Hæstiréttur íslands
Mál nr. 631/2008
Lykilorð
- Kærumál
- Frávísunarúrskurður staðfestur
|
|
Föstudaginn 28. nóvember 2008. |
|
Nr. 631/2008. |
Ívar Pétur Guðnason(sjálfur) gegn Hinriki Líndal Skarphéðinssyni og Sunnleygu Belindu Leivsdóttur Krabenhöjft (enginn) |
Kærumál. Frávísunarúrskurður héraðsdóms staðfestur.
Í höfðaði mál gegn H og S og krafðist þess að nánar tilgreind ummæli yrðu dæmd dauð og ómerk. Einnig krafðist hann miskabóta. Héraðsdómur vísaði málinu frá dómi með vísan til þess að ágallar á málatilbúnaði Í væru slíkir að málið væri ótækt til frekari meðferðar. Í niðurstöðu Hæstaréttar kom fram að þegar málatilbúnaður Í væri metinn í heild sinni, þætti hann brjóta svo gegn fyrirmælum laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 að staðfesta yrði niðurstöðu héraðsdóms.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Páll Hreinsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. nóvember 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. október 2008, þar sem máli sóknaraðila gegn varnaraðilum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdóms verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst sóknaraðili 25.000 króna í kærumálskostnað.
Varnaraðilar hafa ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Með gögnum málsins fylgdu athugasemdir héraðsdómarans 18. nóvember 2008 þar sem fram kemur að eftir uppkvaðningu hins kærða úrskurðar hafi komið fram eintak stefnu sem hafi borið áritun um framlagningu.
Fallast má á með héraðsdómara að þegar málatilbúnaður sóknaraðila er metin í heild sinni brjóti hann svo gegn fyrirmælum laga nr. 91/1991 að staðfesta verði niðurstöðu hins kærða úrskurðar.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. október 2008.
Mál þetta var þingfest 2. september 2008. Í endurriti þinghaldsins segir að stefnandi hafi sjálfur sótt þing og lagt fram nr. 1-9, stefnu og fylgiskjöl. Stefna, sem liggur inni í möppu málsins, er ekki árituð um framlagningu og hinu sama gegnir um birtingarvottorð, sem eru ekki heft við stefnu, en samkvæmt þeim var stefna birt 16. júlí 2008 sem eftir því er sá dagur er málið var höfðað.
Stefnandi er Ívar Pétur Guðnason, Karfavogi 54, Reykjavík. Hann flytur mál sitt sjálfur og er ólöglærður.
Stefndu eru Hinrik Líndal Skarphéðinsson og Sunnleyg Belinda Leivsdóttir Krabenhöjft, bæði til heimilis Kirkelökken 53, Söby, 5792 Årslev, Danmörk.
Dómkröfur stefnanda eru:
„1. Að ummæli tilgreind innan gæsalappa í stafliðum A til U verði dæmd dauð og ómerk skv. 241. grein laga nr. 19/1940 og vísan til 234., 235. og 236. gr. sömu laga. Ummæli innan hornklofa eru sett af stefnanda til glöggvunar og ekki er krafist ómerkingar þeirra.
2. Að stefndi Hinrik verði dæmdur til að greiða stefnanda krónur 800.000 í miskabætur samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og stefnda Sunnleyg verði dæmd til að greiða stefnanda kr. 1.000.000 í miskabætur skv. 26. gr. l. nr. 50/1993. Miskabætur er stefndu verða dæmd til að greiða beri dráttarvexti frá dómsuppkvaðningu til greiðsludags, sbr. 8. og 9. gr. IV. kafla vaxtalaga nr. 38/2001.
3. Að stefndu greiði stefnanda málssóknarkostnað eftir mati dómsins, en skv. reikningsyfirliti verði það lagt fram við málsmeðferð, sbr. 129. gr. og 130. gr. laga nr. 91/1991.“
Stefndu krefjast aðallega sýknu af kröfum stefnanda en til vara verulegrar lækkunar og í báðum tilvikum málskostnaðar úr hendi stefnanda.
Í þinghaldi 28. þ.m., hinu fyrsta eftir úthlutun máls þessa til dómarans, var bókað: „Dómarinn kunngerir að honum virðist að vísa beri málinu frá dómi þar sem kröfugerð stefnanda og málatilbúnaður samrýmist ekki meginreglum réttarfars og ákvæðum laga um meðferð einkamála. Hann gefur stefnanda og lögmanni stefnda kost á því að tjá sig um þetta sem þau gera.“ Málið var síðan tekið til úrskurðar.
Helstu ágallar á málatilbúnaði stefnanda verða hér tilgreindir.
Í fyrstu dómkröfu stefnanda, þar sem grunnur er lagður að öðrum kröfum stefnanda, eru ekki tilgreind þau ummæli sem ómerkja beri heldur er vísað til upptalningar þeirra sem er að finna í stefnu. Þetta brýtur gegn meginreglu réttarfars um að kröfur skuli þannig fram settar að þær megi taka því sem næst óbreyttar upp í dómsorð.
Auk stefnu, á tveimur blaðsíðum, leggur stefnandi fram fimmtán síðna greinargerð. Með þessu er brotið gegn 95. gr., sbr. 80. gr., laga nr. 91/1991.
Við þingfestingu málsins lagði stefnandi ekki fram skrá yfir framlögð skjöl og hann telur ekki upp helstu gögn sem hann hafi til sönnunar og þau gögn sem hann telji að enn þurfi að afla né heldur þá sem hann hyggist leiða fyrir dóm til skýrslugjafar um atvik máls, sbr. g- og h- liði 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991.
Framangreindir ágallar á málatilbúnaði stefnanda eru slíkir að málið er ótækt til frekari meðferða og ber að vísa því frá dómi að sjálfsdáðum dómara.
Ákveðið er að málskostnaður skuli falla niður.
Sigurður H. Stefánsson héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Máli þessu er vísað frá dómi.
Málskostnaður fellur niður.