Hæstiréttur íslands

Mál nr. 420/2003


Lykilorð

  • Kærumál
  • Vanreifun
  • Vitni
  • Frávísunarúrskurður felldur úr gildi


Þriðjudaginn 11

 

Þriðjudaginn 11. nóvember 2003.

Nr. 420/2003.

Alþjóðlegar bifreiðatryggingar á Íslandi sf.

(Halldór Jónsson hrl.)

gegn

Jóni Halldóri Péturssyni

(Jón Auðunn Jónsson hrl.)

 

Kærumál. Vanreifun. Vitni. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem máli A sf. á hendur J til greiðslu bóta vegna tjóns af völdum bifreiðar hans var vísað frá dómi sökum þess að J hefði látið undir höfuð leggjast að tryggja sér sönnun um raunverulegt fjárhagslegt tjón sitt. Í málinu var ekki deilt um bótaskyldu J heldur eingöngu um fjárhæð tjónsins. Í Hæstarétti var tekið fram að mótmæli J við gildi þeirra gagna, sem A sf. studdi útreikninga sína um tjónið við, og aðrar fullyrðingar hans um að félagið hefði ekki sýnt fram á tjón sitt með viðhlítandi gögnum, vörðuðu efnishlið málsins og gætu ekki leitt til frávísunar þess. Ekki var fallist á að krafa sóknaraðila væri óljós eða að reifun hennar í stefnu væri annmörkum háð. Var úrskurðurinn því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. október 2003, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. október 2003, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.

Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður.

Eins og greinir í hinum kærða úrskurði hefur áður verið rekið dómsmál milli aðila um sama sakarefni, en því lauk með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 17. júlí 2002, þar sem þeim hluta málsins, sem beint var að varnaraðila, var vísað frá dómi. Varnaraðili krefst að þessu nýja máli sóknaraðila verði einnig vísað frá héraðsdómi. Í meginatriðum reisir hann þá kröfu á því að sóknaraðili hafi ekki bætt úr þeim annmörkum, sem leiddu til frávísunar fyrra málsins.

Mál þetta á rætur að rekja til tjóns af völdum bifreiðar varnaraðila. Í málinu er ekki ágreiningur um bótaskyldu varnaraðila heldur um fjárhæð tjónsins. Fjárhæð kröfu sóknaraðila er eins og nánar greinir í hinum kærða úrskurði byggð á viðgerðar- og kostnaðaráætlunum en ekki á raunverulegum viðgerðarkostnaði á því tjóni, sem bifreið varnaraðila var völd að. Í hinum kærða úrskurði er, með vísan til niðurstöðu héraðsdóms í fyrra máli aðila og þess að sóknaraðili hafi látið undir höfuð leggjast að tryggja sér sönnun um raunverulegt fjárhagslegt tjón sitt, talið að málið sé ekki enn í þeim búningi að unnt sé að fella efnisdóm á kröfu hans.

Það er á forræði sóknaraðila hvaða gögn hann færir fram til þess að sanna tjón sitt. Mótmæli varnaraðila við gildi þeirra gagna, sem sóknaraðili styður útreikninga sína um tjónið við, og aðrar fullyrðingar hans um að sóknaraðili hafi ekki sýnt fram á tjón sitt með viðhlítandi gögnum, varða efnishlið málsins og geta ekki leitt til frávísunar þess. Verður ekki á það fallist að krafa sóknaraðila sé óljós eða að reifun hennar í stefnu sé annmörkum háð. Í stefnu tilgreinir sóknaðili ekki menn, sem hann hyggst leiða fyrir dóm til skýrslugjafar, sbr. h. lið 1. mgr 80. gr. laga nr. 91/1991, en áskilur sér rétt til að kalla til vitni eða leggja fram frekari gögn á síðari stigum málsins. Óski hann þess síðar að leiða vitni er það á forræði varnaraðila að andmæla því og úrskurðar þá héraðsdómari um hvort vitni verða leidd. Verður krafa varnaraðila um frávísun málsins samkvæmt þessu ekki tekin til greina. Með vísan til alls framangreinds verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.

Kærumálskostnaður fellur niður.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykja­víkur 10. október 2003.

Ár 2003, föstudaginn 10. október, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg, kveðinn upp úrskurður þessi.

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar um frávísunarkröfu stefnda 12. september s.l., er höfðað með stefnu birtri 25. mars s.l.

Stefnandi er Alþjóðlegar bifreiðatryggingar á Íslandi sf., kt. 681071-0249, Suðurlandsbraut 6, Reykjavík.

Stefndi er Jón Halldór Pétursson, [...] Brekkuhvammi 2, Hafnarfirði.

