Hæstiréttur íslands
Mál nr. 665/2013
Lykilorð
- Fjármálafyrirtæki
- Slit
- Afleiðusamningur
- Dráttarvextir
- Aðfinnslur
|
|
Fimmtudaginn 27. mars 2014. |
|
Nr. 665/2013.
|
Brim hf. (Þorsteinn Einarsson hrl.) gegn Kaupþingi hf. (Hlynur Halldórsson hrl.) |
Fjármálafyrirtæki. Slit. Afleiðusamningur. Dráttarvextir. Aðfinnslur.
K hf. krafði B hf. um greiðslu samkvæmt vaxtaskiptasamningi frá 10 apríl 2000, en samningurinn var réttilega efndur fram í október 2008. Hinn 9. október 2008 tók Fjármálaeftirlitið yfir vald hluthafafundar í KB hf., sem síðar varð K hf., vék stjórn hans frá og skipaði honum skilanefnd. Var vaxtaskiptasamningurinn réttilega efndur á gjalddaga 14. október 2008, en ekki fóru fram frekari greiðslur á grundvelli hans á síðari gjalddögum. B hf. byggði sýknukröfu sína einkum á því að K hf. hefði, frá 9. október 2008 til 22. apríl 2009, verið í aðstöðu sem jafna mætti til þess að bú hans hefði verið tekið til gjaldþrotaskipta og hefði það leitt til þess að vaxtaskiptasamningurinn hefði gjaldfallið. Í niðurstöðu Hæstaréttar var vísað til þess að B hf. hefði ekki reist vörn sína í héraði á því að sú aðstaða sem K hf. hefði verið í á framangreindu tímabili eða eftir það tímamark, hefði leitt til þess að honum hefði borið að fara að reglum XV. kafla laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. ef hann vildi að hin gagnkvæma efndaskylda vaxtaskiptasamningsins gilti áfram. Yrði því ekki leyst úr málinu á þeim grundvelli. Féllst Hæstiréttur á með héraðsdómi að B hf. bæri að greiða K hf. hina umkröfðu fjárhæð, en upphafsdagur dráttarvaxta var ákveðinn frá því tímamarki er mánuður var liðinn frá því krafa K hf. var með réttum hætti sett fram gagnvart B hf.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson og Viðar Már Matthíasson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 14. október 2013. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda, en til vara að hún verði lækkuð. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Í máli þessu krefur stefndi áfrýjanda um greiðslu samkvæmt vaxtaskiptasamningi frá 10. apríl 2000. Samkvæmt samningnum skyldi áfrýjandi greiða stefnda fasta vexti, 2,32%, af 430.000.000 japönskum jenum á sex mánaða fresti í fyrsta sinn 12. október 2000 en stefndi, á sömu gjalddögum og af sömu fjárhæð, greiða áfrýjanda breytilega vexti, sem tilgreindir voru sem ,,JPY LIBOR BBA“ og voru í upphafi samnings 0,16125%. Ágreiningslaust er að samningurinn var efndur réttilega fram í október 2008. Hinn 9. þess mánaðar tilkynnti Fjármálaeftirlitið að það tæki yfir vald hluthafafundar í Kaupþingi banka hf., sem þá var heiti stefnda, viki stjórn félagsins frá störfum og skipaði því skilanefnd sem tæki við öllum heimildum stjórnar þess samkvæmt ákvæðum laga nr. 2/1995 um hlutafélög.
Í gögnum málsins kemur fram að stefndi tilkynnti áfrýjanda 14. október 2008 að teknir hefðu verið fjármunir út af tilgreindum reikningi hans og keypt japönsk jen fyrir. Er ekki ágreiningur um að með þessu var gerður upp gjalddagi vaxtaskiptasamningsins, sem var þann dag. Í framhaldi af samskiptum vegna þessa óskaði áfrýjandi eftir upplýsingum frá stefnda um hverjir vextirnir yrðu ,,fyrir tímabilið frá október“. Því var svarað sama dag að þeir yrðu 1,17125%, en það voru þeir breytilegu vextir, sem miða bar við samkvæmt vaxtaskiptasamningnum, frá október 2008 og til gjalddagans 14. apríl 2009. Engar tilkynningar bárust frá stefnda til áfrýjanda vegna þess gjalddaga og heldur ekki þess sem vera átti 13. október 2009. Efni tilkynninga stefnda til áfrýjanda í desember 2009 og janúar 2010 er lýst í héraðsdómi.
Í greinargerð áfrýjanda í héraði var sýknukrafa hans einkum reist á því að stefndi hefði, eftir yfirtöku Fjármálaeftirlitsins á bankanum, verið í aðstöðu sem jafna mætti til þess að bú hans hefði verið tekið til gjaldþrotaskipta. Hafi sú aðstaða leitt til þess að vaxtaskiptasamningur aðila hafi ,,gjaldfallið“. Stefndi hafi heldur ekki sent tilkynningu um gjalddaga í apríl og október 2009. Það hafi auk þess verið stefndi sem vanefndi samning þeirra og hann hefði því ekki getað öðlast rétt til að rifta samningnum svo sem hann gerði. Eigi þetta að leiða til sýknu áfrýjanda af kröfu stefnda.
Áfrýjandi reisti vörn sína fyrir héraðsdómi ekki á því að sú aðstaða sem stefndi var í frá 9. október 2008 til 22. apríl 2009, er lög nr. 44/2009 um breyting á lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki með síðari breytingum tóku gildi, eða eftir það tímamark, hefði leitt til þess að honum hefði borið að fara að reglum XV. kafla laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. ef hann vildi að hin gagnkvæma efndaskylda vaxtaskiptasamningsins gilti áfram. Verður því ekki leyst úr málinu á þeim grundvelli.
Að þessu gættu, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um annað en dráttarvexti. Stefndi setti með réttum hætti fram kröfu sína á hendur áfrýjanda með bréfi 8. janúar 2010. Þótt gjalddagar samnings aðila hafi verið ákveðnir hvíldi sú skylda á stefnda, samkvæmt þeim skilmálum sem um samninginn giltu, að reikna út vexti á hverjum gjalddaga og tilkynna áfrýjanda um þá. Þessari skyldu sinnti hann ekki og það var fyrst ljóst framangreindan dag hver fjárkrafa hans var. Verður upphafsdagur dráttarvaxta því ákveðinn 8. febrúar 2010, sbr. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.
