Hæstiréttur íslands

Mál nr. 499/2004


Lykilorð

  • Sjómaður
  • Ráðningarsamningur
  • Uppsögn
  • Sératkvæði


Fimmtudaginn 2

 

Fimmtudaginn 2. júní 2005.

Nr. 499/2004.

Dóra Elísabet Sigurjónsdóttir

(Einar Gautur Steingrímsson hrl.)

gegn

Eimskipum ehf.

(Hákon Árnason hrl.)

 

Sjómenn. Ráðningarsamningur. Uppsögn. Sératkvæði.

D krafði E ehf. um bætur samkvæmt 25. gr. sjómannalaga nr. 35/1985. Samkvæmt sjóferðabók E ehf. hafði hún starfað sem vélavörður á Selfossi í þremur ferðum og á Skógafossi í einni. Hélt hún því fram að hún hefði verið ráðin ótímabundið til starfa sem vélavörður á skipum E ehf. og að henni hefði í raun verið vikið fyrirvaralaust úr starfi þegar hún var afskráð af Skógafossi. Talið var að D hefði ekki tekist sönnun fyrir því að hún hefði verið ráðin ótímabundið til starfa á ótilgreind skip E ehf. Þá var talið að hún hefði verið ráðin tímabundið í störf vélavarðar á Selfossi. Með vísan til meðal annars þess að D hafði verið áður verið ráðin tímabundið sem vélavörður á skipum E ehf. og þess að hún þáði dagkaup fyrir störf sín en ekki laun samkvæmt fastlaunakerfi var talið að miða yrði við það að ráðning D í skiprúm á Skógafossi hefði verið tímabundin. Var E ehf. því sýknað af kröfum D.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 16. desember 2004. Hún krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 1.192.309 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 15. júní 2002 til greiðsludags. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður felldur niður.

I.

Áfrýjandi var ráðin vélavörður á Skógafossi, skip stefnda, frá 15. júní 2001 til 12. júlí sama ár og til sama starfa á Mánafossi frá 3. ágúst 2001 til 24. sama mánaðar. Hún mun hafa stundað nám við Vélskóla Íslands á haustmisseri 2001. Kvaðst hún í aðilaskýrslu sinni fyrir héraðsdómi að því loknu hafa verið um það bil hálfnuð með námið. Samkvæmt sjóferðabók áfrýjanda starfaði hún á árinu 2002 sem vélavörður á Selfossi, skipi stefnda, frá 22. janúar til 5. febrúar, frá 20. þess mánaðar til 19. mars og frá 3. apríl  til 30. sama mánaðar, en á Skógafossi frá 17. maí  til 15. júní.

Áfrýjandi heldur því fram að hún hafi 22. janúar 2002 verið ráðin ótímabundið til starfa sem vélavörður á skipum stefnda. Henni hafi í raun verið vikið fyrirvaralaust úr því starfi er hún var afskráð af Skógafossi 15. júní sama ár. Gerir hún í máli þessu kröfu um bætur samkvæmt 25. gr sjómannalaga  nr. 35/1985 vegna þeirra starfsloka.

Stefndi heldur því fram að áfrýjandi hafi verið ráðin tímabundið sem vélavörður á Selfossi 22. janúar 2002. Hafi þeirri ráðningu lokið 30. apríl sama ár enda hafi þeim verkefnum er hún var ráðin til að sinna þá verið lokið. Síðan hafi áfrýjandi aftur verið ráðin tímabundið 17. maí 2002 sem vélavörður á Skógafossi til að leysa nafngreindan skipverja af í einni ferð. Þeirri ferð hafi lokið 15. júní sama ár og þar með ráðningu áfrýjanda.

II.

