Hæstiréttur íslands
Mál nr. 380/2003
Lykilorð
- Fuglaveiði
- Friðun
- Upptaka
- Ákæra
|
|
Fimmtudaginn 11. mars 2004. |
|
Nr. 380/2003. |
Ákæruvaldið (Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari) gegn Bjarna Ingvari Halldórssyni og Svani Þór Brandssyni (Ólafur Sigurgeirsson hrl.) |
Fuglaveiðar. Friðlýsing. Upptaka. Ákæra.
Á grundvelli framburðar vitna þótti sannað að B og S hefðu brotið gegn gegn lögum nr. 64/1994 um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, svo og reglugerð nr. 252/1996 um friðun tiltekinna villtra fuglategunda, friðlýsingu æðarvarps, fuglamerkingar, hamskurð o.fl. með skotveiðum á sjó. Þótti refsing hvors um sig hæfilega ákveðin 75.000 krónur, en auk þess var veiðifang gert upptækt.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar að fengnu áfrýjunarleyfi 17. september 2003 í samræmi við yfirlýsingu ákærðu um áfrýjun en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur um annað en refsingu ákærðu, sem verði þyngd.
Ákærðu krefjast aðallega frávísunar málsins frá héraðsdómi, en til vara ómerkingar héraðsdóms og heimvísunar. Að því frágengnu krefjast ákærðu sýknu af kröfu um refsingu og um upptöku veiðifangs.
Ákærðu er gefið að sök í málinu að hafa brotið gegn lögum nr. 64/1994 um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum og reglugerð nr. 252/1996 um friðun tiltekinna villtra fuglategunda, friðlýsingu æðarvarps, fuglamerkingar, hamskurð o.fl. með skotveiðum á sjó við norðanverðan Hvalfjörð 8. maí 2002. Ákæra, sem gefin var út 11. mars 2003, er haldin annmörkum, eins og nánar greinir í hinum áfrýjaða dómi. Þrátt fyrir það verður fallist á með vísan til forsendna héraðsdóms að ekki séu alveg næg efni til að vísa málinu frá dómi af þeim sökum. Verður samkvæmt því hvorki aðalkrafa né varakrafa ákærðu tekin til greina. Brot þeirra er sannað með vætti vitna, svo sem ítarlega er rakið í héraðsdómi. Verður niðurstaða dómsins um sakfellingu ákærðu staðfest með vísan til forsendna hans.
Með háttsemi sinni hafa ákærðu unnið sér til refsingar, sem er hæfilega ákveðin 75.000 króna sekt fyrir hvorn um sig og komi 15 daga fangelsi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá uppsögu dóms þessa.
Ákvæði héraðsdóms um upptöku veiðifangs og sakarkostnað verða staðfest.
Ákærðu verða dæmdir til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins eins og nánar segir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærðu, Bjarni Ingvar Halldórsson og Svanur Þór Brandsson, greiði hvor um sig 75.000 krónur í sekt í ríkissjóð og komi 15 daga fangelsi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá uppsögu dómsins.
Ákvæði héraðsdóms um upptöku veiðifangs og sakarkostnað skulu vera óröskuð.
Ákærðu greiði óskipt allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda þeirra fyrir Hæstarétti, Ólafs Sigurgeirssonar hæstaréttarlögmanns, 150.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Vesturlands 27. maí 2003.
Sýslumaðurinn í Borgarnesi gaf út ákæru í máli þessu 11. mars 2003. Dómari gaf út fyrirköll 14. sama mánaðar, og var málið höfðað með birtingu þeirra og ákæru fyrir báðum ákærðu 18. mars. Það var þingfest 26. mars og tekið til dóms að lokinni aðalmeðferð 16. maí 2003.
Ákærðir eru Bjarni Ingvar Halldórsson, [ . . . ], og Svanur Þór Brandsson, [ . . . ], ,,fyrir brot á lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, með því að hafa miðvikudagskvöldið 8. maí 2002, verið við skotveiðar á sjó við norðanverðan Hvalfjörð, en ströndin frá Þyrli að Katanesi er friðlýst vegna æðarvarps.
Telst þetta varða við 1. mgr. 10. gr., sbr. 1. mgr. 19. gr. laga um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum nr. 64, 1994 og 3. gr., sbr. 8. gr. reglugerðar nr. 252, 1996.
