Hæstiréttur íslands
Mál nr. 515/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Nálgunarbann
|
|
Miðvikudaginn 31. júlí 2013. |
|
|
Nr. 515/2013.
|
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H.B. Snorrason saksóknari) gegn X (Daði Ólafsson hdl.) |
|
Kærumál. Nálgunarbann.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta nálgunarbanni var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Greta Baldursdóttir og Helgi I. Jónsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 29. júlí 2013, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. júlí 2013 þar sem staðfest var ákvörðun ríkissaksóknara 19. júlí 2013 um að varnaraðili sæti nálgunarbanni eins og nánar greinir í úrskurðarorði í sex mánuði. Kæruheimild er í 3. mgr. 15. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili, sbr. 1. gr. laga nr. 39/2012. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að nálgunarbanninu verði markaður skemmri tími og að það verði ekki látið taka til [...] [...] við [...] í [...]. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Brotaþoli, A, hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Þóknun verjanda varnaraðila, sem ákveðin verður að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði segir, greiðist úr ríkissjóði samkvæmt 3. mgr. 38. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 14. gr. laga nr. 85/2011.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Þóknun verjanda varnaraðila, Daða Ólafssonar héraðsdómslögmanns, fyrir Hæstarétti, 125.500 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur föstudaginn 26. júlí 2013.
Með erindi sem barst héraðsdómi 24. júlí sl. krafðist lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu þess að Héraðsdómur Reykjavíkur staðfesti ákvörðun ríkissaksóknara, 19. júlí 2013, þess efnis að X kt. [...], skyldi sæta nálgunarbanni í 6 mánuði þannig að lagt sé bann við því að hann nálgist A, kt. [...], á almannafæri sem nemur 50 metra radius frá staðsetningu hennar á hverjum tíma og að honum sé bannað að hafa á sama tíma síma-, bréfa-, og netsamskipti við hana, þar með talið að senda henni SMS-skeyti og tölvupóst. Á sama tímabili er honum bannað að nálgast heimili hennar að [...] í [...], sem nemur 50 metra radius frá miðju hússins og einnig að nálgast [...] [...] við [...] í [...] sem nemur byggingu og lóð [...].
Í greinargerð lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að, 3. júlí sl., hafi A lagt fram beiðni um nálgunarbann hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu. Með ákvörðun lögreglustjóra, 4. júlí, hafi beiðni hennar verið hafnað. Sú ákvörðun hafi verið kærð til ríkissaksóknara sem hafi fellt ákvörðun lögreglustjóra úr gildi með ákvörðun, 19. júlí, og lagt nálgunarbann á varnaraðila, eins og greint er í dómkröfu.
Ákvörðun ríkissaksóknara hafi verið birt verjanda varnaraðila, 23. júlí sl. og hafi hann tekið við henni á grundvelli umboðs dags. 21. júlí sl.
Í málinu liggi fyrir 17 dagbókarfærslur lögreglu á árinu 2013, þar sem brotaþoli og eða [...]yfirvöld hafi tilkynnt um ónæði og eftir atvikum refsiverð brot varnaraðila. Lögregla vísar til ákvörðunar ríkissaksóknara, þar sem tilvikin séu ítarlega reifuð, en þau séu öll eðlislík og virðist framin í nokkurri samfellu og beinist á einn eða annan hátt að brotaþola. Í ljósi þessara tilvika liggi fyrir rökstuddur grunur um að varnaraðili hafi framið refsivert brot gegn A eða á annan hátt raskað friði hennar.
Það sé mat lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu að framangreint sýni að uppfyllt séu skilyrði 4. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili enda liggi fyrir rökstuddur grunur um að varnaraðili hafi brotið gegn A og að hætta sé á að hann haldi áfram að raska friði hennar í skilningi ákvæðisins njóti hann fulls athafnafrelsis. Lögregla telur ekki sennilegt að friðhelgi hennar verði vernduð á annan og vægari hátt eins og sakir standi.
Með vísan til framangreinds og framlagðra gagna teljist skilyrði 4. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann uppfyllt og ítrekað að krafan nái fram að ganga.
