Hæstiréttur íslands
Mál nr. 467/2008
Lykilorð
- Samningur
- Uppsögn
|
|
Fimmtudaginn 26. mars 2009. |
|
Nr. 467/2008. |
Loftmyndir ehf. (Lárentsínus Kristjánsson hrl.) gegn Símanum hf. (Andri Árnason hrl.) |
Samningur. Uppsögn.
L og S gerðu með sér samning þess efnis að S fengi afnotarétt af tölvutækum loftmyndum og hæðarlínum frá L í janúar 1999. L gerði S reikninga á hverju ári samtals 5.000.0000 krónur auk virðisaukaskatts sem S greiddi jafnharðan. Gildistími samningsins var fimm ár en hann var jafnframt uppsegjanlegur af beggja hálfu með árs fyrirvara. Allt til loka árs 2005 voru lögskipti aðila hin sömu og áður án þess að nýr samningur hefði verið gerður. S krafðist greiðslu í uppsagnarfresti miðað við að S hefði sagt samningnum upp í byrjun árs 2006. Í dómi Hæstaréttar kom fram að L hefði mátt vera ljóst þegar S batt enda á samskiptin í byrjun árs 2006 að S teldi engan uppsagnarfrest gilda. L gerði þó S ekki viðvart um skilning sinn að þessu leyti fyrr en með bréfi 4. nóvember 2006 eða tæpu ári síðar. Þar af leiðandi fékk S ekki nýtt afnotarétt sinn á hinum ætlaða uppsagnarfresti svo sem hann hefði getað ef L hefði gert honum þennan skilningi ljósan. Þegar af þessari ástæðu var ekki fallist á að L gæti byggt rétt á því að eins árs uppsagnarfrestur hefði gilt um uppsögnina og kröfum L því hafnað.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 28. ágúst 2008. Hann krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 63.281.027 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 49.664.161 krónu frá 25. ágúst 2006 til 1. janúar 2007, af 58.686.548 krónum frá þeim degi til 1. júlí sama ár, en af 63.281.027 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst hann þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 24.170.048 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 9.022.387 krónum frá 1. janúar 2007 til 1. júlí sama ár, en af 24.170.048 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Að því frágengnu krefst hann þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér aðra lægri fjárhæð að mati réttarins. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur en til vara að dómkröfur áfrýjanda verði lækkaðar. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Eins og rakið er í héraðsdómi keypti stefndi afnotarétt af tölvutækum loftmyndum og hæðarlínum frá áfrýjanda með samningi 27. janúar 1999. Efni samningsins er nánar lýst í héraðsdómi og því hvernig lögskiptum aðila var háttað á grundvelli hans. Þannig gerði áfrýjandi stefnda reikninga á ári hverju samtals 5.000.000 krónur auk virðisaukaskatts sem stefndi greiddi jafnharðan. Gildistími samningsins var fimm ár en hann var jafnframt uppsegjanlegur af beggja hálfu með árs fyrirvara. Allt til loka árs 2005 voru lögskipti aðila hin sömu og áður án þess að nýr samningur hefði verið gerður. Áfrýjandi krefst greiðslu í uppsagnarfresti miðað við að stefndi hafi sagt samningnum upp í byrjun árs 2006 og byggir kröfuna á ákvæðum samningsins.
Áfrýjanda mátti vera ljóst þegar stefndi batt endi á samskiptin við hann í byrjun árs 2006 að stefndi taldi engan uppsagnarfrest gilda. Áfrýjandi gerði þó stefnda ekki viðvart um skilning sinn að þessu leyti fyrr en með bréfi 4. nóvember 2006 eða tæpu ári síðar. Fékk stefndi því ekki nýtt afnotarétt sinn á hinum ætlaða uppsagnarfresti svo sem hann hefði getað ef áfrýjandi hefði gert honum þennan skilning ljósan. Þegar af þessari ástæðu verður ekki fallist á að áfrýjandi geti byggt rétt á því að eins árs uppsagnarfrestur hafi gilt um uppsögnina. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Eftir þessum úrslitum og í samræmi við 1. mgr. 130. gr., sbr. 166. gr., laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála ber að dæma áfrýjanda til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti, svo sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Loftmyndir ehf., greiði stefnda, Símanum hf., 600.000 krónur ímálskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 24. júní 2008.
Mál þetta, sem dómtekið var 20. júní sl., er höfðað með stefnu birtri 4. júní 2007.
Stefnandi er Loftmyndir ehf., Laugavegi 13, Reykjavík.
Stefndi er Síminn hf., Ármúli 25, Reykjavík.
Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 63.281.027 krónur auk dráttarvaxta af 49.664.161 krónum frá 25. ágúst 2006 til 1. janúar 2007, af 58.686.548 krónum frá þeim degi til 1. júlí 2007 en af 63.281.027 krónum frá þeim degi til greiðsludags.
Til vara krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða 24.170.048 krónur með dráttarvöxtum af 9.022.387 krónum frá 1. janúar 2007 til 1. júlí 2007 en frá þeim degi af 24.170.048 krónum til greiðsludags.
Til þrautavara krefst stefnandi að stefndi verði dæmdur til að greiða aðra fjárhæð að mati dómsins.
Þá krefst stefnandi málskostnaðar
Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda og lækkunar til vara. Þá krefst hann málskostnaðar og til vara að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.
MÁLSATVIK
Stefnandi og stefndi, sem þá hét Landsíminn, gerðu samning 27. janúar 1999 um að stefndi keypti afnotarétt af tölvutækum loftmyndum og fimm metra hæðarlínum. Í samningnum segir m.a:
„4. Umfang.