Þess er krafist, að ákærðu verði dæmdir til refsingar og til að sæta upptöku á 74 svartfuglum sem lögreglan lagði hald á, skv. 3. tl. 69. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940."
Svo hljóðar ákæruskjalið. Sækjandi krefst þess að ákærðu verði dæmdir til greiðslu alls sakarkostnaðar.
Af hálfu ákærðu er þess krafist aðallega að ákærðu verði báðir sýknaðir, en til vara að þeir verði dæmdir til vægustu refsingar sem lög heimila og þá í mesta lagi til 30.000 króna sektar hvor. Upptökukröfu á 74 svartfuglum er mótmælt. Verjandi krefst málsvarnarlauna.
Upphaf máls
Frumskýrsla lögreglu í þessu máli er tímasett 8. maí 2002 kl. 20:22. Þá, segir í skýrslunni, tilkynnti V lögreglunni í Borgarnesi að þrír menn væru að skjóta fugl á Hvalfirði. Tveir lögreglumenn fóru þá suður á Hvalfjarðarströnd. Segir í skýrslunni að mennirnir þrír á bátnum hafi verið skammt innan við Ferstiklu þegar lögreglumenn komu á vettvang. Þegar báturinn hafi verið staddur rétt ,,fyrir innan Þyrilsnesið" [Svo í skýrslunni, en augljóst virðist af framhaldinu og öðrum málsgögnum að standa ætti fyrir utan. Aths. dómara] hafi lögreglubifreiðinni verið ekið út á bryggju Olíustöðvarinnar. Lögreglan hafi gefið ljós- og hljóðmerki og einnig kallað til mannanna í bátnum að láta af veiðunum og koma að landi, en þeir hafi engu sitt því og haldið áfram að skjóta fugl við Þyrilsnesið. Mennirnir á bátnum hafi síðan haldið yfir fjörð. Lögreglan í Borgarnesi leitaði aðstoðar Reykjavíkur-lögreglu. Um kl. 22:19 tilkynnti hún lögreglunni í Borgarnesi að mennirnir væru komnir að landi í Hvammsvík sunnan fjarðar.
Lögreglan í Borgarnesi fór til móts við bátsverja í Hvammsvík. Þeir voru ákærðu og S, f. 1980. Í frumskýrslunni segir orðrétt: ,,Aðspurðir sögðust þeir hafa verið að veiða svartfugl og ekki vitað að skotveiði væri bönnuð á Hvalfirði. Þeim var gerð grein fyrir að skotveiði væri bönnuð á þessum árstíma í Hvalfirði vegna friðlýsts æðarvarps í Hvalfirði. [ . . .] Bjarni Svanur og S framvísuðu 74 svartfuglum sem þeir kváðust hafa skotið á Hvalfirðinum, ýmist út á miðjum firðinum eða upp undir landi að norðanverðu í firðinum og við Þyrilsnesið."
Ákærðu framvísuðu skotvopnum, en S kvaðst ekki hafa verið að veiða, hann hefði lagt til bátinn og stjórnað honum við veiðarnar. Ákærðu höfðu skotvopnaleyfi og gild veiðikort.
Ásgeir Rafnsson héraðslögreglumaður ritaði frumskýrslu. Hann staðfesti hana fyrir dómi.
Ákærðu neituðu sakargiftum. Við þingfestingu tóku þeir báðir fram að þeir hefðu ekki verið að veiðum á því svæði sem ákæra tiltekur.
Ákærði Bjarni Ingvar Halldórsson sagði í skýrslu sinni við aðalmeðferð að þeir ákærðu hefðu lagt upp í veiðiferðina frá Hvammsvík. Þeir hefðu í fyrstu haldið sig við Hvammsvíkina, verið þar fyrsta klukkutímann. Þeir hefðu verið þar í leyfi landeiganda. Þeir hefðu skotið svartfugla þar í grenndinni. Síðan hefðu þeir orðið skotfæralausir og haldið í skoðunarferð og siglt um fjörðinn. Ákærði var spurður hvort þeir hefðu farið með ströndinni að norðanverðu. ,,Ekki með ströndinni neitt," svaraði ákærði. Þeir hefðu bara verið úti á miðjum firði. Hann kannaðist ekki við að þeir hefðu komið nærri ströndinni, hvorki við Saurbæ né við Hvalstöðina, en þeir hefði verið í námunda við Geirshólma, þó ,,ekki neitt nærri honum". Þeir hefðu ekki farið inn fyrir hann. Þeir hefðu ekki farið inn í Helguvík. Hann sagði að sig minnti að þeir hefðu tekið sveig í áttina að Þyrilsnesinu. Ákærði sagði að þeir hefðu ekki farið lengra út fjörðinn en á móts við Dranganes, sem væri við Hvammsvíkina. [Á landabréfi, sem ákæruvaldið lagði fram, er merkt örnefnið Draganesi, skammt utan við Hvammsvík. Aths. dómara.]
