Hæstiréttur íslands

Mál nr. 741/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Aðfarargerð


                                     

Mánudaginn 1. desember 2014.

Nr. 741/2014.

Þórir Brynjúlfsson

(sjálfur)

gegn

Íslandsbanka hf.

(enginn)

Kærumál. Aðfarargerð.

Þ krafðist þess að ógilt yrði aðfarargerð sem gerð var í eign hans að beiðni Í hf. Með hliðsjón af gögnum málsins þótti ósönnuð sú fullyrðing Þ að krafa Í hf. á hendur honum væri að fullu greidd. Var aðfarargerð sýslumannsins í Reykjavík því staðfest.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma Þorgeir Örlygsson hæstaréttardómari og Ingveldur Einarsdóttir og Karl Axelsson settir hæstaréttardómarar.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. nóvember 2014, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 19. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. október 2014, þar sem staðfest var aðfarargerð sýslumannsins í Reykjavík 5. september 2013 í máli nr. 011-2013-04989. Kæruheimild er í 3. mgr. 95. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Skilja verður dómkröfur sóknaraðila, sem er ólöglærður, á þann veg að hann krefjist þess að áðurgreind aðfarargerð verði felld úr gildi. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.  

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Kærumálskostnaður dæmist ekki.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. október 2014.

Mál þetta var þingfest 17. janúar sl. og tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 21 október sl. Sóknaraðili er Þórir Brynjólfsson, Rekagranda 8, Reykjavík, en varnaraðili er Íslandsbanki hf., Kirkjusandi 2, Reykjavík.

Dómkröfur sóknaraðila eru þær að felld verði úr gildi aðfarargerð sýslumannsins í Reykjavík, í máli nr. 011-2013-04989 sem fram fór 5. september 2013 í eign sóknaraðila að Rekagranda 8, Reykjavík fyrir kröfu að fjárhæð 5.425.456 krónur samkvæmt aðfarabeiðni að kröfu varnaraðila. Jafnframt krefst hann þess, með vísan til 2. mgr. 95. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, að kveðið verði á um í úrskurði að málskot til æðra dóms fresti frekari fullnustuaðgerðum, verði á annað borð fallist á kröfur varnaraðila. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi varnaraðila.

Varnaraðili krefst þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað og áðurnefnd aðfarargerð sýslumannsins í Reykjavík í máli nr. 011-2013-04989, dags. 5. september 2013, verði staðfest. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila auk virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.

Sóknaraðili krafðist frestunar málsins í þinghaldi 27. ágúst sl. er aðalmeðferð málsins skyldi fara fram. Frestun málsins var mótmælt af hálfu varnaraðila. Að beiðni sóknaraðila fór munnlegur málflutningur um fram komna kröfu hans fram 2. október sl. Úrskurður var kveðinn upp 3. október sl. þar sem kröfu sóknaraðila um frestun málsins var hafnað.

I

Málavextir

Með dómi Hæstaréttar Íslands 14. mars 2013 í máli nr. 605/2012 var staðfestur dómur héraðsdóms Reykjavíkur 10. apríl 2012 um skyldu sóknaraðila til að greiða varnaraðila 3.527.362 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. III. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 15. júlí 2010 til greiðsludags auk 300.000 króna í málskostnað fyrir héraðsdómi. Þá var sóknaraðila gert að greiða 250.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti eða 550.000 í samanlagðan málskostnað á báðum dómstigum. Krafa sóknaraðila í málinu var til komin vegna yfirdráttarskuldar sóknaraðila á tékkareikningi hjá varnaraðila.

Varnaraðili sendi aðfararbeiðni til sýslumannsins í Reykjavík 9. apríl 2013 sem móttekin var 16. sama mánaðar. Var heildarskuld sóknaraðila þar sögð vera 5.425.456 krónur á þeim tíma. Sóknaraðili greiddi varnaraðila 4.923.203 krónur 10. maí 2013 á grundvelli skjals sem bar yfirskriftina Staða innheimtumáls Nr. 5136-015872 viðmiðunardagur 8. maí 2013 og sóknaraðila mun hafa verið afhent á skrifstofu varnaraðila.

Umþrætt fjárnám var gert hjá sóknaraðila 5. september 2013 fyrir fjárhæð þeirri er í aðfararbeiðni greindi að frádreginni innborgun að fjárhæð 4.923.203 krónur sem innt var af hendi 10 maí 2013. Sóknaraðili mótmælti því að fjárnámið næði fram að ganga en sýslumaður hafnaði mótmælum hans og lauk gerðinni með því að sóknaraðili benti á eign sína að Rekagranda 8 í Reykjavík til tryggingar kröfunni. Beiðni um nauðungarsölu var send sýslumanni 25. október 2013. Krafa sóknaraðila um ógildingu fjárnámsins var móttekin í héraðsdómi 1. nóvember 2013.

