Hæstiréttur íslands

Mál nr. 232/2014


Lykilorð

  • Ráðningarsamningur
  • Uppsögn


Dómsatkvæði

                                     

Fimmtudaginn 30. október 2014.

Nr. 232/2014.

Knattspyrnudeild U.M.F.G.

(Jóhannes Bjarni Björnsson hrl.)

gegn

Guðjóni Þórðarsyni

(Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hrl.)

Ráðningarsamningur. Uppsögn.

K sagði upp launalið tímabundins ráðningarsamnings við G, sem taldi uppsögnina ólögmæta og höfðaði mál á hendur K til heimtu launagreiðslna út umsaminn ráðningartíma. Í héraðsdómi, sem Hæstiréttur staðfesti með vísan til forsenda hans, var talið að skýra yrði tilgreind fyrirmæli ráðningarsamnings aðilanna á þann veg að K hefði einungis staðið heimild til uppsagnar á launalið samkvæmt samningnum, en ekki samningnum í heild. Að virtum atvikum málsins var því slegið föstu að uppsögnin hefði verið ólögmæt, enda hefði K í heimildarleysi sagt upp samningnum í heild. Var launakrafa G tekin til greina að frádregnum tekjum hans á sama tímabili. Á hinn bóginn var sýknað af kröfu um húsnæðishlunnindi, en G var ekki talinn hafa sýnt fram á tjón í því samhengi.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson og Guðrún Erlendsdóttir settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 7. apríl 2014. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Knattspyrnudeild U.M.F.G., greiði stefnda, Guðjóni Þórðarsyni, 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 7. mars 2014.

Mál þetta, sem dómtekið var 4. febrúar sl., höfðaði stefnandi, Guðjón Þórðarson, Vættaborgum 48, Reykjavík, hinn 26. júní 2013, gegn stefnda, Knattspyrnudeild U.M.F.G., Austurvegi 3, Grindavík.

Kröfur stefnanda í málinu eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 12.511.022 krónur, ásamt vöxtum skv. 1. málslið 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. október 2012 til 26. júlí 2013, en dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá 26. júlí 2013 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi einnig málskostnaðar úr hendi stefnda.

Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað.

I

Hinn 6. nóvember 2011 gerðu aðilar máls þessa með sér samning um að stefnandi tæki að sér starf knattspyrnustjóra hjá stefnda. Í 1. gr. samnings aðila var kveðið á um að stefnandi tæki að sér þjálfun á meistaraflokki karla í knattspyrnu, auk þess að hafa yfirumsjón með öðrum flokki karla. Í starfi stefnanda fólst, sbr. tilvitnaða 1. gr. samningsins, umsjón með æfingum leikmanna meistara­flokks karla og undirbúningur og skipulagning liðsins fyrir öll mót og æfingaleiki, sem stjórn félagsins tæki ákvörðun um þátttöku í. Þá var kveðið á um að knattspyrnustjórinn myndi aðstoða stjórn og framkvæmdastjóra við markaðssetningu á félaginu, afla  nýrra styrktaraðila og efla tengslin við þá sem fyrir væru.

Gildistími samnings aðila var frá 10. nóvember 2011 til 15. október 2014, sbr. upphafsorð 2. gr. samningsins. Í ákvæðinu sagði síðan svo: „Báðum aðilum er heimilt að segja upp launalið samningsins á tímabilinu 1. okt. til 15. okt. ár hvert á samningstímanum. Takist ekki samningar fyrir 30. október þar á eftir um nýjan launalið skulu skyldur samningsaðila falla niður frá og með þeim degi þegar þrír almanaksmánuðir eru liðnir frá uppsögn launaliðar.“ Færi svo skyldi stefndi greiða áfallnar greiðslur samkvæmt samningnum, þ.m.t. bónusgreiðslur, eigi síðar en 15. nóvember.

Um starfskjör stefnanda hjá stefnda fór skv. 3. gr. samnings aðila, en hún var svohljóðandi:

Mánaðargreiðsla til knattspyrnustjóra skal vera kr. 400.000- á mánuði, sem greiðist á tímabilinu 5. til 10. hvers mánaðar eftirá.