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að endurgreiða stefnanda 400.000 krónur ásamt dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 11. janúar 2001 til 1. júlí sama ár en samkvæmt 5. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.  Þá er krafist málskostnaðar að mati dómsins.

Dómkröfur stefnda eru þær aðallega að máli þessu verði vísað frá dómi en til vara að hann verði alfarið sýknaður af öllum kröfum stefnanda.  Til þrautavara er þess krafist að dómkröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar.  Þá er krafist málskostnaðar að mati dómsins.

 

Málavextir.

Málavextir eru þeir að 17. desember 2000 varð árekstur með bifreiðunum DK-507, sem var í eigu stefnda, og ZT-470 á gatnamótum Hlíðarbergs og Stekkjarbergs.  Mun áreksturinn hafa orðið með þeim hætti að faðir stefnda, Pétur Vatnar Hafsteinsson, ók bifreið stefnda austur Stekkjarberg og er hann hugðist stöðva bifreiðina við gatnamót Hlíðarbergs rann bifreið hans sökum hálku inn á Hlíðarbergið og í hlið bifreiðarinnar ZT-470 og ýtti henni á umferðarmerki við vegarbrún.  Munu báðir afturbrettakantar bifreiðarinnar ZT-470 hafa skemmst svo og felgur hennar.

Bifreiðin DK-507 mun hafa verið óvátryggð er tjónið varð og er óumdeilt að í slíkum tilvikum beri stefnanda að bæta tjón er af slíkum ökutækjum hlýst og á stefnandi endurkröfurétt á hendur þeim sem ábyrgð ber á tjóninu.  Samkvæmt niðurstöðu tjónaskoðunarstöðvar tjónþola, dagsettri 3. janúar 2001, nam tjónið kr. 497.460 en samkvæmt niðurstöðu tjónaskoðunarstöðvar fyrrum tryggingafélags stefnda nam tjónið kr. 510.152.  Með bréfi dagsettu 5. janúar sama ár var stefnda tilkynnt að stefnanda hefði borist krafa um greiðslu bóta vegna umrædds tjóns og honum jafnframt tilkynnt að tjónþola yrðu greiddar bætur vegna tjónsins. Á grundvelli 18. gr. reglugerðar nr. 556/1993 greiddi stefnandi eiganda bifreiðarinnar ZT-470 bætur að fjárhæð kr. 400.000 og kemur fram í skaðabótakvittun dagsettri 11. janúar 2001 að um sé að ræða samkomulagsbætur samkvæmt tjónsmati án virðisaukaskatts.

   Stefndi heldur því fram að faðir hans hafi boðið eigendum bifreiðarinnar ZT-470 að gera við bifreiðina þeim að kostnaðarlausu, en því hafi verið hafnað.  Segist stefndi næst hafa frétt af málinu er hann fékk bréf frá stefnanda sem dagsett hafi verið 5. janúar 2001.  Hafi þar verið tilkynnt að stefnanda hafi borist krafa um bætur vegna tjóns sem orðið hafi í fyrrgreindum árekstri.  Ekkert komi fram um það hver krafan sé eða á hverju hún byggðist og telur stefnda mega ráða af efni bréfsins að stefnanda hafi á þessum tíma verið ókunnugt um fjárhæð kröfunnar.  Hafi stefnda verið bent á að hafa samband við stefnanda teldi hann þörf á að koma að athugasemdum í málinu.  Stefnandi hafi hins vegar gert upp tjónið við tjónþola sex dögum eftir að hann ritaði umrætt bréf.

Stefndi höfðaði mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur á hendur stefnda og föður hans, Pétri Vatnari, með stefnu birtri 23. október 2001.  Var þess krafist að þeir yrðu in solidum dæmdir til greiðslu þeirrar skuldar er mál þetta snýst um auk dráttarvaxta og málskostnaðar.  Dómur í málinu var kveðinn upp 17. júlí 2002 og varð niðurstaðan sú að Pétur Vatnar var sýknaður af kröfum stefnanda í málinu og var stefnanda gert að greiða honum kr. 100.000 í málskostnað að meðtöldum virðisaukaskatti.  Kröfum stefnanda á hendur stefnda var hins vegar vísað frá dómi og var stefnanda gert að greiða stefnda kr. 100.000 í málskostnað að meðtöldum virðisaukaskatti.

Í héraðsdómi segir svo m.a.: „Stefndi, Jón Halldór Pétursson, var skráður eigandi bifreiðarinnar DK-507 og bar ábyrgð á bifreiðinni skv. 90. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 og er fébótaskyldur skv. 88. gr. sömu laga vegna þess tjóns sem varð við áreksturinn 17. des. 2000.

