Hæstiréttur íslands
Mál nr. 234/2003
Lykilorð
- Líkamstjón
- Skaðabætur
- Örorka
- Þjáningarbætur
- Gjafsókn
- Sératkvæði
|
|
Fimmtudaginn 5. febrúar 2004. |
|
Nr. 234/2003. |
Íslenska ríkið (Skarphéðinn Þórisson hrl.) gegn Sjöfn Jóhannsdóttur (Ástráður Haraldsson hrl.) |
Líkamstjón. Skaðabætur. Örorka. Þjáningabætur. Gjafsókn. Sératkvæði.
S, starfsmaður á sambýlinu S, tilkynnti lögreglu um tilefnislausa líkamsárás sem hún hafi orðið fyrir af hálfu vistmanns stofnunarinnar. Síðar tilkynnti hún jafnframt bótanefnd, sem starfar á grundvelli laga nr. 69/1995 um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota, um atvikið. Nefndin tók umsókn S um bætur tvisvar sinnum til efnislegrar meðferðar, en gaf S ekki tilefni til að kæra tjónvald og setja fram kröfu um skaðabætur, eins og þótti mega ætla að S hefði ella gert. Samkvæmt þessu og með hliðsjón af lögskýringargögnum þóttu skilyrði 1. mgr. 6. gr. laga nr. 69/1995 ekki standa í vegi fyrir greiðslu bóta til S.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 19. júní 2003. Hann krefst sýknu af kröfu stefndu og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Með bréfi dómsmálaráðherra 22. janúar 2004 fékk stefnda gjafsókn fyrir Hæstarétti.
I.
Eins og fram kemur í héraðsdómi tilkynnti stefnda lögreglu um atvikið, sem varð á vinnustað hennar að Sólheimum í Grímsnesi 20. febrúar 1997, jafnskjótt og hún hafði heilsu til. Lýsti stefnda því að hún hafi orðið fyrir tilefnislausri líkamsárás af hálfu vistmanns stofnunarinnar. Hvorki verður ráðið að lögregla hafi uppfyllt þá skyldu að veita stefndu upplýsingar um rétt hennar til bóta samkvæmt 18. gr. laga nr. 69/1995 um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota, né rannsakað málið frekar, en svo virðist af gögnum málsins sem nokkrir aðrir vistmenn hafi verið vitni að atvikum. Með bréfi þáverandi lögmanns stefndu til bótanefndar 9. desember 1998, var atvikum lýst á sömu lund og hjá lögreglu. Jafnframt var lögð fram fyrirspurn um hvort það skilyrði væri sett af hálfu nefndarinnar að stefnda þyrfti að leggja fram formlega kæru á hendur tjónvaldi til að eiga rétt á heimtu bóta úr hendi áfrýjanda. Var sérstaklega tekið fram í bréfinu að stefnda myndi ekki setja það fyrir sig að leggja fram slíka kæru ef nauðsyn krefði, en í ljósi þess að tjónvaldur væri ósakhæfur væri erindi um þetta beint að nefndinni. Í svari nefndarinnar til lögmannsins 20. apríl 1999 segir að hún vilji „taka fram að samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 69/1995 er ófrávíkjanlegt skilyrði fyrir greiðslu skaðabóta úr ríkissjóði að brot, er tjón verður rakið til, hafi verið kært til lögreglu og að tjónþoli hafi gert kröfu um greiðslu skaðabóta úr hendi brotamanns.” Jafnframt var tilkynnt að nefndin myndi ekki aðhafast frekar í tilefni af erindi stefndu nema sýnt væri fram á að skilyrðum þessum hefði verið fullnægt. Ekki liggur fyrir að af hálfu stefndu hafi verið orðið við þessum tilmælum bótanefndar. Hinn 28. desember 1999 tóku gildi lög nr. 118/1999 um breyting á lögum um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota, þar sem bætt var við 6. gr. laganna nýrri málsgrein, 3. mgr., þess efnis að þegar veigamikil rök mæltu með mætti víkja frá skilyrðum 1. og 2. mgr. ákvæðisins. Í athugasemdum við frumvarp til laganna kom fram að þótt tilefni heimildarinnar til að víkja frá skilyrðum bótagreiðslu sé að styrkja réttarstöðu barna sem þolendur afbrota sé undanþáguheimildin þó ekki bundin við þau tilvik. Í lögum nr. 118/1999 var ekki kveðið á um lagaskil. Í kjölfar þessarar lagabreytingar óskaði bótanefnd eftir því með bréfi til lögmanns stefndu 13. janúar 2000 að hún yrði „upplýst um stöðu málsins.“ Í svarbréfi 27. sama mánaðar vísaði lögmaðurinn til samtals við formann nefndarinnar og upplýsti að verið væri að afla rannsóknargagna frá lögreglu og yrði þeim komið á framfæri við nefndina ásamt kröfu stefndu. Með bréfi 23. febrúar 2000 sendi lögmaðurinn nefndinni lögregluskýrslu 17. sama mánaðar jafnframt því sem hann vísaði til laga nr. 118/1999 og fyrri samskipta sinna við nefndina. Í framhaldi af því sendi hann nefndinni sundurliðaða bótakröfu. Þá ítrekaði hann tvívegis bréflega umsókn stefndu um bætur, 6. september 2000 og 31. janúar 2001. Var umsókn stefndu um bætur hafnað með ákvörðun nefndarinnar 22. febrúar 2001 á þeim forsendum að ekki væru uppfyllt skilyrði fyrri málsliðar 1. mgr. 1. gr. laga nr. 69/1995 um refsiverða háttsemi. Hinn 30. mars 2001 fór lögmaður stefndu fram á endurupptöku málsins. Með vísan til 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 afturkallaði bótanefnd fyrri ákvörðun sína og tók málið á ný til efnismeðferðar. Með bréfi 24. ágúst 2001 ítrekaði lögmaður stefndu ósk um afgreiðslu málsins. Hinn 19. mars 2002 var stefndu gefinn kostur á að koma að frekari gögnum þar sem nefndin taldi sér ekki unnt að slá því föstu á grundvelli fyrri gagna að tjón stefndu mætti rekja til refsiverðrar háttsemi. Var ekki vikið að því hvort stefnda hefði uppfyllt skilyrði 1. mgr. 6. gr. laga nr. 69/1995 en tekið fram að nefndin myndi ekki standa fyrir rannsókn samkvæmt 14. gr. laganna. Með ákvörðun bótanefndar 8. maí 2002 var umsókn stefndu um bætur hafnað á þeim grundvelli að ekki væri unnt að „slá því föstu“ að „tjón það sem bóta er krafist fyrir verði rakið til háttsemi sem talist getur brot á almennum hegningarlögum.“