Málskostnaðarákvæði héraðsdóms verður staðfest. Áfrýjandi greiði stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Mál þetta var þingfest í héraði 10. mars 2011 og lagði stefndi þá fram stefnu og önnur skjöl af sinni hálfu. Var áfrýjanda veittur frestur til 7. apríl sama ár til þess að leggja fram greinargerð af sinni hálfu. Það gerði hann ekki á þeim degi og var málinu frestað í sama skyni fjórtán sinnum uns áfrýjandi lagði fram greinargerð 10. janúar 2012. Málið var næst tekið fyrir 7. mars 2012 og fór aðalmeðferð fram 15. mars 2013. Dómur var þó ekki kveðinn upp innan þess frests, sem greinir í 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Aðalmeðferð fór fram á nýjan leik 29. ágúst 2013 og var dómur upp kveðinn 4. september sama ár. Sá dráttur sem orðið hefur á meðferð málsins skýrist ekki af umfangi þess eða öðrum atriðum. Er þessi óhæfilegi dráttur á meðferð málsins aðfinnsluverður.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður að öðru leyti en því að dráttarvextir af kröfu stefnda, Kaupþings hf., á hendur áfrýjanda, Brimi hf., falla til frá 8. febrúar 2010.
Áfrýjandi greiði stefnda 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 4. september 2013.
Mál þetta var höfðað með birtingu stefnu 28. febrúar 2011. Það var dómtekið að nýju eftir endurflutning málsins 29. ágúst sl. í samræmi við 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991. Stefnandi er Kaupþing banki hf., Borgartúni 26, Reykjavík, en stefndi er Brim hf., Bræðraborgarstíg 16, Reykjavík. Í þinghaldi 15. mars sl. upplýsti lögmaður stefnanda að hann bæri nú heitið Kaupþing hf. með vísan til tilkynningar Fjármálaeftirlitsins frá 21. júlí 2011
Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 9.539.924 japönsk jen ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, af 2.425.167 japönskum jenum frá 14. apríl 2009 til 13. október 2009, en af 5.763.932 japönskum jenum frá þeim degi til 30. desember 2009 en af stefnufjárhæð málsins frá þeim degi til greiðsludags. Stefnandi krefst einnig málskostnaðar samkvæmt málskostnaðarreikningi eða samtals 1.816.175 króna að meðtöldum virðisaukaskatti.
Stefndi krefst aðallega sýknu af dómkröfu stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað að mati dómsins. Til vara krefst stefndi þess að dómkrafa stefnanda verði lækkuð verulega og að hvor aðili málsins verði látinn bera sinn kostnað af málinu.
I
Í máli þessu er deilt um efndir á vaxtaskiptasamningi sem Kaupþing banki hf. og Útgerðarfélag Akureyringa hf. (ÚA hf.). gerðu 10. apríl 2000.
Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 9. október 2008 tók stofnunin yfir vald hluthafafundar Kaupþings banka hf. og skilanefnd var skipuð í samræmi við 100. gr. a laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Stefnandi tók yfir öll réttindi samkvæmt vaxtaskiptasamningum á grundvelli ákvörðunar Fjármáleftirlitsins um ráðstöfun eigna og skulda frá 21. október 2008 þar sem sérstaklega er tiltekið að réttindi og skyldur samkvæmt afleiðusamningum flytjast ekki yfir til Nýja Kaupþings banka hf. Þá var ÚA hf. skipt upp árið 2006 og x2005 ehf. tók við hluta af eignum ÚA hf. Skiptingin kom til framkvæmda 1. janúar 2006 og x2005 ehf. tók yfir skuldbindingar ÚA hf. gagnvart stefnanda samkvæmt vaxtaskiptasamningnum. Þann 1. maí 2006 runnu síðan Brim hf. og x2005 ehf. saman með því að Brim hf. yfirtók x2005 ehf. Samruninn var tilkynntur fyrirtækjaskrá 24. maí 2006. Ágreiningslaust er að stefnandi Kaupþing hf. og stefndi Brim ehf. eru réttir aðilar málsins.
Samningurinn sem hér um ræðir frá 10. apríl 2000 ber yfirskriftina Vaxtaskiptasamningur. Samningurinn kveður á um viðmiðunarfjárhæðina JPY 430.000.000 og bar stefnda að greiða stefnanda fasta vexti, 2,32% á ári af þeirri fjárhæð. Skuldbinding stefnanda á hinn bóginn var að greiða stefnda af sömu fjárhæð og á sömu gjalddögum breytilega vexti sem voru millibankavextir af japönskum jenum (JPY), nánar tiltekið JPY LIBOR BBA. Uppgjör vaxta skyldi fara fram á sex mánaða fresti, í fyrsta sinn 12. október 2000. Samningurinn var til tíu ára eða til 12. apríl 2010.
Í samningi aðila er enn fremur ákvæði um svokallaða almenna skilmála en þar segir: „Auk þeirra ákvæða sem fram koma í samningi þessum gilda um hann almennir skilmálar um vaxta- og gjaldmiðlaskipti útgefnir af Sambandi íslenskra viðskiptabanka og Sambandi íslenskra sparisjóða 1997 (1. útgáfa) sem viðskiptamaðurinn hefur fengið afhenta og kynnt sér. Ef misræmi er milli ákvæða samnings þessa og almennu skilmálanna gilda ákvæði samningsins.“
Ágreiningslaust er að stefnandi og stefndi greiddu hvor öðrum umsamdar fjárhæðir frá október 2000 til og með október 2008.
Stefnandi segir að á gjalddaga samnings aðila, 14. apríl 2009, hafi vaxtaskiptin verið á þá leið að stefnda hafi borið að greiða stefnanda 4.974.334 jen en á sama tíma hafi stefnanda borið að greiða stefnda 2.546.167 jen. Skuld stefnda við stefnanda hafi því numið 2.428.167 jenum. Þessa skuld hafi stefndi ekki greitt í samræmi við samninginn. Á gjalddaga samnings, 13. október 2009, hafi aftur myndast skuld stefnda við stefnanda, þá að fjárhæð 3.335.765 JPY, sem stefndi hafi heldur ekki staðið skil á.
