Hæstiréttur íslands
Mál nr. 443/2005
Lykilorð
- Fullvirðisréttur
- Veiðiréttur
- Ábúð
- Gjafsókn
|
|
Fimmtudaginn 16. mars 2005. |
|
Nr. 443/2005. |
Veiðifélagið Bláskógar ehf. (Gestur Jónsson hrl.) gegn Ingu Helgu Björnsdóttur (Jónas A. Aðalsteinsson hrl.) |
Fullvirðisréttur. Veiðiréttur. Ábúð. Gjafsókn.
Deilt var um hvort V ehf., sem var eigandi jarðarinnar Þverfells í Borgarfjarðarsveit, eða I, sem var ábúandi jarðarinnar, ætti rétt til greiðslu, sem íslenska ríkið hafði innt af hendi árið 1992, vegna sölu á hluta fullvirðisréttar jarðarinnar. Fyrir lá að fullvirðisrétturinn hafði verið ákveðinn út frá framleiðslu ábúenda en ekki landeiganda. Var talið að fullnægt hefði verið skilyrðum 4. gr. reglugerðar nr. 313/1991 um að greiða skyldi ábúendum jarðarinnar kaupverð fullvirðisréttarins og var I því sýknuð af kröfu V ehf. um þetta atriði. Einnig var deilt um hvor aðilanna ætti rétt á arðgreiðslum vegna veiðiréttar jarðarinnar, sem Veiðifélag Grímsár og Tunguár hafði árlega lagt inn á bankabók í vörslu þess. Í erfðafestusamningi frá 1951 hafði þáverandi eigandi jarðarinnar áskilið sér rétt til „veiðivatna jarðarinnar“. Í dómi Hæstaréttar var vísað til þess að það hefði staðið eigandanum nær að tryggja sér sönnun um umfang þess veiðiréttar, sem undanskilja átti við samningsgerðina. Ekki var talið sannað að hann hafi haft arðgreiðslur af Tunguá í huga þegar samningurinn var gerður, enda var þá engin veiði í ánni fyrir landi jarðarinnar. Niðurstaða héraðsdóms um að V ehf. ætti ekki rétt til arðgreiðslnanna var því staðfest.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Garðar Gíslason og Guðrún Erlendsdóttir.
Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 12. október 2005. Hann krefst þess, að viðurkennt verði að sér beri sem eiganda jarðarinnar Þverfells í Borgarfjarðarsveit réttur til innistæðu bankabókar nr. 66605 í útibúi Landsbanka Íslands hf., Laugavegi 77 í Reykjavík. Þá krefst hann þess einnig, að viðurkennt verði að sér beri sem eiganda Þverfells réttur til arðs af veiðiréttindum jarðarinnar í Tunguá, sem greiddur hafi verið árlega frá 1994 inn á bankabók í vörslu Veiðifélags Grímsár og Tunguár. Loks krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem henni hefur verið veitt fyrir Hæstarétti.
I.
Áfrýjandi máls þessa er eigandi jarðarinnar Þverfells í Borgarfjarðarsveit en stefnda er ábúandi jarðarinnar á grundvelli erfðafestusamnings 27. mars 1951. Í máli þessu deila aðilar annars vegar um það hvor þeirra eigi rétt til greiðslu, sem íslenska ríkið innti af hendi vegna sölu á hluta fullvirðisréttar jarðarinnar Þverfells og lögð hefur verið inn á bankabók nr. 66605 í útibúi Landsbanka Íslands hf. að Laugavegi 77 í Reykjavík. Hins vegar deila aðilar um það hvor þeirra eigi rétt til arðgreiðslna vegna veiðiréttar jarðarinnar, sem greiddar hafa verið árlega frá árinu 1994 inn á bankabók í vörslu Veiðifélags Grímsár og Tunguár.
II.
Lög nr. 46/1985 um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum tóku gildi 1. júlí 1985. Í 1. mgr. a. 30. gr. laganna var kveðið á um það, að landbúnaðarráðherra væri rétt að leita eftir samningum fyrir hönd ríkisstjórnarinnar við Stéttarsamband bænda um magn mjólkur- og sauðfjárafurða, sem framleiðendum yrði ábyrgst fullt verð fyrir á samningstímanum. Í reglugerðum, sem settar voru með stoð í lögunum, var fullvirðisréttur síðan skilgreindur sem það magn sauðfjárafurða, sem búmarkssvæði og/eða framleiðendum væri ábyrgst fullt verð fyrir á grundvelli framangreinds ákvæðis í lögunum.
Með samningi ríkisins og stéttarsambands bænda 11. mars 1991 um stefnumörkun í mjólkurframleiðslu og sauðfjárrækt voru teknar upp beingreiðslur, sem miðuðust við innanlandsmarkað á hverjum tíma, og horfið frá greiðslum útflutningsbóta. Samkvæmt viðauka I með samningnum var stefnt að því að fullvirðisréttur í sauðfjárframleiðslu yrði lagaður að innanlandsmarkaði í tveimur áföngum. Í fyrri áfanganum, á tímabilinu frá 1. maí 1991 til 31. ágúst sama ár, skuldbatt ríkissjóður sig til að kaupa fullvirðisrétt, allt að 3.700 tonnum, en síðan skyldi fara fram niðurfærsla á fullvirðisrétti að því marki sem á vantaði til að markmiðum samningsins um 10% fækkun sauðfjár á því hausti frá fyrra ári yrði náð. Kveðið var á um, að verð fyrir keyptan fullvirðisrétt skyldi vera 600 krónur á kg, auk þess sem greiða skyldi förgunarbætur, sem voru ýmist 5.000 krónur eða 3.500 krónur fyrir hverja kind. Við niðurfærslu átti ríkissjóður hins vegar að greiða 450 krónur á kg, auk 3.500 króna í förgunarbætur. Í síðara áfanganum, á tímabilinu frá 1. september 1991 til 31. ágúst 1992, skuldbatt ríkissjóður sig til að kaupa fullvirðisrétt gegn 380 króna greiðslu á kg, auk 3.500 króna bóta fyrir hverja fargaða kind. Þá var gert ráð fyrir því að 15. september 1992 færi fram önnur niðurfærsla fullvirðisréttar um það, sem á vantaði til að ná settum markmiðum um aðlögun að innanlandsmarkaði. Við þessa niðurfærslu átti að greiða 380 krónur á kg. Í viðaukanum var ekki tekið fram, hverjum bæri réttur til greiðslna fyrir fullvirðisréttinn.
Þrátt fyrir framangreind tímamörk var í samningi um kaup á fullvirðisrétti, sem undirritaður var af hálfu ríkissjóðs og stefndu 31. mars og 1. apríl 1992, skýrt tekið fram að kaupverðið væri 600 krónur á kg. Virðist hann því hafa verið gerður á grundvelli fyrirmæla framangreinds samnings ríkisins við Stéttarsamband bænda um kaup ríkisins á fullvirðisrétti við fyrri áfanga aðlögunarinnar.