Knattspyrnudeild greiðir kr. 10.000 í símakostnað á mánuði.

Knattspyrnudeild greiðir húsaleigu fyrir þjálfara á samningstímanum.

Bifreið til afnota á samningstímanum. ...

Þjálfari fær einnig bensínkort frá félaginu.

Laun skulu hækka samkvæmt almennri launavísitölu.

Með bréfi stjórnar stefnda til stefnanda 1. október 2012 var upplýst að stefndi hefði „... ákveðið að nýta sér ákvæði í þjálfarasamning (sic) við Guðjón Þórðarson ... sem gerður var 6. nóvember 2011, og segja upp launalið samningsins.“ Í niðurlagi bréfsins sagði svo: „Takist ekki samningar um nýjan launalið fyrir 30. október 2012 skulu skyldur samningsaðila falla niður frá og með þeim degi þegar þrír almanaksmánuðir eru liðnir frá uppsögn launaliðar.“ Mun stefnanda hafa verið tilkynnt um þessa ákvörðun á fundi með stjórn stefnda 4. október 2012, en áður hafði stefndi póstlagt tilvitnað bréf til stefnanda.

Af hálfu stefnda hefur því verið haldið fram í málinu að á fundi aðila 4. október 2012 hafi málsaðilar orðið sammála um „... að farsælast væri að ljúka samningssambandi þeirra á milli með starfslokasamningi“. Liggja drög að slíkum samningi frammi í málinu. Hins vegar er óumdeilt að aðilar rituðu aldrei undir samning um starfslok stefnanda.

Hinn 5. október 2012 tilkynnti lögmaður stefnanda formanni stefnda bréflega að stefnandi hefði falið honum „... að annast viðræður við stjórn Knattspyrnudeildar UMFG um nýjan launalið. Þar sem stjórn deildarinnar taldi áðurgildandi launalið ekki ásættanlegan er þess hér með farið á leit við stjórnina að hún geri tillögu um nýjan launalið.“ Lögmaður stefnanda sendi stefnda annað bréf 8. október þar sem meðal annars kom fram að lögmaðurinn teldi viðræður um nýjan launalið, sbr. tilvitnað bréf stefnanda frá 5. s.m., „... tilgangslausar og einungis til málamynda. Kemur þar einkum þrennt til. Í fyrsta lagi hefur umbj. mínum borist tillaga stjórnar að starfslokasamningi. Í öðru lagi hefur formaður stjórnarinnar lýst því yfir í fjölmiðlum að stjórnin hafi ákveðið að slíta samstarfi við umbj. minn. Í þriðja lagi hefur jafnframt komið fram opinberlega hjá formanninum að félagið hyggst ráða nýjan mann í starf umbj. míns.“ Í bréfinu var og fullyrt að „... uppsögn stjórnar á launalið samningsins ... var einungis yfirskin. ... Raunverulegur ásetningur stjórnarinnar er augljóslega að slíta samstarfi sínu við umbj. minn ...“

Stefndi svaraði með bréfi formanns knattspyrnudeildarinnar 9. október 2012. Var í bréfinu vísað til þess að það hefði verið sameiginleg niðurstaða aðila á áðurnefndum fundi 4. október 2012 að best væri að stefnandi léti af störfum vegna breyttrar stöðu beggja aðila. Í bréfinu var og sett fram sú ósk að stefnandi gerði grein fyrir því við hvaða lágmarkslaun og hlunnindi hann gæti unað. Bréfi þessu svaraði lögmaður stefnanda samdægurs og mótmælti því að samkomulag hefði náðst á fundi aðila. Í bréfinu voru sjónarmið stefnanda reifuð og því meðal annars haldið fram að í athöfnum stefnda hefði í raun falist ólögmæt uppsögn á samningi aðila. Áskildi stefnandi sér allan rétt til að hafa uppi kröfur á hendur stefnda vegna þess.

