Hæstiréttur íslands

Mál nr. 62/2017

Íslenska ríkið (Einar Karl Hallvarðsson hrl.)
gegn
Lífeyrissjóði bankamanna (Helgi Sigurðsson hrl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Dómkvaðning matsmanns

Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem fallist var á beiðni L um dómkvaðningu matsmanns til þess að meta nánar tiltekin atriði í tengslum við greiðslur ábyrgðaraðila Eftirlaunasjóðs starfsmanna Landsbankans og Seðlabankans.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma Helgi I. Jónsson hæstaréttardómari og Davíð Þór Björgvinsson og Ingveldur Einarsdóttir settir hæstaréttardómarar.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 25. janúar 2017, en kærumálsgögn bárust réttinum 8. febrúar sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. janúar 2017, þar sem tekin var til greina krafa varnaraðila um dómkvaðningu matsmanns. Kæruheimild er í c. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að beiðni varnaraðila um dómkvaðningu matsmanns verði hafnað. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærðar úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, íslenska ríkið, greiði varnaraðila, Lífeyrissjóði bankamanna, 350.000 krónur í kærumálskostnað.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. janúar 2017

I

Mál þetta var þingfest 30. september 2016 og tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 22. nóvember s.á.

          Sóknaraðili, Lífeyrissjóður bankamanna, Skipholti 50B, Reykjavík, krefst þess að dómkvaddur verði einn hæfur, sérfróður og óvilhallur matsmaður til að meta tiltekin atriði í tengslum við greiðslur ábyrgðaraðila Eftirlaunasjóðs starfsmanna Lands­bankans og Seðlabankans (nú Lífeyrissjóðs bankamanna) vegna samkomulags frá árinu 1997 um uppgjör ábyrgðar þeirra á skuldbindingum lífeyrissjóðsins miðað við þágildandi reglugerð lífeyrissjóðsins, ef uppgjörið hefði miðast við upplýsingar um raunþróun tiltekinna tryggingafræðilegra forsendna. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi varnaraðila.

          Af hálfu varnaraðilanna íslenska ríkisins, Arnarhvoli, Reykjavík og Landsvaka ehf., Hafnarstræti 5, Reykjavík, er þess krafist að matsbeiðni verði hafnað. Af hálfu Landsvaka ehf. er jafnframt krafist málskostnaðar eða ómaksþóknunar.

          Af hálfu varnaraðilanna Landsbankans hf., Austurstræti 11, Reykjavík, Valitors hf., Daltúni 3, Hafnarfirði og Reiknistofu bankanna, Katrínartúni 2, Reykjavík, er því ekki mótmælt að umbeðið mat fari fram, þ.e. þessir varnaraðilar taka ekki afstöðu til beiðninnar en lögðu þó fram bókun hvað hana varðar við meðferð málsins. Í öllum tilvikum er krafist ómaksþóknunar eða málskostnaðar. Varnaraðilinn, Seðlabanki, Íslands, Kalkofnsvegi 1, Reykjavík, fellst á að mat fari fram.

          Af hálfu varnaraðila, Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja, Nethyl 2, Reykjavik, var ekki sótt þing.     

II

Efni matsbeiðni

          Í matsbeiðni kemur fram að starfsemi sóknaraðila hafi verið komið á með reglu­gerð sem sett hafi verið af bankaráði Landsbanka Íslands í desember 1928. Síðar hafi nafni hans verið breytt í Lífeyrissjóð bankamanna. Hlutverk lífeyrissjóðsins sé að sjá starfs­mönnum aðildarfyrirtækja hans, eftirlifandi mökum þeirra og börnum fyrir lífeyri samkvæmt ákvæðum samþykkta hans. Frá upphafi og til 31. desember 1997 hafi samþykktir lífeyrisjóðsins mælt fyrir um ábyrgð aðildarfyrirtækja á skuld­bindingum sjóðsins.