Lögum nr. 46/1985 var ekki breytt strax í kjölfar samningsins 11. mars 1991 milli ríkisins og Stéttarsambands bænda. Hins vegar var reglugerð nr. 313/1991 um aðlögun fullvirðisréttar til framleiðslu sauðfjárafurða að innanlandsmarkaði gefin út 2. júlí 1991. Í 4. gr. hennar var fjallað um ráðstöfun fullvirðisréttar og segir þar í 1. mgr.: „Fullvirðisréttur á lögbýli fylgir því og er kaupverð hans greitt til eiganda þess eða eftir tilvísun hans, nema sá fullvirðisréttur sem ábúandi hefur keypt eða flutt með sér á leigujörð, sem er greiddur ábúanda. Samningi um sölu fullvirðisréttar þarf að fylgja samþykki eiganda (eigenda) og ábúanda (ábúenda) lögbýlis, sem nýtir fullvirðisrétt á lögbýlum haustið 1991, ef ekki er um sama (sömu) aðila að ræða.” Í 8. gr. reglugerðarinnar var fjallað um greiðslu förgunarbóta og sagt að þær skyldi greiddar seljanda fullvirðisréttar, en ábúanda væri hann annar en seljandi. Samkvæmt 21. gr. átti að fylgja sömu reglum við kaup ríkisins á fullvirðisrétti við síðari áfanga aðlögunarinnar, að öðru leyti en því, að fjárhæðir voru lægri eins og ákveðið hafði verið í viðaukanum með samningnum. Í 13. gr. var kveðið á um greiðslur vegna niðurfærslu fullvirðisréttar, en ekki var þar hins vegar mælt fyrir um hverjir fengju þessar greiðslur í sinn hlut.
Lögum nr. 46/1985 var breytt til samræmis við ofangreindan samning milli ríkisins og Stéttarsambands bænda með lögum nr. 5/1992 frá 28. febrúar 1992. Þar sagði í 7. gr. a., sem varð 39. gr. laganna, að frá 1. maí 1991 til 31. ágúst 1992 skyldi laga fullvirðisrétt til framleiðslu sauðfjárafurða að innanlandsmarkaði með því að ríkissjóði væri heimilt að greiða fyrir fullvirðisrétt til framleiðslu sauðfjárafurða allt að 3.700 tonnum og greiða förgunarbætur vegna fækkunar áa eftir nánari ákvörðun í reglugerð. Ekki var mælt fyrir um það í lögunum hvort greiða skyldi ábúanda eða eiganda lögbýlis fyrir fullvirðisréttinn.
Með lögum nr. 112/1992 frá 29. desember 1992 var síðan bætt tveimur nýjum málsgreinum við 39. gr. laga nr. 46/1985. Þar var kveðið á um í fyrri málsgreininni, að greiðslur vegna niðurfærslu fullvirðisréttar til framleiðslu sauðfjárafurða skyldu greiddar handhafa réttar til beinna greiðslna á lögbýlinu vegna framleiðslu sauðfjárafurða verðlagsárið 1993 til 1994 samkvæmt skrám Framleiðsluráðs landbúnaðarins 31. janúar 1993. Þetta gilti þó ekki, ef gert var samkomulag um annan hátt á greiðslum milli ábúanda og eiganda lögbýlis, þegar ekki var um sömu aðila að ræða, enda bærist tilkynning um það til landbúnaðarráðuneytisins fyrir 31. janúar 1993. Í síðari málsgreininni sagði, að tæki leiguliði við greiðslunum gæti eigandi lögbýlis óskað eftir því við ábúðarlok, að tekið yrði tillit til þeirra við mat samkvæmt 16. gr. ábúðarlaga nr. 64/1976 að því marki sem þær teldust bætur fyrir skerðingu á búrekstraraðstöðu eftir lok ábúðartímans.
Lög nr. 112/1992 höfðu ekki tekið gildi þegar ríkið keypti fullvirðisrétt jarðarinnar Þverfells um mánaðamótin mars/apríl 1992. Framangreint ákvæði í lögunum tók aðeins til greiðslu úr ríkissjóði vegna niðurfærslu fullvirðisréttar vegna framleiðslu sauðfjárafurða verðlagsárið 1993 til 1994, enda áttu kaup ríkisins á slíkum rétti að vera um garð gengin, þegar lögin tóku gildi. Ekki verður séð að nein rök hafi staðið til þess að haga greiðslum með mismunandi hætti eftir því hvort um kaup eða niðurfærslu á fullvirðisrétti var að ræða, en báðar þessar leiðir miðuðu að því að draga úr framleiðslu sauðfjárafurða til að laga framleiðsluna að innanlandsmarkaði. Þessar aðgerðir bitnuðu fyrst og fremst á framleiðendum afurðanna án tillits til þess hvort framleiðslan fór fram á lögbýlum sem þeir áttu sjálfir eða leigðu. Sú framleiðslustýring, sem komið var á með lögum nr. 46/1985, átti meðal annars að tryggja lífsafkomu framleiðenda landbúnaðarafurða þegar draga þurfti úr framleiðslunni. Var það gert með því að tryggja þeim ákveðið verð fyrir tiltekið magn, sem þeir framleiddu. Aðgerðir þær, sem kveðið var á um í viðauka I í samningi ríkisins við Stéttarsamband bænda miðuðu að því að draga úr því magni og skertu því afkomu framleiðenda, ef ekki kæmu greiðslur fyrir. Greiðslurnar samkvæmt samningnum, hvort sem þær voru vegna kaupa eða niðurfærslu á fullvirðisréttinum, áttu að bæta fyrir þá skerðingu hjá framleiðendum sauðfjárafurða.
Eins og að framan greinir voru engin fyrirmæli í lögum um hverjum bæri greiðsla vegna kaupa ríkisins á fullvirðisrétti á grundvelli framangreinds samnings ríkisins við Stéttarsamband bænda. Gögn málsins bera með sér, að ábúendur Þverfells hafa nýtt jörðina til sauðfjárræktar allt frá því að erfðafestusamningurinn var gerður 1951. Fullvirðisréttur jarðarinnar, og áður búmark hennar, var því ákveðinn út frá framleiðslu ábúenda hennar en ekki landeiganda. Eins og áður getur segir í 4. gr. reglugerðar nr. 313/1991 að kaupverð fullvirðisréttar skyldi greiða til eiganda lögbýlis eða eftir tilvísun hans, nema ábúandi hefði keypt eða flutt með sér fullvirðisrétt á leigujörð sem þá skyldi greiða ábúanda. Ef skilja skal þetta ákvæði á þann veg, að við þær aðstæður sem hér um ræðir eigi að greiða eiganda en ekki ábúanda við kaup fullvirðisréttar lögbýlisins, virðist það hvorki samrýmast þeim sjónarmiðum, sem lög nr. 46/1985 eru byggð á né forsendum samningsins 11. mars 1991 milli ríkisins og Stéttarsambands bænda. Með þetta í huga verður að telja að fullnægt sé skilyrðum ákvæða reglugerðarinnar um að greiða skuli ábúanda Þverfells kaupverð fullvirðisréttarins. Gera verður ráð fyrir því, að eftir gildistöku laga nr. 112/1992 hafi eigandi Þverfells getað óskað eftir því við ábúðarlok, að tekið yrði tillit til greiðslunnar að því marki sem hún teldist bætur fyrir skerðingu á búrekstraraðstöðu eftir lok ábúðartímans, sbr. 2. mgr. 16. gr. laganna.
Samkvæmt framansögðu ber að staðfesta niðurstöðu héraðsdóms um þessa kröfu.
III.
