Hæstiréttur íslands

Mál nr. 548/2010


Lykilorð

  • Lausafjárkaup
  • Pöntunarkaup
  • Afpöntun


Fimmtudaginn 31. mars 2011.

Nr. 548/2010.

KNH ehf.

(Björn Jóhannesson hrl.)

gegn

Idex ehf.

(Óskar Sigurðsson hrl.)

og gagnsök

Lausafjárkaup. Pöntunarkaup. Afpöntun.

Af hálfu K ehf. voru pantaðar þrjár stórar innkeyrsluhurðir hjá F ehf., sem I ehf. leiðir rétt sinn frá, vegna nýbyggingar sem félagið hafði í byggingu. K ehf. fékk pöntunarstaðfestingu 12. janúar 2009 og greiddi inn á kaupin 19. sama mánaðar. Í kjölfarið pantaði F ehf. hurðirnar frá dönskum framleiðanda, sem staðfesti pöntunina 22. janúar 2009. K ehf. óskaði eftir því 3. febrúar sama ár að hurðirnar yrðu afpantaðar hjá framleiðandanum, þar sem hann hefði keypt hurðir af þriðja aðila, en daginn eftir tilkynnti F ehf. að afpöntun væri ekki tæk þar sem framleiðslu væri lokið og hurðirnar biðu flutnings til Íslands. Í málinu krafði I ehf. K ehf. um greiðslu kaupverðs hurðanna, en deila aðila laut að því hvort K ehf. hefði verið afpöntun heimil, sbr. 2. mgr. 52. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup. Í dómi héraðsdóms, sem staðfestur var í Hæstarétti, var talið að ekki væru uppfyllt skilyrði ákvæðisins fyrir afpöntun hurðanna þar sem slíkt hefði haft í för með sér verulegt óhagræði fyrir F ehf. Því til viðbótar vísaði Hæstiréttur til þess að K ehf. hefði fengið upplýst að framleiðslu hurðanna væri lokið og að ekkert lægi fyrir um hvort F ehf. gat samkvæmt þeim lögum, sem giltu um viðskipti félagsins við hinn danska framleiðanda, afpantað hurðirnar.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 22. september 2010. Hann krefst sýknu af kröfu gagnáfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði fyrir sitt leyti 1. desember 2010. Hann krefst staðfestingar héraðsdóms um annað en málskostnað. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Fyrir Hæstarétti reisir aðaláfrýjandi kröfu sína eingöngu á þeirri málsástæðu, að honum hafi verið heimilt að afpanta þær þrjár svokallaðar innkeyrsluhurðir, sem leggja ber til grundvallar að samningur hafi tekist um að Formaco ehf., sem gagnáfrýjandi leiðir rétt sinn frá, hafi pantað fyrir aðaláfrýjanda. Hann styður rétt sinn til afpöntunar við 2. mgr. 52. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup.

Aðilar eru sammála um að viðskipti aðaláfrýjanda og Formaco ehf. séu pöntunarkaup, sbr. 2. gr. laga nr. 50/2000. Samkvæmt framangreindu er ekki um það deilt að aðaláfrýjandi hafi fengið svonefnda pöntunarstaðfestingu 12. janúar 2009, greitt inn á kaupin 285.000 krónur 19. sama mánaðar og Formaco ehf. hafi í framhaldi af því pantað hurðirnar hjá dönskum framleiðanda. Framleiðandinn staðfesti pöntunina 22. janúar 2009. Þá ber einnig að leggja til grundvallar að aðaláfrýjandi hafi óskað eftir því 3. febrúar sama ár að hurðirnar yrðu afpantaðar hjá framleiðanda, þar sem hann hefði þegar keypt hurðir af öðrum. Daginn eftir tilkynnti Formaco ehf. að ekki væri unnt að afpanta hurðirnar, því búið væri að framleiða þær og þær biðu flutnings til Íslands.

Fallist er á með héraðsdómi að ekki séu uppfyllt skilyrði 2. mgr. 52. gr. laga nr. 50/2000 fyrir afpöntun hurðanna þar sem slíkt hefði haft í för með sér verulegt óhagræði fyrir Formaco ehf. Í því sambandi ber meðal annars að líta til þess að aðaláfrýjandi hafði fengið upplýst að framleiðslu hurðanna væri lokið og ekkert liggur fyrir um hvort Formaco ehf. gat samkvæmt þeim lögum, sem giltu um viðskipti félagsins við hinn danska framleiðanda, afpantað hurðirnar. Samkvæmt þessu verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest um að gagnáfrýjandi eigi rétt til þess að aðaláfrýjandi efni samninginn samkvæmt aðalefni hans og greiði eftirstöðvar kaupverðs hurðanna, en ekki er tölulegur ágreiningur í málinu.