II

Málsástæður og lagarök sóknaraðila

Sóknaraðili byggir kröfu sína, um að aðfarargerð sú sem fram fór 5. september 2013 verði felld úr gildi, á því að hann skuldi varnaraðila ekki þá fjárhæð sem aðfararbeiðnin, sem sé grundvöllum fjárnámsins, byggi á.

Sóknaraðili kveður varnaraðila hafa samkvæmt bréfi um stöðu innheimtumáls með viðmiðundardag 8. maí 2013 krafið sig um greiðslu 4.923.203 króna. Þá fjárhæð hafi hann greitt 10. sama mánaðar. Hafi hann þá haldið að málinu væru lokið. Í júlí sama ár hafi hann fengið senda aðfararbeiðni og kröfu um að gert yrði fjárnám hjá honum fyrir 6.182.132 krónum. Kveður sóknaraðili það ekki fá staðist og kannist hann ekki við að skulda varnaraðila þá fjárhæð. Við fyrirtöku hjá sýslumanni hafi hann mótmælt aðförinni með skriflegri athugasemd og óskað eftir því að varnaraðili gerði grein fyrir því hvernig fjárhæðin væri tilkomin og hvernig útreikningi vaxta væri háttað. Það hafi varnaraðili ekki getað.

Sóknaraðili kveður að í raun sé allsendis óvíst hvaða upphæð liggi fjárnáminu til grundvallar. Í málinu komi fram mismunandi fjárhæðir og engin leið sé að glöggva sig á því á hvaða fjárhæð varnaraðili byggi fjárnámið. Í aðfararbeiðninni sé upphæðin sögð vera 6.182.132 krónur en í sama skjali sé hún að samtölu sögð vera 5.425.456 krónur. Í skjali yfir stöðu innheimtumáls þar sem viðmiðunardagur sé 8. maí 2013 sé skuldin sögð vera 4.923.203 krónur. Þá fjárhæð hafi hann greitt varnaraðila 10. maí 2013 eins og áður sagði. Óljóst sé því hvað vaki fyrir varnaraðila.

Sóknaraðili byggir jafnframt á því að varnaraðila hafi borið að senda nýtt innheimtubréf fyrir því sem hann taldi vantalið og vísar í því efni í lög nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, innheimtulög nr. 95/2008, sérstaklega III. og IV. kafla um góða innheimtu- og viðskiptahætti og reglugerð nr. 37/2007 um hámarksfjárhæð innheimtu sbr. reglugerð nr. 133/2010 um breytingu á reglugerð nr. 37/2007, tilskipun 93/13 EES og tilskipun 2005/29/EC.

Hvað dráttarvexti í aðfararbeiðni varði þá vísi varnaraðili í III. kafla nr. 38/2001 án þess að vísa til ákveðinna lagagreina en munur sé á útfærslu samkvæmt 2. og 4. gr. laganna. Engir útreikningar eða reikniformúlur séu lögð til grundvallar fyrir útreikningi á dráttarvöxtum en sóknaraðili eigi rétt á að sjá reikniformúlu og excel-skjal fyrir útreikningi á grundvelli laga nr. 33/2013. Það hafi hann farið fram við aðförina en varnaraðili hafi ekki orðið við því. Þá hafi hann einnig farið fram á það við meðferð þessa dómsmáls en við því hafi ekki verið orðið af hálfu varnaraðila. Því sé ekki hægt að færa sönnur á hverjar reikniforsendur dráttarvaxtanna séu og hvort upphæð þeirra sé reiknuð rétt út. Vísar sóknaraðili um þetta, og einnig um kröfu um skýrleika fjárhæðar þeirrar sem aðfarar er krafist fyrir, til 36. gr. laga nr.7/1936 og neytendaverndartilskipunar 93/13/EC, m.a. 8. gr. hennar. Þá kveðst sóknaraðili vísa í allar aðrar greinar tilskipunarinnar. Jafnframt vísi hann í tilskipun 2005/29/EC um ósanngjarna viðskiptahætti, reglugerð nr. 580/2012 og tilskipun 2011/7/EC um átak gegn greiðsludrætti í verslunarviðskiptum. Auk áðurnefndra tilvísana kveðst sóknaraðili vísa til reglna stjórnsýsluréttarins og stjórnsýslulaga nr. 37/1993, einkum III., IV. og V. kafla þeirra. Þá kveðst hann vísa sérstaklega til 27. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Við aðförina hafi embætti sýslumanns ekki gætt að því að búið var að greiða umrædda skuld og því hafi sýslumanni borið að neita varnaraðila um aðför þar sem enginn fótur hafi verið fyrir skuld að fjárhæð 6.182.032 krónum, tölur hafi verið misvísandi og ekki verið lagður fram útreikningur dráttarvaxta. Fásinna sé að sóknaraðili verði að þola fjárnám vegna upphæðar sem sé á reiki og sé skilgreind á mismunandi hátt í gögnum málsins án útreikninga og reikniformúlu um dráttarvexti.