Stefnandi kveðst byggja kröfur sína á framlagðri skaðabótakvittun að fjárhæð 400.000 kr., dags. 11. janúar 2001, fyrir samkomulagsbótum skv. tjónsmati án vsk., eins og segir í kvittuninni. Til grundvallar stefnufjárhæð er því ekki raunverulegur viðgerðarkostnaður.

Samkvæmt skjölum málsins var stefndu fyrst tilkynnt um væntanlega kröfugerð með bréfi dags. 5. jan. 2001. Þannig liðu einungis 6 dagar frá því að stefndu var tilkynnt um væntanlega kröfugerð þar til stefnandi hafði samið við tjónþola um bætur að fjárhæð 400.000 kr. og greitt þá fjárhæð í bætur. Fjárhæð þessi var að sögn miðuð við viðgerðaráætlun Sjóvá Almennra trygginga hf., dags. 10. janúar 2001. Sú áætlun hljóðar upp á 497.460 kr.

Meðal skjala málsins eru leiðbeiningar stefnanda vegna tjóna af völdum óvátryggðra ökutækja. Þar segir að þá er bótakröfu er beint til stefnanda skuli m.a. leggja fram skoðunarskýrslu gerða af tryggingafélagi tjónþola þar sem metið er tjón á ökutæki tjónþola. Sjóvá Almennar tryggingar hf. var tryggingafélag stefnda, Jóns Halldórs Péturssonar, en Tryggingamiðstöðin hf. tryggingafélag tjónþola. Þannig virðist að þessu leyti ekki hafa verið farið eftir framangreindum leiðbeiningum stefnanda. Að vísu var því haldið fram við munnlegan málflutning, að kostnaðaráætlun, dags. 3. janúar 2001, undirrituð af Hirti Sævari Steinasyni, stafaði frá Tryggingamiðstöðinni hf. Plagg þetta ber þess engin merki.

Í lögregluskýrslu segir varðandi tjón á bifreiðinni ZT-470, Nissan Patrol, lítið tjón og varðandi bifreiðina  DK-507, Hyundai Elantra, segir einnig lítið tjón.

Vitnið Hafsteinn Pétursson, sem kom á vettvang eftir óhappið lýsti fyrir dómi því sem hann taldi hafa skemmst á bifreiðinni ZT-470 við áreksturinn. Vitni þetta sem er sonur stefnda, Péturs Vatnars, og bróðir stefnda, Jóns Halldórs, er fagmaður á þessu sviði, bifvélavirki og bifreiðasmiður. Vitnið tók fram að álit hans byggðist á því sem hann sá á vettvangi. Bifreiðinni hefði verið ekið af vettvangi eftir áreksturinn. Vitnið, sem hafði boðið stefndu að gera við bifreiðina ZT-470, kvaðst hafa reiknað með svona 150 þúsund króna tjóni.

Hvorki hlutaðist stefnandi til þess að leiða fyrir dóm til skýrslugjafar þann sem gerði kostnaðaráætlunina á dskj. 11 né þann sem gerði viðgerðaráætlunina á dskj. 12. Gaf þó greinargerð stefndu fullt tilefni til þess. Gegn andmælum stefndu er ósannað hvert var raunverulegt tjón á bifreiðinni ZT-470.

Stefnanda bar áður en hann greiddi tjónþola samkomulagsbætur annaðhvort að bera samninginn undir þá sem hann ætlaði að endurkrefja um bótafjárhæðina eða þá að tryggja sér sönnun um að fjárhæðin væri í samræmi við raunverulegt tjón. Þar sem ekki hefur verið sýnt fram á raunverulegt tjón við áreksturinn þá ber að vísa málinu frá dómi að því er stefnda, Jón Halldór, varðar...”

 

Málsástæður og lagarök stefnanda.