Eins og að framan er rakið tók bótanefnd umsókn stefndu um bætur tvisvar sinnum til efnislegrar meðferðar. Af málsmeðferð nefndarinnar má ráða að hún hafi metið það svo að veigamikil rök hafi mælt með því að vikið yrði frá skilyrðum 1. mgr. 6. gr. laga nr. 69/1995 í samræmi við heimild 3. mgr. sömu greinar. Í málinu er ekkert komið fram sem bendir til að þetta mat nefndarinnar hafi verið ómálefnalegt. Gaf bótanefnd stefndu þannig ekki tilefni til að kæra tjónvald og setja fram kröfu um skaðabætur, eins og ætla má að stefnda hefði ella gert samkvæmt yfirlýsingu í fyrirspurnarbréfi lögmanns hennar til nefndarinnar 9. desember 1998. Í ljósi alls framanritaðs og tilgangs laga nr. 69/1995 um greiðslu bóta úr ríkissjóði til þeirra sem verða fyrir líkamstjóni sem leiðir af broti á almennum hegningarlögum, þykja skilyrði 1. mgr. 6. gr. laganna ekki standa í vegi fyrir greiðslu bóta til stefndu. Með þessum athugasemdum og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður fallist á að fyrir hendi séu skilyrði til greiðslu bóta til handa stefndu samkvæmt lögum nr. 69/1995. Ber því að staðfesta niðurstöðu héraðsdóms um að fella úr gildi ákvörðun bótanefndar í máli hennar nr. 90/1998 frá 8. maí 2002.
II.
Samkvæmt örorkumati Grétars Guðmundssonar, sérfræðings í taugalækningum, 5. september 1998 er það niðurstaða hans að stefnda hafi hlotið 25% varanlega örorku og 13% miska vegna þess atviks sem um ræðir. Af hálfu áfrýjanda er örorkumatinu ekki mótmælt. Þá er ekki tölulegur ágreiningur í málinu. Hins vegar telur áfrýjandi tímabil þjáningabóta vera of langt. Krafa stefndu um þjáningabætur er sundurliðuð, þannig: „Þjáningabætur, rúmliggjandi 27 d. x 1.520 (1300/3282x3848) kr. 41.040,00. Þjáningabætur, batnandi 338 d. x 820 (700/3282x3848) kr. 277.160,00.“
Í framangreindu örorkumati er hvorki tilgreint tímabil veikinda stefndu né hvenær heilsufar hennar varð stöðugt. Af gögnum málsins verður þó ekki annað séð en stefnda hafi verið rúmliggjandi í 27 daga vegna atviksins. Hins vegar verður ekki ráðið hve lengi hún var veik án þess að vera rúmliggjandi. Er því hafnað síðarnefndum hluta kröfu stefndu um þjáningabætur. Verður áfrýjandi því dæmdur til að greiða stefndu kröfu hennar að fjárhæð 1.842.121 króna að frádregnum 277.160 krónum, eða 1.564.961 króna ásamt vöxtum eins og í dómsorði greinir. Samanlögð fjárhæð höfuðstóls og vaxta skal ekki fara fram úr 2.500.000 krónum.
Stefnda hefur notið gjafsóknar vegna málsins á báðum dómstigum. Er því ekki ástæða til að dæma áfrýjanda til greiðslu málskostnaðar í héraði eða fyrir Hæstarétti. Gjafsóknarákvæði héraðsdóms er staðfest. Gjafsóknarkostnað stefndu fyrir Hæstarétti skal greiða eins og nánar segir í dómsorði.
D ó m s o r ð:
Áfrýjandi, íslenska ríkið, greiði stefndu, Sjöfn Jóhannsdóttur, 1.564.961 krónu ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 13. apríl 2000 til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Samanlögð fjárhæð höfuðstóls og vaxta skal ekki fara fram úr 2.500.000 krónum.
Gjafsóknarákvörðun héraðsdóms er staðfest.
Gjafsóknarkostnaður stefndu fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 300.000 krónur.
Sératkvæði
Gunnlaugs Claessens
Í málinu krefst stefnda bóta frá áfrýjanda á grundvelli laga nr. 69/1995 um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota. Atvikið, sem krafa stefndu er sprottin af, varð 20. febrúar 1997 og meðal málsgagna er umboð hennar til lögmanns frá október sama árs til að gæta hagsmuna hennar vegna slyssins. Lögmaðurinn beindi fyrirspurn 9. desember 1998 til bótanefndar samkvæmt 13. gr. laga nr. 69/1995 um rétt stefndu til bóta og hvort hún þyrfti að kæra nafngreindan vistmann á Sólheimum í Grímsnesi, sem hún kvað hafa valdið sér líkamstjóni. Var tekið fram að „hún mun ekki setja fyrir sig að leggja fram slíka kæru ef nauðsyn krefur“, en jafnframt sagt að kæra væri þýðingarlaus vegna ósakhæfis vistmannsins. Í svari bótanefndar 20. apríl 1999 segir meðal annars að það sé ófrávíkjanlegt skilyrði fyrir greiðslu skaðabóta úr ríkissjóði að brot, sem tjón verður rakið til, hafi verið kært til lögreglu og að tjónþoli hafi gert kröfu um greiðslu skaðabóta úr hendi brotamanns. Muni nefndin ekki aðhafast frekar í tilefni af erindinu nema sýnt sé fram á að skilyrðum þessum sé fullnægt. Á árunum 2000 til 2002 fjallaði bótanefndin síðan tvívegis um formleg erindi stefndu um bætur úr ríkissjóði á grundvelli áðurnefndra laga, sem var hafnað, svo sem rakið er í hinum áfrýjaða dómi.