Aðilar skiptust á tölvubréfum 10. október 2012 og setti hvor aðili fram sín sjónarmið. Eftir samskipti lögmanna aðila, þar sem lögmaður stefnanda vísaði meðal annars til þess að ekki hefði komið neitt formlegt tilboð frá stefnda, sendi lögmaður stefnda svohljóðandi tilboð til lögmanns stefnanda 23. október 2012:

... er umbj. yðar hér með gert tilboð um að launaliður samningsins breytist þannig að frá og með 1. nóvember n.k. verði mánaðarleg laun umbj. yðar kr. 65 þúsund, en að öll hlunnindi falli niður, þ.e. síma-, bifreiða- og íbúðarhlunnindi.

Í ljósi þess að um er að ræða verulega lækkun á launum er umbj. minn tilbúinn að leysa umbj. yðar undan öðrum skyldum en að vera ráðgefandi við þjálfun meistara- og 2. flokks, eftir því sem óskað verður af hálfu umbj. míns á hverjum tíma. Jafnframt mun umbj. minn heimila að umbj. yðar taki að sér störf annars staðar.

Stefnandi hafnaði ofangreindu tilboði stefnda með bréfi 24. október 2012.

Þar sem ekki náðust sættir milli aðila höfðaði stefnandi mál þetta 25. júní 2013 samkvæmt áðursögðu.

II

Stefnandi vísar til þess að hann sé knattspyrnustjóri með áratuga reynslu af þjálfun. Stefnandi hafi lengst af stýrt félagsliðum, bæði hérlendis og erlendis, en einnig hafi hann þjálfað íslenska landsliðið í nokkur ár.

Stefnandi bendir á að aðilar hafi gert bindandi samning sín á milli sem þeim hafi borið að efna. Stefnandi hafi framfylgt öllum ákvæðum samnings aðila og rækt störf sín í þágu stefnda af kostgæfni og samviskusemi. Framganga stefnanda hafi því ekki gefið stefnda tilefni til annars en virða ákvæði samningsins.

Samningur aðila, gerður 6. nóvember 2011, hafi verið bindandi til þriggja ára og vinnuréttarsamband aðila því átt að vera virkt út samningstímann, þ.e. til 15. október 2014. Engin heimild hafi verið til staðar í samningnum til þess að segja honum upp í heild. Stefnandi hafi af þeim sökum haft réttmætar væntingar um að samningurinn yrði efndur samkvæmt efni sínu.

Tilkynning stefnda 1. október 2012, um uppsögn á launalið samningsins, hafi einungis verið til málamynda af hálfu deildarinnar. Stefndi hafi engin áform haft um að semja við stefnanda um nýja fjárhæð launaliðar, svo sem gert hafi verið ráð fyrir í samningnum. Vilji stefnanda hafi aftur á móti staðið til þess og hafi hann verið tilbúinn til þess að taka á sig kjaraskerðingu í samræmi við verri fjárhagsstöðu stefnda. Á þann vilja stefnanda hafi hins vegar ekki reynt þar sem stefndi hafi með athöfnum sínum útilokað allar samningaviðræður. Með athöfnum stefnda, svo sem gerð draga að starfslokasamningi, ummælum stjórnarmanna í fjölmiðlum og fullyrðingum um að samningaviðræður yrðu skollaleikur, hafi falist ólögmæt uppsögn á samningi aðila í heild. Tilboð stefnda um nýjan launalið hafi því verið markleysa og stefnanda borið að hafna því sem slíku. Stefndi hafi með athöfnum sínum jafnframt vanefnt þá skyldu, sem á honum hafi hvílt, að sýna samningsaðila sínum trúnað og tillitssemi, en engri sök hafi verið til að dreifa af hálfu stefnanda.

Kröfur sínar segist stefnandi byggja á því að honum hafi samkvæmt framansögðu verið vikið úr starfi með ólögmætum hætti. Stefnanda beri því efndabætur úr hendi stefnda. Stefnandi eigi að verða eins settur og ef samningur aðila hefði verið efndur og stefnanda gert kleift að vinna út samningstímann. Óhjákvæmilegt sé að ákvarða bætur til stefnanda á grundvelli þess launaliðar og þeirra kjara sem stefnandi hafi notið fram að hinni ólögmætu uppsögn.

