Hæstiréttur íslands

Mál nr. 237/2004


Lykilorð

  • Bifreið
  • Manndráp af gáleysi


Fimmtudaginn 4

 

Fimmtudaginn 4. nóvember 2004.

Nr. 237/2004.

Ákæruvaldið

(Sigríður Jósefsdóttir saksóknari)

gegn

X

(Guðmundur Ágústsson hdl.)

 

Bifreiðir. Manndráp af gáleysi.

X var ákærður fyrir manndráp af gáleysi með því að hafa ekið bifreið sinni yfir á rangan vegarhelming með þeim afleiðingum að hann lenti í árekstri við aðra bifreið, en farþegi í framsæti þeirrar bifreiðar lést. Þótti nægilega sannað að bifreið X hafi verið á röngum vegarhelmingi miðað við akstursstefnu þegar áreksturinn varð. Hvorugur ökumannanna gat borið um aðdraganda hans vegna minnisleysis, en báðir hlutu þeir alvarleg meiðsl við áreksturinn. Skoðun sú, sem framkvæmd var á bifreiðunum var hvorki ítarleg né til þess ætluð að leiða í ljós orsakir árekstrarins. Á grundvelli hennar varð því ekki útilokað að bilun hafi orðið í bifreið X skömmu fyrir áreksturinn. Var talið, að orsök hans væri óupplýst og því ósannað að bifreið X hafi verið á röngum vegarhelmingi vegna gáleysis hans. Var hann því sýknaður.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen, Hrafn Bragason og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 10. maí 2004 af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að ákærði verði sakfelldur samkvæmt ákæru og honum ákveðin refsing og svipting ökuréttar.

Ákærði krefst staðfestingar héraðsdóms.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Guðmundar Ágústssonar héraðsdómslögmanns, 200.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Vesturlands 2. apríl 2004.

Mál þetta höfðaði sýslumaðurinn í Borgarnesi með ákæru 29. desember 2003 á hendur ákærða, X, [...], Selfossi.  Málið var dómtekið 23. mars s.l. að lokinni aðalmeðferð.

Í ákæruskjali segir að málið sé höfðað gegn ákærða „fyrir hegningar- og umferðarlagabrot, með því að hafa síðdegis þriðjudaginn 6. ágúst 2002, á leið norður Vesturlandsveg við bæinn Fiskilæk í Leirár- og Melahreppi, ekið bifreiðinni UZ-[...], á vegarhelmingi fyrir umferð úr gagnstæðri átt án nægjanlegrar aðgæslu með þeim afleiðingum, að hann lenti í árekstri við bifreiðina TL-[...], sem ekið var suður þann veg og farþegi í framsæti þeirrar bifreiðar Þ fædd [...] 1924, hlaut svo mikla áverka að hún lést samstundis og ökumaður bifreiðarinnar H, fæddur [...] 1932 hlaut brjóstholsáverka með broti á bringubeini og rifbrotum hægra megin sem og lungnamari á hægra lunga, mjaðmagrindaráverka með broti á vinstri mjaðmarkambi og nánast ótilfærðum brotum á lífbeininu og setbeininu, brot á augnkarli hægri mjaðmaliðar með liðhlaupi á mjaðmakúlunni inn á við auk andlitsáverka með innkýldu broti á hægra kinnbeini, broti á augntóftarbotninum sömu megin og brotum í gagnaugabeininu og nefholubeinum og mar og sár víða um líkamann svo sem á kviðvegg og hægra hné.

Telst þetta varða við 215. og 219. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með áorðnum breytingum og 1. mgr. 4. gr., 1. mgr. 14. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, með áorðnum breytingum.