III. kafli laga nr. 69/1995 hefur að geyma ákvæði um skilyrði bótagreiðslu og fjárhæð bóta. Segir í 1. mgr. 6. gr. að það sé skilyrði fyrir greiðslu bóta að brot, sem tjón er rakið til, hafi án ástæðulauss dráttar verið kært til lögreglu og að tjónþoli hafi gert kröfu um greiðslu skaðabóta úr hendi brotamanns. Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. skal umsókn um bætur hafa borist bótanefnd innan tveggja ára frá því brot var framið. Með lögum nr. 118/1999 var nýrri mgr. bætt við, sem varð 3. mgr. 6. gr. Er hún þess efnis að þegar veigamikil rök mæla með megi víkja frá skilyrðum 1. og 2. mgr. Við mat á því hvort fært þyki að beita þessu undanþáguákvæði verður að líta til athugasemda, sem fylgdu framvarpi til laga nr. 118/1999. Kom þar fram að tilefni þess að frumvarpið var flutt hafi verið erindi umboðsmanns barna, sem fór þess á leit að skilyrði 6. gr. laganna yrðu endurskoðuð með tilliti til þess að þau ættu illa við þegar um kynferðisbrot gegn börnum væri að ræða. Við tilteknar aðstæður geti verið rétt að víkja megi frá skilyrðum 1. og 2. mgr., en það eigi sérstaklega við þegar brotið er gegn börnum. Aðstæður þeirra til að kæra brot kunni að vera erfiðar. Þótt tilefni frumvarpsins sé að styrkja réttarstöðu barna sem þolenda afbrota kunni þó að vera ástæða til að víkja frá skilyrðum 1. og 2. mgr. 6. gr. í fleiri tilvikum og sé því lagt til að heimildin verði ekki bundin við þau tilvik ein þar sem börn séu þolendur ofbeldis. Sé ekki tilefni til að gera ráð fyrir mörgum tilvikum þar sem til álita komi að víkja frá skilyrðunum.
Að virtu því, sem að framan er rakið úr lögskýringargögnum, er ljóst að í málinu er ekki fyrir hendi sú aðstaða að unnt sé að víkja frá skilyrðum 1. og 2. mgr. 6. gr. laga nr. 69/1995, jafnvel þótt fært þætti að beita lögum nr. 118/1999 um atvik, sem urðu fyrir gildistöku þeirra laga. Bótanefndin gaf stefndu skýr svör þegar í upphafi um að skilyrði bótagreiðslu væri að hún kærði brotið og beindi kröfu um skaðabætur að ætluðum brotamanni. Þrátt fyrir það hefur stefnda hvorugt gert. Er sú skýring ein gefin í stefnu til héraðsdóms að kæra sé sýnilega þarflaus og að stefnda hafi ekki viljað valda brotamanni hugarangri. Í síðari umfjöllun sinni um málið féll bótanefndin ekki frá áðurnefndri afstöðu sinni og hafði heldur ekki heimild til að leysa stefndu undan lögbundnum skilyrðum svo greiða mætti henni bætur á grundvelli laga nr. 69/1995. Hefur málið heldur ekki verið rannsakað með tilliti til þess að stefndu hafi verið valdið líkamstjóni með refsiverðu broti. Uppfyllir hún þegar af þessum ástæðum ekki skilyrði laga nr. 69/1995 til að eiga rétt á bótum frá áfrýjanda.
Samkvæmt því, sem að framan er rakið, tel ég að sýkna eigi áfrýjanda af kröfu stefndu, en að hvor aðilanna eigi að bera sinn kostnað af málinu á báðum dómstigum. Ég er sammála öðrum dómendum um ákvörðun gjafsóknarlauna.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 23. maí 2003.
Mál þetta, sem dómtekið var 7. maí sl., er höfðað 25. júní 2002 af Sjöfn Jóhannsdóttur, Eyrarbraut 12, Stokkseyri, á hendur íslenska ríkinu, Arnarhvoli, Reykjavík.
Stefnandi krefst þess aðallega að ákvörðun bótanefndar samkvæmt lögum nr. 69/1995 um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota í máli nr. 90/1998, sem tekin var 8. maí 2002, verði felld úr gildi og stefnda, íslenska ríkið, verði dæmt til greiðslu 1.842.121 krónu með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 13. apríl 2000 til l. júlí 2001 en samkvæmt lögum nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Þess er krafist að vextir leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti, í fyrsta sinn 13. apríl 2001. Til vara er þess krafist að framangreind ákvörðun bótanefndarinnar verði felld úr gildi og lagt fyrir nefndina að taka mál stefnanda til úrlausnar að nýju. Krafist er að stefnda verði gert að greiða stefnanda málskostnað samkvæmt málskostnaðarreikningi eins og málið væri ekki gjafsóknarmál en stefnandi fékk gjafsókn 28. nóvember 2002.
Stefnda krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað samkvæmt mati réttarins.
Yfirlit málsatvika og ágreiningsefna
Stefnandi varð fyrir líkamstjóni 20. febrúar 1997 er hún var við störf á sambýli að Sólheimum í Grímsnesi. Stefnandi heldur því fram að einn heimilismanna hafi kastað henni utan í vegg er hann reiddist án þess að reiði hans beindist að henni. Við það hafi hún fallið í gólfið og af þessu hafi hún hlotið alvarleg líkamsmeiðsl, aðallega í baki, en þeim er lýst í læknisfræðilegum gögnum málsins. Stefnandi hefur lagt fram örorkumat Grétars Guðmundssonar sérfræðings í taugalækningum, dagsett 5. september 1998, en samkvæmt því var varanleg örorka stefnanda metin 25% og miskastig 13%.