          Vegna áforma stjórnvalda um að breyta rekstrarformi Landsbankans úr ríkis­við­skiptabanka í hlutafélagsbanka hafi bankaráð Landsbankans skipað nefnd um líf­eyris­mál í október 1995. Með samkomulagi um breytingar á samþykktunum, sem tekið hafi gildi með nýrri reglugerð 1. janúar 1998, hafi verið fellt niður ákvæði um ábyrgð aðildarfyrirtækja sjóðsins á skuldbindingum hans. Þessu til viðbótar hafi fram­lag aðildarfyrirtækja í heildariðgjaldi skv. II. kafla reglugerðarinnar hækkað til að standa undir réttindum þáverandi sjóðfélaga til framtíðar samkvæmt nýrri reglugerð. Mark­mið lífeyrissjóðsins og aðildarfyrirtækja með samkomulaginu og breytingum á reglu­gerð sjóðsins hafi verið að eftir uppgjörsgreiðslu vegna ábyrgðarskuldbindingar myndu eignir sjóðsins duga fyrir áföllnum skuldbindingum. Áttu þáverandi sjóð­félagar, sem heild, að vera jafnsettir og fyrir reglugerðarbreytinguna.

          Framangreint samkomulag um uppgjör á ábyrgð aðildarfyrirtækja á áföllnum skuld­bindingum lífeyrissjóðsins hafi byggst á tilteknum tryggingafræðilegum for­sendum, sem hafi verið tilgreindar í tillögu að nýjum samþykktum í viðauka undir heitinu „samkomulag um uppgjör á skuldbindingum aðildarfyrirtækja“. Þar segi að eftir gildistöku reglugerðarinnar skuli ábyrgðaraðilar gera upp skuld sína við sjóðinn samkvæmt tryggingafræðilegu mati miðað við 31. desember 1997. Þá hafi verið settar fram „þær tryggingafræðilegu forsendur sem miða skal við uppgjör á skuldbindingum ábyrgðaraðila (og kostnaði við lífeyriskerfið)“. Á árinu 1998, hafi verið framkvæmt trygg­ingafræðilegt mat samkvæmt framangreindum forsendum og hafi ábyrgðaraðilar greitt í samræmi við það.  

          Matsbeiðandi vísar til þess að með reglugerðinni sem tekið hafi gildi 1. janúar 1998 hafi lífeyrissjóðnum verið skipt í tvær aðskildar og sjálfstæðar deildir. Annars vegar svokallaða Hlutfallsdeild fyrir starfsmenn sem hafi hafið störf fyrir 1. janúar 1998 og sjóðfélaga sem við breytinguna hafi verið hættir störfum fyrir aðildar­fyrir­tækin, en þeirri deild hafi verið ætlað að veita svipuð réttindi og samkvæmt eldri reglu­gerð. Hins vegar svokallaða Stigadeild fyrir starfsmenn sem hafi hafið störf eftir gildis­töku breytingarinnar, en þar sé grundvöllur lífeyrisréttinda byggður á stiga­út­reikn­ingi á greiddum iðgjöldum. Nokkrum árum eftir ofangreinda reglu­gerð­ar­breyt­ingu hafi tryggingafræðileg staða Hlutfallsdeildar lífeyrissjóðsins verið orðin neikvæð og í lok árs 2004 hafi hún verið neikvæð um 11,8%. Þar sem ekki hafi náðst sam­komu­lag við aðildarfyrirtækin um viðbótargreiðslu, hafi lífeyrissjóðurinn höfðað, í júní 2005, mál á hendur Landsbanka Íslands hf. og íslenska ríkinu, til vara. Í lok árs 2006 hafi náðst samkomulag á milli lífeyrissjóðsins og aðildarfyrirtækjanna á grundvelli viljayfirlýsingar aðila frá júlí sama ár og samþykkis sjóðfélagafundar Hlut­falls­deildar. Hafi aðildarfyrirtækin samþykkt að greiða lífeyrissjóðnum tiltekna fjár­hæð vegna launaþróunar frá gerð samkomulagsins 1997, skuldbinda sig til að greiða í fram­tíðinni beint til Hlutfallsdeildar kostnað vegna launahækkana umfram kjara­samn­inga sem hafi leitt til aukningar skuldbindinga sjóðsins og taka þátt í rekstrarkostnaði sjóðs­ins með árlegum greiðslum. Í samkomulaginu frá 2006 hafi komið fram að aðild­ar­fyrirtækin viðurkenndu ekki greiðsluskyldu né að brostnar forsendur væru fyrir þeim út­reikningum sem hafi legið til grundvallar uppgjöri við sjóðinn við brottfall ábyrgðar fyrir­tækjanna á skuldbindingum sjóðsins í ársbyrjun 1998. Enn fremur að líf­eyris­sjóð­ur­inn félli frá málarekstri fyrir dómstólum, allri aðild að málarekstri og frekari kröfum á hendur aðildarfyrirtækjum tengdum forsendum og skuldbindingum aðildar­fyrir­tækjanna. Sóknaraðili telur hins vegar að það ákvæði hafi ekki verið í samræmi við sam­þykkt sjóðfélagafundar Hlutfallsdeildar sem bundið var við þær forsendur sem sam­komulagið frá 2006 hafi tekið til, þ.e. vegna launahækkana og rekstrarkostnaðar. Á síðustu árum hafi tryggingafræðileg staða deildarinnar farið versnandi. Í úttekt m.v. lok árs 2013 hafi tryggingafræðileg staða deildarinnar verið orðin neikvæð um 9,7%. Þar sem hún sé lokuð nýjum sjóðfélögum megi búast við auknum halla að öðru óbreyttu.