Ákærði Bjarni Ingvar sagði að fuglana, sem þeir hefðu skotið, hefðu þeir veitt við Selsker, ,,alla vega þarna í Hvammsvíkinni og svo kannski þarna við Ytra-leiti og þar."
Ákærði tók fram, sérstaklega spurður, að þeir ákærðu hefðu ekki verið að veiðum á norðursrönd Hvalfjarðar og heldur ekki í námunda við hana.
Ákærði staðfesti fyrir dómi skýrslu sem hann gaf fyrir lögreglu 7. október 2002. Þar segir m.a. að þeir ákærðu ,,hefðu verið að veiða fuglinn úti á miðjum firði og hefðu örugglega ekki komið nær landi en 3-400 metra út frá Hvammsvík. Þeir hefðu tekið skoðunarferð meðfram landi en ekki skotið neitt í þeirri ferð að það sé ekki rétt að þeir hefðu skotið fugla á friðlýstu svæði." Hann var þá spurður hvort þeir hefðu reynt að afla sér þekkingar á hvort eitthvað af strandlengju Hvalfjarðar væri friðlýst. ,,Bjarni segir að þeir hefðu ekki verið búnir að kynna sér það, enda ekki hægt um vik, þessar upplýsingar liggi ekki frammi. Þeir hefðu verið með upplýsingar frá veiðistjóraembættinu, þar eru merktar inn friðlýsingar en þetta svæði var ekki merkt þar inn." Ákærða var kynntur framburður V um að þeir hefðu skotið mikið 50 metra frá landi við Saurbæ og Ferstiklu. Hann neitaði þessu, þeir hefðu aldrei farið svo nærri landi, hvað þá skotið þar fugl. Þeir hefðu verið ,,fyrir miðjum firði, hann viti ekki hvað fjörðurinn er breiður þarna, telur þó að þeir hafi ekki verið nær landi en 200-300 metra frá Saurbæ og Ferstiklu." Fyrir dóminum sagði ákærði að þeir hefðu ekki verið að skjóta þarna. Þegar minnt var á að vitni bæru að þau hefðu heyrt þá skjóta, áréttaði ákærði það sem fram kemur í lögregluskýrslunni, að ólag hefði verið á mótornum í bátnum, og hvað eftir annað hefðu orðið í honum sprengingar.
Ákærði Svanur Þór Brandsson var spurður hve langt þeir ákærðu hefðu farið út fjörðinn. Hann svaraði að þeir hefðu siglt víða um, hann myndi ekki nákvæmlega hvar. Til þess var vísað að vitni hefðu borið að þeir hefðu stoppað og verið að tína eitthvað upp úr sjónum, og var ákærði spurður hvað það hefði verið. Hann sagði að þeir hefðu ekkert tínt upp úr sjónum, ekki sem hann myndi eftir. Hann var spurður um leið þeirra inn fjörðinn. Hann kvaðst ekki muna svo glöggt hvort þeir hefðu siglt með ströndinni eða um miðjan fjörð. Þá var hann spurður hve langt inn fjörð þeir hefðu farið. Hann sagði að þeir hefðu verið einhvers staðar fyrir utan Geirshólma, þeir hefðu ekki farið inn fyrir hann svo að hann myndi eftir.
Ákærði Svanur Þór lýsti svo bátnum sem þeir ákærði voru á að þetta væri plastbátur úr hörðu plasti, búinn til úr rörum. Hann væri með utanborðs mótor.