Stefnandi gaf skýrslu hjá lögreglu mánuði síðar en málið sætti ekki rannsókn af hálfu lögreglunnar að öðru leyti fyrr en um tveimur árum síðar er lögreglan aflaði upplýsinga sem lögmaður stefnanda hafði óskað eftir að lögreglan aflaði frá tveimur öðrum starfsmönnum á Sólheimum.
Stefnandi sótti um bætur til bótanefndar samkvæmt lögum nr. 69/1995 en nefndin féllst ekki á að skilyrði væru til að greiða stefnanda bætur með ákvörðun hinn 22. febrúar 2001. Með bréfi lögmanns stefnanda, dagsettu 30. mars sama ár, var óskað eftir endurskoðun málsins en bótanefndin afturkallaði framangreinda ákvörðun 3. apríl sama ár. Var umsókn stefnanda enn á ný synjað með ákvörðun í máli nr. 90/1998 hinn 8. maí 2002. Stefnandi hefur höfðað málið í því skyni að fá þeirri ákvörðun hnekkt en jafnframt krefst hún bóta á grundvelli laganna úr hendi stefnda vegna líkamstjónsins sem hún varð fyrir. Stefndi mótmælir því að skilyrði laga nr. 69/1995 til greiðslu bóta samkvæmt lögunum séu uppfyllt.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Af hálfu stefnanda er málsatvikum lýst þannig að hún hafi verið starfsmaður vistheimilisins að Sólheimum í Grímsnesi en hún hóf störf þar á árinu 1995. Í fyrstu hafi hún unnið störf í eldhúsi en síðar við umönnun heimilismanna. Hinn 20. febrúar 1997 hafi hún orðið fyrir líkamsárás af hendi andlega fatlaðs heimilismanns. Hann hafi hrint henni án tilefnis eða fyrirvara utan í vegg með þeim afleiðingum að hún hafi fengið alvarlegan áverka á bak. Stefnanda hafi tekist að kalla aðra starfsmenn Sólheima sér til aðstoðar auk þess sem heilsugæslulæknir hafi verið kallaður til. Í fyrstu hafi verið talið að stefnandi myndi jafna sig fljótlega, en hið sanna hafi komið í ljós er hún hafi verið send í röntgenmyndatöku. Strax og stefnandi hafi haft heilsu til hafi hún gefið skýrslu hjá lögreglunni á Selfossi um árásina, en við það tækifæri hafi hún sérstaklega tekið fram að hún væri ekki að kæra vistmanninn, enda væri það þýðingarlaust vegna fötlunar hans.
Eftir að hafa undirgengist læknisrannsóknir hafi afleiðingar árásarinnar verið metnar 5. september 1998 í samræmi við ákvæði skaðabótalaga nr. 50/1993 af Grétari Guðmundssyni sérfræðingi í heila- og taugasjúkdómum. Hann hafi komist að þeirri niðurstöðu að varanleg örorka stefnanda væri 25% og varanlegur miski 13%.
Slysatrygging launþega, sem Sólheimar hefðu keypt hjá Tryggingu hf. í samræmi við kjarasamningsbundna skyldu, hafi verið gerð upp á grundvelli mats Grétars á miskastigi, en mat á miskastigi hafi verið talið jafngilda læknisfræðilegri örorku sem sú trygging hafi miðað við. Sólheimar hafi áður hafnað skaðabótaábyrgð á tjóni stefnanda.
Bótanefnd samkvæmt lögum nr. 69/1995 hafi verið send fyrirspurn um bótarétt stefnanda 9. desember 1998. Erindinu hafi verið svarað 20. apríl 1999 og áréttað að það væri ófrávíkjanlegt skilyrði fyrir greiðslu skaðabóta að brot hefði verið kært til lögreglu og krafa gerð um greiðslu skaðabóta. Stefnandi hefði ekki kært vistmanninn formlega enda hafi hún ekki viljað valda fötluðum manni, sem hún þekkti vel og hafi veist að henni vegna fötlunar sinnar, hugarangri með þarflausri kæru enda yrði honum aldrei gerð refsing fyrir verk sitt vegna fötlunar sinnar. Stefnandi hafi því ekki aðhafst í kjölfar bréfs bótanefndar.
Hinn 13. janúar 2000 hafi bréf borist frá bótanefndinni, þar sem innt hafi verið eftir upplýsingum um stöðu málsins. Lög nr. 69/1995 hefðu þá sætt breytingum með lögum nr. 118/1999 þannig að kæra hafi ekki lengur verið ófrávíkjanlegt skilyrði þess að mál gæti hlotið afgreiðslu nefndarinnar. Í tilefni af bréfinu og samskiptum við formann nefndarinnar hafi verið hlutast til um að afla ítarlegri upplýsinga um tildrög tjóns stefnanda en samkvæmt skýrslu lögreglunnar á Selfossi hefðu vitni staðfest árásina og hvernig hana hefði borið að. Skýrslunni hafi verið komið á framfæri við bótanefndina og boðað að sett yrði fram fjárkrafa fyrir hönd stefnanda en það hafi verið gert 13. mars 2000. Ekkert hafi síðan gerst í framhaldi þess, þrátt fyrir ítrekanir í september 2000 og janúar 2001, fyrr en með bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dagsettu 27. febrúar 2001, en því hafi fylgt afgreiðsla bótanefndar á umsókn stefnanda um bætur úr ríkissjóði sem hafi verið hafnað. Rök bótanefndar fyrir synjuninni hafi alfarið byggt á því að þar sem sjálfstæður og óvilhallur dómstóll hefði ekki komist að niðurstöðu um sekt vistmannsins væri óheimilt að leggja til grundvallar að hann hefði gerst sekur um þá háttsemi sem hann hefði haft í frammi er hann hafi hrint stefnanda utan í vegg með þeim afleiðingum að hún hafi hlotið varanlegan skaða af. Slíkt myndi stríða gegn fortakslausu banni 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 2. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Þessum forsendum bótanefndarinnar hafi stefnandi verið ósammála, bæði hvað varði inntak tilgreindra réttarheimilda og mat nefndarinnar að það sé á valdi stjórnsýslunefndar eins og bótanefndarinnar að víkja frá fortakslausri skyldu 9. gr. laga nr. 69/1995 til greiðslu bóta í slíku tilviki sem hér um ræði.