Með samningi 27. mars 1951 seldi þáverandi eigandi Þverfells, Sveinbjörn Finnsson, föður stefndu, Birni Davíðssyni, jörðin á leigu til erfðafestu. Samkvæmt 2. mgr. samningsins áskildi Sveinbjörn sér rétt til „veiðivatna jarðarinnar” að því undanskildu að ábúandi hefði jafnan rétt til veiði fyrir heimili sitt. Á þessum tíma voru í gildi lög nr. 112/1941 um lax- og silungsveiði. Í 3. mgr. 2. gr. laganna var kveðið á um það að væri jörð byggð á leigu fylgdi veiði ábúðinni, nema öðruvísi semdist og atvinnumálaráðherra samþykkti. Framangreindur erfðafestusamningur var ekki áritaður um samþykki ráðherra og engin gögn hafa verið lögð fram sem sýni, að ráðherra hafi samþykkt þá tilhögun veiðiréttar, sem kveðið var á um í samningnum.
Fyrir liggur, að á því hefur verið byggt um áratuga skeið að um gildan samning hafi verið að ræða hvað varðar rétt til veiði. Þegar eigandi jarðarinnar afsalaði henni 19. febrúar 1963 var tekið fram, að allur veiðiréttur í Reyðarvatni fylgdi jörðinni við söluna og í afsali til áfrýjanda fyrir jörðinni 13. september 1976 var tekið fram, að jörðin seldist með öllum gögnum og gæðum, þar með töldum veiðirétti óskoruðum í Reyðarvatni, án þess að vikið væri að veiðirétti í öðrum vötnum. Enginn ágreiningur hefur verið um það, að veiðiréttur í Reyðarvatni tilheyri áfrýjanda sem eiganda jarðarinnar. Veiðifélag Grímsár og Tunguár greiddi eftir 1979 eigendum og ábúanda Þverfells arð af veiði í Tunguá í ákveðnum hlutföllum samkvæmt samkomulagi aðila, en árið 1994 var það samkomulag fellt niður og frá þeim tíma hefur hvor aðili um sig talið sig eiga rétt til alls arðs af veiði í ánni.
Þegar erfðafestusamningurinn var gerður 1951 var meginreglan sú, að veiðiréttur fylgdi ábúð, sbr. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 112/1941. Ef bregða skyldi frá þeirri reglu þurfti því að kveða skýrt á um það í samningi milli eiganda og ábúanda. Það stóð eiganda jarðarinnar nær að tryggja sér sönnun um umfang þess veiðiréttar, sem undanskilja átti við samningsgerðina. Í erfðafestusamningnum var eingöngu sagt, að eigandi jarðarinnar áskildi sér rétt til veiðivatna hennar. Engin veiði var þá í Tunguá fyrir landi jarðarinnar frekar en nú, og náði veiðifélag Grímsár og Tunguár ekki til árinnar fyrr en síðar. Ósannað verður að telja, að við gerð erfðafestusamningsins hafi eigandi jarðarinnar haft arðgreiðslur af Tunguá í huga. Samkvæmt þessu verður niðurstaða héraðsdóms einnig staðfest um þessa kröfu.
Samkvæmt framansögðu skal héraðsdómur vera óraskaður um annað en málskostnað. Áfrýjandi greiði málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðst í einu lagi eins og greinir í dómsorði.
Gjafsóknarkostnaður stefndu fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði svo sem segir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.
Áfrýjandi, Veiðifélagið Bláskógar ehf., greiði stefndu, Ingu Helgu Björnsdóttur, málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, samtals 900.000 krónur, og renni 400.000 krónur af því í ríkissjóð.
Gjafsóknarkostnaður stefndu fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun lögmanns hennar, 400.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Vesturlands 18. júlí 2005.
Mál þetta, sem dómtekið var þann 15. júlí s.l., höfðaði stefnandi, Veiðifélagið Bláskógar ehf., Logafold 150, Reykjavík, 8. ágúst 2004, gegn stefndu, Ingu Helgu Björnsdóttur, Þverfelli 2, Borgarfjarðarsveit.
Kröfur stefnanda eru að viðurkennt verði með dómi að stefnanda beri sem eiganda jarðarinnar Þverfells, Lundarreykjahreppi, nú Borgarfjarðarsveit, réttur til innistæðu bankabókar nr. 66605 í útibúi Landsbanka Íslands hf. að Laugavegi 77 í Reykjavík.
Stefnandi krefst þess jafnframt að viðurkennt verði með dómi að stefnanda beri sem eiganda Þverfells réttur til arðs af veiðiréttindum jarðarinnar í Grímsá sem greiddur hafi verið árlega frá árinu 1994 inn á bankabók í vörslu Veiðifélags Grímsár og Tunguár.
Þá krefst stefnandi málskostnaðar.
Kröfur stefndu eru að hún verði sýknuð af kröfum stefnanda og stefnanda gert að greiða henni málskostnað.
I.
A.
Ágreiningur aðila máls þessa er af tvennum toga. Bæði ágreiningsefnin eiga rót sína að rekja til löggernings frá 1951. Annars vegar snýr ágreiningur aðila að því hvor þeirra eigi rétt til greiðslu sem ríkið innti af hendi vegna sölu á hluta fullvirðisréttar jarðarinnar Þverfells. Hins vegar snýr ágreiningur aðila að því hvor þeirra eigi rétt til arðgreiðslna sem tilkomnar eru vegna veiðiréttar jarðarinnar. Rétt er að taka fram að í málsskjölum er ýmist talað um veiðirétt Þverfells í Grímsá eða Tunguá. Við aðalmeðferð málsins lýsti lögmaður stefndu því aðspurður yfir að hinn umdeildi veiðiréttur væri í Tunguá og mótmælti lögmaður stefnanda ekki þeirri yfirlýsingu. Tunguá er þverá Grímsár og samkvæmt gögnum málsins er sameiginlegt veiðifélag um árnar, Veiðifélag Grímsár og Tunguár.
B.
Stefnandi er eigandi jarðarinnar Þverfells í Borgarfjarðarsveit. Stefnda er ábúandi jarðarinnar á grundvelli áðurnefnds löggernings, dags. 27. mars 1951, en með honum byggði Sveinbjörn Finnsson jörðina á leigu til erfðafestu til Björns Davíðssonar, föður stefndu. Stefnda er nú rétthafi samkvæmt löggerningnum.
Samkvæmt framlögðum samningum seldi faðir stefndu, með samþykki eiganda jarðarinnar, 25 % af fullvirðisrétti Þverfells I í byrjun apríl 1992 og samtímis seldi stefnda 10 % af fullvirðisrétti Þverfells II og voru greiddar 600 kr./kg fyrir. Fullvirðisréttur Þverfells II var síðan með þvingaðri skerðingu skertur um 17,9 % að auki og voru fyrir þann hluta greiddar 380 kr./kg, en á svæði Þverfells varð hlutfall hinnar þvinguðu skerðingar 27,9 %.
Á sínum tíma varð að samkomulagi milli aðila að leggja fjármuni þá sem fyrir fullvirðisréttinn komu inn á bankabók nr. 66605, nú í útibúi Landsbanka Íslands hf. að Laugavegi 77 í Reykjavík. Þeir hafa sammælst um að veita atbeina sinn til að afhenda innistæðu bókarinnar í samræmi við niðurstöðu málsins.
C.