Aðaláfrýjandi verður dæmdur til að greiða gagnáfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem verður ákveðinn í einu lagi, eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Aðaláfrýjandi, KNH ehf., greiði gagnáfrýjanda, Idex ehf., málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, 700.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Vestfjarða 23. júní 2010.

Mál þetta, sem dómtekið var 11. maí sl., höfðaði stefnandi, Idex ehf., Fossaleyni 8, Reykjavík, hinn 11. nóvember 2009 gegn stefnda, KNH ehf., Grænagarði, Ísafirði.

Dómkröfur stefnanda eru að stefnda verði dæmt til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 2.850.000 krónur ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 2.850.000 krónum frá 1. maí 2009 til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun 19. janúar 2009 að fjárhæð 285.000 krónur. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda.

Stefnda krefst þess að félagið verði sýknað af öllum kröfum stefnanda í málinu. Þá gerir stefnda kröfu um, verði talið að samningur hafi stofnast milli stefnda og Formaco ehf. um kaup stefnda á iðnaðarhurðum, að sá samningur verði dæmdur ógildur. Að lokum krefst stefnda málskostnaðar úr hendi stefnanda.

I.

Fyrir liggur að í byrjun janúar 2009 leitaði Magnús G. Helgason, byggingarstjóri nýbyggingar stefnda við Grænagarð á Ísafirði, eftir tilboðum í stórar innkeyrsluhurðir fyrir bygginguna. Mun Magnús meðal annars hafa leitað tilboða hjá Formaco ehf. og Húsasmiðjunni hf.

Í málinu deila aðilar um réttmæti reiknings stefnanda, dags. 21. apríl 2009, vegna þriggja Nassau-aksturshurða sem stefnandi segir fyrirsvarsmann stefnda, Sigurður G. Óskarsson, hafa pantað 19. janúar 2009 hjá Formaco ehf. vegna fyrrnefndrar byggingar. Segir stefnandi stefnda hafa staðfest þá pöntun með því að greiða samdægurs 10% af kaupverði hurðanna. Stefnda hefur mótmælt þessum málatilbúnaði stefnanda í greinargerð sinni í málinu og sagt nefndan fyrirsvarsmann hafa, í ljósi afdráttarlausra fullyrðinga sölumanns hjá Formaco ehf., Torfa Jóhannssonar, þess efnis að áðurnefndur Magnús hefði talað um það við sig að tilboði Formaco ehf. yrði tekið, ákveðið að greiða 285.000 krónur til Formaco ehf., til að festa tilboðsverðið. Hafi Sigurður álitið það óhætt þar sem hann hafi á grundvelli ákvæðis í tilboði Formaco ehf. talið að pöntun yrði ekki gerð fyrr en ⅓ hluti tilboðsverðsins hefði verið greiddur.

Aðila málsins greinir einnig á um hvort stefnda hafi, eftir atvikin 19. janúar 2009, afpantað hurðirnar og þá eftir atvikum hvort félaginu hafi verið það heimilt.

Hinn 20. maí 2009 var bú Formaco ehf. tekið til gjaldþrotaskipta. Í málinu liggur fyrir staðfesting skiptastjóra þrotabúsins á því að stefnandi hafi „... fulla heimild af hálfu þrb. Formaco ehf. til að taka við réttindum og skyldum hins gjaldþrota félags ...“ „.... vegna hurðakaupa KNH í ársbyrjun 2009 ...“

II.

Stefnandi segir kröfur sínar byggðar á reikningi að fjárhæð 2.850.000 krónur, útgefnum 21. apríl 2009 og með gjalddaga 1. maí sama ár. Vísar stefnandi til þess að stefnda hafi pantað þrjár aksturshurðir hjá Formaco ehf. og greitt 285.000 krónur inn á pöntunina, án fyrirvara, 19. janúar 2009, en sú fjárhæð hafi numið 10% af kaupverðinu. Heldur stefnandi því fram að fyrirsvarsmaður stefnda hafi fyrir dómi viðurkennt að með innborguninni hafi komist á skuldbindandi samningur milli Formaco ehf. og stefnda um kaup þess síðarnefnda á hurðunum.