Í kjölfar þess að ákvörðun nefndarinnar hafi loks legið fyrir hafi verið samin stefna sem hafi verið sýnd formanni bótanefndar til upplýsingar og til samráðs um hverjum skyldi birta stefnuna. Að höfðu samráði lögmanns stefnanda og formanns bótanefndar hafi erindi verið sent til nefndarinnar, með bréfi dagsettu 30. mars 2001, með ósk um endurupptöku málsins, þar sem formaðurinn hafi talið líkur á að afgreiðslu málsins kynni að verða breytt. Með bréfi bótanefndar, dagsettu 3. apríl 2001, hafi verið tilkynnt að nefndin hefði afturkallað ákvörðun sína frá 22. febrúar og málið yrði tekið til afgreiðslu að nýju.
Ekkert hafi frést af afgreiðslu nefndarinnar þrátt fyrir ítrekaðar munnlegar og skriflegar fyrirspurnir, sbr. bréf frá 24. ágúst 2001, fyrr en 19. mars 2002 en þá hafi stefnanda með bréfi nefndarinnar verið veittur frestur til 10. apríl 2002 til að leggja fram frekari gögn. Þetta hafi verið gert þrátt fyrir að fyrir lægi að engra frekari gagna hafi verið unnt að afla. Kveðinn hafi verið upp nýr úrskurður 8. maí 2002 þar sem kröfu stefnanda hafi verið hafnað öðru sinni.
Krafa stefnanda sé í samræmi við lög nr. 50/1993 eins og þau hafi verið á tjónsdegi. Byggt sé á upplýsingum úr læknisvottorðum varðandi þjáningabætur samkvæmt 3. gr. laganna en mati Grétars Guðmundssonar læknis varðandi varanlegan miska samkvæmt 4. gr. og varanlega örorku samkvæmt 5. gr. að frádregnum greiddum bótum frá Tryggingu hf. vegna slysatryggingar launþega, sbr. 10. gr. laga nr. 69/1995. Fjárkrafan sundurliðist þannig:
Þjáningabætur, rúmliggjandi 27 dagar x 1.520 (1300/3282x3848) 41.040 krónur
Þjáningabætur, batnandi 338 dagar x 820 (700/3282x3848) 277.160 “
Miskabætur, 13% x 4.690.000 609.700 “
Varanleg örorka 25% 1.830.948 “
Lækkun vegna aldurs 32% (585.903 “ )
Greiðsla frá Tryggingu hf. til frádráttar (330.824 “ )
Samtals: 1.842.121 krónur
Krafist sé dráttarvaxta í samræmi við 15. gr. laga nr. 25/1987 frá 13. apríl 2000 er mánuður hafi verið liðinn frá því að fjárkrafa stefnanda hafi verið sett fram.
Samkvæmt fortakslausu orðalagi 9. gr. laga nr. 69/1995 sé stefnda skylt að greiða stefnanda bætur vegna líkamstjóns sem hún hafi orðið fyrir þegar vistmaðurinn hafi veist að henni umræddan dag með þeim afleiðingum að hún hafi orðið fyrir varanlegu heilsutjóni. Ótvírætt virtist það mat bótanefndarinnar að öðrum skilyrðum laganna en fyrri málslið 1. gr. sé fullnægt í máli þessu.
Af hálfu stefnanda sé í fyrsta lagi byggt á því að bótanefndin hafi farið langt út fyrir umboð sitt og hlutverk samkvæmt lögum nr. 69/1995 við úrlausn þessa máls. Heimildir nefndarinnar og viðmið við úrlausn sakarefna takmarkist af lögunum, en það sé ekki hlutverk nefndarinnar að gæta þess að íslenska ríkið brjóti ekki gegn 70. gr. stjórnarskrárinnar og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Hlutverk nefndarinnar sé að leysa úr umsóknum sem henni berist á grundvelli fyrirmæla laga nr. 69/1995. Það sé ekki nefndarinnar að ákvarða hvenær og í hvaða mæli löggjafinn kunni að hafa brotið gegn stjórnskipunarlögum og alþjóðlegum sáttmálum. Vilji löggjafans sé ótvíræður um að slíkt tjón, sem stefnandi hafi orðið fyrir, skuli bætt úr ríkissjóði, enda kveði 9. gr. laganna á um fortakslausa greiðsluskyldu.
Í annan stað sé á því byggt að jafnvel þó fallist væri á að bótanefndinni sé ætlað það hlutverk að gæta að stjórnskipulegu gildi laga, sem nefndin starfi eftir, þá sé túlkun nefndarinnar á tilgreindu ákvæði stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu röng. Þessi túlkun eigi sér hvorki stoð í beinu orðalagi tilgreindra réttarheimilda né í því hvernig dómstólar, Hæstiréttur Íslands og mannréttindadómstóll Evrópu, hafi beitt þessum ákvæðum. Í máli stefnanda hafi enginn dómur gengið og raunar engin kæra verið sett fram þannig að dómstólar hafi aldrei tekið afstöðu til þeirra atvika sem leitt hafi til tjóns stefnanda.
Í þriðja lagi byggi stefnandi á því að bótanefndin hafi brotið gegn jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar, sbr. 11. gr. laga nr. 37/1993, við úrlausn máls stefnanda. Nefndin hafi þegar afgreitt mál með jákvæðum hætti án þess að dómur hafi gengið áður eða kærður hafi verið sýknaður. Að óbreyttri 9. gr. laga nr. 69/1995 hafi bótanefndin verið bundin af fyrri úrlausnum þar sem á lagagreinina hafi reynt og geti ekki að geðþótta breytt afstöðu sinni til lagaframkvæmdarinnar.