Í sjómannalögum er gengið út frá þeirri meginreglu að sjómenn séu ráðnir í tiltekið skiprúm. Áfrýjandi verður þannig að bera sönnunarbyrði fyrir því að hún hafi í janúar 2002 verið ráðin ótímabundið til starfa á ótilgreind skip stefnda. Hefur henni ekki tekist sú sönnun. Verður því næst að líta á ráðningu hennar í skiprúm á Selfossi annars vegar og á Skógafossi hins vegar. Áfrýjandi var eins og að framan er rakið þrívegis lögskráð á Selfoss síðari hluta vetrar 2002 og afskráð í lok þriðju ferðar sinnar 30. apríl. Eftir það tók hún við ráðningu í skiprúm á Skógafossi 17. maí það ár án þess að hafa svo séð verði hreyft því að hún hafi verið ráðin ótímabundið í skiprúm á Selfossi. Þótt ekki hafi verið gerður skriflegur samningur við ráðningu hennar í skiprúm á síðarnefnda skipinu verður þessi háttsemi hennar ekki skilin á annan hátt en að hún hafi sjálf litið svo á að hún hafi verið ráðin tímabundið í skiprúm á því skipi.

Skriflegur samningur var ekki gerður við áfrýjanda er hún var 17. maí 2002 ráðin í skiprúm á Skógafossi sem þó er boðið í 1. mgr. 6. gr. sjómannalaga. Hefur stefndi sönnunarbyrði um að áfrýjandi hafi verið ráðin til tímabundinna starfa á skipinu. Eins og rakið er í hinum áfrýjaða dómi kom fram í vitnaskýrslu Guðna Þ. Sigurmundssonar, ráðninga- og launafulltrúa stefnda, að áfrýjandi hafi verið ráðin til einnar ferðar á Skógafossi til að leysa af vélavörð. Áfrýjandi stundaði nám í Vélskóla Íslands. Samkvæmt lögum nr. 113/1984 um atvinnuréttindi vélfræðinga, vélstjóra og vélavarða á íslenskum skipum er nánar tilgreindur siglingatími sem vélavörður nauðsynlegur til að öðlast atvinnuréttindi. Tímabundin vélavarðarstörf samhliða námi eru því eðlilegur hluti þess að nemendur skapi sér starfsréttindi í sínu fagi. Áfrýjandi hafði tvívegis verið ráðin tímabundið sem vélavörður á skipum stefnda sumarið 2001. Eftir nám á haustönn það ár kvaðst hún um það bil hálfnuð í námi sínu. Var að ofan komist að þeirri niðurstöðu að hún hafi að því loknu verið ráðin tímabundið í störf vélavarðar á Selfossi. Þegar til þessa er litið, sem og þess að áfrýjandi þáði dagkaup fyrir störf sín en ekki laun samkvæmt fastlaunakerfi sem almennt mun hafa verið varðandi fastráðna vélstjórnarmenn í starfi hjá stefnda, verður við það að miða að ráðning áfrýjanda í skiprúm á Skógafossi hafi verið tímabundin. Samkvæmt því verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest.

Rétt er að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

 

 

Sératkvæði

Ólafs Barkar Þorvaldssonar

Eins og fram kemur í atkvæði meirihluta vann áfrýjandi sem vélavörður á skipum stefnda, Skógafossi og Mánafossi, á árinu 2001. Aðilar eru sammála að um tímabundna ráðningu hafi verið að ræða, en áfrýjandi stundaði nám við Vélskóla Íslands þá um haustið. Snemma árs 2002 var áfrýjandi ráðin í starf vélavarðar á skip stefnda, Selfossi. Samkvæmt sjóferðabók áfrýjanda fór hún þrjár ferðir á skipinu á tímabilinu frá 22. janúar til 30. apríl 2002. Í kjölfar þess starfaði hún sem vélavörður á öðru skipi stefnda, Skógafossi, í einni ferð, eða frá 17. maí til 15. júní 2002.

Ágreiningur aðila veit að efni ráðningarsambands þeirra í milli vegna starfa hennar á skipum stefnda á árinu 2002. Áfrýjandi reisir kröfu sína á því að hún hafi verið fastráðin á ýmis skip stefnda 22. janúar 2002. Verði ekki fallist á það beri að telja að áfrýjandi hafi verið ráðin ótímabundið í tiltekið skiprúm á Skógafossi 17. maí 2002, en henni hafi verið vikið fyrirvaralaust úr starfi 15. júní það ár. Stefndi byggir hins vegar á því að áfrýjandi hafi verið ráðin tímabundið til starfa á skipum hans. Kröfur aðila og málsástæður eru nánar raktar í hinum áfrýjaða dómi.