III

Málsástæður og lagarök varnaraðila

Varnaraðili byggir kröfu sína um staðfestingu umþrættrar aðfarargerðar sýslumannsins í Reykjavík á því að öll skilyrði aðfararlaga nr. 90/1989 séu uppfyllt.

Sóknaraðili hafi með dómi Hæstaréttar í máli nr. 605/2012 verið dæmdur til að greiða varnaraðila tiltekna fjárhæð ásamt dráttarvöxtum, auk málskostnaðar á báðum dómstigum. Aðfararbeiðni sem dagsett sé 9. apríl 2013 hafi verið móttekin af sýslumanni 16. sama mánaðar. Sóknaraðili hafi greitt 4.923.203 krónur inn á kröfuna 10. maí 2013 Á greiðsludegi hafi vantað 550.000 krónur upp á að sú greiðsla væri fullnaðargreiðsla á kröfunni auk dráttarvaxta. Skuldin hafi numið 686.742 krónum 13. mars 2014. Við hana hafi nú bæst kostnaður vegna fjárnáms að fjárhæð, 16.400 krónur, 10.250 krónur í þinglýsingargjald, 6.526 krónur vegna uppboðsbeiðni og 17.100 krónur í nauðungarsölugjald í ríkissjóð. Þá hafi dráttarvextir hækkað. Við útreikning kröfunnar hafi verið tekið tillit til innborgunar á innborgunardegi.

Varnaraðili kveður sóknaraðila ekki geta skýlt sér á bak við það að hann hafi þegar greitt skuld sína þar sem hún sé ekki réttilega tilgreind í skjali um stöðu innheimtumáls gagnvart sóknaraðila með viðmiðunardag 8. maí 2013 þar sem skuld hans er sögð vera 4.923.203 krónur. Augljóst sé um að misritun sé að ræða í skjalinu þar sem upphaflega hafi í innheimtukerfi varnaraðila verið tilgreindur raunverulegur kostnaður bankans af dómsmálinu nr. 605/2012 í sundurliðun kröfunnar. Við gerð skjalsins hafi verið færður inn tildæmdur málskostnaður að fjárhæð 550.000 krónur í sundurliðun kröfunnar en við útreikning hennar hafi gleymst að taka tillit til þessarar fjárhæðar sem sé því ekki í samtölu skuldarinnar á skjalinu. Augljóst sé þó af sundurliðun kröfunnar að málskostnaður nemur 550.000 krónum. Þá sjáist af skjalinu að það sé handreiknað en ekki keyrt sjálfkrafa út úr innheimtukerfi varnaraðila þar sem í fjárhæðinni 4.923.203 séu tveir punktar en slíkt myndi ekki gerast hefði skjalið verið prentað beint út úr kerfinu. Varnaraðili telur engan vafa geta verið á því að sóknaraðila hafi átt að vera fullljóst að samtala kröfunnar væri of lág miðað við sundurliðun hennar. Krafa hans sé ekki að fullu greidd og fjárnámið hafi farið fram vegna eftirstöðvanna og þeirra dráttarvaxta sem þá höfðu fallið á kröfuna.

Varnaraðili hafnar því að tilvísun sóknaraðila til laga um neytendalán nr. 33/2013 geti átt við í máli þessu. Lögin hafi öðlast gildi 1. nóvember 2013 en dómur sá sem kveði á um greiðsluskyldu sóknaraðila og var grundvöllur umþrættar aðfarar hafi verið kveðinn upp 14. mars 2013. Jafnvel þótt litið væri til eldri laga um neytendalán nr. 121/1994, og þá helst 3. gr. þeirra um yfirdrátt, bendir sóknaraðili á að sú grein hafi komið inn í lögin á árinu 2006. Tékkareikningur sóknaraðila hafi verið stofnaður á árinu 1985. Þá sé fjallað skilmerkilega um þýðingu 3. gr. laga nr. 121/1994 í áðurnefndum dómi Hæstaréttar og komist að þeirri niðurstöðu að með notkun sinni á umræddum tékkareikningi hafi sóknaraðili samþykkt þær yfirdráttarheimildir sem honum voru veittar og í gildi hafi verið hverju sinni og hann verið dæmdur til að greiða varnaraðila umkrafða fjárhæð. Áðurnefnd grein laga nr. 121/1994 hafi ekki verið talin standa því í vegi.