Í málinu gerir Guðmundur B. Ólafsson hdl., fyrir hönd H, kt. [...], skaðabótakröfu á hendur ákærða að fjárhæð kr. 2.105.825,- auk áfallandi vaxta á grundvelli 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 og dráttarvaxta skv. fyrrgreindum lögum.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til sviptingar ökuréttar samkvæmt 101. gr. fyrrgreindra umferðarlaga, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993.“

Skipaður verjandi ákærða, Guðmundur Ágústsson hdl., gerir þær kröfur í málinu fyrir hönd ákærða að hann verði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins, bótakröfu vísað frá dómi eða hafnað og sakarkostnaður felldur á ríkissjóð.

I.

Þriðjudaginn 6. ágúst 2002, kl. 17:00, voru tveir lög­reglu­menn við al­mennt eftir­lit á Vestur­lands­vegi undir Hafnar­fjalli er þeim barst til­kynning frá Neyðar­lín­unni um að harður árekstur hefði orðið við bæinn Fiski­læk.  Lög­reglu­mennirnir brugðust skjótt við og voru komnir á vettvang 7 mínútum eftir að til­kynningin barst.

Á vettvangi gaf að líta tvær bif­reiðar sem lent höfðu í hörðum árekstri.  Báðar bif­reið­arnar voru á hægri vegar­helmingi miðað við akstur­stefnu til suð­austurs.  Dökkblá Skoda bif­reið, fasta­númer TL-[...], sneri með framendann til suð­austurs en grá­græn Toyota bif­reið, fasta­númer UZ-[...], með framendann til norð­vesturs.  Báðar bif­reið­arnar voru mikið skemmdar og af um­merkjum mátti ráða að þær hefðu lent hvor framan á annarri.

Kona fædd árið 1924, Þ, hafði verið far­þegi í fram­sæti bif­reiðarinnar TL-[...].  Hún var lá­tin er lög­regla kom á vettvang.  Í öku­manns­sæti bif­reiðarinnar var karl­maður fæddur árið 1932, H.  Hann var mikið slasaður en með með­vit­und.  H var sam­kvæmt því sem bókað er í frum­skýrslu lög­reglu nokkuð kvalinn og átti hann erfitt með að sitja kyrr.  Hann svaraði ekki spurningum lög­reglu um hvað komið hefði fyrir og má ráða af skýrslu lögreglu að H hafi ekki verið vel áttaður.  Hann var fluttur af vettvangi kl. 17:25 með sjúkra­bif­reið á sjúkra­húsið á Akra­nesi og í fram­haldi af því á Land­s­pí­tala-Há­skóla­sjúkra­hús í Foss­vogi.

Í öku­manns­sæti bif­reiðarinnar UZ-[...] sat ákærði og var hann blóðugur í framan og á búk.  Það blæddi úr munni hans sem og báðum eyrum.  Í frum­skýrslu lög­reglu kemur fram að ákærði hafi verið með með­vit­und en hann ekki getað tjáð sig.  Hann hefði hins vegar virst skilja það sem við hann var sagt.  Ákærði var fluttur af vettvangi kl. 17:45 með þyrlu Landhelgis­gæslunnar á Land­s­pí­tala-Há­skóla­sjúkra­hús í Foss­vogi.

Við vettvangs­rannsókn lög­reglu kom í ljós að hemla­för eftir bif­reiðina TL-[...] voru 12,4 metrar eftir vinstri hjól­barða og 14,2 metrar eftir hægri hjól­barða.  Náðu hemla­förin 1 metra fram fyrir bif­reiðina þar sem hún hafði stöðvast á veginum.  Engin hemla­för fundust hins vegar eftir bif­reið ákærða.  Lög­regla ljós­myndaði vettvang og teiknaði jafnframt af honum af­stöðu­mynd.

Sam­kvæmt frum­skýrslu lög­reglu var sól­skin á slyss­tað og vegurinn þurr.  Yfir­borð vegar var mal­bikað og slétt. 

Í þágu rannsóknar málsins voru tekin blóð­sýni úr öku­mönnum bif­reiðanna.  Niður­staða alkóhól­rannsóknar Rannsóknarstofu Háskóla Íslands í lyfjafræði var sú að ekkert alkóhól væri að finna í sýnunum.

II.