Í fjórða lagi hafi bótanefndin brotið gegn málshraðareglu stjórnsýsluréttar, sbr. 9. gr. laga nr. 37/1993, við úrlausn máls stefnanda. Með seinagangi sínum og með því að endurupptaka málið, að því er virtist eingöngu til að draga það enn frekar á langinn, hafi nefndin endanlega gert út um alla möguleika stefnanda til að ná fram ábyrgð á tjóni sínu gagnvart öðrum aðilum, hafi slíkum möguleikum einhvern tíma verið til að dreifa á annað borð. Bersýnilegt sé að jafnvel þó unnt hefði verið að afla vættis um einstök atriði á árinu 1999 eða 2000 hafi möguleikarnir á slíku nú mjög daprast. Þetta telji stefnandi vera sjálfstæðan grundvöll bótakröfu á hendur stefnda. Við munnlegan málflutning var vísað til þess að 2. mgr. 7. gr. laga nr. 69/1995 um takmörkun bótaábyrgðar yrði ekki beitt um tilvik stefnanda, en hún ætti ekki að bera halla af töfum sem orðið hefðu á meðferð málsins hjá bótanefndinni.
Um greiðsluskyldu stefnda sé vísað til laga nr. 69/1995 en um grundvöll og útreikning fjárkröfu stefnanda til laga nr. 50/1993. Kröfur um vexti og vaxtavexti styðjist við III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987. Krafa um málskostnað styðjist við 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 og krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun við lög nr. 50/1988, en stefnandi sé ekki virðisaukaskattsskyldur og beri því nauðsyn til að fá dóm fyrir skattinum úr hendi stefnda. Þá sé vísað til almennra reglna stjórnsýsluréttar um málsmeðferð til stuðnings kröfum stefnanda.
Málsástæður og lagarök stefnda
Rök stefnda fyrir sýknukröfu eru þau að bótagreiðslur samkvæmt lögum nr. 69/1995 séu háðar ákveðum skilyrðum og forsendum. Sá sem krefjist bóta verði sjálfur að sýna fram á að þessi skilyrði séu fyrir hendi. Samkvæmt l. mgr. 1. gr. laganna verði bætur ekki greiddar nema tjón verði rakið til brots á almennum hegningarlögum. Þetta grundvallaratriði sé ósannað. Einhliða frásögn og fullyrðing ein nægi almennt ekki nema frekari sönnun komi til sem styðji hana. Ekki nægi fyrir stefnanda að vísa einangrað til 9. gr. laga nr. 69/1995 um greiðsluskyldu. Ákvæði þeirrar greinar verði að skýra með hliðsjón af öðrum ákvæðum laganna, sbr. til dæmis ákvæði 1. gr. laganna og með tilliti til annarra forsendna. Við munnlegan málflutning var af hálfu stefnda vísað til þess að stefnandi hefði ekki kært árásina en það hafi verið ófrávíkjanlegt skilyrði samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 69/1995 til að bætur væru greiddar samkvæmt lögunum á þeim tíma þegar atburðurinn gerðist. Málið hafi því ekki sætt rannsókn eins og ella hefði verið.
Tilvísun stefnanda til jafnræðisreglu 11. gr. laga nr. 37/1993 eigi ekki við í þessu máli þegar af þeirri ástæðu að þar vísi stefnandi til fyrri ákvörðunar bótanefndar sem hafi verið afturkölluð. Þessi tilvísun stefnanda geti heldur ekki átt við þá ákvörðun sem dómsmál þetta fjalli um þar sem ósannað sé að bótanefnd hafi vikið frá skýrum forsendum 1. mgr. l. gr. laga nr. 69/1995. Þá eigi þrjár af fjórum málsástæðum stefnanda við um lagasjónarmið, sem fyrri ákvörðun nefndarinnar hafi byggst á, en þau komi ekki til álita við úrlausn á sakarefninu enda hafi sú ákvörðun verið afturkölluð 3. apríl 2001. Málsástæður stefnanda séu því að þessu leyti málinu óviðkomandi.
Fjórða málsástæða stefnanda byggi á því að stefndi hafi bakað sér sjálfstæða bótaskyldu vegna þess að bótanefndin hafi brotið að hans mati málshraðareglu stjórnsýsluréttar, sbr. 9. gr. laga nr. 37/1993. Þessu sé alfarið mótmælt. Dráttur málsins á endanlegri afgreiðslu hafi átt sér ákveðnar skýringar en þær komi fram í áliti nefndarinnar frá 8. maí 2002 og hafi m.a. komið til af því að bótanefndin hafi skipt um skoðun og hafi ákveðið að fjalla að nýju um málið á breyttum forsendum. Jafnvel þótt afgreiðsluhraði málsins hjá bótanefnd verði talinn of langur þá skapi það eitt og sér ekki bótagrundvöll því fleira þurfi að koma til. Hinn meinti seinagangur nefndarinnar hafi ekki haft nein sýnileg áhrif á kröfugerð stefnanda né sönnunaraðstöðu hans í málinu. Staðan sé greinilega enn sú sama og hún hafi verið, til dæmis 13. mars 2000 þegar bótakrafa stefnanda hafi endanlega komið fram fyrir nefndinni. Tíminn hafi ekki dregið úr möguleikum stefnanda til að upplýsa frekar málið. Með bréfi bótanefndarinnar frá 19. mars 2002 til lögmanns stefnanda hafi stefnanda verið gefið tækifæri til þess að færa frekari sönnur á fullyrðingar sínar og hafi frestur verið veittur til 10. apríl 2002. Þessi frestur hafi ekki verið nýttur af hálfu stefnanda en á því beri stefnandi sjálf ábyrgð. Við munnlegan málflutning var því mótmælt að krafa stefnanda um að 7. gr. laga nr. 69/1995 um takmörkun bótaábyrgðar yrði ekki beitt um tilvik hennar en þetta hafi ekki komið fram í stefnu heldur fyrst við munnlegan málflutning og væri því of seint fram komið og raskaði grundvelli málsins. Stefnandi ætti heldur ekki rétt á bótum umfram það sem fyrir væri mælt í lögunum.