Stefnandi sendi stefnda bréf dagsett 18. desember 2009 þar sem vísað var til samnings aðila og tilkynnt að ógreiddir væru gjalddagar af hálfu stefnda samkvæmt honum. Markaðsvirði samningsins miðað við 16. desember 2009, í óhag fyrir stefnda, væri 5.312.267 krónur og samtals ógreiddar fjárhæðir af öllum samningum milli aðila næmu 8.110.429 krónum. Heildarstaðan samkvæmt samningnum væri sú að mikið tap væri fyrir viðskiptamann. Samkvæmt almennum skilmálum um viðskiptin hefði stefnandi heimild til að gjaldfella eða loka samningi væri veruleg vanefnd til staðar af hálfu viðskiptamanns. Veruleg vanefnd yrði að teljast vera til staðar af hálfu viðskiptamanns þar sem gjalddagar væru ógreiddir. Stefnandi gerði þá kröfu að ógreiddir gjalddagar yrðu greiddir auk dráttarvaxta í síðasta fyrir kl. 16:00 hinn 30. desember 2009 en að öðrum kosti mætti hann búast við því að samningnum yrði lokað.
Með bréfi dagsettu 6. janúar 2010 tilkynnti stefnandi stefnda að þar sem ekki hefði verið orðið við kröfu stefnanda í bréfinu frá 18. desember 2009 hefði samningnum verið lokað 30. desember 2009. Með bréfi dagsettu 8. janúar 2010 krafði stefnandi stefnda um greiðslu stefnufjárhæðar þessa máls, þ.e. 9.539.924 JPY. Stefnandi ítrekaði kröfuna með bréfi til stefnda dagsettu 14. júní 2010. Óumdeilt er að stefndi svaraði ekki þessum bréfum stefnanda. Í stefnu segir að þar sem stefnandi hafi ekki fengið fullnustu kröfu sinnar með innheimtuaðgerðum hafi hann þurft að höfða mál þetta til innheimtu skuldarinnar.
II
Í stefnu er því lýst að vaxtaskiptasamningar eins og aðilar gerðu með sér séu yfirleitt gerðir í þeim tilgangi að verja þann áhættu sem skuldar höfuðstól með breytilegum vöxtum þannig að viðsemjandinn (yfirleitt fjármálafyrirtæki) taki á sig áhættuna á breytilegu vöxtunum en fái greidda fasta vexti í staðinn. Ef hinir breytilegu vextir sem miðað er við eru hærri en föstu vextirnir fari fram uppgjör þar sem fjármálafyrirtækið greiði viðskiptamanninum nettómismuninn og öfugt ef breytilegu vextirnir eru lægri.
Í stefnu er uppgjörsaðferð og útreikningi dómkrafna stefnanda lýst:
Stefnandi segir að uppgjör og útreikningar á kröfum stefnanda séu í samræmi við ákvæði fyrrgreindra skilmála um vaxta- og gjaldmiðlaskipti sem vísað er til í samningnum frá 10. apríl 2000. Stefndi hafi vanefnt uppgjör við tvo gjalddaga en einn hafi verið eftir. Vegna greiðslufalls af hálfu stefnda hafi stefnandi rift og lokað samningi aðila með vísan til 9. gr. skilmálanna. Ákvæði greinar 9.1 um vanefnd á greiðslu samkvæmt skiptasamningi hljóðar svo: Inni samningsaðili ekki af hendi greiðslu á gjalddaga samkvæmt skiptasamningi eða vanefni annað ákvæði hans verulega og bæti ekki úr innan þriggja bankadaga frá því að hann fékk um það skriflega kröfu frá hinum samningsaðilanum, er þeim síðarnefnd heimilt að rifta öllum skiptasamningum milli þeirra. Riftunin skal tilkynnt skriflega.
Með vísan til 10. gr. skilmálanna hafi stefnandi reiknað út tjón sitt af vanefndum stefnda, eða svokallað markaðsvirði samningsins, og krafist greiðslu í samræmi við það. Um útreikninginn vísar stefnandi sérstaklega til gr. 10.2 í skilmálunum sem ber yfirskriftina Hagnaður og tap vegna markaðsaðstæðna en þar segir: Falli skiptasamningur úr gildi reiknar bankinn út þann hagnað og tap sem myndast hjá samningsaðilum við það að samningurinn fellur úr gildi. Útreikningurinn grundvallast á markaðsaðstæðum á síðasta gildisdegi samningsins og reiknast sem núvirði mismunarins, milli annars vegar þeirra greiðslna sem samningsaðili hefði átt að inna af hendi og hefði átt að fá, ef samningurinn hefði haldið gildi sínu, og hins vegar þeirra greiðslna sem samningsaðilinn hefði fengið frá eða hefði þurft að greiða einhverjum banka fyrir að ganga inn í samninginn í stað hins samningsaðilans. Stefnandi segir að það hafi verið nákvæmlega þetta sem hann hafi gert, reiknaðar hafi verið út kröfur sem höfðu myndast á gjalddögunum 14. apríl og 13. október 2009, eins og hér greinir:
Vaxtaskiptasamningur nr. 34802/35261 Greiðsluskylda stefnda
|
Skuldbinding stefnda: |
Skuldbinding stefnanda: |
|
|
|
Greiðsla vaxta 2,32% |
Greiðla vaxta JPY LIBOR BBA |
|
|
|
Af höfuðstól 430.000.000 JPY |
Af höfuðstól 430.000.000 JPY |
|
|
|
Vaxtatímabil 6 mánuðir í senn |
Vaxtatímabil 6 mánuðir í senn |
|
|
|
Samningstímabil 10.ap.00-12.ap.10 |
Samningstímabil 10.ap.00-12.ap.10 |
|
|
|
Dagaregla ACT/360 |
Dagaregla ACT/360 |
|
|
|
|
|
|
|
|
Eftirstöðvar/ógreitt |
Eftirstöðvar/ógreitt |
Mismunur/til greiðslu |
Samtals skuld |
|
14. apr. 09 4.974.334 JPY |
14. apr. 09 2.546.167 JPY |
14.apr.09 2.428.167 JPY |
2.428.167 JPY |
|
13. okt. 09 4.974.334 JPY |
13. okt. 09 1.638.569 JPY |
13.okt.09 3.335.765 JPY |
5.763.932 JPY |
|
|
|
30.des.09 3.775.992 JPY |
9.539.924 JPY |
[...]
Skuld stefnda við stefnanda samkvæmt tilgreindum vaxtasamningum hafi því numið 9.539.924 JPY. Varðandi breytilegu vextina kveður stefnandi þá vera sex mánaða vexti á JPY á vaxtaákvörðunardegi eins og þeir séu birtir af Bloomberg.