Við útreikning kröfu sinnar kveðst stefnandi miða annars vegar við heildarmánaðarlaun samkvæmt samningi, sem numið hafi 400.000 krónum. Krefjist stefnandi skaðabóta sem svari til launa í eitt ár og níu og hálfan mánuð, þ.e. frá 1. janúar 2013 til og með 15. október 2014, eða samtals 8.815.000 króna. Hins vegar krefjist stefnandi greiðslu skaðabóta vegna húsaleigu á sama tímabili, eða samtals 3.696.022 króna. Heildarkrafa stefnanda  nemi því 12.511.022 krónum.

Hvað varðar kröfu um málskostnað bendir stefnandi sérstaklega á að hann sé ekki virðisaukaskattsskyldur aðili og honum beri því nauðsyn til að fá dóm fyrir skattinum úr hendi stefnda.

Stefnandi gerir þá kröfu að hin umkrafða bótafjárhæð beri vexti frá þeim degi sem stefndi tilkynnti honum um uppsögn launaliðar, eða 1. október 2012. Kveðst stefnandi telja að hið bótaskylda atvik hafi átt sér stað þá í skilningi 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Dráttarvaxta krefjist stefnandi frá 26. júlí 2013 en þann dag hafi verið liðinn mánuður frá þingfestingu málsins, sbr. 9. gr. sömu laga. Um vaxtafót vaxta- og dráttarvaxta vísist til 1. málsliðar 4. gr. og 1. mgr. 6. gr. laganna.

Til stuðnings kröfum sínum vísar stefnandi einkum til meginreglna kröfu- og samningaréttar um efndir og skuldbindingargildi samninga. Jafnframt vísar stefnandi til reglna um efndabætur og almennra reglna vinnuréttar og kröfuréttar.

III

Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að skv. 2. gr. samnings aðila frá 6. nóvember 2011 hafi samningsaðilum báðum verið heimilt, á tímabilinu frá 1. til 15. október ár hvert, að segja launalið samningsins upp. Þá hafi í samningnum verið kveðið á um það með skýrum hætti að ef nýir samningar tækjust ekki á milli aðila í kjölfar uppsagnar á launaliðnum, fyrir 30. sama mánaðar, félli samningurinn niður. Báðum aðilum hafi verið ljóst þegar ákvæðið var samið að það virkaði í báðar áttir og tryggði hvorugum aðila varanleika eða óbreyttar launagreiðslur út samningstímann.

Stefndi kveðst mótmæla þeirri fullyrðingu stefnanda að knattspyrnudeildin hafi rift samningi aðila með ólögmætum hætti. Hið rétta sé að stefndi hafi, í samræmi við ákvæði samningsins, sagt launalið hans upp, enda hafi stefndi ekki lengur haft efni eða vilja til að greiða stefnanda óbreytt laun. Bendir stefndi á að sumarið 2012 hafi lið það sem stefnandi þjálfaði orðið neðst í úrvalsdeildinni og því fallið um deild. Við fall úr úrvalsdeildinni hafi stefndi orðið af tekjum sem voru grundvöllur launa­greiðslna til stefnanda. Hafi stefnanda verið ljóst að vonbrigða gætti hjá stefnda vegna þess hvernig til tókst varðandi stjórnun liðsins og áhuga stefnanda á verkefninu. Í lok sumars hafi stefnandi verið búinn að glata tiltrú bæði leikmanna liðsins og styrktaraðila þess.