Umræddar hurðir kveður stefnandi vera sérpantaðar hurðir sem Formaco ehf. hafi pantað hjá framleiðanda þeirra, Nassau Door a/s í Danmörku, með pöntunarstaðfestingu, dagsettri 22. janúar 2009. Stefnandi hafi yfirtekið hurðapöntunina af Formaco ehf. skömmu eftir það og hafi innborgun stefnda til Formaco ehf. verið millifærð frá því félagi til stefnanda 11. mars 2009. Þann sama dag hafi stefnandi greitt Nassau Door a/s fyrir hurðirnar.

Stefnandi segir það meginreglu að seljandi megi halda kaupum upp á kaupanda. Undantekningu frá þeirri meginreglu sé hins vegar að finna í 2. mgr. 52. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup, sem stefnda hafi vísað til í málinu. Hvað þann málatilbúnað varði segir stefnandi fyrir það fyrsta ósannað að stefnda hafi afpantað hurðirnar. Stefnda hafi borið að afpanta með skýrum og ótvíræðum hætti eftir að samningur um sölu hurðanna komst á með framangreindum hætti. Kveður stefnandi sendanda afpöntunar bera að tryggja sér sönnun þess að hún hafi borist móttakanda, sbr. 82. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup.

Ennfremur byggir stefnandi á því að ekki hafi verið mögulegt að afpanta hurðirnar. Þegar meint afpöntun hafi átt sér stað hafi hurðirnar verið tilbúnar og afpöntun því augljóslega haft verulegt óhagræði í för með sér. Því hafi stefnandi neyðst til að greiða fyrir þær og flytja þær til landsins. Vísar stefnandi í þessu sambandi einnig til framburðar Torfa Jóhannssonar, sem verið hafi deildarstjóri glugga- og hurðadeildar Formaco ehf., þess efnis að ógerlegt hafi reynst að selja hurðirnar. Af öllu þessu megi ljóst vera að afpöntun hafi verið óframkvæmanleg og ákvæði 2. mgr. 52. gr. laga nr. 50/2000 eigi því ekki við í málinu.

Verði fallist á málatilbúnað stefnda hvað heimild til afpöntunar varðar segir stefnandi félagið krefjast skaðabóta úr hendi stefnda samkvæmt ákvæðum X. kafla laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup. Beri stefnda í því tilfelli að bæta stefnanda tjón félagsins að fullu.

Að endingu mótmælir stefnandi þeim málatilbúnaði stefnda að 32., 33. og 36. gr. laga nr. 7/1936 eigi við í málinu. Ekkert liggi fyrir um að starfsmenn Formaco ehf. hafi sýnt af sér óheiðarleika gagnvart stefnda. Þá sé með öllu ósannað að telja verði ósanngjarnt af hálfu stefnanda að bera umræddan samning fyrir sig.

Til stuðnings kröfum sínum vísar stefnandi til meginreglu kröfuréttarins um efndir fjárskuldbindinga, en regluna segir hann meðal annars eiga sér lagastoð í 47., 51. og 52. gr. laga nr. 50/2000.

III.

Stefnda reisir sýknukröfu sína fyrst og fremst á því að félagið hafi aldrei pantað iðnaðarhurðir frá Formaco ehf. og því hafi enginn samningur stofnast milli þess félags og stefnda um kaup á hurðunum. Vísar stefnda til þess að Magnús Helgason, byggingarstjóri nýbyggingar stefnda við Grænagarð, hafi í janúar 2009 skýrt Arnari Inga Lúðvíkssyni, sölufulltrúa Formaco ehf., frá því að tilboði þeirra í fyrrgreindar iðnaðarhurðir yrði ekki tekið þar sem ákveðið hefði verið að kaupa hurðirnar af öðrum söluaðila. Þetta hafi sölufulltrúa Formaco ehf. verið ljóst og geti stefnda ekki á nokkurn hátt borið ábyrgð á því að þeim skilaboðum hafi ekki verið komið áleiðis til Torfa Jóhannssonar sölumanns, sem einnig hafi komið að málinu. Þá bendir stefnda á að af hálfu félagsins hafi aldrei verið skrifað undir tilboð Formaco ehf., en telja verði það skilyrði þess að líta mætti svo á að samningur hefði komist á milli aðila, nema fyrir lægi staðfesting á munnlegu samkomulagi aðila, en svo sé ekki.