Stefnandi byggir á því að samkvæmt 1. mgr. 90. gr. umferðarlaga beri skráður eða skráningarskyldur eigandi ábyrgð á hinu skráningarskylda ökutæki og samkvæmt 1. mgr. 88. gr. sömu laga beri honum að bæta allt það tjón sem af notkun þess hlýst.  Bifreið stefnda hafi verið óvátryggð þegar hið bótaskylda atvik hafi átt sér stað og af þeim sökum hafi stefnanda borið að bæta tjónþola allt það tjón er hann hefði orðið fyrir vegna notkunar ökutækisins, sbr. reglugerð nr. 556/1993.  Skuldbindi ákvæði þessarar reglugerðar stefnanda til að bæta tjónþola allt það tjón er hann hefði orðið fyrir vegna notkunar óvátryggðs ökutækis, krefjist hann þess.  Samkvæmt 3. gr. leiðbeiningarreglna stefnanda vegna tjóna af völdum óvátryggðra ökutækja skuli tjón er verði á ökutæki tjónþola af völdum óvátryggðra ökutækja  metið af vátryggingafélagi tjónþola (tjónaskoðunarstöðvum) eða á annan hátt fyrir tilstuðlan vátryggingafélags tjónþola.  Hafi tjónið verið metið 3. janúar 2001 og stefnandi því krafinn um greiðslu bóta af þeim sökum.  Stefnandi eigi endurkröfurétt á hendur stefnda samkvæmt umræddri reglugerð, en tjónþoli hafi átt fullan rétt á bótum sem samsvari viðgerðarkostnaði hins skemmda hlutar, sbr. ákvæði 37. gr. laga nr. 20/1954.  Samkvæmt þeim ákvæðum skuli bótafjárhæðin nema þeirri upphæð er þurft hefði til kaupa á hlut þeim er skemmdist.  Hafi stefnda verið tilkynnt með bréfi að í ljósi þess að bifreið hans væri óvátryggð myndi stefnandi bæta tjónþola það tjón er notkun bifreiðar hans hefði valdið.  Hafi stefnda verið gefið færi á að andmæla en hann hafi ekki nýtt sér þann rétt.  Sé því ljóst að stefndi hafi sýnt af sér talsvert tómlæti og beri honum að endurgreiða stefnanda fjárhæð þá er hann hafi innt af höndum til tjónþola.

Málskostnaðarkrafa stefnanda er reist á 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991.

Í stefnu er vísað til framlagðra skjala og þá áskilur stefnandi sér rétt til að kalla til vitni án þess að tilgreina þau og leggja fram frekari gögn og hafa uppi málsástæður og lagarök á síðari stigum málsins.

 

Málsástæður og lagarök stefnda.

Stefndi rökstyður frávísunarkröfu sína með þeim hætti að þótt fyrir liggi að stefndi beri ábyrgð á því tjóni sem orðið hafi vegna notkunar bifreiðar hans, verði stefnandi engu að síður að sanna umfang tjónsins og fjárhæð þess svo ekki verði um villst.  Ekkert liggi fyrir um það hve mikið tjón hafi orðið á bifreiðinni ZT-470 í árekstrinum.  Ekki hafi verið lagðir fram neinir viðgerðar- eða varahlutareikningar. Bótafjárhæð sem greidd var til eiganda bifreiðarinnar hafi byggst á mati en ekki raunverulegum viðgerðarkostnaði.  Matið hafi skoðunarmenn hjá Sjóvá Almennum tryggingum hf. framkvæmt.  Stefndu hafi ekki gefist kostur á vera viðstaddir matið eða gera athugasemdir við framkvæmd þess og niðurstöðu.  Skoðunin hafi verið framkvæmd 10. janúar 2001 og bætur greiddar daginn eftir án þess að það væri á nokkurn hátt borið undir stefndu.  Þeim hafi ekki verið gefið ráðrúm til þess að mótmæla fyrirhuguðu uppgjöri við tjónþola þar sem því hafi verið að fullu lokið þegar stefndu fengu fyrrgreint bréf stefnanda, dags. 5. janúar 2001.

Þessi vinnubrögð við mat tjóns og ákvörðun bótafjárhæðar standist á engan hátt þær reglur sem réttarfarslög geri til matsgerða og sönnunargagna.  Þau standist ekki heldur þær reglur sem stefnandi hafi sjálfur sett um framkvæmd slíkra matsgerða. Í leiðbeiningum vegna tjóns af völdum óvátryggðra ökutækja, sem stefnandi hafi gefið út og fram komi á dskj. 13, segi skýrlega að tjón á bifreið skuli metið af tryggingafélagi tjónþola. Tryggingafélag tjónþola hafi verið Tryggingamiðstöðin hf. en ekki Sjóvá Almennar tryggingar hf.  Síðarnefnda félagið hafi hins vegar verið tryggingafélag tjónvalds.