Kaupandi kaupir afnotarétt gagna af ofangreindum toga sem Loftmyndir ehf. gera næstu 5 árin. ...
5. Greiðslur.
Fyrir afnot staðlaðra Isnets93 gagna greiðir kaupandi Loftmyndum ehf. : kr. 10.000 fyrir kortblað sem er 4 x 3 km. að viðbættum VSK að lágmarki 5 milljónir á ári + VSK. Lágmarksfjárhæð leiðréttist með breytingu á lánskjaravísitölu. Grunnur vísitölu er nóvember 1998. Reikningar verða lagðir fram tvisvar á ári þ.e. í júní og desember. Þegar reikningur er lagður fram í des. skulu aðilar gera upp hvað hefur verið keypt og hvernig það rímar við ofangreinda fjárhæð.
6. Ágreiningur
Samningur þessi er uppsegjanlegur af beggja hálfu með árs fyrirvara. Skal þá ganga frá lokagreiðslu kaupanda fyrir afhent gögn. Rísi ágreiningur út af samningi þessum skal hann útkljáður fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.“
Reikningar stefnanda til stefnda frá árunum 2000 til 2005 liggja frammi en þeir eru að fjárhæð fimm milljónir króna, auk virðisaukaskatts, fyrir hvert ár. Ýmist hafa verið gefnir út einn eða tveir reikningar á ári. Á reikningi frá árinu 2000 segir að reikningurinn sé „Greiðsla fyrir afnot myndkorta í eigu Loftmynda samkvæmt samningi milli aðila frá 27.01.1999“. Lýsingin er svipuð á öðrum reikningum og vísað til afnota myndkorta eða landfræðilegra gagna, samkvæmt samningnum.
Í máli þessu byggir stefnandi á því að hann hafi afhent stefnda mun fleiri myndir en hann krafðist greiðslu fyrir með fyrrgreindum reikningum. Það hafi verið sameiginlegur skilningur stefnanda og stefnda og samið um á milli þeirra, að halda þeim myndum sem ekki væri greitt fyrir til haga og gera svo upp við uppsögn samningsins. Þá telur hann að samningurinn hafi framlengst, þar með talið uppsagnarákvæði hans, og gerir kröfu um greiðslu í uppsagnarfresti. Auk þess krefst hann mismunar sem leiðir af vísitöluhækkun, en ekki var gerð krafa um þennan mun í reikningunum.
Í stefnu segir að í byrjun árs 2006 hafi stefnanda verið tilkynnt óformlega að hans þjónustu væri ekki óskað frekar. Síðasti reikningurinn er gefinn út 12. desember 2005. Stefnandi kveðst hafa tekið saman yfirlit yfir ógreidd kortablöð og sent stefnda 14. mars 2006. Kveðst hann ekki hafa fengið viðbrögð við þessu og því útbúið nákvæmara yfirlit sem hann hafi sent ásamt bréfi 25. júlí 2006.
Með bréfi stefnda 11. ágúst 2006 var kröfum stefnanda hafnað. Stefnandi ítrekaði kröfur sínar með bréfi í nóvember 2006 og var þeim enn hafnað af hálfu stefnda.
Framkvæmdastjóri stefnanda, Örn Arnar Ingólfsson, kom fyrir dóminn. Hann kvað þá hugmynd hafa fæðst hjá Loftmyndum að kortleggja Ísland. Þetta hefðu verið metnaðargjarnir draumar og þeir viljað fá fastan samning til að fjármagna erfiðasta hjallann. Örn kvað Loftmyndir hafa samið við Braga Má Bragason hjá Símanum. Þeir hjá Loftmyndum hefðu skrifað drög að samkomulagi sem hefði svo verið kastað á milli. Þeir hefðu veitt mikinn afslátt vegna þess að samningurinn tryggði þeim fastar greiðslur á hverju ári. Ein af ástæðunum fyrir að þeir verðbættu ekki reikningana hefði verið hræðslan við að þeir gætu ekki staðið við þetta og yrðu í lokin að endurgreiða. Svo hefði aðstaðan breyst mikið með því að GPS tæknin kom inn í flugvélar.
Fastir verkfundir hefðu verið teknir upp þar sem starfsmenn Símans lögðu fram sínar hugmyndir um hvað þeir ætluðu að gera næsta sumar. Loftmyndir hefðu ákveðið hvar þeir tóku myndir, en einhver skipti hnikað til verkum eða verkröð vegna óska Símans. Örn kvað Símann hafa fengið allt sem varð til hjá þeim.
Örn sagði að Sigurði Kristni Guðjohnsen hefðu verið afhent gögnin og hann sett þau inn í kerfi ljósleiðaradeildar en jafnframt sent afrit til Braga. Örn taldi að Braga hefði hlotið að vera ljóst að þeir væru að afhenda miklu meira en samningurinn sagði til um þegar komið var fram á 2002 eða 2003. Í tölvupósti 2005 hefði Bragi svo allt í einu rætt um einhvern fjárhagsramma sem gerði að hann vildi ekki fá frekari gögn. Vitnið hefði þá búið til lauslegt uppgjör. Bragi hefði hringt og sagt það af og frá að staða málsins væri þessi. Þeir hefðu útbúið nýtt uppgjör í júlí 2006.
Örn kvaðst aldrei hafa litið svo á að hann væri vanhaldinn í greiðslum, heldur talið að hann hefði tryggingu í síðustu grein samningsins þannig að ef samningi væri sagt upp yrði lokauppgjör. Þeir hefðu talið að greiðslur myndu smám saman jafnast út þar sem mismikið væri afhent milli ára. Ekki hefði farið á milli mála hversu mikið var afhent, það hefði verið unnt að telja skrárnar.
