Hæstiréttur íslands

Mál nr. 188/2005


Lykilorð

  • Kærumál
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


Miðvikudaginn 11

 

Miðvikudaginn 11. maí 2005.

Nr. 188/2005.

Miðhraun I ehf.

(Ólafur Sigurgeirsson hrl.)

gegn

Félagsbúinu Miðhrauni II sf.

(Ragnar Aðalsteinsson hrl.)

 

Kærumál. Frávísunarúrskurður staðfestur.

M höfðaði mál á hendur F til viðurkenningar á landamerkjum jarðarinnar Miðhrauns I og til að fá leyst úr því hvaða réttur fylgdi Miðhrauni II á fjalllandi því sem var hluti af jörðinni Miðhrauni, áður en henni var skipt í tvö býli. Að virtum þeim heimildum sem lágu fyrir um merki varðandi fjalllandið var talið, að kröfugerðin eins og hún var úr garði gerð, gæti ekki orðið grundvöllur að dómi í málinu og var vísað frá dómi kröfum M að því er varðaði þetta landsvæði. Að öðru leyti var hrundið kröfu F um frávísun málsins.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Hrafn Bragason og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 19. apríl 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 3. maí sl. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 15. apríl 2005, þar sem vísað var frá dómi kröfum sóknaraðila á hendur varnaraðila, að því er varðar fjallland það sem tilheyrði jörðinni Miðhrauni. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka allar kröfur hans til efnismeðferðar í málinu. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Miðhraun I ehf., greiði varnaraðila, Félagsbúinu Miðhrauni II sf., 150.000 krónur í kærumálskostnað.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 15. apríl 2005.

             Mál þetta var höfðað 6. janúar 2005 og tekið til úrskurðar 7. apríl sama ár. Stefnandi er Miðhraun I ehf., Miðhrauni I í Eyja- og Miklaholtshreppi, en stefnda er Félagsbúið Miðhrauni II sf., Miðhrauni II í sama hreppi.

             Í málinu krefst stefnandi þess að viðurkennt verði að eftirfarandi landamerkjalýsing ráði landamörkum Miðhrauns I gagnvart aðliggjandi jörðum:

Að vestan (að utanverðu gagnvart Hjarðarfelli) eins og Grímsá ræður ofan úr fjalli niður að Eiðhúsalæk.

Að sunnan (eftir landamerkjum Eiðhúss og Miðhrauns) meðfram Eiðhúsalæk að Króklæk, þaðan ræður Króklækur að Stórakrók í vörðu á vestara horni Þjófskoma. Síðan meðfram landamerkjum Miðhrauns II að norðan frá vörðu á vestara horni Þjófskima og þaðan meðfram Hraunsnoppu í Sligalæk.

Að austan (meðfram landamerkjum Hörgsholts) frá Hraunsnoppu við Sligalæk (Hraunlæk) þaðan sjónhending í Merkihrygg og úr honum í Arnarurð og sjónhending úr henni í Gölt, sem er við fjallseggjar.

             Samhliða er þess krafist aðallega að viðurkennt verði að í fjalllendi jarðarinnar ofar 250 metra hæðarlínu fylgi beitarréttur fyrir jörðina Miðhrauni II, en til vara að beitarréttur fylgi ofar 200 metra hæðarlínu. Til þrautarvara er gerð sú krafa að fjalllendi jarðarinnar ofar 200 metra hæðarlínu sé sameiginlegt með Miðhrauni II. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda.

             Stefnda krefst þess aðallega að kröfum stefnanda verði vísað frá dómi en til vara að stefnda verði sýknað af kröfum stefnanda. Þá er þess krafist að stefnanda verði gert að greiða málskostnað.

             Í úrskurði þessum er formhlið málsins til úrlausnar með tilliti til frávísunar, en í þeim þætti krefst stefndi þess að frávísunarkröfu stefnanda verði hrundið.

I.

             Um miðbik liðinnar aldar var jörðin Miðhraun í Eyja- og Miklaholtshreppi í eigu Þórðar Kristjánssonar. Landamerkjabréf fyrir jörðina var undirritað 12. ágúst 1887 og þinglesið lögum samkvæmt.

             Hinn 28. október 1951 tók hreppstjóri Miklaholtshrepps ásamt úttektarmanni hreppsins fyrir að skipta út landi Miðhrauns að ósk Guðmundar Þórðarsonar, sem hafði ákveðið að stofna nýbýli á jörð föður síns. Samkvæmt landskiptagjörðinni voru landamerki nýbýlisins eftirfarandi:

Að vestan úr vörðu á vestara horni Draugakima, þaðan sjónhending í Stórakrók í Króklæk, svo ræður Króklækur merkjum að landamerkjum Eiðhúsa og Miðhrauns.