Á dómþingi 25. júlí mótmælti varnaraðili því að krafan næði fram að ganga og lagði fram gögn til skýringar á sjónarmiðum sínum. Varnaraðili krefst þess að kröfum lögreglunnar verði hafnað með öllu. Hann telur kröfuna tilefnislausa enda verði rök fyrir henni ekki lesin úr rannsóknargögnum. Þar séu hvorki sannanir fyrir refsiverðu broti né því að varnaraðili hafi raskað friði meints brotaþola. Varnaraðili vísar til þeirra 17 tilvika sem ríkissaksóknari byggi ákvörðun sína á. Tvö þau fyrstu séu einhliða lýsing brotaþola, í næsta tilviki hafi varnaraðili kallað til lögreglu þar sem honum hafi verið meinað að njóta umgengni við dóttur sína, enn séu tilvik 4-10 einhliða ásakanir meints brotaþola á hendur varnaraðila. Í 11. tilvikinu hafi varnaraðili komið á foreldradag á [...] dóttur sinnar. Þar sem hann njóti sameignlegrar forsjár yfir henni og eigi samkvæmt skilnaðarsamningi að njóta reglulegrar umgengni við hana sé ekki heimilt að meina honum að sækja foreldradag í [...]. Í 12. tilvikinu eigi það sama við því þá hafi varnaraðili reynt að umgangast barnið en á þessum tíma hafi brotaþoli meinað honum í 6 mánuði að hitta barnið.
Varnaraðili telur jafnframt margt í frásögn brotaþola, sem ríkissaksóknari leggi til grundvallar, ótrúverðugt. Það sé til dæmis ótrúverðugt að brotaþoli fari í Kvennaathvarfið 1. september 2012 af ótta við varnaraðila en hitti hann samt hjá sýslumanni 5 dögum síðar til að undirrita skilnaðarsamning.
Varnaraðili bendir á að sá skilnaðarsamningur sé enn í gildi og samkvæmt honum sé forsjá barna hans og brotaþola sameiginleg og njóti varnaraðili jafnframt umgengnisréttar við börnin. Á meðan þessum samningi hafi ekki verið breytt verði brotaþoli að fara eftir honum.
Samkvæmt 4. gr. laga nr. 85/2011 þurfi atvik að vera alvarleg til þess að unnt sé að fallast á kröfu um nálgunarbann. Það geti átt við hafi sá sem krafan beinist gegn áður brotið gegn þeim sem gerir kröfuna, hótað honum, ögrað eða önnur samskipti veiti rökstudda vísbendingu um brot. Í málinu séu ekki nein gögn sem sanni slíka framkomu varnaraðila. Ekki sé nægjanlegt að brotaþoli hafi orðið fyrir smávægilegum ama af hálfu varnaraðila enda verði að gera ráð fyrir því að sá, sem sé meinað að hitta barnið sitt í marga mánuði, grípi til einhverra úrræða til að reyna að sjá það.
Varnaraðili bendir einnig á meðalhófsreglu 6. gr. laganna þar sem tekið sé fram að nálgunarbanni verði ekki beitt nema sennilegt þyki að friðhelgi brotaþola verði ekki vernduð á annan og vægari hátt en í þessu tilviki hafi ekki verið reynt að beita vægari úrræðum. Yrði varnaraðila bannað að nálgast brotaþola yrði algerlega komið í veg fyrir að hann gæti umgengist börnin sín.
Varnaraðili tekur fram að við rannsókn í Barnahúsi hafi ekki komið fram neinar sannanir fyrir ásökunum brotaþola um meint kynferðisbrot varnaraðila gegn eldri dótturinni. Telur varnaraðili stöðugar tilkynningar brotaþola einungis gerðar til að hún geti skapað sér betri stöðu gagnvart honum í forsjármáli sem sé í farvatninu.
Jafnframt telur varnaraðili nálgunarbann sérstaklega íþyngjandi gagnvart sér þegar litið sé til þess hversu nálægt hann búi bæði heimili og vinnustað brotaþola.
Réttargæslumaður brotaþola kvað rétt að brotaþoli hefði, eftir að upp komu grunsemdir um kynferðisbrot varnaraðila gagnvart eldri dóttur þeirra, meinað honum að hitta barnið þar sem hún hafi talið það geta haft áhrif á rannsókn brotsins. Þrátt fyrir að ekkert hafi komið í ljós í Barnahúsi hafi málið verið sent ríkissaksóknara til meðferðar.
Þrátt fyrir að brotaþoli hafi tálmað umgengi þýði það ekki að varnaraðili geti beitt hvaða úrræðum sem er til að fá umgengni við barnið og allra síst þeim að ofsækja móður þess. Honum beri, eins og öðrum sem ekki njóti umgengni við börn sín, að leita aðstoðar sýslumanns til að ná umgenginni fram.
Réttargæslumaður vísar til þess að mörg vitni hafi verið að ógnandi hegðun varnaraðila gagnvart brotaþola á [...] þar sem hún vinni og hann hafi verið fluttur þaðan í járnum.