Ég fellst á þau sjónarmið sem rakin eru í atkvæði meirihlutans að í sjómannalögum sé á því byggt að sjómenn séu ráðnir í tiltekið skiprúm. Hefur sá, sem heldur því fram að ráðning hafi verið miðuð við störf á ótilgreindum skipum, sönnunarbyrði fyrir því. Hefur áfrýjanda ekki tekist sú sönnun, en hann fór eins og áður segir úr tilteknu skiprúmi á Selfossi yfir á Skógafoss. Kemur því til skoðunar hvort áfrýjandi hafi verið ráðin ótímabundið í skiprúm á síðarnefnda skipinu.

Stefndi heldur því fram að áfrýjandi hafi við ráðninguna tilkynnt að hún myndi halda áfram námi sínu við Vélskóla Íslands um haustið 2002 og hafi því verið um hentuga sumarvinnu fyrir hana að ræða. Að loknum störfum áfrýjanda á Selfossi hafi hún verið ráðin til að leysa af tilgreindan vélavörð í einni ferð á Skógafossi. Bendir stefndi sérstaklega á að samkvæmt launaseðlum hafi áfrýjandi þegið svokallað dagkaup sem sé til marks um eðli ráðningarsambandsins. Áfrýjandi fullyrðir hins vegar að hún hafi í lok árs 2001 hætt námi við vélskólann um óákveðinn tíma. Því til stuðnings hefur áfrýjandi lagt fram vottorð skólans um að hún hafi ekki sótt um nám þar á árinu 2002. Þá heldur áfrýjandi því fram að umræddur vélavörður hafi í raun verið í veikindaleyfi og ekki komið til starfa að ferð lokinni. Hin raunverulega ástæða uppsagnar hennar úr skiprúmi á því skipi hafi verið vélarbilun í skipinu og hafi ekki hentað lengur fyrir stefnda að hafa mannskap á launum, enda hafi viðgerðin tekið langan tíma. Skoraði áfrýjandi á stefnda að leggja fram sönnun um annað.

Stefndi hlutaðist ekki um að gera skriflegan ráðningarsamning (skiprúmssamning) við áfrýjanda eins og honum er skylt samkvæmt 6. gr. sjómannalaga nr. 35/1985. Ber stefndi sönnunarbyrði fyrir því að ráðning áfrýjanda í skiprúm á Skógafossi hafi verið tímabundin. Framangreind gögn um skólavist áfrýjanda benda ekki til þess að áfrýjandi hafi tilkynnt stefnda að hún hygðist einungis vinna hjá honum tímabundið, eins og stefndi heldur fram. Þá hefur stefndi ekki upplýst með sannanlegum hætti um ástæðu þess að áfrýjandi var ráðin í skiprúm á Skógafossi. Ekki verður litið svo á að framburður Guðna Þórs Sigurmundssonar sem rakin er í héraðsdómi breyti nokkru þar um, enda er hann ráðningar- og launafulltrúi hjá stefnda og hafði fyrir hönd stefnda með ráðningu áfrýjanda að gera. Þrátt fyrir að áfrýjandi hafi þegið svokallað dagkaup samkvæmt launaseðlum leiðir það að framanrituðu virtu ekki til þess að stefndi hafi með fullnægjandi hætti fært fram þá sönnun sem honum ber. Verður því við það að miða að áfrýjandi hafi verið ráðinn ótímabundið í skiprúm á Skógafossi er henni var sagt upp skipsrúmssamningi með ólögmætum hætti.