Að sunnan samkvæmt landamerkjum Eiðhúsa og Miðhrauns.

Að austan samkvæmt landamerkjum Hörgsholts og Miðhrauns upp að hraunsnoppum.

Að norðan úr Sligalæk meðfram hraunsnoppum í vörðu á vestara horni Draugakima.

             Í samræmi við landskiptagjörðina gaf Þórður Kristjánsson út afsal 10. nóvember 1952 til Guðmundar vegna nýbýlisins. Í afsalinu var tekið fram að hlutinn væri um þriðjungur af jörðinni og var landamerkjum lýst á sama veg og í landskiptagjörðinni, en síðan sagði svo:

Fjallland er óskipt á móti Miðhrauni I.

Lóðir þær sem íbúðarhús og peningahús jarðarinnar Miðhraun I standa á í landi jarðarinnar Miðhraun II skulu fylgja Miðhrauni I og hefir Miðhraun I framvegis fullan aðgang og umferðarrétt að þeim húsum. Í afsali þessu fylgir hálfur hinn sameiginlegi vegur jarðarinnar.

             Sama dag og Þórður gaf út afsalið til Guðmundar afsalaði hann einnig til sonar síns Kristjáns Þórðarsonar jörðinni Miðhrauni með tilheyrandi gögnum og gæðum eftir að búið var að skipta út úr jörðinni landi nýbýlisins Miðhraun II samkvæmt landskiptagjörðinni frá 28. október 1951. Í afsalinu sagði síðan svo:

Merki þessarar jarðar sem framvegis verður sérstök jörð Miðhraun I, eru sem hér segir:

Að vestan samkvæmt landamerkjum Hjarðarfells og Miðhrauns, að sunnan samkvæmt landamerkjum Eiðhúss og Miðhrauns, að Króklæk, þaðan ræður Króklækur að Stórakrók, sjónhending úr Stóra-Krók úr vörðu á vestari horni Þjófakima, þaðan meðfram Hraunsnoppu í Sligalæk. Að austan samkvæmt landamerkjum Hörgsholts og Miðhrauns.

Í afsalinu fylgir íbúðarhús jarðarinnar og útihús eins og þau eru nú. Lóðir þær sem íbúðarhús og útihús jarðarinnar Miðhraun I standa á í landi jarðarinnar Miðhraun II skulu fylgja Miðhrauni I og hefir Miðhraun I framvegis fullan aðgang og umferðarrétt að þeim húsum. Fjallland er óskipt á móti Miðhraun II. Ennfremur fylgir hinn sameiginlegi vegur á móti Miðhrauni II.

             Hinn 21. janúar 1961 var gefið út landamerkjabréf fyrir Miðhraun II og var það undirritað af bræðrunum Guðmundi og Kristjáni og eigendum aðliggjandi jarða og hreppstjóra Miklaholtshrepps. Í landamerkjabréfinu var mörkum lýst þannig:

Að vestan takmarkast landamerki úr vörðu á vestara horni Þjófakima, þaðan sjónhending í Stórakrók í Króklæk, síðan ræður Króklækur merkjum að landamerkjum Eiðhúsa og Miðhrauns I.

Að sunnan takmarkast úr Eiðhúsalæk sjónhending í Stapa við Hraunlæk, eða svonefndan Sligalæk.

Að austan takmarkast af Sligalæk (Hraunlæk) upp að hrauni.

Að norðan úr Sligalæk (Hraunlæk) meðfram hraunsnoppum í vörðu á vestarahorni Þjófakima.

Fjallland er óskipt, eða sameiginlegt til beitar með Miðhrauni I.

             Með afsali 1. júní 1978 seldi Kristján Þórðarson syni sínum Veturliða Rúnari Kristjánssyni jörðina Miðhraun I. Í afsalinu var tekið fram að fjallland væri óskipt sameign á móti jörðinni Miðhrauni II og sömuleiðis sameiginlegur vegur þessara jarða. Hinn 15. janúar 2001 afsalar síðan Veturliði jörðinni til stefnanda. Þar var einnig tekið fram að jörðinni fylgdi eignarhluti jarðarinnar í óskiptu landi með Miðhrauni II.

             Árið 2001 ákvað Guðmundur og eiginkona hans að bregða búi og varð úr að dóttir þeirra Bryndís Guðmundsdóttir og Sigurður Hreinsson, eiginmaður hennar,  keyptu jörðina. Þau reka félagsbúið sem er stefnt í málinu en það er þinglýstur eigandi Miðhrauns II.