Ákærði staðfesti skýrslu sem hann gaf fyrir lögreglu 11. september 2002. Þar segir ákærði að þeir ákærðu hafi siglt ,,fyrir framan Hvammsvík vorum að skjóta svartfugl þar. [ . . .] Við sigldum inn og út fjörðinn." Síðan segir orðrétt: ,,Við vorum að [svo] næst landi að norðan verðu en ekki get ég áætlað hversu langt frá landi við vorum að skjóta. Við skutum næst landi við Hvítanes, en sama er, ég veit ekki hve langt frá landi, get ekki giskað á fjarlægð. Við reyndum að halda okkur um 250 metrum frá stórstraumsfjöruborði."
Undir ákærða var í lögregluskýrslunni borinn framburður vitnis um að þeir hefðu verið að skjóta ,,svona 50 metra frá andarmerkjum Saurbæjar og Ferstiklu". Svar: ,,Mér finnst það frekar ólíklegt, en við vorum að sigla þarna mikið framan við, en aðal skotveiðin fór fram utan við Hvítanes. Það getur verið að það rugli vitnin að gangtruflanir voru í mótornum hjá okkur og við þurftum að stöðva nokkrum sinnum af þeim sökum." Hann var spurður hvort hann hefði vitað ,,að þarna væri friðlýst æðarvarp á þessum tíma?" Hann kvað nei við því.
Vitni fyrir dómi báru 5 bændur á Hvalfjarðarströnd: V, M, B, E og SG.
Vitnið V, f. 1929, sagði að það hefði verið um áttaleytið að kvöldi 8. maí, að hann hefði séð bát koma, að hann hefði haldið sunnan fyrir fjörð. Hann hefði þá verið staddur á hlaðinu heima hjá sér á Ferstiklu. Bærinn stæði svona 60-70 metra yfir sjó, og þaðan væri gott útsýni yfir fjörðinn. Frá bæ til sjávar væru 700 metrar. Hann hefði heyrt skothríð nokkuð langt frá landi. Báturinn hefði síðan stefnt út fjörð, hefði farið mjög nálægt merkjakletti sem héti Snekkja, milli Saurbæjar og Ferstiklu, varla steinsnar frá klettinum. Hann hefði síðan haldið áfram út með landi, skotið fugl af og til, sér hefði virst hann taka eitthvað af fugli upp en ekki hirða allt. Nánar spurður um þetta sagði V að hann hefði séð mennina í bátnum taka upp fugla, og eins hefði hann séð hvernig sjór ýfðist kringum fugl sem skotið var á, sem ekki hefði verið hirtur. Síðan hefði bátnum verið siglt inn með aftur í ótal krókum. Bátsverjar hefðu ekki nema stundum stoppað hjá fugli til að taka hann upp. Þeir hefðu síðan komið inn með nokkuð nærri landi á Ferstiklu, svona 300-400 metra frá landi. Þeir hefðu farið í ótal króka fyrir framan Saurbæ og Ferstiklu og skotið feikilega mikið. Þegar þeir hefðu farið hjá Ferstiklu kvaðst V hafa hringt í lögregluna í Borgarnesi og óskað eftir að veiðar bátverja væru stöðvaðar. Hann kvaðst síðan hafa fylgst áfram með athæfi mannanna. Hann hefði farið á eftir lögreglunni inn á Brekkumýrar hjá Önundarhóli. Báturinn hefði þar horfið honum sjónum undir Stapa, móbergsstapa utan við Miðsand. Bátnum hefði verið siglt með landi hjá Miðsandsflúðum og inn í krikann hjá Helguhóli, sem væri fyrir neðan bæ á Þyrli. Þeir hefðu skotið þar mikið. Þarna væru fuglabjörg. Þyrilsnesið að vestanverðu væri samfellt fuglabjarg að heita mætti, engin fjara undir bjarginu. Þegar lögregla hefði reynt að stöðva þá hefðu þeir tekið strikið suður fyrir Geirshólma og hefðu haldið þar skotveiðum áfram. Þegar hann hefði horfið af vettvangi hefði verið orðið rokkið. Þá hefði báturinn verið kominn úti fyrir Grænuvík, næstu vík innan við Hvammsvík.
V sagði aðspurður að hvellirnir sem hann heyrði frá bátnum hefðu verið skothvellir, ekki hljóð frá vél bátsins.