          Sóknaraðili telur einsýnt að forsendur samkomulagsins frá 1997 og reglu­gerðar­breytingarinnar, um uppgjör ábyrgðar aðildarfyrirtækjanna, hafi brostið og sam­komu­lagið verið ósanngjarnt. Það sama eigi við um forsendur nauðsynlegs framlags aðild­arfyrirtækja af heildariðgjaldi til að tryggja framtíðarréttindi þáverandi sjóðfélaga í lífeyrissjóðnum. Á sjóðfélagafundi í október 2015 hafi verið samþykkt að leita eftir við­ræðum við aðildarfyrirtækin um leiðréttingu á þeim forsendubresti sem sjóðfélagar hefðu orðið fyrir. Í kjölfar fundarins hafi matsbeiðandi kannað, meðal stærstu aðildar­fyrir­tækjanna, hvort grundvöllur væri til samkomulags vegna málsins. Sú málaleitan hafi ekki leitt til árangurs. Þessu til viðbótar hafi verið óskað eftir afstöðu fjár­mála­ráð­herra til þess hvort vilji væri til viðræðna í ljósi ákvæða laga nr. 50/1997, en ekkert svar hafi borist.

          Sóknaraðili kveðst með matsbeiðni þessari leita sönnunar á fjárhagslegu um­fangi framangreindrar röskunar til þess að staðreyna og sanna atvik að baki kröfu á hendur matsþolum.

          Í matbeiðni er nánar gerð grein fyrir hverja málið varði að lögum.

          Sóknaraðili óskar að dómkvaddur matsmaður láti í té rökstudda og skriflega matsgerð um neðangreindar matsspurningar sem verði sundurliðuð eftir því sem kostur er.

  1. Hver hefði orðið heildargreiðsla ábyrgðaraðila Eftirlaunasjóðs Starfsmanna Lands­bankans og Seðlabankans (nú Lífeyrissjóðs bankamanna) vegna sam­komu­lags frá árinu 1997 um uppgjör ábyrgðar þeirra á skuldbindingum lífeyris­sjóðsins miðað við þágildandi reglugerð lífeyrissjóðsins, ef uppgjörið hefði miðast við upplýsingar um raunþróun neðangreindra trygg­inga­fræðilegra forsenda til 31. desember 2015 á verðlagi þann 31. desember 1997?

    1. Ávöxtun. 

    2. Almennar launahækkanir.

    3. Aldursbundnar launahækkanir á starfstíma.

    4. Aldur við töku eftirlauna.

    5. Notkun svokallaðrar 95 ára reglu.

    6. Dánarlíkur.

    7. Örorkulíkur.

    8. Giftingarlíkur.

  2. Hver væri fjárhæð niðurstöðu spurningar 1 á verðlagi miðað við 31. desember 2015 bæði miðað við breytingu verðlags og breytingu kaupgjalds?

  3. Hver væri fjárhæð heildargreiðslu, sem innt var af hendi við uppgjör ábyrgðaraðila á skuldbindingum Eftirlaunasjóðs Starfsmanna Landsbankans og Seðlabankans (nú Lífeyrissjóðs bankamanna) vegna áðurnefnds samkomulags frá árinu 1997 reiknuð til verðlags þann 31. desember 2015, bæði miðað við breytingu verðlags og kaupgjalds?