II.

             Í árslok 2002 reis ágreiningur milli aðila vegna deiliskipulags fyrir vatnsaflsvirkjun í Grímsá, sem liggur á mörkum Hjarðarfells og Miðhrauns. Einnig kom upp ágreiningur í ágúst 2003 þegar ráðist var í girðingaframkvæmdir fyrir ofan bæjarhúsin á Miðhrauni I. Þá hafa aðilar á liðnum vetri deilt um byggingaframkvæmdir nærri bæjarhúsum á Miðhrauni I. Þessar deilur aðila verða raktar til ágreinings um eignarhald á landi sem áður tilheyrði Miðhrauni fyrir skiptingu jarðarinnar í tvö býli.

             Stefnandi reisir málatilbúnað sinn á því að með afsali 10. nóvember 1952 hafi nánar afmarkaður hluti jarðarinnar Miðhrauns verið seldur Guðmundi Þórðarsyni. Með jarðarpartinum hafi einnig fylgt beitarítak í fjalllendi jarðarinnar. Að öðru leyti hafi jörðinni Miðhrauni verið ráðstafað sama dag til Kristjáns Þórðarsonar. Til vara er byggt á því að fjalllendi Miðhrauns sé óskipt land jarðanna. Af hálfu stefnda er því hins vegar haldið fram að allt land Miðhrauns sé óskipt ef frá eru talin ræktuð tún Miðhrauns I og um 100 hektara spilda Miðhrauns II, sem seld var með afsalinu 10. nóvember 1952. Áskilur stefnda sér rétt til málshöfðunar til viðurkenningar á eignarrétti að beitarlandi Miðhrauns I sem stefnda telur óskipt landi jarðanna.

             Með hliðsjón af því að stefnandi taldi að réttur Miðhrauns II væri bundinn við fjalllendi jarðarinnar var Ingvi Þorsteinsson, náttúrufræðingur, fenginn til að skilgreina legu fjalllendisins. Skilaði hann álitsgerð 24. október 2003 en í niðurlagi hennar segir svo:

Af því sem hér hefur verið sagt má álykta að enda þótt gróðurfarsleg mörk milli láglendisbeltis og fjallbeltis í Miðhrauni séu ekki skörp, m.a. vegna hraunsins, liggi þau að jafnaði nálægt 200-250 m hæð. Þetta eru tiltölulega lág mörk fyrir fjallbelti og svara raunverulega til algengustu hæðar hlíðabeltis, eins og að framan var getið. Orsökina verður að rekja til staðbundinna, erfiðra veðurskilyrða í fjalllendi Snæfellsness.

III.

             Stefnda reisir kröfu um frávísun á því að kröfugerð stefnanda beinist að fleirum en stefnda. Krafist sé dómsviðurkenningar fyrir landamerkjalýsingu Miðhrauns I gagnvart aðliggjandi jörðum án þess þó að stefna eigendum annarra jarða til að svara fyrir sig. Af þessum ástæðum telur stefnda að málatilbúnaður stefnanda fullnægi ekki kröfum 80. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991, um glöggar dómkröfur og skýrar málsástæður. Í þessu sambandi tekur stefnda fram að vafi leiki á því hvernig taka eigi til varna gagnvart dómkröfum sem beinast að þriðja manni.

Einnig reisir stefnda frávísunarkröfu á því að stefnandi sé að gera tilraun til að skipta óskiptu landi jarðanna án þess að gæta að skilyrðum landskiptalaga, nr. 46/1941.

             Þá bendir stefnda á að með öllu skorti greinargerð fyrir því í málatilbúnaði stefnanda hvernig niðurstöður náttúrufræðings geti ráðið skiptingu jarða milli eigenda og hvernig unnt sé að beita niðurstöðum náttúrufræðilegra rannsókna á gróðurfari til að búa til bindandi réttarreglur. Telur stefnda það auka enn á þörfina á því að málinu verði vísað frá dómi.

IV.

             Af hálfu stefnanda er vísað til þess að landamerki jarðarinnar gagnvart öðrum jörðum séu ágreiningslaus, svo sem staðfest hafi verið með skriflegri yfirlýsingu eigenda annarra jarða. Einnig telur stefnandi að aðild að málinu geti ekki varðað frávísun, enda séu öll atvik ljós og málatilbúnaður í samræmi við áskilnað í 80. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991.