Inntur eftir því hvort uppgjör samkvæmt 5. gr. hafi farið fram sagði Örn að árið 2003 hafi stefnda verið sent uppgjör, um að það hallaði á Símann. Hin árin hefði þetta ekki verið gert. Ekki hefði verið stemmt af á verkfundunum hversu mikið var afhent.
Sigurður Kristinn Guðjohnsen, fyrrverandi starfsmaður Símans kom fyrir dóminn. Hann kvaðst hafa unnið við kortagerð hjá ljósleiðaradeild Símans. Hlutverk Sigurðar hefði verið að halda utan um gögnin og koma þeim fyrir. Samskiptum við Örn Ingólfsson lýsti hann þannig að þeir hjá Símanum hefðu athugað hvað Loftmyndir væru að gera til þess að þeir gætu skipulagt vinnu hjá Símanum næsta árið. Þeir hefðu hitt starfsmenn Loftmynda einu sinni á ári til að fá að vita hvað væri framundan hjá þeim. Síminn hefði ekki beðið Loftmyndir að vinna fyrir sig sérstaklega, en látið þá vita hvað var á dagskrá. Gengið hefði verið út frá að þeir fengju allar myndirnar jafnóðum og þær væru tilbúnar. Sigurður var spurður að því hvort myndirnar hefðu tekið yfir stærra svæði en þeir voru að vinna með. Hann sagði að svo hefði verið. Hann sagðist ekki geta sagt til um hversu mikið af myndum þeir hefðu raunverulega notað af þeim sem bárust frá Loftmyndum. Sigurður kvaðst hafa staðið í þeirri trú að þeir mættu ekki panta myndir sérstaklega en að öðru leyti ættu þeir að fá allar myndirnar frá Loftmyndum.
Sigurður kvaðst hafa haldið utan um gögnin en þau hafi átt að vera aðgengileg þegar hann fór frá Loftmyndum. Bragi hefði fengið gögnin jafnóðum í sína deild. Undir lok vinnutíma Sigurðar, þegar Sigurði og fleirum var sagt upp og deildin lögð niður í mars 2006, hefði Bragi talaði um að hann ætlaði að fara að segja upp samningnum. Sigurður hefði ekki vitað hvort þeir væru að borga of mikið eða lítið. Hann kvaðst aldrei hafa lesið samninginn og staðfesti að það hefði ekki verið reynt að stilla af það magn af gögnum sem Síminn fékk á hverju ári.
Jóhann Örn Guðmundsson, fyrrverandi yfirdeildarstjóri hjá ljósleiðaradeild Símans, kom fyrir dóminn. Hann sagði að sem yfirmaður á ljósleiðardeild hefði hann séð um að panta inn loftmyndir. Jóhann minnti að gert hefði verið ráð fyrir því í samningnum að þeir fengju allar myndir sem Loftmyndir tækju, en að ekki yrðu teknar myndir sérstaklega fyrir Símann. Jóhann kvaðst ekki hafa komið að sjálfum samningnum og því ekki vita nákvæmlega hvað hefði verið samið um í magni eða verði. Einu sinni eða tvisvar á ári hefðu verið fundir með Loftmyndum þar sem farið yfir landsvæði sem stóð til að vinna og pantaðar myndir eftir því sem til var. Hefði svo verið fyllt upp í það sem vantaði inn í síðar. Þeir hefðu fært óskir sínar um myndir inn á kort og svo yfirleitt átt fund með Loftmyndum. Myndirnar hefðu verið látnar fylgja línustæði gróflega en þeir hefðu ekki fengið allar þær myndir sem voru teknar af viðkomandi svæðum.
Jóhann sagði að á síðustu dögum sem hann var yfirmaður ljósleiðaradeildar, áður en hann fór á eftirlaun, hefði hann falið Sigurði Guðjónssyni að taka saman allar myndapantanir. Þetta hefði allt átt að vera aðgengilegt.
Bragi Már Bragason starfsmaður Mílu, systurfyrirtækis Símans, og starfsmaður Símans þegar atvik máls urðu, gaf skýrslu. Hann kvað frumkvæði að samningnum hafa komið frá ljósleiðaradeildinni, en Páll Jónsson hefði þá verið yfirmaður hennar. Ljósleiðaradeildin hefði haft frumkvæði að því hvaða svæði voru keypt á hverjum tíma. Bragi kvaðst hafa skrifað upp á reikningana. Í desember á hverju ári hefði átt að halda stöðufund og fara yfir hvað hefði verið afhent en Bragi kvaðst aldrei hafa verið kallaður á slíkan fund. Á þeim fundum sem voru haldnir, sem hann hefði ekki verið viðstaddur, hefði verið farið yfir hvað vantaði af gögnum. Um aðdraganda samningsins sagði hann að hann hefði fengið samninginn í hendurnar og gert athugasemd um hvort ekki væri rétt að setja vísitölu inn í hann. Eftir þær breytingar hefðu þeir skrifað undir. Símanum hefði staðið til boða afsláttur gegn því að kaupa fyrir ákveðna lágmarksupphæð á ári. Hann kvaðst ekki hafa hugsað um hvort reikningarnir væru verðbættir þegar þeir bárust.
Hætt hefði verið að kaupa myndir þegar gerðar voru skipulagsbreytingar hjá Símanum og niðurskurður. Ekki hefði verið rætt um uppsagnarfrest enda hefði samningurinn verið útrunninn. Bragi kvað að þegar það lá fyrir að hann fengi ekki fjárheimild fyrir Loftmyndum, hefði hann hringt í Örn og látið hann vita, sennilega hefði það verið í desemberbyrjun 2005.