Í erfðafestusamningnum frá 27. mars 1951 sagði um veiðirétt: „Ég (Sveinbjörn Finnsson, þáverandi eigandi jarðarinnar) áskil mér þó rétt til veiðivatna jarðarinnar, að því undanskyldu að ábúandi hefir jafnan rétti til veiða fyrir heimili sitt.“
Jörðinni Þverfelli tilheyrir veiðiréttur í Reyðarvatni, Uxavatni og Tunguá. Um Grímsá og Tunguá er eins og áður segir starfandi veiðifélag og tilheyrir tiltekinn hluti arðgreiðslna vegna veiði Þverfelli. Í fyrstu greiddi veiðifélagið eigendum og ábúanda Þverfells arð þennan í tilteknum hlutföllum samkvæmt samkomulagi þar um. Árið 1994 kom upp ágreiningur milli aðila um það fyrirkomulag sem á endanum leiddi til þess að aðilar sammæltust um að fella samkomulagið úr gildi. Frá þeim tíma hefur hvor aðili um sig talið sig eiga rétt til alls þess arðs vegna veiði sem jörðinni tilheyrir. Vegna þessa hefur Veiðifélag Grímsár og Tunguár frá árinu 1994 ekki verið fáanlegt til að greiða arðinn út og hefur veiðifélagið haldið arðgreiðslum jarðarinnar aðgreindum á sérstökum vörslureikningi frá þeim tíma. Samkvæmt upplýsingum frá veiðifélaginu var innistæða á reikningnum 2.484.807 krónur þann 31. desember 2003 og munu 96.000 króna arðgreiðslur hafa bæst við upphæðina síðan, auk vaxta.
II.
Til stuðnings kröfu um viðurkenningu á rétti til greiðslu þeirrar er fékkst fyrir hluta fullvirðisréttar Þverfells við söluna 1992 vísar stefnandi til þess að þegar ríkisvaldið hafi hafið að takmarka heimildir til landnýtingar með framleiðslukvótum í landbúnaði hafi falist í þeim aðgerðum takmarkanir á eignarrétti landeigenda. Ekki sé meginmunur á því hvaða hugtök hafa verið notuð af hálfu löggjafans um þá skerðingu, fyrst hafi verið rætt um búmark, síðar fullvirðisrétt og að endingu greiðslumark. Hvað það álitamál sem hér um ræðir kveður stefnandi af dómaframkvæmd Hæstaréttar Íslands mega ráða að sömu sjónarmið gildi hvaða nafni sem skerðingin hafi verið nefnd. Í öllum tilvikum hafi í raun verið um að ræða aðferðir við að takmarka framleiðsluheimildir einstakra bújarða. Takmarkanirnar hafi verið almennar og stjórnvöld talið þær heimilar bótalaust.
Í máli þessu segir stefnandi deilt um rétt til endurgjalds fyrir hluta framleiðsluréttar sem seldur hafi verið frjálsri sölu til ríkisins á grundvelli heimildar sem ríkisvaldinu hafi verið veitt með lögum nr. 5/1992 til kaupa á fullvirðisrétti bújarða. Eins og framsali umrædds framleiðsluréttar hafi verið háttað telur stefnandi engan vafa geta leikið á því að framsalið hafi skert eignarrétt hans varanlega og af þeim sökum beri honum þeir fjármunir sem ríkið hafi greitt fyrir framleiðsluréttinn. Eigandi og ábúandi jarðarinnar hafi orðið ásáttir um að skilja tiltekinn hluta framleiðsluréttinda, er jörðinni fylgdu, frá henni. Ráðstöfun þessi sé óafturkræf og verði framleiðsluheimildir jarðarinnar ekki auknar nema með því að kaupa slíkar heimildir af þriðja aðila.
Stefnandi vísar til þess að í d. lið 7. gr. laga nr. 5/1992 segi að frá 1. september 1992 séu aðilaskipti greiðslumarks heimil milli lögbýla. Í 2. mgr. komi fram að leiguliði hafi heimild til að kaupa sér framleiðslurétt sem skráður verði á hans nafn. Landeigandi eigi þá ekki tilkall til þeirra réttinda þess utan að hann eigi að þeim forkaupsrétt kjósi leiguliði að selja þau aftur. Af reglum þessum segir stefnandi þá ályktun verða dregna að sá framleiðsluréttur sem fylgi jörðinni í öndverðu í samræmi við takmarkanir löggjafans á framleiðsluheimildum hljóti að teljast eign landsdrottins en ekki leiguliða þó svo sá síðarnefndi hafi heimild til að nýta hann eins og önnur réttindi sem jörðinni fylgi. Söluandvirði réttindanna sé því raunverulega bætur fyrir varanlega skerðingu eignarréttar sem jarðareiganda beri. Þessu til stuðnings kveðst stefnandi vísa til dóma Hæstaréttar Íslands, einkum dóms réttarins frá 8. mars 2001 í máli nr. 279/2000. Þá segir stefnandi fram hafa komið í fjölmörgum dómum Hæstaréttar að búmark, fullvirðisréttur eða greiðslumark fylgi lögbýli og að leiguliði eigi ekki neins konar hlutdeild í þessum réttindum við ábúðarlok. Röksemdum leiguliða um að framleiðslurétturinn hafi orðið til fyrir hans tilstuðlan hafi almennt verið hafnað.
Með vísan til framangreinds telur stefnandi einsýnt að honum beri andvirði þess fullvirðisréttar sem íslenska ríkið hafi keypt 1992 og varðveitt hafi verið síðan á bankabók nr. 66605.
Um lagarök hvað varðar rétt stefnanda til umræddrar greiðslu kveðst hann vísa til meginreglna eignarréttar um eignarheimildir landeigenda og heimildir leigutaka til að nýta þær eignarheimildir. Einnig vísi hann til ákvæða ábúðarlaga nr. 64/1976 og laga nr. 46/1985 eins og þeim var breytt með lögum nr. 5/1992, einkum 41. og 42. gr. laga nr. 46/1985, sbr. c. og d. liði 7. gr. laga nr. 5/1992.
Kröfu sína um viðurkenningu á rétti til arðs af veiðirétti í Grímsá (Tunguá samkvæmt framansögðu) reisir stefnandi á að rétturinn hafi verið undanskilinn samkvæmt erfðafestusamningi árið 1951. Skilja beri orðið „veiðivatna“ í erfðafestusamningnum svo að þar sé bæði átt við ár og vötn. Sá skýringarmáti sé í samræmi við orðnotkun vatnalaga nr. 15/1923 þar sem orðið vötn sé bæði notað um ár og stöðuvötn, t.d. í heiti laganna. Einnig megi nefna 7. gr. laganna þar sem segi: „Vötn öll skulu renna sem að fornu hafa runnið.
Stefnandi heldur því fram að veiði hafi öll verið undanskilin við leigu jarðarinnar Þverfells, en það hafi verið heimilt samkvæmt þágildandi lögum. Í 3. mgr. 2. gr. laga nr. 76/1970 sé kveðið á um að veiði fylgi ábúð nema öðru vísi sé samið og þurfi slíkur samningur samþykki veiðimálastjóra að fengnu áliti veiðimálanefndar. Samið hafi verið um að veiðiréttur jarðarinnar Þverfells væri undanskilinn leiguafnotum ábúanda og hafi sá samningur verið gerður áður en lögin um lax- og silungsveiði tóku gildi. Af þeim sökum verði gildi hans ekki dregið í efa þó svo ekki hafi verið aflað samþykkis nefndra aðila á efni hans. Í þessu sambandi segir stefnandi mega hafa hliðsjón af 3. gr. sömu laga sem veiti landeigendum rétt til að leysa til sín veiðirétt jarða sem varanlega hafi verið skilinn frá jörðunum fyrir gildistöku laganna. Slíkir samningar séu ekki ógildir en jarðeigendum veittar sérstakar heimildir til að ná til sín veiðiréttinum, en þá gegn greiðslu endurgjalds.