Stefnandi hafi í máli þessu lagt fram dómskjal nr. 8 sem hann kalli kostnaðaráætlun Tryggingamiðstöðvarinnar dags. 03.01.2001.  Þetta skjal hafi verið lagt fram í hinu fyrrgreinda dómsmáli og borið þar framlagningarnúmerið 11.  Þetta skjal hafi ekkert með Tryggingamiðstöðina að gera og sú áætlun sem þar sé birt hafi hvorki verið unnin fyrir stefnanda né Tryggingamiðstöðina.  Hið rétta sé að áætlunin hafi verið unnin fyrir tjónþola og eins og skjalið beri með sér hafi það verið sent Tryggingamiðstöðinni á símbréfi frá Össuri-Iceland 3. janúar 2001 kl. 11:26, þá hafi það verið sent til tjónadeildar TM sama dag kl. 11:31.  Athygli veki að skjalinu hafi tvívegis verið breytt síðan það hafi síðast verið lagt fyrir dóm.  Fyrst hafi verið vélritað inn á það f.h. Nýju-Bílasmiðjunnar, en svo hafi verið strikað yfir það aftur.  Svo virðist sem stefnandi geti ekki alveg gert það upp við sig hvernig hann vilji að skjalið líti út.  Samkvæmt 18. gr. reglugerðar nr. 556/1993 eigi tjón að bætast í samræmi við skaðabótareglur umferðarlaga. Af því leiði að einungis eigi að bæta raunverulegt fjárhagslegt tjón. Endurkröfuréttur stefnanda sé sömu takmörkunum háður. Þar sem engin sönnun liggi fyrir um hvert tjón tjónþola var í raun og matsgerðin sem Sjóvá-Almennar tryggingar hf. framkvæmdi sé ótæk sem sönnunargagn, liggi heldur ekki fyrir sönnun um fjárhæð endurkröfu stefnanda.  Hafi dómarinn í hinu fyrra máli komist að þeirri niðurstöðu að stefnanda hafi borið annað hvort að bera samninginn við tjónþola undir stefnda áður en hann greiddi bætur og væntanlega leita samþykkis hans eða tryggja sér sönnun fyrir raunverulegu tjóni tjónþolans.  Hann hafi hvorugt gert og því hafi dómarinn ásamt öðru talið að það ætti að leiða til þess að vísa bæri málinu frá dómi.  Stefnandi hafi nú að nýju höfðað mál á hendur stefnda og byggi það upp með sömu kröfum, rökum, gögnum og málsástæðum og fyrir hafi legið í hinu fyrra máli.  Hafi engin ný gögn verið lögð fram og grundvöllur málsins því allur hinn sami.  Allar sömu málsástæður og leitt hafi til þess að hinu fyrra máli var vísað frá dómi hljóti því að leiða til sömu niðurstöðu nú þrátt fyrir að annar dómari fjalli nú um málið.

 

Niðurstaða.

Eins og rakið hefur verið hér að framan var máli stefnanda, sem hann höfðaði á hendur stefnda 23. október 2001 á grundvelli sömu kröfu og hér er til meðferðar, vísað frá dómi 17. júlí 2002.  Verður ekki annað séð en að mál þetta sé reist á sömu gögnum og hið fyrra mál að öðru leyti en því að dómskjal nr. 8 í máli þessu virðist hafa tekið breytingum frá því það var lagt fram í hið fyrra skipti.  Í dóminum var að því fundið að stefnandi hafi hvorki hlutast til um að leiða fyrir dóm til skýrslugjafar þann sem gerði kostnaðaráætlun á dskj. nr. 11 né þann er gerði viðgerðaráætlun á dskj. nr. 12 þrátt fyrir að greinargerð stefndu hafi gefið fullt tilefni til þess.  Í stefnu í máli þessu eru ekki tilgreindir þeir sem stefnandi hyggst leiða fyrir dóm til skýrslugjafar um atvik máls, sbr. h-lið 80. gr. laga nr. 91/21991, en telja verður að niðurstaðan í hinu fyrra máli hafi gefið fullt tilefni til slíkrar upptalningar.  Þá verður að telja að þær breytingar á dskj. nr. 8 í því máli sem hér er til meðferðar hafi einnig gefið stefnanda fullt tilefni til þess að tilgreina í stefnu þann eða þá sem skýrt gætu frá atvikum er leiddu til  breytinganna. 

Með vísan til þeirrar niðurstöðu í hinu fyrra máli að stefnandi hafi látið undir höfuð leggjast að tryggja sér sönnun um raunverulegt fjárhagslegt tjón sitt, verður með hliðsjón af öllu framansögðu að telja að mál þetta sé enn ekki í þeim búningi að unnt sé að fella efnisdóm á kröfu stefnanda.  Verður málinu því vísað frá dómi og stefnanda gert að greiða stefnda kr. 150.000 í málskostnað.

Hjörtur O. Aðalsteinsson, héraðsdómari, kveður upp úrskurð þennan.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Máli þessu er vísað frá dómi.

Stefnandi, Alþjóðlegar bifreiðatryggingar á Íslandi sf., greiði stefnda, Jóni Halldóri Péturssyni, kr. 150.000 í málskostnað.