Örn hefði sent tölvupóst í febrúar þar sem kom fram að strákarnir hjá honum hefðu farið yfir hvað hefði verið afhent og samkvæmt fyrstu talningu ættu Loftmyndir inni hjá Símanum yfir 60 milljónir. Bragi hafi sent yfirmanni sínum þetta og yfirmaðurinn ákveðið að tala við lögfræðing Símans.
Aðspurður sagði hann að ef viðbótarreikningar hefðu verið lagðir fram með þessum fjárhæðum þá hefði þurft að standa á bremsunni í pöntunum.
MÁLSÁSTÆÐUR OG LAGARÖK
Stefnandi kveðst byggja aðalkröfu sína á fyrrnefndum samningi og samskiptum forsvarsmanna aðila við framkvæmd og efndir hans. Stefnandi kveður stefnda hafa fengið mun fleiri myndir en sem nemi fimm milljónum króna. Kveðst hann hafa litið svo á og talið það sameiginlegan skilning samningsaðila, að í stað þess að krefja stefnda í desember hvert ár fyrir öll afhent gögn myndi hann halda því til haga sem ekki væri greitt fyrir og lokauppgjör yrði svo við uppsögn samningsins. Mælt sé fyrir um lokagreiðslu í 6. gr. samningsins. Stefnandi telur þennan skilning einnig eiga sér stoð í lokamálslið 5. gr. samningsins. Það hafi verið rætt margsinnis á verkfundum og við önnur tækifæri að magn afhentra skjala myndi jafnast út í áranna rás. Afhentum myndum myndi eðli máls samkvæmt fara fækkandi með hverju árinu og skuld stefnda við stefnanda því jafnast út með tímanum, ella skyldi við lok samningssambandsins gefinn út lokareikningur til stefnda. Í samræmi við þetta hafi stefnandi útbúið yfirlit yfir ógreiddar myndir þegar stefndi tilkynnti að hann hefði ekki lengur áhuga á samstarfinu.
Stefndi byggir ennfremur á því að þar sem viðskipti stefnanda og stefnda hafi haldið áfram eftir 27. janúar 2004, eða fimm árum eftir að samningurinn var gerður, hafi samningssamband aðila framlengst. Þar sem samningurinn hafi haldið áfram að gilda hafi 6. gr. samningsins einnig gert það en hún kveði á um eins árs uppsagnarfrest.
Í ársbyrjun 2006 hafi fyrirsvarsmaður stefnanda fengið símtal frá starfsmanni stefnda þar sem tilkynnt var að ekki væri óskað eftir frekari kortablöðum frá stefnanda. Samkvæmt 6. gr. samningsins hafi samningurinn átt að gilda að minnsta kosti í eitt ár eftir uppsögn.
Stefnandi hafi mátt búast við því, þar sem samningssamband aðila hélt áfram algjörlega óbreytt eftir hin fyrir fram ákveðnu fimm ár, að samningurinn framlengdist og öll ákvæði hans. Samningnum hafi því átt að segja upp skriflega eða með öðrum sannanlegum hætti og jafnframt borið að miða við áramót í því sambandi.
Öll árin, nema 2003, hafi stefndi fengið mun fleiri myndir afhentar en greitt var fyrir. Forsvarsmaður stefnanda hafi setið fjölmarga verkfundi með starfsmönnum stefnda, þeim Sigurði Kristni Guðjohnsen og Jóhanni Erni Guðmundssyni á samningstímanum. Á þeim fundum hafi oft komið fram að umræddur samningur framlengdist þar til jafnvægi kæmist á og ekki væri lengur fyrir hendi skuld stefnda við stefnanda.
Uppgjör hvers árs hafi ekki átt að vera lokauppgjör fyrir árið. Það fari í bága við það sem starfsmenn stefnda sjálfs álitu samkvæmt yfirlýsingum sem séu lagðar fram. Hafi hin fasta greiðsla í júní og/eða desember, samtals 5.000.000 krónur, verið greidd algjörlega óháð því hversu mikið var afhent. Hafi þessir sömu starfsmenn fullyrt að yfirmönnum þeirra hafi verið það fullljóst að yfirleitt væri verið að afhenda mun meira en greitt væri fyrir. Ekki hafi verið um að ræða sérlega reglubundnar greiðslur á lágmarksgjaldinu auk þess sem þær voru ekki verðbættar hverju sinni eins og samningur aðila gerði ráð fyrir. Þá sé ágreiningslaust að engin sérstök yfirferð hafi farið fram á við greiðslu þannig að athugað hafi verið nákvæmlega hver staðan væri á milli aðila. Allt eigi þetta sér þá skýringu að fulltrúar beggja aðila hafi framkvæmt samninginn með tilteknum hætti, þar sem gagnkvæmur skilningur hafi ríkt.
Stefnandi hafi verið fullviss um að stefndi túlkaði samning aðila á sama hátt og hann og ekki búist við öðru en að gert yrði upp þegar stefndi ákvað að segja samningnum upp. Stefnandi kveðst myndu hafa krafið stefnda um greiðslu fyrir ógreiddar myndir ef hann hefði órað fyrir því að stefndi liti svo á að ávallt yrði gert upp í desember ár hvert vegna þeirra allra. Stefnandi kveður sér hafa verið mjög í mun að halda góðu samningssambandi við stefnda og hafa talið það vera hag beggja að fyrirkomulagið á uppgjöri yrði eins og lýst hefur verið að framan. Stefnandi telur það sæta mikilli furðu ef skuldin hafi með einhverjum óljósum hætti verið gefin eftir.