Af hálfu stefnda er þeirri fullyrðingu stefnanda mótmælt að uppsögn launaliðarins hafi verið til málamynda. Um raunverulega uppsögn hafi verið að ræða sem framkvæmd hafi verið í því skyni að draga úr og spara launagreiðslur samkvæmt samningnum. Það hafi að sjálfsögðu verið tilgangur og tilefni þess að aðilar sömdu um gagnkvæma heimild til uppsagnar á launalið samningsins. Þar sem launaliður vinnusamnings sé ein af meginskyldum slíks samnings hafi verið eðlilegt að uppsögn hans leiddi til þess að samningurinn í heild sinni félli niður ef ekki tækist að endursemja um launaliðinn. Hinn möguleikinn hefði verið að semja í þá veru að ef samningar um breytingu á launum tækjust ekki fyrir 30. október skyldu laun vera óbreytt eða úrskurðað um ágreining aðila um breytingu á launalið samningsins með öðrum hætti. Aðilar hafi hins vegar kosið að semja ekki með þeim hætti, enda hefði þá markmið samningsákvæðisins ekki náð fram að ganga, þ.e. að launagreiðslur til stefnanda tækju mið af því hvað aðrir væru reiðubúnir til að greiða fyrir vinnu hans og jafnframt hvert stefndi teldi vera verðmæti vinnuframlags stefnanda.

Stefndi segir stefnanda vilja byggja málatilbúnað sinn á réttarstöðu sem samningsaðilar hafi samkvæmt framansögðu kosið að hafa ekki í samningi sín á milli. Ákvæði þess efnis hefði getað leitt til þess, hefðu áætlanir stefnanda um að fá þjálfarastöðu erlendis eða mun betur launaða stöðu hér á landi gengið eftir, að stefnandi hefði ekki getað losnað undan samningi við stefnda þó svo stefndi hefði ekki viljað jafna það boð um laun. Ákvæðið um uppsögn launaliðar samningsins hefði þá verið tilgangslítið fyrir stefnanda, sem og stefnda.

Ákvæði 2. gr. samnings aðila segir stefndi bæði skýrt og ótvírætt. Það sé bindandi fyrir báða aðila samningsins, bæði um málsmeðferðina og þá staðreynd að næðu aðilar ekki saman um breytt kjör félli samningurinn niður.

Eftir að stefnanda hafi snúist hugur varðandi gerð starfslokasamnings í samræmi við niðurstöðu fundar aðila 4. október 2012 hafi fyrirsvarsmenn stefnda strax brugðist við og óskað eftir því að stefnandi gerði grein fyrir því hvaða lágmarkslaun hann gæti sætt sig við. Stefnandi hafi ekki orðið við þeirri ósk. Stefndi hafi þá gert stefnanda tilboð um nýjan launalið sem tekið hafi mið af breyttum aðstæðum. Stefndi hafi tekið tillit til stefnanda í tilboði sínu og leyst hann undan skyldum sínum að mestu leyti í ljósi lægri launa og hlunninda. Tekur stefndi sérstaklega fram í því sambandi að knattspyrnudeildin hafi samkvæmt meginreglum vinnuréttar haft frjálst val um það að leysa stefnanda undan vinnuskyldu að hluta. Tilboðið hafi verið sett fram af ýtrustu tillitssemi við stefnanda. Stefnandi hafi hafnað boðinu en þrátt fyrir það aldrei sett fram nokkurt tilboð af sinni hálfu eða sýnt með öðrum hætti vilja til að semja við stefnanda um lækkun á launum sínum.

Sátt hafi ekki náðst um nýjan launalið samnings aðila fyrir 30. október 2012. Samningurinn hafi því fallið niður að liðnum þremur mánuðum frá uppsögn launaliðarins, eða 1. janúar 2013. Stefndi hafi greitt stefnanda laun fyrir það tímabil þrátt fyrir að stefnandi hafi hvorki mætt til vinnu né boðið fram starfskrafta sína á tímabilinu, svo sem honum hafi þó verið skylt.

Að framangreindu virtu kveðst stefndi telja að stefnandi eigi engar frekari kröfur á hendur knattspyrnudeildinni vegna samnings þeirra á milli.