             Jafnframt bendir stefnandi á að með máli þessu sé verið að fá skorið úr um ítaksrétt Miðhrauns II í landi jarðarinnar Miðhraun I. Þannig sé ekki verið að skipta landi heldur fá niðurstöðu um þau réttindi sem fylgja Miðhrauni II.

V.

             Stefnandi hefur höfðað mál þetta á hendur stefnda til viðurkenningar á landamerkjum jarðarinnar Miðhrauns I og til að fá leyst úr því hvaða réttur fylgi Miðhrauni II á fjalllandi því sem var hluti af jörðinni Miðhrauni áður en henni var skipt í tvö býli.

             Það land Miðhrauns sem lagt var til nýbýlisins Miðhraun II með afsali 10. nóvember 1952 er suðaustur hluti jarðarinnar. Til vesturs við það land liggja ræktuð tún Miðhrauns I. Til norðurs er síðan fjalllendi.

             Í málinu liggur fyrir að krafa stefnanda um landamerki Miðhrauns I til vesturs liggja að jörðinni Hjarðarfelli. Til austurs nær kröfugerð stefnanda hins vegar að jörðinni Hörgsholt. Til suðurs nær kröfugerð stefnanda síðan að landi jarðarinnar Eiðhúss að Krókslæk, en eftir honum og samkvæmt nánari lýsingu allt í Sliglæk að landi stefnda sem lagt var til nýbýlisins. Ekki getur varðað frávísun þótt stefnandi beini að stefnda kröfu um viðurkenningu á landamerkjum sem eru utan aðliggjandi lands jarðanna. Eftir atvikum getur hins vegar leitt til sýknu ef stefnda verður ekki talin eiga aðild að þeim hagsmunum sem kröfugerð stefnanda tekur til, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991.

             Stefnandi reisir málatilbúnað sinn á því að beitarítak fylgi eingöngu Miðhrauni II á fjalllandi, en til vara að það landsvæði sé óskipt land jarðanna. Samkvæmt þessu er stefnandi ekki að freista þess að fá með dómi skipt landi sem hann telur óskipt með jörðunum. Verður því ekki fallist á kröfu um frávísun þar sem málshöfðunin fari á svig við fyrirmæli landskiptalaga, nr. 46/1941.

             Með málssókn þessari leitast stefnandi við að setja niður merki fjalllands Miðhrauns, sem hann telur undirorpið réttindum sem fylgja Miðhrauni II, auk þess að fá úr því skorið hvort um er að ræða beitarrétt á því svæði eða óskipt land jarðanna. Telur stefnandi að mörk að þessu leyti ráðist af því hvar fjalllendi tekur við af undirlendi.

             Stefnandi hefur ekki reynt að leiða í ljós hvar í landinu náttúruleg mörk fjalllands til norður liggja með því að afla matsgerðar eftir ákvæðum IX. kafla laga um meðferð einkamál, nr. 91/1991, eins og honum hefði verið í lófa lagið. Þess í stað hefur stefnandi upp á sitt eindæmi aflað álitsgerðar náttúrufræðings sem skilgreinir fjalllandið eftir hæð lands yfir sjávarmáli. Tekur kröfugerð stefnanda um mörk lands til norður síðan mið af þessu.

             Í afsölum 10. nóvember 1952 annars vegar til Guðmundar Kristjánssonar fyrir Miðhrauni II og hins vegar til Þórðar Kristjánssonar frá föður þeirra Kristjáni Þórðarsyni kemur fram að fjallland sé í óskiptri sameign. Í landskiptagerð fyrir Miðhraun II frá 28. janúar 1961 segir síðan að fjallland sé óskipt eða sameiginlegt til beitar. Ekki liggja fyrir aðrar heimildir um merki að þessu leyti og getur því þurft að setja þau niður eftir staðháttum, eins og stefnandi gerir ráð fyrir. Komi til þess verða merki lands, undirorpið réttindum sem fylgja Miðhrauni II, hvort sem um er að ræða beitarrétt eða óskipt land, ekki ákveðin eftir hæð lands yfir sjávarmáli. Kröfugerð að því er varðar fjalllandið getur því ekki orðið grundvöllur að dómi í málinu og verður henni vísað frá dómi.

             Ákvörðun málskostnaðar bíður efnisdóms í málinu.

             Benedikt Bogason, héraðsdómari, kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

             Vísað er frá dómi kröfum stefnanda, Miðhrauns I ehf., að því er varðar fjallland það sem tilheyrði jörðinni Miðhrauni. Að öðru leyti er hrundið kröfu stefnda, Félagsbúsins Miðhrauns II sf., um frávísun málsins.

             Málskostnaður úrskurðast ekki.