Stefnandi bendir á að í 1. gr. samningsins komi fram að stefndi kaupi afnotarétt á tölvutækum loftmyndum og fimm metra hæðarlínum frá stefnanda. Stefndi hafi haldið því ranglega fram að stefnandi hafi vanefnt samninginn þar sem ekki voru hæðarlínur á myndunum. Stefnandi mótmælir þessu og kveður ávallt hafa verið hæðarlínur á myndunum þegar þess var óskað. Stefndi hafi ekki gert neinar athugasemdir varðandi þetta á þeim árum sem viðskiptasamband aðila stóð yfir og hafi ekki virst hafa áhuga á slíkum línum nema í undantekningartilvikum. Þetta séu hins vegar upplýsingar sem stefnandi réði yfir og var auðvelt að afhenda
Stefnandi kveðst hafa veitt stefnda afar mikinn afslátt á keyptum myndum á samningstímanum. Í 5. gr. samningsins komi fram að verð fyrir hvert kort skyldi vera 10.000 krónur með virðisaukaskatti og að verðið skyldi breytast í samræmi við breytingu á lánskjaravísitölu. Á þeim tíma sem samningurinn var gerður hafi listaverð á hverju korti verið 63.000 krónur auk virðisaukaskatts. Aldrei hafi hins vegar komið neitt annað til umræðu en að stefndi þyrfti þó að greiða fyrir hverja mynd sem hann fengi afhenta. Þá bendir stefnandi á að samkvæmt samningi aðila skyldi stefnandi afhenda stefnda myndirnar á JPG formi með 1 m upplausn en stefndi hafi fengið allar myndir afhentar með 0,5 m upplausn sem sé fjórum sinnum betri en sú sem samningurinn kveði á um.
Mikilvægast sé að á hverju ári hafi stofnast skuld stefnda við stefnanda. Stefndi hljóti að bera sönnunarbyrðina fyrir því, haldi hann því fram að stefnandi hafi gefið stefnda eftir tugmilljón króna skuld.
Stefnandi mótmælir því að hann hafi gerst sekur um tómlæti við innheimtu krafna sinna. Hann hafi litið svo á að gert yrði upp við hann við lok samningssambandsins. Hið sama megi segja um staðhæfingar stefnda um fyrningu auk þess sem benda megi á að gjalddagi ógreiddra mynda hafi fyrst getað verið þegar samningnum var sagt upp í ársbyrjun 2006. Þetta sé í samræmi við meginreglur kröfuréttarins og ákvæði laga um fyrningu nr. 14/1905.
Stefnandi telur að greiða beri fyrir uppsagnarfrest árið 2006 og 2007 en kveðst aðeins gera kröfu um hálft gjald vegna 2007 þar sem færa megi rök fyrir því að einungis helmingur árgjalds sé gjaldfallinn. Kveðst stefnandi byggja á því að miða beri við almanaksár í þessu sambandi og því hafi uppsagnarfrestur ekki byrjað að líða fyrr en í byrjun árs 2007. Stefnandi kveðst áskilja sér rétt til að breyta kröfugerð til hækkunar síðar vegna eftirstöðva fyrir 2007. Ef ekki sé miðað við almanaksár verði að mati stefnanda að miða við formlega uppsögn sem hafi ekki borist fyrr en með bréfi 11. ágúst 2006. Skuld vegna 2007 sé þá einnig gjaldfallin, að minnsta kosti til 11. ágúst.
Stefnandi vísar til dómskjals nr. 10 um sundurliðun aðalkröfu. Kveður hann skjalið stafa frá stefnanda og hafa verið sent stefnda 25. júlí 2006. Stefnandi kveðst telja rétt að miða útreikning sinn við vísitölu júlímánaðar 2007, þannig sé gert ráð fyrir að krafa stefnanda haldi verðgildi sínu. Þá sé gert ráð fyrir virðisaukaskatti.
Aðalkrafa stefnanda byggist á að vangoldin kortablöð hafi verið rúmlega 2.796 og hvert þeirra hafi kostað 14.265 krónur miðað við vísitölu júlímánaðar 2006. Samtals sé því krafist 39.884.465 króna vegna vangreiddra kortablaða, auk virðisaukaskatts að fjárhæð 9.779.696 krónur, alls 49.664.161 króna. Til viðbótar sé gerð krafa um bætur á uppsagnarfresti samningsins, en stefnandi vísar um þetta í sundurliðun á dómskjali 11. Þessi hluti kröfunnar nemi 10.937.245 krónum auk 2.679.624 króna virðisaukaskatts, samtals 13.616.866 krónum vegna tímabilsins frá 1. janúar 2006 til 1. júlí 2007.
Dráttarvaxta sé krafist frá og með 25. ágúst 2006 þegar einn mánuður var liðinn frá því að stefnda voru sendar kröfur stefnanda en dráttarvaxta vegna greiðslna í uppsagnarfresti sé krafist frá 1. janúar 2007 vegna ársins 2006 og frá 1. júlí 2007 vegna ársins 2007.
Stefnandi kveðst byggja varakröfu sína á samningi aðila. Þótt niðurstaðan verðu sú að greiðslur skuli aðeins miða við lágmarksgjaldið samkvæmt samningnum sé stefnandi einnig stórlega vanhaldinn miðað við orðalag samningsins. Skýrt sé kveðið á um það í 5. gr. samningsins að verðbæta skuli höfuðstól. Einnig sé eftir að greiða stefnanda lágmarksgjaldið á uppsagnarfresti.