Verði fallist á kröfur stefnanda að einhverju leyti krefst stefndi verulegrar lækkunar á fjárkröfum stefnanda. Í fyrsta lagi vísar stefndi til þess að leysa verði úr því álitaefni hvað verið hefði „lögmæt“ lækkun á launum stefnanda eftir uppsögn á launaliðnum. Ljóst megi vera að stefnandi hafi ekki átt rétt til óbreyttra launa og ekki getað haft lögmætar væntingar um óbreytt laun eftir að lið það sem hann stýrði varð í neðsta sæti úrvalsdeildar og féll niður um deild. Óumdeilt sé í málinu að fall liðsins hafi haft veruleg áhrif á tekjur þess, bæði greiðslur frá KSÍ vegna þátttöku og sjónvarpsútsendinga frá úrvalsdeild, sem og fjárhæðir er hægt sé að sækja til styrktaraðila.

Þá bendir stefndi á að hluti launakjara stefnanda hafi verið hlunnindi, þ. á m. íbúð í Grindavík, sem stefndi hafi leigt handa stefnanda. Hluti samnings­skuldbindinga stefnanda hafi verið að eiga lögheimili í Grindavík, þ.e. búa þar og starfa. Stefndi hafi því lagt stefnanda til íbúð þar. Einnig hafi stefndi samið við eiganda íbúðar í Kópavogi, sem stefnandi hafi búið í um tíma, um afnot stefnanda af íbúðinni á gildistíma samnings aðila. Af persónulegum ástæðum hafi stefnandi hins vegar flutt aftur í eigið húsnæði þar sem hann hafi búið síðan.

Þar sem stefnandi hafi ekki búið í íbúð þeirri sem stefndi hafi lagt honum til verði ekki séð að stefnandi geti á grundvelli sjónarmiða um skaðabætur innan samninga átt tilkall til fjárgreiðslu úr hendi stefnda fyrir meint tjón. Telji stefndi augljóst að stefnandi hafi ekki orðið fyrir tjóni vegna missis afnota af íbúð sem fyrir liggi að hann hafi ekki nýtt. Fjárkrafa stefnanda sé að þessu leyti engum gögnum studd og því vanreifuð. Þá sé meint tjón stefnanda að þessu leyti sömuleiðis ósannað.

Verði fallist á að stefnandi hafi átt „lögbundinn“, eða eftir atvikum á öðrum forsendum, rétt til þess að ná samningi við stefnda um nýjan launalið, og þá væntanlega lægri, verði ekki fram hjá því litið að hin nýju og lækkuðu laun hafi þá átt að taka strax gildi. Enn fremur komi þau laun til frádráttar sem stefndi hafi greitt frá uppsögn launaliðar og fram að áramótum.

Stefndi mótmælir vaxtakröfu stefnanda og telur að ekki séu fyrir hendi lagaskilyrði til að fallast á kröfu hans um vexti skv. 4. gr. vaxtalaga nr. 38/2001. Í stefnu sé enga útlistun að finna á því á hvaða grundvelli sú krafa byggist.

Að endingu kveðst stefndi mótmæla dráttarvaxtakröfu stefnanda. Bendir stefndi á að stefnandi sé meðal annars að krefjast bóta vegna greiðslna sem inna hafi átt af hendi á tímabili sem ekki sé liðið, en samkvæmt kröfum stefnanda hafi síðasta greiðslan til hans átt að falla til í nóvember 2014. Verði fallist á rétt stefnanda til greiðslna í framtíðinni geti bætur ekki verið með dráttarvöxtum, enda væri stefnandi þá að fá meint framtíðartjón ofbætt. Krafa stefnanda um eingreiðslu, eins og hann setji hana fram, geti ekki borið dráttarvexti fyrr en eftir gjalddaga síðustu greiðslunnar, eða í nóvember 2014.

IV

Fyrir liggur að stefnandi gerði tímabundinn ráðningarsamning við stefnda. Gildistími samningsins var frá 6. nóvember 2011 til 15. október 2014. Tímabundnir ráðningarsamningar eru almennt óuppsegjanlegir á samnings­tímanum, nema sérstaklega sé um annað samið. Samningur aðila hafði ekkert slíkt ákvæði að geyma og var aðilum því óheimilt að segja samningnum upp í heild á þriggja ára gildistíma hans.