Vitnið sagði að æðarvarpið á Ferstiklu væri með ströndinni milli merkja, 3ja km langri, og dreift upp að þjóðvegi. Á allri Hvalfjarðarströndinni væri dreift varp, nema á Þyrli. Þar væri það þéttara í eyju og í Þyrilsnesi. Aðspurður um hvernig varpið væri merkt, sagði V að friðlýsingarmerki væri þar sem vegur lægi niður í varplandið. Önnur merki væru ekki nema hvað hreiðrin væru merkt með veifum. Hann sagði að ekki væru miklar fjárhagslegar tekjur af varpinu. Þetta væri hins vegar elskuleg búgrein sem byggðist á umhyggju og gæslu.
Vitnið M [ . . . ]. Hann sagðist fyrst hafa orðið var við umræddan bát út af Haukstanga, sem væri beint niður af Svarthamarsrétt. Báturinn hefði verið norðan við miðlínu fjarðar. Hann hefði heyrt skothvelli til bátsins. Báturinn hefði farið inn fjörðinn. Síðast hefði hann séð hann inn undir Þyrilsnesi. Hann hefði farið upp á veg og fylgst með honum af brekkunni utan við Miðsand. Hann hefði farið alveg inn undir Þyrilsnesið, innan við Geirshólma.
Vitnið B, kvaðst búa á [ . . . ] ásamt eiginkonu sinni, sem væri skráður bóndi þar. Á jörðinni væri umtalsvert æðarvarp. Þar fengjust 15-16 kg af hreinsuðum dún árlega.
Vitnið sagðist mundu hafa séð bát ákærðu fyrst upp úr kl. 7 um kvöldið og þá fram undan Hvalstöðinni. Honum hefði svo verið siglt inn að Þyrilsnesinu og meðfram því. Þá hefði Borgarneslögreglan verið komin. Þegar hún hefði verið komin fram á bryggju með sírenu og ljós hefði bátnum verið siglt út með nesinu, milli þess og Geirshólma, og út á fjörðinn. Hann hefði verið svona 400-500 metra frá Mjóanesinu (þar sem Þyrilnesið er mjóst). Milli Geirshólma og nessins sagði vitnið að væri styst 700-800 metrar. B kvaðst hafa heyrt bátsverja skjóta.
Í skýrslu sem vitnið gaf fyrir lögreglu 10. júlí 2002 er haft eftir vitninu að hann hafði orðið var við ,,umrædda veiðimenn um kl. 21:00 þann 08.05.2002 og hefðu þeir verið á dökkum hraðskreiðum bát er þeir voru við veiðar að vestanverðu við Þyrilsnes, B kvað mennina haf skotið mikið og kvað þá hafa þrætt meðfram ströndinni á ofangreindum bát og hefðu verið um 100 metra frá landi." Skýrslu þessa staðfesti vitnið fyrir dómi. Um mismun á tímaákvörðun sagði B að hann hefði fært tímann ,,upp úr sjö" í dagbók sína.
Vitnið E [ . . . ]. Hann kvaðst hafa nytjar af æðarvarpi, sem hann hefði verið að byggja upp. Á [ . . . ] væru 200-300 hreiður. Hann kvaðst fyrst hafa orðið var við bátinn nokkuð djúpt út af merkjum Brekku og Miðsands, heldur nær norðurlandi en suðurströnd. Bátnum hefði verið siglt inn og að Geirshólma. Hann hefði séð lögregluna fara niður á bryggju við Hvalstöð og setja á sírenu og blikkljós og kalla með gjallarhorni. Þá hefði báturinn verið ,,á móts við hólmann". Honum hefði þá verið siglt út. Bátsverjar hefðu skotið miðsvæðis á móts við Hvítanes. Hann hefði heyrt skothvelli og í kíki séð rót á sjó þegar skotið var. Báturinn hefði stoppað, að því að vitnið taldi, til að taka upp fugl.
Vitnið S [ . . . ]. Hann sagði að þar væri svolítið æðarvarp. Hann kvaðst fyrst hafa orðið var við bátinn seinni part dags, sennilega milli sex og sjö. Þá hefði hann verið skammt undan Hvammsvík. Hann hefði þá verið á inneftir leið. Hann hefði farið inn að Hólma, verið svona á miðjum firði. Mennirnir á bátnum hefðu verið að skjóta. Hann kvaðst ekki geta borið um hvort báturinn hefði farið inn fyrir Geirshólma. Hann sagði að bátsverjar hefðu skotið fyrir framan Bjarteyjarsand, að hann hélt nærri miðjum firði. Hann sagðist ekki hafa tekið eftir því hvort þeir hefðu tínt upp fugl, hann hefði verið í önnum.