Stefndi mótmæli ekki sérstaklega örorkumati stefnanda. Verði bótaskylda viðurkennd sé greiðsluskyldu ekki mótmælt á grundvelli réttra ákvæða skaðabótalaga nr. 50/1993. Almennur fyrirvari sé þó gerður við útreikning stefnanda og sérstaklega við þann kröfulið stefnanda sem snúi að þjáningabótum en stefndi telji þjáningatímabil of langt. Sá liður sé af hálfu stefnanda órökstuddur. Vaxtakrafan sé enn fremur vanreifuð.
Niðurstaða
Fyrir liggur að stefnanda var við umönnunarstörf á Sólheimum þegar hún varð fyrir meiðslum í baki 20. febrúar 1997. Hún lýsti atvikum hjá lögreglu 20. mars sama ár þannig að umræddan dag hafi hún verið á leið inn í eldhús er tilgreindur vistmaður hafi tekið hana og hent henni á vegg en síðan hafi hún fallið í gólfið. Hún hafi í fyrstu átt erfitt með andardrátt, hún hafi liðið miklar kvalir og hún hafi ekki getað hreyft sig. Hún hafi beðið vistmanninn að koma með síma og hafi hún hringt í Valdísi starfskonu sem hafi verið stödd í öðru hús. Valdís hafi komið strax og einnig önnur starfskona en síðan hafi verið kallað á lækni. Í lögregluskýrslu, sem dagsett er 17. febrúar 2000, er haft eftir Þóru Valdísi að hún hafi verið stödd í öðru húsi þegar stefnandi hringdi til hennar og bað hana um aðstoð. Hún hafi farið strax til stefnanda og hafi hún þá legið ósjálfbjarga í gólfinu og mikið kvalin. Stefnandi hafi sagt henni að tilgreindur heimilismaður hafi tekið í axlir hennar og hrint henni frá sér út í vegg. Hún hafi svo fallið harkalega niður. Einnig segir í lögregluskýrslunni að Halldóra hafi skýrt svo frá að hún hafi ekki vitað af atburðinum fyrr en búið var að koma stefnanda inn í rúm en þar hafi hún legið alveg mátt- og tilfinningalaus. Læknir hafi verið kallaður til og hafi hann gefið stefnanda eitthvað kvalastillandi.
Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota nr. 69/1995 greiðir ríkissjóður bætur vegna tjóns sem leiðir af broti á almennum hegningarlögum í samræmi við ákvæði laganna. Rök bótanefndarinnar fyrir ákvörðun í máli nr. 90/1998 frá 8. maí 2002 um að hafna umsókn stefnanda um greiðslu bóta samkvæmt lögunum eru þau að það sé mat nefndarinnar að ekki sé unnt að slá því föstu á grundvelli þeirra gagna sem hafi verið lögð fram í málinu að tjón stefnanda verði rakið til háttsemi sem geti talist brot á almennum hegningarlögum. Í rökstuðningi nefndarinnar kemur hins vegar ekki fram að tekið hafi verið tillit til mikilvægra atriða við matið sem koma fram í gögnum sem lögð voru fyrir nefndina.
Í greinargerð Torfa Magnússonar sérfræðings í heila- og taugasjúkdómum, sem dagsett er 16. janúar 1998, kemur meðal annars fram að stefnandi hafi haft mikla verki í baki. Þau einkenni telji hann að megi rekja til áverka sem virtust við skoðun hafa komið aðallega á svæði efstu lendhryggjarliðanna. Röntgenmyndir, sem teknar hafi verið í kjölfar slyssins, hafi sýnt breytingar á efsta lendhryggjarlið, en þar hafi sést væg fleyglögun sem telja megi að sé að rekja til nýlegs áverka. Stefnandi hafi því fengið umtalsverðan áverka á þetta svæði og hafi hún haft viðvarandi einkenni þaðan frá þessum tíma. Í örorkumati Grétars Guðmundssonar læknis, frá 5. september 1998, kemur fram að stefnandi hafi við vinnu sína 20. febrúar 1997 fengið verulegan áverka á bak. Síðan þá hafi hún verið illa haldin af verkjum og stirðleika í baki. Gott samræmi sé milli áverkalýsingar, læknisskoðunar, breytinga á röntgenmyndum og einkenna stefnanda. Hvorki hafi læknirinn né aðrir læknar fundið aðra skýringu á umræddri fötlun stefnanda en áverkann sem hún hafi þá fengið. Það sé augljóst að afleiðingar vinnuslyssins umræddan dag valdi stefnanda verulegum þjáningum, skerði vinnugetu hennar og trufli daglegt líf mikið. Þær útiloki að óbreyttu að stefnandi geti snúið til fyrri starfa. Að mati læknisins sé líklegt að einkenni og fötlun af völdum þeirra verði til frambúðar svipuð og undanfarið. Þegar litið er til alls þessa, framburðar stefnanda og vitna, svo og þess sem að öðru leyti kemur fram í gögnum málsins, verður að telja að stefnandi hafi fallið í gólfið vegna líkamsárásar er hún varð fyrir umræddan morgun, en þar lá hún ósjálfbjarga og mikið kvalin þegar komið var að henni skömmu eftir atburðinn, og að hún hafi hlotið af því alvarlegt líkams- og heilsutjón. Engar upplýsingar eða vísbendingar hafa komið fram um aðra atburðarrás en þá sem hér hefur verið greint frá. Verður að telja að háttsemin, sem stefnda varð fyrir, falli undir verknaðarlýsingu sem kemur fram í 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Samkvæmt þessu verður að telja að skilyrði 1. mgr. 1. gr. laga nr. 69/1995 til greiðslu bóta úr ríkissjóði samkvæmt lögunum séu uppfyllt og ber því að fella ákvörðun bótanefndarinnar frá 8. maí 2002 úr gildi.
