klemmdur fastur.  Hann kvaðst svo strax hafa farið niður í kjallara þegar hann var búinn að hringja og stefnandi hafi talað til hans.  Hurðin niðri inn í lyftuna hafi verið lokuð og hann ekki getað opnað hana.  Stefnandi hafi svo leiðbeint honum hvernig hann ætti að opna hurðina með því að skrúfa stoppjárnið af henni.  Hafi hann gert það og komist þannig inn í lyftuna til stefnanda sem hafi hangið niður úr lofti hennar fastur á vinstra fæti og ekki náð niður á gólf og ekki niður á þvottavélina heldur.  Hafi hann farið í það að hlú að stefnanda og setja eitthvað undir hann til að minnka álagið á fætinum og hafi hann notað til þess vörur sem voru í kjallaranum, Bára hafi einnig aðstoðað hann við þetta.  Aðstoð hafi svo borist fljótt og eftir það hafi verið unnið við að losa stefnanda úr lyftunni, en ekki hafi hann gert sér grein fyrir því hvað það tók langan tíma.

Þann 12. júní 1996 var tekin vitnaskýrsla af Báru Árnýju Sigþórsdóttur, Víðilundi 12 F, Akureyri, fædd 1962, starfsmanni á leikskóla.  Hún kvaðst hafa verið fengin til að skúra í Kjörmarkaði KEA Hrísalundi vegna forfalla.  Í versluninni hafi aðeins verið hún og Óskar Óskarsson, sem var að ganga frá.  Hafi hún verið búin að skúra í kjallaranum og ætlað að senda skúringartækin, þvottavél og skúringarvagn, með lyftunni upp á næstu hæð.  Hafi hún sett þvottavélina fyrst inn í lyftuna og síðan skúringarvagninn, þ.e. að hann hafi verið nær hurðinni.  Hún kvaðst aldrei fara inn í lyftur og hafi hún því snúið vagninum þannig að haldið á honum snéri inn þannig að hún gæti dregið hann beint þegar upp var komið, þar sem hurðir lyftunnar eru ekki á sömu hlið uppi og niðri.  Sendi hún síðan lyftuna upp, þegar hún fari af stað heyri hún einhverja skruðninga, en hún hafi ekki áttað sig á því hvað það var sem orsakaði þá.  Hafi hún þurft að snúast ýmislegt í kjallaranum og ekki gengið rakleiðis upp, þegar hún svo komi upp þá sé lyftan stopp en hún geti ekki opnað hurðina.  Hafi hún þá sagt við Óskar, sem var í þann veginn að fara út, hvort hún eigi að prófa að senda lyftuna niður, hann játi því og hafi hún ýtt á niður takkann, mótorinn hafi strax farið af stað og vafið vírnum ofan af sér.  Hafi hún í fyrstu haldið að lyftan væri að fara niður, en átti sig svo á því að eitthvað sé að, það heyrist einhver hljóð sem ekki voru vanaleg og henni hafi fundist þau koma ofan af lyftuhúsinu frá mótornum.  Hafi hún spurt Óskar hvort hún ætti að stoppa lyftuna þegar hún sá að ekki hafi allt verið eðlilegt.  Hann játi því og ýti hún á stopp takkann, en hann virki ekki og ekkert hafi skeð.  Þá hafi þeim Óskari báðum hálfbrugðið og Óskar farið í það að slá lyftunni út.  Hafi hann fyrst leitað uppi að rafmagnstöflunni og síðan farið niður í kjallara og slái þar lyftunni út.  Hafi hún þá verið búin að ganga kannski í eina eða tvær mínútur.  Hafi Óskar strax ákveðið að hringja í viðgerðarmann og hafi hringt í stefnanda sem kom fljótlega.  Hafi ekkert verið hreyft við lyftunni þar til stefnandi kom.  Hafi hún haldið áfram vinnu sinni og sé upp á skrifstofu upp í risi hússins þegar slysið verði.  Hafi hún heyrt einhvern dynk og Óskar þá búinn að hringja í sjúkrabíl og hún áttað sig á að stefnandi var klemmdur með annan fótinn inn í lyftunni.  Hafi stefnandi talað til þeirra og biðji Óskar að koma niður og opna hurðina niðri.  Hafi hún svo aðstoðað Óskar við að hlú að honum og hlaða undir hann vörum til að hann héngi ekki alveg í lausu lofti.  Síðan fari hún upp og opni fyrir sjúkraliðinu.  Hafi stefnandi haldið ró sinni og rætt við þau og leiðbeint þeim Óskari hvernig best væri að standa að hlutunum.

