Hæstiréttur íslands

Nr. 2021-193

Ákæruvaldið (Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari)
gegn
X (Gísli Tryggvason lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Heimilisofbeldi
  • Líkamsárás
  • Heimfærsla
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ingveldur Einarsdóttir, Ása Ólafsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 9. júlí 2021 leitar ákæruvaldið leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 23. júní sama ár í málinu nr. 26/2020: Ákæruvaldið gegn X á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Ákærði leggst gegn beiðninni.

3. Með dómi Landsréttar var ákærði sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa veist að fyrrverandi kærustu sinni með nánar tilgreindum hætti og afleiðingum. Refsing ákærða var ákveðin fangelsi í þrjá mánuði en fullnustu hennar frestað skilorðsbundið í tvö ár. Í héraðsdómi var ákærði sýknaður af sakargiftum og einkaréttarkröfu brotaþola vísað frá dómi. Í dómi Landsréttar kom fram að ákært væri fyrir eitt atvik og brotaþoli hefði ekki hlotið alvarlega áverka af árásinni, svo sem beinbrot eða höfuðáverka, þótt áverkar væru víða á líkama hennar. Enn fremur hefði árásin ekki verið langvarandi þótt hún hefði verið fjölþætt, auk þess sem vafi hefði verið um hættueiginleika aðferðar ákærða við árásina. Háttsemi ákærða yrði því ekki heimfærð undir 1. mgr. 218. gr. b almennra hegningarlaga, en ætti á hinn bóginn undir 1. mgr. 217. gr. laganna. Ekki var talið að vörnum ákærða hefði verið áfátt þótt háttsemi hans hefði í ákæru verið talin varða við annað hegningarlagaákvæði. Einn dómara Landsréttar skilaði sératkvæði og taldi að heimfæra ætti brotið undir 1. mgr. 218. gr. b almennra hegningarlaga.

4. Leyfisbeiðandi telur að skilyrði 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 séu uppfyllt. Hann telur að það hafi verulega almenna þýðingu að fá úrlausn Hæstaréttar um hvernig beita eigi ákvæði 1. mgr. 218. gr. b almennra hegningarlaga þegar aðeins sé um eitt tilvik að ræða og hvenær slíkt brot sé svo alvarlegt að það teljist hafa ógnað lífi, heilsu eða velferð brotaþola á alvarlegan hátt. Leyfisbeiðandi telur að brot ákærða hafi náð því alvarleikastigi sem ákvæðið áskilji og tekur undir sjónarmið sem fram koma í sératkvæði í málinu.

5. Að virtum gögnum málsins verður að telja að úrlausn þess, meðal annars um beitingu 1. mgr. 218. gr. b almennra hegningarlaga, kunni að hafa verulega almenna þýðingu í skilningi 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Beiðnin er því samþykkt.