Stefnda segir svo virðast sem stefnandi byggi kröfur sínar á því að með greiðslu 285.000 króna hafi stefnda samþykkt að taka tilboði Formaco ehf. í fyrrnefndar iðnaðarhurðir og með þeim hætti hafi komist á samningur milli aðila um kaupin á grundvelli tilboðs Formaco ehf. Í tilboðinu, sem einnig beri yfirskriftina pöntunarstaðfesting, komi skýrlega fram að pöntun á vörunni fari ekki fram fyrr en ⅓ hluti tilboðsverðsins hafi verið greiddur. Þetta hafi forsvarsmanni stefnda verið ljóst þegar hann hafi tekið ákvörðun um að greiða 285.000 krónur til Formaco ehf. í þeim tilgangi að festa verð vörunnar meðan beðið væri staðfestingar frá byggingarstjóra nýbyggingar stefnda um hvort tilboði Formaco ehf. hefði verið tekið. Pöntunarstaðfestingin hafi hins vegar aldrei verið undirrituð af stefnda. Telur stefnda að verði litið svo á að samningur hafi komist á milli Formaco ehf. og stefnda þá verði efni þess samnings að vera í samræmi við ákvæði tilboðsins. Verði því að líta til allra ákvæða tilboðsins, meðal annars þess að pöntun ætti sér ekki stað fyrr en ⅓ hluti tilboðsverðsins hafði verið greiddur. Sú ákvörðun Formaco ehf. að panta hurðirnar þrátt fyrir að engin skrifleg pöntunarstaðfesting lægi fyrir af hálfu stefnda, og án þess að greiðsla hefði borist samkvæmt tilboðinu, hafi alfarið verið á ábyrgð Formaco ehf. og verði stefnda ekki undir nokkrum kringumstæðum gert ábyrgt fyrir þeirri ákvörðun Formaco ehf. Það sé því með öllu ósannað að skuldbindandi samningur hafi komist á milli stefnda og Formaco ehf. um kaup þess fyrrnefnda á hurðunum.

Verði talið að samningur hafi komist á milli stefnda og Formaco ehf. um kaup á umræddum hurðum vísar stefnda til þess að félaginu hafi engu að síður verið heimilt að afpanta vöruna með vísan til ákvæða 2. mgr. 52. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup. Þar sé að finna þá meginreglu að kaupandi hlutar sem sérstaklega sé útbúinn fyrir hann geti afpantað hlutinn. Frá því sé þó sú undantekning að seljandi geti haldið fast við kaupin ef afpöntun hafi í för með sér verulegt óhagræði fyrir seljandann eða hættu á því að hann fái ekki bætt það tjón sem afpöntunin hafi í för með sér. Segir stefnda ekki verða séð að stefnandi hafi lagt fram gögn sem sýni fram á að þessi atriði eigi við í málinu. Þá sé í 2. mgr. 52. gr. i.f. laga nr. 50/2000 tekið fram að seljandi sem ekki geti haldið fast við kaupin eigi rétt til skaðabóta fyrir tjón það sem afpöntunin valdi samkvæmt reglum X. kafla laganna.

Ennfremur er á því byggt af hálfu stefnda að verði talið að samningur hafi stofnast milli stefnda og Formaco ehf. þá beri að ógilda samninginn með vísan til ákvæða 32. og 33. gr. laga nr. 7/1936 í ljósi þess hvernig staðið hafi verið að málum af hálfu sölumanna Formaco ehf. við að koma samningnum á. Sölumanni Formaco ehf. hafi verið ljóst að öðru tilboði hafði verið tekið og því óheiðarlegt af hálfu sölumannanna að vísa til þess að annað hefði verið ákveðið. Þá sé í ljósi atvika málsins bæði ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju að bera slíkan samning fyrir sig, svo sem gert sé af hálfu stefnanda. Vísar stefnda í því sambandi einkum til þeirra atvika hvernig staðið hafi verið að málum af hálfu sölumanna Formaco ehf. og ákvörðunar þess félags að panta vöruna án þess að greiðsla hefði borist í samræmi við tilboðið. Í þessu sambandi vísar stefnda til 36. gr. laga nr. 7/1936.