            Uppsagnarfrestur á skiprúmssamningi yfirmanns farskips er þrír mánuðir samkvæmt 2. mgr. 9. gr. sjómannalaga, en annarra skipverja einn mánuður, sbr. 1. mgr. sömu greinar. Samkvæmt 2. mgr. 5. gr. laganna teljast yfirmenn vera: stýrimenn, vélstjórar, loftskeytamenn og brytar, svo og aðrir skipverjar sem skipstjóri eða útgerðarmaður hefur ráðið til sambærilegra og/eða sérhæfðra starfa. Í lögum nr. 113/1984 um atvinnuréttindi vélfræðinga, vélstjóra og vélavarða á íslenskum skipum er starfsviði vélavarða lýst. Að virtum ákvæðum framangreindra laga verða vélaverðir taldir til yfirmanna í skilningi sjómannalaga. Verður enda samningur milli Samtaka atvinnulífsins og Vélstjórafélags Íslands um kaup og kjör vélstjóra á kaupskipum ekki skilin svo að gerður sé sérstakur greinarmunur á uppsagnarfresti „yfirvélstjóra/vélstjóra/vélavarða“, sbr. grein 4.2., auk þess sem slíkur skilningur kemur fram í umburðarbréfum Landssambands íslenskra útvegsmanna vegna vélavarða á skipum. Bar áfrýjanda því þriggja mánaða uppsagnarfrestur.

Þegar litið er til atvika málsins verður ekki fallist á með stefnda að krafa áfrýjanda sé fallin niður fyrir tómlæti. Samkvæmt öllu framanrituðu á áfrýjandi rétt til bóta vegna ólögmætrar brottvikningar sem nemur fullum launum í þrjá mánuði frá uppsagnardegi, sbr. 25. gr. og 2. mgr. 9. gr. sjómannalaga. Tel ég því að fallast beri á kröfu áfrýjanda um að stefndi verði dæmdur greiða henni 1.192.309 krónur, með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 15. júní 2002 til greiðsludags. Samkvæmt þessari niðurstöðu er rétt að stefndi greiði áfrýjanda samtals 500.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 21. október 2004.

                Mál þetta, sem dómtekið var 7. október 2004, er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykja­víkur af Dóru Elísabetu Sigurjónsdóttur, kt. [...], Vesturhúsum 5, Reykjavík, gegn Eimskipum ehf., kt. 461202-3220, Pósthússtræti 2, Reykjavík, með stefnu sem birt var 28. janúar 2004.

                Dómkröfur stefnanda eru að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 1.192.309 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af sömu fjár­hæð frá 15. júní 2002 til greiðsludags.  Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu að teknu til­liti til virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.

                Dómkröfur stefnda eru aðallega að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefn­anda og tildæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda að mati dómsins.  Til vara er þess kraf­ist að stefnukröfur verði lækkaðar og málskostnaður felldur niður.

 

Helstu málavextir eru að stefnandi hefur starfað sem vélavörður á skipum stefnda.  Samkvæmt sjóferðabók hennar var hún vélavörður á Skógafossi 15. júní 2001 til 12. júlí 2001, og aftur 17. maí 2002 til 15. júní 2002, á Mánafossi 3. ágúst 2001 til 24. ágúst 2001, á Selfossi 22. janúar 2002 til 5. febrúar 2002 og síðan 20. febrúar 2002 til 19. mars 2002 og að lokum 3. apríl 2002 til 30. apríl 2002.  Með bréfi til stefnda 23. september 2003 krafðist stefnandi bóta vegna ráðningarslita.  Af hálfu stefnda var kröfu þessari hafnað á þeim forsendum að stefnandi hafi verið lausráðin, aðeins ráðin til einstakra ferða hverju sinni.

 

Stefnandi byggir á því að hún hafi verið fastráðin til starfa á skip stefnda 22. janúar 2002 og að ráðningu hennar hafi verið fyrirvaralaust slitið 15. júní 2002 er hún var afskráð úr skip­rúmi fv. Skógafoss.  Hún eigi rétt til skaðabóta samkvæmt 25. gr. sjómannalaga, full laun í þrjá mánuði.  Verði ekki fallist á fyrirvaralausa riftun skiprúmssamningsins, er á því byggt að hún eigi rétt til launa í þriggja mánaða uppsagnafresti, sbr. 2. mgr. 27. gr. sjó­mannalaga nr. 35/1985.