Þann 28. júní 1996 var tekin lögregluskýrsla af stefnanda þar sem að hann var dveljandi á bæklunardeild FSA.  Kvaðst hann vera búinn að vinna til margra ára hjá stefnda við ýmiskonar viðhald viðkomandi rafmagni, raftækjum og fleira.  Hafi hann oft unnið við umrædda lyftu í Hrísalundi að viðhaldi og viðgerðum.  Það hafi verið rétt upp úr kl. 20:00 þann 6. þ.m. sem hann hafi verið kallaður út að KEA við Hrísalund vegna bilunar í lyftunni.  Hafi hann þegar farið á staðinn og hitt þar fyrir starfsmann, Óskar Óskarsson, sem hafi tjáð honum að vörulyftan hafi einhvern veginn fests.  Einnig hafi verið þarna kona sem var að vinna við skúringar.  Ekki hafi verið hægt að opna lyftudyrnar og hafi hann því opnað þær með því að skrúfa læsingarjárnið á henni laust, þegar hann opni hurðina sjái hann að lyftan sé ekki alveg í efstu stöðu, þ.e.a.s. ekki komin í eðlilega hæð, en þó hafi ekki munað nema örfáum cm. kannski svona um 5 cm. að gólf hennar væri slétt við þröskuldinn og gólf vörulagersins á jarðhæðinni.  Hefði hann ekki verið byrjaður að vinna neitt við lyftuna heldur verið að reyna að gera sér grein fyrir því hvað væri að og hvað hægt væri að gera þegar slysið verði.  Lyftan hafi verið það ofarlega í dyrunum að ekki hafi sést upp fyrir hana þannig að ekki hafi verið hægt að sjá hvernig staðan á vírum var og einnig hvort lyftan væri krækt í krókinn sem á að halda henni í fastri stöðu þegar hún er upp.  Ekki kvaðst hann hafa farið upp á lyftuhúsið til að skoða mótorinn eða vírana þar.  Þegar hann var búinn að opna lyftudyrnar þá bendi Óskar inn í lyftuna og segi eitthvað á þá leið að þarna hafi hjól eða fótur á þvottavagninum sem var í lyftunni klemmst.  Hafi hann teygt sig inn í lyftuna til að kíkja betur á þetta og hafi trúlega snert lyftugólfið með fætinum.  Hann hafi ekki ætlað að fara inn í hana eða taka það sem í lyftunni var út á þessu stigi, skipti svo engum togum að lyftan falli eldsnöggt niður og hann með henni.  Hann viti svo ekkert fyrr til en hann hangi á vinstri fæti í lyftunni og geri sér grein fyrir því að hann var brotinn á vinstra fæti og klemmdur fastur.  Hafi hann leiðbeint Óskari hvernig hann ætti að opna hurðina að lyftunni í kjallaranum og beðið hann að setja eitthvað undir sig þar sem hann hékk í lyftunni.  Björgunarlið hafi svo komið fljótlega og náð að losa hann eftir einhverja stund og hann fluttur á Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri, þar sem hann hafi dvalist síðan.  Hafi hann brotnað illa á vinstra fæti auk þess sem hann hafi marist allmikið víða um líkamann.  Síðan segir í skýrslunni að stefnandi hafi nú kynnt sér skýrslur varðandi slysið og kveðst hann ekki hafa athugasemdir við þær fram að færa.  Nokkuð augljóst sé að lyftan hafi stöðvast þar sem að hjól á þvottavagninum hafi klemmst milli gólfs og veggjar lyftuganganna, við það hafi mótorinn slegið út áður en að lyftan náði að komast í læsta stöðu.  Mótorinn hafi svo komið inn á aftur eftir stutta stund þar sem að álags útsláttarrofinn á honum hafi trúlega verið stilltur á „auto“ og því verið hægt að slaka vírnum niður.  Neyðarrofi sem á að stöðva mótorinn ef slaknar á vírnum hafi svo ekki virkað og því farið sem fór. 