Einsýnt er að mati stefnanda að ákvæðum laga nr. 76/1970 sem þrengi heimildir landeiganda til að ráðstafa eignarréttindum sínum verði ekki beitt fyrr en eftir gildistöku þeirra. Þá geti reglur þess efnis ekki hróflað við þegar gerðum samningum nema fyrir því sé skýlaus lagaheimild. Þar sem slíkri heimild sé ekki fyrir að fara í því tilviki sem hér um ræði njóti landeigandi þessara réttinda samkvæmt erfðafestusamningnum. Því verði að taka til greina kröfu stefnanda um viðurkenningu á rétti hans til þeirra arðgreiðslna sem frá 1994 hafi verið lagðar inn á bankabók í vörslum Veiðifélags Grímsár og Tunguár.
Til stuðnings síðastgreindri kröfu sinni vísar stefnandi til ákvæða vatnalaga nr. 15/1923 og ákvæða laga nr. 76/1970 um lax- og silungsveiði, auk meginreglna eignarréttar um ráðstöfunarheimildir fasteignareiganda yfir eign sinni og áskilnað um lagaheimild til að skerða slík réttindi.
Um heimild til að sækja framangreindar kröfur í einu máli vísar stefnandi til 1. mgr. 27. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, kröfurnar eigi rætur sínar að rekja til sama löggernings, erfðafestusamningsins frá 1951.
Hvað varðar kröfu um málskostnað tekur stefnandi sérstaklega fram að hann sé ekki virðisaukaskattskyldur aðili. Við ákvörðun málskostnaðar verði því að taka tillit til þeirrar skyldu stefnanda að greiða virðisaukaskatt af málflutningsþóknun.
III.
Stefnda telur að henni beri bætur þær fyrir skerðingu fullvirðisréttar sem greiddar voru inn á bankabók nr. 66605 í Landsbanka Íslands. Byggir stefnda á því að sá fullvirðisréttur sem á jörðinni er sé fyrst og fremst til kominn vegna vinnu ábúenda og framkvæmda á jörðinni og eigi því með réttu að tilheyra þeim. Burtséð frá því hverjum fullvirðisrétturinn tilheyri við möguleg ábúðarlok telur stefnda ljóst að bætur þær sem fyrir skerðingu fullvirðisréttarins árið 1991 (svo) komu tilheyri henni sem ábúanda. Stefnda bendir í því sambandi á að skerðing sú sem framkvæmd hafi verið á fullvirðisrétti á árinu 1991 (svo) hafi fyrst og fremst verið kjaraskerðing fyrir ábúendur sem framleiðendur er skert hafi þær tekjur sem þeir höfðu af búrekstri sínum. Bótum þeim sem fyrir fullvirðisréttin komu hafi augljóslega verið ætlað að bæta framleiðendum tekjumissinn. Á skattframtölum ábúenda 1992 og 1993 hafi þeir talið bæturnar til tekna í samræmi við leiðbeiningar ríkisskattstjóra þar um.
Skerðing á fullvirðisréttinum hefði að sögn stefndu orðið 27,9 % og bætur fyrir hann 1.022.377 krónur, í stað 1.259.512 króna, ef ábúendur hefðu ekki haft að því frumkvæði að selja fullvirðisréttinn. Skýrir stefnda fyrrgreindu fjárhæðina nánar svo að 450 kr./kg hefðu fengist fyrir 10 % og 380 kr./kg fyrir 17,9 % Liggi því fyrir að ef ábúendur hefðu ekki gripið til þess ráðs að minnka framleiðslu með frjálsri sölu á fullvirðisréttinum hefði skerðing hans orðið meiri en raunin varð og lægri bætur komið fyrir. Þær bætur hefðu verið greiddar beint til ábúenda, sbr. bréf Framleiðsluráðs landbúnaðarins til maka stefndu, dags. 9. nóvember 1995. Í þessu sambandi segir stefnda rétt að geta þess að þær reglur hafi gilt um greiðslu bóta vegna skerðingar á fullvirðisrétti á jörðum sem í eigu ríkisins voru að bæturnar voru greiddar óskiptar til ábúenda, en það sé til marks um að greiðslur fyrir fullvirðisréttinn hafi verið ætlaðar framleiðendum sem bætur fyrir þá framleiðsluskerðingu sem þeir hafi þurft að þola með minnkuðum fullvirðisrétti.
Stefnda heldur því fram að af dómum sem gengið hafi um fullvirðisrétt, og síðar greiðslumark, verði ekki dregin sú ályktun að þeim beri ekki hinar umdeildu bætur. Dómar þess efnis að greiðslumark fylgi lögbýli og sé ekki endilega eign ábúenda við ábúðarlok hafi ekki fordæmisgildi í málinu. Vísar stefnda til þess að í lögum nr. 99/1993 um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum sé sérstakt ákvæði þess efnis að greiðslumark fylgi lögbýli, en ekkert slíkt ákvæði hafi gilt varðandi fullvirðisrétt. Jafnframt verði að horfa til þess að í málinu sé ekki verið að deila um eignarrétt á fullvirðisrétti við ábúðarlok, heldur um bætur vegna framleiðsluskerðingar sem skerðing fullvirðisréttarins hafi haft í för með sér. Ábúendur hafi nú í rúm tíu ár frá því að skerðingin átti sér stað, eins og raunar í áratugi þar á undan, stundað sauðfjárrækt að Þverfelli. Því sé alveg ljóst að nefnd framleiðsluskerðing hafi fyrst og fremst bitnað á möguleikum þeirra til að afla sér lífsviðurværis.
Hvað varðar kröfu stefnanda er lýtur að arði af veiðirétti í Tunguá vísar stefnda til þess að áðurnefndur erfðafestusamningur hafi verið gerður í mars árið 1951. Í honum hafi meðal annars verið að finna ákvæði þess efnis að landeigandi áskilji sér rétt til veiðivatna jarðarinnar, með þeim takmörkunum sem í samningnum greini. Við samningsgerðina hafi verið í gildi lög nr. 112/1941 um lax og silungsveiði. Í 3. mgr. 2. gr. laganna hafi verið kveðið á um það að þegar jörð væri byggð á leigu fylgdi veiði ábúðinni nema öðru vísi semdist og atvinnumálaráðherra samþykkti. Efnislega sambærilegt ákvæði hafi æ síðan verið að finna í lögum um lax- og silungsveiði, sbr. nú 3. tölulið 2. gr. laga nr. 76/1970, en samkvæmt þeim lögum sé það þó veiðimálastjóri sem ætlað sé að samþykkja slíka samninga að fengnu áliti veiðimálanefndar. Stefnda viti ekki til þess að umræddur ábúðarsamningur hafi á sínum tíma, að því er varðar ákvæði um veiðirétt, verið borinn undir samþykki eða samþykktur af atvinnumálaráðherra. Hafi slíks samþykkis ekki verið aflað telur stefnda að ekki sé á samningnum byggjandi að því er varðar veiðirétt landeiganda.
Þó svo fyrir lægi að samningurinn hefði verið samþykktur af atvinnumálaráðherra segir stefnda það meginreglu að veiðiréttur skuli fylgja ábúð. Ábúðarsamningar sem undanskilji veiði þurfi því að vera skýrir og þá eigi að túlka þröngt. Að áliti stefndu sé ljóst að það hafi aðeins verið ætlun aðila að undanskilja veiði í Reyðarvatni og Uxavatni. Um það vísar stefnda til framlagðrar skýrslu móður sinnar, Herdísar Guðmundsdóttur, dags. 10. maí 1999.