Báðum aðilum var hins vegar heimilt skv. 2. gr. samningsins að segja upp launalið hans á tímabilinu 1. október til 15. október ár hvert. Ef samningar um nýjan launalið tækjust ekki fyrir 30. október þar á eftir áttu skyldur samningsaðila að falla niður að liðnum þremur almanaksmánuðum frá uppsögn launaliðar talið.

Með bréfi stjórnar stefnda til stefnanda 1. október 2012 var upplýst að stefndi hefði „... ákveðið að nýta sér ákvæði í þjálfarasamning (sic) við Guðjón Þórðarson ... sem gerður var 6. nóvember 2011, og segja upp launalið samningsins.“ Mun stefnanda hafa verið tilkynnt um þessa ákvörðun á fundi með stjórn stefnda 4. október 2012, en áður hafði stefndi póstlagt tilvitnað bréf til stefnanda. Telja verður ljóst af framburði formanns stefnda fyrir dómi, sem og af ummælum í greinargerð stefnda, að ástæður þessarar uppsagnar voru ekki eingöngu fjárhagslegar heldur spilaði einnig inn í það mat stjórnarmanna að stefnandi hefði glatað tiltrú leikmanna félagsins og baklands þess.

Eins og fyrr var rakið hafði stefndi heimild til þess á umræddu tímabili að segja launalið samningsins upp. Telur dómurinn upplýst að í kjölfar uppsagnar stefnda, sbr. bréf stjórnar frá 1. október 2012, hafi komið til tals milli aðila á fundi þeirra 4. sama mánaðar að ljúka samstarfinu með gerð starfslokasamnings. Ekkert haldbært liggur hins vegar fyrir um að slíkur samningur hafi komist á, en framlögð drög að starfslokasamningi eru ekki undirrituð af aðilum. Allt að einu verður þó að telja ljóst samkvæmt því sem að framan er rakið að vilji stefnda hafi staðið til þess að binda enda á samstarf aðila.

Fyrrnefnt ákvæði 2. gr. ráðningarsamningsins þykir verða að skýra svo, í ljósi þess að ákvæðið veitti aðilum eingöngu heimild til uppsagnar á launalið samningsins en ekki samningnum í heild, að á stefnda, sem ákvað að nýta sér heimild til uppsagnar á launaliðnum, hafi hvílt skylda til að reyna að ná samningi við stefnanda um nýjan launalið. Fyrir liggur að eina tilboðið sem stefndi gerði stefnanda hljóðaði á um stórfellda lækkun launa, hlutfallslega miklum mun meiri en formaður stefnda upplýsti að leikmenn liðsins hefðu samþykkt að taka á sig í kjölfar falls liðsins niður um deild, auk niðurfellingar á öðrum umsömdum hlunnindum. Tilboð stefnda byggðist og á því að grundvallarbreyting yrði á starfi stefnanda þannig að hann myndi eftirleiðis í raun gegna allt öðru og miklu umfangsminna starfi en stefndi hafði 6. nóvember 2011 ráðið hann til að gegna með þriggja ára óuppsegjanlegum samningi. Að þessu virtu, og einnig því að stefndi varð hvorki við áskorun stefnanda um að upplýsa um starfskjör eftirmanns hans í starfi knattspyrnustjóra né um upphafstíma ráðningar þess aðila í starfið, verður uppsögnin 1. október 2012 ekki metin svo að í henni hafi falist raunveruleg uppsögn á launalið með eftirfarandi tilraunum og áformum um að semja við stefnanda um nýjan launalið heldur þykir þvert á móti sannað að stefndi hafi með bréfi sínu 1. október 2012 í raun sagt upp samningi aðila í heild. Til þess hafði stefndi samkvæmt framansögðu ekki heimild og var uppsögnin því ólögmæt.