Í upplýsingarskýrslu Gunnars J. Jóhannssonar rannsóknarlögreglumanns þann 28. október 1996 segir að rannsókn málsins hafi lokið hjá lögreglu 28. júní s.l.  Hins vegar hafi það ekki verið afgreitt þar sem alltaf hafi verið beðið eftir skýrslu og greinargerð frá Vinnueftirliti ríkisins.  En orsökin fyrir því að starfsmenn þess gátu ekki lokið sinni greinargerð var sú að gögn vantaði frá stefnda, vinnuveitanda stefnanda, varðandi slysið, þ.e. ekki var skilað inn tilkynningu vinnuveitanda um vinnuslys fyrr en seint og um síðir og eftir eftirgangsmuni.  Málið hafi svo verið afgreitt frá lögreglu 28. október 1996 um leið og umrædd gögn bárust frá Vinnueftirlitinu.

Hér fyrir dómi bar stefnandi að hann myndi ekkert eftir því er hann gaf framangreinda lögregluskýrslu hjá rannsóknarlögreglunni á Akureyri.  Hafi hann starfað sem rafvirkjameistari hjá stefnda og komið á upp undir 50 vinnustaði.  Hafi hann unnið á verkstæði og vann síðan út á einstökum vinnustöðum.  Varðandi lyftuna í Hrísalundi þá hafi hún verið sett upp er verslunarhúsið var byggt og hafi Vélsmiðjan Oddi séð um uppsetningu hennar og smíði og þjónustað hana mekaniskt og Ljósgjafinn h.f. hafi séð um rafmagnið.  Eins hafi verið hringt í þá á rafmagnsverkstæðinu ef eitthvað bilaði.  Hann kvaðst ekki hafa verið tilkynntur sem umsjónarmaður með lyftunni.  Hjá stefnda hafi verið átta lyftur, sumar þeirra hafi verið í góðu lagi og þær þjónustaðar af Ljósgjafanum h.f. 

Stefnanda var sýnt dskj. nr. 3, sem er lyftuskoðun Vinnueftirlits ríkisins 23. nóvember 1995, þar sem fram kemur að bæta þarf aðgengi að vélbúnaði lyftu og virkni öryggis -fallöryggis við efri hæð og slakrofa skal tryggt.  Ekki kvaðst hann hafa séð þetta blað, en vissi um þessar athugasemdir, þ.e.a.s. um að bæta aðgengið að vélbúnaði lyftunnar, vissi hann til að skjal þetta hafi farið til Jóhanns Karls Sigurðssonar yfirmanns viðhalds fasteigna stefnda.  Hafi hann -Jóhann- ekki fengið stigann upp að vélbúnaðinum og hann hafi ekki verið kominn upp þegar slysið varð.  Ekki vissi hann til að ýtt væri á um aðgerðir varðandi rafmagnsmál við lyftuna.  Þegar lyftan stöðvaðist þá hafi verið hringt í hann þar sem ekki hafi náðst í aðra rafvirkja stefnda.  Þegar hann kom á staðinn þá hafi hann hitt fyrir Óskar Óskarsson en mundi ekki hvað þeim hafði farið á milli.  Hafi hann byrjað að athuga hvar lyftan væri stödd, Óskar hafi sagt að lyftan hafi stoppað og einhverjir skruðningar heyrst.  Það sem hann reyndi að gera á staðnum var að gá hvernig ástandið var fyrir ofan lyftuna og hafi hann verið að reyna að gá upp fyrir sig.  Ef lyftan hefði verið 10 cm. neðan við þröskuld þá hefði hann átt að sjá yfir lyftuþakið og þá áttað sig á hlutunum, en lyftan hafi verið komin það ofarlega, cirka 2 cm. sem hafi vantað upp á að hún hafi verið komin upp að þröskuldi þegar hann tók hurðina af henni.  Hafi hann fundið það vegna þess hvað hurðin var þvinguð í og hafi lyftugólfið togast niður á móti hurðinni þar sem að þvottavagninn var.  Hjá honum var ekki spurning um að hún hefði ekki stoppað á útslættinum þar sem hún var á „hand“ en ekki „auto“.  Hann kvaðst vera klár á því að lyftan sló aldrei út. 