Ákærði skýrði svo frá fyrir dómi að hann hefði farið á þjóðhátíð í Vestmannaeyjum um hádegi laugardaginn 3. ágúst 2002.  Hann kvaðst hafa gist í heimahúsi yfir helgina en farið inn í Herjólfsdal til að skemmta sér.  Hann hefði fengið sér í glas bæði á laugardeginum og sunnudeginum en ekkert eftir það.  Á mánudeginum hefði hann hins vegar tekið því rólega.  Ákærði kvaðst aðspurður hafa sofið vel aðfaranótt þriðjudagsins, hann hefði sofnað um ellefu leytið á mánudagskvöldinu og vaknað kl. 09:00 morguninn eftir.

Fram kom hjá ákærða að það hefði dregist að hann færi frá Vestmannaeyjum þar sem þoka hefði hamlað flugi og fullt verið með Herjólfi.  Hann hefði því ekki komist þaðan fyrr en með flugi kl. 11:30 á þriðjudeginum en flogið hefði verið á flugvöllinn á Bakka.  Hann hefði fengið far með kunningja sínum þaðan og til Þorlákshafnar þar sem bifreið hans hefði verið.  Hann hefði því næst farið á heimili sitt á Selfossi og náð í fatnað og fleira.  Að því loknu hefði hann ekið til Reykjavíkur þar sem hann hefði komið við í verslun.  Hann hefði síðan ekið áleiðis norður að vinnustað sínum sem á þessum tíma hefði verið í Bröttubrekku þar sem stóð yfir vegavinna.  Tók ákærði fram að hann hefði átt að vera kominn til vinnu kl. 07:00 næsta morgun og honum því ekkert legið á.  Aðspurður um ökuhraða svaraði ákærði því til að hann hefði líkt og venjulega ekið á um 90 kílómetra hraða miðað við klukkustund.  Umferð sagði hann hafa verið nokkra á leiðinni.

Ákærði kvaðst síðast muna eftir sér í þann mund sem hann ók upp úr Hvalfjarðargöngunum.  Hann sagðist ekkert muna eftir aðdraganda slyssins eða slysinu sjálfu og gæti því ekkert sagt til um orsakir þess.  Sérstaklega aðspurður kvaðst ákærði ekki hafa fundið til syfju við aksturinn þennan dag.

Þá kom fram hjá ákærða að hann hefði keypt bifreiðina UZ-[...] á föstudeginum fyrir Verslunarmannahelgina og því einungis verið búinn að eiga hana í nokkra daga er slysið varð.  Hann kvaðst ekki hafa orðið var við að neitt væri að bifreiðinni í þann stutta tíma sem hann átti hana.

Ákærði sagðist hafa verið orðinn nokkuð kunnugur framanlýstri akstursleið er atvik máls gerðust.  Verkið í Bröttubrekku hefði verið búið að standa í um mánaðartíma og hann verið búinn að fara leiðina nokkrum sinnum á því tímabili.

Aðspurður um veðurskilyrði svaraði ákærði því til að sólskin og mjög gott veður hefði verið þennan dag.

Fyrir dómi upplýsti ákærði að hann væri með aukin ökuréttindi. 

III.

Vitnið H skýrði svo frá fyrir dómi að umræddan dag hefði það verið á suðurleið eftir helgardvöl á Siglufirði.  Vitnið kvaðst muna eftir að hafa drukkið kaffi í Borgarnesi síðla dags en hvað síðan gerðist myndi það ekki þar sem það hefði misst minnið við áreksturinn.

Umferð þennan dag sagði vitnið ekki hafa verið mjög mikla.  Þá kvað það veðrið hafa verið ágætt.

Vitnið Kristján Ingi Hjörvarsson lögreglumaður bar fyrir dómi að af ummerkjum á vettvangi að dæma hefði árekstur bifreiðanna TL-[...] og UZ-[...]  verið mjög harður.  Vitnið sagði hemlaför hafa verið sjáanleg eftir bifreiðina TL-[...] á hægri akrein miðað við ætlaða akstursstefnu hennar.  Engin hemlaför eða önnur för hefðu hins vegar fundist eftir bifreið ákærða sem þegar að var komið hefði verið á vinstri akrein miðað við ætlaða akstursstefnu. 