Vitnið Ásgeir Rafnsson er lögreglumaður. Hann ritaði frumskýrslu, svo sem fyrr greinir. Hann sagði að báturinn hefði verið undan landi Ferstiklu þegar lögreglan kom á vettvang, á að giska 200-300 metra frá landi. Honum hefði verið haldið inn fjörðinn, stundum stöðvaður, og lögreglan hefði heyrt skothríð. Hann hefði farið inn undir Þyrilsnes, mjög nærri landi milli nessins og Geirshólma. Þeir hefðu síðan siglt ,,út fjörðinn", við og við stoppað, tekið hring, og bátsverjar hefðu virst vera að taka upp fugl. Síðan haldið í Hvammsvík.
S bar vitni dómi. Hann gaf og skýrslu fyrir lögreglu og hafði þar stöðu sakbornings. Í lögregluskýrslunni kemur fram að hann hafi haft umræddan bát til umráð og hafi stjórnað honum. Báturinn tilheyri Hvammsvík. Þetta sé stór plastbátur, af svipaðri gerð og Zodiak gúmmíbátur. Á honum hafi verið 40 ha Yamaha utanborðs mótor, og hafi hann ganghraða 15-20 sml/klst. Hann taldi sig í umræddri ferð hafa siglst á 5-10 sjómílna hraða. Lögregluskýrsluna staðfesti vitnið fyrir dóminum.
Að öðru leyti telur dómari ekki ástæðu til að rekja framburð vitnisins, sem var ekki greinargóður.
Forsendur og niðurstöður
Leitt hefur verið í ljós með greinargóðu vætti vitnisins V og vætti fleiri vitna, einkum Ásgeirs Rafnssonar og B, að ákærðu voru að skotveiðum við norðurströnd Hvalfjarðar að kvöldi 8. maí 2002. Sannað er að þeir fóru sums staðar mjög nærri landi, svo að nam fáeinum hundruðum metra eða minna. Fram undan landi Ferstiklu voru þeir mjög skammt frá landi, sbr. vætti V og Ásgeir Rafnssonar. Þá er og í ljós leitt með vætti vitna, svo að óyggjandi er, að þeir fóru mjög nærri Þyrilsnesi og skutu fugl þar, en Geirshólmi er samkvæmt fram lögðu landabréfi í mælikvarða 1:5.000 700-800 metra frá nesinu. Ennfremur er leitt í ljós með framburði vitna að ákærðu skutu fugl á leið sinni frá Þyrilsnesi yfir í Hvammsvík. Fjarlægð frá Geirshólma að miðlínu fjarðar í stefnu á Hvammshöfða er tæpir 5 km, fjarlægð frá Þyrilsnesi að miðlínu í stefnu á Hvítanesi er um 1 km og vegarlengd frá Þyrilsnesi í stefnu hávestur á Hvammshöfða að miðlínu fjarðar er u.þ.b. 1.250 metrar. Vitnið E bar að bátsverjar hefðu skotið ,,miðsvæðis á móts við Hvítanes". Vitnið M bar að hann hefði séð bát ákærðu suður af Haukatanga, sem er neðan við Svarthamarsrétt, og þá norðan við miðlínu fjarðar. Hefðu bátsverjar þá verið að skjóta. Fjarlægð milli norður- og suðurstrandar fjarðarins er þarna um 1,5 km. Vitnið SG bar að bátsverjar hefðu verið að skjóta nær miðjum firði fram undan Bjarteyjarsandi.
Samkvæmt framanrituðu skutu ákærðu víða fugl innan tveggja km frá norðurströnd Hvalfjarðar utan frá Ferstiklu inn til Þyrilsness. Ákærðu hafa ekki borið á móti því að þeir hafi farið á bátnum um þetta svæði, en þeir hafa neitað því að þeir hafi skotið þar. Þeir hafa sagt að það kunni að hafa villt um fyrir vitnum að sprengingar hafi verið í vél bátsins. Dómari telur þá skýringu ekki tæka. Vitni hafa lýst því að þau hafi séð ákærðu skjóta, sigla bátnum í krókum og taka upp fugl.