Þá kveður varnaraðili enga lagaskyldu hvíla á sér til að leggja fram excel-skjal vegna dráttarvaxta, hvað þá reikniformúlur vegna útreiknings á lögbundnum dráttarvöxtum sem lagðir hafi verið á skuld sóknaraðila samkvæmt ákvæðum laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Verði slík skylda hvorki lögð á hann samkvæmt núgildandi lögum um neytendalán, eldri lögum nr. 121/1994 um sama efni né samkvæmt ákvæðum laga nr. 38/2001.

Ljóst sé að umrædd aðfararbeiðni hafi í alla staði uppfyllt 4. mgr. 10. gr. laga nr. 90/1989 um aðför og engin atvik við framkvæmd hennar geti valdið ógildingu hennar. Hafnar varnaraðili öllum rökum sóknaraðila um ógildingu aðfararinnar og ítrekar að öll skilyrði laga nr. 90/1989 fyrir því að umþrætt aðfarargerð standi séu uppfyllt. Beri því að hafna kröfu sóknaraðila.

Þá ítrekar varnaraðili að grundvöllur aðfarar hjá sóknaraðila hafi verið umræddur dómur Hæstaréttar. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 90/1989 megi gera aðför til fullnustu kröfu samkvæmt dómum sem fallið hafi um greiðsluskyldu aðila. Dómurinn sé gild aðfararheimild og engin lagaskylda hvíli á varnaraðila til að senda sóknaraðila sérstakt innheimtubréf vegna eftirstöðvar þeirrar skuldar sem honum var gert að greiða varnaraðila með dóminum.

Um lagarök vísar varnaraðili til 1. töluliðar 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989. Málskostnaðarkrafa sóknaraðila byggir á 129.-131. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 94. gr. laga nr. 90/1989. Krafan um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun er reist á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Sóknaraðili sé ekki virðisaukaskattskyldur og beri honum því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi varnaraðila.

IV

Niðurstaða

Mál þetta er rekið fyrir dóminum á grundvelli 15. kafla laga nr. 90/1989 um aðför. Til grundvallar þeirri aðför, sem sóknaraðili krefst ógildingar á, liggur dómur Hæstaréttar frá 14. mars 2013 í máli nr. 605/2012 þar sem sóknaraðila var gert að greiða varnaraðila tiltekna fjárhæð með dráttarvöxtum frá tilteknum tíma auk málskostnaðar á báðum dómstigum. Aðförin fór fram 5. september 2013.

Samkvæmt 1. mgr. 92. gr. laga nr. 90/1989 um aðför er aðilum að aðfarargerð heimilt að krefjast úrlausnar héraðsdómara um gerðina, ef krafa þess efnis berst héraðsdómara innan átta vikna frá því gerðinni var lokið. Samkvæmt 2. mgr. greinarinnar verði ágreiningur um aðfarargerð eða ákvarðanir sýslumanns ekki lagður fyrir héraðsdómara nema málsaðilar séu á það sáttir eða héraðsdómari telji afsakanlegt að málefni hafi ekki verið lagt fyrir hann í tæka tíð. Þeirri aðfarargerð sem um er deilt í máli þessu lauk 5. september 2013 eins og áður sagði og var krafa sóknaraðila um úrlausn dómsins móttekin 1. nóvember sama ár. Hinn lögbundni átta vikna frestur var því liðinn er krafa sóknaraðila barst héraðsdómi. Málið var allt að einu tekið til meðferðar af hálfu dómsins.

Við munnlegan málflutning kvað varnaraðili aðspurður að rétt væri að líta svo á að framlagning greinargerðar af hans hálfu og áframhaldandi rekstur málsins fæli í sér að málsaðilar væru á það sáttir að málið kæmi til meðferðar fyrir dóminum. Verður því litið svo á að rekstur málsins fyrir dóminum byggi á undantekningarheimild 2. mgr. 92. gr. laganna og verður því fjallað efnislega um þann ágreining sem borinn hefur verið undir dóminn.

Sóknaraðili hefur í máli þessu byggt á því að hann skuldi ekki varnaraðila þá fjárhæð sem fjárnámið byggi á. Þá séu fjárhæðir í málinu misvísandi og erfitt að henda reiður á kröfu varnaraðila auk þess sem enginn útreikningur eða reikningsformúlur liggi fyrir varðandi útreikning dráttarvaxta af kröfu varnaraðila.

