Hæstiréttur íslands
Mál nr. 62/2010
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
|
Föstudaginn 5. febrúar 2010. |
|
Nr. 62/2010. |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Hulda Elsa Björgvinsdóttur settur saksóknari) gegn X (enginn) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95 gr. laga nr. 88/2008.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi, á grundvelli c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 3. febrúar 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 4. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. febrúar 2010, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 3. mars 2010 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. febrúar 2010.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði X, kt. [...], til að sæta áfram gæsluvarðhaldi uns dómur gengur í málum hans, þó eigi lengur en til miðvikudagsins 3. mars 2010 kl. 16.
Í greinargerð lögreglu kemur fram að með úrskurði héraðsdóms Reykjavíkur 30. desember 2009 hafi ákærða verið gert að sæta gæsluvarðhaldi til miðvikudagsins 6. janúar sl. til kl. 16 á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 6. janúar sl. hafi ákærða verið gert að sæta gæsluvarðhaldi til dagsins í dag kl. 16 á grundvelli c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 og hafi sá úrskurður verið staðfestur með dómi Hæstaréttar nr. 5/2010 frá 8. janúar sl.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafi unnið að rannsóknum mála þar sem ákærði sé grunaður um kynferðisbrot, auðgunarbrot, fíkniefnabrot og umferðarlagabrot.
Nú sé rannsókn hluta málanna lokið og í dag, 3. febrúar, hafi verið gefin út ákæra af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu á hendur ákærða vegna 5 auðgunarbrota, 2 fíkniefnabrota og aksturs undir áhrifum fíkniefna. Við yfirheyrslur hafi ákærði játað stærstan hluta sakarefnis.
Ákærði sé jafnframt grunaður þjófnað og eignarspjöll sem hafi átt sér stað á Akureyri á tímabilinu 7. til 9. nóvember 2009, en rannsókn þeirra mála sé á lokastigi. Ákærði hafi játað þau brot.
Ennfremur hafi Ríkissaksóknari nú til meðferðar þrjú mál þar sem ákærði sé grunaður um gróf kynferðisbrot, auk máls sem varði vörslu á barnaklámi, líkt og sjá megi í greinargerð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu frá 6. janúar sl. vegna gæsluvarðhalds ákærða. Hafi þau komið til kasta lögreglu í árslok 2009 með stuttu millibili og eigi það sammerkt að meintir brotaþolar séu ungar stúlkur undir lögaldri þar af tvær undir kynferðislegum lögaldri. Brot þau varði allt að 16 ára fangelsisrefsingu. Lögreglan líti mál þessi mjög alvarlegum augum enda hafi ákærði yfirburði í aldri og þroska fram yfir stúlkurnar. Þá endurspegli það aukinn ásetning ákærða að hann láti ekki segjast og hafi ekki liðið nema vika frá því að ákærði hafi verið yfirheyrður vegna meints kynferðisbrots gegn ungri stúlku og þar til hann hafi sett sig í samband við þá næstu. Þá hafi fundist við tölvurannsókn á tölvu ákærða efni sem þyki benda til afbrigðilegra kynhvata ákærða og augljóst þyki að hann hafi ekki taumhald á þeim. Kunni að vera að fíkniefnaneysla hans hafi þar einhver áhrif. Hafi verið tekin sú ákvörðun að ákærði gangist undir sálfræðimat af þessu tilefni.
Í dag hafi lögreglu borist ný kæra á hendur ákærða vegna kynferðisbrots sem á að hafa átt sér stað um mitt ár 2009 og sé svipaðs eðlis og þau mál sem nú séu til meðferðar hjá Ríkissaksóknara. Rannsókn þess máls sé á frumstigi og til frekari upplýsinga vísist til meðfylgjandi upplýsingaskýrslu.
Við yfirheyrslu yfir ákærða hafi hann skýrt frá því að hann hafi leigt herbergi í Reykjavík, sé án atvinnu en fái fjárhagsaðstoð frá félagsmálayfirvöldum. Af þeim auðgunarbrotum sem ákærði hafi verið ákærður fyrir og séu til rannsóknar virðist vera að ákærði framfleyti sér með afbrotum.
Með vísan til framangreinds og brotaferils ákærða á undanförnum vikum og mánuðum sé það mat lögreglustjóra að fram sé kominn rökstuddur grunur um að hann hafi gerst sekur um háttsemi sem fangelsisrefsing er lögð við og að yfirgnæfandi líkur séu á því að ákærði muni halda áfram brotastarfsemi fari hann frjáls ferða sinna, því sé talið nauðsynlegt að ákærði sæti áfram gæsluvarðhaldi á meðan málum hans sé ekki lokið.
Jafnframt liggi fyrir mat Hæstaréttar Íslands um að skilyrði c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 sé fullnægt, sbr. dóm Hæstaréttar nr. 5/2010, og hafi ekkert nýtt komið fram sem breytt geti því mati.
Ætluð brot sem lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hafi nú ákært ákærða fyrir varði við 244. gr. og 245. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 auk ákvæða 2. gr., sbr. 5. gr., laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni og 1. og 2. mgr. 45. gr. a. umferðarlaga nr. 50/1987. Þau mál sem Ríkissaksóknari hafi til meðferðar séu talin varða við 1. mgr. 194. gr., sbr. 20. gr., og 1. mgr. 202 gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála sé þess krafist að krafan nái fram að ganga
Eins og rakið hefur verið hefur ákærði viðurkennt hluta þeirra brota sem honum eru gefin að sök er varða brot á almennum hegningarlögum, umferðarlögum og lögum um ávana- og fíkniefni og er rannsókn á hluta þeirra lokið og ákæra á hendur ákærða var gefin út í dag samkvæmt yfirlýsingu fulltrúa lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. Meint kynferðisbrot kærða komu til kasta lögreglu í lok ársins 2009 með stuttu millibili. Þar er um að ræða meint kynferðisbrot gagnvart ungum stúlkum sem eiga að hafa átt sér stað 20. nóvember 2009, 8. desember 2009 og 22. desember 2009. Þá er upplýst að kæra hafi verið lögð fram á hendur ákærða í dag vegna kynferðisbrots. Í ljósi framanritaðs og þeirra gagna sem fyrir liggja þykir fram kominn rökstuddur grunur um að ákærði hafi gerst sekur um háttsemi sem fangelsisrefsing er lögð við. Er því fallist á það með lögreglu að hætta sé á að kærði haldi áfram brotum verði hann látinn laus. Þykja skilyrði c liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 vera uppfyllt. Með hliðsjón af því svo og dómi Hæstaréttar Íslands uppkveðnum 8. janúar 2010 í máli nr. 5/2010, verður krafan tekin til greina eins og hún er framsett og nánar greinir í úrskurðarorði, en ekki þykja efni til að marka gæsluvarðhaldinu skemmri tíma en krafist er.
Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
ÚRSKURÐARORÐ
Ákærði, X, kt[...], skal sæta áfram gæsluvarðhaldi uns dómur gengur í málum hans, þó eigi lengur en til miðvikudagsins 3. mars 2010 kl. 16.00.