Til stuðnings kröfum sínum vísar stefnda, auk þess sem þegar hefur verið vikið að, almennt til ákvæða laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup, sem og meginreglna samninga- og kröfuréttarins um gildi tilboða og samninga.

IV.

Óumdeilt er í málinu að í byrjun janúar 2009 leitaði Magnús G. Helgason, byggingarstjóri nýbyggingar stefnda við Grænagarð, eftir tilboðum í stórar innkeyrsluhurðir fyrir bygginguna. Samkvæmt framburði Magnúsar fyrir dómi leitaði hann tilboða hjá Formaco ehf., Núpi ehf. og Húsasmiðjunni hf. Magnús bar ennfremur að hann hefði tekið tilboði Húsasmiðjunnar hf. um miðjan janúar og gengið frá pöntun á hurðunum áður en hann fór í frí. Kvaðst hann hafa hringt í hina tvo tilboðsgjafana og tilkynnt þeim að þeirra tilboðum yrði ekki tekið. Vegna tilboðs Formaco ehf. hefði hann rætt við Arnar Inga Lúðvíksson, þann hinn sama og sent hefði inn tilboðið fyrir hönd Formaco ehf. Arnar hefði ekki verið sáttur við að öðru tilboði hefði verið tekið og haldið sölutilraunum áfram og boðið einhverja lækkun „... en ég sagði að það væri bara svona.“ Einnig kom fram hjá Magnúsi að hann hefði í tengslum við tilboðsgjöf Formaco ehf. jafnframt verið í sambandi við Torfa Jóhannsson, sem, er atvik málsins gerðust, var deildarstjóri glugga- og hurðadeildar Formaco ehf., en hann ekki náð í Torfa áður en hann fór í fríið til að greina honum endanlega frá því að tilboði Formaco ehf. yrði ekki tekið. Þá kom ennfremur fram hjá Magnúsi að hann hefði ekki rætt hurðamálin við Sigurð G. Óskarsson, forsvarsmann stefnda, áður en hann fór í fríið. Sagði Magnús það alfarið hafa verið sitt hlutverk að kaupa inn í húsið og sjá um allt í því sambandi. Það verkefni hefði ekki verið á könnu Sigurðar.

Fyrrnefndur Arnar Ingi Lúðvíksson, sem var sölumaður hjá Formaco ehf. er atvik máls gerðust, en hætti þar störfum í apríl 2009, greindi svo frá fyrir dómi að fyrirspurn hefði borist til Formaco ehf. um hurðir og hann í kjölfarið útbúið tilboð og sent fyrirspyrjandanum. Sagði vitnið fyrirspyrjanda hafa þótt tilboðið of hátt og afhendingartíminn of langur. Orðrétt bar vitnið: „Það kom aldrei fram beinlínis að þessu tilboði yrði ekki tekið, þeim fannst þetta of hátt ... og þeir þurftu á hurðunum að halda fyrr.“ Torfi Jóhannsson hefði í framhaldinu tekið tilboðið og ákveðið að ræða við forsvarsmenn stefnda, „... þá tók hann raunverulega við málinu.“

Samkvæmt framangreindu ber Magnúsi G. Helgasyni og Arnari Inga Lúðvíkssyni ekki saman um það hvort Magnús hafi greint Arnari afdráttarlaust frá því að tilboði Formaco ehf. yrði ekki tekið. Samkvæmt því verður því ekki slegið föstu að þeim síðarnefnda hafi verið ljóst að Magnús hafi verið búinn að ganga frá pöntun hurðanna hjá öðrum, en um þetta atriði nýtur engra skriflegra gagna í málinu.