Vitnið kvaðst aðspurt hafa dregið þá ályktun af ummerkjum á vettvangi að bifreið ákærða hefði verið ekið yfir á rangan vegarhelming með þeim afleiðingum að hún lenti framan á bifreiðinni TL-[...].

Veður á vettvangi sagði vitnið hafa verið gott, sólskin og þurrt.

Vitnið Ámundi Sigurðsson héraðslögreglumaður kvaðst hafa rannsakað vettvang og mælt hann upp.  Vitnið sagðist hafa farið ítrekað yfir vettvanginn án þess að finna nokkur för eftir bifreið ákærða.  Greinileg bremsuför hefðu hins vegar verið eftir bifreiðina TL-[...]. 

Vitnið taldi tildrög slyssins þau að bifreið ákærða hefði verið ekið yfir á rangan vegarhelming.  Þá bar vitnið að af ummerkjum að dæma hefði bifreiðin TL-[...] kastast til baka við áreksturinn en bremsuför eftir bifreiðina hefðu náð 1 metra fram fyrir hana þar sem hún stóð á veginum.

Einnig kom fram hjá vitninu að veður hefði verið gott þennan dag.

Vitnið Theodór Þórðarson yfirlögregluþjónn kvaðst hafa komið á vettvang umrætt síðdegi og meðal annars tekið framlagðar ljósmyndir af honum.

Vitnið sagði greinileg hemlaför hafa verið eftir bifreiðina TL-[...] en engin för hefði verið að sjá eftir bifreið ákærða, hvorki hemlaför né önnur för.

Fram kom hjá vitninu að af ummerkjum að dæma hefðu bifreiðarnar tvær rekist nánast beint hvor framan á aðra.

Vitnið sagði veður hafa verið mjög gott þennan dag og yfirborð vegarins þurrt.

IV.

Meðal gagna málsins er slysaskoðunarskýrsla vegna skoðunar skoðunarmanna Frumherja hf., bifvélavirkjanna Hauks Óskarssonar og Kristófers Kristóferssonar, á bifreið ákærða UZ-[...], Toyota Corolla XLi, dags. 8. ágúst 2002.  Fór skoðunin fram í tjónaskoðunarstöð Sjóvár-Almennra trygginga hf. í Reykjavík.

Í skýrslu tvímenninganna kemur meðal annars fram að bifreiðin UZ-[...] hafi verið mjög illa farin og ekki í ökuhæfu ástandi.  Um stýrisbúnað segir í skýrslunni að hann hafi ekki verið hægt að prófa vegna skemmda.  Ekkert athugavert hafi þó verið að sjá.  Um ástand hjólabúnaðar segir meðal annars að hjólbarði hægra megin að framan hafi verið loftlaus „v/tjóns“.  Almennt segir um hjólabúnaðinn að hann hafi verið mikið skemmdur að framan en ekkert athugavert þó verið að sjá.  Þá segir um ástand hemlabúnaðar að hemlakerfið hafi verið mjög illa farið og ekkert verið hægt að prófa það.

Vitnið Haukur Óskarsson kom fyrir dóm og staðfesti og skýrði framangreinda slysaskoðunarskýrslu.  Fram kom hjá vitninu að það myndi ekki vel eftir umræddri skoðun sem verið hefði hefðbundin slysaskoðun.  Vitnið bar að ekkert hefði komið fram við skoðunina sem benti til þess að bilun hefði orðið, hvorki í bifreið ákærða né bifreiðinni TL-[...] sem einnig hefði verið skoðuð.  Vitnið sagði að um eina klukkustund hefði tekið að skoða hvora bifreið.