                Stefnandi vísar til þess að stefndi beri sönnunarbyrði fyrir því að ráðningartími stefn­anda hafi verið annar en hún heldur fram, þar sem skriflegur ráðningarsamningur hafi ekki verið gerður, svo sem stefndi hefði átt að sjá um skv. 6. gr. sjómannalaga.  Þá hafi stefnandi, sem yfirmaður á skipi skv. 2. mgr. 5. gr. laganna, þriggja mánaða upp­sagn­ar­frest, sbr. 2. mgr. 9. gr. laganna.

                Stefnandi byggir á því að hafa unnið hjá stefnda á launum eftir svokölluðu dag­launa­kerfi [fastlaunakerfi] er grundvallað sé á kjarasamningi milli Samtaka atvinnulífsins og Vélstjórafélags Íslands.  Þar séu í mánaðarlaunum fyrir sigldan mánuð m.a. innifallin laun fyrir frídaga, komu- og brottfarardaga, bakvaktir í heimahöfn og orlof.  Auðvelt sé því að framreikna bætur til handa stefnanda, hvort sem fallist verði á meðalbótakröfu hennar skv. 25. gr. sjómannalaga eða efndabótakröfu hennar skv. 2. mgr. 27. gr. laganna.

                Vísað er til þess að laun hennar fyrir hvern lögskráningardag hafi numið 12.498 krón­um.  Bótakrafa hennar sé miðuð við níutíu daga, þriggja mánaða uppsagnarfrest skv. 2. mgr. 9. gr. sjómannalaga, hvort sem miðað sé við meðalbætur skv. 1. mgr. 25. gr. lag­anna eða efndabætur skv. 2. mgr. 27. gr. laganna, og geri því 1.124.820 krónur.  Við þá fjár­hæð bætist glötuð lífeyrisréttindi, 6%, að fjárhæð 67.489 krónur, eða samtals bætur að fjár­hæð 1.192.309 krónur.  Með vísun til Hrd. 2001:1483 sé dráttarvaxta krafist frá rift­un­ar­degi 15. júní 2002 en til vara frá 15. september 2002, en þann dag hefði ráðningu stefnanda átt að ljúka miðað við þriggja mánaða uppsagnarfrest.

 

Stefndi byggir á því að stefnandi hafi verið ráðinn til tímabundinna starfa fyrir stefnda og hafi fengið greitt fyrir störf sín í samræmi við það.  Stefnandi hafi unnið í afleysingum fyrir fram ákveðnar ferðir á skipum stefnda og lokið störfum fyrir stefnda þegar þeim ferðum lauk.  Stefnandi eigi því hvorki rétt á skaðbótum skv. 25. gr. sjómannalaga né laun­um í þriggja mánaða uppsagnarfresti skv. 2. mgr. 27. gr. sömu laga.

                Vísað er til þess að launaseðlar stefnanda sýni að hún fékk greidd daglaun, er mið­ast við hvern lögskráningardag, en ekki föst mánaðarlaun eins og þegar um fastráðna starfs­menn er að ræða.  Hafi stefnandi engar athugasemdir gert við þetta launa­fyrir­komu­lag eða útgefna launaseðla meðan hún starfaði fyrir stefnda.

Því er mótmælt að stefnandi hafi verið á persónubundnum heildarlaunum fyrir óskil­greindan vinnutíma sigldan mánuð, sbr. kafla 1.7. í kjarasamningi Vélstjórafélags Íslands frá 1. nóvember 2000, svo sem haldið er fram af hálfu stefnanda.  Stefnandi hafi verið greitt dagkaup samkvæmt kafla 1.4. í kjarasamningi en ekki daglaun samkvæmt 1.7.2 gr. samningsins.  Dagkaup sé greitt starfsmönnum, er ráðnir eru tímabundið, fyrir hvern virkan lögskráningardag, en daglaun þeim sem eru í fastlaunakerfi.