Nánar aðspurður um nám og störf, sbr. það sem fram kemur á dskj. nr. 23, þá kvaðst stefnandi hafi réttindi bæði sem rafvélavirki og rafvirki, þar sem starfsmenntun hans hafi veitt þau réttindi bæði á þeim tíma er hann laun rafvirkjanámi. 

Hann kvaðst ekki hafa verið að horfa á vagninn í lyftunni þar sem hann hafi blasað við, hann hafi verið að reyna að horfa upp fyrir sig, þ.e.a.s. milli lyftunnar og veggjarins.  Ef lyftan hefði verið 5 cm. fyrir neðan þröskuldinn þá hefði það nægt til þess að hann hefði séð inn á þakið á lyftunni.  Þegar hann kom á staðinn viti hann ekki hvað hefur skeð nema að lyftan hefur fests.  Hann kvaðst hafa haldið að hún hefði ekki komist svona hátt upp.  Það næsta sem hann hefði gert í stöðunni hefði verið var að kalla á mann til að fara upp á lyftuhúsið, af því að sjálfur hefði hann ekki farið þarna upp eins og málum var háttað á staðnum og aðgengi vandkvæðum bundið.  Þegar hann losi hurðina þá sé lyftan föst og halli úr dyrunum séð og hafi hallinn getað verið um 10 cm.  Hann hafi reiknað með að lyftan væri með tvöföldu öryggi þannig að hún gæti ekki farið upp/niður fyrr en hún færi niður.  Hann ítrekaði að hann hefði ekki séð um viðhald á þessari lyftu, eina sem hann hafi komið að hafi verið að skipta um hurðarofa, hann hafi ekki komið nálægt neinu sem heitir vélvirkjun eða neinu slíku.  Lyftan hafi verið skökk, þvinguð, þess vegna hafi þurft að skrúfa hurðina í burtu.  Hann hafi aldrei áður verið kallaður til vegna þess að lyftan hafi fests. 

Stefnanda var kynnt skýrsla hans gefin fyrir lögreglu, eins og áður greinir mundi hann ekkert eftir þegar hún var gerð.

Hann kveðst hafa teygt sig til að reyna að skoða upp fyrir lyftuna og þá trúlega snert lyftugólfið.  Sýndi hann í dóminum hvernig hann hefði staðið að verki við að skoða aðstæður og borið sig að.  Hann sagði að enginn maður færi inn í bilaða lyftu, það væri föst regla.  Ekki hafi hann vitað að öll öryggi, eða báðir öryggisþættir hafi verið bilaðir.  Hafi hann gengið út frá því að stopprofinn hafi virkað þegar hann kom á staðinn og hafi gengið út frá því að hæðarrofinni, þ.e. hurðarrofinn, hefði slegið út.  Hann hefði frétt það eftir slysið að stopphnappurinn á lyftunni hefði verið ótengdur.  Eins og staðan var á lyftunni þá hafi hann talið að lyftan væri í öryggiskróknum.  Varðandi slakrofann þá hafi hann ekki virkað vegna stirðleika og ef rofi bili þá verði að skipta um hann.  Yfirálagsvörn sem slær út og verður virk aftur, það sé ekki eðlilegt, svona tæki megi ekki koma inn sjálf.  Hann kvaðst viss um að hann var að reyna að teygja sig og gæti hafa lent á þröskuldi og lyftugólfi er hann var að reyna að teygja sig og sjá.  Hann kvaðst hafa fengið högg á öxlina og eins og lyftan hefði kastað honum inn.  Efri brún lyftunnar væri cirka 2 ½ cm. á þykkt og hefði hún verið aðeins neðar hefði hann getað séð hvort krókurinn var á.  Lyftan virðist smella eins og rottubogi og hann verði fyrir og hefði hann sennilega sloppið hefði hann gengið beint inn í lyftuna.  Hann sagði það prinsipp mál að fara ekki einn að lyftudæmi sem að væri bilað.