  4. Hver er fjárhæð þeirra greiðslna sem greiddar hafa verið til Lífeyrissjóðs bankamanna vegna launabreytinga á grundvelli samkomulags lífeyrissjóðsins við aðildarfyrirtæki frá 2006 reiknuð til verðlags þann 31. desember 2015, bæði miðað við breytingu verðlags og kaupgjalds?

  5. Hvert hefði reiknast nauðsynlegt heildariðgjald til að mæta framtíðarskuldbindingum Lífeyrissjóðs bankamanna miðað við réttindaákvæði II. kafla reglugerðar þeirrar sem tók gildi 1. janúar 1998 miðað við niðurstöðu um raunþróun tryggingafræðilegra forsendna samkvæmt spurningu 1?

  6. Hver er mismunur á verðmæti heildariðgjalds reiknað samkvæmt niðurstöðu við spurningu 5 og verðmætis 18,4% heildariðgjalds, sem var ákveðið í II. kafla reglugerðar sem tók gildi 1. janúar 1998, reiknuð á verðlagi 31. desember 2015 miðað við breytingu bæði verðlags og kaupgjalds?

              Um lagarök, fyrir beiðni sinni, vísar sóknaraðili til XII. kafla, sbr. IX. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

    Málsástæður varnaraðila

              Af hálfu íslenska ríkisins, er þess krafist að matsbeiðni verði hafnað með vísan til 3. mgr. 46. gr., 2. mgr. 60. gr. og 1. mgr. 77. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991. Vísar hann til þess að með samþykkt laga nr. 50/1997 hafi verið ákveðið að hlutafélag tæki yfir rekstur ríkisbankans Landsbanka Íslands og hafi yfirtakan skv. 1. mgr. 3. gr. laganna verið miðuð við 1. janúar 1998. Í athugasemdum þess frumvarps sem varð að lögunum hafi verið gert ráð fyrir að ábyrgð bankans á skuldbindingum Eftirlaunasjóðs starfsmanna Landsbankans og Seðlabankans (forvera matsbeiðanda) yrði felld niður en þess í stað myndi bankinn gefa út eða afhenda skuldabréf til eftirlaunasjóðsins. Hafi uppgjörið náð að ganga fyrir yfirtökuna og ríkisábyrgð á skuldbindingum bankans gagnvart sjóðnum fallið niður því samhliða. Aftur á móti hafi íslenska ríkið gengist í ábyrgð á þeim skuldbindingum sem bankinn hafi tekið á sig með útgáfu skuldabréfsins. Þótt löggjafinn hafi gert ráð fyrir því að ábyrgð ríkisbankans á skuldbindingum sjóðsins yrði felld niður í kjölfar uppgjörsins hafi sú tilhögun ekki verið ákveðin einhliða af hálfu ríkisvaldsins heldur hafi hún verið samþykkt af aðildarfyrirtækjum eftirlaunasjóðsins, þ. á m. Seðlabanka Íslands og Landsbanka Íslands, og afgreidd á fundi sjóðfélaga 19. júní 1997, sbr. reglugerð nr. 669/1997.

              Varnaraðili bendir á að fyrirliggjandi matsbeiðni sé lögð fram í nafni sjóðsins en ekki í þágu tiltekinna sjóðfélaga sem telja að ekki hafi verið gætt settra reglna á fund­inum 19. júní 1997. Fyrir liggi að ákveðnir hópar sjóðfélaga hafi frá öndverðu ekki verið hlynntir breytingunum með vísan til þess að með ábyrgð aðildarfyrirtækjanna á líf­eyrisskuldbindingum væru sjóðfélagar öryggir um að aldrei kæmi til skerðingar lífeyris. Sé því vandséð að sjóðfélagar eigi sömu hagsmuna að gæta af þeim málatilbúnaði sem lýst er í matsbeiðni. Þar af leiðandi verði ekki ráðið að matsbeiðandi uppfylli skilyrði 1. mgr. 77. gr. laga um meðferð einkamála um lögvarða hagsmuni. 