Upplýst er með framburði Torfa Jóhannssonar og Sigurðar G. Óskarssonar að Torfi kom á fund Sigurðar 19. janúar 2009. Sigurður hélt því fram í skýrslu sinni fyrir dómi að Torfi hefði sannfært hann um að hann ætti að sjá um að panta hinar umdeildu hurðir fyrir Magnús G. Helgason, sem þá hefði verið farinn í frí og ekki náðst í. Torfi lýsti þessum atvikum hins vegar með nokkuð öðrum hætti. Hann kvaðst hafa komið að málinu þegar hann hefði orðið þess áskynja að Arnar Ingi Lúðvíksson var ekki að ná að „landa sölunni“. Torfi sagðist hafa verið í óformlegu sambandi við Magnús sem verið hefði að skoða að taka hurðir frá Formaco ehf. Magnús hefði hins vegar aldrei staðfest að úr því yrði. Þegar Torfi hefði síðan ekki náð sambandi við Magnús hefði hann ákveðið að tala við Sigurð í ljósi stöðu hans hjá stefnda. Neitaði Torfi því að hafa vitað á þeim tíma sem hann var að reyna að selja stefnda hurðir í húsið að félagið var með hurðir í pöntun hjá öðrum aðila. Því hefði hann ekki komist að fyrr en síðar.

Fyrir liggur að eftir framangreindar samræður Sigurðar G. Óskarssonar og Torfa Jóhannssonar voru millifærðar 285.000 krónur af reikningi stefnda á reikning Formaco ehf. Sigurður bar fyrir dómi að tilgangurinn með innborguninni hefði verið „... að koma pöntuninni af stað, koma þessu í ferli ...“ svo hægt væri að panta hinar umdeildu hurðir af framleiðanda. Aðspurður kvaðst Sigurður ekki hafa gert fyrirvara þegar innborgunin var innt af hendi, enda hefði hann treyst Torfa. Ragnar Jóhannsson, framkvæmdastjóri stefnanda, og áður hjá Formaco ehf., bar um þetta atriði að það hefði verið venja að innágreiðslan væri hærri en 10%, sbr. hinn skrifaða texta í framlagðri pöntunarstaðfestingu, en að hann hefði í þessu tilviki fallist á þá beiðni stefnda, sem sett hefði verið fram við Torfa, að innágreiðslan yrði einungis 10%.

Ljóst þykir af því sem hér hefur verið rakið að sölumenn Formaco ehf., þeir Arnar Ingi Lúðvíksson og Torfi Jóhannsson, gengu nokkuð hart fram fyrir hönd Formaco ehf., í tilraunum sínum til að selja stefnda hurðir í nýbyggingu félagsins. Það verður hins vegar að telja ósannað að þeim hafi verið það ljóst að Magnús G. Helgason var, fyrir hönd stefnda, búinn að panta hurðir frá þriðja aðila þegar Torfi fór á fund Sigurðar G. Óskarssonar samkvæmt áðursögðu. Þykir rétt að taka sérstaklega fram í því sambandi að ekkert haldbært hefur komið fram um það í málinu að Torfi hafi búið yfir þeirri vitneskju, sbr. þann framburð Magnúsar, sem reifaður er hér að framan, að hann hafi ekki náð í Torfa áður en hann fór í frí til að greina honum endanlega frá því að tilboði Formaco ehf. yrði ekki tekið. Þá verður ekki fram hjá því litið að Sigurður, sem bar fyrir dómi að hann hefði fyrst komið að málinu þegar Torfi birtist á skrifstofunni hjá honum 19. janúar 2009, og ekki hafði rætt hurðakaupin við Magnús, sem samkvæmt áðursögðu kvaðst fyrir dómi alfarið hafa séð um að kaupa inn í nýbygginguna, ákvað þrátt fyrir það að láta framkvæma fyrrnefnda innborgun á hurðirnar, án nokkurs fyrirvara. Að öllu þessu virtu þykir verða að telja sannað að 19. janúar hafi komist á samningur milli stefnda og Formaco ehf. um kaup þess fyrrnefnda á þremur Nassau-aksturshurðum á 2.850.000 krónur að virðisaukaskatti meðtöldum, sbr. framlagða pöntunarstaðfestingu sem ber með sér að hafa verið send með símbréfi 19. janúar 2009.

Samkvæmt því sem ítarlega hefur verið rakið hér að framan um tilurð samkomulags Formaco ehf. og stefnda um kaup þess síðarnefnda á hurðunum þremur er ljóst að engin þau atvik eru sönnuð í málinu sem réttlætt geta beitingu ákvæða 32., 33. eða 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga við úrlausn málsins.