Til stuðnings kröfum sínum vísar stefnda til ábúðarlaga nr. 64/1976 og meginreglna um rétt ábúanda. Einnig byggi stefnda á lögum nr. 112/1941 um lax- og silungsveiði, einkum 3. tl. 2. gr. laganna og samsvarandi ákvæðum núgildandi laga um sama efni.
IV.
Þann 11. mars 1991 var gerður samningur milli landbúnaðarráðherra, fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands, og Stéttarsambands bænda um framleiðslu mjólkur- og sauðfjárafurða.
Í viðauka I við búvörusamninginn, en svo var ofangreindur samningur nefndur, var því lýst hvernig staðið skyldi að því að aðlaga framleiðslu sauðfjárafurða að innanlandsmarkaði með því að fækka sauðfé og draga úr framleiðslu. Samkvæmt upphafsorðum viðauka I skuldbatt ríkissjóður sig til að kaupa fullvirðisrétt, allt að 3.700 tonna framleiðslu, á tímabilinu 1. maí 1991 til 31. ágúst 1992. Á móti skuldbundu bændur sig til að minnka bústofn um tilsvarandi fjölda kinda og sölunni næmi. Í þessum tilgangi bauðst ríkissjóður til að kaupa af framleiðendum fullvirðisrétt á tímabilinu frá 1. maí 1991 til 31. ágúst 1991 á 600 kr./kg, sbr. kafla 1.2. í viðaukanum. Framleiðendum sem seldu í það minnsta 25 % af fullvirðisrétti sínum á greindu tímabili var tryggt að ekki kæmi til frekari skerðingar á fullvirðisrétti þeirra, sbr. kafla 2.4. viðaukans.
Svo ná mætti markmiðum búvörusamningsins um áðurnefnda aðlögun að fullu var síðan ráð fyrir því gert að fullvirðisréttur framleiðenda skyldi skertur í tveimur áföngum. Í fyrri áfanganum skyldu greiddar 450 kr./kg, sbr. kafla 2.2. viðaukans, en í þeim síðari 380 kr./kg, sbr. kafla 7.1. Hversu mikil sú skerðing þyrfti að vera réðst af því hversu margir framleiðendur seldu fullvirðisrétt sinn og var skerðingin því mismikil eftir svæðum.
Í tengslum við gerð búvörusamningsins voru sett lög nr. 5/1992 um breytingu á lögum nr. 46/1985 um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum. Horfið var frá greiðslu útflutningsbóta og því að miða við fullvirðisrétt hverrar bújarðar en í stað þess teknar upp beingreiðslur. Til ákvörðunar réttar til beingreiðslna var hverri bújörð ákvarðað greiðslumark. Við fyrstu ákvörðun greiðslumarks var stuðst við fullvirðisrétt jarðar en í lögum nr. 5/1992 voru ákvæði um aðlögun fullvirðisréttar að innanlandsmarkaði. Jafnframt voru í lögunum ákvæði um heimildir ríkisins til að kaupa fullvirðisrétt af einstökum framleiðendum með það að markmiði að draga úr heildarframleiðslunni. Fyrir þennan rétt skyldi ríkið greiða ákveðið kílóverð ásamt förgunarbótum. Þá voru í lögunum ákvæði um að ef markmið um aðlögun framleiðslumagns að innanlandsmarkaði næðust ekki með þessu móti kæmi til flatrar skerðingar á framleiðendur. Voru þessi ákvæði í samræmi við ákvæði búvörusamningsins frá 11. mars 1991. Þá voru og um þetta efni sett lög nr. 112/1992 en þau voru, líkt og lög nr. 5/1992, breytingarlög á lögunum nr. 46/1985.
V.
Stefnandi hefur til stuðnings kröfum sínum í málinu vísað til dómafordæma Hæstaréttar Íslands sem og laga nr. 5/1992 er áður var getið. Í dómi réttarins í máli nr. 279/2000, sem kveðinn var upp 8. mars 2001, er fjallað um hugtakið búmark. Í dóminum segir að með reglugerð nr. 465/1983, sem sett hafi verið samkvæmt lögum nr. 95/1981 um Framleiðsluráð landbúnaðarins, verðskráningu, verðmiðlun og sölu á landbúnaðarvörum o.fl., hafi búmark verið skilgreint á þann veg, að það væri tala ærgildisafurða, sem fundin væri fyrir hvern framleiðanda og höfð til viðmiðunar, þegar ákveða þyrfti mismunandi verð fyrir búvöru til framleiðanda vegna framleiðslustjórnunar. Búmarki hefði ekki verið úthlutað sem framleiðslurétti, heldur hafi það eingöngu verið viðmiðunartala, sem skerðing á afurðaverði hafi reiknast frá. Engu að síður hafi með því skapast takmarkaður réttur til handa framleiðendum búvara, sem haft hafi getað fjárhagslega þýðingu fyrir þá.
Við setningu laga nr. 46/1985 um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum var hætt að miða rétt hvers einstaks framleiðanda við búmark en í stað þess var tekið upp hugtakið fullvirðisréttur. Fullvirðisréttur var viðmið þess afurðamagns sem hver einstakur framleiðandi fengi fullt verð fyrir. Í reglugerð nr. 339/1986 var hugtakið fullvirðisréttur skilgreint sem það magn mjólkur og sauðfjárafurða sem framleiðendum væri ábyrgst fullt verð fyrir á grundvelli samnings samkvæmt a-lið 30. gr. laga nr. 46/1985. Hugtakið fullvirðismark var hins vegar skilgreint sem samanlagður fullvirðisréttur allra framleiðenda á búmarkssvæði til framleiðslu mjólkur- eða sauðfjárafurða reiknaður sem hlutfall af samanlögðu búmarki svæðisins í viðkomandi búgrein. Í reglugerð nr. 445/1986 var fullvirðisréttur síðan skilgreindur sem það magn sauðfjárafurða sem búmarkssvæði og/eða framleiðendum væri ábyrgst fullt verð fyrir á grundvelli samnings samkvæmt a-lið 30. gr. laga nr. 46/1985. Sambærilega skilgreiningu var að finna í reglugerðum nr. 443/1987, 440/1988, 466/1989 og 407/1990.
Þrátt fyrir tilkomu fullvirðisréttar hafði búmarkið áfram mikið gildi og myndaði það grunn framleiðslustjórnarinnar og hafði veruleg áhrif á fullvirðisrétt einstakra framleiðenda.
VI.
A.
Samkvæmt framansögðu var þann 11. mars 1991 gerður samningur milli landbúnaðarráðherra, fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands, og Stéttarsambands bænda um framleiðslu mjólkur- og sauðfjárafurða. Meðal markmiða samningsins var að koma á og viðhalda jafnvægi í framleiðslu og sölu mjólkur- og sauðfjárafurða. Í viðauka I með samningnum kom fram hvernig samningsaðilar hygðust ná því markmiði að laga þáverandi fullvirðisrétt að innanlandsmarkaði. Helstu efnisatriði viðaukans er mál þetta varða eru rakin í kafla IV hér að framan.