Í ákæru er háttsemi ákærðu talin brot gegn 1. mgr. 10. gr. laga nr. 64/1994 um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum (hér á eftir nefnd villidýralög). Fyrri málsliður 1. mgr. lagagreinarinnar hljóðar svo: ,,Veiðar skulu óheimilar á svæðum sem eru friðlýst vegna dýralífs." Með ákvæði þessi er átt við friðlýst svæði samkvæmt náttúruverndarlögum, svo sem glöggt má sjá af skýringum með 10. gr. frumvarps til villidýralaga. Hafa ákærðu ekki gerst brotlegir við þetta lagaákvæði, og ber að sýkna þá af ákæru um brot gegn því.
Friðlýsing æðarvarpa fellur undir 18. gr. villidýralaga, en þar segir í 2. mgr.: ,,Umhverfisráðherra setur reglugerð um hvernig staðið skuli að skilgreiningu og friðlýsingu æðarvarps samkvæmt lögum þessum." Sú reglugerð hefur verið sett og er nr. 252/1996, sbr. ákæru. Háttsemi ákærðu felur í sér brot gegn 1. mgr. sömu lagagreinar, en þar segir í 1. málslið: ,,Frá 15. apríl til 14. júlí ár hvert eru öll skot bönnuð nær friðlýstu æðarvarpi en 2 km nema brýna nauðsyn beri til." Til þessarar málsgreinar 18. gr. villidýralaga er ekki vísað í ákæru, og verður að telja það annmarka á henni. Að mati dómara leiðir hann þó hvorki til frávísunar né sýknu. Í ákæru er vitnað til 3. gr. reglugerðar nr. 252/1996, sem eins og fyrr segir er sett með heimild í 2. mgr. 18. gr. villidýralaga. Í 3. gr. reglugerðarinnar segir í 1. málslið: ,,Friðlýsing æðarvarps gildir á tímabilinu frá 15. apríl til og með 14. júlí ár hvert. Friðlýsingin felur það í sér að öll skot eru bönnuð nær friðlýstu æðarvarpi en 2 km, nema brýna nauðsyn beri til. Ákvæði þetta er efnislega samhljóða 1. ml. 1. mgr. 18. gr. villidýralaga. Nægir tilvísun ákæranda til reglugerðarinnar til þess að að ákærðu verði sakfelldir.
Með auglýsingu í Lögbirtingablaði, sem út kom föstudaginn 20. júní 1997 friðlýsti sýslumaðurinn í Borgarnesi æðarvörp á allmörgum jörðum í umdæmi sínu með vísan til 18. gr. villadýralaga. Þannig voru friðlýst vörp á 10 jörðum í Hvalfjarðarstrandarhreppi, þeirra á meðal Brekku, Bjarteyjarsandi, Hrafnabjörgum, Ferstiklu I og II, Saurbæ og Þyrli. Um afmörkun æðarvarpanna á þessum jörðum, öðrum en Þyrli, segir: ,,Friðlýsingin tekur til lands jarðanna frá þjóðvegi að sjávarmáli, auk þess sem friðlýsingin taki til Bjarteyjar og Hrafnabjargarhólma." Um æðarvarp á Þyrli segir: ,,Friðlýsingin tekur til Þyrilseyjar, Geirshólma og Þyrilsness að þjóðvegi." Þá segir í auglýsingunni að á skrifstofu sýslumanns í Borgarnesi liggi frammi skrá um friðlýst æðarvörp í umdæminu ásamt kortum hvar hin friðlýstu æðarvörp eru afmörkuð." Ekkert í máli þessu bendir til að ekki hafi verið staðið að friðlýsingu æðarvarpanna, sem hér greinir, svo sem lög kveða á um.
Það er almenn regla að sá sem gerist brotlegur við lög getur ekki borið fyrir sig að hann hafi ekki þekkt lögin. Á sama hátt er ákærðu í þessu máli ekki vörn í því að þeir hafi ekki vitað af friðlýsingu æðarvarpanna á Hvalfjarðarströnd. Þeir voru enda að skotveiðum á öndverðum varptíma og hefðu því átt að fara með mikilli gát sem góðir og gegnir veiðimenn.
Verjandi ákærðu hélt því fram í málflutningi sínum að staðartilgreining brots í ákæru, við norðanverðan Hvalfjörð, væri ekki nægjanleg samkvæmt c-lið 1. mgr. 116. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Á þetta fellst dómari ekki, enda liggur að nokkru nákvæmari tilgreining í eftir farandi orðum: "en ströndin frá Þyrli að Katanesi er friðlýst vegna æðarvarps." Er þessi tilgreining nægjanleg eins og ferðum ákærðu við skotveiðarnar var háttað.