              Varnaraðili bendir á að það hvort ábyrgðin sé enn í gildi eða hvort forsendur fyrir afnámi hennar hafi brostið varði sitt hvora hliðina á sama peningnum. Hvergi í matsbeiðninni sé gerð tilraun til að útskýra hver tilgangurinn með því að afnema ábyrgðina hafi verið ef aðildarfyrirtækin hafa eftir sem áður borið hallann af neikvæðri þróun umræddra forsendna. Sá hópur sjóðfélaga sem hafi verið mótfallinn breytingunum hafi gert ráð fyrir að komið gæti til skerðingar á lífeyri ef ábyrgðin yrði afnumin. Dómari leggi á grundvelli lagaþekkingar sinnar mat á hvort ábyrgð aðildarfyrirtækjanna sé enn í gildi og sé ekki á færi matsmanns að fjalla um það, sbr. 2. mgr. 60. gr. laga um meðferð einkamála.

              Þá vísar varnaraðili til þess að í lagasetningu hafi verið gengið út frá því að sóknaraðili njóti ekki bankaábyrgðar á skuldbindingum sínum og vísar í því sambandi sérstaklega til lagabreytinga sem gerðar voru með lögum nr. 167/2006, um breytingar á lagaákvæðum um lífeyrissjóði. Tilgangur þeirra breytinga hafi öðrum þræði verið að gera sóknaraðila mögulegt og í raun skylt að breyta samþykktum sínum í samræmi við 2. mgr. 39. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997.

              Að lokum vísar varnaraðili til þess að ekki sé með fullnægjandi hætti gerð grein fyrir hvernig matsbeiðnin varðar ríkissjóð að lögum. Þannig verði ekki séð að fulltrúi ríkissjóðs hafi átt aðkomu að samkomulaginu frá 18. desember 2006 sem vísað er til í matsbeiðninni. Einnig sé vandséð hvernig sóknaraðili telur að ábyrgð ríkissjóðs á grundvelli 11. gr. laga nr. 50/1997 eigi að rakna við enda þótt hann telji nú að forsendur þeirrar tilhögunar sem sjóðfélagar samþykktu á fundinum 19. júní 1997 séu brostnar. Þá sé óljóst hvernig lífeyrisskuldbindingar fyrrverandi bankastjóra Landsbanka Íslands og ábyrgð íslenska ríkisins vegna þeirra tengist málefnum sjóðsins.

              Af hálfu Landsvaka ehf. er á því byggt að sóknaraðili hafi ekki sýnt fram á að hann hafi lögvarða hagsmuni af dómkvaðningunni að því er varnaraðilann snerti, sbr. 77. gr. laga um meðferð einkamála. Varnaraðili mótmælir málatilbúnaði sóknaraðila, málsatvikalýsingu, öllum málsástæðum og lagarökum. Telur varnaraðili að sóknaraðili hafi með háttsemi sinni viðurkennt að hann geti enga kröfu átt á hendur honum. Á árinu 2005 hafi sóknaraðili gert kröfur á hendur nokkrum af varnaraðilum og höfðað síðan dómsmál á hendur þeim, vegna samkomulagsins frá árinu 1998 um breytingar á samþykktum matsbeiðanda sem tekið hafi gildi með nýrri reglugerð 1. janúar 1998, en þá hafi verið fellt niður ákvæði um ábyrgð aðildarfyrirtækja lífeyrissjóðsins á skuldbindingum hans. Þau aðildarfyrirtæki (sem séu jafnframt varnaraðilar í þessu matsmáli), sem kröfum hafi þá verið beint gegn í dómsmálinu, hafi fallist á að greiða, án viðurkenningar, ákveðna fjárhæð til sjóðsins til þess að ljúka málinu. Engum kröfum hafi að þessu leyti verið beint að varnaraðila. Í því hafi falist ótvíræð viðurkenning sóknaraðila í reynd á að hann hafi talið sig á þessum tíma, þ.e. þegar árið 2005, enga kröfu geta átt á hendur varnaraðila vegna forsendna sem tengdust skuldbindingum aðildarfyrirtækja. Í samkomulagi sem gert hafi verið árið 2006 vegna dómsmálsins hafi sóknaraðili fallið frá allri aðild að málarekstri og öllum frekari kröfum á hendur aðildarfyrirtækjum tengdum forsendum og skuldbindingum aðildarfyrirtækja. Hvað sem framangreindu líði telur varnaraðili að meint krafa matsbeiðanda á hendur varnaraðila sé fyrir löngu fyrnd eða a.m.k. fallin niður fyrir tómlæti.