Vitnið, Óskar Aðalgeir Óskarsson verslunarmaður, sem enn starfar í versluninni í Hrísalundi, bar fyrir dómi að hann hefði unnið á þessum vinnustað frá áramótunum 1986-1987.  Sagði hann það algengt að fara inn í lyftuna til að ferma hana og afferma.  Lyftan hefði bilað ansi oft, ekki hefði hún verið örugg sem lyfta vegna tíðra bilana, hafi virkað ótraust, sveiflaðist t.d. milli veggja.

Skýrsla hans á dskj. nr. 7 var borin undir vitnið, hann kvaðst hafa heyrt lyftumótorinn ganga og að stopprofinn virkaði ekki, en lyftumótorinn hafi verið mjög hávær. 

Hafi hann hringt og reynt að ná í einhvern son stefnanda og endaði með að hringja í hann sjálfan.  

Aðspurður hvort að hafi vantað 10 cm. upp á rétta stöðu þá kvaðst hann ekki þora að segja um það í cm. en kvaðst muna að það munaði ekki miklu að hún næði réttri stöðu hurðarmegin, cirka 1 tommu.  Hann hafi ekki séð upp í lyftuhúsið, sagði hann að lyftan hafi ekki verið notuð um tíma eftir slysið og aðgengi að lyftumótor hafi verið lagað, settur fastur stigi og handrið upp á lyftuhúsið, áður hafi verið notaður laus álstigi, sem var þarna til staðar.  Hann sagði lyftuna hafa bilað oft, en kunni ekki skil á þeim bilunum, en hún hafi stoppað ærið oft, oftast hafi verið kallað á rafvirkja því þeir hafi þekkt best inn á þessa lyftu.  Hann sagði að fólk hafi stundum farið með lyftunni milli hæða og hafi það komið fyrir hann sjálfan. 

Ekki kvaðst hann muna í smáatriðum hvað þeim stefnanda hafi farið á milli, en hann hafi sagt honum að mótorinn hafi gengið, hvort það hafi verið í síma eða eftir að hann kom á staðinn mundi hann ekki.  Hann kvaðst hafa staðið við hliðina á stefnanda þegar slysið varð, þetta hafi skeð mjög snöggt.  Ekki kvaðst hann muna að stefnandi hafi sagt að ná þessu dóti og stigið inn í lyftuna, stefnandi hafi stigið eitt skref fram með annan fótinn og um leið hrapi lyftan.  Ekki kvaðst hann geta sagt hvernig stefnandi fór inn í lyftuna þetta hafi skeð svo snöggt. 

Lyftan hafi verið skökk í og hallað aðeins, þess vegna gæti hallinn hafa verið 10 cm. fjær dyrunum en lægri nær hurðinni.  Það hafi heyrst mjög hátt í lyftumótornum, enginn öryggistrúnaðarmaður hafi verið á staðnum á þessum tíma en hann hafi verið trúnaðarmaður starfsfólks. 

Hann vissi til að það var búið að reyna að fá nýja lyftu og hafi verslunarstjórinn, Friðrik Sigþórsson, staðið í því, ástæðan var sú að lyftan var ekki nógu góð.  Fyrir hafi komið að hjól vöruvagna höfðu farið niður á milli veggjar og lyftugólfs, en aldrei hefði þó lyftan stöðvast þess vegna. 

Ekki mundi hann til þess að skúringargræjur hefðu áður fests svona í lyftunni, hann sagði að stefnandi hefði byrjað á að opna lyftuna, ekki mundi hann hvað þeim fór á milli, hann hafi heyrt að mótorinn gengur og að lyftan er stopp og hann álykti þá að slaknað hafi á vírnum um leið.  Þegar stopp takkinn á lyftunni virkaði ekki þá hafi það verið það eina sem honum datt í hug að slá lyftumótornum út.  Minnti hann að reynt hafi verið að íta á upp og niður takkana og ekkert hafi skeð.  Ekki mundi hann hvenær ný lyfta var tekin í gagnið.

Vitnið, Bára Árný Sigþórsdóttir, kvaðst hafa verið að vinna í afleysingum þegar slysið varð.  Staðfesti hún skýrslu sína fyrir lögreglu, kvaðst hún hafa reynt að gleyma þessu atviki,  hafi hún heyrt þegar Óskar hringdi í stefnanda og bað hann að koma, hún kvaðst ekki hafa heyrt orðaskipti þeirra nánar.  Hafi hún heyrt talað um það á slysstað að mótorinn hafi undið ofan af sér og Óskar hafi talað um það að það gæti verið að það hafi skeð, en sjálf kvaðst hún enga þekkingu hafa á slíku. 