Vitnið sagði bifreið ákærða hafa verið svo mikið skemmda að ekki hefði verið hægt að prófa búnað hennar.  Því hefði eingöngu verið hægt að framkvæma svokallaða sjónskoðun á ástandi bifreiðarinnar.  Vitnið upplýsti að búnaður bifreiðarinnar hefði ekki verið tekinn í sundur við skoðunina.

Aðspurt um hvort það gæti útilokað að bilun hefði orðið í bifreið ákærða fyrir áreksturinn svaraði vitnið því til að erfitt væri að útiloka nokkuð en ítrekaði fyrri orð um að ekkert hefði komið fram við skoðunina sem benti til bilunar fyrir áreksturinn.  Þá var á vitninu að skilja að ef óeðlilegt slit á búnaði bifreiðarinnar hefði fundist við skoðunina hefði þess verið getið í skýrslunni.

Um ástand stýrisbúnaðar bifreiðar ákærða vísaði vitnið til skoðunarskýrslunnar og tók einnig fram að ekkert hefði bent til slits í búnaðinum.

Sérstaklega aðspurt um ummæli í skýrslunni varðandi loftlausan hjólbarða hægra megin á framöxli bifreiðar ákærða vísaði vitnið í fyrstu til beyglu á felgu.  Vitnið dró síðan í land eftir að hafa skoðað myndir af bifreið ákærða og TL-[...] þar sem á myndunum mátti eingöngu sjá beyglu á felgu hægra megin á framöxli bifreiðarinnar TL-[...].  Vitnið kvað í þessu sambandi mögulegt að beygla hefði verið á umræddri felgu bifreiðar ákærða að innanverðu en tók fram að það myndi ekki hvort slík beygla hefði verið til staðar.  Þá kom fram hjá vitninu að ef ekið væri á loftlausum hjólbarða einhverja metra þá sæi fljótt á honum en ekkert slíkt væri að sjá á umræddum hjólbarða.

Vitnið Kristófer Kristófersson bifvélavirkjameistari kom fyrir dóm og staðfesti og skýrði umrædda skýrslu þeirra Hauks Óskarssonar.  Vitnið bar líkt og Haukur að þeir hefðu framkvæmt svokallaða sjónskoðun á bifreið ákærða og bifreiðinni TL-[...].  Á vitninu var að skilja að sú skoðun hefði verið hefðbundin og tók vitnið aðspurt fram að það hefði ekki verið verkefni þeirra Hauks að grafast fyrir um orsakir umferðarslyssins.  Þeir hefðu einungis verið beðnir um að framkvæma hefðbundna slysaskoðun, þ.e. meta ástand bifreiðanna tveggja eftir áreksturinn.

Vitnið kvaðst reka minni til þess að við skoðun á stýrisbúnaði bifreiðar ákærða hefði ekkert fundist sem það eða félagi þess hefði talið athugavert eða að benti til bilunar fyrir áreksturinn.  Tók vitnið þó fram í þessu sambandi að stýrisbúnaður bifreiðarinnar hefði verið mjög illa farinn og því verið erfitt að segja eða fullyrða nokkuð um ástand hans fyrir áreksturinn.  Það var álit vitnisins að með því að taka búnaðinn í sundur og skoða hvern hluta hans fyrir sig hefði mátt fá betri mynd af ástandi hans fyrir áreksturinn.

Aðspurt um hinn loflausa hjólbarða á framöxli bifreiðar ákærða gat vitnið ekki gefið sérstakar skýringar á þeim orðum í skýrslunni að hjólbarðinn hefði verið loftlaus „v/tjóns“.  Vitnið kvaðst ekki geta fullyrt að hjólbarðinn hefði sprungið við áreksturinn.

Um ástand hemlabúnaðar bifreiðar ákærða vísaði vitnið til orða sinna um ástand stýrisbúnaðar bifreiðarinnar og kvað það sama eiga við um ástand hemlabúnaðarins.

V.