Nánar um mat á verðmæti eða kröfu vegna síðasta gjalddaga samningsins bendir stefnandi á að um sé að ræða vaxtaskiptasamning þar sem kveðið sé á um að stefndi greiði fasta vexti en stefnandi greiði fljótandi (breytilega) vexti af ákveðinni upphæð. Almennt sé markaðsverðmæti slíks samnings fundið út með því að núvirða áætlaðar framtíðargreiðslur af samningnum. Föstu greiðslurnar séu þekktar út líftíma samningsins og þær séu því lagðar saman og núvirtar, en samkvæmt samningnum skuli fastir vextir vera 2,32% á ári af viðmiðunarfjárhæð samningsins. Fljótandi greiðslurnar séu reiknaðar út frá spá um JPY-vaxtaferli sem birt sé á Bloomberg Mismunurinn á þessu tvennu myndi markaðsvirði samninga.
Aðeins einn vaxtagjalddagi hafi verið eftir af samningnum þegar hann hafi verið gjaldfelldur og því allar greiðslur þekktar. Því hafi verið verið hægt að reikna út kröfu stefnanda með einföldum og öruggum hætti.
Föstu vextirnir (stefndi greiðandi) hafi verið 2,32% og nemi sú greiðsla 4.974.334,3 JPY. Fljótandi vextirnir (stefnandi greiðandi) hafi verið 0,54% 12. apríl 2010 (JPY LIBOR 6M) og nemi sú greiðsla 1.167.450 JPY. Mismunur þessara tveggja greiðslna sé því 3.806.884,3 JPY sem hefði átt að koma til greiðslu 12. apríl 2010. Sú fjárhæð núvirt (vaxtareiknuð) til 30. desember 2009 nemi 3.775.992 JPY.
Við útreikning kröfunnar sé enn fremur byggt á gengi Seðlabanka Íslands á lokadegi en í 19. gr. laga um Seðlabanka Íslands nr. 36/2001 segi að skráð gengi Seðlabanka Íslands skuli notað til viðmiðunar í opinberum samningum, dómsmálum og öðrum samningum milli aðila þegar önnur gengisviðmiðun sé ekki sérstaklega tiltekin.
Kröfu sinni til stuðnings vísar stefnandi til meginreglna samningaréttar um skuldbindingargildi samninga og að samninga skuli halda. Stefnandi vísar einnig til meginreglna kröfuréttar um réttar efndir og efndir in natura, kröfu sinni til stuðnings. Þá vísar stefnandi til laga um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007 og laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki með síðari breytingum. Einnig er vísað til VI. kafla laga nr. 36/2001 um Seðlabanka Íslands. Kröfu sína um dráttarvexti, þ.m.t. vaxtavexti, styður stefnandi við ákvörðun Seðlabanka Íslands á hverjum tíma um grunn dráttarvaxta og vanefndaálags, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Krafa stefnanda um málskostnað styðst við 1. mgr. 129. gr. og 1. og 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Ekki sé um að ræða virðisaukaskattskylda starfsemi, sbr. 10. tl. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, og beri stefnanda því nauðsyn að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnanda við ákvörðun málskostnaðar.
III
Aðalkrafa stefnda er reist á eftirfarandi málsástæðum: Stefnandi hafi komið til slita eftir sérreglum laga nr. 161/2002 22. apríl 2009, þegar lög nr. 44/2009 um breytingu á fyrrnefndu lögunum hafi tekið gildi, sbr. 2. tölulið ákvæðis II til bráðabirgða við lög nr. 44/2009. Frá sama tíma hafi gilt um stefnanda ákvæði 102. gr. laga nr. 161/2002, sbr. 6. gr. laga nr. 44/2009, sem leiði til þess að reglur laga nr. 21/1991 ráði í meginatriðum hvernig fari um réttindi annarra á hendur stefnanda. Það sé mat stefnda að þótt í 100. gr. a laga nr. 161/2002, eins og hún hljóði samkvæmt 5. gr. laga nr. 125/2008, hafi ekki verið mælt fyrir um sérstaka málsmeðferð í framhaldi af ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 9. október 2008, hafi öll málefni stefnanda verið sett undir skilanefnd sem hafi verið ætlað, samkvæmt heiti sínu, að leggja drög að aðgerðum til skuldaskila stefnanda. Stefndi líti svo á að á tímabilinu frá 9. október 2008 til 22. apríl 2009 hafi stefnandi verið í aðstöðu sem leggja megi að jöfnu við að hafin væru gjaldþrotaskipti á búi stefnanda að því er varði skiptasamninga.
Stefndi byggir á því, eins og áður sagði, að samkvæmt grein 9.4 í skilmálum um framvirk gjaldmiðlaviðskipti og skiptasamninga gjaldfalli allir skiptasamningar milli samningsaðila við gjaldþrot samningsaðila án sérstakrar tilkynningar þar um. Þá ákvarði ákvæði 10 sömu skilmála hvernig fara skuli með skiptasamninga, sem falla úr gildi, samkvæmt 9. gr. samningsins. Stefndi vísar til 1. mgr. greinar 10.1 sem hljóðar svo: Falli skiptasamningur úr gildi skv. 9. gr. þessara almennu skilmála skal sá samningsaðili sem vanefnir samninginn bæta þeim samningsaðila sem segir upp eða riftir samningnum allt það tjón sem hann verður fyrir vegna þess, þ.á m. tap skv. gr. 10.2. Þar sem stefnandi hafi í raun verið gjaldþrota, hefði ekki komið til íhlutunar stjórnvalda, hafi stefnandi vanefnt samning aðila. Stefnandi hafi heldur ekki gert kröfu um stöðu vaxtaskipta á gjalddaga samnings aðila 12. apríl 2009, þrátt fyrir ákvæði a-liðar greinar 3.7 í fyrrnefndum skilmálum, sem skyldi stefnanda til að annast útreikning og tilkynningu. Þetta ákvæði hljóðar svo: Vaxtatímabil er sá daga- eða mánaðafjöldi sem vaxtaútreikningur er miðaður við hverju sinni. Vextir eru reiknaðir frá og með fyrsta degi hvers vaxtatímabils og fram að síðasta degi tímabilsins. Varðandi skyldu aðila til að senda tilkynningu vísar stefndi til greinar 9.1 í sömu skilmálum.