Sigurður G. Óskarsson kvaðst fyrir dómi hafa sent Torfa Jóhannssyni tölvupóst 4. febrúar 2009 og afpantað hurðirnar, eða strax og Magnús G. Helgason kom aftur til landsins og í ljós kom að hann hafði pantað hurðir hjá Húsasmiðjunni hf. áður en hann fór í fríið. Framburður Magnúsar um þessi atvik var á sömu lund en hann kvaðst að fríinu loknu, á fyrstu dögum febrúarmánaðar, hafa haft samband við Torfa og sagt honum að hann yrði að afpanta hurðirnar. Torfi hefði í kjölfarið upplýst Magnús um að hann hefði reynt að afpanta en það ekki reynst hægt. Þá staðfesti Torfi fyrir dómi að hafa fengið símtal frá Magnúsi þar sem hann hefði lýst yfir mikilli óánægju með að Torfi hefði selt stefnda hurðirnar. Sagðist Torfi strax og í ljós kom að Magnús hefði verið búinn að fá hurðir annars staðar frá hafa haft samband við framleiðanda hurðanna í Danmörku og reynt að afturkalla pöntunina. Hann hefði fengið til baka meldingu um að hurðirnar færu tilbúnar og komnar á hafnarkantinn. Afpöntun hefði því ekki verið möguleg.

Samkvæmt framanröktum framburði Sigurðar G. Óskarssonar og vætti Torfa Jóhannssonar og Magnúsar G. Helgasonar þykir sannað að stefnda hafi tilkynnt Formaco ehf. um afpöntun hurðanna á fyrstu dögum febrúarmánaðar 2009. Hefur vætti Torfa fyrir dómi þess efnis að framleiðslu hurðanna hafi þá verið lokið og þær tilbúnar í skip frá Danmörku ekki á nokkurn hátt verið hnekkt af stefnda og verður það því lagt til grundvallar við úrlausn málsins.

Skv. 1. mgr. 52. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup er það meginregla í lausafjárkaupum að seljandi getur haldið fast við kaupin og krafið kaupanda um greiðslu kaupverðsins. Í 2. mgr. 52. gr. er að finna undantekningu frá þeirri meginreglu en samkvæmt ákvæðinu getur seljandi sem útbúið hefur hlut sérstaklega fyrir kaupanda, er afpantar hlut, ekki haldið fast við kaupin með því að halda gerð hlutarins áfram eða gert aðrar ráðstafanir til afhendingar ásamt því að krefjast greiðslu, nema því aðeins að stöðvun hafi í för með sér verulegt óhagræði fyrir hann eða hættu á því að hann fái ekki bætt það tjón sem afpöntunin hefur í för með sér.

Svo sem áður var rakið afpantaði stefnda hurðirnar á fyrstu dögum febrúarmánaðar 2009. Til þess verður hins vegar að líta að framleiðslu hurðanna var þá lokið og þær tilbúnar til sendingar. Að því virtu verður að telja augljóst að stöðvun kaupanna á þeim tímapunkti hefði haft verulegt óhagræði í för með sér fyrir Formaco ehf., nú stefnanda, sem skuldbundinn var til að greiða framleiðanda hurðanna og vandséð hvað hann gat við hinar sérsmíðuðu hurðir gert, en upplýst er að tilraunir til að selja hurðirnar öðrum aðilum skiluðu ekki árangri. Er það því niðurstaða dómsins að afpöntun stefnda hafi borist það seint að kaupin urðu ekki stöðvuð og þykir ákvæði 2. mgr. 52. gr. laga nr. 50/2000 því ekki eiga við í málinu.

Óumdeilt er í málinu, sbr. niðurlag I. kafla dómsins, að stefnandi er réttur aðili að hinni umdeildu kröfu. Samkvæmt því og með vísan til niðurstöðu dómsins hér að framan verður stefnda dæmt til að greiða stefnanda 2.565.000 krónur með dráttarvöxtum svo sem nánar greinir í dómsorði.

Að ágreiningi málsaðila og atvikum öllum virtum, sbr. 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, þykir rétt að láta hvorn aðila bera sinn kostnað af málinu.

Dóm þennan kveður upp Kristinn Halldórsson héraðsdómari. Fyrir uppkvaðningu dómsins var gætt fyrirmæla 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

D Ó M S O R Ð:

Stefnda, KNH ehf., greiði stefnanda, Idex ehf., 2.565.000 krónur ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 2.565.000 krónum frá 1. maí 2009 til greiðsludags.

Málskostnaður fellur niður.