Álit dómsins.

Fyrir liggur á dskj. nr. 3 lyftuskoðun Vinnueftirlitsins frá 23. nóvember 1995 þar sem mælt er fyrir um að bæta þurfi aðgegni að vélbúnaði lyftunnar og að virkni fallöryggis við efri hæð og slakrofa skuli tryggð og skyldi úrbótum um aðgengi bætt fyrir 1. janúar 1996.  Við lyftuskoðun Vinnueftirlitsins þann 20. júní 1996 sbr. dskj. nr. 6 hafði aðgengið ekki verið lagað og fallbremsu/hraðabremsu vantaði og skyldu úrbætur gerðar fyrir 20. júlí það ár.

Er dómurinn gekk á vettvang var búið að setja upp tréstiga til að komast upp á lyftuhúsið en 12. gr. reglugerðar um búnað, rekstur og eftirlit og lyftubúnaði nr. 203/1972, sem fjallar um vélar- og strengjahjólarúm mælir svo fyrir í 1. og 3. tl. að aðgangur að vélarrúmi lyftu skuli vera greiður, þurfi tröppu eða stiga til að komast til vélarrúms skal stiginn vera fastur með flötum þrepum og handlista til stuðnings beggja megin. 

Í umsögn Vinnueftirlitsins um slysið, ódags. á dskj. nr. 9 kemur fram að yfirálagsvörn hafi slegið lyftuspilinu út eftir að lyftan stöðvaðist og frá þeim tíma þar til farið var að huga að lyftunni þá hafi yfirálagsvörnin komið inn aftur.  Í skýrslunni segir að ekki eigi að vera mögulegt að slaka út af spili án þess að lyftan sigi niður þar sem á lyftubúnaðinum er slakrofi sem á að stöðva spilið ef slaki kemur á vírinn.  Slakrofinn virðist hafa staðið á sér og því ekki stöðvað spilið þegar slaki kom á vírinn.  Þegar skýrsluhöfundur Helgi Haraldsson umdæmisstjóri kom að lyftunni eftir slysið var armurinn við slakrofann í þeirri stöðu að slakrofinn var búinn að slá út spilinu.  Við prófun eftir slysið virkaði slakrofinn og efra endastopp lyftunnar. 

Ekki verður af gögnum málsins ráðið að gerðar hafi verið ráðstafanir til að virkni öryggis við efri hæð og slakrofa yrði tryggt eins og lyftuskoðunin frá 23. nóvember 1995 mælti fyrir um sbr. dskj. nr. 3. 

Fyrir liggur að stefndi tilkynnti ekki til Vinnueftirlits ríkisins hver væri eftirlitsmaður lyftunnar skv. 3. mgr. 32. gr. reglugerðar nr. 203/1972, sbr. dskj. nr. 29, en 1. tl. 32. gr. reglugerðarinnar mælir svo fyrir að eigandi lyftu eða sá sem fyrir hans hönd rekur hana beri ábyrgð á því að lyftan sé ekki notuð nema fulltryggt sé að allur búnaður hennar sé í fullkomnu lagi og í 3. tl. er mælt svo fyrir að eigandi lyftu skuli fela kunnáttumanni umsjón með daglegum rekstri lyftunnar og tilkynna Öryggiseftirlitinu skriflega hver sé umsjónarmaður.  Í  33. gr.  reglugerðarinnar mælir svo fyrir að sérhver lyfta skuli vera undir reglulegu eftirliti umsjónarmanns sem skal fylgjast með því að öll öryggistæki hennar séu í lagi og veita lyftunni nauðsynlega þjónustu svo sem smurningu og nauðsynleg þrif og umsjón með lyftu megi einungis fela manni sem þekkingu hefur á raftækjum og öryggistækjum þeim sem lyfta á að vera búin og viðurkenndur er af Öryggiseftirlitinu til þessara starfa.  Á 30 daga fresti skal umsjónarmaður lyftu yfirfara öryggistæki lyftunnar, smyrja hana og veita henni þá þjónustu aðra sem nauðsynleg kann að reynast.