Stefnandi á rétt til skaðabóta úr hendi stefnda vegna hinnar ólögmætu uppsagnar þess síðarnefnda á ráðningarsamningi aðila. Í málinu gerir stefnandi annars vegar kröfu um skaðabætur vegna tapaðra launagreiðslna á tímabilinu frá 1. janúar 2013 til 15. október 2014, samtals að fjárhæð 8.815.000 krónur. Verður ekki annað ráðið af gögnum málsins og málatilbúnaði aðila en óumdeilt sé að stefnanda hafi borið 410.000 krónur mánaðarlega sem endurgjald fyrir vinnuframlag hans. Við ákvörðun bóta til handa stefnanda er ekki við annað haldbært að miða en þau umsömdu launakjör, en stefndi kaus að upplýsa ekki um starfskjör eftirmanns stefnanda þrátt fyrir áskorun stefnanda þar um. Þá getur ekki, svo sem mál þetta liggur fyrir, horft til lækkunar á bótakröfu stefnanda að stefndi hafði möguleika til þess að lækka launagreiðslur til stefnanda á grundvelli 2. gr. samningsins hefði hann sagt launalið samningsins upp með réttum hætti. Frá kröfu stefnanda ber hins vegar að draga 400.000 krónur sem hann upplýsti fyrir dómi að hann hefði haft í tekjur á umræddu tímabili. Bætur til handa stefnanda vegna tapaðra launagreiðslna á tímabilinu 1. janúar 2013 til 15. október 2014 þykja því réttilega ákveðnar 8.415.000 krónur.

Stefnandi krefst krefst í öðru lagi bóta vegna tapaðra húsnæðishlunninda, sbr. 3. gr. samnings aðila, sömuleiðis á tímabilinu frá 1. janúar 2013 til og með 15. október 2014, samtals að fjárhæð 3.696.002 krónur. Með framburði stefnanda fyrir dómi er upplýst að af ástæðum sem vörðuðu stefnanda persónulega hafði hann ekki nýtt sér hin umsömdu húsnæðishlunnindi í allnokkurn tíma, eða frá því í mars 2012, er stefndi sagði upp samningi aðila með ólögmætum hætti samkvæmt áðursögðu. Hefur ekkert fram komið um það í málinu að stefnandi hafi, er hann gegndi enn starfi knattspyrnustjóra hjá stefnda, gert kröfu um að peningagreiðsla, eða eftir atvikum annað endurgjald, kæmi í stað hinna umsömdu húsnæðishlunninda. Að þessu virtu þykir ósannað að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni vegna afnotamissis af íbúð sem hann hafði þegar ákveðið að nýta sér ekki af ástæðum sem vörðuðu hann sjálfan. Verður stefndi því sýknaður af þessum hluta skaðabótakröfu stefnanda.

Krafa stefnanda er skaðabótakrafa innan samninga. Ekki verður séð að sú krafa stefnanda að bætur til hans beri vexti skv. 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. október 2012 til 26. júlí 2013 eigi sér lagastoð. Stefnandi á hins vegar rétt til dráttarvaxta af hinum dæmdu bótum. Leggja verður til grundvallar samkvæmt dómafordæmum að bótakrafa stefnanda hafi gjaldfallið við hina ólögmætu uppsögn stefnda á samningi aðila. Dómurinn er hins vegar bundinn af kröfugerð stefnanda um upphafstíma dráttarvaxta. Hin dæmda fjárhæð skal því bera dráttarvexti skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 26. júlí 2013 til greiðsludags.

Eftir úrslitum málsins og að ágreiningi aðila virtum, sbr. 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda hluta málskostnaðar hans, með þeim hætti sem í dómsorði greinir.

Dóm þennan kveður upp Kristinn Halldórsson héraðsdómari. Fyrir uppkvaðningu dómsins var gætt fyrirmæla 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

D Ó M S O R Ð:

Stefndi, Knattspyrnudeild U.M.F.G., greiði stefnanda, Guðjóni Þórðarsyni, 8.415.000 krónur með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 26. júlí 2013 til greiðsludags.

Stefndi greiði stefnanda 400.000 krónur í málskostnað.