Í málinu liggur fyrir skýrsla Þóru S. Steffensen réttarmeinafræðings, dags. 27. ágúst 2002, vegna krufningar sem hún framkvæmdi á líki Þ.  Í lok skýrslunnar kemur fram eftirfarandi ályktun réttarmeinafræðingsins:  „Dánarorsök Þ er fjöláverkar.  Dánaratvik eru slys.  Þ var með útbreidda, alvarlega áverka.  Sá áverki er hraðast dró Þuríði til dauða var rifan á ósæðinni.“

Einnig liggur fyrir vottorð Yngva Ólafssonar læknis vegna H.  Samkvæmt vottorðinu hlaut H eftirtalda áverka við áreksturinn: „1. Brjóstholsáverka með broti á bringubeini og rifbrotum hægra megin sem og lungnamari á hægra lunga.  2. Mjaðmagrindaráverka með broti á vinstri mjaðmarkambi [---] og nánast ótilfærðum brotum á lífbeininu og setbeininu.  3. Brot á augnkarli hægri mjaðmaliðar [---] með liðhlaupi á mjaðmarkúlunni inn á við [---].  4. Andlitsáverka með innkýldu broti á hægra kinnbeini, broti á augntóftarbotninum sömu megin og brotum á gagnaugabeininu og nefholubeinum.  5. Mar/sár víða svo sem á kviðvegg og hægra hné.“

Þá liggja fyrir í málinu nokkur vottorð þar sem afleiðingar árekstursins á heilsu ákærða eru raktar.  Í vottorði Víðis Óskarssonar læknis, dags. 1. desember 2003, er meðal annars að finna stutta samantekt á áverkum ákærða.  Í henni kemur fram að ákærði hafi hlotið talsverða kviðáverka, brot á vinstri mjaðmarspaða, brot á efri kjálka, rifbrot og mar á lungum, nefbrot og lömun á augnvöðvum og tvísýni sem síðar gekk til baka.  Þá kemur einnig fram í vottorðinu að ákærði hafi verið heilsuhraustur fyrir slysið.  Í sjúkraskrá hans megi sjá merki vægra mjóbaksverkja og þá hafi hann greinst með gáttaflökt 1996 og farið í rafvendingu sem tekist hafi mjög vel.  Annars sé ekkert athugavert að finna í sjúkraskrá ákærða.

Í vottorði Önnu Bjarkar Magnúsdóttur, sérfræðings á háls-, nef- og eyrnadeild Landspítala-Háskólasjúkrahúss, dags. 31. júlí 2003, kemur meðal annars fram að ákærði hafi hlotið lífshættulega áverka og mikla andlitsáverka sem krafist hafi bráðaaðgerðar.  Þannig hafi hann hlotið mölbrot á efri kjálka báðum megin sem náð hafi inn í augnbotn vinstra megin.  Einnig hafi hann hlotið höfuðkúpubotnsbrot og fengið einkenni heilahristings.

VI.

Fyrir liggur að þriðjudaginn 6. ágúst 2002 rákust bifreiðarnar TL-[...] og UZ-[...] saman á Vesturlandsvegi í námunda við Fiskilæk í Leirár- og Melahreppi.  Ákærði var einn í síðarnefndu bifreiðinni en tvennt var í þeirri fyrrnefndu, ökumaður hennar, H, og farþegi í framsæti, Þ.  Upplýst er að við áreksturinn hlaut Þ mjög alvarlega áverka sem drógu hana til dauða með skjótum hætti, sbr. niðurstöður réttarkrufningar.  Í málinu nýtur ekki við vættis H um áreksturinn vegna minnisleysis hans sem rekja má til alvarlegra meiðsla sem hann hlaut við áreksturinn.

Ákærði man ekki frekar en vitnið H hvernig árekstur bifreiða þeirra bar að.  Af framburði ákærða og framlögðum læknisvottorðum má ráða að minnisleysi hans stafi af þeim alvarlegu áverkum sem hann hlaut við áreksturinn.