Sama eigi við um vaxtaskipti 13. október 2009 samkvæmt samningnum. Samkvæmt stefnu hafi stefnandi sent stefnda bréf 18. desember 2009 þar sem tilkynnt hafi verið um vanskil og þá væntanlega á báðum þessum gjalddögum. Stefndi byggir á því að forsenda vaxtaskiptasamnings sé óvissa um þróun vaxta. Stefnandi, sem hafi haft starfsleyfi sem viðskiptabanki allt þar til Fjármálaeftirlitið afturkallaði leyfið miðað við 19. júlí 2011, hafi haft sömu skyldur gagnvart stefnda og banki. Að mati stefnda sé það ósanngjarnt, andstætt góðri viðskiptavenju og andstætt hagsmunum stefnda, sem viðskiptamanns banka sem hafi haft starfsleyfi til reksturs viðskiptabanka, að stefnandi geti fylgst með þróun vaxta á japönsku jeni og ákvarðað, ef vaxtaþróun er hagstæð stefnanda, að halda samningi í gildi. Forsenda samnings aðila hafi brugðist þegar skilanefnd hafi verið sett yfir stefnanda 9. október 2008.
Samkvæmt stefnu hafi stefnandi rift umræddum skiptasamningi 6. janúar 2010 en þann dag hafi stefnandi tilkynnt stefnda að samningi hafi verið lokað. Stefndi heldur því fram að stefnandi hafi ekki haft heimild til lokunar (riftunar) samnings aðila, í janúar 2010, þegar atvik hafi verið þannig að stefnandi sjálfur hafi vanefnt samning aðila. Staða stefnanda hafi orðið þannig 9. október 2008 að samningur aðila hafi gjaldfallið og ástæða gjaldfellingar sé vanefnd stefnanda.
Stefndi vísar til ákvæðis 10.2 í skilmálum um framvirk gjaldmiðlaviðskipti og skiptasamninga: Við útreikning á hagnaði og tapi skal bankinn leita upplýsinga frá innlendum og erlendum bönkum eftir því sem við á. Bankinn skal senda viðskiptamanninum útreikninginn innan fjórtán daga frá því að samningurinn féll úr gildi og gefa honum kost á að koma með athugasemdir við útreikninginn. Viðskiptamaðurinn skal koma athugasemdum sínum á framfæri innan sjö daga. Bankinn skal hafa þær til hliðsjónar í endanlegum útreikningi sínum.
Stefnandi hafi ekki fylgt þeim skyldum sem skilmálarnir ákvarði. Nákvæm lýsing sé á því í ákvæði 10.2 í skilmálunum hvernig reikna skuli hagnað og tap við vanefnd. Teljist stefndi hafa vanefnt samning með vanskilum á gjalddaga 12. apríl 2008 skuli hann, samkvæmt ákvæðinu, bæta gagnaðila mismun hagnaðar og taps, miðað við síðasta gildisdag samningsins sem sé að mati stefnanda sjálfs 6. janúar 2010. Að því gefnu að sá aðili, sem ekki hafi vanefnt samning hefði orðið af hagnaði, samkvæmt útreikningi, sem stefnanda hafi borið samkvæmt ofangreindu ákvæði skilmálanna að framkvæma. Þá beri stefnanda, samkvæmt sama ákvæði, að senda stefnda útreikning innan 14 daga frá því samningurinn féll úr gildi. Í þessu tilviki hafi það verið í síðasta lagi 20. janúar 2010. Stefnandi hafi einnig vanefnt skyldu til að reikna út gjalddaga samkvæmt grein 3.7 í skilmálunum og senda stefnda útreikning vaxtaskipta vegna gjalddaga í apríl og október 2009.
Stefndi kveður að bréf frá stefnanda til stefnda, dags. 8. janúar 2010, uppfylli á engan hátt skyldu banka (stefnanda) samkvæmt ákvæði 10.2 og komi ekki í stað skyldu stefnanda samkvæmt grein 3.7 í skilmálunum. Bréf stefnanda frá 8. janúar 2010 reikni ekki núvirði mismunar milli greiðslna sem stefndi hefði átt að inna að hendi og hefði átt að fá, ef samningurinn hefði haldið gildi sínu, og þeirri fjárhæð sem stefnandi hefði fengið eða þurft að greiða öðrum banka fyrir að ganga inn í samninginn í stað stefnda. Þá komi ekki fram í bréfi stefnanda frá 8. janúar 2010 að stefndi eigi kost á því að gera athugasemd við útreikning stefnanda, líkt og ákvæði 10.2 í skilmálunum ákvarði sem skyldu banka.
Brot stefnanda á skyldum samkvæmt skilmálunum sem samningur aðila byggi á og varði grundvallarhagsmuni stefnda og sé forsenda stefnda fyrir samningi, ógildi tilkynningu stefnanda til stefnda frá 6. janúar 2010.
Þá vísi stefndi til þess að 14. apríl 2009 liggi ekki fyrir útreikningur á vaxtamun sem stefnanda beri að annast. Stefnandi hafi ekki greitt fjárhæð inn á reikning stefnda og stefndi hafi ekki greitt inn á reikning stefnanda. Ákvæði skilmálanna, sem séu samdir af Sambandi íslenskra viðskiptabanka sem stefnandi sé aðili að, greini ekki frá heimild samningsaðila til lokunar/riftunar skiptasamnings, þegar báðir samningsaðila vanefna skiptasamning. Stefnandi hafi ekki sent tilkynningu um stöðu sem sé forsenda samnings aðila.
Ekkert í framlögðum gögnum stefnanda bendi til þess að stefnandi hafi tilkynnt stefnda um útreikning vaxtaskipta og ekkert bendi til þess að stefnandi hafi gert kröfu um staðfestingu á greiðslu stefnda, líkt og stefnanda sé heimilt að gera samkvæmt 2. málsgrein liðar 1.4.1 í skilmálunum. Stefndi hafi ekki heimild samkvæmt grein 10.1 í skilmálunum til þess að krefjast greiðslu á ætluðu tjóni með vísan til þess að stefnandi sjálfur virði að engu grundvallarforsendu skiptasamnings aðila og sé þess sjálfur valdur með gjaldþroti að gjaldfella skiptasamning aðila.