Um varakröfu og sundurliðun hennar vísar stefnandi til dómskjals 11. Á skjalinu er reiknaður mismunur þess sem var greitt, án virðisaukaskattsins, á hverjum gjalddaga, og þess sem hefði verið greitt ef tekið hefði verið tillit til vísitöluhækkunar. Samtals nemur þetta 7.160.691 krónu. Næst er mismunur þessara tveggja fjárhæða framreiknaður miðað við lánskjaravísitölu í júní 2007 og verður samanlagt 8.476.451 króna. Þetta er lagt saman og fengin út talan 8.476.451 króna. Fimm milljón króna greiðsla fyrir 2006 er verðbætt fram í desember 2006, samtals 7.246.897 krónur, og 2,5 milljón vegna 2007 er miðuð við vísitölu júní 2007, samtals 3.690.345 krónur. Bætt er við virðisaukaskatti og fengin heildartalan 24.170.048 krónur. Stefnandi kveður kröfuna ekki hafa verið reiknaða eða hafða í frammi sundurliðaða fyrr en nú við málshöfðun þessa í ljósi afdráttarlausrar höfnunar stefnda á aðalkröfu stefnanda. Í varakröfu sé miðað við eins og hálfs árs lágmarksgjald vegna áranna 2006 og 2007.
Stefnandi vísar til meginreglna samninga- og kröfuréttar, einkum reglna um að samninga skuli halda og um efndir fjárskuldbindinga er af þeim leiða. Um dráttarvaxtakröfu stefnanda vísar hann til III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, og 11. og 12. gr. laganna. Um málskostnaðarkröfu stefnanda er vísað til XXI. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, einkum 129. og 130. gr.
Stefndi mótmælir aðalkröfu stefnanda og byggir á því að löng og athugasemdalaus venja hafi myndast í föstu viðskiptasambandi aðila um að stefnandi krefði stefnda um fimm milljónir króna á ári óháð fjölda mynda. Gert væri ráð fyrir árlegu uppgjöri í 5. gr. samningsins. Vísar stefndi til þeirrar viðurkenndu meginreglu um túlkun samninga að myndist tiltekin venja um framkvæmd og efndir samnings, svo sem hér hafi verið, skuli túlka samninginn í samræmi við venjuna. Í samræmi við það verði ekki litið svo á að stefndi standi í skuld við stefnanda samkvæmt umþrættum samningi.
Stefndi vísar til þess að í föstu viðskiptasambandi, þar sem reikningum sé framvísað með reglubundnum hætti, svo sem gert var, megi að öðru jöfnu gera ráð fyrir að með reikningunum sé lokið sé uppgjöri fyrir störf eða verk. Stefndi hafi þannig mátt treysta því að stefnandi gerði reikninga jafnóðum fyrir vinnu sína eða verk. Sá sem haldi því fram að sérstaklega hafi verið samið um að bíða með reikningsgerð og uppgjör vegna hluta þeirra verkefna, sem greiða átti fyrir, beri sönnunarbyrði fyrir þeirri staðhæfingu sinni.
Stefndi vísar einnig til þess að í reikningsgerð stefnanda vegna hvers viðskiptaárs hafi aldrei verið vísað til þess að stefnandi ætti ógreiddar kröfur á hendur stefnda vegna fyrri ára, svo sem eðlilegt og rétt hefði verið, ef stefnandi leit svo á.
Stefndi vísar einnig til þess að stefnanda hafi verið í lófa lagið að tryggja sér sönnun um að samkomulag aðila hafi verið með þeim hætti sem hann heldur fram, svo sem með því að fá skriflega staðfestingu stefnda. Stefnandi hafi hins vegar látið það hjá líða og verði að bera hallann af því.
Stefndi vísar hér einnig til þess, að jafnvel þótt samningur aðila hafi verið með þeim hætti sem stefnandi haldi fram, hafi honum allt að einu verið rétt að gefa út reikninga fyrir þeim blöðum sem hann hafi talið falla utan hinnar árlegu þóknunar jafnóðum, eða að minnsta kosti innan eðlilegra tímamarka, og færa þau stefnda til skuldar í bókhaldi sínu. Slíkt hafi hann hins vegar ekki gert.
Stefndi hafnar því alfarið, að það hafi verið sameiginlegur skilningur aðila að stefnandi myndi, við lok samningssambands aðila, krefja stefnda um viðbótargreiðslur vegna afhentra kortblaða, að svo miklu leyti sem viðskiptin á ársgrundvelli næmu meiru en fimm milljónum króna. Stefndi bendir á að skilningur sem þessi myndi fela í sér að aðilar hefðu ráðgert að kröfur sem stefnandi ætti á hendur stefnda vegna samningsbundinnar þjónustu skyldu vera útistandandi svo árum skipti og jafnvel áratugum, allt eftir því hvenær samningssambandi aðila yrði slitið. Sú niðurstaða sé augljóslega fráleit og dæmalaus í viðskiptum. Myndi stefndi aldrei hafa samþykkt slíka viðskiptaskilmála. Stefndi vísar í þessu sambandi til þeirrar meginreglu við túlkun samninga að niðurstaða feli í sér eðlilega og rökræna niðurstöðu.