Áréttað er að störfum stefnanda fyrir stefnda hafi lokið í samræmi við það sem áður hafi verið samið, þ.e. þegar ferð skipsins Skógarfoss lauk 15. júní 2002, en stefnandi  leysti vélvörðinn, Rögnvald Rögnvaldsson, af í þeirri ferð.  Stefnanda hafi því hvorki verið vikið úr skipsrúmi áður en ráðningartími hennar var liðinn né henni sagt upp störfum, fyrir fram ákveðnum starfstíma hefði einfaldlega lokið.

Varakröfu sína byggir stefndi á því að skv. kjarasamningi þeim sem hér um ræðir fari uppsagnarfrestur vélavarða skv. 9. gr. sjómannalaga nr. 35/1985.  Þar sé kveðið á um að uppsagnarfrestur á skiprúmssamningi sé einn mánuður en uppsagnarfrestur á skip­rúms­samningi yfirmanns séu þrír mánuðir.  Í 2. mgr. 5. gr. laganna segi að yfirmenn teljist: stýrimenn, vélstjórar, loftskeytamenn og brytar, svo og aðrir skipverjar sem skip­stjóri eða útgerðarmaður hefur ráðið til sambærilegra og/eða sérhæfðra starfa.  Ekki sé viður­kennt að starf vélavarðar sé svo sérhæft að jafna megi við störf tilgreindra yfirmanna enda hafi stefnandi ekki sýnt fram á að svo sé.  Stefnandi eigi því ekki rétt til bóta nema sem svari launum fyrir ætlaða þrjátíu lögskráningardaga til viðbótar frá 15. júní 2002 að telja.

Nú hafi stefnandi ekki starfað óslitið fyrir stefnda mánuð í einu nema þrisvar sinnum.  Eðlilegast sé því að fjárhæð bóta miðist við meðaltal þessara þriggja mánaða, þ.e. 291.620 krónur að viðbættu 6% lífeyrisjóðsiðgjaldi, 17.497 krónum, eða samtals 309.117 krónur.

 

Stefnandi, Dóra Elísabet Sigurjónsdóttir, gaf skýrslu fyrir rétti.  Hún sagði m.a. að hún hefði fyrst starfað hjá Eimskipum sumarið 2001.  Um tímabundið starf hafi verið að ræða.  Um haustið hafi hún farið í Vélskóla Íslands.  Í janúar 2002 hafi hún aftur hafið störf hjá stefnda.  Um fastráðningu hafi verið að ræða að hennar áliti, en [skriflegur] samningur hafi ekki verið gerður.  Hún hafi rætt við fyrirsvarsmenn stefnda um kaup og kjör sín og óskað eftir skriflegum samningi.  Af hálfu stefnda hefði verið lýst yfir að málið yrði skoðað.  Hvorki hafi verið rætt um fastan tíma, fastráðningu eða lausráðningu.

                Aðspurð kvaðst stefnandi ekki hafa farið í Vélskóla Íslands haustið 2002.  Hún hafi reynt það þetta haust eftir að hún var rekin.  Hún kvaðst hafa rætt við forstjóra Eimskipa eftir að hún var rekin.  Hafi hann hlustað á hana en sagt ósköp lítið og ekkert hefði gerst í framhaldi af því.  Hún hefði komist að því síðar í tíma í sjórétti í Vélskóla Íslands að réttur hefði verið brotinn á henni.

                Stefnandi kvaðst hafi verið um það bil hálfnuð í námi sínu í Vélskóla Íslands í byrjun janúar 2002.  Eftir miðjan júní 2002 hafi hún farið í kvöldskóla, í öldungadeild, og farið að þreifa fyrir sér á vinnumarkaðinum, hvort önnur vinna fengist.  Hafi hún skráð sig [af því tilefni] hjá vélstjórafélaginu, en illa hefði gengið.  Hún hefði ekki verið í vinnu í júní, júlí og ágúst 2002 að undanskildum sex daga túr sem hún hafi fengið í gegnum vél­stjóra­félagið.  Hún hafnaði því að upplýsa hvað hún hefði haft í laun fyrir þá vinnu.