Málsástæður stefnda til stuðnings varakröfu hans eru eftirfarandi: Stefnandi hafi haft starfsleyfi sem viðskiptabanki fram til 19. júlí 2011 en þann dag hafi Fjármálaeftirlitið afturkallað starfsleyfi stefnanda, þ.e. Kaupþings banka hf. Fram til 19. júlí 2011 hafi stefnandi haft lögbundnar skyldur gagnvart stefnda. Stefndi vísar til II. kafla laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti, sem fjalli um fjárfestavernd og viðskiptahætti fjármálafyrirtækja. Stefndi vísar sérstaklega til 5. gr. II. kafla laganna.
Lögum samkvæmt hvíli sú skylda á stefnanda að hafa hagsmuni stefnda að leiðarljósi. Í október 2008 hafi staða stefnanda verið slík að honum hafi verið skipuð skilanefnd en með lögum sé ákvarðað að stefnanda sjálfum og kröfuhöfum stefnda sé óheimilt að krefjast gjaldþrots stefnanda. Eðli samnings aðila sé þannig að stefndi eigi ótilgreinda kröfu á stefnanda og stefnandi eigi tilgreinda kröfufjárhæð á stefnda. Hvorugur samningsaðila geti sagt til um það hvort greiðsluskylda stefnanda eða greiðsluskylda stefnda á hverjum gjalddaga nemi hærri fjárhæð.
Eftir 9. október 2008 hafi ógreiddir gjalddagar samkvæmt samningi aðila verið 12. október 2008 (en stefndi hafi greitt stefnanda vaxtamun vegna þess gjalddaga í samræmi við útreikning stefnanda), 12. apríl 2009, 12. október 2009 og 12. apríl 2010. Markaðsaðstæður ákvarði þá vexti sem stefnanda beri að greiða stefnda og leiði tíminn einn í ljós þá þróun á gjaldskyldu stefnanda. Sú óvissa sé grundvöllur samnings aðila.
12. apríl 2009 hafi stefnandi ekki greitt umsamda fjárhæð inn á reikning stefnda og stefndi hafi ekki greitt umsamda upphæð inn á reikning stefnanda. Að mati stefnda sé það ósanngjarnt, andstætt góðri viðskiptavenju og andstætt hagsmunum stefnda, sem viðskiptamanns banka sem hafi leyfi til bankareksturs, að stefnandi geti fylgst með þróun vaxta og ákvarðað, ef vaxtaþróun er hagstæð stefnanda, að halda samningi í gildi þrátt fyrir að stefnandi hafi sjálfur vanefnt samninginn og staða stefnanda hafi verið þannig að yfir stefnanda hafi verið sett skilanefnd 9. október 2008.
Hefðu vextir á japönsku jeni þróast þannig að vaxtamunur væri hliðhollur stefnda og stefnandi hefði átt að greiða stefnda vaxtamun þá hefði stefnandi einn getað ákveðið að senda stefnda útreikning, í samræmi við ákvæði 3.7 í skilmálum um framvirk gjaldmiðlaviðskipti og skiptasamninga, eða ákveðið að líta svo á að staða stefnanda jafngilti gjaldþroti hans og að af þeim sökum hefði samningur aðila gjaldfallið án tilkynningar þar um.
Varakrafa stefnda miðist við það að dómurinn ákvarði að víkja samningi í heild eða að hluta til hliðar eða breyta samningi aðila í ljósi atvika sem varði stefnanda og hafi komið í ljós 9. október 2008.
Þá verði litið til þess að skyldur séu lagðar á stefnanda, samkvæmt grein 10.2 í skilmálunum. Stefnanda hafi borið að reikna út hagnað og tap samningsins og leggja þá upphæð til grundvallar uppgjöri. Þá séu, samkvæmt sama ákvæði skilmálanna, gerðar formkröfur um tilkynningu stefnanda til stefnda og heimild stefnda til athugasemda, sem stefnanda beri að hafa til hliðsjónar. Þó að frávik frá formkröfu leiði ekki til ógilds samnings, líkt og krafist sé í aðalkröfu, þá leiði frávik frá formkröfu til þess að kröfu stefnanda verði vikið til hliðar að hluta og dómkrafa stefnanda verði lækkuð verulega. Sem dæmi líti dómur til mismunar á greiðsluskyldu stefnanda og stefnda 12. apríl 2009, sem komi fram í stefnu, sem niðurstöðu við mat dómsins um greiðsluskyldu stefnda, eða aðra lægri fjárhæð allt að mati dómsins.
Stefndi kveður að í varakröfu taki dómkrafa stefnda um verulega lækkun dómkröfu einnig til verulegrar lækkunar á dráttarvaxtakröfu stefnanda. Í samningi aðila og fyrrnefndum skilmálum sé gert ráð fyrir því að verði samningur vanefndur skuli stefnandi senda stefnda útreikning sem gagnaðili hafi færi á að gera athugasemd við. Ekkert hafi komið fram í samningnum eða skilmálunum um álag á greiðslu vegna vanefnda. Dómkrafa stefnanda sé krafa um greiðslu stefnda á japönskum jenum til stefnanda. Dráttarvextir samkvæmt lögum nr. 38/2001, sem stefnandi vísi til, til stuðnings kröfu um greiðslu dráttarvaxta miðist við kröfu um greiðslu á íslenskum krónum.
Algengt sé í nýrri skilmálum fjármálafyrirtækja að séu samningar í öðrum myntum en íslenskri krónu og beri krafan ekki samningsvexti, eins og sé tilvikið í samningi aðila, þá beri krafa eins mánaðar LIBOR-vexti eins og þeir ákvarðist fyrir viðkomandi gjaldmiðil hverju sinni að viðbættu sjö komma fimm prósentustiga (7,5 %) vanefndaálagi, af gjaldfallinni eða gjaldfelldri fjárhæð frá gjalddaga til greiðsludags. Það að ekki sé getið um vanefndavexti í samningi aðila eða skilmálum leiði til þess að stefnandi eigi ekki kröfu um greiðslu vanefndavaxta.
Verði ekki fallist á ofangreind rök stefnda um skort á heimild til viðmiðunar við dráttarvexti krefst hann þess að upphaf dráttarvaxta, samkvæmt 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001, taki mið af dagsetningunni 28. febrúar 2011, en þann dag hafi stefna verið birt stefnda.
Um rök fyrir því að hvor aðili verði látinn bera sinn kostnað af málinu vísar stefndi til 3. töluliðs 130 gr. laga 91/1991.