 Í 1. tl. 20. gr. reglugerðarinnar er mælt svo fyrir að lyftu skuli vera hægt að stöðva á öruggan hátt á lyftuleiðinni og í þessu tilviki þar sem um vörulyftu að ræða þá skal stöðvunarhnappur vera utan við hverjar dyr á lyftum. 

Fyrir liggur í umsögn Vinnueftirlitsins á dskj nr. 9 að stopprofi/ stöðvunarhnappur fyrir lyftuna á efri hæð mun ekki hafa virkað. 

Þegar stefnandi kemur að lyftunni veit hann ekki annað en að lyftan er föst.

Vitnið Óskar A. Óskarsson kveðst hafa tjáð stefnanda að hann hafi talið að lyftuvír hefði farið út af lyftuspilinu.  Hvort það var í síma eða eftir að stefnandi kom á staðinn liggur ekki ljóst fyrir.  Telur dómurinn að leggja verði til grundvallar frásögn stefnanda hér fyrir dómi af því sem skeði á slysavettvangi, en það sem stefnandi gerir er raunverulega ekkert annað en að reyna að kanna hvað sé að.  Eins og aðstæðum var háttað verður að leggja það til grundvallar að stefnandi hefði sjálfur ekki farið upp á þak lyftuhússins þar sem spilið var staðsett vegna þess hve aðgengi að því var erfitt og þess vegna eina leiðin að reyna að sjá inn í lyftugöngin fyrir ofan lyftuna með því að reyna að sjá yfir þak hennar.  Það var það sem stefnandi var að reyna þegar lyftan fellur á hann líkt og dýrabogi. 

Þegar slysið varð þá höfðu öll öryggistæki lyftunnar brugðist eða ekki virkað eins og t.a.m. stopprofinn á jarðhæð og yfirálagsvörnin fyrir lyftuspilið sem út hafði slegið og komið inn aftur.  Hlýtur það annað hvort að hafa verið fyrir bilun eða þá vegna stillingar hans sem starfsmenn stefnda bera ábyrgð á, en ekki verður séð að yfirálagsvörnin hafi verið könnuð sérstaklega, en í skýrslu Gunnars Jóhannssonar rannsóknarlögreglumanns kemur fram að hann var tekinn til handargagns til könnunar.  Samkvæmt framburði Óskars A. Óskarssonar var lyftan bilunargjörn og hafði verslunarstjórinn í Hrísalundi þrýst á að fá nýja lyftu sem líka varð. 

Telja verður nægjanlegar líkur að því leiddar að eftirliti og fyrirbyggjandi viðhaldi á lyftunni hafi ekki verið nægjanlega sinnt og sé það frumorsök slyssins eins og fram kemur í samantekt ÍSELEKT ehf. dags. 19. október 1997 á dskj. nr. 15 og það sem styður þessa skoðun er það að athugasemdum Vinnueftirlitsins virðist ekki hafa verið sinnt sbr. dskj. nr. 3 og 6 og lyftan í raun eftirlitslaus sbr. það sem áður er rakið á dskj. nr. 29. 

Það hvernig fór getur í sjálfu sér ekki talist óhappatilviljun heldur afleiðing þess þegar allir öryggisþættir bresta.  Samkvæmt þessu verður öll bótaábyrgð lögð á stefnda og skaðabótakrafa stefnanda tekin til greina að fullu.  Samkvæmt þessu ber stefnda að greiða stefnanda málskostnað skv. málskostnaðarreikningi samtals kr. 2.257.743.

Dóm þennan kvað upp Ásgeir Pétur Ásgeirsson héraðsdómari ásamt meðdómsmönnunum Árna V. Friðrikssyni rafiðnfræðingi og Bjarna Kristinssyni vélstjóra og vélaverkfræðingi.

D Ó M S O R Ð :

Stefndi, Kaupfélag Eyfirðinga greiði stefnanda Birni Þorkelssyni kr. 12.386.891 með 2% ársvöxtum frá 6. júní 1996 til 2. apríl 1997, en frá þeim degi af kr. 12.145.611 til 17. nóvember 1999, en frá þeim degi af kr. 10.753.624 til 7. desember 1999, en frá þeim degi með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25, 1987 til greiðsludags og kr. 2.257.743 í málskostnað.