Brotaþoli og varnaraðili eru [...] ríkisborgarar sem hafa búið á Íslandi í nokkur ár. Þau eru skilin að borði og sæng en leyfi til lögskilnaðar hefur ekki enn verið veitt. Þau fara sameiginlega með forsjá tveggja dætra sinna, [...] og [...] ára en lögheimili þeirra er hjá brotaþola. Þegar brotaþoli dvaldi í Kvennaathvarfinu frá 1. september til 15. desember 2012 vaknaði grunur, vegna frásagnar eldri dóttur þeirra, um að varnaraðili hefði brotið gegn henni kynferðislega. Mun brotaþoli frá þeim tíma hafa meinað varnaraðila að hitta barnið þrátt fyrir samkomulag þess efnis 6. september 2012.
Fyrir dóminn hafa verið lögð afrit rannsóknargagna lögreglu, sem eru tilefni þess að ríkissaksóknari felldi úr gildi þá ákvörðun lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins, 4. júlí sl., að hafna þeirri beiðni brotaþola að varnaraðili skyldi sæta nálgunarbanni. Þessi rannsóknargögn eru jafnframt grundvöllur þess að ríkissaksóknari ákvað að banna varnaraðila að nálgast brotaþola, heimili hennar og vinnustað, svo og öll samskipti við hana í sex mánuði.
Framlögð gögn sýna að brotaþoli hefur mjög mikinn beyg af varnaraðila og hefur í tvígang leitað til Kvennaathvarfsins, í seinna sinnið 2. júlí sl. og mun dveljast þar enn og að sögn réttargæslumanns þorir hún ekki út.
Það er rétt að varnaraðili hefur hvorki viðurkennt að hafa unnið skemmdir í bíl brotaþola, sem hún hefur í fjórgang orðið fyrir, né að hafa hótað henni limlestingum og öðrum miska á margvíslegan hátt. Hins vegar þykja tilkynningar um atburði sem orðið hafa á vinnustað hennar, sem jafnframt er [...], færa rök fyrir því að ótti hennar við varnaraðila sé á rökum reistur. Jafnframt er fallist á að framkoma hans verði ekki skilgreind sem smávægilegur ami sem hver sá sem á í forsjárágreiningi verði að gera ráð fyrir og umbera möglunarlaust.
Í barnalögum nr. 76/2003 eru ítarleg ákvæði um umgengnisrétt og úrræði sem sýslumaður hefur til að koma umgengi á, þurfi þess með. Í stað þess að taka réttinn í sínar hendur bar varnaraðila að leita þeirra leiða sem lög gera ráð fyrir þegar brotaþoli hindraði umsamda umgengni.
Fallist er á það með ríkissaksóknara að rannsóknargögn sýni að varnaraðili sé undir rökstuddum grun um að hafa raskað friði brotaþola á þann hátt að heimilt sé, til að vernda friðhelgi hennar, að banna honum að nálgast hana. Jafnframt er tekið undir það mat ríkissaksóknara að ekki þyki sennilegt að friðhelgi hennar verði vernduð á annan hátt en þann. Þykja því uppfyllt skilyrði a- og b-liðar 4. gr. og 6. gr. laga nr. 85/2011 til þess að staðfesta ákvörðun ríkissaksóknara, 19. júlí sl., eins og nánar greinir í úrskurðarorði, en ekki þykja efni til að marka nálgunarbanninu skemmri tíma.
Tekið er fram að þessi ákvörðun hefur ekki áhrif á lögboðinn rétt varnaraðila til að leita til sýslumanns haldi brotaþoli áfram að hindra umgengni varnaraðila við dætur þeirra.
Þóknun skipaðs verjanda varnaraðila og skipaðs réttargæslumanns brotaþola, greiðist úr ríkissjóði eins og nánar greinir í úrskurðarorði.
Ingiríður Lúðvíksdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Staðfest er sú ákvörðun ríkissaksóknara, 19. júlí 2013, að X, kt. [...], skuli sæta nálgunarbanni í 6 mánuði þannig að lagt er bann við því að hann nálgist A, kt. [...], á almannafæri sem nemur 50 metra radius frá staðsetningu hennar á hverjum tíma og er honum bannað að hafa á sama tíma síma-, bréfa-, og netsamskipti við hana, þar með talið að senda henni SMS-skeyti og tölvupóst. Á sama tímabili er honum bannað að nálgast heimili hennar að [...] í [...], sem nemur 50 metra radius frá miðju hússins og einnig að nálgast [...] [...] við [...] í [...] sem nemur byggingu og lóð [...].
Þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Daða Ólafssonar hdl., sem ákveðst 150.600 krónur, svo og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Elvu Daggar Ásudóttur Kristinsdóttur hdl., 225.900 krónur, greiðist úr ríkissjóði.