Samkvæmt framlögðum samningum þáverandi ábúenda Þverfells, stefndu og föður hennar, Björns Davíðssonar, við landbúnaðarráðherra fyrir hönd ríkissjóðs, seldu þeir, með samþykki eiganda jarðarinnar, 25 % af fullvirðisrétti Þverfells I og 10% af fullvirðisrétti Þverfells II í byrjun apríl 1992 og voru greiddar 600 kr./kg fyrir. Er í samningum ábúenda við ríkissjóð vísað til þess að þeir séu gerðir á grundvelli tilboðs ríkissjóðs um kaup á fullvirðisrétti í sauðfjárframleiðslu samkvæmt 1. tl. viðauka I við áðurnefndan samning frá 11. mars 1991 um aðlögun fullvirðisréttar í sauðfjárframleiðslu að innanlandsmarkaði. Það að greiddar hafi verið 600 krónur fyrir kg samrýmist hins vegar ekki dagsetningum í ákvæðum viðauka I þegar horft er til dagsetninga undirritana samninganna. Þá er að finna í samningunum dagsetningar sem ekki heldur samrýmast þeim dagsetningum. Hins vegar er allt að einu óumdeilt í málinu að umræddur hluti fullvirðisréttar Þverfells var seldur fyrir 15. september 1992 og fyrir hann fengust 600. kr./kg. Fullvirðisréttur Þverfells II var síðan með þvingaðri skerðingu skertur um 17,9 % að auki og voru fyrir þann hluta greiddar 380 kr./kg, en á svæði Þverfells varð hlutfall þeirrar skerðingar 27,9 %.
Stefnandi hefur kröfum sínum til stuðnings sérstaklega vísað til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 279/2000, sem kveðinn var upp 8. mars 2001, og einnig dóms réttarins í máli nr. 310/1999, uppkveðnum 24. febrúar 2000. Við mat á fordæmisgildi þessara dóma Hæstaréttar verður að hafa í huga að í báðum málunum var deilt um hvort greiðslumark tilheyrði ábúanda eða eigendum jarða, en í settum lögum, sbr. lög 99/1993, var að finna ákvæði þess efnis að greiðslumark fylgdi lögbýli, en ekkert slíkt ákvæði var í settum lögum hvað fullvirðisrétt varðaði. Þá var aðstaðan í báðum þessum málum sú að viðkomandi bændur voru alfarið að hætta framleiðslu á jörðunum.
Í tengslum við gerð búvörusamningsins vorið 1991 voru sett lög á Alþingi nr. 5/1992 um breytingu á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, nr. 46/1985, með síðari breytingum. Í lögunum voru ákvæði sem efnislega samræmdust ákvæðum í títtnefndum viðauka I. Þá voru og samþykkt á árinu 1992 lög nr. 112/1992 sem einnig breyttu lögum nr. 46/1985. Í frumvarpi til laga nr. 112/1992 var í 17. gr. lagt til að við 39. gr. laga nr. 46/1985, sbr. a-lið 7. gr. laga nr. 5/1992 bættist ný málsgrein, svohljóðandi:
„Greiðslur vegna niðurfærslu fullvirðisréttar til framleiðslu sauðfjárafurða skulu greiddar handahafa réttar til beinna greiðslna á lögbýlinu vegna framleiðslu sauðfjárafurða verðlagsárið 1993-1994 samkvæmt skrám Framleiðsluráðs landbúnaðarins 31. janúar 1993. Þetta gildir þó ekki ef gert er samkomulag á milli ábúanda og eiganda lögbýlis, þegar ekki er um sömu aðila að ræða, um annan hátt á greiðslum, enda berist tilkynning þess efnis til landbúnaðarráðuneytisins fyrir 31. janúar 1993.“
Við meðferð málsins á Alþingi lagði landbúnaðarnefnd til að bætt yrði annarri málsgrein við umrætt ákvæði, svo hljóðandi:
„Taki leiguliði við greiðslunum getur eigandi lögbýlis óskað eftir því við ábúðarlok að tekið verði tillit til þeirra við mat skv. 16. gr. ábúðarlaga, nr. 64/1976, að því marki sem þær teljast bætur fyrir skerðingu á búrekstrarstöðu eftir lok ábúðartímans.“
Í nefndaráliti landbúnaðarnefndar sagði um þessa breytingartillögu nefndarinnar:
„Sú viðbót, sem lögð er til við 17. gr. frumvarpsins, er þess efnis að eigandi lögbýlis geti óskað eftir því við ábúðarlok leiguliða að greiðslur, sem hann hefur þegið sem bætur fyrir skerta búrekstrarstöðu, skuli koma til mats skv. 16. gr. ábúðarlaga. Réttlátt þykir að leiguliði taki við bótunum eins og frumvarpið gerir ráð fyrir. Sú staða getur aftur á móti komið upp að leiguliði yfirgefi jörðina skömmu eftir að hann hefur tekið við bótum og er það þá eigandinn sem situr eftir með skerta eign. Af þessum ástæðum þykir eðlilegt að unnt sé að taka tillit til umræddra bóta í uppgjöri eiganda og leiguliða við ábúðarlok.“
Samkvæmt öllu framansögðu er ljóst að bætur, sem greiddar voru við lok umrædds aðlögunartímabils vegna þvingaðrar skerðingar á fullvirðisrétti, tilheyrðu, semdist ekki um annað milli ábúanda og jarðareiganda, þeim fyrrnefnda. Hins vegar áttu landsdrottnar sem fengu jörð sína úr ábúð skömmu eftir skerðinguna möguleika á að ná til sín umræddum fjármunum í tengslum við framkvæmd mats á grundvelli 16. gr. þágildandi ábúðarlaga nr. 64/1976.
Maki stefndu, Rúnar Hálfdánarson, ritaði Framleiðsluráði landbúnaðarins í október 1995 og spurðist fyrir um hvaða reglur hefðu gilt um greiðslu bóta fyrir niðurfærslu fullvirðisréttar til framleiðslu sauðfjárafurða haustin 1991 og 1992. Í svarbréfi Framleiðsluráðs, dags. 9. nóvember 1995, sagði meðal annars:
„Eftir því sem best verður séð giltu engar sérstakar reglur um greiðslu bóta fyrir niðurfærslu fullvirðisréttar haustið 1991. Aðeins var um fáa einstaklinga á nokkrum búmarkssvæðum að ræða, en fjölmargir sauðfjárbændur seldu ofan af réttinum til þess að komast hjá niðurfærslu.
Varðandi greiðslu fyrir niðurfærsluna haustið 1992 giltu ákvæði 16. gr. laga nr. 112/1992, en þar segir m.a. að greiðslurnar skuli greiddar handhafa beinna greiðslna á lögbýlinu nema öðruvísi sé um samið milli ábúanda og eiganda.“
Af bréfi Framreiðsluráðs má glögglega ráða að flestir bændur, framleiðendur sauðfjárafurða, fóru sömu leið og ábúendur Þverfells með því að selja hluta fullvirðisréttarins og komast þannig hjá þvingaðri skerðingu hans síðar.
Þá liggur fyrir með framlögðu bréfi landbúnaðarráðuneytisins, dags. 28. ágúst 1991, að greiðslur fyrir fullvirðisrétt til sauðfjárframleiðenda á ríkisjörðum runnu alfarið til ábúenda, bæði fyrir samningsbundna fækkun og vegna skerðingar, gegn því að þær yrðu fyrndar á 10 árum.