Stefndi kveðst jafnframt hafna því að samningur aðila hafi átt að gilda að minnsta kosti í eitt ár eftir að stefndi batt enda á viðskiptasamband aðila. Eftir að afnotaréttur stefnda samkvæmt samningnum frá 1999 rann formlega út árið 2004 hafi stefndi haldið áfram að nýta sér þjónustu stefnanda samkvæmt sömu verðkjörum og gilt höfðu. Hafi stefndi litið svo á að nýr samningur hafi stofnast en aldrei talið að uppsagnarfrestur upphaflega samningsins gilti áfram. Þær forsendur samningsins að aðilar væru að skuldbinda sig til lengri tíma hafi ekki lengur verið til staðar. Stefndi bendir á að í kjölfar þess að stefnandi lét stefnda vita að ekki yrði um frekari viðskipti að ræða hafi stefnandi ekki vísað til neins samningsbundins uppsagnarfrests. Hafi slíkt raunar fyrst verið gert í bréfi lögfræðings 4. nóvember 2006. Hér skuli einnig bent á að eftir að stefndi tilkynnti, án skyldu, að ekki yrði um frekari viðskipti að ræða, hafi hann hvorki farið fram á neina samningsbundna þjónustu né hafi stefnandi veitt hana. Sé það einnig til marks um að samningssambandi aðila hafi lokið þá þegar.
Stefndi bendir að síðustu á að samningur aðila frá 1999 hafi stafað frá stefnanda. Verði stefnandi í samræmi við það og meginreglur samningaréttar um túlkun samninga, að bera hallann af því ef samningurinn er óskýr, að svo miklu leyti sem hann byggi rétt sinn á honum.
Stefndi mótmælir varakröfu stefnanda. Samkvæmt 5. gr. samningsins frá 1999, skyldi lágmarksfjárhæðin, fimm milljónir á ári, leiðréttast með breytingum á lánskjaravísitölu. Hins vegar hafi sú langa og athugasemdalausa venja myndast í föstu viðskiptasambandi aðila að stefnandi krafði stefnda árlega um fimm milljónir, óháð fjölda mynda. Túlka verði samninginn í samræmi við þessa venju. Sé það jafnframt fáheyrt, að því sé haldið fram af seljanda þjónustu við lok samningssambands, að reikningar sem seljandinn hafi gefið út um langt skeið hafi í raun verið rangir, þannig að ekki hafi verið tekið nauðsynlegt tillit til verðbóta og kaupandi þjónustunnar standi í tugmilljón króna skuld við seljanda. Stefndi vísar að öðru leyti til þeirra sjónarmiða sem gerð sé grein fyrir að framan.
Stefndi bendir á að jafnvel þótt það hefði verið samkomulag aðila að stefndi þyrfti ekki að greiða fyrir afnotarétt af öllum kortum árlega, hafi krafa um greiðslu vegna einstakra blaða sannanlega stofnast það ár sem þau voru afhent stefnda. Sé slík niðurstaða ekki einasta í samræmi við 5. gr. samningsins, heldur einnig meginreglu kröfuréttar um að kröfuréttur seljanda í gagnkvæmu samningssambandi stofnist almennt þegar greiðslan, hið selda, sé innt af hendi. Beri stefnandi sönnunarbyrðina fyrir öðru.
Í samræmi við framangreint og almennar viðskiptavenjur, verði að telja að stefnandi hafi glatað hvers konar kröfum á hendur stefnda eða að minnsta kosti langstærstum hluta þeirra með tómlæti sínu. Eigi þetta bæði við um meintar kröfur vegna ógreiddra mynda svo og kröfur um ógreiddar verðbætur. Stefndi vísar í þessu sambandi meðal annars til þess sjónarmiðs að baki tómlætisreglum að kröfuhafi geti ekki haldið uppi kröfu gagnvart skuldara, sem skuldari megi með réttu ætla að verði ekki höfð uppi. Stefndi hafi fráleitt mátt gera ráð fyrir að stefnandi myndi halda uppi umþrættum kröfum.
Í samræmi við framangreint sé einnig ljóst að meintar kröfur stefnanda séu að stærstum hluta fyrndar, sbr. 3. gr. laga um fyrningu nr. 14/1905. Nánar tiltekið þær meintu kröfur, bæði vegna mynda og verðbóta, sem stefnandi haldi fram að hafi stofnast fyrir 7. júní 2003.
Að því er varðar fjárhæð aðalkröfu stefnanda sérstaklega þá er því hafnað sem röngu og ósönnuðu að stefnandi hafi afhent stefnda það magn kortablaða sem byggt er á í stefnu. Geti einhliða yfirlit stefnanda í þessum efnum ekki talist fullnægjandi sönnun í þessu tilliti. Þá hafi fjölmargar afhentar myndir hafi verið gallaðar þar sem vantað hafi hæðarlínur og geti stefnandi ekki krafist greiðslu fyrir þær.
Enn fremur mótmælir stefndi því að greiðsla vegna einstakra kortablaða samkvæmt aðalkröfu eigi að nema meiru en 10.000 krónum. Slík skýring eigi sér enga stoð í samningi aðila. Þvert á móti verði ráðið af 5. gr. samningsins að greiðslur vegna einstakra kortablaða samkvæmt samningnum skyldu ekki vera vísitölubundnar. Jafnvel þótt annað yrði talið, fái ekki staðist að miða vísitöluna við júlí 2006, heldur verði að miða við það tímamark sem viðkomandi kröfur hafi stofnast, það er þegar viðkomandi blöð voru afhent.
Stefndi telur ekki ljóst hvernig fjárhæð meintra bóta í uppsagnarfresti sé fundin, bæði í aðal- og varakröfu. Virðist jafnvel sem stefnandi krefjist bóta fyrir 17 mánaða tímabil, frá 1. janúar 2006 til 1. júlí 2007, enda þótt upprunalegur samningur hafi eingöngu gert ráð fyrir árs uppsagnarfresti.