              Að lokum vísar varnaraðili til þess að dómkvaðningin fari gegn skýru banni 1. mgr. 116. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., við því að höfða mál á hendur þrotabúi. Varnaraðili sé í slitum eftir þeim reglum sem gilda um slit á fjármála­fyrirtækjum. Samkvæmt 2. mgr. 10. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, fari um slitin eftir XII. kafla laganna, ásamt síðari breytingum, sbr. og þar tilvísuð ákvæði laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl. Héraðsdómur Reykjavíkur hafi mælti fyrir um slitin með úrskurði upp kveðnum 28. nóvember 2013. Innköllun til skuld­heimtumanna hafi verið birt 19. desember 2013 og 2. janúar 2014 í Lög­birtingablaðinu og kröfulýsingarfrestur hafi runnið út 19. mars 2014. Sóknaraðili hafi engum kröfum lýst á hendur varnaraðila. Ákvæði um bann við því að höfða mál á hendur þrotamanni gilda við slitameðferð fjármálafyrirtækja. Heimild laga nr. 91/1991 til þess að dómkveðja matsmenn án tengsla við dómsmál sé sérstök undantekningarheimild til þess að afla sönnunargagna án þess að dómsmál hafi verið höfðað. Sóknaraðili geti hvorki komist fram hjá reglum um bann við því að höfða dómsmál á hendur varnaraðila, sem sé í slitameðferð, né reglum um kröfulýsingar á hendur þrotabúi með því að beiðast dómkvaðningar matsmanna eftir þessum undantekningarreglum laga um meðferð einkamála.

    Niðurstaða

              Því hefur margsinnis verið slegið föstu í dómaframkvæmd að aðilar eigi, samkvæmt 1. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, rétt á því að afla þeirra sönnunargagna sem þeir telja málstað sínum til framdráttar. Almennt sé það hvorki á valdi gagnaðila né dómstóla að takmarka þann rétt. Af þeim sökum ber dómara jafnan að verða við beiðni málsaðila um að dómkveðja matsmann eða mats­menn nema skilyrði 2. málsliðar 1. mgr. 61. gr. laganna séu ekki fyrir hendi, leitað sé mats um atriði sem dómari telur bersýnilegt að ekki skipti máli, sbr. 3. mgr. 46. gr. laganna, matsbeiðnin lúti að atriðum sem dómara beri sjálfum að leggja mat á en ekki sérfróðum matsmönnum, sbr. 2. mgr. 60. gr. og 1. málslið 1. mgr. 61. gr. laganna.

             Eins og rakið hefur verið hefur sóknaraðili krafist dómkvaðningar matsmanns til að meta tiltekin atriði í tengslum við greiðslur ábyrgðaraðila Eftirlaunasjóðs starfs­manna Landsbankans og Seðlabankans (nú Lífeyrissjóðs bankamanna) vegna sam­komulags frá árinu 1997 um uppgjör ábyrgðar þeirra á skuldbindingum líf­eyris­sjóðsins miðað við þágildandi reglugerð lífeyrissjóðsins, ef uppgjörið hefði miðast við upplýsingar um raunþróun tiltekinna tryggingafræðilegra forsendna. Sóknaraðili telur að forsendur um uppgjör ábyrgðar hafi brostið og samkomulagið verið ósanngjarnt. Kveðst hann með matsbeiðninni ætla að leita sönnunar á  fjárhagslegu umfangi framangreindrar röskunar til þess að staðreyna og sanna atvik að baki kröfu á hendur varnaraðilum í þeim tilgangi að undirbyggja dómsmál. Fyrir liggur að sóknaraðili var aðili að samkomulaginu og á því lögvarðra hagsmuna að gæta hvað það varðar.

             Tveir af sjö varnaraðilum mótmæla kröfunni, þ.e. íslenska ríkið og Landsvaki ehf., en umrætt félag var tekið til slitameðferðar, með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum 28. nóvember 2013, á grundvelli XII. kafla laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 2. mgr. 10. gr. sömu laga. Fer um skiptin eftir XII. kafla laganna, sbr. og þar tilvísuð ákvæði laga nr. 21/1991, skv. lögum nr. 21/1991 um gjald­þrotaskipti o.fl. Slitastjórn félagsins gaf út innköllun til skuldheimtumanna og rann kröfu­lýsingarfrestur út 19. mars 2014. Óumdeilt er að sóknaraðili lýsti ekki kröfu á hendur þessum varnaraðila. Varnaraðilinn telur að af þessu leiði að ekki sé unnt að höfða mál á hendur félagi í slitameðferð. Við skýringu á því hvað átt er við með höfðun dómsmáls samkvæmt 116. gr. verður að mati dómsins að líta til 93. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Þar  segir að mál teljist höfðað þegar stefna er birt eða árituð um viðtöku samrits hennar eða stefndi mætir að öðrum kosti fyrir dómi þar sem stefnandi afhendir honum samrit stefnu og þingfestir mál. Með hliðsjón af þessu er ekki unnt að fallast á að dómsmál sé höfðað í skilningi 116. gr. laga nr. 21/1991 þegar beiðst er dómkvaðningar matsmanna á grundvelli heimildar í XII. kafla sömu laga. 