Almennt um lagarök vísa stefndi til meginreglna samningaréttar og kröfuréttar. Þá vísar stefndi til laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti. Stefndi vísar til laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, aðallega 36. gr. laganna. Þá vísar stefndi til laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Um málskostnað vísar stefndi til 130. gr. laga nr. 91/1991.
IV
Vaxtaskiptasamningur aðila var undirritaður 10. apríl 2000 og skyldi uppgjör vaxta fara fram á sex mánaða fresti. Fyrsta greiðsla samkvæmt samningnum var 12. október 2000 og gert var ráð fyrir lokagreiðslu 12. apríl 2010. Ekki er deilt um að samningurinn var efndur af báðum aðilum allt fram til október 2008 þegar stefndi greiddi stefnanda á grundvelli samningsins. Eða eins og segir í greinargerð stefnda: „Eftir 9. október 2008, voru ógreiddir gjalddagar samnings aðila, 12. október 2008, (en stefndi greiddi stefnanda vaxtamun vegna þess gjalddaga í samræmi við útreikning stefnanda), 14. apríl 2009, 13. október 2009 og 12. apríl 2010.“
Eins og fram hefur komið byggir stefndi sýknukröfu sína aðallega á því að vaxtaskiptasamningur aðila hafi gjaldfallið þegar Fjármálaeftirlitið tók ákvörðun 9. október 2008 um að setja öll málefni stefnanda undir skilanefnd. Á tímabilinu 9. október 2008 til 22. apríl 2009, þegar lög nr. 44/2009 um breytingu á lögum nr. 161/2002 tóku gildi, hafi stefnandi verið í aðstöðu sem leggja megi að jöfnu við að hafin væru gjaldþrotaskipti á búi stefnanda að því er varðar skiptasamninga. Samkvæmt grein 9.4 í skilmálunum gjaldfalli allir skiptasamningar milli samningsaðila án sérstakrar tilkynningar við gjaldþrot samningsaðila.
Í ákvörðun Fjármálaeftirlitsins, dags. 9. október 2008, var tekið fram að ekki kæmi til innköllunar til lánadrottna Kaupþings banka hf. vegna ákvörðunarinnar og að engin vanefndarúrræði viðsemjenda skyldu taka gildi sem afleiðing af ákvörðuninni. Verður því ekki fallist á það með stefnda að skipan skilanefndar hafi jafngilt gjaldþroti stefnanda í skilningi greinar 9.4 í skilmálum samnings aðila sem túlka verður þröngt eftir orðanna hljóðan. Að því leiðir að ekki verður fallist á þá málsástæðu stefnda að samningur aðila hafi gjaldfallið 9. október 2008 og forsendur samningsins brostið þann dag.
Þá byggir stefndi einnig á því að þar sem hvorugur aðila hafi greitt inn á reikning hins 14. apríl 2009 og þannig báðir vanefnt skiptasamninginn hafi stefnanda ekki verið heimilt að loka/rifta samningnum. Ákvæði skilmálanna um heimild til lokunar/riftunar eigi ekki við þegar báðir aðilar vanefna. Forsenda greiðslu af hálfu stefnda hafi enn fremur verið að stefnandi sendi tilkynningu um stöðu en það hafi hann vanrækt. Í inngangi almennu skilmálanna sem gilda um samning aðila er því lýst að í skiptasamningnum felist að samningsaðilar greiða hvor öðrum vexti af tiltekinni viðmiðunarfjárhæð í sama gjaldmiðli eða greiða hvor öðrum vexti og höfuðstól hvor í sínum gjaldmiðli á samningstímanum. Í því skyni að auka öryggi og hagræði í þessum viðskiptum hafi Samband íslenskra viðskiptabanka og Samband íslenskra sparisjóða samið almenna skilmála fyrir samninga af þessu tagi þar sem öll helstu hugtök séu skilgreind og kveðið á um ýmis önnur atriði sem nauðsynlegt sé talið að fjallað sé um í slíkum samningi. Þar með verði samningar um einstök viðskipti tiltölulega einfaldir þar sem kveðið verði á um atriði eins og vexti, gengi og annað sem lýtur að kjörum viðskiptanna, upplýsingar um samningsaðila, samningstíma, gjalddaga og greiðslufyrirkomulag en að öðru leyti megi vísa til almennu skilmálanna. Í grein 1.4.2 í þessum skilmálum sem, eins og fram hefur komið, gilda um samning aðila er svo svohljóðandi ákvæði undir yfirskriftinni Skuldajöfnun (nettun): Ef samningsaðilar eru skuldbundnir til að inna greiðslur af hendi til hvors annars á sama bankadegi, í sama gjaldmiðli og samkvæmt sama samningi, skal greiðslunum skuldajafnað þannig að sá samningsaðili sem á að greiða hærri upphæð greiðir mismuninn til hins. Ákvæði samningsaðila frá 10. apríl 2000 um greiðslufyrirkomulag þar sem kveðið er á um að stefndi inni greiðslur af hendi inn á tiltekinn reikning og stefnandi inn á þann reikning sem viðskiptamaður óskar á gjalddögum vaxta verður ekki túlkað á þann hátt, sem stefndi hélt fram við munnlegan málflutning, að sérstaklega hafi verið samið um það að skuldajöfnun færi ekki fram, í samræmi við fyrrgreint ákvæði greinar 1.4.2, heldur að hvor aðili um sig greiddi sinn hluta samkvæmt samningnum án tillits til þess hvort hinn greiddi eða ekki.
Fyrir liggur að stefnda barst ekki tilkynning frá stefnanda vegna gjalddaga samningsins í apríl og október 2009. Með bréfi dags. 18. desember 2009 tilkynnti stefnandi stefnda um stöðu samningsins og var stefnda gefinn kostur á að greiða skuldina fyrir kl. 16:00 þann 30. desember s.á. Fram kom í bréfinu að stefndi mætti búast við að samningnum yrði lokað í samræmi við ákvæði skilmála samningsins. Stefndi varð ekki við kröfunni. Stefnda var tilkynnt um lokun samningsins með bréfi stefnanda dags. 6. janúar 2010. Með bréfi dags. 8. janúar s.á. sendi stefnandi stefnda útreikning sinn á markaðsvirði samningsins.