Að því er varði fjárhæð varakröfu stefnanda sérstaklega, kveðst stefndi vísa til þeirra sjónarmiða sem fyrr greini.
Stefndi krefst þess aðallega að dráttarvextir reiknist frá dómsuppsögu en til vara frá þingfestingardegi málsins. Vísar stefndi til þess að hann hafi ekki á fyrri stigum átt þess kost að taka afstöðu til meintra krafna stefnanda, þannig að fullnægjandi megi teljast.
Stefndi vísar til stuðnings kröfum sínum til meginreglna samninga- og kröfuréttar, þar með talinna reglna um túlkun samninga. Þá byggir hann á lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Málskostnaðarkröfu sína styður stefndi við 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
NIÐURSTAÐA
Krafa stefnanda er ekki sundurliðuð í stefnu heldur er vísað til dómskjala um sundurliðun. Þessi framsetning þykir í máli þessu ekki hafa valdið stefnda réttarspjöllum og ekki vera næg ástæða til að vísa málinu frá eins og það liggur fyrir dóminum en af hálfu stefnda var því hreyft að til álita kæmi að vísa málinu frá án þess að krafa væri gerð um það.
Í samningi Loftmynda og Símans segir að fyrir afnot hvers kortblaðs greiðist 10.000 krónur að viðbættum virðisaukaskatti, að lágmarki fimm milljónir á ári, auk skattsins. Ljóst er af framburði vitna að stefndi hafði aðgang að þeim myndum sem stefnandi framleiddi en réði því almennt ekki hvaða landsvæði stefnandi tók næst fyrir. Viðskipti hófust árið 1999 og lauk árið 2005. Samkvæmt reikningum og yfirliti frá stefnanda yfir greiðslur, greiddi stefndi árin 2000 til 2005 fimm milljónir á ári auk virðisaukaskatts, en tæplega fimm milljónir árið 1999 að viðbættum skatti. Í samningnum er mælt fyrir um það að þegar reikningur sé lagður fram í desember skuli farið yfir hvað hafi verið keypt það ár, en það mun ekki hafa verið gert. Reikningarnir liggja frammi, fyrir árin 2000 til 2005 og er þar tilgreint að þeir séu vegna afnota gagna samkvæmt samningi.
Telja verður að í föstu viðskiptasambandi þar sem reikningum er framvísað með reglubundnum hætti megi greiðandi almennt gera ráð fyrir að með reikningunum sé verið að ljúka uppgjöri fyrir hvert tímabil. Sá sem heldur því fram að sérstaklega hafi verið samið um að bíða með reikningsgerð og uppgjör vegna hluta þess sem selt var, ber sönnunarbyrði fyrir staðhæfingu sinni um þetta.
Lokaákvæði samnings aðila, í 6. gr., þykir samkvæmt orðum sínum og í samhengi við önnur ákvæði samningsins ekki fela í sér að stefnandi geti að loknum viðskiptum árið 2006 krafið um greiðslu fyrir gögn sem afhent voru allt frá árinu 1999. Ekki verður ráðið af framburði vitna að samist hefði svo um að kröfur sem hafi stofnast allt frá upphafi viðskiptanna skyldu greiddar að þeim loknum. Stefnandi hefði getað orðið sér úti um staðfestingu þess frá stefnda að skuldin væri hærri en reikningarnir sögðu til um, en þetta gerði hann ekki. Hann færði ekki heldur myndirnar sem hann telur nú að stefndi eigi að greiða til skuldar í bókhaldi sínu. Mælt var fyrir um það í samningi aðila að gera skyldi upp á hverju ári og farið yfir hvað afhent hefði verið, sbr. 5. gr. samningsins, en svo var ekki gert. Stefnandi tók hins vegar við greiðslu samkvæmt útgefnum reikningum án athugasemda. Stefnandi gerði engan reka að því að krefja stefnda um greiðslu fyrir umframmyndir eða mismun vegna vísitöluhækkunar fyrr en á árinu 2006, þegar stefndi hafði tilkynnt að hann vildi ekki halda áfram viðskiptum við stefnanda. Gegn mótmælum stefnda er því ósannað að hann hafi fallist á að hluti reikningsgerðar fyrir afnot stefnda af gögnum stefnanda skyldi bíða þar til síðar. Kröfu stefnanda um greiðslu fyrir gögn sem afhent voru og um greiðslu vegna vísitöluhækkunar er því hafnað.
Samkvæmt samninginum keypti Síminn afnotarétt af gögnum sem gerð yrðu á næstu fimm árunum frá undirritun samnings. Unnt var að segja upp samningnum með árs fresti. Eftir að árinn fimm voru liðin héldu viðskipti áfram í tvö ár, þannig að stefndi tók við gögnum frá stefnanda og greiddi reikninga vegna gagnanna. Þegar stefnanda var tilkynnt að stefndi vildi ekki halda áfram viðskiptum við hann var samningstíminn úti. Er krafa um greiðslu á uppsagnarfresti því ekki tekin til greina.
Samkvæmt öllu framansögðu verður stefndi sýknaður af öllum kröfum stefnanda og eftir úrslitum málsins verður stefnandi dæmdur til að greiða stefnda 500.000 krónur í málskostnað.
Allan V. Magnússon héraðsdómari kvað upp dóminn.
DÓMSORÐ
Stefndi, Síminn hf., er sýkn af kröfu stefnanda, Loftmynda ehf.
Stefnandi greiði stefnda 500.000 krónur í málskostnað.