Fyrir liggur að stefnandi kærði ekki umrætt brot en hún gaf að eigin frumkvæði skýrslu hjá lögreglu 20. mars 1997. Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 69/1995 er það skilyrði greiðslu bóta að brot, sem tjón sé rakið til, hafi án ástæðulauss dráttar verið kært til lögreglu og að tjónþoli hafi gert kröfu um greiðslu skaðabóta úr hendi brotamanns. Í 3. mgr. sömu lagagreinar, sem öðlaðist gildi með lögum nr. 118/1999, segir að þegar veigamikil rök mæli með megi víkja frá þessum skilyrðum. Þegar litið er til þess að lög nr. 69/1995 hafa gilt um tjón, sem leiða af brotum framin 1. janúar 1993 og síðar, sbr. 20. gr. þeirra laga, verður að telja að 3. mgr. 6. gr. laganna gildi einnig um tilvikið sem hér um ræðir þótt lagaákvæðið hafi ekki öðlast gildi fyrr en í lok árs 1999. Við mat á því hvort veigamikil rök mæli með því að vikið verði frá framangreindum skilyrðum verður að líta til þess að lögreglu bar að leiðbeina stefnanda um rétt hennar til greiðslu bóta samkvæmt framangreindum lögum, sbr. 18. gr. laganna. Ekki kemur fram í gögnum málsins að þessa hafi verið gætt og heldur ekki að stefnanda hafi verið leiðbeint um að skilyrði fyrir greiðslu bóta væri að hún kærði brotið. Þá verður einnig að líta til þess að í skýrslu stefnanda hjá lögreglu 20. mars 1997 koma fram lýsingar stefnanda á atvikum, hún hafi liðið miklar kvalir og að við rannsókn á sjúkrahúsi næsta dag hafi komið í ljós að hryggjarliður hafði fallið saman og að einn þeirra hafi verið brotin. Samkvæmt 2. mgr. 66. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 bar lögreglu að rannsaka meinta líkamsárás hvort sem kæra hafði verið lögð fram eða ekki. Engar upplýsingar hafa komið fram í málinu sem skýra það hvers vegna málið sætti ekki frekari rannsókn. Verður stefnanda ekki um það kennt hve málið er illa upplýst. Stefnandi hefur lýst því að hún hafi talið þýðingarlaust að kæra meintan árásarmann eða krefjast bóta úr hans hendi. Þegar litið er til þessa verður að telja að veigamikil rök mæli með því að vikið verði frá skilyrðum 1. mgr. 6. gr. laga nr. 69/1995, sbr. 3. mgr. sömu lagagreinar, og að stefnandi eigi rétt á bótum samkvæmt lögunum þrátt fyrir að hafa ekki kært eða krafist bóta úr hendi meints brotamanns.
Af hálfu stefnda er því haldið fram að tímabil þjáningabóta sé of langt en stefnandi vísar í þeim efnum til læknisvottorða. Í framangreindu örorkumati frá 5. september 1998 kemur meðal annars fram, eins og áður er rakið, að líklegt sé að einkenni og fötlun vegna áverkanna verði til frambúðar svipuð og undanfarið. Ekki virtist líklegt að betri meðferð fyndist en sú sem til þess tíma hafði verið beitt og því sé að mati læknisins ekki við lækningu eða minni einkennum að búast með breyttri meðferð. Af öðrum gögnum málsins verður ekki ráðið með óyggjandi hætti hvenær stefnandi gat hafið vinnu að nýju eða hvenær ekki var að vænta frekari bata. Stefnandi fer fram á þjáningabætur í 27 daga er hún hafi verið rúmliggjandi og í 338 daga en þá hafi hún verið veik án rúmlegu. Með vísan til þess sem fram kemur í örorkumatinu og hér hefur verið rakið verður ekki talið að þjáningatímabil sé of langt.
Stefnandi krefst dráttarvaxta frá 13. apríl 2000 en þá var mánuður liðinn frá dagsetningu bréfs lögmanns stefnanda þar sem krafa stefnanda kemur fram, sbr. 15. gr. þágildandi vaxtalaga nr. 25/1987. Með vísan til þess, framangreindrar lagagreinar og 9. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 er vaxtakrafan nægilega reifuð og rökstudd.
Samkvæmt framangreindu og þar sem bótakröfu stefnanda, sem er reiknuð samkvæmt tilvitnuðum ákvæðum skaðabótalaga og upplýsingum sem koma fram í gögnum málsins, er ekki andmælt að öðru leyti verður hún tekin til greina, þó þannig að samanlögð fjárhæð höfuðstóls og vaxta fari ekki fram úr 2.500.000 krónum sem er hámark bóta úr ríkissjóði til þolenda afbrota vegna líkamstjóns, sbr. b- lið 2. mgr. 7. gr. laga nr. 69/1995 og dóm Hæstaréttar frá 19. júní 2002 í máli nr. 72/2002. Ágreiningur vegna lagafyrirmæla um hámark bóta kom fyrst fram við munnlegan málflutning en það hefur ekki raskað grundvelli málsins.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, Ástráðs Haraldssonar hrl., sem þykir hæfilega ákveðin 400.000 krónur en hún er ákveðin án virðisaukaskatts.
Dóminn kvað upp Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari.
DÓMSORÐ:
Felld er úr gildi ákvörðun bótanefndar samkvæmt lögum nr. 69/1995 um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota í máli nr. 90/1998 frá 8. maí 2002.
Stefnda, íslenska ríkið, greiði stefnanda, Sjöfn Jóhannesdóttur, 1.842.121 krónu með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 13. apríl 2000 til 1. júlí 2001 en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags, en vextir leggjast við höfuðstól á 12 mánaða fresti, í fyrsta sinn 13. apríl 2001, þó þannig að samanlögð fjárhæð höfuðstóls og vaxta fari ekki fram úr 2.500.000 krónum.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, Ástráðs Haraldssonar hrl., 400.000 krónur án virðisaukaskatts.