Samkvæmt grein 9.1 í skilmálum samningsins er aðila heimilt að rifta skiptasamningi ef greiðslur eru ekki inntar af hendi á gjalddaga og gagnaðili bætir ekki úr innan þriggja bankadaga frá því að hann fékk um það skriflega kröfu. Heimild til riftunar er ekki frekar takmörkuð í skilmálunum. Ákvæði 10. greinar skilmálanna gilda um málsmeðferð eftir að samningur er fallinn úr gildi og koma því ekki til skoðunar við mat á riftunarheimild stefnanda. Ekki verður séð að stefndi hafi andmælt lokun samningsins og með hvaða hætti það var gert fyrr en með framlagningu greinargerðar í máli þessu 10. janúar 2012. Verður því ekki fallist á þær málsástæður stefnda er lúta að heimild stefnanda til að rifta samningnum og með hvaða hætti staðið var að riftuninni. Fallist verður á með stefnanda að hann hafi sýnt fram á vanefnd stefnda og að gætt hafi verið reglna skilmálanna um riftun samningsins.
Stefndi byggir sýknukröfu sína einnig á því að ósanngjarnt sé af hálfu stefnanda og andstætt góðri viðskiptavenju að halda samningi í gildi ef vaxtaþróun er stefnanda hagstæð. Ekki verður fallist á þessa málsástæðu stefnda enda eðli vaxtaskiptasamninga að annar aðili samningsins hagnist á mismun á umsömdum föstum vöxtum og breytilegum markaðsvöxtum. Ekki verður heldur séð að stefnandi hafi haft heimild til að rifta samningnum á þessum grundvelli.
Eins og áður var lýst er varakrafa stefnda um lækkun dómkrafna stefnanda á því byggð að stefnandi hafi vanrækt lögbundnar skyldur sínar gagnvart stefnda, brotið gegn samningi aðila og að ósanngjarnt sé og andstætt góðri viðskiptavenju að halda samningi í gildi á sama tíma og stefnandi sjálfur vanefni samninginn. Krefst stefndi þess að dómurinn ákvarði að víkja samningnum í heild eða að hluta til hliðar eða breyta samningnum. Vísar stefndi til laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, aðallega til 36. gr. laganna og laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti kröfum sínum til stuðnings.
Að mati dómsins hefur stefndi ekki sýnt fram á ástæður sem réttlæta að samningi aðila verði breytt eða honum vikið til hliðar. Vanefndir stefnanda er lúta að útreikningi og tilkynningum til stefnda um stöðu samningsins á gjalddögum í apríl og október 2009 breyta ekki þeirri niðurstöðu að stefnanda var heimilt að rifta samningi aðila vegna vanskila stefnda.
Í bréfi stefnanda til stefnda dags. 18. desember 2009 var ekki tilgreint með skýrum hætti að samningur aðila myndi falla úr gildi á tilteknum tíma ef ekki yrði orðið við greiðslukröfu stefnanda. Samkvæmt bréfi stefnanda til stefnda 6. janúar 2010 var samningnum lokað 30. desember 2009. Fallast verður á það með stefnda að samningi verður ekki slitið með afturvirkum hætti og verður því við það miðað að samningurinn hafi fallið úr gildi 6. janúar 2010.
Falli skiptasamningur úr gildi fer um uppgjör samkvæmt 10. grein skilmála samningsins. Skal sá samningsaðili sem vanefnir samninginn bæta gagnaðila tjón sem hann hefur orðið fyrir. Um útreikning tjóns fer samkvæmt gr. 10.2. Stefnandi hefur lagt fram gögn sem styðja útreikninga á tapi sem hann telur sig hafa orðið fyrir vegna þess að samningurinn féll úr gildi. Stefndi hefur ekki hnekkt þeim útreikningum og ferður því fallist á útreikninga stefnanda.
Stefndi mótmælir dráttarvaxtakröfu stefnanda. Telur hann að heimild skorti í skilmálum fyrir dráttarvaxtakröfu. Um dráttarvexti vegna vanskila fer samkvæmt 8. grein skilmála samningsins. Þar segir að standi aðili ekki skil á gjalddaga beri honum að greiða hinum samningsaðilanum dráttarvexti af þeirri upphæð sem er í vanskilum frá gjalddaga til greiðsludags. Um dráttarvexti fari samkvæmt ákvæðum vaxtalaga. Verður því að telja ótvíræða heimild fyrir dráttarvaxtakröfu stefnanda í skilmálum samningsins.
Samkvæmt grein 3.7 í skilmálunum bar stefnanda að senda stefnda tilkynningu um greiðslu í tengslum við gjalddaga samningsins. Jafnvel þótt stefndi hafi mátt vita að hann hafi staðið í skuld við stefnanda á gjalddögum samningsins í apríl og október 2009 verður ekki fram hjá því horft að á stefnanda hvíldi sú ótvíræða skylda samkvæmt skilmálum samningsins að hafa frumkvæði að útreikningum, fastsetja vexti og tilkynna stefnda um skuld eða inneign. Ekki hefur af hálfu stefnanda verið sýnt fram á aðra framkvæmd. Verður því fallist á það með stefnda að dráttarvextir verða ekki reiknaðir miðað við þá gjalddaga sem tilgreindir eru í stefnukröfu stefnanda.
Í bréfi stefnanda til stefnda dags. 18. desember 2009 er stefndi krafinn um greiðslu á 5.312.267 krónum og tekið fram að það væri gert til hægðarauka. Ekki kemur fram hver sú fjárhæð er í japönskum jenum. Dómkrafa stefnanda er í japönskum jenum og eru því ekki forsendur fyrir því að miða dráttarvexti við það tímamark.
Endanlegur útreikningur á skuld stefnda við stefnanda kom fyrst fram með bréfi stefnanda til stefnda dags. 8. janúar 2010. Verður fallist á að dómkrafa stefnanda beri dráttarvexti frá þeim tíma eins og nánar greinir í dómsorði.
Stefnda ber því að greiða stefnanda 9.539.924 japönsk jen með dráttarvöxtum eins og greinir í dómsorði.
Í samræmi við niðurstöðu málsins og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um verður stefnda gert að greiða stefnanda málskostnað sem eftir atvikum og umfangi málsins þykir hæfilega ákveðinn 700.000 krónur.
Áslaug Björgvinsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
Dómsorð:
Stefndi, Brim hf., greiði stefnanda, Kaupþingi hf., 9.539.924 japönsk jen með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 8. janúar 2010 til greiðsludags.
Stefndi greiði stefnanda 700.000 krónur í málskostnað.