Vesturlandsvegur liggur í suðaustur-norðvestur á þeim vegarkafla sem bifreiðarnar skullu saman.  Ákærði hefur upplýst að hann hafi verið á leið norður Vesturlandsveg þennan eftirmiðdag og samkvæmt vætti H voru hann og hin látna á suðurleið. 

Af framlögðum ljósmyndum og vettvangsteikningu lögreglu má ráða að vitnið H hafi nauðhemlað skömmu áður en bifreið þess og bifreið ákærða skullu saman.  Hemlaför, sem skýrlega koma fram á nefndum ljósmyndum og vettvangsteikningu lögreglu, benda eindregið til þess að bifreið vitnisins hafi þá verið á hægri vegarhelmingi miðað við akstursstefnu til suðausturs.  Þá var það samdóma álit lögreglumannanna Kristjáns Inga Hjörvarssonar og Ámunda Sigurðssonar að af ummerkjum á vettvangi að dæma hefði bifreið ákærða verið á röngum vegarhelmingi þegar bifreiðarnar tvær skullu saman.  Að öllu þessu töldu þykir sannað að bifreið ákærða hafi verið á röngum vegarhelmingi miðað við aksturstefnu þegar árekstur varð með henni og bifreiðinni TL-[...].

Fyrir liggur samkvæmt framburði vitna og rannsóknargögnum lögreglu að gott veður var þann dag er atvik máls gerðust.  Þá er upplýst að yfirborð umrædds vegarkafla var þurrt, slétt og lagt bundnu slitlagi.

Um ástand ákærða 6. ágúst 2002 liggur fyrir í málinu að blóðsýni var tekið úr honum rétt rúmri klukkustundu eftir að áreksturinn varð við Fiskilæk. Við rannsókn Rannsóknarstofu Háskóla Íslands í lyfjafræði kom í ljós að ekkert alkóhól var í sýninu.  Þá liggur fyrir framburður ákærða þess efnis að hann hafi sofnað um klukkan ellefu að kvöldi 5. ágúst 2002 og vaknað klukkan níu næsta morgun, eftir góðan nætursvefn. Kvaðst ákærði aðspurður ekki hafa fundið til syfju við aksturinn á leið sinni áleiðis í Bröttubrekku.

Í málinu nýtur ekki framburðar vitna um ástand ákærða í aðdraganda árekstursins.  Við úrlausn málsins verður því að leggja til grundvallar framburð hans um það atriði enda fer hann í engu í bága við gögn málsins.

Skoðunarmenn Frumherja hf., bifvélavirkjarnir Haukur Óskarsson og Kristófer Kristófersson, framkvæmdu svokallaða slysaskoðun á bifreið ákærða og bifreiðinni TL-[...] að beiðni lögreglu.  Í skýrslu þeirra um bifreið ákærða kemur fram að stýris-, hjóla- og hemlabúnaður bifreiðarinnar hafi reynst það illa skemmdur að hann hafi ekkert verið hægt að prófa.  Þá hafi hjólbarði bifreiðarinnar hægra megin að framan verið loftlaus „v/tjóns“. 

Nefndir skoðunarmenn komu báðir fyrir dóm og skýrðu og staðfestu skoðunarskýrslur sínar.  Fram kom í vitnisburði skoðunarmannanna að hvorugur þeirra mundi vel eftir skoðuninni á bifreið ákærða.  Þó báru þeir að við hana hefði ekkert fundist sem benti til að bilun hefði orðið í bifreiðinni fyrir áreksturinn.

Upplýst er að slysaskoðun sú sem skoðunarmennirnir framkvæmdu var svokölluð sjónskoðun.  Ekki reyndist unnt að prófa stýris-, hjóla- og hemlabúnað bifreiðar ákærða með þeim prófunartækjum sem Frumherji hf. hefur yfir að ráða vegna þess hversu mikið skemmdur búnaðurinn var.  Fyrir dómi kom fram sú skoðun annars skoðunarmannsins, Kristófers Kristóferssonar, að með því að taka stýris- og hemlabúnað bifreiðarinnar í sundur og skoða hvern hluta hans fyrir sig hefði líklega mátt fá betri mynd af ástandi búnaðarins fyrir áreksturinn. 