Eins og mál þetta liggur fyrir dóminum þykir við úrlausn þess verða að líta heildstætt á þá aðlögun fullvirðisréttar að innanlandsmarkaði sem kveðið var á um í viðauka I við búvörusamninginn frá 11. mars 1991, sbr. og lög nr. 5/1992, þ.e. tímabilið frá 1. maí 1991 til 15. september 1992. Þrátt fyrir að ábúendur Þverfells, framleiðendur sauðfjárafurða á jörðinni, hafi árið 1991 eða 1992, með samþykki eiganda jarðarinnar, selt hluta fullvirðisréttar hennar var fullvirðisréttur jarðarinnar samkvæmt áðursögðu skertur enn frekar haustið 1992 á grundvelli greinar 7.1. í títtnefndum viðauka I. Fyrir liggur að ábúendur héldu áfram sauðfjárbúskap eftir hina umdeildu sölu fullvirðisréttarins. Árið 1996 tók stefnda alfarið við ábúð Þverfells og nýtir hún jörðina enn til sauðfjárræktar. Með vísan til þessa og alls þess sem að framan hefur verið rakið er það niðurstaða dómsins að greiðslur þær sem fengust fyrir fullvirðisrétt samkvæmt samningum ábúenda Þverfells og landbúnaðarráðherra fyrir hönd ríkissjóðs, er undirritaðir voru af hálfu ábúenda 1. apríl 1992, séu ekki eign eiganda jarðarinnar. Að þessari niðurstöðu fenginni ber að sýkna stefndu af þeirri kröfu stefnanda að viðurkennt verði að honum beri sem eiganda Þverfells réttur til innistæðu bankabókar nr. 66605 í útibúi Landsbanka Íslands hf. að Laugavegi 77 í Reykjavík.
B.
Í löggerningi þeim frá 27. mars 1951, sem málsaðilar nefna erfðafestusamning, og stefnda leiðir frá rétt sinn til ábúðar á jörðinni Þverfelli, er að finna svohljóðandi ákvæði um veiðirétt: „Ég áskil mér þó rétt til veiðivatna jarðarinnar, að því undanskyldu að ábúandi hefir jafnan rétti til veiða fyrir heimili sitt. ...“ Undir löggerninginn ritar nafn sitt þáverandi eigandi jarðarinnar, Sveinbjörn Finnsson, ásamt tveimur vitundarvottum.
Í málinu gerir stefnandi þá kröfu að viðurkennt verði að honum beri sem eiganda Þverfells réttur til arðs af veiðiréttindum jarðarinnar í Grímsá (Tunguá samkvæmt áðursögðu) sem greiddur hafi verið árlega frá árinu 1994 inn á bankabók í vörslu Veiðifélags Grímsár og Tunguár. Kröfu sína um sýknu af þessari kröfu byggir stefnda meðal annars á því að samþykkis atvinnumálaráðherra hafi ekki verið aflað fyrir því að veiðiréttur yrði undanskilinn, með þeim hætti sem að ofan greinir, þegar föður stefndu var byggð jörðin á leigu og af þeim sökum sé ekki á erfðafestusamningnum byggjandi að því er varðar veiðirétt eiganda jarðarinnar.
Í lögum um lax- og silungsveiði nr. 112/1941, sem í gildi voru er umræddur löggerningur var gerður, sagði í 3. mgr. 2. gr.: „Nú er jörð byggð á leigu, og fylgir þá veiði ábúðinni, nema öðruvísi semjist og atvinnumálaráðherra samþykki.“ Ákvæði þetta var í upphafi fært í lög með lögum um sama efni nr. 61/1932. Í frumvarpi til þeirra laga var í 2. mgr. 2. gr. hins vegar að finna fortakslaust ákvæði um að veiði fylgdi ábúð væri jörð byggð á leigu, sbr. bls. 811 í A-deild alþingistíðinda frá 1930. Í athugasemdum við umrædda grein frumvarpsins sagði síðan eftirfarandi á bls. 853: „Ákvæði 2. málsgr. er nýmæli. Nefndin lítur svo á, að eðlilegast sé og heppilegast, að þessar landsnytjar, veiðin, fylgi öðrum nytjum landsins og að ábúandi jarðarinnar, sem hefir önnur landsnot hennar, njóti einnig veiðinnar. Tilætlun nefndarinnar er, að ákvæði þetta sé ófrávíkjanlegt og að veiði því eigi verði undanskilin í ábúðarsamningi.“ Í meðförum þingsins kom fram sú breytingartillaga að bætt yrði inn í umrædda málsgrein orðunum „... nema öðruvísi semjist.“, sbr. bls. 1261 í A-deild alþingistíðinda frá 1932. Að framkominni þeirri tillögu kom fram önnur breytingatillaga þess efnis að á eftir greindum orðum samkvæmt fyrrnefndu breytingartillögunni yrðu felld inn í umrædda málsgrein orðin „... og atvinnumálaráðherra samþykki.“, sbr. bls. 1300 í A-deild alþingistíðinda frá 1932.
Í frumvarpi því sem að lokum var lagt fyrir Alþingi árið 1932, þingskjal 773, og samþykkt var af þinginu sem lög nr. 61/1932 um lax- og silungsveiði, var að finna báðar framangreindar breytingartillögur. Stóð ákvæðið síðan óbreytt er samþykkt voru lög nr. 112/1941 um lax- og silungsveiði samkvæmt framansögðu, sbr. 3. mgr. 2. gr. laganna.
Stefnda heldur því fram að eigandi Þverfells hafi ekki fengið samþykki atvinnumálaráðherra fyrir því að undanskilja veiðirétt við byggingu jarðarinnar á leigu til föður stefndu. Ljóst er samkvæmt 3. mgr. 2. gr. laga nr. 112/1941 og 1. mgr. 25. gr. ábúðarlaga nr. 8/1951, sem í gildi voru er umræddur löggerningur var gerður, að meginreglan var sú að réttur til lax- og silungsveiði fylgdi ábúð. Ef ákvæði 3. mgr. 2. gr. laga nr. 112/1941 er skýrt samkvæmt orðanna hljóðan þá verður veiðiréttur samkvæmt ákvæðinu ekki undan skilinn við byggingu jarðar á leigu nema fyrir því fáist samþykki atvinnumálaráðherra. Að þessu virtu og með vísan til framangreindrar meginreglu, sem og þess er ítarlega hefur verið rakið um tilurð umrædds ákvæðis, telur dómurinn það fortakslaust skilyrði, svo títtnefnt ákvæði í löggerningnum frá 27. mars 1951 verði mögulega talið skapa eigendum jarðarinnar Þverfells rétt til arðs vegna veiðiréttar jarðarinnar í Tunguá, að fyrir liggi samþykki atvinnumálaráðherra. Stefnandi hefur hins vegar ekki fært á það sönnur að þessa samþykkis hafi verið aflað, en um það ber hann sönnunarbyrðina samkvæmt almennum venjuhelguðum reglum um sönnun. Sýkna ber því stefndu af umræddri kröfu stefnanda.
C.
Með vísan til úrslita málsins, sbr. 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, dæmist stefnandi til að greiða stefndu málskostnað er hæfilega telst ákveðinn svo sem í dómsorði greinir.
Dóm þennan kveður upp Kristinn Halldórsson, settur héraðsdómari. Við uppsögu dómsins var gætt fyrirmæla 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991.
D Ó M S O R Ð:
Stefnda, Inga Helga Björnsdóttir, skal sýkn af öllum kröfum stefnanda, Veiðifélagsins Bláskóga ehf., í máli þessu.
Stefnandi greiði stefndu 900.000 krónur í málskostnað.