 

Guðni Þ. Sigurmundsson gaf skýrslu fyrir rétti.  Hann sagði m.a. að hann væri ráðningar- og launafulltrúi hjá stefnda.  Hafi hann verið í þessu starfi á árinu 2002 og hafi hann haft  með ráðningu stefnanda að gera.  Hafi stefnandi verið ráðinn á Selfoss í janúar 2002.  Hefði stefnandi tjáð honum að hún hefði verið í vélskólanum, en vorönnin hentaði henni ekki þar sem hún gæti einungis tekið fáar einingar á þessari önn.   Hafi hún sótt eftir plássi í vél á skipunum.  Á þessum tíma hafi félagið verið að fara í stór verkefni í vélar­rúmi á Selfossi.  Hafi ætlunin verið sú að bæta við vélaverði, vera með tvo vélaverði um borð í einu.  Hafi hún því verið send þangað.  Ráðningin hafi verið miðuð við það verk­efni að mála vélarrúm skipsins.  Hafi stefnanda verið gerð grein fyrir þessu.  Eftir að þessu verkefni lauk hafi stefnandi farið af skipinu.  Skömmu síðar hafi vélavörður á Skógar­fossi farið í frí.  Hafi stefnandi verið send í eina ferð til að leysa hann af.  Ekki hafi verið rætt um annað en stefnandi færi aðeins þessa einu ferð.

                Guðni sagði að stefnandi hefði eftir þessa síðustu ferð komið og talað við þá og farið fram á fleiri ferðir en því miður hafi ekki á þeim tíma verið þörf fyrir fleiri véla­verði, auk þess sem annað hafi ekki verið fyrirsjáanlegt en að hún færi í vélskólann seinni hluta ágústmánaðar svo sem hún hafði tjáð honum í byrjun janúar.

                Guðni staðfesti að stefndi færi eftir kjarasamningi um kaup og kjör yfirvélstjóra, vél­stjóra og vélavarða á kaupskipum milli Samtaka atvinnulífsins annars vegar og Vél­stjóra­félags Íslands hins vegar.  Hann sagði að lausráðnir menn fengju greitt fyrir hvern skrán­ingardag svokallað dagkaup.

 

Ályktunarorð:  Aðila greinir á um hvort stefnandi hafi verið fastráðinn eða lausráðinn starfs­maður stefnda.  Launaseðlar, er lagðir voru fram af hálfu stefnanda í málinu, segja ber­um orðum að stefnandi hafi fengið laun frá stefnda sem vélavörður á dagkaupi.  Verður þá að líta til 4. gr. kjarasamnings aðila.  Þar segir m.a. að dagkaup fyrir hvern virkan lögskráningardag finnist með því að deila með 21,67 í tilgreind mánaðarlaun.  Ákvæði kjarasamnings um dagkaup firrir að vísu ekki útgerðarmann frá því að gera skrif­legan ráðningarsamning við skipsverja samkvæmt 6. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 og úti­lokar ekki að vélavörður á dagkaupi geti átt kröfu á uppsagnarfresti á skiprúmssamningi sé eigi á annan veg samið, sbr. 9. gr. sjómannalaga.

Launaseðlar og sjóferðabók stefnanda styðja staðhæfingu stefnda um að samið hafi verið um að stefnandi færi ákveðnar ferðir svo sem full heimild er til samkvæmt ákvæðum sjómannalaga um ráðningartíma.  Verður stefndi því ekki látinn bera hallann af því að hafa ekki staðið fyrir því að gera skriflegan ráðningarsamning.  Og þar sem stefn­andi hefur á hinn bóginn hvorki sýnt fram á né leitt líkur að því að hafa verið fastráðinn ber að sýkna stefnda af  kröfu stefnanda.

                Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af rekstri málsins.

                Páll Þorsteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.

DÓMSORÐ:

                Stefndi, Eimskip ehf., skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Dóru Elísabetar Sigurjóns­dóttur.

                Málskostnaður fellur niður.