Í málinu liggur fyrir og er óumdeilt að sóknaraðili greiddi varnaraðila 4.923.203 krónur 10. maí 2013 á grundvelli skjals um stöðu innheimtumáls varnaraðila gagnvart honum og miðaðist skuld sóknaraðila við 8. maí 2013. Sóknaraðili kveður að hann hafi á grundvelli skjalsins litið svo á að um fullnaðargreiðslu af hans hálfu væri að ræða og málinu væri því lokið. Á þetta getur dómurinn ekki fallist. Ljóst má vera af áðurnefndu skjali að samtala skuldarinnar er ekki rétt miðað við sundurliðun kröfunnar. Varnaraðila gat því ekki dulist að krafan var ekki að fullu greidd. Verður því einnig að hafna sjónarmiðum sóknaraðila varðandi það að fjárnám hafi verið gert í eign hans fyrir fjárhæð sem hann skuldaði ekki. Ljóst má vera af aðfararbeiðni varnaraðila að samtala kröfu hans, 6.182.032 krónur, er of há þegar litið er til samlagningar kröfunnar við sundurliðun hennar þar sem fjárhæðin er 5.425.456 krónur Þá er alveg ljóst af endurriti sýslumanns úr gerðabók af fjárnámsgerðinni að fjárnám fór fram fyrir síðari fjárhæðinni og að frádreginni innborgun að fjárhæð 4.923.203 krónur og var tekið fram að augljóst væri að í samtöluna samkvæmt stöðuyfirliti 8. maí 2013 vantaði málskostnað að fjárhæð 550.000 krónur sem tilgreindur sé í sundurliðun kröfunnar.

Dómurinn telur liggja ljóst fyrir í málinu að skuld sóknaraðila sé ekki að fullu greidd. Fjárnám var gert vegna eftirstöðva hennar að meðtöldum dráttarvöxtum og kostnaði. Engin efni eru til að fallast á kröfu sóknaraðila um að varnaraðila verði gert að leggja fram útreikning dráttarvaxta eða reikniformúlur vegna dráttarvaxta enda verður ekki talið að nokkur lagaskylda hvíli á varnaraðila til slíkra útlistana á kröfu sinni sem byggir á álagningu dráttarvaxta samkvæmt heimild í lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Er sjónarmiðum sóknaraðila hvað þetta varðar hafnað. Verður ekki fallist á það með sóknaraðila að fjárnámið beri að ógilda af þessum sökum. Var gerðinni réttilega lokið af hálfu sýslumanns við ábendingu varnaraðila á eign sinni til tryggingar kröfunni. Þá freistaði sóknaraðili þess ekki að fá ákvörðun sýslumanns um að gerðinni skyldi fram haldið hnekkt á grundvelli 14. kafla laga nr. 90/1989 og koma sjónarmið þar að lútandi því ekki til álita við úrlausn þessa máls.

Með vísan til alls framangreinds verður hafnað kröfu sóknaraðila um að felld verði úr gildi aðfarargerð sýslumannsins í Reykjavík 5. september 2013 í aðfararmáli nr. 011-2013-04989 og verður hún því staðfest.

Krafa sóknaraðila um að í úrskurði verði kveðið á um að málskot til æðra dóms fresti frekari fullnustugerðum á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 90/1989. kom fyrst fram við munnlegan flutning málsins. Sætti það ekki mótmælum af hálfu varnaraðila. Litið hefur verið svo á að ákvæði þetta eigi einkum við ef hagsmunir sem um er deilt eru ófjárhagslegs eðlis og tjón gerðarþola yrði ekki bætt með fégreiðslu. Þar sem ekki verður annað séð en að þeir hagsmunir, sem hér eru í húfi, séu eingöngu fjárhagslegir þykja ekki vera efni til að fallast á þessa kröfu sóknaraðila og er henni því hafnað.

Með vísan til þessarar niðurstöðu og samkvæmt 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 á varnaraðili rétt á málskostnaði úr hendi sóknaraðila, sem þykir með hliðsjón af umfangi málsins og rekstri þess fyrir dóminum hæfilega ákveðinn 350.000 krónur, að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

Hólmfríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð. Dómarinn tók við meðferð málsins 2. maí sl.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Staðfest er aðfarargerð sýslumannsins í Reykjavík 5. september 2013 í máli nr. 011-2013-04989.

Sóknaraðili, Þórir Brynjólfsson, greiði varnaraðila, Íslandsbanka hf., 350.000 krónur í málskostnað, að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

Málskot úrskurðar þessa til æðra dóms frestar ekki frekari fullnustugerðum.