Skoðunarmaðurinn Kristófer Kristófersson tók sérstaklega fram fyrir dómi að það hefði ekki verið verkefni skoðunarmannanna að grafast fyrir um orsakir árekstursins.  Þeir hefðu einungis verið beðnir um að framkvæma hefðbundna slysaskoðun, þ.e. meta ástand bifreiðanna tveggja eftir áreksturinn.  Þessi fullyrðing vitnisins fær stoð í beiðni lögreglunnar í Borgarnesi um slysaskoðun, dags. 7. ágúst 2002, og því sem segir í slysaskoðunarskýrslunum sjálfum um áhersluatriði skoðunarinnar, en í öllum þessum skjölum segir orðrétt:  „Sérstaklega er óskað eftir skoðun á öryggisbúnaði bifreiðanna eins og öryggisbeltum, líknarbelgjum, framsætum, hemlabúnaði og fl. sem tilheyrir öryggisbúnaði bifreiðarinnar.“

Af öllu því sem hér hefur verið rakið er ljóst að skoðun sú sem skoðunarmennirnir framkvæmdu á bifreið ákærða, sem og bifreiðinni TL-[...], var hvorki mjög ítarleg né sérstaklega til þess ætluð að leiða í ljós orsakir áreksturs bifreiðanna.  Á grundvelli hennar verður því ekki útilokað að bilun hafi orðið í bifreið ákærða skömmu fyrir áreksturinn. 

Þá verður við úrlausn málsins ekki fram hjá því litið að ekki fór fram sérstök rannsókn á loftlausum hjólbarða hægra megin að framan á bifreið ákærða.  Fyrir dómi gat hvorugur skoðunarmannanna upplýst á hverju sú ályktun, sem fram kemur í skoðunarskýrslu þeirra, að hjólbarðinn væri loftlaus „v/tjóns“, hefði byggst.  Haukur Óskarsson vísaði í fyrstu til beyglaðrar felgu en dró síðan í land eftir að hafa skoðað myndir af bifreið ákærða og bifreiðinni TL-[...], en á einni myndanna má greinilega sjá beyglu á felgu hægra megin að framan á bifreiðinni TL-[...].

Svo fyrir liggi brot gegn 215. og 219. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sem og þeim ákvæðum umferðarlaga sem í ákæru greinir, þarf að vera sannað svo ekki verði vefengt með skynsamlegum rökum að ákærði hafi sýnt af sér refsivert gáleysi.  Sönnunarbyrðin um þetta atriði hvílir á ákæruvaldinu, sbr. 45. gr. laga nr. 19/1991.

Samkvæmt öllu því sem hér hefur verið rakið er það álit dómsins að óupplýst sé hver var orsök þess að bifreið ákærða var á röngum vegarhelmingi er hún lenti framan á bifreiðinni TL-[...] á Vesturlandsvegi við Fiskilæk, þriðjudaginn 6. ágúst 2002.  Af því leiðir að ósannað er að bifreiðin hafi þar verið vegna gáleysis ákærða.  Sýkna ber því ákærða af öllum sakargiftum, sbr. 45. og 46. gr. laga nr. 19/1991.

Að fenginni framangreindri niðurstöðu ber að vísa bótakröfu H frá dómi, sbr. ákvæði 3. mgr. 172. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

Allur kostnaður sakarinnar greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Guðmundar Ágústssonar hdl., er hæfilega þykja ákveðin svo sem í dómsorði greinir.

Benedikt Bogason héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

D Ó M S O R Ð:

Ákærði, X, skal sýkn af öllum kröfum ákæruvaldsins í máli þessu.

Bótakröfu H er vísað frá dómi.

Allur sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Guðmundar Ágústssonar hdl., 200.000 krónur.