Það verður niðurstaða dómara að ákærðu verða sakfelldir fyrir brot gegn 3. mgr. reglugerðar nr. 252/1996 um friðun tiltekinna villtra fuglategunda, friðlýsingu æðarvarps og fleira, sbr. 2. mgr. 18. gr. laga nr. 64/1994 um vernd , friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, sbr. og 1. málslið 1. mgr. sömu lagagreinar.
Ákvörðun refsingar. Hana ber að ákvarða samkvæmt 1. mgr. 19. gr. villidýralaga nr. 64/1994. Hún verður ákvörðuð með tilliti til þess að ákærðu höfðu tilskilin opinber leyfi til skotveiða, skotvopnaleyfi og veiðikort. Ekki er fram komið að þeir hafi skotið aðrar tegundir fugla en ófriðaðar. Dómari hefur ennfremur hliðsjón af því að ekkert er fram komið að þeir hafi með skotveiðum sínum nærri norðurströnd Hvalfjarðar valdið tjóni á æðarvörpum.
Ákærði Bjarni Ingvar Halldórsson hefur ekki fyrr sætt refsingu samkvæmt sakavottorði.
Ákærði Svanur Þór Kristvinsson hefur nokkrum sinnum sætt refsingu á árabilinu 1991 til 2001. Síðast sætti hann refsingu 14. nóvember 2001 fyrir ölvunarakstur, 40.000 króna sekt, og var sviptur ökurétti í 6 mánuði. Næstsíðasta refsingin var 16. apríl 1998, 24.000 króna sekt fyrir hraðakstur. Dómari lætur ekki fyrri refsingar þessa ákærða hafa áhrif á refsingu hans í þessu máli.
Dómara þykir refsing ákærðu, hvors um sig, hæfilega ákveðin 25.000 króna sekt, en 6 daga fangelsi komi í stað sektar ef hún verður ekki greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins.
Um kröfu ákæruvalds um upptöku fugla. Af hálfu ákærðu er kröfu þessari mótmælt. Verjandi þeirra benti á það fyrir dóminum, að veiðar þeirra hefðu verið löglegar að því leyti að þeir hefðu veitt ófriðaða fugla. Það sem bannað væri skv. 1. mgr. 18. gr. villidýralaga væri að hleypa af skoti, en ekki að veiða fugl. Á þetta fellst dómari ekki. Veiðifangsins, 74 svartfugla, öfluðu ákærðu með háttsemi sem var brýnt brot á villidýralögum. Ber því að gera það upptækt samkvæmt 3. mgr. 69. gr. almennra hegningarlaga, svo sem krafist er, sbr. og 3. mgr. 19. gr. villidýralaga.
Sakarkostnaður. Eftir úrslitum máls verða ákærðu dæmdir til að greiða in solidum allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda þeirra, Ólafs Sigurgeirssonar hrl., sem skulu vera 100.000 krónur auk virðisaukaskatts.
Stefán Skarphéðinsson sýslumaður sótti málið.
Finnur Torfi Hjörleifsson héraðsdómari kveður upp þennan dóm.
D Ó M S O R Ð
Ákærðu, Bjarni Ingvar Halldórsson og Svanur Þór Brandsson, eiga að vera sýknir af ákæru um brot gegn 1. mgr. 10. gr. laga nr. 64/1994 um vernd, friðun og veiðar á á villtum fuglum og villtum spendýrum.
Ákærði Bjarni Ingvar Halldórsson greiði 25.000 króna sekt í ríkissjóð innan fjögurra vikna frá birtingu þessa dóms, en sæti ella 6 daga fangelsi.
Ákærði Svanur Þór Brandsson greiði 25.000 króna sekt í ríkissjóð innan fjögurra vikna frá birtingu þessa dóms, en sæti ella 6 daga fangelsi.
Gerðir eru upptækir í ríkissjóð 74 svartfuglar, veiðifang ákærðu, sem lögregla lagði hald á 8. maí 2002.
Ákærðu greiði in solidum allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Ólafs Sigurgeirssonar hrl., 100.000 krónur auk virðisaukaskatts.