              Varnaraðilinn, íslenska ríkið, vísar til þess að sóknaraðili eigi ekki aðild að mats­málinu heldur einstaka sjóðfélagar. Að mati dómsins er til þess að líta að sóknaraðili, en ekki einstaka sjóðfélagar, áttu aðild að samkomulagi um uppgjör 1997 og fer sókn­araðili með hagsmuni þeirra. Verður því ekki fallist á að sóknaraðili sé ekki réttur aðili til að setja fram beiðnina.

    Dómurinn getur ekki fallist á þá málsástæðu varnaraðilans íslenska ríkisins að spurningar til matsmanns feli í sér mat á atriðum sem einungis heyri undir dómstóla, sbr. 2. mgr. 60. gr. laga nr. 91/1991. Þvert á móti verður ekki annað ráðið en spurn­ingarnar feli flestar í sér mat á atriðum sem krefjast annarrar sérfræðilegrar þekkingar en almennrar þekkingar og lagaþekkingar. Þá er til þess að líta að matsgerð bindur ekki hendur dómara við úrlausn máls, sbr. 1. mgr. 44. gr. laganna, heldur ber dómara að leggja mat á gildi hennar. Þannig væri ekki með sérfræðilegu áliti lagt í hendur dómkvadds manns það sönnunarmat sem dómari fer með að lögum.

              Aðrar málsástæður varnaraðila varða efnisatriði málsins sem munu koma til skoðunar við hugsanlega efnisúrlausn þess. Er það ekki hlutverk dómara matsmáls þessa að taka afstöðu til þessara efnisvarna varnaraðila sem lúta beint að sakarefni málsins. 

              Í ljósi alls framangreinds verður ekki séð að skilyrði séu fyrir því að meina sóknaraðila að fá dómkvaddan matsmann til þess að meta þau atriði sem hann óskar eftir, enda ber hann sjálfur kostnað af matsgerðinni og áhættu af því hvort hún komi honum að notum. Ber því að fallast á dómkvaðningu matsmanns til að svara þeim spurningum sem greinir í matsbeiðni.

              Með hliðsjón af niðurstöðu málsins verður varnaraðilunum, íslenska ríkinu og Landsvaka ehf., með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, gert að greiða sóknaraðila málskostnað eins og nánar greinir í úrskurðarorði. Þá verður sóknaraðila, með vísan til 4. mgr. 79. gr. sömu laga, gert að greiða varnaraðilunum, Lands­bankanum hf., Valitor hf. og Reiknistofu bankanna, ómaksþóknun, eins og nánar greinir í úrskurðarorði. Með hliðsjón af málatilbúnaði þeirra og niðurstöðu málsins, eru ekki efni til að úrskurða þeim málskostnað.

             Við uppkvaðningu úrskurðar þessa var gætt ákvæða 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, sbr. 1. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989.

              Kolbrún Sævarsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.

    Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

    Fallist er á beiðni sóknaraðila, Lífeyrissjóðs bankamanna, 9. ágúst 2016, um dóm­kvaðn­ingu matsmanns til þess að meta tiltekin atriði í tengslum við greiðslur ábyrgð­ar­aðila Eftirlaunasjóðs starfsmanna Landsbankans og Seðlabankans eins og nánar greinir í matsbeiðni.

    Varnaraðilarnir, íslenska ríkið og Landsvaki ehf., greiði sóknaraðila hvor um sig 250.000 kr. í málskostnað.

Sóknaraðili greiði varnaraðilunum, Landsbankanum hf., Valitor hf. og Reikni­stofu bankanna, hverjum fyrir sig 124.000 kr. í ómaksþóknun.